Dagbók: janúar 1998
Laugardagur 31.1.1998
Klukkan 14 hófst hátíðarstund í Þjóðleikhúsinu í tilefni af 50 ára afmæli Stefs og flutti ég þar ávarp. Um kvöldið var síðan glæsilegur kvöldverður í boði Stefs á Hótel Sögu.
Sunnudagur 31.1.1998
Ríkisráðsfundur var haldinn að Bessastöðum klukkan 10.30 eins og venja er á síðasta degi ársins. Þar eru formlega staðfestar ýmsar afgreiðslur, flestar eru þess eðlis, að þær hafa verið afgreiddar utan ríkisráðs og eru því endurstaðfestar. Voru afgreiðslur óvenjulega margar núna, þar sem ekki hafði verið efnt til ríkisráðfundar, frá því að Geir H. Haarde tók við embætti fjármálráðherra. Klukkan 14.00 var hátíðleg athöfn í Bláfjallasal höfuðstöðva RÚV við Efstaleiti, þar sem rithöfundarnir Pétur Gunnarsson og Sjón fengu viðurkenningu úr Rithöfundasjóði útvarpsins.
Föstudagur 30.1.1998
Síðdegis þáði ég boð frá Félagi leikskólakennara, sem fagnaði því, að leikskólakennaranám væri komið á háskólastig. Var það ánægjuleg stund.
Miðvikudagur 28.1.1998
Á Alþingi svaraði ég fyrirspurn frá Guðmundi Árna Stefánssyni, Alþýðuflokki, um ráðstöfun á heimavistarhúsnæði í Reykholti. Taldi Guðmundur Árni að Ástþór Magnússon ætti að fá Reykholt undir háskóla undir merkjum Friðar 2000. Vandinn var sá, að mál þetta hafði verið afgreitt, frá því að fyrirspurnin var lögð fram og þar til henni var svarað. Bar Guðmundur Árni fram aðra fyrirspurn í ræðu sinni en var í þingskjalinu, sem ég lagði eðlilega til grundvallar í svari mínu. Spurði ég forseta Alþingis, hvort ég ætti ekki að halda mér við þingskjalið og taldi hann það rétta afstöðu. Guðmundur Árni brást hins vegar hinn versti við svörum mínum og sömu sögu er að segja um Svavar Gestsson, sem taldi það til skammar fyrir minningu Snorra Sturlusonar, að menntamálaráðuneytið hefði leigt, heimavist, einbýlishús og geymsluaðstöðu í Reykholti. Andmæli mín voru þau, að virðing Snorra Sturlusonar réðust ekki af þessu heldur annarri starfsemi í Reykholti og þar skipti starfsemi Snorrastofu mestu.
Þriðjudagur 27.1.1998
Alþingi hóf störf að nýju eftir jólahlé. Fyrsti dagurinn var helgaður menntamálum. Fyrst voru óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra og þar spurði Ísólfur Gylfi Pálmason, þingmaður framsóknarmanna á Suðurlandi, mig um það, hvort ekki væri unnt að halda úti staðbundnu útvarpi RÚV á Suðurlandi. Síðan fylgdi ég tveimur frumvörpum úr hlaði, það er leiklistarlögum og breytingu á framhaldsskólaögunum sem lýtur að ráðningartíma aðstoðarskólastjóra o.fl. Síðan voru ræddar tillögur þingmanna um menntamál og gerði ég meðal annars grein fyrir samskiptum mennatamálaráðuneytisins við Framhaldsskóla Austur--Skaftafellssýslu á Höfn og afstöðu til háskólamenntunar á Austurlandi. Ég sá hvergi sagt frá þessum umræðum í fjölmiðlum, þótt málin snerti stóran hóp fólks.
Mánudagur 26.1.1998
Klukkan 17.00 var ég í sal sjálfstæðismanna í Grafarvogi með Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni borgarfulltrúi og sátum við þar til klukkan 19.00 og ræddum við gesti um þau málefni, sem þeir vildu ræða. Menntamál bar í sjálfu sér ekki hátt en þeim mun meira var rætt um samgöngumál. Er augljóst, að íbúar í Grafarvogi telja borgaryfirvöld ekki hafa staðið vel að því undanfarin ár að tryggja hagsmuni íbúanna þar.
Laugardagur 24.1.1998
Sídegis var aðalfundur Varðar- fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík og um kvöldið var þorrablót sjálfstæðismanna í Valhöll.
Föstudagur 23.1.1998
Síðdegis boðaði ég forráðamenn nemendafélaga í skólum á háskólastigi til fundar í ráðuneytinu og kynnti þeim hugmyndir, sem við höfum verið að vinna að til að treysta réttarstöðu nemenda í háskólum á grundvelli nýju háskólalaganna. Er ljóst, að ráðuneytið mun eiga annars konar samskipti við skólana og nemendur þeirra eftir gildistöku nýju laganna. Hugmynd ráðuneytisins er, að sett verði á fót ein áfrýjunarnefnd fyrir nemendur í öllum skólum á háskólastigi, sem sinni kærum nemenda um þau mál, sem kæranleg eru, eftir að þau hafa hlotið meðferð innan hvers skóla. Hér er um viðamikið og viðkvæmt mál að ræða, sem þarna var rætt í fyrsta sinn og verður rætt frekar og sent til umsagnar einstakra nemendafélaga og stjórna háskólanna. Raunar var þessi fundur sögulegur í því ljósi, að hann er hinn fyrsti, sem boðað er til með fulltrúum nemenda úr öllum skólunum. Klukkan 17 opnaði ég sýninguna Vaxtarbrodda í Ráðhúsinu en þar er að finna verk nýútskrifaðra arkitekta, landslagsarkitekta, innanhússhönnuða og iðnhönnuða. Var mikið fjölmenni saman komið til að skoða sýninguna og samfagna unga fólkinu.
Fimmtudagur 22.1.1998
Í hádeginu efndi ég til fundar með skólameisturum þeirra skóla, sem ætla að bjóða nám á nýrri sjávarútvegsbraut næsta haust. Einnig var þar skýrt frá samkomulagi um aukið samstarf Vélskólans og Stýrimannaskólans í Reykjavík, sem leiðir til þess að Stýrimannaskólinn verður áfangaskóli og tekur þannig stakkaskiptum. Ráðuneytið sendi frá sér fréttatilkynningu um málið daginn eftir, en hún virðist ekki hafa vakið mikinn áhuga fjölmiðla, að minnsta kosti töluvert minni en hugmyndir um nýtingu á Sjómannaskólahúsinu. Hef ég áður vakið máls á því, að inntak skólastarfs vekur mun minni áhuga en ytri umgjörð þess, en inntakið skiptir auðvitað höfuðmáli, fyrir þá sem skólana sækja. Síðdegis þennan sama dag boðaði ég til fundar í ráðuneytinu um Vígðulaug á Laugarvatni en ætlunin er að gera betur við laugina, ekki síst með hliðsjón af kristnitökuafmælinu árið 2000. Heimamenn á Laugarvatni, þjóðminjavörður, prófastur á Suðurlandi og fleiri sátu þennan fund.
Þriðjudagur 20.1.1998
Í vikunni lagði ég á ráðin um margvísleg málefni og gekk frá frumvörpum um listskreytingasjóð, lögverndun kennararéttinda og íþróttamál, sem ég ætla að leggja fram á þingi, þegar það kemur saman að nýju 27. janúar. Einnig var unnið markvisst að ákvörðunum, sem snerta námskrár grunnskólans og framghaldsskólans. Undirbý ég almenna kynningu á því máli meðal annars með útgáfu á bæklingi, sem fari inn á hvert heimili í landinu til að búa menn undir lokatörnina í endurskoðunarvinnunni. Klukkan 9.30 kom ríkisstjórnin saman til fyrsta fundar síns í endurbættu Stjórnarráðshúsi. Hefur fundarsalur ríkisstjórnarinnar verið færður á nýjan stað í húsinu, það er í herbergið, þar sem skrifstofa forsætisráðherra var áður. Þar inni hangir aðeins málverk af Hannesi Hafstein og síðan landslagsmyndir. Myndir af fyrri ríkisstjórnum hanga í nýrri og glæsilegri biðstofu en málverk af Ólafi Thors er í einkaskrifstofu forsætisráðherra, málverk af Hermanni Jónassyni og Bjarna Benediktssyni eru á veggjum biðstofunnar. Þá hafa brjóstmyndir af forsetum lýðveldisins verið fluttar ú fundarsal ríkisstjórnarinnar og hefur þeim verið valinn staður að Bessastöðum. Hefur húsinu verið breytt verulega og er starfsaðstaða þar betri en áður var auk þess sem ljóst er, að ekki mátti dragast lengur að gera við húsið.
Föstudagur 16.1.1998
Klukkan 20 opnaði ég sýningu á nýjum aðföngum í Listasafni Íslands með ræðu þar sem ég skýrði frá húsakaupum fyrir safnið og þeim ákvörðunum, sem teknar hafa verið varðandi ýmis söfn ríkisins undanfarið.
Föstudagur 16.1.1998
Klukkan 20 opnaði ég sýningu á nýjum aðföngum í Listasafni Íslands með ræðu þar sem ég skýrði frá húsakaupum fyrir safnið og þeim ákvörðunum, sem teknar hafa verið varðandi ýmis söfn ríkisins undanfarið.
Miðvikudagur 14.1.1998
Klukkan 20.30 var fundur í Verði fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík þar sem framboðslistinn vegna borgarstjórnarkosninganna var ákveðinn og Árni Sigfússon flutti yfirlitsræðu um stöðu mála. Sérstaklega kom á óvart, hve illa R-listinn hefur staðið að því að framkvæma loforð sín. Raunar má segja, að stöðnun hafi ríkt á alltof mörgum sviðum í Reykjavík síðustu fjögur ár.
Laugardagur 10.1.1998
Klukkan 15 opnaði ég sýningu Fyrirmyndar í Ásmundarsal, en þar sýna myndskreytar verk sín. Þaðan fórum við í Gerðarsafn í Kópavogi, þar sem þrjár sýningar höfðu verið opnaðar eftir Kjartan Ólason, Steinunni Helgadóttur og Blaðaljósmyndir 1997. Það eru Blaðamannafélag Íslands og Blaðaljósmyndarafélag Íslands, sem standa að ljósmyndasýningunni, og velur þriggja manna dómnefnd bestu myndir í nokkrum flokkum. Meðal annars er besta portrettið valið og gladdi mig sérstaklega, að í þeim flokki var Ásdís Halla Bragadóttir, aðstoðarmaður minn, á besta portrettinu og í sýningarskrá segir : Ásdís Halla Bragadóttir - Bjartasta von Sjálfstæðisflokksins sýnd í réttu ljósi. Myndina tók Ari Magnússon fyrir Heimsmynd.
Föstudagur 9.1.1998
Um kvöldið var frumsýning á Feðrum og sonum eftir Ívan Túrgenjev hjá Leikfélagi Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu. Er það eftirminnileg og mikil sýning.
Fimmtudagur 8.1.1998
Klukkan 16.00 vorum við Rut á Bessastöðum, þar sem forseti Íslands afhenti hin árlegu nýsköpunarverðlaun við hátíðlega athöfn, sem sæmdi vel þessum ánægjulega viðburði.
Föstudagur 2.1.1998
Klukkan 15.00 hófst athöfn í húsi Kennaraháskóla Íslands í tilefni af gildistöku laganna um hinn nýja Kennaraháskóla. Eftir ræður mína, Þóris Ólafssonar rektors og Hauks Ingibergssonar, formanns verkefnisstjórnar vegna sameiningar skólanna, buðum við Rut öllum viðstöddum til móttöku í húsakynnum skólans.
Fimmtudagur 1.1.1998
Klukkan 15 var mér boðið að koma til Bessastaða til að óska forsetahjónunum gleðilegs árs en að lokinni orðuveitingu og fram eftir þessum fyrsta degi ársins streyma boðsgestir til Bessastaða í þessum tilgangi.