Dagbók: ágúst 2013

Laugardagur 31. 08. 13 - 31.8.2013 23:10

Það er mun minna af berjum við Rauðaskriður í ár en 2012 og 2011. Nokkrir voru þó að tína þar í dag.

Barack Obama segist vilja beita hervaldi gegn Assad Sýrlandsforseta vegna efnavopna-árásarinnar. Það kemur ekki á óvart, efnavopn eru gjöreyðingarvopn. Obama vill hins vegar að Bandaríkjaþing gefi sér grænt ljós. Honum er ekki skylt að leita samþykkis þingsins. 


Föstudagur 30. 08. 13 - 30.8.2013 23:40

Í dag klukkan 17.15 flutti Marta Andreasen, ESB-þingmaður úr breska Íhaldsflokknum, erindi í Háskóla Íslands á vegum samtaka gegn ESB-aðild. Ræddi hún hvert ESB stefndi. Hún sagðist ekki hafa orðið andstæð ESB fyrr en eftir að hún starfaði þar í nokkra mánuði sem yfirmaður bókhaldsdeildar og kynntist spillingu og sóun í framkvæmdastjórn sambandsins.

Hún var kjörin á ESB-þingið 2009 fyrir UKIP, flokk breskra sjálfstæðissinna. Hún sagði skilið við flokkinn í ársbyrjun 2013 og gekk í breska Íhaldsflokkinn. Hún bindur miklar vonir við að stefna íhaldsmanna undir forystu Davids Camerons muni leiða til þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi um aðildina að ESB og niðurstaða hennar muni valda þáttaskilum innan Evrópusambandsins og vekja þjóðir og ráðamenn til vitundar um nauðsyn lýðræðislegri stjórnarhátta. Þeir verði til þess að gjörbreyta ESB en hún telur sambandinu stjórnað af embættismönnum „mandarínum“ í Brussel sem hafi framkvæmdastjórnarmenn í vasanum. ESB-þingið sé eins og stimpill fyrir framkvæmdastjórnina og þar sé samstaða milli stærstu þingflokka um afgreiðslu mála. Þingmenn vilji helst ganga lengra í átt til sambandsríkis en framkvæmdastjórnin.

Andreasen var spurð hvort hún héldi, ræddu Íslendingar áfram um aðild við ESB, að þeir fengju sérlausn í sjávarútvegsmálum. Hún sagði að væri um varanlega sérlausn að ræða yrði að tryggja hana með „opt out“, það er varanlegri undanþágu frá Lissabon-sáttmálanum og það yrði ekki gert án þess að breyta honum. Þá breytingu yrði að bera undir þjóðþing allra ESB-ríkja. Það væri formlega hlið málsins og mjög sterk rök þyrfti til að þetta yrði gert. Efnislega yrðu menn að hafa í huga að ESB hefði mótað sameiginlega stefnu í landbúnaðarmálum annars vegar og sjávarútvegsmálum hins vegar – það væri óhugsandi að fá „opt out“ frá þessum stefnum.

Ég stjórnaði fyrirspurnalið fundarins sem var vel sóttur og margir lögðu fram spurningar.

Fimmtudagur 29. 08. 13 - 29.8.2013 20:45

Jón Gnarr borgarstjóri snerist til varnar fyrir nýja aðalskipulagið í fréttatímum ríkisútvarpsins í dag og hafnaði sjónarmiðum þeirra sem telja mikilvægt öryggismál að Reykjavíkurflugvöllur standi nærri Landspítalanum. Hann gat auðvitað ekki fært nein rök fyrir sjónarmiði sínu heldur talaði eins og þetta mundi allt reddast þótt flugvöllurinn yrði fluttur. 

Augljóst er að borgarstjóra hefur verið att á foraðið vegna þess að málsvarar skipulagsins eru í öngum sínum vegna hinnar miklu andstöðu við það sem birtist í meira en 60.000 undirskriftum til stuðnings flugvelli í Vatnsmýrinni.

Það er óralangur vegur frá því að Hólmsheiði gæti talist raunhæfur kostur sem flugvallarstæði fyrir miðstöð íslensks innanlandsflugs. Bæði Flugfélag Íslands sem hefur sinnt mest öllu áætlunarflugi til og frá Reykjavík undanfarin 75 ár og Isavia ohf. sem rekur alla flugvelli á Íslandi, hafa fyrr í ár alfarið og formlega hafnað þeim kosti.

Þrátt fyrir þessa staðreynd lagði Arnar Páll Hauksson, fréttamaður ríkisútvarpsins, ögrandi og hlutdrægar spurningar fyrir viðmælanda sinn í Speglinum í kvöld sem hefðu hæglega verið samdar af þeim sem hundsa allar staðreyndir í umræðunni um flugvöllinn í Vatnsmýrinni og láta enn eins og unnt sé að finna annan stað fyrir innanlandsflugvöll í Reykjavík.

 

 

Miðvikudagur 28. 08. 13 - 28.8.2013 22:55

Í dag tók ég viðtal við Ragnar Axelsson (Rax) ljósmyndara í tilefni af nýrri glæsilegri bók hans Fjallaland. Viðtalið má næst sjá á ÍNN á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Niðurstöður lesskimunarkönnunarinnar í grunnskólum Reykjavíkur á ekki að gera opinberar. Hver skóli fær að vita sitt meðaltal og hvar hann stendur miðað við meðaltal hinna skólanna og foreldrar fá að vita hvar börn þeirra standa, en lengra nær það ekki.

Oddný Sturludóttir, formaður skóla- og frístundaráðs, sagði í Morgunblaðinu þriðjudaginn 27. ágúst að listar yfir það hvar skólar stæðu í könnunum og skimunum væru ekki birtir: „Þetta eru í eðli sínu umbótatæki fyrir hvern og einn skóla en ekki til að ýta undir samkeppni milli skóla sem í alþjóðlegri umræðu um menntamál þykir hvorki til þess fallið að auka gæði né auka jafnræði.“

Af þessu tilefni segir í leiðara Morgunblaðsins í dag:

„Þetta er undarleg heimspeki og fróðlegt væri að vita hvar þessi alþjóðlega umræða um menntamál fer fram. Hvernig í ósköpunum getur það verið skaðlegt að það komi fram hvar skólar standa? Er það vegna þess að þá gætu foreldrar viljað senda börn sín annað í skóla? Er þá ekki nær að segja að það séu vörusvik að halda þeim upplýsingum frá foreldrum og nemendum hvernig tilteknir skólar standa sig? Og það gæti jafnvel leitt til þess að börn, sem ganga í viðkomandi skóla, njóti ekki jafnræðis við börn úr öðrum skólum síðar á námsleiðinni?“

Hér skal dregið í efa að Morgunblaðið fái nokkru sinni svör við þessum spurningum frá borgaryfirvöldum. Þau munu ekki birta þesssar upplýsingar nema þeim sé gert það skylt með lögum. Á sínum tíma beitti ég mér fyrir að birtar voru upplýsingar um niðurstöðu í samræmdum prófum. Nú er það ekki lengur gert og auk þess hafa prófin verið afnumin í lok grunnskóla. Þetta er mikil afturför sem orðið hefur fyrir þrýsting frá kennurum sem finnst íþyngjandi og óþægilegt að starfa undir því gegnsæi sem felst í þessari upplýsingamiðlun.

 

Þriðjudagur 27. 08. 13 - 27.8.2013 23:40

Mikill hiti er í mörgum vegna skipulagsmála í Reykjavík um þessar mundir. Í dag var efnt til fjölmenns fundar í Hagaskóla vegna tilraunastarfsemi borgaryfirvalda á Hofsvallagötunni þar sem sett hafa verið tákn sem eru ekki reist á neinum skráðum umferðarmerkjum og enginn með neinni vissu hvað þýða. Tilgangurinn með merkjunum er að heyja stríðið við einkabílinn með nýjum vopnum. Auðvitað er þetta ekki stríð við bílinn heldur borgarana sem nota hann. Tilraun til að breyta háttum borgarbúa – borgaryfirvöld telja sig til þess bær að gerast uppalendur ökumanna án þess að fara hefðbundnar leiðir innan ramma umferðarlaga.

Einkennilegt er að ekki skuli neinn kjörinn fulltrúi hafa staðið fyrir máli borgarstjórnar sem framsögumaður á fundinum í Hagaskóla. Hvað býr þar að baki? Hvers vegna er embættismönnum falið að verja umdeilda ákvörðun af þessu tagi? Ráða ekki pólitísk sjónarmið ákvörðuninni um að prófa þessa nýju aðferð gegn einkabílnum?

Tilraunir borgarfulltrúanna sem berjast gegn Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni til að sannfæra aðra um ágæti skoðana sinna eru dæmdar til að mistakast. Látið er eins og að baki búi einhver óskilgreind sérþekking á hvað fólki sé fyrir bestu. Í krafti hennar sé sjálfsagt að blása á skoðun meirihlutans. Að þessu leyti eru tengsl milli andúðar á flugvellinum og einkabílnum. Spurning vaknar hvort talsmönnum þessarar stefnu sé almennt á móti skapi að fólk eigi auðvelt með að komast úr einum stað í annan.

Á nokkrum árum hefur verið ráðist í byggingar skrifstofuhúsa við Borgartún. Þar hefur verið staðið að skipulagi á þann hátt að illmögulegt er að finna stæði fyrir bíla. Ætli þeir sem völdu sér starfsstöð þarna hafi áttað sig á víglínunni gegn einkabílnum í Borgartúni?

Mánudagur 26. 08. 13 - 26.8.2013 23:30

Ken Cohen hélt frá Kvoslæk í morgun og ætlaði að aka um Gullfoss, Geysi og Þingvelli til Reykjavíkur. Hann var í góðum höndum.

Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði á sínum tíma að hann mundi ekki beita bandarískra hernum í Sýrlandi nema þar sannaðist að efnavopnum hefði verið beitt. Það hefur nú verið gert? Hvað gerir Obama?

Rússar og Kínverjar beita neitunarvaldi í öryggisráðinu til stuðnings eiturvopnabeitingunni. Hvað væri sagt ef Bandaríkjamenn, Bretar eða Frakkar svo að ekki sé minnst á Ísralea stæðu með illvirkjanum sem situr á forsetastóli í Sýrlandi?


Sunnudagur 25. 08. 13 - 25.8.2013 23:20

Námskeiðinu með Ken Cohen lauk í dag að Kvoslæk. Hann er sannkallaður qi gong meistari og einstakur sögumaður og fyrlrlesari.

Laugardagur 24. 08. 13 - 24.8.2013 23:30

Ken Cohen hélt fyrri hluta námskeiðs í qi gong að Kvoslæk. Hann er einstakur kennari og hafsjór af fróðleik um sögu qi gong og kínverskra meistara í æfingunum. Hann hefur ekki aðeins stuðlað að fræðslu um qi gong á Vesturlöndum heldur einnig haft mikil áhrif í Kína.

Föstudagur 23. 08. 13 - 23.8.2013 23:55

Ken Cohen flutti frábæran fyrirlestur um qi gong í dag í húsi Krabbameinsfélagsins á vegum Aflsins í samvinnu við ráðgjafaþjónustu Krabbameinsfélagsins.

Fimmtudagur 22. 08. 13 - 22.8.2013 22:30

Utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson kynnti utanríkismálanefnd alþingis í dag álit lögfræðinga um gildi þingsályktana og er það í samræmi við viðtekna stjórnlagafræðilega skoðun í landinu til þessa. Gildi pólitískra ályktana ræðst af því hvort meirihluti er fyrir þeim á hverjum tíma. Nú hafa þeir sem stóðu að ályktuninni um aðild Íslands að ESB ekki lengur meirihluta á alþingi, nýr meirihluti á þingi er ekki bundinn af því sem hann er ósamþykkur þegar um pólitíska stefnumörkun er að ræða.

Viðbrögð stjórnarandstæðinga eru með ólíkindum. Kristján L. Möller, einn varaforseta alþingis, ætlar að fara með klögumál inn í forsætisnefnd þingsins. Björn Valur Gíslason, varaformaður VG, lætur eins og tilraun hafi verið gerð til valdaráns. Hann spyr á vefsíðu sinni: „Þegar ríkisstjórn ónýtir ákvarðanir Alþingis sem kosið var með lögmætum hætti í lýðræðislegum kosningum – er það þá ekki næsti bær við valdarán?“ Hafi hann lesið álitið, hefur hann ekki skilið það. Ætli hann viti hvað felst í þingræðisreglunni?

Mörður Árnason gengur lengst í vitleysunni og dregur þá ályktun að aðildin að NATO frá árinu 1949 sé marklaus af því að hún hafi verið samþykkt með þingsályktun. Hve margar misheppnaðar tilraunir hafa síðan verið gerðar til að fá ályktuninni hnekkt? Er það ekki enn á stefnuskrá VG að Ísland eigi að hverfa úr NATO? Það hefur hins vegar aldrei tekist að skapa þingmeirihluta um þá stefnu.

Ég tel að þessi afstaða stjórnarandstæðinga gegn rökstuddu áliti sem styðst við viðtekna fræðilega skoðun í stjórnlagarétti sé skólabókardæmi um það hvernig stjórnmálamenn grafa undan virðingu alþingis. Ég skrifaði um það á Evrópuvaktina eins og hér má lesa.

Miðvikudagur 21. 08. 13 - 21.8.2013 22:50

Heimir Már Pétursson er fréttamaður hjá 365 um þessar mundir. Hann hefur víða drepið niður fæti. Á sínum tíma var hann framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins og reyndi fyrir sér innan Samfylkingarinnar, meðal annars í prófkjöri til þings 1999.

Vegna umræðna um málefni ríkisútvarpsins segir Heimir Már í grein í Fréttablaðinu í dag:

„Það er sorglegt og raunar ekkert annað en ógnvænlegt hvernig hluti valda- og á stundum forréttindastéttarinnar í landinu ræðst ítrekað með ruddalegum dólgshætti að fréttastofu Ríkisútvarpsins og oft nafngreindum fréttamönnum þar. Þetta er slíkur ruddaskapur að sæmir ekki siðuðu samfélagi sem, í orði alla vega, kennir sig við lýðræði.“

Heimir Már rökstyður ekki þessi stóryrði sín. Hvaða dæmi hefur hann í huga þegar notar orðin „ruddalegum dólgshætti“?

Þá hefur Morgunblaðið gerst sekt um að ráðast „af blindri heift og vænisýki að fréttastofu Ríkisútvarpsins“ að mati Heimis Más. Hann nefnir ekki eitt dæmi til marks um þetta.

Þá fullyrðir fréttamaðurinn að hér á landi sé hópur fólks sem „þolir ekki lýðræðislega og opna umræðu. Er beinlínis í nöp við hana. […] Fólk sem hugsar með þessum hætti er til óþurftar í lýðræðislegu samfélagi og er því raunar einstaklega hættulegt. Um það vitnar mannkynssagan“.

Í þessum orðum felst að réttlætanlegt sé að ganga gegn sjónarmiðum hóps manna af því að hann sé til „óþurftar í lýðræðislegu samfélagi“ og þetta fólk sé raunar „einstaklega hættulegt“ lýðræðislegu samfélagi. Á þennan veg er jafnan talað um pólitíska hryðjuverkamenn í fréttum. Ber ekki fréttamanni að upplýsa almenning eða yfirvöld um hverjir skipa slíkan hóp manna viti hann af honum?

Um kynni sín af stjórnmálamönnum segir Heimir Már: „margir þeirra þrífast á samsærum, baknagi, svikum og prettum til að ná sínu fram, hvort sem það snertir persónulega hagsmuni þeirra sjálfra, eða hagsmuni sem þeir beita sér fyrir og vilja með góðu eða illu troða ofan í þjóðina“.

Þegar þessi reiðilestur fréttamannsins er skoðaður vaknar spurningin: Hvaða tilgangi þjóna þessi stóryrði? Allir menn hafa rétt til að segja skoðun sína á ríkisútvarpinu eins og öðrum stofnunum ríkisins. Hvað hefur verið sagt sem réttlætir stóryrði Heimis Más? Hvernig væri að hann nefndi eitt einasta dæmi til að réttalæta hinar alvarlegu ásakanir? Það er háttur vandaðra fréttamanna.

Þriðjudagur 20. 8. 13 - 20.8.2013 23:55

Í nýjasta hefti The Economist er sagt frá því að The New York Times (NYT) sé með mesta netáskrift allra dagblaða, 700.000 áskrifendur. Fyrir nokkrum vikum bauð NYT 12 vikna áskrift fyrir 5 dollara, síðar var tilboðinu breytt í 99 cent fyrir 12 vikur. Eftir það kostar áskriftin mismikið á mánuði eftir því hvers eðlis hún er, t.d. 20 dollara á mánuði fyrir net og iPad-áskrift.

Ég fylgist með nokkrum fjölmiðlum á netinu og hefur enginn sótt jafnfast að laða þá sem eru á póstlista sínum til að gerast áskrifendur og NYT. Það hefur greinilega borið góðan ávöxt eins og fram kemur í The Economist. Varla hagnast þó neinn að bjóða 12 vikur fyrir 99 cent, rúmar 100 krónur. Tilgangurinn er greinilega að fá menn til að fallast á að greiða fyrir aðgang að fréttamiðlun.

Af þeim blöðum sem ég þekki dáist ég mest af því hvernig Le Monde hefur lagað sig að hinni nýju tækni, blað sem fyrir fáeinum árum birti ekki ljósmyndir á síðum sínum stendur nú mjög framarlega við miðlun frétta á netinu.

Meðal þess sem einkennir NYT og Le Monde er skjót miðlun frétta sem ritstjórnirnar telja miklu skipta og sending skeyta um þau í tölvupósti. Er forvitnilegt að bera saman hver er fyrstur með fréttina og hvað er talið fréttnæmast hjá hverjum fyrir sig. Almennt séð er ekki mikill munur á fréttamatinu.

Mánudagur 19. 08. 13 - 19.8.2013 23:10

Hér skal enn einu sinni látin í ljós undrun yfir hvernig ESB-aðildarsinnum í Sjálfstæðisflokknum dettur í hug að afflytja stefnu flokksins. Raunar er með ólíkindum að Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingflokksormaður skuli ganga fram fyrir skjöldu í ESB-málinu á þann hátt sem hún gerir í Fréttablaðinu. Að láta eins og landfundur sjálfstæðismanna hafi fyrir kosningar skuldbundið kjörna fulltrúa flokksins til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald ESB-viðræðnanna á kjörtímabilinu sem hófst 27. apríl 2013 er einfaldlega ekki rétt.

Gunnar Gunnarsson ræddi við Vilhjálm Bjarnason, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í Spegli ríkisútvarpsins mánudaginn 19. ágúst. Gunnar sagði:

„Þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðnanna, það er skýrt. En utanríkisráðherra Framsóknarflokksins er á annarri skoðun og kannski fleiri úr hans flokki en það breytir ekki stjórnarsáttmálanum. Vilhjálmur Bjarnason, hvenær verður umrædd þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðnanna?“

Vilhjálmur gekk ekki í vatnið eins og þinflokksformaður sjálfstæðismanna þótt  Gunnar Gunnarsson setti stjórnarsáttmálann fram á rangan hátt. Það sem Gunnar segir skýrt í stjórnarsáttmálanum stendur þar ekki heldur hitt að hlé verði gert á ESB viðræðunum og „ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu“. Ekkert segir um að stjórnaflokkarnir ætli að leggja fram tillögu um framhald viðræðnanna enda eru þeir báðir andvígir þeim.

Sunnudagur 18. 08. 13 - 18.8.2013 22:10

Það er árátta hjá ESB-aðildarsinnum að líta alltaf þannig á að það sem þeir vilja skuli hafa forgang en ekki sameiginleg niðurstaða þeirra sem ráða ákvörðun að lokum. Þessu hafa menn kynnst á vettvangi Sjálfstæðisflokksins. Þar hefur hvað eftir annað verið ályktað á þann veg að flokkurinn telji hagsmunum íslensku þjóðarinnar best borgið utan ESB.

ESB-aðildarsinnum er þetta ekki að skapi og sumir yfirgáfu flokkinn fyrir kosningar í apríl 2009 og kusu Samfylkinguna eða tóku þátt í auglýsingaherferð með henni. Á landsfundi 2011 áréttaði Sjálfstæðiflokkurinn andstöðu við ESB-aðild og samþykkti að gert yrði hlé á aðildarviðræðunum sem hófust 2009, þær yrðu ekki hafnar að nýju nema með samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu. Á landsfundi 2013 var orðinu „hlé“ breytt í „hætt við“ – því reiddust aðildarsinnar og höfðu í hótunum fyrir kosningar í apríl 2013. Þá galt ESB-aðildarstefnan hins vegar afhroð með hruni Samfylkingarinnar.

ESB-viðræðunum hefur verið hætt og stækkunardeild ESB veitir ekki lengur aðlögunarstyrki.

Sumarið 2009 máttu ESB-aðildarsinnar ekki heyra á það minnst að leitað yrði til þjóðarinnar áður en aðildarumsókn yrði send til Brussel. Tillaga um það var felld á alþingi og mátti helst skilja suma spekinga í hópi aðildarsinna á þann veg að þeir væru hálfgerðir bjálfar sem vildu slíka atkvæðagreiðslu. Hún þekktist ekki meðal siðmenntaðra þjóða.

Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald ESB-viðræðnanna ekki tímasett. Það er skiljanlegt í ljósi þess að hvorugur flokkanna vill halda þeim áfram. Nú bregður hins vegar svo við að ESB-aðildarsinnar láta eins og þeim sé ekkert kærara en þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort ræða eigi áfram við ESB, annað sé svik við kjósendur! Í þingkosningunum höfnuðu kjósendur þeim sem vilja halda ESB-viðræðunum áfram, að vinna að því væri svik við kjósendur.

 

Laugardagur 17. 08. 13 - 17.8.2013 22:20

EBS-umsóknin er að baki, hvorugur stjórnarflokkanna vill aðild að ESB. Málsmeðferð flokkanna er hins vegar á þann hátt að málið er enn eins og á byrjunarstigi tæpum þremur mánuðum eftir að stjórnin var mynduð.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í ríkisútvarpinu í dag að flokkarnir hefðu ekki rætt málið. ESB-aðildarsinnarnir á fréttastofu ríkisútvarpsins og Þorsteinn Pálsson sem sat í ESB-viðræðunefnd Össurar Skarphéðinsson gera sér mat úr hverjum mola sem fellur og þeir telja að megi nota til að japla áfram á aðildarboðskapnum.

Málflutningurinn minnir helst á tilraunir Halldórs Jóhannssonar, umboðsmanns Huangs Nubos, til að halda lífi í umsókn hans um að eignast Grímsstaði á Fjöllum. Í því máli er hver moli nýttur til ýtrasta svo að villuljósið slokkni ekki. Huang Nubo fær aldrei aðstöðu á Grímsstöðum. Sá stjórnmálamaður sem lætur eins og það gerist fær sömu útreið í kosningum og Samfylkingin vegna ESB-málsins. Hvaða heilvita maður velur þann kost?

Ríkisstjórnin er með of marga bolta á lofti. Hún verður að taka af skarið á þann veg að málum sé lokið eða þau séu „tengd í jörð“ eins og Davíð Oddsson orðaði það. Til þess verða menn að ræða málin til hlítar milli stjórnarflokkanna.

Föstudagur 16. 08. 13 - 16.8.2013 23:56

Samtal mitt á ÍNN við Guðmund G. Þórarinsson verkfræðing um Lewis-taflmennina er komið á netið og má sjá hann hér.

Þegar ég gegndi embætti menntamálaráðherra máttu framsóknarmenn ekki heyra orðinu hallað um ríkisútvarpið og stóðu gegn öllum róttækum breytingum á því. Nú nær óánægja með stofnunina langt inn í þingflokk framsóknarmanna og sumir ná vart andanum vegna reiðilegra ummæla Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, um útvarpið. Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, er í forystu fyrir fésbókarsíðu til eftirlits með ríkisútvarpinu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra skrifaði harða ádeilugrein á ríkisútvarpið í Morgunblaðið.

Hér er um sögulega pólitíska þróun að ræða sem ber með sér að núverandi stjórnendum ríkisútvarpsins hefur tekist að skapa sér óvild innan stjórnmálaflokks sem fyrir fáeinum árum mátti ekki heyra á það minnst að hróflað yrði við ríkisútvarpinu.

Sjónarhorn fréttastofu ríkisútvarpsins er ekki aðeins á skjön við viðhorf meirihluta þjóðarinnar heldur hefur stofnunin brotið brýr að baki sér hjá hinum ráðandi pólitísku öflum. Forystumenn útvarpsins bjarga ekki málinu með árásum á Morgunblaðið og ritstjóra þess. Forstokkun er ríkjandi á fréttastofunni í Efstaleiti og þeir sem eiga að vera óhlutdrægir hafa gripið til vopna  og dregið víglínu á þann hátt sem aldrei hefur verið gert áður. Þeir eru dæmdir til að tapa og spurning hvort ríkisútvarpið lifir.

 

Fimmtudagur 15. 08. 13 - 15.8.2013 22:50

Í marga áratugi hefur verið deilt um fréttaflutning og efnistök ríkisútvarpsins. Umræðurnar um útvarpið hafa hins vegar ekki komist á sama stig og nú og þar ræður mestu hvernig stjórnendur ríkisútvarpsins taka á málum, útvarpsstjóri Páll Magnússon og fréttastjóri Óðinn Jónsson.  Þeim er sérstaklega uppsigað við Morgunblaðið undir ritstjórn Davíðs Oddssonar sem hefur hvað eftir annað bent á hlutdrægni fréttastofunnar og fært rök fyrir gagnrýni sinni. Finni þeir Páll og Óðinn snöggan blett á því sem um þá er sagt í Morgunblaðinu er eins og þeir hafi himin höndum tekið. Þá hefur einn fréttamanna ríkisins ákveðið að lögsækja Pál Vilhjálmsson bloggara sem gagnrýndi efnistök í fréttum.

Fréttablaðið tekur afstöðu með ríkisútvarpinu eins og sést  af leiðara blaðsins í dag þar sem Ólafur Þ. Stephensen ritstjóri krefst afsagnar eða brottrekstrar Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, úr tveimur þingnefndum vegna þess að hún hafi sagt hluti um ríkisútvarpið sem særðu réttlætiskennd ritstjórans.

Hér á síðunni hefur síðan 1995 margoft verið bent á það sem betur má fara hjá ríkisútvarpinu og ávallt leitast við að færa rök fyrir því. Þegar gagnrýni var færð fram á meðan ég sat á þingi og gegndi ráðherrastöðu varð stundum uppnám vegna þess sem hér var sagt þótt lætin hefðu aldrei orðið á þann veg sem nú birtist.  

Hið einkennilega er að æsingurinn allur virðist ráðast meira af hver gagnrýnir ríkisútvarpið en um hvað gagnrýnin snýst. Hverjum dettur í hug að Vigdís Hauksdóttir geti upp á sitt eindæmi sem formaður fjárlaganefndar eða nefndarmaður í hagræðingarnefnd skorið niður fjárveitingar til ríkisútvarpsins? Engum heilvita manni. Árásunum á hana og ritstjóra Morgunblaðsins er ætlað að þagga niður í gagnrýnendum. Öllu er beitt að fordæmi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem stýrir Fréttablaðinu á bakvið tjöldin.

Þegar umræðan á ríkisútvarpið hefur færst á núverandi stig verður hún stofnuninni aðeins til meira tjóns. Stjórnendur útvarpsins eru engir menn til að leiða málið friðsamlega til lykta. Spurning er hvað stjórn stofnunarinnar gerir. Finnst henni eðlilega að málum staðið af hálfu innanhússmanna?


Miðvikudagur 14. 08. 13 - 14.8.2013 22:05

Í dag ræddi ég við Guðmund G. Þórarinsson verkfræðing í þætti mínum á ÍNN um Lewis-taflmennina svonefndu og þá kenningu að þeir hafi verið gerðir á Íslandi. Þátturinn verður sýndur á miðnætti og á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Í Spegli ríkisútvarpsins í kvöld var rætt um hugleiðslu sem „innhverfa íhugun“ og látið eins og það væri eitthvað undarlegt við að hjá Google og fleiri fyrirtækjum í Silicon Valley hvettu stjórnendur til hugleiðslu. Tónninn í frásögninni bar þess merki að blaðamanninum þætti þetta að minnsta kosti skondið ef ekki eitthvað enn undarlegra.

Hugleiðsla hefur verið stunduð öldum saman og hin síðari ár hefur hún gengið í endurnýjun lífdaga og öðlast sífellt meiri útbreiðslu, ekki aðeins innan fyrirtækja heldur einnig að tilmælum lækna og innan dyra í sjúkrahúsum.

Í maí birti Der Spiegel langa grein um áhrif hugleiðslu á heilsu og heilbrigði og skömmu síðar birtist grein um sama efni á forsíðu franska vikuritsins Le Point. Í júlí var franska tímaritið Sciences et Avenir með forsíðugrein um að hugurinn læknaði líkamann. Þar var bent á að slægi maður orðunum health og meditation inn á Google fengi maður um 110 milljón tilvísanir. Þetta sýndi best hve þetta tvennt væri tengt.  

Ýmsar aðferðir eru notaðar við hugleiðslu en rótin er hjá búddamunkum og víða tengist hugleiðsla trúarbrögðum og trúariðkun en hún er í raun hlutlaus í þessu efni því að í hugleiðslu ber að hvíla huga og hugsun í þögn.

Qi gong er ein aðferðanna sem notaðar eru til að ná árangri í hugleiðslu. Föstudaginn 23. ágúst klukkan 16.00 flytur Ken Cohen, meistari í qi gong frá Bandaríkjunum, fyrirlestur í húsi Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins að Skógarhlíð 8. Cohen er vinsæll og virtur fyrirlesari í Bandaríkjunum og þarna gefst einstakt tækifæri til að kynnast þessari leið til hugleiðslu.

 

Þriðjudagur 13. 08. 13 - 13.8.2013 23:10

2 Guns hin nýja kvikmynd Baltasar Kormáks var forsýnd í Smárabíói í kvöld og sá ég hana í boði Gunnars Eyjólfssonar, guðföður Baltasars.

Í stuttu máli skemmtum við okkur prýðilega. Baltasar heldur fagmannlega á hinum flókna, hraða og spennandi söguþræði. Á einu stigi myndarinnar þótti mér þræðirnir  svo flóknir og ævintýralegir að það þyrfti hjáleið undir lokin til að dæmið gengi upp. Svo var ekki og er það ekki síst markvissri yfirsýn leikstjórans að þakka. Blóðbaðið var að vísu töluvert án þess að nokkur tæki það sérstaklega nærri sér. Í stuttu ávarpi fyrir sýninguna sagði Baltasar að sér hefði komið á óvart að í Ameríku kipptu menn sér helst upp yfir því að skotið væri á hænur í myndinni!

Tvíleikur Denzels Washingtons og Marks Wahlbergs sýnir hvernig leikstjóra tekst að stilla tvo ólíka stórleikara inn á þá bylgjulengd sem dugar til að blása lífi í atburðarás sem ella einkenndist aðeins af hrottaskap.

Í frétt sem birtist hjá AP-fréttastofunni um myndina segir Nikki Rocco, dreifingarstjóri Universal, að 2 Guns standi undir væntingum fyrirtækisins og að velgengni myndarinnar megi rekja til íslenska leikstjórans Baltasar Kormáks og að í fyrsta sinn megi sjá Washington og Wahlberg í tvíleik.

„Þetta er einvalalið,“ sagði hún. „Þarna má sjá einstakan samleik. Þessir tveir vinna svo vel saman. Þið sjáið það á tjaldinu. Baltasar veitti þeim einfaldlega kraft sem gerði þeim kleift að gera það sem þeir sýna í þessari mynd.“

Næst ætlar Baltasar að klífa Everest. Sigrum hans er ekki lokið.

Mánudagur 12. 08. 13 - 12.8.2013 21:40

Hvað eftir er ástæða til undrast skrif Stefáns Ólafssonar prófessors sem einkennast annaðhvort af vanþekkingu eða hreinni ósvífni. Stefán heldur uppi vörnum fyrir IPA-styrkina og rökstyður gagnrýni á andstæðinga þeirra á vefsíðunni Eyjuna sunnudaginn 11. ágúst m.a með þessum orðum:

„Mikill fégróði var tryggður frá Bandaríkjamönnum í gegnum hermangið og t.d. helmingaskiptaregluna sem Íslenskir aðalverktakar voru reknir eftir. Þannig má segja að efnahagsleg þýðing bandaríska hersins hafi verið umtalsverð frá um 1950 og næstu áratugina þar á eftir. Yfir tíma dróg (svo!) úr umfanginu.[…]

En þegar talsmenn vestrænnar samvinnu, sem aldrei sáu neina ógn við sjálfstæði landsins af gríðarlegu efnahagslegu og pólitísku hlutverki Bandaríkjanna hér á landi, fara offari yfir smápeningum sem ESB veitir ríkjum sem sækja um aðild í umbótastyrki, þá finnst mér tvískinnungurinn keyra um þverbak. Tvískinnungur og óheilindi í málflutningi þeirra um ESB er í samræmi við það.“

Getur verið að Stefán Ólafsson hafi ekki hugmynd um deilurnar vegna Aronskunnar svonefndu sem miðaði að því að gera varnarsamstarfið að féþúfu? Í þeirri deilu skipaði Morgunblaðið sér í sveit með meirihluta sjálfstæðismanna og talsmenn vestrænnar samvinnu snerust almennt gegn Aronskunni, hún náði ekki fram að ganga. Við Styrmir Gunnarsson vorum í hópi þeirra sem börðumst af þunga gegn Aronskunni, það er því einstaklega ómaklegt af Stefáni Ólafssyni gera lítið úr andstöðu okkar við IPA-styrki á þann hátt sem hann gerir.

Bandaríkjamenn greiddu fyrir þjónustu og vörur sem þeir keyptu og stóðu undir kostnaði við uppbyggingu á varnarsvæðinu. Þegar skilið var á milli hernaðarlegrar og borgaralegrar starfsemi á vellinum lögðu þeir fé af mörkum til smíði nýrrar flugstöðvar. Að afsaka IPA-styrki með því að nefna nýju flugstöðina eins og Stefán Ólafsson gerir er fráleitt. Styrkirnir eru ráðstöfunarfé stækkunardeildar ESB til að innlima fleiri ríki í sambandið – Bandaríkjastjórn gerði aldrei tilraun til að innlima Ísland.

 

Sunnudagur 11. 08. 13 - 11.8.2013 23:40

Furðulegt að einhverjum detti í hug að Íslendingar eigi að fá ESB-aðlögunarstyrki þegar ekki er lengur á döfinni hjá stjórnvöldum að ganga í ESB. Þá er einnig undarlegt að ESB-aðildarsinnar skuli láta eins og aðlögunarstyrkirnir séu ekki til að búa þjóðir undir aðild og auðvelda þeim aðlögun að ESB.

Ég skrifaði um þetta á Evrópuvaktina eins og lesa má hér.


Laugardagur 10. 08. 13 - 10.8.2013 23:55

Í dag undraðist ég á Evrópuvaktinni að birst hefði viðtal við Halldór Jóhannsson, umboðsmann Huangs Nubos, í Morgunblaðinu þar sem hann kvartaði undan því að umbjóðandi sinn hefði ekki fengið svar frá íslenskum stjórnvöldum! Það hefði ekki spillt ef blaðið hefði vakið athygli lesenda sinna á að stjórnvöld hafa svarað Huang Nubo og hafnað ósk hans um að kaupa Grímsstaði á Fjöllum.

Hið óskiljanlega í þessu máli er að Halldór Jóhannsson áttar sig ekki á stöðu þess. Huang Nubo fær aldrei þá aðstöðu sem hann vill hér á landi. Spurningin sem á að leggja fyrir Halldór Jóhannsson er þessi: Hvers vegna hættið þið Huang Nubo ekki þessu brölti? Að öðrum þræði hefur það snúist um að draga upp brenglaða mynd af Íslandi í Kína. Þá hefur það einnig orðið fjölmiðlum á Vesturlöndum, nú síðast Le Monde, tilefni til skrifa um Ísland sem einkennast af undrun yfir að nokkrum manni kæmi til hugar að áform Huangs Nubos næðu fram að ganga.

Föstudagur 09. 08. 13 - 9.8.2013 22:45

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra og þingmaður Samfylkingarinnar, var einn þeirra sem féll út af þingi í kosningunum í apríl. Hann hefur verið einn ákafasti talsmaður aðildar Íslands að Evrópusambandinu og skrifar á vefsíðu sína í dag í tilefni af ákvörðun stækkunardeildar ESB að hverfa frá IPA-styrkveitingum til Íslendinga:

„Ekki efast ég um það eitt augnablik að margir þingmenn stjórnarflokkanna, utan teboðsgrúppunnar, vilja ljúka viðræðum og freista þess að ná lúkningu í ferlið. Leyfa fólkinu í landinu að ákveða þetta sjálft. En þeir leggja ekki í það. Óttinn við ofsann í ritstjóranum, kaupfélagsstjóranum og hinum í teboðinu heldur þeim föngnum og vandræðagangurinn eykst einsog glataðir IPA styrkir bera með sér.“

Björgvin G. skýrir ekki hvað hann á við með „teboðsgrúppunni“. Orðið vísar til stjórnmálahreyfingar í Bandaríkjunum sem berst fyrir svo sér-bandarískum málum að fráleitt er að kenna einhverja stjórnmálamenn hér á landi við hana. Hvað sem því líður er kenning Björgvins G. um skoðanir þingmanna stjórnarflokkanna undarleg í ljósi þess að kosningarnar 27. apríl 2013 voru sögulegar fyrir þá sök að þar höfnuðu kjósendur Björgvini G. og flokkssystkinum hans á svo eftirminnilegan hátt að ekkert sambærilegt hefur gerst í tæplega 70 ára lýðveldissögu Íslands.

Að ímynda sér að einhverjir stjórnmálamenn utan Samfylkingarinnar dreymi um að fá tækifæri til að feta í ESB-fótspor hennar eftir útreiðina í síðustu kosningum er stórundarlegt svo að ekki sé meira sagt. Er ástæða að velta fyrir sér í hvaða grúppu þeir menn eru sem láta sér detta slíkt í hug.

Fimmtudagur 08. 08. 13 - 8.8.2013 22:05

Tal allra sem hefja afskipti af íslenskum skólamálum með þau orð á vörunum að það megi spara stórfé með því að stytta framhaldsskólann um eitt ár og verkefnið sé einfaldlega að hrinda slíkum áformum strax í framkvæmd til að spara stórfé er til marks um þekkingarleysi á íslensku skólakerfi. Nú hefur sjálfur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fallið á þessu einfalda prófi.

Íslenska skólakerfið er sveigjanlegt og nemendavænt, nemendur geta valið skóla, námsbrautir og hraða. Auðvitað er unnt að spara í skólakerfi þar sem útgjöldin hafa orðið hin hæstu innan OECD eins og hér á landi. Menn eru hins vegar að flótta undan viðfangsefninu með því að hefja talið um lögbundna styttingu framhaldsskólans. Skynsamlegt er að leggja það verkefni til hliðar og snúa sér að einhverju sem skilar meiri árangri.

Eðlilegt var eftir að ríkisfjötrar voru leystir af háskólastarfsemi að margir vildu reyna fyrir sér við rekstur háskóla. Hér verða háskólar ekki settir í ríkisfjötra að nýju um leið og sú staðreynd er viðurkennt og stefnan tekin á að losa fjötrana af Háskóla Íslands hefst samrunaþróun af einhverju tagi sem unnt verður að stýra með ráðstöfun á skattfé almennings.  

Miðvikudagur 07. 08. 13 - 7.8.2013 22:45

Á Evrópuvaktinni birtist á dögunum frétt úr franska blaðinu Le Monde sem hefur gert blaðamann út af örkinni til að skrifa um umrótið á norðurslóðum. Fyrsta grein hans snerist um Grímsstaði á Fjöllum og áhuga Huangs Nubos á að kaupa 300 ferkílómetra lands þar og með henni birtist sérteiknað kort af norðurslóðum þar sem Grímsstaðir eru einskonar miðpunktur.

Þessi frásögn í blaðinu er til marks um að hvarvetna setja menn hugmyndina um golfvöll og frístundahús fyrir Kínverja á Grímsstöðum á Fjöllum í samband við kínversk útþensluáform. Blaðamaðurinn lætur þess jafnframt getið að Halldór Jóhannsson, umboðsmaður Huangs hér á landi, standi einnig að mótun og framkvæmd hugmyndar um umskipunarhöfn vegna Norður-Íshafssiglinga.

Fjallað hefur verið um Grímsstaði, Ísland og Huang Nubo í öllum helstu blöðum heims. Greinar um málið hníga allar til sömu áttar. Kínverjar leggja kapp á að ná fótfestu á norðurslóðum.

Fregnir af makrílveiðum milli Íslands og Grænlands leiða í ljós að þar eru stór kínversk verksmiðjuskip á veiðum, þau láta sig ekki muna um að sigla um hálfan hnöttin til að bera sig eftir björginni. Þá hefur kínverska olíufélagið CNOOC, China National Offshore Oil Corporation, tekið þátt í olíuvinnslu í Norðursjó og nú stofnað til samstarfs við íslenska fyrirtækið Eykon vegna olíuleitar á Drekasvæðinu.

Þessar staðreyndir tala sínu máli um nýjar og gjörbreyttar aðstæður í okkar heimshluta.

Þriðjudagur 06. 08. 13 - 6.8.2013 21:05

Ég skrifaði leiðara á Evrópuvaktina í dag og lýsti undrun yfir hálfvelgju ríkisstjórnarinnar í stuðningi við Færeyinga í síldardeilu þeirra við ESB og yfir álappalegri framgöngu gagnvart Grænlendingum vegna makrílveiða. Mér er óskiljanlegt hvers vegna ríkisstjórnin tekur ekki forystu meðal eyþjóðanna í N-Atlantshafi við varnir þeirra gegn ólögmætri íhlutun. Norskur fiskifræðingur telur að kröfur Norðmanna og ESB í makrílmálinu leiði til gjöreyðingar í Noregshafi. Hér má lesa leiðarann.

Þeir sem hafa áhyggjur af að ég hafi beitt mér fyrir stofnun embættis sérstaks saksóknara til að hefja einskonar galdraofsóknir á hendur mönnum eftir bankahrunið geta auðveldlega kynnt sér sjónarmið mín með því að lesa það sem ég sagði um þetta mál haustið 2008, það er allt hér á vefsíðunni meðal annars ræða sem ég flutti á alþingi 15. október og lesa má hér.

Í annarri ræðu sagði ég meðal annars: 

„Skilvirk og árangursrík rannsókn og dómsmeðferð brota, sem kunna að koma í ljós við fall bankanna, ætti að sefa reiði, efla réttlætiskennd og auka trú borgaranna á réttarríkið auk þess að gegna varnaðar- og uppeldishlutverki til framtíðar. Þá er skilvirk og réttlát meðferð slíkra mála til þess fallin að efla lífsnauðsynlegt traust umheimsins í garð íslensks fjármálakerfis.“

Ekkert blað gekk lengra á þeirri braut á árunum 2002 til 2008 að grafa undan trausti í garð ákæruvaldsins og réttarkerfisins en Fréttablaðið og gekk í því efni erinda eigenda sinna meðal annars með árásum á mig persónulega. Menn hafa ekki látið af því í ritstjórnardálkum blaðsins. Ég hef rakið þessa sögu í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi.  

Mánudagur 05. 08. 13 - 5.8.2013 23:00

Hver stórtíðindin reka önnur í bandarískum blaðaheimi. Á dögunum seldi New York Times Company The Boston Globe fyrir 70 milljónir dollara en NYT keypti blaðið fyrir 1,1 milljarð dollara fyrir 20 árum.

Í dag var tilkynnt að Jeffrey P. Bezos, stofnandi Amazon, hefði keypt The Washington Post fyrir 250 milljónir dollara. Katharine Weymouth, útgefandi blaðsins, sagði frá þessu og tók fram að Bezos hefði keypt blaðið fyrir sjálfan sig en það yrði ekki eign Amazon.

Katharine Graham var um langt árabil útgefandi The Washington Post. Sjálfsævisaga hennar er vel skrifuð og eftirminnileg. Engum sem les hana dettur í hug að fjölskylda hennar neyðist til að selja blaðið vegna minnkandi auglýsingatekna og upplags.

Katharine Weymouth varð útgefandi The Washington Post  árið 2008. Hún ber nafn ömmu sinnar sem dó árið 2001. Weymouth (f. 1966) er dóttir Lally Weymouth, dálkahöfundar og erfingja The Washington Post, og Yanns R. Weymouths arkitekts. Fjölskylda móðir hennar hefur átt blaðið í 80 ár eða síðan 1933 þegar Eugene Meyer, langafi hennar, keypti það og var hún hin fimmta úr fjölskyldunni tilað gegna stöðu útgefanda.

Skömmu eftir að Weymouth varð útgefandi bárust fréttir um að það kostaði 250.000 dollara að sitja kvöldverðarboð heima hjá henni og hitta starfsmenn The Washington Post. Hún kenndi markaðsdeildinni um þessa tilhögun og hætti að selja aðgang að heimili sínu.

Sunnudagur 04. 08. 13 - 4.8.2013 23:55

Frétt í ríkisútvarpinu um stöðuna í þýskum stjórnmálum kom á óvart eins og ég skrifaði um á Evrópuvaktina. Fréttastofan lætur eins og Angela Merkel sé á undanhaldi þegar kannanir sýna mestu vinsældir þýskrar ríkisstjórnar síðan 1997 og í fyrsta sinn síðan 2009 benda kannanir til að stjórnarflokkarnir fái meirihluta atkvæða í kosningunum 22. september nk. Sjá hér.

Laugardagur 03. 08. 13 - 3.8.2013 23:00

Veðrið var einkennilegt í Fljótshlíðinni í dag. Hann blés duglega að norðan og aska eða moldryk lokaði útsýn til Eyjafjallajökuls og Vestmannaeyja. Rut efndi til árlegs flóamarkaðar og margir létu sjá sig þótt þeir stöldruðu ekki eins lengi við og í betra veðri.

The New York Times Company tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði selt The Boston Globe og aðra fjölmiðla sína á New England. Kaupandinn er John W. Henry, helsti eigandi Boston Red Sox-liðsins og Liverpool-liðsins í Bretlandi. Blaðið er að nýju komið í eigu heimamanna eftir tveggja áratugi í eigu NYT Company. Söluverðið er 70 milljónir dollara. Það sýnir gífurlega lækkun á verðmæti blaðsins. NYT Company keypti það árið 1993 fyrir 1,1 milljarð dollara, hæsta verð sem greitt hefur verið fyrir bandarískt dagblað.

Þessi frásögn er enn eitt dæmið um vandræði dagblaða í nýju starfsumhverfi vegna upplýsingabyltingarinnar. Blöðin fikra sig nú öll í þá átt að venja netnotendur við að greiða fyrir aðgang að efni blaðanna. Aðferðirnar sem beitt er felast í hagstæðum tilboðum, NYT býður til dæmis þeim sem hafa lengi verið á póstlista vefútgáfu blaðsins að gerast áskrifendur fyrir fimm dollara í 12 vikur.

Föstudagur 02. 08. 13 - 2.8.2013 22:50

Miðvikudaginn 31. júlí ræddi ég við Jón Ásbergsson, forstjóra Íslandsstofu, á ÍNN. Hér má sjá þáttinn.  

Fimmtudagur 01. 08. 13 - 1.8.2013 23:55

Fréttastofa ríkisútvarpsins notar ekki orðið „drón“ um ómönnuð eða fjarstýrð flugför sem verða sífellt oftar í fréttum. Þessi tæki eru sérstök og gjörbreyta aðferðum við valdbeitingu og auka líkur á að menn séu teknir af lífi án dóms og laga, skotið sé á þá fyrirvara- eða viðvörunarlaust. Þá stuðla þau einnig að auknu eftirliti með ferðum manna á allt annan hátt en þeir hafa áður kynnst. Orðið „drón“ er notað í fjölda tungumála um þessi tæki, það er framandi og hefur yfirbragð óhugnaðar sem næst alls ekki með því að tala um „ómannaða flugvél“, þau orð minna helst á leikföng.