Dagbók: júní 2000

Föstudagur 30.6.2000 - 30.6.2000 0:00

Klukkan 11.00 var efnt til ríkisráðsfundar á Bessastöðum. Alþingi kom saman til fundar klukkan 13.30 og var tillaga um Kristnihátíðarsjóð tekin til fyrri umræðu.

Miðvikudagur 28.6.2000 - 28.6.2000 0:00

Klukkan 14.30 tók ég þátt í því að taka nýjan fjarfundabúnað í Vík í Mýrdal í notkun með því að sitja fjarfund í höfuðstöðvum Byggðastofnunar við Engjateig með fólki í Vík.

Þriðjudagur 27.6.2000 - 27.6.2000 0:00

Klukkan 14.00 kom frú Deng, aðstoðarvísindaráðherra Kína, í heimsókn til mín en hún dvaldist hér í nokkra daga með sendinefnd og heimsótti einkum vísinda- og rannsóknarstofnanir. Ekki var síst merkilegt að hitta frú Deng, þar sem hún er dóttir þess Dengs, sem var alráður í Kína á síðasta áratug og innleiddi þar hið tvöfalda kerfi, það er kapítalisma með sósíalisma með þeim orðum, að það væri sama hvort kötturinn væri svartur eða hvítur, ef hann veiddi mýs. Deng var lengi í kör og mátti ekki mæla með þeim hætti, að allir skildu, varð dóttir hans helsti tengiliður hans við umheiminn, þar sem hún skildi muldur föður síns og túlkaði fyrir öðrum. Spurði ég frú Deng, hvort hún hefði gegnt þessu hlutverki. Hún sagði yngri systur sína einkum hafa hjúkrað og sinnt föður þeirra, því að sjálf hefði hún verið önnum kafin við ráðherrastörf, en þó hefði hún einnig komið hér við sögu. Þá staðfesti hún, að faðir sinn hefði verið mikill briddsspilari, auk þess sem hann hefði haft yndi af því að stunda sund. Sagði frúin, að systir sín hefði ritað sögu föður þeirra á tímum menningarbyltingarinnar, en þá var hann sviptur öllum völdum og mátti þola ofsóknir af völdum fjórmenningarklíkunnar, sem laut forystu eiginkonu Maós formanns. Væri bókin væntanleg á ensku.

Mánudagur 26.6.2000 - 26.6.2000 0:00

Flogið klukkan 08.45 frá Malaga um Madrid til Keflavíkur.

Mánudagur 19.6.2000 - 19.6.2000 0:00

Flogið klukkan 07.00 frá Keflavík um Madrid til Malaga.

Mánudagur 18.6.2000 - 18.6.2000 0:00

Klukkan 13.40 flugum við til Egilsstaða og ókum þaðan að Skriðuklaustri en þar var verið að opna hús Gunnars Gunnarssonar skálds að nýju eftir endurbætur og undir merkjum Gunnarsstofnunar. Kom það í minn hlut að opna húsið með ræðu, en um 100 manns tóku þátt í athöfninni á þessum einstæða stað. Vona ég, að sem flestir leggi þangað leið sína til að kynnast hinum óvenjulega stórhug skáldsins. Komum aftur til Reykavíkur klukkan 21.35.

Sunnudagur 18.6.2000 - 18.6.2000 0:00

Klukkan 13.40 flugum við til Egilsstaða og ókum þaðan að Skriðuklaustri en þar var verið að opna hús Gunnars Gunnarssonar skálds að nýju eftir endurbætur og undir merkjum Gunnarsstofnunar. Kom það í minn hlut að opna húsið með ræðu, en um 100 manns tóku þátt í athöfninni á þessum einstæða stað. Vona ég, að sem flestir leggi þangað leið sína til að kynnast hinum óvenjulega stórhug skáldsins. Komum aftur til Reykavíkur klukkan 21.35.

Laugardagur 17.6.2000 - 17.6.2000 0:00

Klukkan rúmlega 10.00 héldum við Rut af stað í Alþingishúsið, þar sem þeir voru að safnast saman, sem síðan gengu í skrúðgöngu að styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli, hlýddu á ræður, söng og fjallkonuna og héldu síðan í Dómkirkjuna, þar sem biskup prédikaði. Klukkan 14.00 vorum við í Þingvallakirkju, þar sem sr. Þórhallur Heimisson þjónaði fyrir altari en ég flutti stólræðu. Klukkan 17.00 fórum við í Þjóðmenningarhúsinu, þegar Halldór Blöndal, forseti alþingis, opnaði sýninguna: Kristni í 1000 ár. Þennan dag birtist viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við mig í Degi.

Föstudagur 16.6.2000 - 16.6.2000 0:00

Klukkan 10.30 sótti ég fyrsta ársfund Háskóla Íslands í hátíðarsal skólans. Þessi fundur er nýmæli í samræmi við ný háskólalög og þar gefst tækifæri til að líta í senn yfir farinn veg og fram á við. Yfirlit yfir fjármál skólans sýnir, að hann fjárveitingar úr ríkissjóði hafa aukist jafnt og þétt síðustu ár. Klukkan 15.00 fór ég í Nýja garð og kynnti mér starfsemi Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands, sem hefur starfað í um það bil ár og er að móta sér sess innan skólans og í fræða- og rannsóknaheiminum.

Miðvikudagur 14.6.2000 - 14.6.2000 0:00

Efndi til viðtala fyrir og eftir hádegi við þá og sýnist mér nú, að tekist hafi að ná viðmælendalistanum í skaplegt horf, eftir að hann hafði lengst nokkuð undanfarna mánuði vegna fundaferða innan lands og utan. Klukkan 20.30 fórum við í Þjóðleikhúsið, litla svið, og sáum leikritið Hægan Elektra eftir Hrafnhildi Hagalín Guðmundsdóttur.

Þriðjudagur 13.6.2000 - 13.6.2000 0:00

Klukkan 18.00 hittist Þingvallanefnd á Þingvöllum og kynnti sér stöðu framkvæmda til undirbúnings kristnihátíðinni 1. og 2. júlí. Einkum könnuðum við, hvort staðið væri að málum í samræmi við heimildir frá nefndinni. Kom okkur sérstaklega á óvart, hve stigar, brýr og pallar eru miklir við Öxarárfoss.

Laugardagur 10.6.2000 - 10.6.2000 0:00

Klukkan 14.30 opnaði ég Höggmyndagarð að Sólheimum í Grímsnesi, sem hefur verið settur þar upp fyrir frumvkæði Péturs Sveinbjarnarsonar og er enn til marks um stórhug þeirra, sem standa að starfinu að Sólheimum. Eftir að ég kom aftur til Reykjavíkur skrapp ég í Laugardalshöllina, tjald við hana og Skautahöllina til að hlusta á hljómsveitir leika á tónlistarhátíðinni í Reykjavík, sem stóð yfir helgina. Hitti ég sérstaklega Stefán og félaga hans í Sálinni hans Jóns míns.

Fimmtudagur 8.6.2000 - 8.6.2000 0:00

Klukkan 17.00 var athöfn í Listasafni Íslands, þar sem ég tók á móti málverkagjöf frá Slóveníu en félagar í Rotatry-klúbbi í Portoroz höfðu atbeina að gjöfinni en listamaðurinn Oblak kemur úr þeirra hópi og tók þátt í athöfninni ásamt stjórn Rotaryklúbbs Reykjavíkur, sem var tengiliður hér á landi. Málverkin eru þakklætisvottur fyrir að Íslendingar urðu fyrstir til að viðurkenna sjálfstæði Slóveníu. Klukkan 20.00 hófust stórsöngvaratónleikar með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Laugardalshöll og þar með lokaviðburður Listahátíðar í Reykjavík árið 2000. Buðum við Rut til lokahófs eftir tónleikana í Ásmundarsafni.

Miðvikudagur 7.6.2000 - 7.6.2000 0:00

Klukkan 9.00 hófst fundur norrænu menningarmálaráðherranna í skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar. Um hádegisbilið ók ég þaðan til Marianeborgar, sumarseturs danska forsætisráðherrans, þar sem fundur norrænna menntamálaráðherra var haldinn síðdegis. Flaug heim um kvöldmatarleytið.

Þriðjudagur 6.6.2000 - 6.6.2000 0:00

Klukkan 9.00 setti ég málþing menntamálaráðuneytisins um lesskimun í Borgartúni 6. Var stóri salurinn þar fullur af fólki með um 300 manns og komust færri að en vildu. Kom greinilega í ljós, að mikill áhugi er á dyslexíu-vanda innan íslenska skólakerfisins og brýnt að virkja alla þá góðu krafta sem þar eru til að hjálpa þeim, sem við vandann glíma. Síðdegis flaug ég til Kaupmannahafnar og um kvöldið var menningarkynning, málsverður og fundur í danska menningarmálaráðuneytinu.

Sunnudagur 5.6.2000 - 5.6.2000 0:00

Í hádeginu fór ég á fund með stjórn Verslunarráðs Íslands og ræddi um menntamál. Um kvöldið fór ég á tónleika Kammersveitar Reykjavíkur í Salnum, þar sem flutt var íslensk nútímatónlist.

Sunnudagur 4.6.2000 - 4.6.2000 0:00

Fórum um kvöldið í Ými og hlustuðum á Hamrahlíðarkórinn flytja verk eftir íslensk tónskáld.

Föstudagur 2.6.2000 - 2.6.2000 0:00

Klukkan 16.00 voru pallborðsumræður um nýja námskrá hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla íslands við Dunhaga. Klukkan 18.00 opnaði ég sýninguna Áráttu á samtímalistaverkum í eigu Péturs Arasonar og Rögnu Róbertsdóttur í Gerðarsafni. Síðan fórum við í hátíðarkvöldverð hjá Stórstúku Íslands, þar sem ég var heiðraður ásamt ýmsum öðrum. Laugardagur 3. júní Klukkan 13.00 var Listaháskóla Íslands slitið í fyrsta sinn og við Hjálmar H. Ragnarsson rektor rituðum undir samstarfssamning. Fórum í Hafnarborg þar sem var að hefjast sýning á málverkum Louisu Matthíasdóttur, eiginmanns hennar og dóttur.

Fimmtudagur 1.6.2000 - 1.6.2000 0:00

Klukkan 14.00 opnaði ég sýninguna Íslensk byggingatækni í Kjöthúsinu í Árbæjarsafni. Úr Árbæ fórum við í Árnastofnun, þar sem verið var að opna sýningu á handritum sem tengjast landafundum og kristnitöku. Um kvöldið fórum við í Háskólabíó og hlýddum á tónleika finnska píanóleikarans Olli Mustonen.