Dagbók: júlí 2010

Laugardagur, 31. 07. 10. - 31.7.2010

Ók í Skálholt og var þar klukkan 15.00 á tónleikum Skálholtskvartettsins, sem flutti síðasta kvartett Schuberts. Undir Ingólfsfjalli var skýfall.

Þaðan hélt ég austur í Fljótshlíð í mikilli veðurblíðu og hita. Um miðnætti sáust flugeldar á þjóðhátíð í Eyjum og svo mikil var kyrrðin, að einnig mátti heyra drunur, þegar flugeldarnir sprungu. Bárust þær nokkru síðar en ljósið.

Föstudagur, 30. 07. 10. - 30.7.2010

Var klukkan 10.00 í Reykholti, Borgarfirði, þar sem Snorrastofa og norska sendiráðið í Reykjavik stóðu að dagskrá undir heitinu: Norsk-íslensk vinabönd í Reykholti.

Í dag var seinni dagur dagskrárinnar og snerist hann um Björnstjerne Björnson og Ísland með fróðlegum fyrirlestrum um málið.

Þegar ég ók til baka til borgarinnar milli 16.00 og 18.00 var stöðugur straumur bíla á leð vestur og norður.

Fimmtudagur, 29. 07. 10. - 29.7.2010

Kvikmyndin Inception er mögnuð, að unnt sé að halda þræði á svo mörgum sviðum og beita kvikmyndatækninni jafnvel til að koma hinum flókna þræði til skila. Ég hélt, að ekki yrðu margir klukkan 19.00, fimmtudag fyrir verslunarmannahelgi. Salurinn var þéttsetinn.

Miðvikudagur, 28. 07. 10. - 28.7.2010

Í kvöld var sýndur þáttur á ÍNN þar sem ég ræði við Bjarna Harðarson, bóksala og fyrrverandi þingmann, um Evrópumál og viðhorf innan vinstri-grænna. Hér má sjá þáttinn.

Greinilegt er, að innan ESB eru vaxandi efasemdir um réttmæti þess að stækka ESB. Ýtir það enn undir þá skoðun, að þetta sé rangur tími fyrir íslensk stjórnvöld til að sækja um aðild. Það var einnig mjög áberandi á blaðamannafundinum í Brussel í gær, hve mikla áherslu belgíski utanríkisráðherrann lagði á, að ekki væri unnt að tímasetja aðild Íslands. Að þessu er vikið í frétt Le Monde um aðildarumsókn Íslands.

Hér má sjá útsendingu frá blaðamannafundinum.

Þriðjudagur, 27. 07. 10. - 27.7.2010

Í dag skrifaði ég leiðara á Evrópuvaktina um ríkjaráðstefnu Íslands og ESB í Brussel og blaðamannafundinni að ráðstefnunni lokinni. Mesta undrun blaðamanna, ráðherra og embættismanna ESB vakti, að Össur væri í Brussel með engan stuðning Íslendinga að baki sér. Hann brást við með því að segja, að lítill stuðningur væri líka við ESB-aðild í Króatíu!

Ríkisstjórnarflokkarnir náðu saman um Magma-málið í dag með því að setja málið í nefnd. Grasrótin hjá vinstri-grænum fagnar. Aðstoðarmaður menntamálaráðherra leggur á ráðin um spuna um málið með orðavali, sem varla hefur höfðað til feminista í flokknum - eða hvað?

26. júní ákvað flokksráð vinstri-grænna að vísa ESB-málinu til málefnaþings í haust.

Í byrjun ársins mátti ekki nefna orðið Icesave á flokksráðsfundi vinstri-grænna, sem haldinn var á Akureyri.

Með þessum aðferðum tekst Steingrími J. að viðhalda stuðningi vinstri-grænna við hina splundruðu ríkisstjórn, en ekki er rætt um ESB-málefni á fundum hennar, til að ekki sé stöðugt minnt á ágreining um það.

Mánudagur, 26. 07. 10. - 26.7.2010

Í dag komu utanríkisráðherrar ESB-ríkjanna saman og samþykktu viðræðurammann vegna Íslands. Augljóst er af fréttum, að þeir hafa vaxandi áhyggjur af andstöðu almennings á Íslandi við ESB-aðild. Belgíski utanríkisráðherrann sagði Össur þurfa að sannfæra efasemdarmenn um, að Íslendingar vildu í raun ganga í ESB.

Ríkisstjórnin hefur haldið þannig á ESB-málinu undir forystu Össurar, að henni er hvorki treyst hér á landi né annars staðar. Þetta er enn ein röksemd fyrir því, að umsóknin sé dregin til baka. 

Í fréttum erlendis og á Evrópuvaktinni af ráðherrafundinum í dag er vitnað í tvo ráðherra, utanríkisráðherra Belgíu og Evrópumálaráðherra Frakka, sem báðir lýsa undrun yfir, að andstaða við ESB-aðild skuli svo mikil hér á landi, þegar málið er komið á þetta stig á vettvangi ESB.

Sunnudagur, 25. 07. 10. - 25.7.2010

Hið undarlega við pólitískan ágreining innan ríkisstjórnarinnar um Magma-málið er, að þingmennirnir, sem nú berja sér á brjóst og segjast andvígir sölu á hlut í HS Orku til Magma Energy Sweden, hafa veitt Össuri Skarphéðinssyni umboð til að leiða þjóðina inn í Evrópusambandið og þar með opna enn frekar fyrir fjárfestingum af þessu tagi.

Spyrja má: Hvers vegna tóku vinstri-grænir ekki þennan slag við Samfylkinguna vegna ESB-aðildarinnar? Svarið er, að ríkisstjórnin hefði aldrei verið mynduð, nema með samþykki vinstri-grænna við ESB-aðildarumsókninni. Þeir vilja ekki láta saka sig um loforðssvik við Samfylkinguna, þótt þeir hafi gengið bak orða sinna við kjósendur með annarri ESB-stefnu eftir kosningar en fyrir þær.

Í fréttum í kvöld var gefið í skyn, að innan Samfylkingarinnar væri þingmönnum að snúast hugur í Magma-málinu, hverju sem það breytir, þar sem Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, hefur sagt, að ríkið geti ekki rift samningi, sem það gerði ekki.

Nú eru tvær vikur liðnar, frá því að Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, hóf síðasta Magma-upphlaup vinstri-grænna. Það er í samræmi við máttlausa forystu ríkisstjórnarinnar, að málinu hefur síðan verið kastað eins og heitri kartöflu milli ráðherra.

Upplausnin er algjör á stjórnarheimilinu, þegar Össur Skarphéðinsson tekur þátt í ríkjaráðstefnu í Brussel til að fela ráð sín í hendur ESB. Það er aðeins til marks um, hve Össur og utanríkisráðuneytið hefur fjarlægst þjóðina í ESB-vímunni, að öll tilmæli um að skjóta ráðstefnunni á frest eru hundsuð.

Laugardagur, 24. 07. 10. - 24.7.2010

Fórum í Skálholt í dag og hlýddum á erindi Kolbeins Bjarnasonar, flautuleikara, um Helgu Ingólfsdóttur, semballeikara og frumkvöðul sumartónleikanna í Skálholti, sem andaðist í október 2009. Síðan voru tvennir tónleikar til minningar um hana. Fjöldi manns sótti alla viðburðina í fögru veðri.

Umferð hefur greinilega aukist milli Selfoss og Hvolsvallar, eftir að Herjólfur hóf reglulegar ferðir milli lands og Eyja úr Landeyjahöfn.

Fyrir norðan Skálholtsdómkirkju er unnið að því að hlaða Þorláksbúð, tilgátuhús úr torfi og steini. Þá er risin gestastofa vestan við Skálholtsskóla. Hvoru tveggja eykur gildi staðarins fyrir ferðamenn. Þeir sækja staðinn heim, tug þúsundum saman.
Föstudagur 23. 07. 10. - 23.7.2010

Í dag er rétt ár liðið frá því, að Össur Skarphéðinsson fór til Stokkhólms og afhenti Carl Bildt ESB-umsóknarbréf. Í dag kom utanríkismálanefnd alþingis saman til að hlusta á Össur gera grein fyrir því, sem hann ætlar að segja og leggja fram á ríkjaráðstefnu með ESB í Brussel 27. júlí. Sjálfstæðismenn í utanríkismálanefnd töldu ótímabært fyrir Össur að sækja ráðstefnuna. Tillaga um að draga umsóknina til baka lægi fyrir alþingi og vinstri grænir ætluðu að taka málið til umræðu og endurskoðunar.

Í samtali við mbl.is um framlag sitt á fundi utanríkismálanefndar vitnar Össur í skýrslu Evrópunefndar frá mars 2007, en við sátum saman í henni. Telur hann, að kafli skýrslunnar um sérlausnir gefi honum von um, að unnt sé að semja við ESB. Nefnir hann landbúnað Finna sérstaklega til sögunnar. Íslenskir bændur hafa sérstaklega farið ofan í sérlausn Finna og telja gildi hennar oftúlkað. Ég er sömu skoðunar. Að telja hana gefa fordæmi fyrir því Íslendingar geti samið sig undan sjávarútvegsstefnu ESB er fráleitt.

Svo virðist sem embættismenn í utanríkisráðuneytinu hafi ofurtrú á því, sem segir í þessum sérlausna-kafla Evrópuskýrslunnar. Einn þeirra sagði við mig, eftir að ég hafði talað á fundi, sem hann sat: Þú gleymdir að minnast á sérlausnirnar! Ég er þeirrar skoðunar, að besta sérlausnin fyrir okkur Íslendinga gagnvart ESB sé að halda okkur við EES-samninginn. Hann fellur best að hagsmunum okkar og sérstöðu.

Fimmtudagur, 22. 07. 10. - 22.7.2010

Eins og hér er gefið til kynna, hafa embættismenn ESB í Brussel vaxandi áhyggjur af ESB-aðildarandúð hér á landi. Hún hlýtur að koma fram á fundi utanríkismálnefndar með Össuri Skarphéðinssyni klukkan 09.00 í fyrramálið. Ráðherrann gerir nefndinni væntanlega grein fyrir því, hver verður viðræðuafstaða hans á fundinum með utanríkisráðherra Belgíu nk. þriðjudag í Brussel. Össur þarf ekki aðeins að greina frá afstöðu Íslands til aðlögunarkrafna ESB heldur einnig svara fyrir Icesave.

Í fréttinni hjá Bloomberg News, sem vísað er til hér að ofan, segir, að ESB-menn hafi óskað eftir að flýta upphafi aðlögunarviðræðnanna við Ísland vegna hinnar miklu andúðar. Þeir hafi ekki viljað bíða fram í september/október. Óttuðust þeir, að þingsályktunartillagan um að draga umsóknina til baka yrði rædd og samþykkt? Eða eru þeir hræddir um, að ESB-ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri-grænna sé að springa? Þeir vita, að vinstri-grænir ætla að ræða málið í september. Vilja þeir ná frekara tangarhaldi á íslenska stjórnkerfinu, áður en til þess kemur?

Það kom fram, sem talið var líklegt hér á síðunni í gær, að ríkisstjórnin fór fram á og fékk frest frá ESA til að skila andmælum vegna Icesave-áminningar ESA. Hins vegar hef ég ekki orðið var við, að fjölmiðlar fylgi því eftir í fréttum, hvort ríkisstjórnin krefjist frávísunar málsins frá ESA vegna ummæla forseta ESA um, að Íslendingar mundu tapa Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum. Hvað skyldu menn segja, ef dómstjóri undirrétti talaði þannig um óleyst mál í réttinum, segði málshefjanda örugglega tapa því í hæstarétti?

Miðvikudagur, 21. 07. 10. - 21.7.2010

Einkennilegt er, að enginn fjölmiðill sýnir því áhuga, að nk. mánudag, 26. júlí, rennur út frestur ríkisstjórnarinnar til að andmæla áminningu ESA vegna Icesave. Raunar er auðvelt að færa rök fyrir því, að ESA hafi orðið vanhæft til að fjalla um málið, eftir að forseti ESA notaði komu sína hingað til lands vegna 50 ára afmælis EFTA til að rífast við Össur Skarphéðinsson og lýsa því síðan yfir, að hann væri viss um, að EFTA-dómstóllinn mundi dæma ESA í vil færi málið fyrir hann. Er augljóst, að engin andmæli duga til að breyta skoðun ESA-forsetans.

Áhugaleysi fjölmiðlanna á ESA og Icesave er dæmigert fyrir, hve litla burði þeir hafa til að fylgja málum eftir.

Líklegt er, að íslensk stjórnvöld hafi farið fram á skilafrest gagnvart ESA. Sé svo, ber að skýra frá því opinberlega, eins og hinu, hvort tíminn sé notaður til að leita samkomulags við Breta og Hollendinga. Leynimakk ríkisstjórnarinnar í Icesave-málinu ætti að hafa skaðað hana nóg, til að ráðherrar áttuðu sig á gildi þess að halda þjóðinni upplýstri.

Leyndarhyggja og vandræðagangur eru aðalsmerki þessarar lélegu ríkisstjórnar, sem sameinast ekki um að takast á við verkefni í þágu þjóðarinnar. Ráðherrar og þingmenn rífast þess í stað um menn og málefni.

Þriðjudagur, 20. 07. 10. - 20.7.2010

Frétt Stöðvar 2 og síðan frásögn í þættinum Ísland í dag af fyrstu ferð Herjólfs til Landeyjahafnar var til fyrirmyndar. Það hæfði vel þessum merka viðburði að gera svo vel við hann í fréttum sem Stöð 2 gerði. Raunar er erfitt að átta sig á því, hvers virði fréttir stöðvarinnar væru, ef hún nyti ekki starfskrafta Kristjáns Más Unnarssonar. Hann er jafnbesti sjónvarpsfréttamaðurinn um þessar mundir.

Spennandi verður að sjá, hver verða áhrif þessa nýja, glæsilega hafnarmannvirkis í bráð og lengd.

Í Rangárþingi eystra, svæðinu frá Eystri Rangá að Skógum undir Eyjafjöllum búa 1700 manns, þar af um helmingur, 850, á Hvolsvelli. Í Vestmannaeyjum búa um 4200 manns. Í sveitarfélaginu Árborg búa um 7.800 manns, sem er stærsti þéttbýliskjarni á Suðurlandi.

Það tekur um 40 mínútur að aka frá Hvolsvelli til Selfoss eða álíka langan tíma og að sigla með Herjólfi milli lands og Eyja. Víst er, að allir, sem ætla sjó- og landleið frá Eyjum til Reykjavíkur eða öfugt verða að fara um Rangárþing eystra, Hvolsvöll og Hellu í Rangárþingi ytra. Spurning er hins vegar, hvort þeir, sem búa í Rangárvallasýslu leiti eftir þjónustu til Eyja, sem þeir hafa nú sótt til Selfoss, í sveitarfélaginu Árborg.  

Við, sem ökum reglulega milli Reykjavíkur og Hvolsvallar, vitum, að snarlega dregur úr umferð, eftir að komið er austur fyrir Selfoss. Þetta á eftir að breytast og þar með einnig umferðarþungi um Selfoss. Hlýtur hann að kalla á, að ráðist verði í smíði á nýrri brú yfir Ölfusá.

Mánudagur, 19. 07. 10. - 19.7.2010

Enn vek ég athygli á efni á Evrópuvaktinni. Að þessu sinni um, að ESB og Svisslendingar eru teknir til við að ræða um „létta“ aðild Sviss að EES. Það er enn eitt merki um, hve fráleitt er að halda því fram, að EES-samningurinn rykfalli aðeins í skúffum ESB og sé öllum gleymdur í Brussel.

Sunnudagur, 18. 07. 10. - 18.7.2010

Veðurblíðan heldur áfram í Fljótshlíðinni. Askan angrar okkur ekki, þar sem ég dvelst.

Í dag þurfti ég að vaða á. Ég gekk í grasi til að þurrka á mér fæturna. Um leið og þeir þornuðu urðu þeir svartir af ösku. Hún er hulin í grasrótinni. Rykið við slátt hefur minnkað eftir rigningar en askan er í sverðinum.

Laugardagur, 17. 07. 10. - 17.7.2010

Þau ár, sem ég hef komið í Fljótshlíðina, held ég, að veðrið hafi aldrei verið betra en í dag. DR 1 sýnir í kvöld kvikmyndina A Little Trip to Heaven undir leikstjórn Baltasar Kormáks.  Sumar úti-senurnar voru teknar á milli Hellu og Hvolsvallar og þar stóð um tíma leikmynd úr kvikmyndinni. Ég sé nú, að í myndinni heitir staðurinn New Hastings og líkist helst heimsenda. Veðrið og fegurðin í dag hefði ekki hentað myndinni.

Myndin er gerð 2005 og er Sigurjón Sighvatsson framleiðandi. Þá er Jón Ásgeir Jóhannesson einnig kynntur sem einn af forsvarsmönnum myndarinnar.

Föstudagur, 16. 07. 10. - 16.7.2010

Eyjafjallajökull blasti svartur við fram eftir degi. Síðan jókst vindur úr norðvestri og jökullinn hvarf í ösku.

Í dag er rétt ár liðið frá því, að alþingi samþykkti að senda aðildarumsókn til Evrópusambandsins. Fyrir aðildarsinna hefur atburðarásin ekki skilað málstað þeirra auknu fylgi, þvert á móti.

Hið furðulega er, að enginn kveður sér í raun hljóðs og segir afdráttarlaust, að hagsmunum Íslands sé borgið innan ESB. Áróðurinn byggist á því, að gefa eigi Íslendingum kost á að greiða atkvæði um niðurstöðu aðlögunarviðræðnanna. Látið er í veðri vaka, að enginn leið sé að geta sér til um niðurstöðu þeirra.

Þeir, sem láta eins og einhver leyndardómur muni ljúkast upp í viðræðunum við ESB og þjóðin eigi rétt á að kynnast honum, hafa ekki viljað viðurkenna, að samningar við Breta og Hollendinga Icesave séu skilyrði fyrir ESB-aðildarviðræðum. Þeir virðast ekki átta sig á því, að Íslendingar verða að hætta hvalveiðum til að verða gjaldgengir í ESB-viðræður. Nú hafa Írar og fleiri þjóðir með þeim krafist þess, að Íslendingar hætti veiðum á makríl til að unnt sé að ræða við þá um ESB-aðild.Fimmtudagur, 15. 07. 10. - 15.7.2010

Írar sætta sig ekki við markílveiðar Íslendinga og þeir njóta stuðnings átta ríkja innan ESB, enda hefur sjávarútvegsstjóri ESB sent stækkunarstjóranum bréf til að vekja athygli hans á málinu. Með bréfinu er ætlunin að minna á nauðsyn þess, að á þessu máli verði tekið við gerð samningsrammans um Ísland. Stækkunarstjórinn ber ábyrgð á efni hans. Hvert einstakt ESB-ríki hefur neitunarvald um efni hans. Verði ekki ákvæði þar um, að Íslendingar beygi sig undir ákvörðun ESB um makríl-veiðar, samþykkja Írar ekki samningsrammann. Hér er frétt um málið.

Nú eru þrjú mál þess eðlis við gerð ESB-samningsrammans við Ísland, að framkvæmastjórnin verður að krefjast kúvendingar af hálfu Íslendinga, áður en til aðlögunarviðræðna verður gengið. Þessi mál eru: Icesave-málið, hvalveiðarnar, makrílveiðarnar.

Eiríkur Bergmann Einarsson, Evrópufræðingur á Bifröst, segir mig afbaka ummæli sín  í útvarpi 6. júlí, þegar hann sagði, að ESB mundi reka Íslendinga út af EES-svæðinu, ef þeir drægju aðildarumsóknina til baka. Þá yrði tekið á þeim vegna neyðarlaganna og gjaldeyrishaftanna. Ég mótmæli því, að ég hafi afbakað orð Eiríks Bergmanns. Ég vakti hins vegar athygli á því, hvernig Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor,  hrakti öll rök Eiríks.

Miðvikudagur, 14. 07. 10. - 14.7.2010

Í dag var Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, gestur minn á ÍNN. Við ræddum um safnadaginn sl. sunnudag, stöðu safnamála og skráningu íslenskra staða á heimsminjaskrá UNESCO.

Ég skrifaði í dag pistil á Evrópuvaktina, þar sem ég ræði gagnrýni Stefáns Más Stefánssonar prófessors á þau ummæli Eiríks Bergmanns Einarssonar, Evrópufræðings, að ESB mundi reka Ísland úr EES, ef aðildarumsóknin yrði dregin til baka.Þriðjudagur, 13. 07. 10. - 13.7.2010

Hersir Aron Ólafsson, framhaldsskólanemandi, ritar grein í Morgunblaðið í dag um nýskipan innritunar í framhaldsskóla, sem beitt hefur verið í sumar. 45% nýnema í hverjum framhaldsskóla skulu vera úr hverfi skólans. Hersir Aron segir um nýmælið: „Þetta er nýr liður í röð heimskulegra breytinga frá menntamálaráðuneytinu sem hófst með afnámi samræmdra prófa í 10. bekk.“

 Þá segir einnig í greininni:

„Það er alveg ljóst að nemendur eru misgóðir, en hvers vegna ættu unglingar að leggja sig fram og sýna metnað þegar góðar einkunnir gilda ekki neitt og ekki má verðlauna fyrir þær, þar sem það er algjör »mismunun«? Menn hljóta að spyrja sig hvort ekki verði tekið upp sama kerfi á íþróttamótum, bannað verði að veita verðlaun og viðurkenningar fyrir efstu sæti, enda felist í því mismunun gagnvart lakari íþróttamönnum og þeim sem ekki eru færir um að stunda íþróttir.“

Hersir Aron lýkur grein sinni á þessum orðum:

„Tilraunastarfsemi menntamálaráðuneytisins hefur skemmt tækifæri og raunhæf markmið margra íslenskra nemenda. Óánægjan er greinileg, þúsundir ungmenna hafa gengið í hópa á facebook til að mótmæla breytingunum og sumir hafa jafnvel lagt til raunveruleg mótmæli.

Menntamálaráðherra [Katrín Jakobsdóttir] ætti að sjá sóma sinn í því að biðjast afsökunar, og vinna að því að breytingarnar verði afturkallaðar til þess að koma í veg fyrir að fleiri árgangar verði fyrir barðinu á þeim.“

Ég tek undir þessi orð Hersis Arons. Engin haldbær rök hafa verið færð fyrir því, að skólastarf batni og árangur nemenda aukist með brottnámi allra hvata og viðmiða, sem stuðla að því, að markið sé sett sem hæst.  Athygli vekur, að framhaldskólar eru ekki lengur með neinar kynningar til að laða til sín nemendur. Þá eru ekki lengur birtar upplýsingar um árangur í grunnskólum, sem byggist á einkunnum á samræmdum prófum. 

Að þurrka þessa þætti úr skólastarfi er ekki í þágu nemenda, enda mótmæla þeir, á meðan kennarar þegja.ttur

Mánudagur, 12. 07. 10. - 12.7.2010

Nicolas Sarkozy sat í meira en klukkutíma í beinu sjónvarpssamtali við helsta fréttamann Frakklands í kvöld. Þeir sátu í garði Elysée-hallarinnar í hjarta Parísar, þar sem Frakklandsforseti hefur aðsetur.

Sarkozy ákvað að veita samtalið til að ná tökum á málum eftir stöðugar árásir í þrjár vikur á Eric Woerth, atvinnumálaráðherra Frakklands. Ráðherrann er sakaður um spillingu vegna fjármála Liliane Bettencourt, auðugustu konu Frakklands. Sarkozy sagðist bera fullt traust til Woerths. Með ómaklegum árásum á hann væru stjórnarandstæðingar að reyna að bregða fæti fyrir endurbætur á franska lífeyriskerfinu en Woerth ber ábyrgð á þeim. Þær eru þungamiðja í umbótum Sarkozys á frönskum ríkisfjármálum. Varði Sarkozy umbæturnar af miklum þunga.

Fyrir þá, sem búa hér á landi, og verða þessa mánuði að sætta sig við forystulausa ríkisstjórn, þar sem hver höndin er upp á móti annarri, væri góð áminning um, hve langt okkur hefur rekið af frá styrkri stjórn, að horfa á Sarkozy. Hvort sem menn eru sammála honum eða ekki, er ekki unnt annað en dást að rökfestunni og ákafanum.

Viðtalið við Sarkozy og áhrif þess skipta máli fyrir fleiri en Frakka. Sé ekki sterkur forseti í Frakklandi og öflugur kanslari í Þýskalandi, er pólitíska forysta Evrópusambandsins veik og ESB máttlaust. Sarkozy og Angela Merkel eiga bæði undir högg að sækja á heimavelli fyrir utan að eiga ekki skap saman. Þetta er hluti af hinum alvarlega vanda, sem steðjar að Evrópusambandinu um þessar mundir.

Sunnudagur, 11. 07. 10. - 11.7.2010

Í tilefni af safnadeginum  fórum við til Hafnarfjarðar og heimsóttum þrjú hús: Siggubæ, Bookless-Bungalow og hús Bjarna riddara Sívertsens auk þess að skoða byggðasafnið sjálft, þar sem nú er sérstök sýning tengd sögu Rafha.

Siggubær var byggður árið 1902 af Erlendi Marteinssyni sjómanni. Dóttir hans, Sigríður Erlandsdóttir, var tíu ára gömul þegar hún fluttist í húsið og bjó hún þar allt til ársins 1978 er hún fluttist á elli- og hjúkrunarheimilið Sólvang þar sem hún lést tveimur árum síðar. Bær hennar er varðveittur sem sýnishorn af verkamanns- og sjómannsheimili í Hafnarfirði frá fyrri hluta 20. aldar.  Andi Siggu og fjölskyldu hennar svífur yfir, enda hefur litlu hefur verið breytt í húsinu. Við hlið þess er skemma en þangað komu börn fyrr á árum, sem báru út Alþýðublaðið, því að Sigga var umboðsmaður þess í Hafnarfirði.

Sívertsens-húsið er elsta hús Hafnarfjarðar, byggt á árunum 1803-05 af Bjarna Sívertsen. Húsið hefur verið gert upp í upprunalega mynd. Þar er sýnt hvernig yfirstéttafjölskylda í Hafnarfirði bjó á fyrri hluta 19. aldar, auk þess sem varpað er ljósi á merkilega sögu Bjarna Sívertsens og fjölskyldu hans.

Árið 1910 hóf fyrirtækið Bookless Bros. Ltd. frá Aberdeen, fyrst útgerð og síðar fiskverkun í Svendborg eins og fiskverkunarhúsin í Hafnarfirði voru nefnd í daglegu tali. Eigendur fyrirtækisins voru bræður, Harry Bookless og Douglas Bookless. Fyrstu tvö árin gerði Bookless Bros. Ltd. út fjóra togara frá Hafnarfirði og að auki lögðu nokkrir breskir togarar upp afla sinn hjá fyrirtækinu. Lögð var sporbraut frá lóð fyrirtækisins upp að fiskreitum þess. Svendborgarhúsið var stækkað og reist voru nokkur fiskverkunarhús til viðbótar og tvö íbúðarhús og var annað þeirra fyrir starfsfólk fyrirtækisins en hitt svonefnt “Bungalow” fyrir stjórnendur fyrirtækisins. Mikið verðfall varð á fiski árið 1920 og reið það mörgum útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum að fullu. Varð sú raunin með starfsemi Bookless Bros. Ltd. í Hafnarfirði sem lauk árið 1922 er fyrirtækið varð gjaldþrota. Húsi þeirra var breytt í safn árið 2008.

Ég mæli með skoðunarferð í Hafnarfjörð til að kynnast þessum húsum og hve vel og smekklega er frá öllu gengið innan dyra og utan.


Laugardagur, 10. 07. 10. - 10.7.2010

Fórum með frændfólki að minnisvarðanum á Þingvöllum, þar sem 40 ár voru liðin frá slysinu. Það rigndi svo mikið, að við fengum inni í bústað vina til að setjast niður og eiga góða stund saman.  Það hreyfði ekki hár á höfði í logninu og kyrrðinni.

Ég sé, að í bígerð er að leita álits almennings á því, hvað eigi að gera við lóðina, þar sem Valhöll stóð. Nú er ár frá bruna hennar. Ég legg til, að lóðin fái að vera eins og hún er núna og fái að gróa. Þetta opna svæði áréttar fegurð Þingvalla án mannvirkja í þinghelginni og næsta nágrenni hennar.

Á mínum tíma í Þingvallanefnd leituðum við álits almennings á því, hvort smíða ætti nýja brú yfir Öxará við Almannagjá. Meirihluti þeirra, sem lét í sér heyra, var andvígur nýrri brú. Hin gamla stendur enn.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að gætu menn nú á dögum valið stað fyrir sambærilega aðstöðu og var í Valhöll, kysu þeir Vellina fyrir neðan og sunnan við Öxarárfoss fyrir veitinga- og móttökuhús en Skógarhóla fyrir hótel.

Landið, þar sem Valhöll stóð, sígur. Engum dettur lengur í hug að bjóða báta til leigu á Öxará eins og var gert í Valhöll á sínum tíma. Það er ekki skynsamlegt markmið að beina bílaumferð yfir Öxaraá svo nærri vatninu.

Föstudagur, 09. 07. 10. - 9.7.2010

Þegar ég gekk fram hjá stjórnarráðshúsinu um hádegisbilið, varð ég undrandi að sjá lítinn hóp fólks í portinu fyrir aftan húsið. Það lamdi potta og pönnur. Kona hrópaði í gjallarhorn í áttina að Lækjartorgi og hvatti þá, sem þar voru í veðurblíðunni að slást í hópinn. Einn lögreglumaður sást við norðausturhorn stjórnarráðshússins.

Í fréttum sjónvarps sá ég, að þeir, sem voru þarna á ferð vildu sýna Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) í tvo heimana. Starfsmenn sjóðsins hljóta að verða orðnir vanir því, að þeim sé mótmælt á ólíkum tungumálum og með ólíkum aðferðum í ólíkum löndum. Hlutverk þeirra felst í því að flytja slæmar fréttir, því að til sjóðsins er leitað, þegar allar aðrar leiðir eru lokaðar.

Nú er um það rætt innan ESB, að stofnanir á þess vegum taki á sig mynd AGS með eftirliti með fjárlagagerð og refsingu, sé ekki farið að settum, ströngum reglum í einstökum ESB-ríkjum. AGS er svo fjarri almenningi, að mótmæli hafa engin áhrif á starf sjóðsins eða stefnu. Þótt lýðræði sé ekki í hávegum haft innan ESB, eru stofnanir ESB nær almenningi en AGS. Ef ESB ætlar að feta í fótspor AGS munu lýðræðisleg áhrif á stofnanir ESB enn minnka.
Fimmtudagur, 08. 07. 10. - 8.7.2010

Ríkisstjórnin lafir eins lengi og vinstri-grænir hafa geð í sér til að standa að umsókninni um ESB-aðild. Þeir ætla að taka málið upp í haust. Vitað er, að meirihluti þeirra er á móti ESB-aðíld, samt líða vinstri-grænir Össuri Skarphéðinssyni að láta út á við, eins og hann hafi þing og þjóð á bakvið sig í ESB-bröltinu. Komi vinstri-grænir ekki í veg fyrir, að Össur sitji ríkjaráðstefnu með utanríkisráðherra Belgíu 27. júlí nk. um næsta áfanga á leið Íslands inn í ESB, sannast enn, að þeir eru heillum horfnir í málinu. Ekkert er á þá að treysta, Steingrímur J. og Árni Þór Sigurðsson ráða ferðinni. Ég fjallaði um þetta í leiðara á Evrópuvaktinni í dag, eins og lesa má hér.

Furðu vekur, hve litla athygli fjölmiðlar veita umræðunum um Ísland á ESB-þinginu í gær. Sannast enn, að Evrópuvaktin flytur bestu fréttirnar af því, sem er að gerast á vettvangi ESB, hvort sem það snertir Ísland eða annað. Þeir, sem kvarta undan því, að skorti upplýsingar um ESB, vita greinilega ekki af Evrópuvaktinni.

Utanríkisráðuneytið miðlar aðeins upplýsingum, sem snerta persónu Össurar Skarphéðinssonar. Hann ferðast til jaðarríkja Evrópu og lætur, eins og hann hafi séð hrun íslensku krónunnar og bankakerfisins fyrir og þess vegna mælt með ESB-aðild fyrir 10 árum.

Árið 1999 voru þingkosningar á Íslandi. Þá ákvað Alþýðuflokkurinn með Össur í framboði, að ESB-aðild yrði ekki á stefnuskrá flokksins, af því að hann hafði tapað fylgi vegna málsins í kosningunum 1995.
Miðvikudagur, 07. 07. 10. - 7.7.2010

ESB-þingið gaf í dag grænt ljós fyrir sitt leyti vegna aðlögunarviðræðna við Ísland. Þingmenn settu tvö skilyrði, að samið yrði um Icsave og Íslendingar hættu hvalveiðum. Tillagan um hvalveiða-skilyrðið kom frá tveimur þingmönnum græningj, öðrum frá Eistlandi hinum frá Finnlandi. Texti hennar er afdráttarlaus eins og skilyrðið, sem þýskir þingmenn settu ríkisstjórn sinni á liðnum vetri, þegar þeir gáfu henni grænt ljós vegna viðræðna við Ísland.

Ítarlegustu frásögnina um þessa samþykkt ESB-þingsins er að finna á vefsíðunni www.evropuvaktin.is Eitt er að íslenskir fjölmiðlar hafi ekki efni á því að senda menn utan til að fylgjast með málefnum, sem varða Ísland, á vettvangi ESB. Annað að fjölmiðlamenn hér heima sýnast ekki nýta sér sem skyldi þær leiðir, sem eru færar til að afla sér ítarefnis. Það er hins vegar gert á Evrópuvaktinni.

Augljóst er af öllu, sem fram kom á ESB-þinginu í dag, má ráða, að ESB ætlar að verja fé og mannafla til að snúa Íslendingum til fylgis við aðild að ESB. Nei, er ekki svar, sem menn í Brussel vilja fá í þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi. Þeim hrýs hugur við þeirri staðreynd að 60% þjóðarinnar vill ekki aðild og Samfylkingin er að einangrast í málinu.

Þriðjudagur, 06. 07. 10. - 6.7.2010

Eiríkur Bergmann Einarsson, Evrópufræðingur á Bifröst, fullyrðir, að Íslendingar hafi brotið gegn EES-samningnum með neyðarlögum og gjaldeyrishöftum. ESB sjái í gegnum fingur við okkur, af því að sótt hafi verið um ESB-aðild. Verði umsóknin dregin til baka, fáum við reiði ESB yfir okkur og jafnvel brottvísun úr EES.

Mér er óskiljanlegt, hvernig Eiríki Bergmann dettur þetta í hug. Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur eftirlit með framkvæmd EES-samningsins, eins og síðast sannaðist með afskiptum hennar af Icesave-málinu.

Dæmigert er fyrir ESB-aðildarsinna, að þeir slá fram hvers kyns fullyrðingum, án þess að rökstyðja þær. Hvar skyldi Eiríkur Bergmann finna stoð fyrir fullyrðingum sínum um refsivald ESB yfir okkur vegna neyðarlaganna eð gjaldeyrishaftanna? Fréttamenn RÚV höfðu ekki fyrir því að spyrja hann um það, þegar þeir ræddu við hann á Morgunvakt RÚV í dag. Orðum hans var tekið, eins og hann hefði lög að mæla, þótt fráleitt væri.


Mánudagur, 05. 07. 10. - 5.7.2010

Guðmundur Andri Thorsson kvaddi Fréttablaðið sem dálkahöfundur fyrir nokkru en er nú tekinn til við skriftir þar að nýju og birtir dálka sína á mánudögum. Hann leggur í dag út af því, að lögregla stöðvaði á dögunum fimm Rúmena, sem hingað komu með Norrænu og ætluðu að stunda hér ólöglega starfsemi. Finnst Guðmundi Andra greinilega ekki mjög mikið til þessarar árvekni lögreglunnar koma. Hann segir meðal annars:


„Bara að slík árvekni hefði verið til staðar þar sem hennar var þörf. Hvar voru laganna verðir þegar bankarnir buðu okkur gengistryggðu lánin meðan þeir voru að grafa undan krónunni í næsta herbergi? Hvar var lögreglan þegar bankarnir töldu okkur trú um að við hefðum efni á að kaupa íbúð þegar við höfðum það ekki - bíl, hús, pallbíl, byggja blokk, reisa hverfi, því að þeir hefðu fundið svo sniðuga hjáleið framhjá verðtryggingunni og framhjá íslensku krónunni fyrir okkur? Óhætt er að segja að eina ósýnilega höndin á svæðinu þegar þessi ósköp dundu yfir þjóðina hafi verið hinn langi armur laganna.“

Við, sem munum Baugsmálið, undrumst þessi skrif Guðmundur Andra, þegar blaðið hans Fréttablaðið var notað til að ala á því, að fjármunum væri kastað á glæ með því að rannsaka og sækja það mál. Hvort lögreglan hefði ekki eitthvað annað og betra að gera en eltast við þessa bestu viðskiptasyni þjóðarinnar, sem utanríkisþjónustunni var skipað að sinna umfram allt annað?

Líklega hefur aldrei verið gerð eins skipulögð atlaga að réttarkerfinu með stuðningi öflugra fjölmiðla og gerð var á þeim árum, sem Guðmundur Andri nefnir í grein sinni í dag. Hún var gerð undir stjórn og á kostnað þeirra manna, sem greiða Guðmundi Andra laun fyrir vinnu sína. Jóns Ásgeirs, sem dró í dag rúman milljarð úr pússi sínu til að greiða af láni fyrir ofurdýra lúxúsíbúð í New York á sama tíma og hann lætur sem hann sé ekki borgunarmaður á Íslandi. Var einhver að tala um selstöðukaupmenn síðari tíma? Þá, sem fluttu allan arðinn af verslun sinni á Íslandi til útlanda, til að geta lifað þar í ríkidæmi sínu.

Þegar Guðmundur Andri leyfir sér að tala um arm laganna á þann veg, sem hann gerir nú, ætti hann að lesa sumt af skrifum sínum á blómatíma Baugs, þegar markmið Baugsmanna var að brjóta arm laganna.

Sunnudagur, 04. 07. 10. - 4.7.2010

Í gær vakti ég máls á ósannindavaðli Reynis Traustasonar, ritstjóra DV, vegna endurtekna skrifa hans um, að ég hafi samið um fjárgreiðslur úr ríkissjóði til framhaldsskólans Hraðbrautar. Lygavafningur Reynis er settur fram í von um, að þar með takist að bregða fæti fyrir Hraðbrautina. Líklegt er, að í því efni gangi Reynir erinda vinstri-grænna, sem eru á móti einkaframtaki í menntamálum.

Í skrifum sínum um þetta mál á dv.is segir Reynir, að Benedikt Sveinsson, frændi minn og faðir Bjarna, formanns Sjálfstæðisflokksins, sé í varastjórn Hraðbrautar auk þess að vera frímúrari.  Þetta eru auðvitað ósanndindi eins og annað, sem birtist um okkur frændur undir ritstjórn Reynis.

Ósvífni Reynis er þó ekki bundin við Engeyinga í þessu máli. Hann ræðst einnig persónulega á Friðbjörn Orra Ketilsson, umsjónarmann vefsíðunnar vinsælu AMX, vegna þess að þar er vakin athygli á dv-ósannindavaðlinum.

Laugardagur, 03. 07. 10. - 3.7.2010

Ósannindavaðall DV undir ritstjórn Reynis Traustasonar tekur á sig ýmsar myndir. Er óskiljanlegt, að fjárfestum detti í hug að verja eignum sínum til að standa undir útgáfu blaðs, sem ekki hefur meiri metnað. Á dv.is er 3. júlí enn rætt illa um framhaldsskólann Hraðbraut og nafn mitt nefnt í því sambandi. Þar segir meðal annars:

„Annar Engeyingur tengist reyndar líka sögu Hraðbrautar. Þetta er Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra, en hann tryggði Hraðbraut rífleg fjárframlög frá ríkinu þegar skólinn var opnaður árið 2003.“

Ég veit ekki, hvenær samið var um fjárveitingar úr ríkissjóði til Hraðbrautar. Ég lét af störfum menntamálaráðherra í byrjun mars 2002 og varð dóms- og kirkjumálaráðherra vorið 2003 að loknum þingkosningum. Að segja mig hafa tryggt Hraðbraut „rífleg fjárframlög frá ríkisinu þegar skólinn var opnaður árið 2003“ er einfaldlega rangt.

Hraðbraut hefur reynst mörgum góður skóli. Hér í Fljótshlíðinni var til dæmis nemandi úr skólanum verðlaunaður 17. júní fyrir dugnað og metnað í námi, því að hún hafði orðið stúdent 16 ára.

Sé það vilji vinstri-grænna innan og utan menntamálaráðuneytisins að loka þessum einkarekna framhaldsskóla og sé sú leið valin til þess, að mata DV á óhróðri og upplýsingum, eru heimildarmennirnir ekki upp á marga fiska, ef þeir segja mig hafa samið við stjórnendur Hraðbrautar um fjárframlög á árinu 2003. Líklegast er þó, að þarna ráði Reynir Traustason, sem ber illan hug til mín og nokkurra frænda minna.

Föstudagur, 02. 07. 10. - 2.7.2010

Hélt frá Reykholti að loknum qi gong tíma, morgunverði og stuttum fundi með heimamönnum, þar á meðal í Snorrastofu . Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur endurkjörið mig til setu í stjórn hennar.

Síðan ég var síðast í Fljótshlíðinni hefur aska aukist dálítið við bæinn en ekkert í átt við það, sem áður var.
Fimmtudagur, 01. 07. 10. - 1.7.2010

Við hófum daginn í Reykholti á qi gong æfingum klukkan 08.15 í ráðstefnusalnum í skólahúsinu, þar sem áður var sundlaugin. Deginum lukum við á sama stað um klukkan 23.00 eftir að Gunnar Eyjólfsson hafði efnt til kvöldvöku, þar sem hann flutti meðal annars ljóð Matthíasar Johannessen Hrunadansinn.

Gunnar staldraði sérstaklega við ljóðið, þar sem Matthías yrkir um hernámsdaginn 10. maí 1940. Hann spurði, hvort einhverjir í hópnum myndu eftir deginum og hvaða minningu þau ættu. Nokkrir gáfu sig fram og allir áttu einhverja minningu, sem þeim var ekki horfin.

Kona sagðist hafa búið í sama húsi og stúlka, sem átti vingott við þýskan skipbrotsmann. Minntist hún þess, þegar Bretar komu, handtóku Þjóðverjann og fóru með hann á brott við mikla sorg stúlkunnar. Konan sagði einnig, að faðir sinn hefði keypt eyju í Breiðafirði, til að hann gæti komið henni og systur hennar í öruggt skjól fyrir hermönnunum.

Öll aðstaða til heilsudvalar af þessu tagi er hin besta hér í Reykholti. Allur aðbúnaður á Fosshótelinu til fyrirmyndar eins og staðurinn í heild. Mikið er um matargesti á hótelinu og komust færri að en vildu í hádeginu.