Dagbók: 2009
Fimmtudagur, 31. 12. 09.
Rétt fyrir miðnætti í gær samþykkti alþingi Icesave-afarkostina með 33 atkv. gegn 30, tveir stjórnarþingmenn, Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson, greiddu atkvæði gegn frumvarpi Steingríms J. um ríkisábyrgð.
Á ríkisráðsfundi í morgun tók Ólafur Ragnar sér umhugsunarfrest, áður en hann ákvæði, hvort hann ritaði undir lögin. Tæplega 50 þúsund manns hafa skorað á hann með undirskrift sinni að synja því að staðfesta lögin. Hróp voru gerð að ráðherrum, þegar þeir komu út af ríkisráðsfundinum á Bessastöðum. Minnist ég þess ekki, að það hafi áður gerst.
2. júní 2004 synjaði Ólafur Ragnar fjölmiðlalögunum. Þau voru síðan felld úr gildi. Synji hann þessum lögum getur ríkisstjórnin fellt þau úr gildi og gilda þá lög um ríkisábyrgðina á Icesave, sem samþykkt voru á alþingi 28. ágúst. Kannanir sýna, að 70% kjósenda eru á móti nýju lögunum.
Á 10 ára afmæli kvennafrídagsins í október 1985 dró Vigdís Finnbogadóttir í nokkrar klukkustundir að staðfesta lög um bann við verkfalli flugfreyja. Þá lék allt á reiðiskjálfi innan ríkisstjórnarinnar. Nú láta þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon eins og ekkert sé eðlilegra en forseti Íslands dragi lappirnar, þegar lög eru lögð fyrir hann til staðfestingar. Steingrímur J. heldur uppteknum hætti í virðingarleys sínu fyrir því, sem er satt og rétt, þegar hann segir í síðdegisfréttum RÚV, að það hafi „oft gerst áður“, að forseti taki sér frest við að rita undir lög.
Ætli Ólafur Ragnar að rita undir lögin, átti hann að gera það á ríkisráðsfundinum. Dragi hann undirritunina til að setja eitthvað á svið, spillir hann enn áliti manna á forsetaembættinu með leikaraskap. Synji hann undirritun stofnar hann þjóðarhag í hættu að mati ríkisstjórnarinnar. Ólafur Ragnar leiddi ábyrgðarlaust forsetaembættið inn á hættulega refilstigu, til að þóknast Baugsliðinu með ákvörðun sinni 2. júní 2004. Hann bætti síðan um betur með pólitískri yfirlýsingu, þegar hann ritaði undir Icesave-lögin, sem samþykkt voru 28. ágúst sl.
MIðvikudagur, 30. 12. 09.
Í dag ræddi ég við Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, í þætti mínum á ÍNN, Verður hann sýndur klukkan 21.30 í kvöld og síðan endursýndur á tveggja tíma fresti næsta sólarhring. Í þættinum kemur meðal annars fram, að fyrir jólin 2008 óttuðust menn, að peningaseðlaþurrð yrði í landinu og voru vangaveltur um, að lögregla tæki til við að hvetja fólk til að setja peninga aftur í banka.
Ótrúlegt hefur verið að fylgjast með Icesave-vandræðaganginum á alþingi í dag. Yfirbragðið á framgöngu stjórnarliða ber allt með sér, að þeir séu að leyna þjóðina einhverju í þessu stórmáli. Hitt blasir síðan við betur en áður, að Icesave-nefndin undir formennsku Svavars Gestssonar hefur alls ekki verið starfi sínu vaxin.
Fréttir eru óljósar um, hvort Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, bað Svavar Gestsson, sendiherra, að skýra mál sitt á fundi fjárlaganefndar. Hitt er víst, að stjórnarandstaðan vildi fá sendiherrann á fundi, en hann skaut sér undan því með loðnu bréfi. Össur Skarphéðinsson segist hafa fyrirgefið Svavari, að hann bað breska lögmannsstofu að segja Össuri ekki alla söguna, þegar hún kynnti honum Icesave-málið í lok mars 2009.
Ég velti fyrir mér heljarstökkum Svavars á þingi í deilunum um aðildina að EES á sínum tíma, ef einhver sendiherra hefði hagað sér á sama veg og framgöngu Svavars hefur verið lýst síðasta sólarhring.
Þriðjudagur, 29. 12. 09.
Nú dregur að lokum umræðna á alþingi um Icesave-málið. Þegar þetta er skrifað rúmlega 22.00 er hlé á þingfundi. Sjálfstæðismenn óskuðu eftir því til að ræða ný gögn í fjárlaganefnd. Nefndinni höfðu í kvöld borist mikið af gögnum frá ensku lögmannsstofunni Mishcon de Reya.
Rökin gegn þeirri leið, sem ríkisstjórnin hefur valið eru alltaf að skýrast. Í dag ritar Magnús Ingi Erlingsson, lögfræðingur hjá seðlabankanum, grein í eigin nafni í Morgunblaðið þar sem hann áréttar enn með vísun til Evrópuréttar, að engin lögfræðileg rök séu fyrir ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingunum. Þegar greinin er lesin, vaknar enn hin einfalda spurning: Hvar í ósköpunum leituðu samningamenn Íslands ráða?
Því miður stóð samninganefndin ákaflega illa að sinni vinnu og Steingrímur J. hefur aldrei viljað taka á málum á annan veg en þann, að allt hafi verið til fyrirmyndar í störfum hennar. Æ betur kemur í ljós, að í þessu felst hættuleg meinsemd.
Hér skal ítrekuð tillaga um, að alþingi feli sérnefnd að fara yfir málið í heild nú á lokastigi þess. Fjárlaganefndarmenn komast ekki lengra með málið og formaður nefndarinnar festi sig í niðurstöðu, áður en öll kurl voru komin til grafar.
Engin sérstök tímapressa er í málinu af hálfu samningsaðila eins og sást best við gerð samninganna, þegar Bretar drógu von úr viti að ganga til formlegra viðræðna. Þeir urðu undrandi, þegar Svavar Gestsson og félagar töldu viðræðum lokið og settu stafi sína á blað því til staðfestingar.
Mánudagur, 28. 12. 09.
Hvorki Jóhanna Sigurðardóttir né Steingrímur J. Sigfússon gátu í sjónvarpsfréttum kvöldsins fullyrt, að Icesave-frumvarp ríkisstjórnarinnar yrði samþykkt. Þau vildu ekki heldur slá því föstu, að félli frumvarpið drægi það ríkisstjórnina með sér í fallinu. Þetta er annar tónn en áður. Sagt hefur verið, að ríkisstjórnin stæði og félli með Icesave-samningunum. Ekki er annað að heyra en svo sé ekki lengur.
Jóhanna Sigurðardóttir sló á sögusagnir um, að hún léti af ráðherraembætti um áramótin. Þessi orðrómur á rætur innan Samfylkingarinnar og endurspeglar vaxandi spennu innan flokksins. Hún brýst nú fram í reiði yfir því, að samfylkingarmaðurinn Jón Sigurðsson, fyrrv. stjórnarformaður fjármálaeftirlitsins, verði bankaráðsformaður Íslandsbanka. Samheldni þingflokks Samfylkingarinnar í Icesave-málinu heldur enn, þótt Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi upplýst, að helstu rök Össurar Skarphéðinssonar um nauðsyn Icesave-samninganna séu ekki á rökum reist, eins og ég rakti í pistli mínum í gær.
Hvað sem gerist í Icesave-atkvæðagreiðslunni á alþingi, er eitt víst, að allir þingmenn Samfylkingarinnar munu leggja afarkostunum lið sitt. Samfylkingin fór með stjórn utanríkismála haustið 2008 og gerir enn. Utanríkisráðherra ber stjórnskipulega ábyrgð á samningum við önnur ríki, þótt Össur fari með veggjum í Icesave-málinu og skirrist við að fylgja málstað Íslands eftir af þeim þunga, sem nauðsyn er með vísan til hinna miklu hagsmuna, sem eru í húfi.
Sunnudagur, 27. 12. 09.
Miðjan, midjan.is birti í dag umsögn mína um nýju bókina eftir Böðvar Guðmundsson, Enn er morgunn, og má lesa hana hér.
Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna um Icesave-málið, en ríkisstjórnin virðist ætla að knýja það til afgreiðslu milli jóla og nýárs.
Laugardagur, 26. 12. 09.
Í jólahefti enska vikublaðsins The Spectator er farið til fimm borga, Reykjavíkur, Shanghai, Dar es Salam í Tanzaníu og Dili á Austur-Tímor til að skoða efnahagsástandið og viðhorf fólks.
Elliot Wilson, dálkahöfundur blaðsins, segir stuttlega frá kynnum sínum af Reykjavík, eftir að Íslendingar hafi „struggled through their worst annus horribilis since Ingólfur Arnarson built his homestead in Reykjavík in AD 874.“
Wilson hefur ekki verið fræddur mikið um sögu Íslands, á meðan hann dvaldist hér, ef hann heldur að Íslendingar hafi aldrei lifað erfiðara ár en 2009, frá því að land byggðist. Hann lætur þess að vísu ógetið, að ríkisstjórn Íslands og þó sérstaklega fjármálaráðherrann vill mála stöðuna í sem dekkstum litum og gera hana enn verri með skattahækkunum og Icesave-byrðunum.
Wilson segir, að Hildur, blaðakona, hafi tekið 4 milljón króna lán í Landsbankanum 2007 til að kosta ferð sonar síns í sumarskóla í körfuboltaleik í Boston. Landsbankinn hafi ráðlagt henni að taka lánið í svissneskum frönkum og á 12 mánuðum hafi það tvöfaldast. Hún kveinki sér og segist þurfa 20 ár til að ljúka endurgreiðslunni.
Blaðamaðurinn vitnar í Indriða H. Þorláksson, aðstoðarmann fjármálaráðherra, og segir hann reiðan í garð fyrirrennara sinna, sem kenni öllum öðrum um en sjálfum sér. Hann sé bitur í garð bankamanna og allra hinna, sem hafi leitt Íslendinga út í þetta. Það yrði fróðlegt fyrir blaðamanninn að líta hingað að ári og leggja mat á, hvort valdi íslenskum efnahag langvinnari skaða bankahrunið eða Icesave-afarakostirnir og skattaálögurnar, sem Indriði H. hefur keppst við að skella á þjóðina.
Grein sinni lýkur Elliot Wilson á þessum orðum:
„Reykjavík may be floating on a iceberg of debt, but this unspoiled dead-of-winter wilderness is a marvellous place to lie in the snow and sip a brandy.“
Fraser Nelson, ritstjóri The Spectator, ræðir við Mandelson lávarð, lykilráðherra í ríkisstjórn Gordons Browns og bjargvætt hans í pólitískum hremmingum síðastliðið sumar. Mandelson lætur sem hann þekki ekki skuggaráðherra Íhaldsflokksins og til að undirstrika vanþekkingu hans segir ritstjórinn: „He looked at me as blankly as I had asked him about the Icelandic government.“
Föstudagur, 25. 12. 09.
Miðvikudagur, 23. 12. 09.
Fréttablaðið fetar í leiðara í dag í fótspor DV í því skyni að sverta Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, með dylgjum og Egill Helgason hoppar um borð með rógsliðinu á bloggi sínu. Forvitnilegt er að sjá, að Baugspennarnir gömlu hafa fundið sér nýjan einstakling til að ófrægja og komist á þann hátt í jólaskap.
Eiður Smári, fótboltakappi, hefur ákveðið að stefna DV vegna ófrægingarskrifa blaðsins um hann. Spurning er, hvort hann fellur í flokk með stjórnmálamönnum og öðrum, sem dómstólar hafa sagt, að verði að una því, að vegið sé að heiðri þeirra á opinberum vettvangi.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur staðfest þá stefnu stjórnarliða, að veita beri Jóni Ásgeiri Jóhannessyni sérstakt skjól, svo að hann geti komið ár sinni fyrir borð að nýju í íslensku viðskiptalífi. Til þess virðist ætlunin að misnota Arion banka.
Í krafti meiri leyndar en áður hefur ríkt í íslensku viðskiptalífi er unnið að meiri eignatilfærslu í landinu en nokkru sinni fyrr í sögunni. Hin opinbera afstaða til Jóns Ásgeirs sýnir, að þar gengur ekki eitt og hið sama yfir alla.
Einkennilegt er, að engum fjölmiðlamanni detti í hug að spyrja Evu Joly um álit hennar á því, sem gerst hefur í stjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur. Hvað hún segi um ráðstafanir skilanefnda. Eva Joly er sérfróð um, hvernig þeir, sem hafa opinbert umboð geta misfarið með vald sitt.
Ekki er við því að búast, að Fréttablaðið leggi fram spurningar um störf skilanefnda eða eignarhald nýju bankanna. Daður valdhafanna við Jón Ásgeir miðar að því að tryggja stuðning Fréttablaðsins við ríkisstjórnina og hina sérkennilegu stjórnarhætti hennar.
Þriðjudagur, 22. 12. 09.
Hvernig ætli því hefði verið tekið, ef Davíð Oddsson hefði sagt, að RÚV hefði misfarið með frétt af áliti breskrar lögmannsstofu um viðkvæmt pólitískt álitamál á hans ábygrð? Hælt breskri lögmannsstofu, sem hann hefði sjálfur ráðið til að starfa fyrir sig? Sagt aðra breska lögmannsstofu, sem gagnrýndi sama mál, lítt þekkta og því ekki nógu góða? Hvað ætli Guðmundur Andri Thorsson, Illugi Jökulsson eða Hallgrímur Helgason hefðu skrifað marga dálksentimetra í hneykslunarskyni eða Þorvaldur Gylfason? Svo að ekki sé minnst á minni spámenn eins og Jóhann Hauksson og Egil Helgason.
Davíð hefði þó haft það sér til málsbóta, að hann er löglærður og kann því að lesa álit af þessu tagi og mynda sér skoðun á þeim. Það verður hins vegar ekki sagt um Steingrím J. Sigfússon, sem nú ræðst þóttafullur eins og sá, sem allt veit, á álit lögmannsstofu í London, af því að hún varar Íslendinga við Icesave-samningunum.
Hið sama gerist nú og jafnan áður, að Steingrímur J. tekur upp hanskann fyrir Breta og Hollendinga, þegar því er hreyft, að Íslendingar gæti málstaðar síns betur og fallist ekki á Icesave-afarkostina.
Í kvöld berast svo fréttir af því, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd alþingis, sem er með Icesave-málið til meðferðar, telji ríkisstjórnarflokkana ekki ætla að standa við samkomulag um meðferð málsins. Kemur nokkrum það á óvart? Ekki þeim, sem hafa áttað sig á því, að Steingrímur J. vill ekki standa við neitt samkomulag í Icesave-málinu en það, sem Svavar Gestsson gerði við Breta og Hollendinga.
Icesave-blekkingarþula Steingríms J. er orðin svo löng, að flestir hafa tapað þræðinum í henni. Í sjálfu sér er það í lagi, ef menn gleyma ekki höfuðatriðinu, að hvorki í stjórnarandstöðu né ríkisstjórn hefur Steingrímur J, sagt satt orð um Icesave. Það er glæsileg niðurstaða eða hitt þó heldur fyrir hann, svo að ekki sé minnst á íslensku þjóðina.
Mánudagur, 21. 12. 09.
Í dag birtist umsögn mín um Vigdísi, ævisögu Vigdísar Finnbogadóttur, á vefsíðunni Miðjunni og má lesa hana hér.
Í fréttum var skýrt frá því, að breska lögmannsstofan Mischon de Reya hefði komist að þeirri niðurstöðu, að Bretar og Hollendingar krefðu Íslendinga um alltof háa vexti samkvæmt Icesave-samningunum alræmdu. Fleira taldi stofan einnig gagnrýnisvert við samningana. Fréttamaður sjónvarps RÚV dró þessa ályktun í kvöldfréttum:
„Málið snýst fyrst og fremst um pólitískt mat og þar eru stjórn og stjórnarandstaða ósammála. Tveir kostir virðast í stöðunni og báðir slæmir. Annars vegar að samþykkja vondan samnning nú og opna fyrir eðlileg samskipti við umheiminn eða að hafna samkomulaginu eða tefja afgreiðslu málsins og kalla yfir sig reiði og jafnvel refsiaðgerðir öflugra stórvelda.“
Hér skal haldið fram, að hvorugur kosturinn, sem fréttamaðurinn nefndi eigi við rök að styðjast. Allar hrakspár Jóhönnu og Steingríms J. um einangrun án Icesave-samninga hafa reynst rangar. Hefur sú staðreynd farið fram hjá fréttastofu RÚV? Skyldi fréttamaðurinn trúa því, að ríkisstjórnir Hollands og Bretlands setji viðskiptabann á Ísland, verði ekki tafarlaust gengið frá Icesave-samningunum? Staðreynd er, að samningarnir verða verri, því meira sem þeir eru skoðaðir. Hitt er einnig staðreynd, að tíminn hefur unnið með Íslendingum að því leyti, að fleiri en áður átta sig á bolabrögðunum, sem Bretar og Hollendingar hafa beitt og vesaldómi íslensku samningamannanna.
Sunnudagur, 20. 12. 09.
Kammersveit Reykjavíkur efndi til jólatónleika sinna klukkan 17.00 í Áskirkju. Tónleikarnir voru svo vel sóttir að opna varð inn í safnaðarheimili til að rýma alla gesti. Rut, kona mín, lauk með tónleikunum rúmlega 35 ára forystuhlutverki sínu í kammersveitinni.
Í dag ritaði ég pistil hér á síðuna um hina misheppnuðu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn. Ég er undrandi, en þó ekki, á að lesa ummæli Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, um ráðstefnuna, að niðurstöður hennar séu jákvæðar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, þótt skrefið sé lítið. Hvers vegna er ég ekki undrandi? Jú, vegna þess að ráðherrar á ráðstefnunni vilja ekki láta það spyrjast, að þeir hafi setið ráðstefnu, sem endaði með málamynda gjörningi til að bjarga áliti ráðstefnugesta. Í fréttatilkynningu umhverfisráðuneytisins segir meðal annars:
„Þátttaka í loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna er hornsteinn í loftslagsstefnu Íslands og íslensk stjórnvöld munu vinna að því að koma á bindandi samningi um aðgerðir í loftslagsmálum í kjölfar niðurstöðu Kaupmannahafnarfundarins.“
Hvernig væri, að ráðuneytið skýrði, hvað í þessum orðum felst? Þetta er sama rollan og kveðin var í aðdraganda fundarins í Kaupmannahöfn, sem endaði í engu.
Laugardagur, 19. 12. 07.
Uppákoman í Kastljósi sjónvarpsins í gærkvöldi var furðuleg, þegar Sigmar Guðmundsson flutti ávarp um, að Ögmundur Jónasson, alþingismaður, hefði verið undir áhrifum áfengis við atkvæðagreiðslu á alþingi, enda hefði hann neitað viðtali við sjónvarpið með vísan til þess, að hann hefði fyrr um daginn fengið sér vínglas. Erfitt er að átta sig á því, hvað vakir fyrir Kastljósi með slíkri fréttamennsku. Var verið að bera blak af Sigmundi Erni Rúnarssyni, sem olli undrun og jafnvel hneykslan margra vegna framgöngu sinnar í ræðustól þingsins fyrir nokkru?
Þeir, sem þekkja sögu íslenskrar blaðamennsku, vita, að fyrir hálfri öld eða svo, þótti næsta vonlítið að boða blaðamannafund, án þess að veitt væri áfengi, oft ótæpilega. Þetta hefur breyst til hins betra og vínveitingar horfið og hið sama er að segja um drykkjuvenjur þingmanna.
Hitt er jafnframt staðreynd, að áfengisneysla hefur tekið á sig þá mynd, að skálað er í vín- eða bjórglasi með mat í hádegi, ef svo ber undir, og einnig má sjá hér eins og víða um lönd, að vinnufélagar fái sér bjórglas á kaffihúsi að vinnu lokinni.
Sé Kastljós að segja hófdrykkju stríð á hendur, er það í sjálfu sér virðingarvert. Hins vegar er ómaklegt, að Ögmundur Jónasson sé gerður að blóraböggli í því stríði.
Sagt er, að hvergi fái menn göfugra vín en í veislum franska þingsins. Barinn er einn vinsælasti staðurinn á þingum Evrópuráðsins og Evrópusambandsins í Strassborg. Í ævisögum breskra þingmanna má lesa frásagnir af því, að til að glöggva sig á því, sem þeir sögðu á kvöldfundi, eftir góðan málsverð, hafi þeir þurft að rýna í þingtíðindi.
Föstudagur, 18. 12. 09.
Fréttamenn eru á hlaupum í leit að niðurstöðu á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn. Erfitt er að finna hana, en að lokum verður örugglega barinn saman texti, sem vísað verður til sem árangurs, þótt hann eigi ekkert skylt við samtaka átak til að stöðva hlýnun jarðar með handafli. Æ fleiri sjá raunar, að rökin fyrir hlýnun jarðar eru veik, þegar hiti hefur ekkert aukist síðan 2002 eða jafnvel nokkrum árum lengur.
Í BBC World var haft eftir heimildarmanni í bandarísku sendinefndinni, að tekið hefði verið „historic step forward to be built on later“ - sögulegt skref, sem mætti nýta síðar, einnig var talað um „meaningful agreement“ - mikilsvert samkomulag. Efnisatriðin voru hins vegar sögð óljós og einnig, að ekkert ríki væri ánægt með niðurstöðuna.
Líklegt er, að langur tími líði, þar til jafnmargir þjóðarleiðtogar eða forsætisráðherrar komi saman til að ræða þetta viðfangsefni. Kæmi ekki á óvart, þótt margir þeirra hefðu áhuga á að snúa sér að einhverju öðru.
Fimmtudagur, 17. 12. 09.
Alþjóðafréttastofa Makedóníu, MINA, segir frá því í dag, að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafi í dag skýrt þýskum þingmönnum frá því, sem bar hæst á fundi leiðtoga Evrópusambandsríkjanna í síðustu viku. Þeir hefðu meðal annars rætt, að Ísland og Makedónía yrðu samferða í aðildarviðræðum, sem hæfust á árinu 2010. Af þessu má ráða, að Íslandi hafi verið skotið aftur fyrir Króatíu og Svartfjallaland í aðildarviðræðuröðinni. Til þessa hafa Ísland og Króatía gjarnan verið nefnd í sömu andrá.
Makedónía hefur lengi beðið þess að komast í aðildarröðina. Grikkir hafa hins vegar beitt neitunarvaldi gegn því að Makedónía kæmist á blað. Þeir vilja, að landið skipti um nafn. Makedónía sé hluti af Grikklandi. Hefur ný ríkisstjórn Grikklands fallið frá þessari kröfu? Ég hef ekki séð fréttir um það.
Nýlega komu Grikkir í veg fyrir, að heimildarmynd um Makedóníu yrði sýnd í sendiráði Íslands í Washington. Þeir hótuðu að beita sér gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu, yrði myndin sýnd!
Hér er látið eins og íslensk stjórnvöld ráði einhverju um, hvenær leiðtogaráð ESB-ríkjanna gefur grænt ljós á viðræður við Ísland. Þau hafa í raun ekkert um málið að segja. Það ræðst af innri lögmálum ESB og hagsmunatogi milli ESB-ríkjanna.
Um 200 fulltrúar hafa verið skipaðir í nefndir og hópa á vegum Össurar Skarphéðinssonar til að sinna tæknilegum ESB-úrlausnarefnum. Á hinn bóginn hafa engar umræður orðið um samningsmarkmið Íslands. Hvenær og hvar verða þau mótuð eða kynnt? Eða á að hafa sama hátt á og í Icesave-málinu: semja með leynd og sitja síðan með óleysanlegt vandamál í fanginu?
Miðvikudagur, 16. 12. 09.
Logn og sólbirta var í Fljótshlíðinni í dag, þegar Árni Jóhannsson, bóndi í Teigi, var borinn til grafar að viðstöddu miklu fjölmenni frá kirkjunni að Breiðabólstað. Árni var lagður til hinstu hvílu í nýjum hluta kirkjugarðsins að Breiðabólstað og vígði séra Önundur Björnsson hann, þegar hann kastaði rekunum. Að athöfn lokinni var boðið til Goðalands, þar sem gestir þáðu hangikjöt.
Í The Times í London er sagt frá, því að innan Evrópusambandsins sé þeim sjómönnum boðinn stærri kvóti, sem heimila eftirlitsmyndavélar í skipum sínum, svo að fylgjast megi með því, hvernig þeir fara með aflann.
Í fréttum um mann, sem var rændur 10.000 evrum, þegar hann ætlaði að fara i kringum gjaldeyrishöftin með því að selja þær í Súðarvogi, var tekið fram, að engar eftirlitsmyndavélar væru í Súðarvogi og þess vegna væri erfiðara en ella að finna ræningjana. Spurning er, hvort maðurinn hafi ekki einmitt verið með peningatöskuna í Súðarvogi til að komast hjá slíkum myndavélum.
Þriðjudagur, 15. 12. 09.
Niðurstöður nýrrar könnunar á vegum Capacent Gallup sýna að 64% Reykvíkinga eru ánægð með störf Hönnu Birnu og af þeim sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn eru 95% ánægð með störf borgarstjóra. Þetta er verðskulduð niðurstaða fyrir Hönnu Birnu. Stjórn Reykjavikurborgar tók stakkaskiptum, eftir að Hanna Birna settist í stól borgarstjóra.
Niðurstaðan sýnir einhug meðal sjálfstæðismanna um, að Hanna Birna skipi forystusæti í borgarstjórnarkosningunum og hin víðtæka ánægja með störf hennar er gott veganesti í væntanlegri kosningabaráttu.
Hanna Birna tekur á málum á allt annan hátt en Jóhanna Sigurðardóttir og hennar lið á alþingi. Jóhanna og Steingrímur J. hækka skatta í stað þess að takast á við útgjöldin. Hanna Birna ræðst markvisst í sparnað en hækkar ekki útsvarið.
Mánudagur, 14. 12. 09.
Í dag birtist eftir mig umsögn um bókina Aung San Suu Kyi eftir Jakob F. Ásgeirsson á Miðjunni og má lesa hana hér.
„Það bar tilætlaðan árangur,“ sagði Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, á Alþingi 14. desember, þegar hún lýsti þátttöku sinni í „friðsamlegum mótmælum“, þar sem hún öskraði hvatningarorð til þeirra, sem réðust á lögreglustöðina í Reykjavík, og stóð síðan með síma í glugga þinghússins og leiðbeindi þeim, sem réðust gegn lögreglunni. „Árangurinn“ er sá, að Álfheiður situr illu heilli í ríkisstjórn Íslands. Spyrja má: Hvenær verður botninum náð?
Lára Ómarsdóttir sagði upp störfum á fréttastofu Stöðvar 2 25. apríl 2008 vegna ummæla sem hún heyrðist viðhafa þar sem hún var að fylgjast með mótmælum bílstjóra við Norðlingaholt og ræddi um að fá einhvern til þess að henda eggi að lögreglunni í beinni útsendingu. „Ég get nú kannski fengið einhvern til að kasta eggi rétt á meðan við erum live á eftir,“ heyrðist Lára segja.
Álfheiður Ingadóttir stendur í alþingi og segist ekki þurfa að biðjast afsökunar á neinu, af því að öskur hennar og símtöl báru „tilætlaðan árangur“. Þetta er jólakveðja heilbrigðisráðherra til lögreglumannanna níu, sem sækja bætur á hendur ríkissjóði vegna meiðsla. Enn er ástæða til að spyrja: Hvenær verður botninum náð?
Sunnudagur, 13. 12. 09.
Fréttir frá Kaupmannahöfn hafa um helgina einkum beinst að þeim, sem mótmæla ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna þar í borg um loftslagsmál. Lögregla handtók tæplega 1000 manns í gær og um 200 í dag. Lögregla er eins og við var að búast sökuð um harðræði. Áður en ráðstefnan hófst var vakið máls á því í dönskum blöðum, að álagið á lögreglumenn yrði mikið, enda yrðu þeir að standa 16 tíma vaktir. Svíar buðust til að senda 600 manna lögreglulið yfir Eyrarsund en Danir afþökkuðu boðið.
Hér er viðtal, sem sýnir, hve langt bil er á milli þeirra, sem halda fram staðreyndum um hitafar á jörðunni, og hinna, sem kynna sér ekki málið til hlítar.
Furðulegt er, hvernig staðlausar „fréttir“ fara um fjölmiðla eins og staðreyndir. Æ betur verður ljóst, að þetta hefur gerst í loftslagsumræðunum. Nýlegt dæmi úr fjölmiðlaumræðum undanfarinna ára hér á landi eru staðhæfingar um, að kostnaður ríkissjóðs vegna Baugsmálsins skipti hundruð milljóna eða jafnvel allt að milljarði króna. Hinn 8. október 2009 birtist þessi frétt hins vegar á mbl.is:
„Samanlagður kostnaður við sérstakan saksóknara í Baugsmálinu svonnefnda nam samtals 108 milljónum króna á þremur árum. Þetta kemur fram í fjáraukalagafrumvarpi fyrir yfirstandandi ár, sem lagt var fram á Alþingi í dag.
Farið er fram á 30,2 milljóna króna aukafjárveitingu vegna lokauppgjörs kostnaðar við sérstakan saksóknara í Baugsmálinu sem lauk í fyrra. Um er að ræða launagjöld vegna sérstaks saksóknara og löglærðs aðstoðarmanns hans, auk aðkeyptrar lögfræðiþjónustu.“
Hefur einhver gengið á eftir því við þá, sem héldu fram hundruð milljóna eða milljarða kostnaðinum, hvað þeir höfðu fyrir sér? Hafi það verið gert, hefur það farið fram hjá mér.
Laugardagur 12. 12. 09.
Umræður um stöðu og starfshætti bankanna eru að aukast, enda átta fáir sig á því, hvernig haldið er á málum þeirra í raun og veru. Hið sama er uppi á teningnum og fyrir hrun, að bankamenn leitast við að gera hlut sinn sem bestan og bera gjarnan fyrir sig bankaleynd, þegar nánar er spurt en þeir vilja upplýsa.
Skýrt var frá því, að Steingrímur J. hefði sett af stað athugun innan stjórnarráðsins á því, hvort ríkissjóður geti sótt skaðabætur frá einstaklingum eða lögaðilum, sem hefðu valdið honum skaða með bankahruninu. Fjórir lögfræðingar innan stjórnarráðsins eru sagðir vinna að þessari athugun og Steingrímur J. sagðist hafa rætt málið við ríkislögmann.
Fréttir um þetta athugun í þágu Steingríms J. bera öll merki þess, sem menn mundu kalla smjörklípu, ætti Davíð Oddsson í hlut. Steingrímur J. ræður ekki ferðinni lengur í Icesave-málinu. Fjárlagagerðin hangir á bláþræði. Skattamálin eru í uppnámi.
Þá grípur Steingrímur J. til þess, sem hann telur sér helst gagnast: að beina athygli að sökudólgunum. Hve oft hefur hann ekki hrópað upp yfir sig, þegar allt er komið í óefni: Já, en allt er betra en Sjálfstæðisflokkurinn! Hann telur öruggt, að athugun stjórnarráðs-lögfræðinganna beini einmitt athygli að sjálfstæðismönnum.
Hvergi svo vitað sé, eru fjármálaráðherrar með vanda Steingríms J. á herðunum með allan huga við að finna sökudólga. Þeir einbeita sér að því að sinna skyldum sínum með því að hafa stjórn á fjármálunum. Steingrímur J. hefur enga burði til þess eins og aukning á halla ríkissjóðs, frá því að hann tók við embætti, sýnir. Fyrir utan Icesave-hneykslið, sem er á hans ábyrgð.
Föstudagur 11. 12. 09.
Vefsíðan nýja, Miðjan, eða midjan.is birti í gær eftir mig umsögn um bókina Vigurklerkurinn - ævisaga Sigurðar prest Stefánssonar eins og sjá má hér.
Í gær birtist viðtal Agnesar Bragadóttur í viðskiptablaði Morgunblaðsins við Steinar Þór Guðgeirsson, formann skilanefndar Kaupþings, undir fyrirsögninni: Gífurlegum fjármunum verið bjargað. Minnti efni viðtalsins um of á sjálfshóls-viðtöl við viðskiptajöfra fyrir hrun til að boðskapurinn væri trúverðugur.
Þá er lýsingin á þeirri aðferð, sem beitt er til að ný-einkavæða Arion banka í besta falli sérkennileg. Kröfuhafar eignast Arion banka ekki beint, heldur verður Arion banki sjálfstætt dótturfélag gamla Kaupþings. Af viðtalinu verður ekki vel ráðið, hvernig háttað er samskiptum eða samskiptaleysi milli skilanefndar og slitastjórnar. Allt er einnig óljóst um tímasetningar eða markmið varðandi þær.
Steinar Þór segir, að skilanefndin hafi haft samband við kröfuhafa Kaupþings banka langt umfram lagaskyldu. Hún hefur þannig farið inn á verksvið slitastjórnar og hljóta þó einhver skýr lagaskil að vera á milli þessara aðila. Spurningin um verksvið snýst ekki aðeins um lagaskyldu heldur einnig lagaheimild. Hitt er síðan sérstakt íhugunarefni, að skilanefndin starfar í umboði fjármálaeftirlitsins, sem er því í senn umbjóðandi nefndarinnar og eftirlitsaðili.
Eftir allar umræður um nauðsyn gagnsæis, virks eftirlits og hæfilegrar fjarlægðar á milli þeirra, sem að öllum þessum störfum koma, hefur greinilega markvisst verið stefnt til annarrar áttar, ef marka má samtalið við Steinar Þór.
Nú er unnið að því að skipa stjórn Íslandsbanka og herma fréttir, að Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður stjórnar fjármálaeftirlitsins og bankaráðsmaður í Seðlabanka Íslands, verði þar formaður. Varla telst mikil fjarlægð frá fyrri tíð felast í því. Þá er sagt, að þrýst hafi verið á um, að bankaráðsmenn yrðu sjö en ekki fimm, svo að Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, gæti fengið sæti í bankaráðinu.
Bankastarfsemi í landinu er nú á einni hendi, það er ríkisins. Ráðherrar keppast við að lýsa yfir því, að þeir komi ekki nálægt neinu, sem bankana varðar. Af þeim yfirlýsingum má draga þá ályktun, að embættismenn og lögfræðingar hafi tögl og hagldir við stjórn bankanna og þeirra fyrirtækja, sem hafa fallið til þeirra. Að þetta kerfi sé best til þess fallið að blása lífi í starfsemi fyrirtækja eða leysa vanda heimila er ólíklegt, svo vægt sé til orða tekið.
Fimmtudagur, 10. 12. 09.
Hér má sjá samtal okkar séra Hjálmars Jónssonar, dómkirkjuprests, á ÍNN í gærkvöldi.
Í dag klukkan 17.00 efndi utanríkismálanefnd Sjálfstæðisflokksins til umræðufundar í Valhöll um loftslagsmál í tilefni af ráðstefnunni í Kaupmannahöfn. Ágúst H. Bjarnason, verkfræðingur, og Illugi Gunnarsson, alþingismaður, voru framsögumenn og svöruðu spurningum.
Á fundinum styrktist sú skoðun mín, að eitthvað sé bogið við fullyrðingar um, að jörðin sé að hitna. Þvert á móti sýna allar mælingar síðan 2002, að hið gagnstæða er að gerast. Þá er tímabundið hlýskeið síður en svo nokkurt einsdæmi. Engin ótvíræð staðfesting er fyrir því, að hlýnun hafi verið af mannavöldum. Hitt er hins vegar staðreynd, að maðurinn ógnar umhverfi sínu á margvíslegan hátt.
Fráleitt er að láta eins og Íslendingar væru að skapa sér einhverja sérstöðu meðal þjóða, með því að láta hagsmuni sína áfram ráða afstöðu sinni til hugsanlegs samkomulags um loftslagsmál á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn.
Í íslenska ákvæðinu í Kýótó-samkomulaginu felst ekki annað en viðurkenning á sérstöðu Íslands, vegna þess hve orkuframleiðsla hér er vistvæn. Nú lætur Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, eins og það sé eitthvert meiriháttar íslenskt framlag til að standa gegn loftslagsbreytingum, að fallið sé frá þessu ákvæði. Þegar maður hlustar á röksemdir hennar, vakna spurningarnar: Trúir hún þessu? Eða veit hún ekki betur?
Miðvikudagur, 09. 12. 09.
Í kvöld klukkan 21.30 verður samtal mitt við séra Hjálmar Jónsson, dómkirkjuprest, sent út í þætti mínum í sjónvarpsstöðinni ÍNN.
Frá því er sagt í fréttum, að Jóhannes í Bónus og Kristín, dóttir hans, hafi gengið á fund Kristínar Ingólfsdóttur, rektors Háskóla Íslands. DV greindi frá því í nóvember, að Jóhannes sakaði Hannes Hólmstein Gissurarson, prófessor, um að hafa dreift flugriti innan háskólans um son sinn Jón Ásgeir. Vildi Jóhannes fund með rektor, sem þyrfti að taka afstöðu til. hvort reka ætti Hannes. Sagðist Jóhannes hafa fengið nóg af viðleitni þessa opinbera starfsmanns til að niðurlægja fjölskyldu sína.
Á vefsíðunni student.is segir 9. desember:
„Fundurinn í dag stóð í tuttugu mínútur og voru feðginin ánægð með hann. Þau sögðust hafa gengið á fund rektors með nokkur mál sem nú væru í ákveðnum farvegi sem þau væru ánægð með. Spurður hvort hann teldi að skoðanir og gjörðir háskólakennara utan kennslustofunnar hefðu áhrif á gæði kennslunnar sagði Jóhannes „Innræti manna hlýtur að hafa mikið að segja.““
Háskólarektor vildi ekki skýra frá umræðuefni á fundinum með Bónus-feðgininum. Ef annað hefur verið rætt en tilefni hans, verður þessi einkennilega uppákoma enn skrýtnari. Jóhannes í Bónus er þekktur fyrir að vilja leggja stein í götu allra, sem hann telur sér óvinsamlega. Hann og fjölmiðlar hans leggja illt til þessara manna og leynt og ljóst er reynt að hrekja þá úr störfum þeirra. Það dregur úr virðingu Háskóla Íslands, leggi rektor hans þessari áráttu Jóhannesar lið.
Nú virðist runnið upp fyrir fleirum en áður, hve mikla áhættu lögreglumenn tóku í varðstöðu sinni við alþingishúsið fyrir ári. Níu þeirra sækja skaðabætur á hendur ríkinu vegna meiðsla, sem þeir hlutu. Ástæðulaust er, að hlutur Álfheiðar Ingadóttur, núv. heilbrigðisráðherra, og annarra forystumanna vinstri-grænna við að æsa fólk til mótmæla og jafnvel aðstoða mótmælendur við árás á lögregluna gleymist. Traust til lögreglu er mikið meðal almennings en Steingrímur J. og menn hans skera fjárveitingar til löggæslu við trog. Engin aukafjárveiting hefur verið samþykkt til höfuðborgarlögreglunnar af þessari ríkisstjórn, þvert á móti hefur verið staðið gegn óskum dómsmálaráðherra um að lögregla sæti 7% niðurskurði í stað 10%.
Þriðjudagur, 08. 12. 09.
Í hádeginu í dag var þess minnst við athöfn í Þjóðmenningarhúsinu, að 100 ár eru liðin, frá því að það var tekið í notkun. Salome Þorkelsdóttir, formaður stjórnar hússins, flutti ávarp, Ásta Magnúsdóttir, nýskipaður ráðuneytisstjóri í menntamálaráðuneytinu flutti ávarp í fjarveru Katrínar Jakobsdóttur, ráðherra, en 1. október var húsið flutt frá forsætisráðuneyti til menntamálaráðuneytis, og Eggert Þór Bernharðsson, sagnfræðingur, kynnti bók, sem hann ritstýrði, um sögu hússins.
Við athöfnina voru ekki kynnt nein áform af hálfu stjórnvalda um að loka Þjóðmenningarhúsinu, eins og Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, hefur krafist. Það væri svo sem í samræmi við aðra lágkúru, sem frá stjórninni kemur, að ákveða lokun þessa húss. Einhverjir hafa komist að þeirri niðurstöðu að varðveisla þess og nýting til að hýsa handritasýningu og til almenns sýningarhalds eða mannfunda sé til marks um þjóðrembu.
Í dag kom fram, að dagskrá hússins hefði verið skipulögð til ársins 2012, svo að varla verður það aflagt fyrir þann tíma. Hvert ríkisstjórnin hefur leitt þjóðina þá, geturhins vegar enginn sagt á þessari stundu. Flestir skynsamir menn hljóta að vona, að hún verði farin þá, svo að Þjóðmenningarhúsið fái að lifa og þjóðfélagið að dafna án áþjánar þess stjórnleysis, sem birtist á öllum sviðum.
Þegar atkvæði voru greidd um Icesave-málið á þingi í dag, sást, hve lífstrengur ríkisstjórnarinnar er veikur. Ef Þráinn Bertelsson hefði ekki lagt stjórninni og málinu lið, væri hún úr sögunni.
Mánudagur, 07. 12. 09.
Morgunblaðið er með líflegri fréttir en hinir fjölmiðlarnir eins og sannaðist enn í dag, þegar þar var sagt frá leka á tölvubréfum Indriða H. Þorlákssonar, þótt fréttastofa RÚV hafi sagt í morgun klukkan 08.00, að lekinn hafi birst í nótt. Var það til að þurfa ekki að vitna í Morgunblaðið ?
Indriði H. sagði í hádegisfréttum RÚV, að allt hefði birst áður opinberlega, sem lekið hefði verið. Upplýsingafulltrúi forsætisráðherra sagði, að rannsaka þyrfti lekann. Indriði H. sagðist hafa gefið upp einkanetfang sitt, af því að annars kæmist hann ekki í póst sinn erlendis. Nýmæli fyrir okkur, sem höfum farið með tölvur um allan heim og komist í póstinn okkar.
Í ljós kom, að tölvubréfin höfðu ekki birst opinberlega heldur væri þau að finna í trúnaðarskjölum, sem aðeins hefðu verið kynnt þingmönnum.
Öll viðbrögðin báru með sér vandræðaganginn, sem einkennir ríkisstjórnarstarfið í stóru og smáu. Össur Skarphéðinsson veitti Indriða H. ákúrur í þingræðu. Nú er spurning hvort Steingrímur J. taki upp hanskann fyrir aðstoðarmann sinn. Minnt var á, að í september var Indriði H. að rita minnisblað um Icesave á tölvuskjá, sem blasti við samferðarmönnum hans í flugvél.
Sunnudagur 06. 12. 09.
Nýtt hefti af tímaritinu Þjóðmálum undir ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar er komið út. Grein Ögmundar Jónassonar um bók Styrmis Gunnarssonar, Umsátrið, hefur vakið sérstaka athygli. Margt annað forvitnilegt efni er í heftinu eins og jafnan áður. Að þessu sinni skrifa ég um utanríkisstefnu Íslands í minn fasta dálk. Ég velti fyrir mér, hvort hætt verði að móta hér sérstaka stefnu í utanríkismálum og Evrópusambandinu látinn sá málaflokkur eftir.
Forsmekkurinn af því, sem er í vændum, nái stjórnarstefnan um ESB-aðild fram, sést af því, að á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn ætlar ríkisstjórnin að láta sér nægja að vera í ESB-hópnum. Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, telur það ekki sæma Íslendingum að gæta eigin hagsmuna á ráðstefnunni, nóg sé nú samt. Þetta er í góðu samræmi við framgöngu ráðherra í Icesave-málinu. Þar keppast þeir við að hampa rökum Breta og Hollendinga og láta eins og við þeim megi ekki bregðast.
Laugardagur, 05.12.09
Samkomulag hefur tekist um að ljúka 2. umræðu um Icesave-málið á þingi og leita álits breskra lögfræðinga á því auk þess sem fjárlaganefnd kanni sérstaklega atriði, sem stjórnarandstaðan telur enn órannsökuð. Að sjálfsögðu varð ríkisstjórnin að koma til móts við stjórnarandstöðuna. Hið einkennilega er, hve það tekur Jóhönnu og Steingrím J. langan tíma að átta sig á stöðu mála.
Þegar R-listinn komst til valda í Reykjavíkurborg eyðilagði hann hið virka stjórnkerfi borgarinnar af heift í garð Sjálfstæðisflokksins. Nú sýnist eitthvað svipað í uppsiglingu varðandi stjórnarráðið. Fólki án þekkingar á innviðum þess er falið að gera tillögur um breytingar. Ekki lofar það góðu um niðurstöðuna.
Föstudagur, 04. 12. 09.
Forystumenn stjórnarandstöðunnar birtu yfirlýsingu um Icesave-málið í dag, þar sem segir m. a.:
„Stjórnarandstaðan mun leggja til að frumvarpi fjármálaráðherra verði vísað frá Alþingi og til ríkisstjórnarinnar til frekari meðferðar. Stjórnarandstaðan telur að ríkisstjórninni beri að taka upp viðræður við Evrópusambandið í þeim tilgangi að það hafi milligöngu um að leiða deilu þjóðanna til lykta á sanngjarnan hátt. Verði ekki á það fallist beri að hafna öllum kröfum um ríkisábyrgð þannig að Bretar og Hollendingar þurfi að sækja kröfur sínar á hendur íslenska ríkinu fyrir íslenskum dómstólum.“
Hér hefur verið hreyft þeirri hugmynd, að sérnefnd verði kjörin af alþingi til að leita sameiginlegrar niðurstöðu í Icesave-málinu. Tillaga stjórnarandstöðunnar gæti orðið gott erindisbréf slíkrar nefndar, því að borin von er, að ríkisstjórnin aðhafist nokkuð út á við í málinu. Þá er til þess að líta, að erlendir viðsemjendur ríkisstjórnarinnar líta örugglega á hana sem ótrúverðuga í málinu og vilja ekki meira við hana ræða um það, án þess að vita fyrirfram um hug alþingis.
Í stórmálum á borð við landhelgismálin, sem snerta hagsmuni þjóðarinnar út á við, hefur alþingi kjörið menn í sérnefnd til að sinna málinu með viðkomandi ráðherra og forsætisráðherra.
Hvort sem menn eru með eða á móti Icesave átta þeir sig á því, að ríkisstjórnin hefur reynst ótrúlega veikburða í málinu. Forsætisráðherra heldur að sér höndum, utanríkisráðherra lætur eins og málið sé ekki á hans borði og fjármálaráðherra flytur þingmönnum blíðmæli og hótanir til skiptis.
Skilja mátti Ragnhildi Thorlacíus, þingfréttaritara RÚV, á þann veg, að svo miklar deilur væru um meðferð Icesave á bakvið tjöldin á alþingi, að sjálf Ásta Ragnheiður, þingforseti, hefði orðið að miðla málum. Eitthvað er þessi frásögn málum blandin og líklega komin frá Ástu Ragnheiði til að auka hlut hennar.
Forseti alþingis hefur það meginhlutverk að þoka málum ríkisstjórnarinnar í gegnum þingið. Þeim Guðbjarti Hannessyni og Ástu Ragnheiði hefur gengið ótrúlega illa að sinna þessu verkefni, mun verr en Sturlu Böðvarssyni, forvera þeirra á forsetastóli þingsins. Skyldi það vera reynsluleysi þeirra Guðbjarts og Ástu Ragnheiðar sem setur mark sitt á framvindu þingmála? Eða þvermóðska Jóhönnu Sigurðardóttur? Hún kann ekki, eins og kunnugt er, að finna sáttaleið í neinu máli.
Fimmtudagur, 03, 12. 09.
Í gær sagði Steingrímur J. Sigfússon á alþingi, að Evrópusambandið hefði sett okkur afarkosti vegna Icesave. Í morgun sagði Jóhanna Sigurðardóttir á alþingi, að Steingrímur J. hefði ekki sagt þetta heldur eitthvað allt annað. Jóhanna þolir ekki frekar en annað samfylkingarfólk, að Evrópusambandinu sé hallmælt.
Það er svo sem í takt við þá stefnu RÚV, að segja ekki frá efnisatriðum Icesave-umræðnanna á þingi, að ekki skuli vera minnst á þessi orðaskipti í fréttum þess. Ragnhildur Thorlacius, þingfréttaritari, er uppteknari af því, að þingmenn ræði Icesave heldur en hvað sagt er í umræðunum, nema þegar þingmenn eru að skylmast í návígi vegna þingskapa.
Þessi frásagnarhefð þingfréttaritara RÚV er sambærileg við það, ef íþróttafréttaritarar lýstu aðeins ágreiningi leikmanna við dómarann en létu hjá líða að segja frá leiknum sjálfum. Áhugamenn um íþróttir eða leikmenn létu ekki bjóða sér slíka fréttamennsku. Þingmenn sitja hins vegar uppi með, að þessi mynd sé oftast dregin af vinnu þeirra.
Deilum af þessum toga lýkur ekki á alþingi nema með samkomulagi. Þar ber forsætisráðherra mesta ábyrgð og undir dómgreind hans er komið, hvort málum er haldið áfram í farvegi sem þessum eða beint í annan. Jóhanna Sigurðardóttir hefur hins vegar hvorki skapgerð né burði til að leiða deilur til lykta á skaplegan hátt. Icesave-málið sjálft er sorglegasti og dýrkeyptasti vitnisburðurinn um það.
Miðvikudagur, 02. 12. 09.
Nú er þáttur okkar Styrmir Gunnarssonar á ÍNN loks kominn inn á netið og má nálgast hann hér.
Enn hefur mikilvægi þess, að stjórnarandstaðan ræði Icesave í þingsalnum, sannast. Æ betur skýrist, hve ömurlega hefur verið haldið á málinu af hálfu stjórnvalda. Furðulegt er að heyra Steingrím J. kveinka sér í þingsalnum vegna samningsins, sem hann taldi meistarastykki á sínum tíma. Því nánar sem farið er í saumana á málinu því betur koma gallar þess í ljós.
Þoli ríkisstjórnin ekki, að meira og betur sé rýnt í Icesave-samningana fyrir opnum tjöldum, á hún að sjálfsögðu að beita sér fyrir því, að þingnefnd, sérnefnd þingmanna, taki málið til meðferðar og fái umboð til að hafa beint og milliliðalaust samband við viðsemjendur Íslands. Trúnaðarbrestur er milli þingmanna og embættismanna, sem að málinu hafa komið fyrir Íslands hönd. Ráðherrar hafa ekki fylgt málinu eftir á þann veg, að unnt sé að rekja slóð þeirra með vísan til minnisblaða, sem er með ólíkindum í máli sem þessu. Aðferðin og efni málsins er í molum í höndum ríkisstjórnarinnar. Hún kemst ekki lengra með það.
Oftar en einu sinni hef ég vakið máls á því, að utanríkisráðuneytið hafi ekki getað fellt sig við að missa þann spón úr aski sínum, sem átti að sjálfsögðu að hverfa þaðan með brottför varnarliðsins. Utanríkisráðuneytið taldi sér trú um, að það ætti að verða varnarmálaráðuneyti, án þess þó að minnst yrði á hernað eða hermál. Og lengra var gengið, því að með lögum var varnarmálastofnun utanríkisráðuneytisins veittur úrlendisréttur eins og varnarliðið naut, það er skattfrelsi. Össur Skarphéðinsson hefur nú útfært þennan rétt með reglugerð. Áður en Össur varð ráðherra vildi hann, að varnarmálastofnun hyrfi. Nú hefur hann skipað henni á einstakan sess meðal ríkisstofnana. Hvað veldur?
Þriðjudagur, 01. 12. 09.
Sat tvo fundi í dag. Hinn fyrri var í ráðstefnusal Þjóðminjasafns á vegum nátturusjóðsins Auðlindar, þar sem sagt var frá endurheimt votlendis og arnarstofninum á Íslandi. Síðari fundurinn var fullveldishátíð á vegum Heimssýnar í Salnum í Kópavogi.
Frá hvorugum fundinum var sagt í fréttum en RÚV sagði hins vegar frá erindi, sem Guðmundur Hálfdánarson, prófessor, flutti um fullveldið frá þeim sjónarhóli, að það væri næsta gamaldags að halda í það í hinum hefðbunda íslenska anda. Ég vísa til þess anda í pistli, sem ég ritaði hér á síðuna í dag.
Á ruv.is er sagt frá viðtali við Guðmund og þetta haft eftir honum:
„Geti Íslendingar ekki staðið við skuldbindingar sínar verði að endurskoða fullveldið. Ljóst sé að hrunið sýni að það sé erfitt að reka lítið ríki eins og Ísland upp á eigin spýtur. Það sé alltaf erfitt en sé enn erfiðara nú vegna þess að Íslendingar hafi ekki lengur þessi beinu tengsl við Bandaríkin.“
Skoðum þetta nánar: Ríki hafa átt í erfiðleikum með að greiða skuldir sínar, án þess að tapa fullveldinu. Af frétt RÚV má ráða, að Guðmundur telji það illa ígrundaða hræðslu Íslendinga, að aðrar þjóðir ásælist auðlindir þeirra. Hitt er ekki síður illa ígrundað, að þung skuldabyrði svipti ríki fullveldi. Hvaða ríki er rekið „upp á eigin spýtur“ á hnattvæddum tímum? Er hitt ekki einmitt vandinn, að Ísland átti aðild að gölluðu regluverki ESB og er látið gjalda þess, eitt ríkja? Skilja má Guðmund á þann veg, að hin „beinu tengsl“ við Bandaríkin hafi rofnað fyrir tilverknað Bandaríkjanna - rofni „beinu tengslin“ verður það vegna aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Hér hafa því miður verið of lengi og oft utanríkisráðherrar, sem hafa viljað fórna tengslunum við Bandaríkin til að nálgast Evrópusambandið.
Mánudagur, 30. 11. 09.
Augljóst er, að ríkisstjórn eða forystumenn hennar hafa ekki burði til að knýja fram afgreiðslu á Icesave-málinu á alþingi. Vandræðin eru vegna hins ófagra málstaðar og óboðlegu málsmeðferðar. Hvað gerist þá? Jú, Steingrímur J. ræðst á þingmenn og sakar þá um að vera ekki starfi sínu vaxnir. Hann neitar jafnframt að láta þeim í té upplýsingar, þær séu þess eðlis, að verði að fara leynt.
Saga alþingis geymir dæmi þess, að efnt hafi verið til fundar með þingheimi fyrir luktum dyrum. Er til of mikils mælst, að það sé gert, þegar jafnmikið er í húfi og nú? Að sjálfsögðu eiga allir þingmenn rétt á að vita, hvaða leyndarmál eru svo merkileg í tengslum við Icesave. Forseta alþingis ber hér að gæta hags þingmanna og boða lokaðan fund.
Þegar ég heyrði Steingrím J. skjóta sér á bakvið leyndarmál í ræðustól alþingis, hvarflaði hugurinn til þess, hvernig þeir Steingrímur J. og Ögmundur hefðu látið í stjórnarandstöðu, ef þannig hefði verið talað til þeirra. Svo að ekki sé minnst á, ef einhver ráðherra hefði sakað þingmenn um að vera ekki starfi sínu vaxnir.
Spyrja má: Hefur Steingrímur J. ofmetnast? Sé svo, yfir hverju? Rúmlega 100 manns misstu vinnuna í dag, þar á meðal vegna kvíða yfir áhrifum skattahækkana Steingríms J.
Sunnudagur, 29. 11. 09.
Sé ekki samkomulag um störf alþingis, logar allt í deilum á þeim vettvangi, eins og annars staðar þar sem menn greinir á um úrlausn mála. Um þessar mundir er ekkert samkomulag um meðferð þingmála og endurspeglast það í þingsalnum. Ástandið batnar ekki, ef þingmenn fá ekki matarhlé og fundað er fram á laugardagskvöld. Illa ígrundaðar ákvarðanir af þessu tagi endurspegla sjónarmið Jóhönnu Sigurðardóttur í höndum Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, forseta Alþingis. Guðbjartur Hannesson var forseti Alþingis á vorþingi 2009 og var oft óttalegt að fylgjast með tilburðum hans við að framfylgja kröfu Jóhönnu um að beita okkur stjórnarandstöðuþingmenn harðræði. Að lokum gafst Jóhanna upp við að knýja fram breytingu á stjórnarskránni. Vilji hún frið um afgreiðslu mála á þingi í desember, verður hún að semja við stjórnarandstöðuna. Málið er ekki flóknara.
Ég hafði orð á því við mann, sem kom að rekstri Loftleiða á sínum tíma, að Jóhanna kynni ekki að semja um lausn mála. Láttu mig þekkja það, ég kynntist því, þegar hún var í forystu fyrir flugfreyjur, svaraði hann.
Jóhanna hefur átt stórundarleg samskipti við forsætisráðherra Breta og Hollendinga, eftir að alþingi samþykkti Icesave-fyrirvaranna. Vanmáttur hennar til samninga birtist þar í því, að látið er undan kröfum Breta og Hollendinga.
Hver veit, hvaða mál Jóhanna ætlar að flytja á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn? Hvernig ætlar hún að gæta íslenskra hagsmuna á þeim vettvangi?
Laugardagur, 28. 11. 09.
Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, sendi frá sér yfirlýsingu í dag:
„Vegna frétta sem birst hafa í Viðskiptablaðinu og Morgunblaðinu í dag og í gær um afskipti undirritaðs af málefnum Haga og 1998 og afgreiðslu Arion banka á þeim skal tekið fram að þessar fréttir eru tilhæfulausar með öllu. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið beitti sér ekki fyrir því að afgreiðslu mála Haga og 1998 yrði frestað af hálfu Arion banka og hefur engin önnur afskipti haft af þessu máli.”
Viðskiptablaðið hafði flutt frétt um, að Gylfi, hefði beitt sér fyrir frestun á uppgjöri Haga/1998, þar til Arion banki yrði kominn í hendur nýrra eigenda, það er ný-einkavæðing hans í höndum kröfuhafa væri komin til framkvæmda.
Augljóst er, að Gylfi vill þvo hendur sínar af þessu máli. Hafa ber í huga, að hann er „ópólitískur“ ráðherra og ólíklegt, að hinn vinstri-græni formaður stjórnar Arion banka snúi sér til hans. Til að leita sér pólitísks skjóls snýr formaðurinn sér því til Steingríms J. Sigfússonar en ekki til Gylfa.
Steingrímur J. og Jóhanna hafa pólitískan hag af því að Jóhannes í Bónus fari með málefni Haga í því skyni að veikja Morgunblaðið á þann hátt, sem hann leitaðist við að gera í grein í Fréttablaðinu og ég ræddi hér í gær vegna útleggingar Egils Helgasonar á henni. Egill kaus að gefa til kynna, að eigendur BYKO, Krónunnar og Nótaúns sniðgengju Fréttablaðið sem auglýsendur. Lesendur þurfa ekki annað en fletta Fréttablaðinu í dag til að sjá, hve fráleitt álit Egils er.
Föstudagur, 27. 11. 09.
Jóhannes í Bónus ræðst á Morgunblaðið í blaði sínu Fréttablaðinu í dag og hinn óhlutdrægi starfsmaður RÚV , Egill Helgason, segir á vefsíðu sinni:
„Jóhannes í Bónus segir að Hagar auglýsi ekki í Mogganum. Nei, þeir auglýsa í Fréttablaðinu.
Svona skiptast menn í lið á Íslandi, eftir viðskiptaklíkum.
Fyrirtæki Jóns Helga Guðmundssonar auglýsa grimmt í Morgunblaðinu þessa dagana, þar úir og grúir af auglýsingum frá Krónunni, Nóatúni, Intersport og Byko.“
Ástæða er til að spyrja Egil: Auglýsa fyrirtæki Jóns Helga ekki í miðlum Bónus/Arion-fyrirtækjanna? Hefur Egill rannsakað málið? Jón Helgi hefur ekki gefið opinbera yfirlýsingu um, að hann skipti ekki við Bónus/Arion-miðla af pólitískum ástæðum. Einnig er spurt: Telur Páll Magnússon, útvarpsstjóri, þessa rannsóknarblaðamennsku RÚV-starfsmanns samræmast hæfisreglum RÚV?
Jóhannes í Bónus veifar fleiru en auglýsingavopninu. Hann segir lausasölu á Morgunblaðinu hafa minnkað um 40%. Hvernig veit hann það? Vegna sölu í Bónus, 10/11 eða Hagkaupum, verslunum Haga/Arion? Spyrja má: Var hilluplássi Morgunblaðsins breytt? Var blaðið fært í neðstu hillu utan sjónhæðar? Eða var pantað 40% minna af blaðinu? Birgjar Bauga, Haga og Bónuss þekkja aðferðirnar.
Grein Jóhannesar í Bónus ritar hann ekki í eigin blað í þeim eina tilgangi að svara eða ögra Morgunblaðinu. Hún er skrifuð til þess að minna Jóhönnu og Steingrím J. á, að Jóhannes ráði ekki aðeins yfir Fréttablaðinu heldur hafi hann einnig líf Morgunblaðsins í hendi sér. Hún er innlegg í baráttu Bónusfeðganna fyrir yfirráðum yfir Högum. Þeir telja, að Jóhanna og Steingrímur J. eigi þar síðasta orðið.
Páll Magnússon og samstarfsmenn hans við stjórn RÚV sjá sér hag af því, að Egill Helgason dragi á þennan hátt taum Jóhannesar og Fréttablaðsins í þágu ríkisstjórnarinnar. Hver heyrir lengur kröfur frá stjórnendum 365-miðla um, að RÚV hverfi af auglýsingamarkaði?
Fimmtudagur, 26. 11. 09.
Óðagot Össurar Skarphéðinssonar í ESB-málum skilar ekki þeim árangri út á við, sem að var stefnt. Inn á við hefur buslugangurinn grafið undan trausti á stjórn hans á viðræðunum.
Jóhanna Sigurðardóttir og Össur lögðu ríkisstjórnina að veði til að knýja fram samþykkt á ESB-aðildarviðræðna-ályktun á alþingi 16. júlí, svo að hún kæmist fyrir ESB-utanríkisráðherrafund 27. júlí til undirbúnings afgreiðslu á fundi leiðtogaráðs ESB-ríkjanna í desember, síðasta leiðtogaráðsfundi undir stjórn Svía. Síðan skyldu viðræður hefjast í upphafi árs 2010.
Nú er ljóst, að ESB-leiðtogaráðið tekur í fyrsta lagi afstöðu til óska íslensku ríkisstjórnarinnar í mars. Þá verður Olli Rehn hættur sem stækkunarstjóri og Spánverjar teknir við pólitískri forystu innan ESB af Svíum. Ef til vill kýs nýr stækkunarstjóri lengri tíma en fram í mars til að skoða mál Íslands. Spænski forsætisráðherrann lagði enga áherslu á stækkun ESB í samtali við Der Spiegel á dögunum um áherslumál undir forystu Spánverja.
Þá er renna betur upp fyrir þeim fulltrúum ESB, sem fylgjast náið með gangi mála hér á landi, að ríkisstjórnina skortir nauðsynlegan stuðning heima fyrir við ESB-stefnu sína. Tvö nýleg atvik í sögu ESB hafa verið mælistika í þessu efni. Í fyrsta lagi samþykkt Lissabon-sáttmálans, sem vakti mikinn og almennan fögnuð í umsóknarlöndunum Króatíu og Svartfjallalandi og vonbiðlalandi eins og Albaníu. Í öðru lagi valið á fyrsta forseta ESB og fyrsta utanríkisráðherra. Hvorugt atvikið vakti neina sambærilega athygli hér og annars staðar.
Össur Skarphéðinsson var á Spáni í síðustu viku og sagðist hafa kynnt stefnu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum með hliðsjón af ESB-aðild og leitað álits spænskra viðmælenda sinna af henni. Lét hann vel af viðtökunum. Það er til marks um fátæklega fréttamennsku vegna ESB-mála, að enginn spurði Össur, hvaða stefnu hann hefði kynnt.
Rétt norðan við landamæri Spánar við Biskajaflóa er bærinn Biarritz í Frakklandi: Þar var Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á alþjóðlegri ráðstefnu um strandveiðar 25. nóvember og flutti ræðu. Niðurlag hennar hefur áreiðanlega komið þeim Spánverjum á óvart, sem heyrðu Össur dásama ESB nokkrum dögum áður. Jón sagði ríkisstjórnina klofna í ESB-málinu. Bændur, útgerðarmenn og sjómenn væru á móti aðild eins og hann sjálfur og flokkur hans. Íslendingar gætu bjargað sér betur utan ESB en innan.
Þegar Spánverjar leggja saman einn og einn íslenskan ráðherra í ESB-málum fá þeir núll. Hvers vegna skyldu þeir taka aðildarmál Íslands á dagskrá í ESB-forsetatíð sinni og verja til þess miklum fjármunum?
Miðvikudagur, 25. 11. 09.
Í dag ræddi ég við Styrmi Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóra, um bók hans Umsátrið og birtist samtal okkar klukkan 21. 30 í kvöld á sjónvarpsstöðinni ÍNN.
Fyrr í kvöld sá ég umræðuþátt á ÍNN í umsjá Tryggva Þórs Herbertssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, þar sem hann ræddi við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, um skattamál. Hröktu þeir á skýran hátt áróðurinn gegn skattastefnu undanfarinna ára og sýndu veikleika í málflutningi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.
ÍNN er sjónvarpsstöð, sem Ingvi Hrafn Jónsson stofnaði og heldur úti. Hún er einstæður og merkilegur fjölmiðill. Að unnt skuli á þessum grunni og með vaxandi áhorfi að halda úti sjónvarpsstöð, sem nær til alls landsins, sýnir, að fjölmiðlun hefur tekið á sig nýja mynd á ljósvakanum.
Vaxtarbroddur í fjölmiðlun er mestur í netheimum um þessar mundir. Þótt Morgunblaðið haldi úti mest sóttu vefsíðu landsins, mbl.is, stendur blaðið frammi fyrir sama vanda og aðrir prentmiðlar: Að finna örugga fótfestu í nýju og gjörbreyttu umhverfi. Augljóst er, að blaðið stendur Fréttablaðinu feti framar við flutning frétta og annars efnis.
Fréttablaðið er hallt undir Samfylkingu og ríkisstjórnina. Þarf enginn að efast um, að sú staðreynd skiptir máli, þegar Jóhanna og Steingrímur J. velta fyrir sér framtíð 1998/Haga
Þriðjudagur, 24. 11. 09.
Morgunblaðið birti 23. nóvember forsíðufrétt um, að Daniel Gros, sérfræðingur í alþjóðafjármálum og málefnum Evrópusambandsins, teldi Íslendinga hafa lögfræðileg rök til að krefjast jafnræðis vegna vaxta á lánum til tryggingarsjóðs innistæðueigenda í bönkum. Vaxtabyrði á lánum vegna sjóðsins ætti ekki að vera þyngri hér en í Bretlandi og Hollandi. Dagurinn var ekki liðinn, áður en Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, blés skoðun Gros út af borðinu. Ætli Indriði hafi ekki farið í smiðju til hollenskra eða breskra embættismanna til að komast að niðurstöðu? Þannig hefur hagsmunagæslu Íslands í Icesave-málinu áður verið háttað.
Eiríkur Bergmann Einarsson, sérfræðingur í ESB-málefnum, gerir lítið úr því í Morgunblaðinu í dag, að beitt sé lögfræðilegum rökum gagnvart Evrópusambandinu. Þetta sýnir vanþekkingu á því grundvallaratriði allra ákvarðana á vettvangi ESB, að lögheimildir séu fyrir þeim. Sé ekki um slíkar heimildir að ræða, dugar ekki að hefja um þær pólitískar umræður. Á vettvangi ESB komust ESB-lögfræðingar að þeirri niðurstöðu, að Íslendingar ættu að bera skaðann vegna hins veikburða regluverks um banka með starfsstöðvar í fleiri en einu landi. Þessari lögfræðilegu niðurstöðu hefur verið beitt gegn Íslandi síðan, án þess að ESB-ríki vilji láta reyna á réttmæti hennar fyrir dómstólum.
Hagkaup bjóða nú viðskiptavinum sínum að kaupa vöru fyrir vaxtalaust lánsfé með fyrsta gjalddaga 5. mars 2010 . Kortafyrirtækjunum er þannig ögrað, gjalddagi þeirra er mánuði fyrr. Þeir, sem taka þessu kostaboði Hagkaupa, líta örugglega á fyrirtækið sem bjargvætt. Jafnframt fá Hagar meðaumkun í erfiðu samningaferli um tugmilljarðaskuld við Arion banka, sem hefur frestað fram yfir jólavertíðina að taka á málum 1998/Haga. Líklega fjármagnar bankinn þessa samkeppni Hagkaupa við kortafyrirtækin í þeirri trú, að hann fái meira en ella upp í skuldir Haga að vertíðinni lokinni.
Mánudagur, 23. 11. 09.
Í hádegi í dag flutti ég erindi um Ísland milli Evrópu og Bandaríkjanna í Rotaryklúbbi Garðabæjar og svaraði spurningum fundarmanna. Ég velti fyrir mér, hvort skynsamlegt væri fyrir Íslendinga að fela Evrópusambandinu að koma fram fyrir sína hönd gagnvart Bandaríkjunum eða halda áfram að rækta þau tvíhliða tengsl sjálfir. Evrópusambandið er að koma á laggirnar stærstu utanríkisþjónustu í heimi, eins og ég ræði í pistli, sem ég setti hér á síðuna í dag.
Athygli beinist eðlilega mjög að því, hvort Kaupþing/Arionbanki ætli að endurræsa Baugsveldið með samningum við 1998/Haga eða hvað þessi fyrirtæki nú heita. Fyrir þeim fer Jóhannes í Bónus, en hann sagði fyrir rétti í Baugsmálinu, að hann væri bestur í kjötfarsi. Arionbanki tekur sér frest fram í janúar til að kanna áreiðanleika viðmælenda sinna. Líklega veitir ekki af tímanum til að átta sig á milljarða, tug milljarða eða hundruð milljarða skuldum þeirra í bankakerfinu. Hitt er einnig íhugunarefni, að 1998/Hagar hafa mikið af haldbæru fé milli handanna eftir jólavertíðina. Fyrirtækið getur notað það til að borga Arion fyrstu greiðslur og haldið síðan áfram að velta skuldabagganum á undan sér eins og áður.
Bloggarar skrifa auðvitað um þetta, þeirra á meðal Ágúst Borgþór Sverrisson á pressan.is, sem segir:
„Jón Ásgeir er skuldakóngur íslenska efnahagshrunsins og einn af helstu orsakavöldum hruns Glitnis enda fékk hann að láni gífurlegar upphæðir úr bankanum til að fjármagna fjárfestingarævintýri sín erlendis.
Ljóst er að ríkisstjórnin sér í gegnum fingur sér með þennan gjörning Arion banka. Það gerir hana jafnspillta og síðustu ríkisstjórn sem komið var frá völdum með mótmælaaðgerðum.
Fyrst ríkisstjórnin ætlar ekki að grípa í taumana er reiði almennings það eina sem getur stöðvað óhæfuna. Enn er tími þar til í janúar er Arion banki svarar formlega tilboði Baugsklíkunnar.“
Ágúst Borgþór skýrir stuðning ríkisstjórnarflokkanna við endurreisn Baugsveldisins með óvild þeirra Jóhönnu og Steingríms J. í garð Sjálfstæðisflokksins. Þarf frekari vitna við um gjaldþrot þessa fólks? Það skyldi þó ekki koma í hlut sjálfstæðismanna í setjast í skiptastjórn þrotabús þess fyrr en síðar?
Sunnudagur, 22. 11. 09.
Óratórían Cecilía eftir Áskel Másson við texta Thors Vilhjálmssonar var frumflutt í þéttsetinni Hallgrímskirkju klukkan 16.00 í dag. Fjórir einsöngvarar, Mótettukór Hallgrímskirkju, tvö orgel og hljómsveit fluttu undir stjórn Harðar Áskelssonar. Einnig var leikið á steinhörpu og vatnstrommur eftir Pál á Húsafelli. Flutningnum var mjög vel tekið enda verkið magnað að allri gerð. Mér kom trúarhitinn í texta Thors Vilhjálmssonar þægilega á óvart.
Á dögunum fór ég í Kassa Þjóðleikhússins og sá Pálínu Jónsdóttur flytja Völvu verk byggt á Völuspá, nýstárleg og spennandi sýning. Saga Cecilíu, dýrlings tónlistar og fagurra lista, lifir með okkur kristnum mönnum um heim allan og er uppspretta nýrrar sköpunar. Hið sama má segja um hinn forna menningararf okkar Íslendinga, hann er mörgum hvatning til listrænna átaka.
Norræn goðafræði er rannsökuð víða um heim og áhugi á henni vex jafnt og þétt. Markmið Pálínu er að fara með sýningu sína byggða á Völuspá út fyrir landsteinana. Hún verður örugglega til þess, að fleiri en ella taka til við að kynna sér þetta meistaraverk.