Dagbók: febrúar 2012

Miðvikudagur 29. 02. 12 - 29.2.2012 23:12

Á visir.is má lesa í dag:

„Kjartan Ólafsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaforseti þingsins, fullyrðir að Álfheiður Ingadóttir hafi að minnsta kosti í eitt skipti verið í samskiptum við mótmælendur í Búsáhaldabyltingunni.

„Það átti sér stað að ég var á gangi frá þinghúsinu og yfir í mötuneytið og þar er glergangur eins og menn þekkja og þar stóð Álfheiður Ingadóttir í ganginum og var að tala í farsíma og veifa að garði Alþingishússins," segir Kjartan. Hann hafi heyrt hana segja: „Það heyrist betur í ykkur hérna" Rétt eftir það hafi óeinkennisklæddur lögreglumaður birst og beðið þau um að vera ekki að stoppa þarna í glerhúsinu. „Ég gekk frá en hún sneri sér upp og sagði að hann ætti ekkert að vera að stjórna hér innandyra," segir Kjartan Ólafsson í samtali við Reykjavík síðdegis í dag.

Kjartan furðar sig á því að Alþingi sé ekki búið að fjalla meira um málið og spyr hví þingið hafi ekki gefið út skýrslu um málið. „Það er náttúrlega grafalvarlegt ef það er verið að ráðast að þinghúsinu og ráðast á þingræðið í landinu með óspektum. Og ég vissi ekki betur en að það ætti að fara yfir öryggismálin og það hlýtur að vera einn þáttur í því að rannsaka hverjir stjórnuðu þessum látum. Og ég held að það hafi öllum verið ljóst á þessum tíma Vinstri grænir voru eins og kettir út í gluggum að fylgjast með því hvað var að gerast," sagði Kjartan.“

Hvaða ónefni skyldi Álfheiður velja Kjartani? Henni tekst ekki að kveða menn í kútinn með upphrópunum eða dónaskap.

Þór Saari segir í ræðustól á alþingi að tillaga um að afturkalla ákæru á Geir H, Haarde sé „tóm tunna“.  Þór hefur heitið ríkisstjórninni hollustu vegna stuðnings stjórnarliða við vitlausustu tillögu þingsins. Hún er frá Þór um að vísa óbreyttum tillögum stjórnlagaráðs til stjórnarlagaráðs sem er orðið endanlega umboðslaust.

Þriðjudagur 28. 02. 12 - 28.2.2012 22:41

Hinn 17. maí 2010 fjallaði ég hér á síðunni um árásir þingmanna vinstri-grænna á Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta alþingis, vegna máls nímenninganna sem réðust inn í Alþingishúsið 8. desember 2008. Ég lýsti undrun yfir því að Björn Valur Gíslason, núverandi þingflokksformaður VG, hefði flutt tillögu til þingsályktunar um að skrifstofustjóri alþingis skyldi mælast til þess við ríkissaksóknara að hann afturkallaði ákæru á hendur nímenningunum. Þetta er sami Björn Valur sem nú telur fráleitt að alþingi afturkalli eigin landsdómsákæru á hendur Geir H. Haarde.

Í þessum pistli frá 17. maí 2010 segi ég meðal annars:

„Frægt er, að Álfheiður Ingadóttir, núverandi heilbrigðisráðherra vinstri-grænna og þáverandi þingmaður þeirra, fór hamförum innan dyra í þinghúsinu 8. desember 2008 og lét orð falla á þann veg, að sín vegna mættu árásarmennirnir brjóta allt og bramla í þinghúsinu, svo að vitnað sé til orða Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í þingræðu 14 maí.

Í mínum huga var aldrei neinn vafi á því þessa daga í kringum áramótin 2008/09, að mótmælin við alþingishúsið voru runnin undan rifjum vinstri-grænna. Skýrasta sönnun þess er raunar, að öll mótmæli hafa verið næsta bitlítil, frá því að vinstri-grænir settust í ríkisstjórn.

Ég minnist þess að hafa einu sinni komið að þinghúsinu, þegar slegin hafði verið um það keðja fólks, sem hélst í hendur. Birtist, ef ég man rétt, mynd  af því í blaði, þar sem ég beygi mig undir handleggi tveggja mótmælenda á leið til þinghússins. Í þeim hópi, sem ég sá þarna, var Katrín Jakobsdóttir, varaformaður vinstri-grænna, núverandi menntamálaráðherra, sem hefur lýst yfir stuðningi við tillögu Björns Vals.“

Offors Álfheiðar þegar þessi saga er rifjuð upp er með ólíkindum eins og sannaðist enn í dag þegar hún gerði hróp að Jóni Gunnarssyni í ræðustól. Minna lætin helst á þegar Álfheiður stóð á Hlemmi við lögreglustöðina og hvatti til áhlaups á hana í nóvember 2008.

Mánudagur 27. 02. 12 - 27.2.2012

Ingimar Karl Helgason gengur erinda hins pólitíska rétttrúnaðar vinstri-grænna í netheimum. Hann er einn hinna fyrrverandi „óhlutdrægu“ fréttamanna sem taka sér fyrir hendur að tala illa um sjálfstæðismenn eftir að hann kastar af sér hlutleysisgrímunni. Hann skrifar á VGSmuguna og mánudaginn 27. febrúar finnur hann að því að Bent Jensen, sagnfræðiprófessor emeritus frá Danmörku og sérfræðingur í kalda stríðinu, skuli hafa flutt erindi í Háskóla Íslands um eðli kommúnismans. Ingimar Karl segir af þessu tilefni um danska prófessorinn:

„Honum hefur svo verið lýst í mín eyru:

„Bent Jensen er ekki alveg Hannes Hólmsteinn þeirra Dana, meira svona Þór Whitehead á sterum.“

Hvað þýðir það? Bent hefur verið á að þeir félagarnir gangi oft nokkuð langt í að bendla fólk við kommúnisma og hafi vikið frá eðlilegum aðferðum fræðimanna í því skyni.”

Þessi ummæli Ingimars Karls eru í anda þess tíma sem Bent Jensen lýsti í fyrirlestri sínum þegar vegið var að einstaklingum og mannorði þeirra í stað þess að rökræða það sem þeir hafa að segja.

Ég tók ekki eftir Ingimar Karli á fyrirlestrinum í dag. Hann var að vísu svo vel sóttur að í fljótu bragði var ekki ljóst hverjir sóttu hann.

Sunnudagur 26. 02. 12 - 26.2.2012 22:02

Furðulegt er að sjá móðgun Harðar Torfasonar vegna orða Geirs Jóns Þórissonar, fyrrverandi yfirlögregluþjóns, um að þingmenn inni í Alþingishúsinu hafi stýrt mótmælendum  við  árásir á húsið 20. og 21. janúar 2009. Engu er líkara en Hörður telji að glæpnum sé stolið af sér með þessum orðum. Hann hlýtur þó að átta sig á því við nánari athugun á orðum Geirs Jóns að þau snúa að „taktískum“  aðgerðum mótmælenda  gegn lögreglumönnum sem stóðu vörð um Alþingishúsið en ekki að Herði sjálfum, manninum á pallinum.

Ég hef oftar en einu sinni nefnt Álfheiði Ingadóttur, þingmann vinstri-grænna, í tengslum við umræður um að hringt hafi verið í farsíma mótmælenda úr þinghúsinu og þeim leiðbeint. Álfheiður hefur veist að mér með stóryrðum vegna þess sem ég hef sagt um þetta. Nú er gripið til þess ráðs gagnvart Geir Jóni að vega að heiðri hans sem lögreglumanns þegar hann segir frá staðfestri vitneskju sinni. Í sömu andrá er þess getið að hann hafi boðið sig fram til embættis annars formanns Sjálfstæðisflokksins.  Sú ábending er sett fram á þann hátt að með henni á að draga úr trúverðugleika Geirs Jóns.

Á vefsíðu VG Smugunni segir í dag, 26. febrúar:

„Ögmundur [Jónasson innanríkisráðherra] segir að hér [hjá Geir Jóni] sé  verið að draga upp sögulega mynd af atburðunum við Alþingishúsið þegar mótmælin stóðu sem hæst, eftir hrunið. „Sú mynd er afskræmd ef að menn gefa það til kynna með yfirlýsingum að þær þúsundir sem þarna voru hafi verið handbendi einhvers. Hafi einstakir alþingismenn haft þau áhrif, sem hér er haldið fram, og þeir hafi með því vegið að lögreglunni, þá er það svo, að ekkert slíkt hefur komið fram formlega og engar kærur um það lagðar fram. Mér finnst rangt að halda lifandi málflutningi af þessu tagi,“ segir Ögmundur.“

Ég tek undir með Ögmundi að það sé afskræmd mynd af mótmælunum að segja alla mótmælendur hafa verið „handbendi einhvers“. Geir Jón hefur ekki heldur sagt það. Við RÚV sagði hann:



Sjá framhald með því að slá á Lesa meira hér fyrir neðan!

 

 

 

Lesa meira

Laugardagur 25. 02. 12 - 25.2.2012

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ítrekar á vefsíðu sinni í kvöld að það beri að ákveða lokadagsetningu viðræðna við ESB. Hann segir:

Lagt er til að viðræðum við ESB verði hraðað. Dagsetning ákveðin fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu í síðasta lagi undir lok þessa kjörtímabils. Samninganefndum okkar og ESB verði gerð grein fyrir því að þetta afmarki þann tímaramma sem þær hafi til að fá efnislegar niðurstöður í þeim málaflokkum sem helst varða okkar hag.

Það er borin von að ríkisstjórn með aðild Samfylkingarinnar samþykki þessa tillögu. ESB lítur á hana sem móðgun við sig, Í Brussel líta menn þannig á að þeir ráði efni og hraða viðræðnanna við ESB.

Þórir Ibsen, sendiherra gagnvart ESB, segir í samtali við ritstjóra vefsíðunnar EurAktiv föstudaginn 24. febrúar að Íslendingar séu ekki að hraðleið heldur sanngjarnri leið inn í ESB. Sendiherrann veit hvernig á að tala við ESB en ekki ráðherrann sem vill að Brussel-mönnum verði stillt upp við vegg. Kafla úr viðtalinu má lesa hér.

Viðtal mitt á ÍNN við Vigdísi Hauksdóttur, þingmann Framsóknarflokksins, er komið á netið og má skoða hér.

Föstudagur 24. 02. 12 - 24.2.2012

Það er með ólíkindum að látið sé að því liggja að einhverjir aðilar sem hafi hagsmuna að gæta í viðskiptalífinu eða höfðu slíkra hagsmuna að gæta fyrir hrun standi að því að bola Gunnari Þ. Andersen úr stöðu forstjóra fjármálaeftirlitsins (FME).

Stjórn FME er skipuð trúnaðarmönnum ríkisstjórnarinnar og Seðlabanka Íslands. Það er fráleitt að ætla að stjórnarmenn taki ákvörðun um starfslok forstjóra án samráðs við umbjóðendur sína. Steingrímur J. Sigfússon ber ábyrgð á stjórnarformanni FME sem efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann keppist við að telja fólki trú um að hann hafi ekkert vitað um ákvörðun stjórnarinnar. Málið var þó rætt við hann um sama leyti og Gunnari voru kynnt starfslokin. Hver trúir því að aðstoðarseðlabankastjóri, stjórnarmaður í FME, hafi ekki rætt málið við Má Guðmundsson?

Engin haldbær skýring hefur borist á því hvers vegna stjórn FME lét ekki sitja við álit Andra Árnasonar hrl. um hæfi Gunnars Þ. til að gegna forstjórastarfinu heldur kallaði til tvo aðra menn til að gefa álit sitt. Ástráður Haraldsson hrl. var annar þessara manna en hann var formaður landskjörstjórnar þegar stjórnlagaþing var kjörið. Hæstiréttur ógilti kosninguna vegna þess hve illa var staðið að framkvæmd hennar.

Á meðan athygli beinist ekki að umbjóðendum stjórnarmanna FME heldur að samsæri ónafngreindra mann í fjármálalífinu eru umræður um uppsögn Gunnars Þ. á villigötum. Spurningin er þessi: Hvers vegna vilja fulltrúar ráðuneytis og seðlabanka losna við forstjóra FME?

Fimmtudagur 23. 02. 12 - 23.2.2012

Simone Kermes barokksópransöngkonu var fagnað vel og innilega að loknum tónleikum í röðinni Eftirlætis barokk í Hörpu í kvöld.

Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn ætlar að bjóða sig fram til embættis annars varaformanns Sjálfstæðisflokksins á flokksráðsfundi 17. mars. Þetta kom fram á Bylgjunni í morgun.  Það er fagnaðarefni að maður með reynslu Geirs Jóns skuli hefja beina þátttöku í stjórnmálum þegar hann lætur af störfum eftir farsælt starf í lögreglunni þar sem hann hefur áunnið sér traust og virðingu.

Ingimar Karli Helgasyni var sagt upp störfum á Stöð 2 í febrúar 2011 og skrifar nú um pólitík og fjölmiðla á VG-vefsíðunni segir í tilefni af yfirlýsingu Geirs Jóns:

„Það [yfirlýsingin] gerir raunar að verkum að ég sé sumt í aðeins öðru ljósi en áður. Það eru viðbrögð hans við mótmælum í Búsáhaldabyltingunni annars vegar og svo hins vegar þegar mótmælt var við þingsetningu eftir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við.“

Yfirlögregluþjónn er reglulega spurður frétta og ég minnist þess ekki fyrr að Geir Jón hafi sætt gagnrýni af því tagi sem fram kemur hjá Ingimar Karli. Skrif hans mótast af pólitískri óvild þótt hann tali hlýlega til Geirs Jóns í hinu orðinu.

Forvitnilegt væri að sjá Ingimar Karl gera úttekt á öllum fréttamönnunum sem hafa starfað við að flytja óhlutdrægar fréttir en hverfa beint frá því í framboð eða önnur flokkspólitísk störf. Ólíklegt er að Ingimar Karl leggist í slíka rannsóknarblaðamennsku enda mundi niðurstaðan hitta hann sjálfan.

 

Miðvikudagur 22. 02. 12 - 22.2.2012

Í dag ræddi ég við Vigdísi Hauksdóttur, þingmann Framsóknarflokksins, á ÍNN. Við ræddum um ESB-aðildarumsóknina og breytingar á stjórnarskránni. Vigdís er mjög gagnrýnin á framgöngu ríkisstjórnarinnar í þessum málum og telur að alþingi hafi látið draga sig alltof langt inn í öngþveitið sem stjórnarflokkarnir hafa skapað.

Ég varð undrandi þegar hún sagði mér að öllum embættisheitum ráðherra hefði verið eytt úr lagasafninu. Ég var bæði undrandi yfir skemmdarverki löggjafans og á því að þetta mál hefði ekki ratað markvisst inn í fréttir fjölmiðla af störfum þingsins.

Þá hafði ég ekki heldur gert mér grein fyrir því að afgreiðsla stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á tillögum stjórnlagaráðs er ekki reist á efnislegri afstöðu til tillagnanna heldur á tillögu til þingsályktunar sem Þór Saari og fleiri fluttu 4. október en hefur verið gjörbreytt í þingnefndinni til að þjóna þeim hagsmunum stjórnarflokkanna að þoka stjórnlagamálinu áfram án þess að tekin sé efnisleg afstaða til eins atriðis í tillögum stjórnlagaráðs. Í þeim búningi er málið sent að nýju til stjórnlagaráðs.

Ég reyni að skýra þennan skrípaleik vegna stjórnarskrárinnar í pistli sem ég birti á vefsíðu minni í dag.  Í fréttum RÚV er sagt í dag að stjórnlagaráð komi saman „til að fjalla um spurningar og tillögur stjórnskipunarnefndar að mögulegum breytingum á stjórnarskrá“. Þetta er einfaldlega rangt. Þingnefndin gerir engar tillögur umfram tillögur stjórnlagaráðs og ekki er heldur að finna neinar spurningar frá þingnefndinni.

Þingfréttaritari RÚV tekur sér einfaldlega fyrir hendur að fullyrða meira um tilefni þess að stjórnlagaráð kemur saman að nýju en unnt er að sannreyna með því að kynna sér gögn málsins á alþingi. Hvers vegna er staðið að málum á þennan hátt? Hvað veldur því að fréttamaðurinn reynir að bera í bætifláka fyrir meirihluta þingmanna á þennan hátt?

Þriðjudagur 21. 02. 12 - 21.2.2012

Videntifier Technologies var stofnað 2007 og er sprottið upp úr rannsóknarvinnu við Háskólann í Reykjavík á sviði leitar í myndgagnagrunnum.

Videntifier Technologies valdi sér, að auðvelda lögreglu að finna ólöglegt myndefni á tölvubúnaði. Vara félagsins, Videntifier Forensic, getur á alsjálfvirkan hátt borið kennsl á myndefni á tölvum og þannig aðstoðað við að uppræta barnaklám og annað ólöglegt myndefni. Kerfið eykur afköst lögreglunnar til muna við greiningu myndefnis. Félagið markaðssetur lausnina til lögregluembætta um allan heim, og er nú að byggja sér alþjóðlegt sölunet umboðsmanna.

Í dag var ritað undir samning um samstarf  Videntifier Technologies við Forensic Pathways, breskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í því meðal annars að þróa tækni sem gerir kleift að ákvarða hvaða vélar eru notaðar  til að taka myndir sem vekja grunsemdir um að afbrot hafi verið framið.

Ritað var undir samninginn í vinnustað fyrirtækisins við Kjarrveg í Reykjavik að viðstöddum forseta Íslands og breska sendiherranum en báðir fluttu ávörp.

Ég kom að þessu á sínum tíma með því að beita mér fyrir því að starfsmenn fyrirtækisins gætu stofnað til samvinnu við lögregluna en slíkt samstarf einkaaðila og lögreglu er einsdæmi hér á landi. Hefur það skilað góðum árangri í þessu tilviki.

Mánudagur 20. 02. 12 - 20.2.2012

Hin pólitíska rétthugsun tekur á sig ýmsar myndir. Eins og kunnugt er snýst hún um að smíða kennisetningar til að ýta heilbrigðri skynsemi til hliðar. Umræðustjóri RÚV er einn þessara kenningarsmiða og í tilefni af hæstaréttardómi yfir Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, þar sem Ólafur Börkur Þorvaldsson skilaði sératkvæði grípur Egill Helgason til þess ráðs í nafni pólitískrar rétthugsunar að skýra niðurstöðu Ólafs Barkar með vísan til þess að hann sé frændi Davíðs Oddssonar.

Þessi tugga er orðin svo margþvæld að með ólíkindum er að enn einu skuli gripið til hennar. Hitt er ljóst að ýta þarf heilbrigðri skynsemi til hliðar til að ímynda sér að Ólafi Berki hafi ekki verið ljóst þegar hann samdi sératkvæði sitt í máli Baldurs að óvildarmenn hans mundu einmitt taka pól Egils í hæðina. Hann lét það hins ekki aftra sér eða hindra að hann færði lögfræðileg rök fyrir niðurstöðu sinni.

Málflutningur eins og sá sem birtist í gagnrýni Egils Helgasonar á afstöðu Ólafs Barkar er í ætt við þá ákvörðun Þorvalds Gylfasonar prófessors að rita Evu Joly, fyrrverandi rannsóknardómara og núverandi forsetaframbjóðandi græningja í Frakklandi, opið bréf og kvarta undan áliti á störfum forstjóra fjármálaeftirlitsins.

Þetta eru málskot sem skipta engu um efni þeirra mála sem eru til úrlausnar. Þau eru aðeins staðfesting á því að hér séu menn sem telji að til sé einhver annar veruleiki en við blasir beiti menn heilbrigðri skynsemi.

Sunnudagur 19. 02. 12 - 19.2.2012

Við að horfa á heimildarþáttinn um Sundhöllina í sjónvarpinu í kvöld rifjaðist upp þegar ég var í hópi þeirra sem þangað komu fyrst í morgunsárið. Hópurinn hefur  hvorki yngst né stækkað síðan en nokkur ár eru nú liðin frá því að ég flutti mig í Laugardalslaugina. Ég gerði það á sínum tíma þegar Sundhöllinni var lokað vegna viðgerða og ílentist.

Mun fleiri standa við dyrnar í Laugardalnum klukkan 06.30 á morgnana en sækja Sundhöllina á sama tíma. Þjónustan er betri fyrir morgunhana í Sundhöllinni því að þar fá þeir að bíða innan dyra þar til klukkan slær en í Laugardalnum verða menn að standa utan dyra hvernig sem viðrar.

Nú er unnið að miklum viðgerðum í Laugardalslauginni án þess að henni sé lokað. Hitalagnir og nýtt efni hefur verið sett á stéttina milli búningsklefa og laugarinnar. Margir hafa lengi kvartað undan því þegar salti er stráð á stéttina í hálku en nú er það sem sagt liðin tíð.

Helsti munurinn á því að stunda Sundhöllina og Laugardalslaugina felst í tvennu: í Laugardalnum er 50 m laug í stað 25 m og allt annað er að synda utan dyra en inni.

Laugardagur 18. 02. 12 - 18.2.2012

Í dag hitti ég tvo gamla bændur í Fljótshlíðinni, Böðvar í Butru og Ásgeir í Kollabæ, og fræddist af þeim um lífið hér í sveitinni. Böðvar hefur verið á Butru í 88 ár.  Hann man þegar hann var fluttur þangað 2 ára frá Lambhaga vegna veikinda móður sinnar. Ásgeir er rúmlega áttræður. Hann er frá Reynifelli sem er norðvestan við Þríhyrning. Báðir hafa búið einir, gera enn þrátt fyrir háan aldur og hafa frá mörgu að segja.

Ég skoðaði einnig lömbin tvö undan Fjalladrottningunni minni sem var skotin í leitum 28. október 2011. Í fyrstu virtist ætlun skotmanna að lóga lömbunum eins og móður þeirra að mér forspurðum en þau fengu að lifa og njóta nú góðs atlætis hjá Viðari í Hlíðarbóli. Annað lambanna, svört kollótt gimbur, hefur náð sér vel á strik og mun lifa. Henni hefur ef til vill verið gefið forystueðli móður sinnar. Mér skilst að enn séu þrjár ær inni á afrétti og njóti þar frelsis í friði.

Ég skrifaði pistil á síðuna í dag í tilefni af 17 ára afmæli hennar.

Föstudagur 17. 02. 12 - 17.2.2012

Í stjórnarskránni er mælt fyrir hvernig staðið skuli að breytingum á henni og er það í valdi alþingis. Strax eftir að Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra reyndi hún með aðstoð Framsóknarflokksins að knýja fram samþykki alþingis við því að þingið afsalaði þér þessu valdi. Jóhanna náði þessu ekki fram enda beittum við sjálfstæðismenn á þingi málþófi til að stöðva þetta ofbeldi. Þegar Jóhanna flutti tillögu sína um breytingu á stjórnarskránni að nýju hafði hún fellt á brott ákvæðið um að alþingi ætti ekki síðasta orðið um stjórnarskrárbreytingar.

Kosningar til stjórnlagaþings mistókust, þeir sem kjörnir voru ólöglegri kosningu hlutu þó skipan í stjórnlagaráð. Þar fengu allir eitthvað fyrir sinn snúð og skilaði ráðið alþingi tillögum sem eru að mati sérfróðra manna haldnar þeim ágalla að þær eru ganga ekki upp vegna innbyrðis árekstra.

Þingnefnd hefur fjallað um málið og nú ætlar meirihluti hennar að kalla stjórnlagaráðið saman að nýju fyrir nokkrar milljónir króna til að leggja mat á það sem gerst hefur hjá þingnefndinni í vetur. Loks er sagt að kosið verði um eitthvað tengt stjórnarskránni þegar gengið verður til forsetakjörs í lok júní 2012.

Meðferð stjórnarskrármálsins á þingi ber öll einkenni þjónkunar við Jóhönnu Sigurðardóttur og er enn til marks um hve langt þingmenn Samfylkingarinnar eru fúsir að ganga til móts við kröfur hennar þótt augljóst sé öllum öðrum að þær séu út í hött. Í raun eru þær álíka mikið út í hött og þegar Jóhanna svaraði gagnrýni á sig fyrir að hunsa viðskiptaþing 2012 með þeim orðum að hún væri hrærð yfir að hennar hefði verið saknað. Hundalógík af þessu tagi kann að eiga rætur að hjá Jóhanni Haukssyni. Hún dugar þó skammt og lækkar aðeins enn frekar risið á forsætisráðherra.

Fimmtudagur 16. 02. 12 - 16.2.2012

Í kvöld talaði ég um stöðuna í ESB-viðræðunum á fundi í Rótarý-klúbbi Rangæinga og svaraði spurningum fundarmanna. Staðan í viðræðunum er margþætt. Eitt er víst þær hafa þróast á allt annan veg en aðildarsinnar spáðu á þessum tíma fyrir þremur árum.

Ég sagði ýmislegt benda til þess að nú sætu þeir sem ættu að gæta hagsmuna Íslands gagnvart ESB í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum og semdu við sjálfan sig um markmið Íslendinga gagnvart ESB. Viðræðunefndirnar gerðu sér grein fyrir því að ekki væri neinna sérlausna að vænta, þær vildu því slá af kröfum áður en gengið yrði til viðræðna við ESB og máta sig fyrirfram inn í ramma ESB og kynna síðan markmið sem ekki væru of langt frá ESB til þess að ekki yrði sagt að viðræðunefndin hefði gefið allt of mikið til að ná samkomulagi.

Hér var þess getið í gær að í Spegli RÚV hefði ekki verið minnst á hæstaréttardóminn um að lög frá ríkisstjórninni um stöðu skuldara hefðu verið brot á stjórnarskránni. Í dag tók Gunnar Gunnarsson á sig rögg og ræddi málið við sjálfan seðlabankastjóra Má Guðmundsson sem vildi sem minnst úr málinu gera og sagði þetta ekki skipta seðlabankann neinu auk þess mundu íslensku bankarnir ekki fara á hliðina vegna þessa, þetta væri sem sagt bara allt í lagi og ástæðulaust að fara af hjörunum.

Þessi umfjöllun í Speglinum var dæmigerð fyrir þá sem vilja draga athygli frá pólitískri hlið málsins og telja að það snúist um stöðu bankanna. Árni Páll Árnason, ráðherra málsins á þeim tíma sem lögin voru samþykkt, talaði út og suður  í Kastljósi. Annars vegar fagnaði hann því að bankarnir stæðust álag vegna dómsins hins vegar sagði Árni Páll að „svigrúm bankanna“ ætti ekki að ráða heldur staða skuldara Honum tókst að slá Helga Seljan út af laginu og hlustendur voru ekki neinu nær að lokum um hvað málið snerist. Ekki var minnst einu orði á að Árni Páll hefði staðið að lögum sem brutu í bága við stjórnarskrá. Mátti helst skilja að svo væri vegna einhvers eldri dóms hæstaréttar. Staðfest var í lokin að ríkisstjórnin hefði meirihluta á alþingi og sæti meðan svo væri!

 


Miðvikudagur 15. 02. 12 - 15.2.2012

Áhugamenn um efnisval í Spegli RÚV ættu að velta fyrir sér hverjir hefðu verið kallaðir til að útmála ríkisstjórn með þátttöku Sjálfstæðisflokksins hefði hún fengið þá útreið sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fékk í hæstarétti í dag þegar dómur féll um að ákvæði í lögum hennar um afturvirka innheimtu vaxta bryti í bága við stjórnarskrána. Ekkert var rætt um málið í Speglinum og Helgi Hjörvar, formaður efnahagsnefndar alþingis, reyndi að blekkja útvarpshlustendur með því að segja í fréttum að 4 dómarar hefðu lagst gegn lagaákvæðinu en 3 stutt það, þetta væri því umdeilt meðal lögfræðinga. Dómurinn var hinn vegar 7:0 þeirrar skoðunar að afturvirk vaxtaákvæði brytu í bága við stjórnarskrána. Hvers vegna komst Helgi upp með þessa rangfærslu í fréttatímum? Hann var sagður hafa skroppið út af þingnefndarfundi til að ræða við fréttamanninn – var málið rætt á þessum vitleysu forsendum undir stjórn hans þar?

Ríkisstjórnin sagði í upphafi ferils síns fyrir þremur árum að hún ætlaði að slá skjaldborg um heimilin til að verja þau gegn of þungum byrðum vegna hruns bankanna. Nú hefur lagaákvæði sem hún setti að eigin sögn í þeim tilgangi  að styrkja skjaldborgina verið dæmt bæði of íþyngjandi fyrir hóp skuldara og auk þess að brjóta gegn stjórnarskránni.  

Egill Helgason telur að Eiríkur Jónsson hafi gert of mikið úr fundi Egils, Helga Seljans, Hallgríms Helgasonar og Jóhanns Haukssonar í Kaffifélaginu að morgni 1. febrúar og segir mig haldinn „þráhyggju“ vegna málsins. Egill taldi mig á dögunum hafa Baugsfeðga „á heilanum“.  Ég met mikils umhyggju Egils fyrir andlegri heilsu minni, hitt er óvenjulegt að álitsgjafi ræði á þennan veg um þátttakendur í umræðum líðandi stundar. Hvers vegna grípur Egill til þessa ráðs?

Þriðjudagur 14. 02. 12 - 14.2.2012 14:00

Furðulegt var að sjá hve Helgi Seljan brást illa við í Kastljósi kvöldsins þegar Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, benti á hvers vegna hann sæti enn fyrir svörum um mál sem hefði verið fyrir löngu upplýst af sinni hálfu og að því er hann varðaði. Bjarni sagði að DV hefði birt 450 greinar um málið á undanförnum árum og sakað sig án nokkurra raka um allt milli himins og jarðar í því. Markmiðið væri að vega að Sjálfstæðisflokknum og árásirnar hefðu að nýju farið af stað eftir að tillaga sín um afturköllun á landsdómsmálinu gegn Geir H. Haarde náði fram að ganga. Þá hefði Hallgrímur Helgason rithöfundur gengið fram fyrir skjöldu með grein í DV sem hefði beinlínis sett málið í pólitískt samhengi.

Þegar Bjarni minntist á Hallgrím tók Helgi kipp og gaf til kynna að nú væri sér nóg boðið. Bjarni hefði átt að minna Helga á kaffifélagsfundinn sem hann sat með Hallgrími, Agli Helgasyni og Jóhanni Haukssyni, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, að viðstöddum Eiríki Jónssyni skrásetjara 1. febrúar 2012. Þegar Helgi spurði Bjarna hvað hann hefði gert við peningana sem hann fékk fyrir hlutabréf sín í Glitni banka hefði verið vel við hæfi að Bjarni spyrði Helga hvað hefði gerst á kaffifélagsfundinum.

Lágkúran í þessum viðtölum Helga er slík að undrun vekur að menn samþykki að taka þátt í þeim. Ástæðan fyrir samþykkinu er einföld: Hönnuð er atburðarás meðal annars í fréttatímum RÚV sem er á þann veg að það er lagt út á hinn versta veg ef menn mæta ekki í viðtalið. Þessi fréttakúgun þar sem tengdar eru saman innistæðulausar ávirðingar í DV og margtuggðar fréttir í RÚV er þess eðlis að sæmir engum, síst af öllu RÚV sem hefur skýrar lögbundnar skyldur.

Helga Seljan varð tíðrétt um hvort Bjarna þætti þetta eða hitt siðlegt miðað við setu hans í stjórnum fyrirtækja fyrir hrun. RÚV lýtur stjórn sem opinbert hlutafélag. Spurning er hvort þeim sem þar sitja þyki siðlegt að láta hjá líða að sporna við óheillaþróuninni í Kastljósi og hjá fréttastofu RÚV sem birtist í aðferðum fréttakúgunarinnar.

Mánudagur 13. 02. 12 - 13.2.2012

Össur Skarphéðinsson sýnir Vigdísi Hauksdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins, dónaskap í svari til hennar vegna fyrirspurnar um hvernig var staðið að því að koma á fót Evrópustofu hér á landi fyrir fé frá stækkunardeild Evrópusambandsins.

Svar Össurar um að hann og ráðuneyti hans hafi ekki komið að málinu gengur þvert á það sem mér var sagt þegar ég heimsótti Media Consulta í Berlín undir lok október 2011. Fyrirtækið samdi við stækkunardeildina að loknu útboði. Ég hef skrifað forstöðukonu Evrópustofu og óskað svara við spurningum varðandi málið en Össur segir meðal annars í yfirlætisfullu svari sínu að Vigdís ætti ekki að spyrja sig heldur Evrópustofu. Nú reynir á sannleiksást þeirra sem þar starfa þegar þeir standa frammi fyrir svari Össurar. Verður fróðlegt að sjá hvort Evrópustofa stenst trúverðugleikaprófið.

Steingrímur J. Sigfússon sagði Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, að þegja í svari sínu við spurningum um gleði utanríkismálanefndar ESB-þingsins yfir því að Steingrímur J. tók við ráðherraembætti af Jóni Bjarnasyni.

ESB-þráðurinn er sífellt að styttast hjá ráðherrunum enda þrengist að þeim úr því að þeir hafa kosið þá leið í umræðum um ESB-aðildarumsóknina að skýra ekki satt og rétt frá málavöxtum. Spurning er hvenær stóra sprengjan verður en ekki hvort. Það er ekki til lengdar unnt að láta eins og veruleikinn í þessu máli sé hannaður í utanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíg. Evrópusambandið ræður ferðinni og sækir ekki síður að ráðherrunum en þeir sem spyrja þá á alþingi.

DV  boðar að Jón Ásgeir Jóhannesson muni sitja fyrir svörum lesenda. Blaðið er helsta málgagn Jóns Ásgeirs um þessar mundir á sama tíma og fréttir berast af því að hann hafi starfsaðstöðu í höfuðstöðvum 365 miðla sem eru í eigu eiginkonu hans. Fyrir nokkru var orðrómur um að Jón Ásgeir hefði lagt DV  til fjármuni og fleyti þeir blaðinu áfram. Fréttastofa RÚV vitnaði í DV í tveimur fréttum í kvöld annars vegar um Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, og hins vegar um hvaða lögfræðingar hefðu farið í bíó saman og tengdi það málaferlum gegn Baldri Guðlaugssyni.

Sunnudagur 12. 02. 12 - 12.2.2012

Nú er viðtal mitt á ÍNN frá 8. febrúar við Ragnhildi Helgadóttur, lagaprófessor við Háskólann í Reykjavík, komið á netið og má sjá það hér. Við ræddum um stjórnarskrármálefni með hliðsjón af bókinni Þingræði á Íslandi sem kom út í lok síðasta árs.

Á Evrópuvaktinni birtist frétt um ACTA-samninginn sem sætir mikilli andstöðu í Þýskalandi, Póllandi, Tékklandi, Slóvakíu og Lettlandi. Framkvæmdastjórn ESB gerði samninginn í samvinnu við 10 ríki utan ESB, þar á meðal Bandaríkin. Markmið samningsins er að sporna gegn stuldi á höfundarrétti með eftirgerð á vörum, hann nær hins vegar einnig til netheima. Aðferðin, leyndin, við gerð samningsins hefur vakið tortryggni netverja og efndu þeir til mótmæla víða um heim í gær.

Íslenskir fjölmiðlar hafa ekki sýnt þessu máli áhuga og þess hefur ekki orðið vart hér á landi að menn láti sig þennan nýja samning neinu varða. Eitt er efni hans annað aðferðin við gerð hans. Hún gengur gegn röksemdum þeirra sem segja að með aðild að ESB stæðu Íslendingar betur að vígi en innan EES til að gæta íslenskra hagsmuna gagnvart embættismannaveldinu í Brussel.  ACTA-samningurinn var gerður þegjandi og hljóðalaust og fréttir af honum benda til þess að tilviljun ein hafi ráðið að fréttir bárust af honum til almennings.

Danski þátturinn Borgen eða Höllin á íslensku sýnir að stjórnmál eru alls staðar á sama veg. Harkan er mikil í dönskum stjórnmálum  þegar litið er til þess hve nærri stjórnmálamönnum er gengið í fjölmiðlum. Lene Espersen varð til dæmis að segja af sér sem formaður Íhaldsflokksins eftir að markvisst var saumað að henni sem utanríkisráðherra og látið í veðri vaka að hún hugsaði meira um frí með fjölskyldu sinni en að sækja alþjóðafundi. Þá hefur verið gert grín að Villy Sövndal, núverandi utanríkisráðherra og formanni sósíalíska þjóðarflokksins, fyrir hve lélegur hann sé í ensku og hafi verið í krumpuðum fötum þegar hann hitti Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Washington.

Í þættinum er orðið ráðasmiður notað til að íslenska spindoktor. Ég minnist ekki að hafa séð það í þessari merkingu áður, hef notað orðið spunaliði. Það nær betur því sem á að lýsa; ráðasmiður er hvorki gagnsætt né felst í orðinu sá óvirðingartónn sem fylgir orðinu spindoktor.






Laugardagur 11. 02. 12 - 11.2.2012

Í kvöld var Götterdämmerung (Ragnarök), lokaóperan í Niflungahringnum eftir Richard Wagner, sýnd í Kringlubíói beint frá Metropolitan-óperunni í New York. Allar fjórar óperunnar í Hringnum eftir Wagner hafa nú verið settar upp í Metropolitan-óperunni undir stjórn Kanadamannsins Robert Lepage. Þær hafa einnig verið sýndar í Kringlubíói og sá ég fyrstu óperuna Das Reihngold (Rínargullið) á sínum tíma en missti af Die Valküre (Valkyrjunum) og Siegfried. Sýningin á Götterdämmerung tekur tæpar 6 klukkustundir með tveimur hléum. Allur Hringurinn tekur um 15 klukkustundir og sá ég hann í heild á Wagner-hátíðinni í Bayreuth í Bæjaralandi fyrir nokkrum árum eins og sjá má hér á síðunni.

Wagner sækir efni í norræna goðafræði í þetta stórvirki sitt og hefur Árni Björnsson þjóðháttafræðingur ritað bók þar sem hann lýsir því hvernig Wagner nýtir þetta efni. Er vaxandi áhugi á bókinni í Þýskalandi og hefur Árni farið margar ferðir til Þýskalands undanfarið, flutt fyrirlestra og kynnt bókina.

Á næsta ári, 2013, eru 200 ár liðin frá fæðingu Wagners og eru óperur hans sýndar víða um heim af því tilefni. Óperan í París, Bastillu-óperan, setur til dæmis upp Hringinn næsta vetur. Allur Hringurinn, óperunar fjórar, verða síðan sýndar einu sinni á átta dögum undir lok júní 2013. Miðasala á þann einstaka viðburð er nýhafin.

Í lok apríl og byrjun maí í ár mun Metropolitan-óperan sýna Hringinn í heild þrisvar sinnum. Óperan kynnir uppsetningar sínar á mjög skemmtilegan hátt á öflugri heimasíðu sinni eins og sjá má hér.

Föstudagur 10. 02. 12 - 10.2.2012

Fanný og Alexander í Borgarleikhúsinu er glæsileg sýning og margbrotin. Skemmtilegt er að sjá hvað hún nýtur mikilla vinsælda, mikil eftirspurn kallar á að sýningum sé fjölgað frá upphaflegri auglýsingu. Ein slík var fyrir fullu húsi í kvöld við góðar undirtektir.

Skoðanakönnun í Fréttablaðinu sem birt er í dag sýnir að Samstaða, nýr flokkur Lilju Mósesdóttur, tekur forystu meðal flokkanna vinstra megin við miðju. Fylgið hrynur af Samfylkingu og VG. Of fáir taka afstöðu til að könnunin sé marktæk um fjölda þingmanna, hún sýnir hins vegar að með framboði sínu hefur Lilja valdið miklu uppnámi í röðum vinstri manna. Flokkur Guðmundar Steingrímssonar nær sér ekki á strik enda hefur hann ekki birt neina stefnu og lætur eins og um starfsemi hans eigi að gilda önnur lögmál en um stjórnmálaflokka almennt.

Jóhanna Sigurðardóttir dregur ekki að nein atkvæði, meira að segja Jóhann Hauksson, upplýsingafulltrúi hennar, getur ekki breytt því. Hlutverk hans sýnist helst felast í því að koma í veg fyrir að fréttir berist af Jóhönnu eða yfirlýsingum hennar. Hún sagði til dæmis að alþingi væri óheimilt að afturkalla landsdómsákæruna á hendur Geir H. Haarde. Reyndist hún þar ganga þvert á skoðun sjálfs saksóknarans í málinu, Sigríðar Friðjónsdóttur. Þá sagði Jóhanna að álögur ríkisins á bensín hefðu hækkað um 3 krónur eftir áramót en Runólfur Ólafsson hjá FÍB leiðrétti hana og sagði að hækkunin hefði verði 6,42  kr. Fréttastofa RÚV flytur dag eftir dag fréttir af því ef einhverjar stofnanir ríkisins teljast ekki standa sig nægilega vel við þetta eftirlit eða hitt. Fréttastofan lætur hins vegar eins og það sé smámál ef forsætisráðherra er dag eftir dag staðinn að því að skýra rangt frá staðreyndum.

 

Fimmtudagur 09. 02. 12 - 9.2.2012

Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti 11. sinfóníu Dímítríjs Sjostakovítsj með miklum glæsibrag í kvöld undir stjórn Peters Oundijans.

Björn Valur Gíslason, orðhákur VG, bolsótast yfir því að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn skuli að nýju komnir í meirihluta í bæjarstjórn Kópavogs. Hann beinir reiði sinni einkum að Gunnari I. Birgissyni og Ómari Stefánssyni. Tilgangur Björns Vals er að draga athygli frá þeirri staðreynd að Ólafi Þór Gunnarssyni, bæjarfulltrúa og varaþingmanni VG, mistókst að halda fráfarandi meirihluta á lífi.

Ólafur Þór Gunnarsson er í flokksklíku innan VG með Birni Vali og Steingrími J. Sigfússyni en þeim hefur haldist ákaflega illa á fólki eins og klofningur bæði innan þingflokks VG og bæjarstjórnar Kópavogs sýnir. Yfirgangssemi Björns Vals sem lýsir sér í stóryrðum hans um menn og málefni í von um að geta þannig mulið undir Steingrím J. mælist almennt illa fyrir innan flokksins. Þeir félagar einangrast sífellt meira og meira eftir því flæðir undan þeim.

Ólafur Þór sat á alþingi sem varamaður á meðan Guðfríður Lilja Grétarsdóttir var í leyfi frá þingstörfum. Þá áttu þeir Steingrímur J. og Björn Valur innhlaup í suðvesturkjördæmi. Guðfríður Lilja og Ögmundur Jónasson sem sitja á þingi sem þingmenn VG í suðvesturkjördæmi gefa lítið fyrir Björn Val og Steingrím J. Þau líta nú þannig á að með því að glutra niður meirihlutasamstarfinu í Kópavogi hafi Ólafur Þór fyrirgert rétti sínum til að sitja á framboðslista VG.

Reiði Björns Vals á ekkert skylt við það sem hann kallar „gjörspillta stjórnmálamenn“ í öðrum flokkum hann er fyrst og síðast reiður yfir því að þeir Steingrímur J. hafa ekki lengur nein ítök í suðvesturkjördæmi.

Miðvikudagur 08. 02. 12 - 8.2.2012

Í dag ræddi ég við Ragnhildi Helgadóttur, lagaprófessor í Háskólanum í Reykjavík, í þætti mínum á ÍNN. Tilefnið var ný bók Þingræði á Íslandi sem Forlagið gaf út fyrir jólin í tilefni af því að árið 2004 voru 100 ár liðin frá því að þingræði kom hér til sögunnar með heimastjórninni. Þingræðið er spennandi lögfræðilegt álitaefni sem dregur athygli að mörgu í stjórnmálum líðandi stundar og umræðum um breytingar á stjórnarskránni.

Ragnhildur ræddi um hina viðurkenndu lögfræðilegu niðurstöðu að fyrir venju yrðu til ígildi stjórnarskrárákvæða eins og reglan um að dómstólar ákvarði hvort lög samrýmist stjórnarskránni. Hún er hvergi skráð en styðst við venju frá því um 1900. Það er ekki unnt að breyta þessari reglu með venjulegum lögum. Ég spurði hvort ekki mætti líta þannig á að með samþykkt EES-laga  tæp 20 ár hefði orðið til stjórnarskrárregla og því væri ekki unnt að líta á samþykkt þessarar laga sem stjórnarskrárbrot eins og Össur Skarphéðinsson hefði sagt. Ragnhildur hafði ekki kynnt sér ummæli Össurar og leiddi því spurninguna um hann hjá sér en lýsti sérstöðu EES-samningsins.

Þegar ég vék að lúalegri framkomu Helga Seljans í garð Ögmundar Jónassonar í Kastljósi í gær vissi ég að einhverjir yrðu til að finna að þeim orðum. Ég átti þó ekki von á því að Björn Valur Gíslason, hinn orðhvati þingflokksformaður VG, gerði það á þann veg að slíta úr samhengi orð mín um boðsferðir í fyrri dagbókarfærslu hér á síðunni. Ögmundur er greinilega kominn á válista hjá ráðandi öflum innan þingflokks VG. Ég er undrandi á því hvað hann sýnir Birni Vali og Steingrími J. mikið langlundargeð. Þeir vinna leynt og ljóst gegn honum.

Spá mín er að sífellt fleiri innan VG átti sig á því að Ögmundur er mun vænlegri formaður flokksins en Steingrímur J. Ögmundur hefur ekki selt sál sína fyrir völdin eins og Steingrímur J. Fyrir flokk sem vill halda í prinsipp eru hrein öfugmæli að hafa mann eins og Steingrím J. á toppnum.

Þriðjudagur 07. 02. 12 - 7.2.2012

Í morgun hélt Jón Magnússon hrl. uppi vörnum fyrir mig í hinu furðulega máli sem Jón Ásgeir Jóhannesson hefur höfðað gegn mér vegna ritvillu í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi sem hefur verið leiðrétt með afsökun minni. Fyrir Jóni Ásgeiri vakir fyrst og fremst að þagga niður í öllum sem tala ekki um hann opinberlega eins og hann vill; í öðru lagi finnst honum þjóna sérstökum tilgangi að ná þessu markmiði með því valda mér óþægindum – það lýsir ekki miklum stórhug að nota prentvillupúkann í þessum tilgangi.

RÚV sagði ekki rétt frá málavöxtum í hádegisfréttum, ég hringdi í fréttastofuna og bað um leiðréttingu. Ég hef ekki heyrt hana flutta í fréttatíma.

Eftir að hafa horft á Helga Seljan ræða við Ögmund Jónasson innanríkisráðherra í Kastljósi kvöldsins datt mér í hug það sem Haukur Ingi Jónasson sagði við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Sunnudagsmogganum 5. febrúar. Haukur Ingi sagði:

„Þar [í íslenskri fjölmiðlastétt] er mikið af fordómafullu ungu fólki sem býr yfir litlu innsæi. Það svífst einskis, sem getur verið nokkur kostur, en höfuðgallinn er að það skautar oft yfir það sem máli skiptir vegna þess að það sér það ekki. Í fréttaflutninginn skortir yfirlegu, ígrundun, rökvísi, siðfágun og það að taka næsta skrefið.“

Undir lok þáttarins ætlaði Helgi Seljan að slá Ögmund út af laginu með því að líkja honum við Geir H. Haarde og gera hann með því að einskonar ómerkingi. Þessi lúalega framkoma sló Ögmund ekki út af laginu, hann sagðist einfaldlega hafa svarað spurningum Helga. Geir H. Haarde hefur einnig setið fyrir svörum í Kastljósi. Helgi sannaði með framkomu sinni að markmið Kastljóss er ekki að upplýsa áhorfendur með því að kalla á fólk til samtals heldur að setja viðmælendur upp að vegg að geðþótta þess sem spyr hverju sinni.

 

Mánudagur 06. 02. 12 - 6.2.2012

Merkilegt ef unnt er að beina umræðum um 480 milljarða króna tap lífeyrissjóðanna inn á þá braut að málið snúist um boðsferðir til stjórnenda sjóðanna og þar með sé látið í veðri vaka að tekin hafi verið óeðlileg áhætta vegna þeirra. Þegar fjölmiðlamenn gera svo mikið veður út af áhrifamætti boðsferða verður mér oft hugsað til þess með hvaða hugarfari þeir sjálfir þiggja boð í slíkar ferðir.  Verða þeir fyrir svo miklum áhrifum að taka beri öllu með fyrirvara sem þeir segja í ferðinni eða eftir hana?

Í tíð minni sem blaðamaður sá ég aldrei neitt athugavert við að þiggja boð í kynnisferðir í öðrum löndum eða á fundi og ráðstefnur erlendis. Ég leit þannig á að ég yrði að haga öllu sem ég skrifaði á þann veg að ég glataði ekki trausti lesenda Morgunblaðsins. Hafi stjórnendur lífeyrissjóða tekið að haga sér á ábyrgðarlausan hátt eftir einhverja boðsferð hefði það örugglega vakið tortryggni einhvers staðar á sínum tíma. Á hinn bóginn er annar kvarði notaður til að leggja mat á starfshætti sjóðanna nú en fyrir hrun.

Skýrasta dæmið um hið breytta viðhorf má sjá í umræðum um matsfyrirtækin og einkunnir þeirra. Enginn dró einkunnirnar í efa á meðan allt lék í lyndi en um leið og syrtir i álinn og þau taka til við að lækka einkunnir á setja þau út af sakramentinu. Miklar umræður eru um þessi fyrirtæki víða um lönd. Margir fóru flatt á því að taka mark á þeim fyrir hrun. Skyldu þau hafa ráðið einhverju um ákvarðanir stjórnenda lífeyrissjóðanna?

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra var stjórnarformaður Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins árið 2007. Hann segir á vefsíðu sinni 4. febrúar:

„Nauðsynlegt er að skoða það áfall sem lífeyrissjóðakerfið varð fyrir í samhengi við hrunið  sem hér varð og þá efnahagskreppu sem heimsbyggðin hefur verið að ganga í gegnum. Bankakerfið á Íslandi fór allt á hausinn. Sama á við um flesta sparisjóði. Fjárfestingafélög fóru flest í þrot og sama gilti um sum tryggingafélög. Erlendis urðu lífeyrissjóðir fyrir miklu áfalli. Á árinu 2008 var meðalávöxtun lífeyrissjóða innan OECD 23% í mínus. Sama ár tapaði norski olíusjóðurinn fjórðungi af eignum sínum.“

Sunnudagur 05. 02. 12 - 5.2.2012

Veðrið var eins gott og á verður á þessum árstíma í Fljótshlíðinni í dag, logn og bjart, Eyjafjallajökull blasti við tignarlegur og snjóhvítur. Rut og Richard Simm héldu í annað sinn tónleika í hlöðunni hjá okkur við góðar undirtektir áheyrenda.

Laugardagur 04. 02. 12 - 4.2.2012

Líklega horfi ég nú orðið meira á DR 1, danska ríkissjónvarpið, en hið íslenska. Mynda- og þáttavalið þar fellur mér mun betur en í RÚV. Silfur Egils fer einhvern veginn alltaf framhjá mér og sárasjaldan er nefnt við mig að ég þurfi að sjá eitthvað sem þar var sýnt.

Í leiðara Morgunblaðsins í dag er birtur kafli úr Spegli rásar 1 á RÚV um þýsk stjórnmál og stöðu Frjálsra demókrata þar sem sýnir að í þann þátt er ekkert að sækja, að minnsta kosti ekki um þýsk stjórnmál. Dæmið sem blaðið birtir sýnir að fyrir höfundi pistilsins vakir frekar að koma höggi á pólitíska andstæðinga sína á Íslandi en lýsa því sem leitt hefur vandann yfir Frjálsa demókrata í Þýskalandi. Einfalda staðreyndin um vandræði flokksins er að Guido Westerwelle sem leiddi hann til sigurs í síðustu sambandsþingskosningum reyndist gjörsamlega misheppnaður þegar á hann reyndi sem utanríkisráðherra. Hann var settur af sem formaður og flokkurinn er í sárum vegna innan meina.

Kolbrún Bergþórsdóttir ræðir við dr. Hauk Inga Jónasson í Sunnudagsmogganum 5. febrúar. Hann segir meðal annars:

„Íslenskir fjölmiðlar eru annað merkilegt mál. Í mínum huga er góður blaða- og fjölmiðlamaður einstaklingur með sterkan karakter sem er þrautþjálfaður í að rýna af rökvísi í málefni, sjá þau í hlutlægu ljósi, og er fær um að draga skynsamlegar ályktanir á grundvelli upplýsinga og innsæis. Í íslenskri fjölmiðlastétt eru of margir ekki færir um þetta. Þar er mikið af fordómafullu ungu fólki sem býr yfir litlu innsæi. Það svífst einskis, sem getur verið nokkur kostur, en höfuðgallinn er að það skautar oft yfir það sem máli skiptir vegna þess að það sér það ekki. Í fréttaflutninginn skortir yfirlegu, ígrundun, rökvísi, siðfágun og það að taka næsta skrefið. Oft les maður hálfkaraðar fréttir sem stimplaðar eru þótta unglingsins, og lesandinn spyr sig - ef hann þá spyr sig, og þar er hættan - Hvað svo? Hvað merkir þetta? Hvernig á að túlka þetta? Ég tel að íslenskir blaða- og fjölmiðlamenn ættu að setja markið hærra og miða sig faglega við rótgróna fjölmiðla á borð við New York Times.“

Ég er Hauki Inga sammála og þess vegna hallast ég ekki aðeins æ meira að danska sjónvarpinu heldur einnig BBC World Service og erlendum blöðum, ekki síst eftir að ég fékk undratækið iPad.

 

Föstudagur 03. 02. 12 - 3.2.2012

Furðulegt er að mönnum í meirihluta stjórnarskrár- og eftirlitsnefndar alþingis láti sér til hugar koma að afgreiða ekki landsdómstillögu Bjarna Benediktssonar úr nefnd. Það er alls ekki unnt að vísa til þess að algengt sé að þingamannamál liggi óafgreidd í nefndum. Um þessa tillögu gilda ekki almennar reglur eins og þegar hefur sannast á þingi. Venjulega er tillögum vísað næstum umræðulaust og samhljóða til nefnda. Allt öðru máli gegnir um þessa tillögu.

Dragist afgreiðsla tillögunnar hjá þingmönnum hlýtur landsdómur að fresta meðferð máls. Það er fráleitt að taka það til meðferðar fyrir dómi sé óljóst hvað afstöðu ákærandinn hafi til framhalds málsins. Um það er vafi á meðan málið er enn til meðferðar í alþingi. Að halda tillögunni fastri í þingnefnd jafngildir því að ætla að beita bakherbergja-aðferð til hafa áhrif á niðurstöðu málsins.

Fimmtudagur 02. 02. 12 - 2.2.2012

Síðdegis sat ég fund Lögréttu, félags laganema við Háskólann í Reykjavík. Fjöldi manns hlýddi þar á umræður um hleranir lögreglu og hvaða skilyrði ættu að gilda um heimild til þeirra. Sérstakur saksóknari hefur fengið fjölmargar heimildir til að hlera síma og af því sem fram kom á fundinum mátti ráða að dómarar hefðu veitt þær með vísan til ákvæða sakamálalaga um „ríka almannahagsmuni“.

Ágreiningur var um túlkun á almannahagsmunum í þessu tilliti. Skýra ætti þá með vísan til þess að hlerun væri nauðsynleg  í því skyni að rjúfa brotaferli en ekki á þann veg að hlera ætti vegna brota sem hugsanlega hefðu verið framin fyrir nokkrum árum eins og efnahagsbrot. Á móti þessu sjónarmiði var bent á nauðsyn þess að beita öllum lögmætum ráðum, þar á meðal hlerunum, til að upplýsa mál og varla væri unnt að benda á stærri mál sem snertu ríka almannahagsmuni en hrun bankakerfisins.

Á fundinum var enginn ágreiningur um nauðsyn og gildi símhlustunnar við að upplýsa sakamál. Lögð var áhersla á nauðsyn þess að ríkissaksóknari héldi uppi því eftirliti með framkvæmd hlerana sem honum væri skylt lögum samkvæmt. Var skýrt frá því að eftirlitið væri nú framkvæmt á skipulegan hátt.

Fyrir sex árum ollu „uppljóstranir“ um margra áratuga gömul hleranamál miklu uppnámi á pólitískum vettvangi, umræðum utan dagskrár á alþingi og urðu jafnvel hluti af prófkjörsbaráttu hjá sjálfstæðismönnum.

Nú þegar símhleranir eru tíðari og víðtækari en nokkru sinni fyrr í Íslandssögunni hreyfa aðeins fáeinir verjendur þeirra sem sæta hlerunum að ósk sérstaks saksóknara andmælum. Augljóst er að andrúmsloftið í samfélaginu ræður meiru um afstöðu til hlerana en hlustunin sjálf. Því var spáð á fundinum í Háskólanum í Reykjavík að síðar yrðu örugglega harðar umræður um þennan þátt í rannsókn mála vegna bankahrunsins.

Undanfarið hef ég vakið máls á skjallbandalagi hér á síðunni. Kenning mín um það fellur saman við þetta sem Eiríkur Jónsson stjörnubloggari færði á síðu sína miðvikudaginn 1. febrúar:

„Líf og fjör á gangstéttinni fyrir utan Kaffifélagið á Skólavörðustíg eldsnemma í morgun.

Drakk þar morgunkaffið með Hallgrími Helgasyni og frú, Jóhanni Haukssyni nýráðnum blaðafulltrúa ríkisstjórnarinnar og sjónvarpsstjörnunum Helga Seljan og Agli Helgasyni.

Alvörumálin krufin með hálfkæringi – en mest þó hlegið að lífinu,“

Miðvikudagur 01. 02. 12 - 1.2.2012

Það var vel til fundið hjá Kastljósi að gefa Eiríki Inga Jóhannssyni, skipverja á togaranum Hallgrími sem fórst undan Noregsströndum í síðustu viku, svona góðan tíma tíma í kvöld til að segja frá einstakri lífsreynslu sinni.  Styrkur hans við slysið og björgunina endurspeglaðist í magnaðri frásögn hans.

Það er með ólíkindum ef 75% öryggismyndavéla í miðborg Reykjavíkur eru óvirkar og ef varsla í og við Stjórnarráðshúsið er með þeim hætti að ekki sé vitað í fjarskiptamiðstöð lögreglunnar hvernig eigi að bregðast við tilkynningu um sprengingu í næsta nágrenni þess. Fyrsta boðorð við alla öryggisgæslu er að búa þannig um hnúta að unnt sé að halda uppi eftirliti þar sem það er nauðsynlegt og grípa til réttra viðbragða sé þeirra þörf.

„Það gerist aldrei hér“ er setning sem alltof oft heyrist í umræðum um öryggismál á Íslandi. Í samræmi við hana lýsa menn síðan undrun yfir því þegar atburðir á borð við spreninguna í Hverfisgötu verða. Að sjálfsögðu geta sömu hlutir gerst hér og hvarvetna annars staðar.

Greiningardeild lögreglunnar var komið á fót til að fyrir hendi væri mat á því sem kynni að gerast í ljósi þróunar og vitneskju lögreglunnar. Upplýsingar deildarinnar byggjast á rannsókn vegna afbrota en ekki forvirkum rannsóknum. Skortur á þeim er veikur hlekkur í íslenskri öryggisgæslu.