Dagbók: apríl 2014

Miðvikudagur 30. 04. 14 - 30.4.2014 23:15

Fór í hádegi í Listaháskóla Íslands við Þverholt og hlustaði á Godd (Guðmund Oddsson) segja frá lífi sínu og lífsstarfi frá 1974 til 2004 fyrir þéttsettnum sal áheyrenda og margir fengu ekki sæti. Goddur er góður sögumaður auk þess sem hann sýndi mikið af myndum máli sínu og listsköpun til skýringar. Hann komst yfir mikið efni klukkustundar fyrirlestri sínum.

Tveir þættir mínir á ÍNN í apríl eru nú loks komnir á netið.

Hinn fyrri er frá 9. apríl þegar ég ræddi við Steingrím Erlingsson útgerðarmann um skipið sem er í smíðum fyrir hann og er sérhannað til þjónustu við olíuvinnslu auk þess sem hann hefur leigt það til sýslumannsins á Svalbarða. Hér má sjá viðtalið við Steingrím. 

Hinn síðari er frá 23. apríl þegar ég ræddi við Jóhann Sigurðsson útgefanda um hin miklu þýðingarverkefni sem hann hefur leitt til lykt á Íslendingasögunum, fyrst á ensku árið 2000 og nú á dönsku, norsku og sænsku. Hér má sjá viðtalið við Jóhann. 

Steingrímur og Jóhann eiga sameiginlegt að hafa tekið sér fyrir hendur verkefni sem virðast óframkvæmanleg en þeim tekst að breyta í veruleika. Áræði og þrautseigja af því tagi sem þeir hafa sýnt er öllum gott fordæmi.

Erindi Godds í dag sannfærði mig um að hann býr yfir sama hugrekki og þolgæði og þessir tveir viðmælendur mínir.

 

 

Þriðjudagur 29. 04. 14 - 29.4.2014 20:40

Í leiðara Morgunblaðsins í dag er leitað eftir svörum við spurningu sem Gísli Marteinn Baldursson lagði fyrir Ragnheiði Ríkharðsdóttur í sjónvarpsþætti sínum sunnudaginn 27. apríl þar sem hann gaf til kynna að einhverjir teldu gott „að grisja“ Sjálfstæðisflokkinn. Spurningin varð til þess að Ragnheiður flutti reiðilestur um Davíð Oddsson, ritstjóra og fyrrverandi flokksformann. Í leiðaranum er óskað eftir að Ragnheiður finni orði Gísla Marteins og eigin lýsingu stað.

Þau hljóta bæði að benda á „sökudólginn“ og hvar þessi ummæli féllu.

Á leiðarasíðu Fréttablaðsins birtist í dag teikning sem er í þessum sama dúr. Virðist hún eiga að sýna okkur Davíð Oddsson og Styrmi Gunnarsson banna einhverjum, kannski Ragnheiði, að greiða atkvæði.

Bæði framganga Gísla Marteins og teiknarans, hver sem hann er, bera í sér mun meiri heift og tilraun til að afflytja það sem sagt er í opinnberum umræðum en við þrír sem virðumst vera á teikningunni höfum nokkru sinni tíðkað. Þessi framganga sýnir að því fer víðs fjarri að umræðuhefð sé að breytast til batnaðar. Þvert á móti eru árásir á þá sem kveða sér hljóðs á opinberum vettvangi persónulegri, ómálefnalegri og dónalegri en tíðkaðist fyrir fáeinum árum eða áratugum.

Á sínum tíma leit ég á upptöku af samtali Gísla Marteins við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og hef ekki séð ástæðu til að horfa á annað sem þar er í boði á sunnudagsmorgnum. Í leiðara Morgunblaðsins er mannvali og efnistökum lýst á þennan veg:

„Í fréttum „RÚV“ var sagt frá því að í þætti stofnunarinnar á sunnudag hefðu Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Ólafur Stephensen verið fengin til að ræða afstöðu sjálfstæðismanna til ESB frá öllum hliðum. Það var lipurlega til fundið og verður varla slegið nema í næsta þætti verði Gísli fenginn til að ræða við Martein um helsta mun á þríhjóli og tvíhjóli.“

Mánudagur 28. 04. 14 - 28.4.2014 22:40

Efnt var til hátíðlegrar athafnar í Hörpu í dag til að kynna nýja þýðingu á 40 Íslendingasögum og 52 þáttum á dönsku, norsku og sænsku. Jóhann Sigurðsson útgefandi var hylltur að verðleikum af þéttsetnum sal. Ritstjórar gerðu grein fyrir verklagi sínu og lesið var úr þýðingunum. Menningarmálaráðherrar Norðurlanda eða fulltrúar þeirra og Norræna ráðherraráðsins tóku við bókunum að gjöf, fimm bindi í öskju.

 

Sunnudagur 27. 04. 14 - 27.4.2014 20:30

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar 2009 þegar Geir H. Haarde sagði af sér formennsku og Bjarni Benediktsson var kjörinn formaður var ákveðið að ekki ætti að sækja um aðild nema ákvörðun um það yrði samþykkt af þjóðinni í sérstakri atkvæðagreiðslu. Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafði þessa samþykkt að engu og var eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem greiddi atkvæði með aðild að ESB.

Eftir að aðildarviðræðurnar hófust hefur verið efnt til nokkurra landsfunda og ávallt hefur meirihluti þar verið á móti aðild að ESB en leitað hefur verið málamiðlunar í orðalagi til að koma til móts við minnihlutann. Á síðasta landsfundi rufu ESB-aðildar/viðræðusinnar sáttaviðleitni og við svo búið var hert á orðalagi í lokatexta ályktunar fundarins.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur ávallt verið óánægð með niðurstöðu landsfundarins. Henni var sýndur sá trúnaður eftir síðustu kosningar að vera kjörin í eitt af valdaembættum Sjálfstæðisflokksins sem þingflokksformaður. Hún lýsti yfir því í sjónvarpsþætti í dag að hún ætlaði ekki að taka þátt í að stofna nýjan flokk en gagnrýndi á sama tíma meirihluta flokkssystkina sinna „harðlega fyrir einstrengingslega stefnu sína í Evrópumálum“ segir á ruv.is. Þá er haft eftir henni á visir.is: „Veistu, ég gef ekkert fyrir það, þó að þar sé fyrrverandi formaður flokksins að skrifa [í Morgunblaðið], oftast nær, þá finnst mér það vera svo mikil fyrirlitning á skoðunum annarra að ég get ekki samsamað mig með slíku fólki.“

Þverstæða er í þessum orðum þingflokksformannsins sé hún að hampa eigin umburðarlyndi fyrir skoðunum annarra á kostnað Davíðs Oddssonar.

Vandinn við skoðun Ragnheiðar að halda viðræðum við ESB áfram er að ESB stöðvaði framgang viðræðnanna árið 2011 með því að neita að afhenda rýniskýrslu um sjávarútvegsmál. Af fréttum af sjónvarpsviðtalinu verður ekki ráðið hvort lykilspurning um þetta hafi verið lögð fyrir Ragnheiði. Viðræðusinnar forðast jafnan að ræða þennan þátt málsins.

Laugardagur 26. 04. 14 - 26.4.2014 23:40

Ágreiningur er meðal framsóknarmanna um ástæðuna fyrir ákvörðun Guðna Ágústssonar um að gefa ekki kost á sér til framboð í borgarstjórnarkosningunum. Spurning er hvort það var tillitið til fjölskyldunnar eða skilningsleysi ráðamanna Framsóknarflokksins sem réð úrslitum hjá Guðna og leiddi þess að hætti við framboðið. Meginspurningin er um hugmynd Guðna um að hann leiddi lista Framsóknarflokksins og flugvallarvina.

Víða um land eiga framsóknarmenn samstarf við aðra um framboð til sveitarstjórna. Það er einkennilegt að hugmynd í þá veru hafi þótt bannorð í Reykjavík. Kannanir sýna framsóknarmenn standa verr að vígi í höfuðborginni en á flestum öðrum stöðum á landinu.

Guðni Ágústsson minntist ekki á pólitískan ágreining vegna framboðshugmynda sinna þegar hann dró sig í hlé heldur vísaði til samtals við fjölskyldu sína.

Að lokum hefur afstaða Guðna ráðist af mati á aðstæðum og viðbrögðum eftir að umræður hófust um hugsanlegt framboð hans. Það er ósannfærandi að innan við sólarhring áður en tilkynna átti framboðið hafi ágreiningur um hvað það ætti að heita leitt til afboðunar kynningarfundarins.

Föstudagur 25. 04. 14 - 25.4.2014 23:40

Verslunarskóli Íslands er vinsælastur þetta árið hjá tíundu bekkingum landsins. Alls óskuðu 699 eftir skólavist við skólann í haust en 308  fá hana. Næst flestar umsóknir eru um skólavist við Menntaskólann við Hamrahlíð. Sækjast 674 tíundu bekkingar eftir því að komast í skólann sem tekur við 260 nýnemum i haust. Þriðju flestar umsóknir voru um skólavist í Kvennaskólanum í Reykjavík. Þar sækjast 603 eftir því að hefja nám 240 fá skólavist.

Um árabil hefur Verslunarskólinn verði vinsælastur eða í röð vinsælustu framhaldsskólanna. Hann á langa og glæsilega sögu og sannar að skóli í höndum einkaaðila skilar frábærum árangri og nýtur mikilla vinsælda.

Skólastarf á þessum rekstrargrunni ber að efla á öllum skólastigum.  Um það er nauðsynlegt að skapa samstöðu meðal stjórnmálamanna og innan stjórnsýslunnar. Því miður hefur verið stigið skref til baka í því efni síðustu ár og ekki ber á mikilli viðleitni hjá núverandi ríkisstjórn að efla einkarekstur á kostnað ríkisreksturs, því miður.

Nýjasta dæmið um ógöngur ríkisreksturs eru endurtekin verkföll starfsmanna ISAVIA, rof flugsamgangna til og frá landinu og innan lands. ISAVIA er hlutafélag í opinberri eigu. Væru flugstöðvar og flugvellir einkareknir kæmi ekki til deilna af þessu tagi.

Eina rétta svar ríkisvaldsins við óbilgirni starfsmanna ISAVIA er losa sjálft sig úr stöðu viðsemjenda með því að bjóða út starfsemina á flugvöllum landsins og fela einkaaðilum allan  rekstur þar sem fellur ekki undir lög- og tollgæslu. Fordæma í þessu efni er að finna í öllum nágrannalöndunum.

 

 

 


Fimmtudagur 24. 04. 14 - 24.4.2014 20:00

Gleðilegt sumar!

Hér var fullyrt mánudaginn 21. apríl að Guðni Ágústsson, fyrrv. ráðherra, mundi leiða lista Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík í vor. Ályktunin var reist á kynningu á vinnunni við undirbúning hins nýja lista og tilkynningu um að hann yrði kynntur í dag, sumardaginn fyrsta.

Dagurinn leið án þess að framsóknarmenn kynntu lista sinn. Þess í stað sendi Guðni frá sér yfirlýsingu til fjölmiðla um að hann yrði ekki í framboði. Hún hefst á þessum orðum: „Að vel hugsuðu máli þá hef ég tekið ákvörðun í samráði við fjölskyldu mína að gefa ekki kost á mér til að leiða lista framsóknarmanna í Reykjavík.“

Guðni skýrði framsóknarmönnum í Reykjavík frá þessari ákvörðun að kvöldi síðasta vetrardags. Upphafsorðin í yfirlýsingunni segja allt sem þarf, fjölskylda Guðna hefur einfaldlega lagst gegn því að hann færi að nýju í pólitíska slaginn.

Í netheimum hafa menn gefið þá skýringu að þeim sem standa Guðna næst hafi þótt nóg um skítkastið sem hann fékk á vefsíðum og samfélagssíðum. Auk þess er augljóst að í hinum fámenna hópi framsóknarmanna í Reykjavík var enginn einhugur um Guðna. Guðrún Bryndís Karlsdóttir, verkfræðingur og sjúkraliði, sem skipar annað sætið á listanum í Reykjavík talaði í raun niður til Guðna frá því að fréttist af hugsanlegu framboði hans og taldi auk þess freklega fram hjá sér gengið.

 

 

 

Miðvikudagur 23. 04. 14 - 23.4.2014 21:00

Í dag, á degi bókarinnar, ræddi ég við Jóhann Sigurðsson, útgefanda Íslendingasagna, í þætti mínum á ÍNN um útgáfustarf hans sem hefur í um tvo áratugi snúist um heildarútgáfu á 40 Íslendingasögum og 52 þáttum, fyrst á ensku, árið 2000, og nú á dönsku, norsku og sænsku. Þetta er ótrúlegt afrek sem einkennist af hugdirfsku og þrautseigju. Jóhann segir að safnbók Penguins á sögunum hafi selst í rúmlega 300.000 eintökum. Hún er söluhæsta bók til útlendinga hér á landi.

Næst má samtalið við Jóhann kl. 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

 

Þriðjudagur 22. 04. 14 - 22.4.2014 21:30

Í hádeginu í dag flutti Livia Kohn fyrirlestur í Háskóla Íslands á vegum Konfúsiusarstofnunarinnar og hét hann á ensku Energy Healing: Daoist Cultivation in the Light of Modern Science.

Livia Kohn var prófessor í trúarbragðafræðum við Boston University, hún hefur doktorspróf frá háskólunum í Bonn og Göttingen í Þýskalandi, fæðingarlandi sínu. Hún vann við rannsóknir við Fairbank Center í Harvard-háskóla og hefur stundað rannsóknir á japönskum trúarbrögðum við rannsóknarstofnanir í Kyoto í Japan. Hún er höfundur nokkurra bóka um taóisma, hugleiðslu og tækni til að auka líkur á langlífi.

Fyrirlestur Kohn í dag snerist um tengslin milli taóisma og langlífis en þar kemur qi gong mjög við sögu. Var fróðlegt að fá úr þessari átt og í háskólafyrirlestri staðfestingu á því sem við höfum lært sem iðkum qi gong. Í raun kom ekkert fram sem hróflar við nokkru sem hér hefur verið kennt á vegum Aflsins, félags qigong iðkenda.

Nú eru rúm 40 ár síðan Richard Nixon Bandaríkjaforseti fór til Kína en í tengslum við heimsóknina heimilaði Maó að fjölmiðlamenn frá Bandaríkjunum kynntu sér hefðbundnar kínverskar lækningar, þar skipar nálastunguaðferðin heiðursess en qi gong er náskylt henni. Á þessum 40 árum hafa þessar aðferðir skotið rótum og hlotið mikla útbreiðslu á Vesturlöndum.

Mánudagur 21. 04. 14 - 21.4.2014 22:40

Umræðurnar um framboðsmál Framsóknarflokksins í Reykjavík hafa svalað þörf fréttastofu ríkisútvarpsins fyrir pólitískum fréttum. Guðni Ágústsson heldur þannig á málum að álykta má að meiri spurn sé eftir honum en framboð. Framsóknarmennirnir í borginni bíða eftir svari hans milli vonar og ótta. Gefi Guðni ekki kost á sér blasir við algjör auðn því að haldið hefur verið á málum á þann eftir að Óskar Bergsson hvarf úr fyrsta sætinu vegna fylgisleysis að öðrum frambjóðendum er nóg boðið.

Í fréttum kvöldsins sagði:

„Kjördæmasamband Framsóknarflokksins í Reykjavík vill að Guðni Ágústsson leiði listann í borginni. Guðni hefur notað páskana til að taka ákvörðun og ætlar að tilkynna hana á sumardaginn fyrsta.“

Verði Guðni ekki í framboði er ólíklegt að Framsóknarflokkurinn komi saman lista í Reykjavík.

Það er eftir öðru að einhver álitsgjafi telur Framsóknarflokknum til framdráttar að yfir páskana hafi daglega verið sagt frá framboðsraunum hans í höfuðborginni. Fyrir kosningar til alþingis fyrir ári ákvað Sigmundur Davíð Gunnlaugsson flokksformaður að hætta við framboð í Reykjavík af ótta við að ná ekki kjöri vegna fylgisleysis fokksins.

Sunnudagur 20. 04. 14 - 20.4.2014 23:55

Fórum í páskadagsmessu klukkan 11.00 í Árbæjarkirkju við Ytri-Rangá þar sem séra Halldóra Þorvarðardóttir, prófastur í Fellsmúla, messaði og flutti góða prédikun, síðan bauð hún öllum kirkjugestum í fiskisúpu í safnaðarheimilinu. Hún var ekki síðri en prédikunin.

Laugardagur 19. 04. 14 - 19.4.2014 21:40

Einkennilegt er að kynna myndina Avatar í sjónvarpinu í kvöld á þann veg að hún sé tekjuhæsta mynd kvikmyndasögunnar. Hvað segir það okkur um gæði hennar? Myndin var kynnt á annan hátt til sögunnar í upphafi, meðal annars fyrir ótrúlegar tæknibrellur. Það vekur ekki sérstakan áhuga á að sjá myndina í sjónvarpi að hún hafi skilað framleiðendum sínum mikið í aðra hönd.

Í sjónvarpsstöðinni N4 var í kvöld sýnd heimildarmynd um Geirmund Valtýsson sem hefur spilað og sungið sig inn í hjörtu þjóðarinnar fyrir utan að vera geysivinsæll fjármálastjóri Kaupfélags Skagfirðinga eins og fram kom í myndinni. Þar lýstu bændur hve mikinn skilning hann hefði á högum þeirra enda litu þeir á hann sem einn úr sínum hópi og voru sýndar myndir af Geirmundi við bústörf að Geirmundarstöðum í Sæmundarhlíð.

Þetta var vel gerður þáttur og minnti mig á daga mína að Reynistað í Skagafirði en stutt er á milli bæjanna og minnist ég foreldra Geirmundar með virðingu frá árum mínum á heimaslóðum Geirmundar en hann steig fyrstu skref sín á tónlistarbrautinni í Melsgili, félagsheimilinu í Staðarhreppi.

Á eftir þættinum um Geirmund kom einstakur Barnaby-þáttur í danska sjónvarpinu, 100. þátturinn í röðinni og gerist hann að hluta í Kaupmannahöfn til heiðurs Dönum en Barnaby-þættirnir eru langvinsælustu þættir sem sýndir eru í DR1. Þarna voru ýmsir þekktir danskir leikarar í aukahlutverkum.

David Cameron, forsætisráðherra Breta, fann nýlega að því að BBC stæðist dönskum sjónvarpsstöðvum ekki snúning við framleiðslu á góðu sjónvarpsefni. BBC er ekki framleiðandi þáttanna um Barnaby.

 


Föstudagur 18. 04. 14 - 18.4.2014 23:07

Heimildarmyndin um sr. Kristin Friðfinnsson í sjónvarpinu í kvöld var raunsönn nærmynd af einlægum guðsmanni. Hún dró einnig athygli að því að víða er glímt við stjórnsýsluleg ágreinings- og viðfangsefni. Sr. Kristinn taldi lögin styðja málstað sinn. Myndin var frumsýnd 12. október 2012 og ágreiningsmálinu sem þar var lýst var ólokið áður en töku myndarinnar lauk. Það hefði átt að setja texta aftan við myndina til að lýsa hvernig málið stendur nú um páska 2014.

Vefsíður gegna mikilvægu og vaxandi hlutverki. Það hefði þó orðið að segja mér tvisvar að yfirmaður herstjórnar NATO í Evrópu mundi nota netið til að mana Rússa í deilunum vegna Úkraínu. Philip Breedlove, hershöfðingi, SACEUR, yfirmaður NATO í Mons í Belgíu, skrifaði á vefsíðu fimmtudaginn 17. apríl undir fyrirsögninni: Hverjir eru mennirnir á bak við grímurnar?:

„Það er erfitt að ímynda sér að grímuklæddur flokkur vopnaðra manna hafi skyndilega stokkið fram úr hópi þess fólks sem býr í austurhluta Úkraínu og skipulega tekið sér fyrir hendur að hertaka opinberar byggingar. Það er erfitt að ímynda sér þetta því að það er einfaldlega ekki satt. Það sem nú gerist í austurhluta Úkraínu er vel skipulögð og útfærð hernaðaraðgerð og við teljum að hún sé framkvæmd að undirlagi Rússa.“

Hér má lesa færslu hershöfðingjans.

Fimmtudagur 17. 04. 14 - 17.4.2014 20:50

Sjálfstæðismenn í Reykjavík kynntu í dag stefnuskrá sína vegna borgarstjórnarkosninganna í vor. Stefnuna má sjá hér, hún er mun framsæknari en stefna Samfylkingarinnar þegar litið er til borgaranna sjálfra. Samfylkingin og Besti flokkurinn hafa stjórnað borginni af ótrúlegu tillitsleysi og virðingarleysi fyrir óskum borgaranna og í raun talað niður til þeirra, einkum í skipulagsmálum.

Í þætti Lísu Pálsdóttur á rás 1 var á dögunum rætt við íbúa í Suðurhlíðum sem lýstu hrokafullri framkomu meirihluta borgarstjórnar í sinn garð vegna framkvæmda við Öskjuhlíðarskóla (sem nú hefur fengið nýtt nafn Klettaskóli) í hverfinu. Í þættinum kom fram gagnrýni á ákvarðanir borgaryfirvalda en reiðin beindist ekki síst að aðferðinni við afgreiðslu málsins.

Þetta er alls ekki eina málið sem er þannig vaxið þegar fjallað er um stjórn borgarinnar undir forystu Jóns Gnarrs og Dags B. Eggertssonar. Yfirlæti og sýndarmennska hefur dugað þeim til að sópa yfir neikvæðu þættina – segir það ekki síst mikla sögu um að yfirborðsleg sýndarmennska má sín meira en ígrunduð afgreiðsla mála að höfðu eðlilegu samráði við þá sem eiga hlut að máli.

Miðvikudagur 16. 04. 14 - 16.4.2014 20:10

Um nokkurt árabil kallaði Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri, forystumenn Sjálfstæðisflokksins „fasista“. Nú kallar hann þá innan Sjálfstæðisflokksins sem standa gegn aðild Íslands að ESB „Rússadindla“. Þessu nýjasta framlagi Jónasar til umræðna í netheimum er ætlað að gleðja og þar með minnka óánægju minnihlutans innan Sjálfstæðisflokksins sem telur sjónarmiðum sínum helst til framdráttar að hóta klofningi flokksins. Að uppnefna þá sem maður er ósammála er ekki til marks um sterka málefnalega stöðu.

Þessi framganga Jónasar sýnir að fokið er í flest skjól fyrir ESB-aðildarsinna. Þeir bundu vonir við að skýrsla Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands mundi styrkja málefnalega stöðu þeirra. Hún er hins vegar að mestu rituð í viðtengingarhætti til að lýsa einhverju sem kynni að gerast að mati ónefndra heimildarmanna í Brussel yrði aðildarviðræðum Íslendinga fram haldið.

Vandinn er bara sá að þessir sömu heimildarmenn stöðvuðu viðræðurnar með því að halda rýniskýrslunni um sjávarútvegsmál hjá sér. Að skýra þá ákvörðun með vísan til makríldeilunnar er dæmigerð eftirá-skýring – á viðræðutímanum var  hvað eftir annað áréttað að engin tengsl væru á milli viðræðnanna og makríldeilunnar.

ESB-menn vilja að Íslendingar slái af kröfum í sjávarútvegsmálum áður en rýniskýrslunni er skilað. Þetta kjarnaatriði forðast Jónas Kristjánsson og félagar að ræða. Þeir velja þess í stað þann kost að uppnefna þá sem þeir eru ósammála.   

Þriðjudagur 15. 04. 14 - 15.4.2014 20:00

Dr. Richard North var nýlega hér á landi og flutti meðal annars fyrirlestur í Háskóla Íslands á vegum Evrópuvaktarinnar, RNH og Alþjóðamálastofnundar þar sem hann lýsti hugmynd sinni um að Bretar segðu sig úr ESB og yrðu aðilar að evrópska svæðinu. Rökstuðningur hans var skýr og sannfærandi. Hann lagði tillögu sína síðan fram í keppni á vegum IEA í London um Brexit, það er úrsögn Breta úr ESB.

Dr. North sigraði ekki í keppninni og komst ekki í hóp hinna sex sem valið stóð á milli að lokum. Hann hefur hins vegar tekið sér fyrir hendur að skilgreina tillögur þeirra sem hlutu náð fyrir augum dómnefndarinnar og bendir á að enginn þeirra hafi mælt með aðild að evrópska efnahagssvæðinu þótt allir leggi til að EFTA-aðild komi í stað ESB-aðildar en Bretar eigi jafnframt aðild að hinum sameiginlega markaði ESB. Þrjú EFTA-ríki: Ísland, Liechtenstein og Noregur eiga aðild að þessum markaði í gegnum EES-samninginn. Sviss, fjórða EFTA-ríkið, hefur samið beint við ESB án þess að EFTA komi þar nokkuð við sögu en það gegnir veigamiklu hlutverki við framkvæmd EES-samningsins.

North veltir því réttilega fyrir sér hvernig framkvæma eigi tillögur verðlaunahafans og annarra sem vilja Breta inn í EFTA með aðgangi að sameiginlega markaðnum. Ef þeir eigi að fara sömu leið og Svisslendingar þurfi þeir ekki að fara inn í EFTA og fari þeir í EFTA hljóti leið þeirra að sameiginlega markaðnum að vera um EES.

Hér má lesa hugleiðingar Richards Norths um þetta efni.

 


Mánudagur 14. 04. 14 - 14.4.2014 22:55

Undir lok mars 2008 var ég í Valparaíso í Síle þaðan sem fréttir berast nú mikið tjón vegna skógarelda. Fréttirnar herma að eldurinn hafi ekki borist í þann hluta borgarinnar sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Bærinn stendur í hlíðum hæða eða fjalla sem umlykja höfnina við Kyrrahafið. Hún var þar til Panama-skurðurinn kom til sögunnar (1914) fyrsta stórhöfn sem sæfarendur heimsóttu eftir að hafa siglt suður fyrir Suður-Ameríku. Herfloti Sílemanna hefur þarna mikla bækistöð.

Gamli bærinn er einstakur og hefur verið valinn á heimsminjaskrána. Marglituð timburhús teygja sig upp brattar hlíðarnar. Það er hörmulegt að hlusta á hinar dapurlegu fréttir frá þessari fögru borg.

Sunnudagur 13. 04. 14 - 13.4.2014 22:10

Undanfarið hefur páskadagskrá ríkissjónvarpsins verið kynnt á svo ruglaðan hátt að ógjörningur er að átta sig á hvernig þáttum og myndum er raðað á útsendingardaga. Þetta er undarleg aðferð við að kynna dagskrá sem hefur það ekki síst sér til gildis að áhorfendur séu upplýstir um um dag og tíma.

Nú hefur tæknin að vísu leitt til þess að unnt er að horfa á efni sumra sjónvarpsstöðva þegar áhorfandanum hentar innan sólarhrings frá því að efnið er fyrst sett í loftið. Á vefsíðu Símans er þessi þjónusta, tímaflakkið, kynnt á þennan hátt:

„Tímaflakkið gerir þér kleift að horfa á dagskrá sjónvarpsstöðvanna á þeim tíma sem þér hentar. Þú ýtir á i-takkann á fjarstýringunni og getur valið þér dagskrálið allt að sólarhring aftur í tímann, sem eru merktir með grænu spilamerki. Tímaflakkið er í boði fyrir flestar íslensku stöðvarnar og allar þær erlendu sem fylgja grunnáskrift að Sjónvarpi Símans.“

Þar sem viðskiptavinir Símans greiða sérstaklega fyrir aðgang að stöðvum utan grunnáskriftarinnar er einkennilegt að tímaflakkið nái ekki til þeirra.

Laugardagur 12. 04. 14 - 12.4.2014 22:10

Í dag skrifaði ég frétt á Evrópuvaktina um Alþjóðadómstólinn í Haag og hvalveiðar Japana í Suðurhöfum sem dómstóllinn hefur bannað af því að áætlunin um vísindaveiðar á hvölum var ekki nógu vel úr garði gerð. Í fréttinni segir að japanskir skattgreiðendur hafi staðið straum af veiðunum. Í japanska fjármálaráðuneytinu séu menn ekki ósáttir við dóminn frá Haag, hann auðveldi japönskum stjórnmálamönnum að takast á við þrýstihóp hvalveiðimanna enda hafi japanska ríkisstjórnin tilkynnt skömmu eftir að dómurinn féll að suðurhafaveiðunum væri hætt. Ólíklegt sé að ný vísindaáætlun verði gerð vegna kostnaðarins og minnkandi neyslu á hvalkjöti.

Í fréttinni segir að harðlínumenn á Japansþingi vilji bregðast við dóminum með því að segja sig undan alþjóðalögum með úrsögn úr Alþjóðahvalveiðiráðinu. Ólíklegt sé að það gerist vegna deilna Japana við Kínverja og Suður-Kóreumenn um eyjar og lögsögu umhverfis þær en þar vilja Japanir að alþjóðalög séu virt.

Við vinnslu fréttarinnar rifjaðist upp fyrir mér þegar alþingi samþykkti í sjávarútvegsráðherratíð Þorsteins Pálssonar að ganga úr Alþjóðahvalveiðiráðinu af því að þar væri enginn skilningur á málstað Íslendinga eða annarra hvalveiðiþjóða. Ef ég man rétt vorum við Guðrún Helgadóttir, þingmaður Alþýðubandalagsins sáluga, einu þingmennirnir á móti þessari ályktun. Mín skoðun var að vinna yrði að málstað Íslendinga í samræmi við alþjóðalög, þau væru að lokum besta skjól smáríkja.

Eftir nokkurra ára veru utan Alþjóðahvalveiðiráðsins án þess að hvalveiðar hæfust var ákveðið að ganga í ráðið að nýju með fyrirvara gagnvart banni ráðsins við hvalveiðum í atvinnuskyni enda stundar Hvalur þær nú.

Dómurinn yfir Japönum vegna veiðanna í Suðurhöfum hefur ekki áhrif hér að alþjóðalögum. Sea Shephard hvalavinirnir þurfa hins vegar ekki lengur að senda menn og skip á vettvang til að trufla veiðar Japana og kunna því að snúa sér að okkur og Norðmönnum.

Ákvörðunin um að segja Íslendinga úr Alþjóðahvalveiðiráðinu samrýmdist ekki baráttu gegn  einangrunarhyggju og fyrir þátttöku í alþjóðlegu samstarfi.

Föstudagur 11. 04. 14 - 11.4.2014 20:50

Dagur B. Eggertsson er í vinstri armi Samfylkingarinnar. Hann boðar lausnir í húsnæðismálum Reykvíkinga sem minna á hugmyndir þeirra manna í sósíalista- og jafnaðarmannaflokkum Evrópu sem eru fyrstir til að lenda í vandræðum þegar þeir komast til valda og geta ekki fjármagnað öll loforðin. Ekki einu sinni með því að hækka skatta! Hinn síðasti til að reka sig á þetta er François Hollande Frakklandsforseti. Fylgi flokks hans hrundi í sveitarstjórnakosningum á dögunum og hann hefur nú skipt um forsætisráðherra. Manuel Valls er kallaður Tony Blair franskra sósíalista.

Sjálfstæðismenn í Reykjavík bregðast við leiguíbúðastefnu Dags og félaga á þennan hátt:

„Pólitíkusar eiga ekki að velja hver fær húsnæði, heldur tryggja að einkaaðilar sjái hag sinn í því að búa til góðan og traustan almennan leigu- og íbúðamarkað í borginni. Samfylkingin hefur boðað stofnun almenns leigufélags til viðbótar við félagsbústaði.

Lausnir Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eru einfaldar og árangursríkar og hægt er að virkja þær strax. Gerum fólki kleift að búa þar sem það vill, eitt eða í sambúð, enda eru það sjálfsögð réttindi að geta leigt eða keypt á sómasamlegu verði. Okkar markmið er að skapa heilbrigðan og öflugan almennan leigumarkað til framtíðar – ekki að verða leigusalinn þinn.

Fjölgum íbúðum – lækkum leiguverð en ekki á kostnað skattgreiðenda.“

Það væri eftir öðru að árin gegn einkabílnum með Borgartúníð og Hofsvallagötuna  sem táknmyndir yrðu að ofstjórnarárum í þágu leiguíbúða í eigu Reykjavíkurborgar á kostnað skattgreiðenda. Vonandi sporna Reykvíkingar við því með atkvæði sínu.

 

Fimmtudagur 10. 04. 14 - 10.4.2014 23:55

Í kvöld klukkan 20.00 var ég á fjölmennum fundi á vegum Heimssýnar í Tryggvaskála. Við fluttum þar ræður Vigdís Hauksdóttir, alþingismaður, Jón Bjarnason, fyrrv. ráðherra, Halldóra Hjaltadóttir, formaður Ísafoldar, og ég og ræddum hvers vegna skal afturkalla ESB-umsóknina. Eyþór Arnalds stjórnaði fundinum af festu.

Heimssýn eru þverpólitísk samtök og fundurinn endurspeglaði þá staðreynd og þar er samhljómur í andstöðunni við ESB-aðildarumsóknina. Sá er munurinn á þeim sem berjast í samtökum gegn aðild að ESB og hinum sem vilja aðild að hinir síðarnefndu eru tregir til að segja hvað fyrir þeim vakir. Já Ísland er heiti regnhlífarsamstaka þeirra og gefur það ranga mynd af markmiðum samtakanna. Heimssýn er hins vegar réttnefni þar sem innan þeirra samtaka vilja menn líta til heimsins alls en ekki aðeins á ESB.

Þeir sem setja mestan svip á Já Ísland eru sjálfstæðismenn sem hafa allt frá ársbyrjun 2009 orðið undir á landsfundum Sjálfstæðisflokksins þar sem menn hafa þó lagt sig í líma við að koma til móts við sjónarmið þeirra. Eftir landsfundina hafa forráðamenn hópsins ávallt sýnt vanþakklæti sitt fyrir sáttargjörðina og vegið að Sjálfstæðisflokknum á einn eða annan hátt við mikla ánægju fréttastofu ríkisútvarpsins. Hún gefur þeim mikið rými án þess að öll sagan sé sögð.

Mér stendur þetta nærri því að ég hef staðið að sáttatillögum á landsfundum og mælt með samþykkt þeirra þar til á fundinum á síðasta ári. Þá snerust ESB-aðildarsinnarnir gegn öllum tilraunum til sátta og við það herti landsfundurinn á andstöðu flokksins. Nú tala fulltrúar þessara ófriðarmanna í Sjálfstæðisflokknum um að stofna nýjan flokk. Þeir kenna hann hins vegar ekki við ESB-málstaðinn heldur segjast berjast fyrir frjálsum viðskiptum og vestrænni samvinnu!

Heiðarlegur málefnaágreiningur er hluti lýðræðislegra umræðna. Óheiðarlegur málatilbúnaður er ekki aðeins þeim til skammar sem stunda hann heldur ögrun við leikreglur lýðræðisins eins og við höfum kynnst.

 

Miðvikudagur 09. 04. 14 - 9.4.2014 22:00

Í dag ræddi ég við Steingrím Erlingsson útgerðarmann í þætti mínum á ÍNN. Hann er að láta smíða þjónustuskip fyrir olíuiðnaðinn og aðra í Noregi. Hefur hann leigt skipið til þjónustu fyrir sýslumanninn á Svalbarða fyrir utan önnur verkefni sem skipið mun sinna. Þá hefur Steingrímur sterkar skoðanir á nauðsyn þess fyrir Íslendinga að láta að sér kveða við norðurslóðaverkefni sem krefjast góðra sjómanna. Hann telur Íslendinga geta skákað Norðmönnum og Færeyingum á þessu sviði einbeiti þeir sér að því og sett verði lög um hæfilegt starfsumhverfi. Steingrímur bendir á að 13% af vergri landsframleiðslu Færeyinga komi frá olíuiðnaði og þjónustu við hann þótt engin olía hafi fundist í færeyskri lögsögu eftir leit í meira en áratug.

Næst er þátturinn á dagskrá kl. 22.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Þegar Össur Skarphéðinsson var utanríkisráðherra talaði hann oft illa um norska stjórnmálamenn. Hann taldi þá til dæmis neyða ESB til óhæfilegrar hörku í makríldeilunni. Össur gefur til kynna í bók sinni Ári drekans að Norðmenn hafi viljað spilla ESB-viðræðunum hans.

Nú segir flokksbróðir Össurar, Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, að ákvörðun borgaryfirvalda í Osló höfuðborgar Noregs um að gefa Reykvíkingum ekki fleiri jólatré á Austurvöll yfir hátíðirnar áfellisdóm yfir Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar. Flokkformaðurinn segir á Facebook-síðu sinni:

„Norðmenn og Færeyingar tóku náttúrulega ekkert mark á Evrópustefnunni og gerðu makrílsamninga sín á milli og við ESB án þess að láta Ísland vita. Og eins og það væri ekki nóg, þá bætist þetta við. Vinátta Norðmanna við Ísland er ekki einu sinni eins jólatrés virði, í augum bæjaryfirvalda í Osló.“

Málefnalegu framlagi samfylkingarforkólfa til ESB-umræðnanna eru engin takmörk sett.

Þriðjudagur 08. 04. 14 - 8.4.2014 19:00

Í Spegli  ríkisútvarpsins var í dag rætt við Gunnar Haraldsson, forstöðumann Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, og Piu Hansson, forstöðumann Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, um skýrslur stofnana þeirra um stöðu ESB-viðræðnanna. Skýrslan sem Pia ritstýrði liggur undir þungu ámæli vegna þess hve mikið og oft er vitnað í ónafngreinda heimildarmenn. Pia sagði að vinnubrögð sem skýrslan endurspeglar væru almennt stunduð á fræðasviði stofnunarinnar.

Vissulega eru stundaðar svonefndar eigindlegar rannsóknir á félagsvísindasviði þar sem leitað er til fólks með sérfræðiþekkingu á einhverju máli og skoðanir þess birtar (oft nafnlaust)  til að leiða í ljós viðhorf til einhvers máls og síðan dregnar niðurstöður eftir fræðilegum reglum. Að bera slík fræðistörf saman við þann hráa texta sem birtist í skýrslu Alþjóðamálastofnunar felur í sér virðingarleysi fyrir fræðilegum kröfum sem vænta má að gildi innan veggja háskólastofnunar.

Engin sambærileg gagnrýni hefur komið fram á skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands enda gefur hún ekki tilefni til hennar. Þá hafa þeir sem að þeirri skýrslugerð komu tjáð sig um niðurstöður í skýrslunni með skýrum málefnalegum rökum.

Hið sama verður ekki sagt um kynningu af hálfu Alþjóðamálastofnunar. Það er ekki forsvaranlegt að segja að efni skýrslunnar ráðist af mati á „andrúmslofti“ í Brussel eins og Pia gerði í sjónvarpsfréttum mánudaginn 7. apríl. Hún bætti um betur í Speglinum þegar hún notaði lokaorðin sem Arnar Páll Hauksson fréttamaður færði henni til að flytja áróður fyrir málstað þeirra sem telja undir Íslendingum komið að leiða ESB-viðræðurnar til lykta.

Að þetta sé áróður má fullyrða vegna þess að ESB stöðvaði viðræðurnar við Íslendinga með kröfu um að íslenska samningsmarkmiðið í sjávarútvegsmálum væri á þann veg að ESB treysti sér til að hefja viðræður um málaflokkinn. Eigi ósk Piu um að viðræðurnar haldi áfram að rætast verður hún að upplýsa hvernig hún vill að Íslendingar slái af skilyrðum sínum í sjávarútvegsmálum. Höfundar skýrslu Alþjóðamálastofnunar reyna að komast framhjá þessari stöðu með tilvitnunum í tvíræðar yfirlýsingar ESB-embættismanna. Að kenna slíkar æfingar við fræðimennsku í félagsvísindum er í besta falli mjög langsótt og eykur ekki virðingu fyrir fræðunum.

Mánudagur 07. 04. 14 - 7.4.2014 22:30

Sérkennilegt er að fulltrúar háskólastofnunar skuli beita vinnubrögðum við ritun skýrslu um stöðu ESB-viðræðnanna sem dygðu ekki til birtingar á frétt í vönduðum fjölmiðli. Oft er vitnað í nafnlausa heimildarmenn sem gefa eitthvað til kynna sem fellur að markmiðum skýrslunnar án þess að réttmæti orða þeirra sé sannreynt á fullnægjandi hátt eða ummælin sett í samhengi við það sem raunverulega hefur gerst.

Í ár eru fimm ár frá því að ESB-umsóknin var samþykkt og margt hefur gerst síðan sem sýnir að óvarlegt er að trúa í blindni og brjóta ekki allt til mergjar sem sagt er af opinberri hálfu hvort sem er í Brussel eða Reykjavík.

Til marks um hvaða áhrif skrif af þessu tagi geta haft má vísa til viðbragða Össurar Skarphéðinssonar sem leiddi ESB-viðræðurnar í strand. Hann segir nú vegna skýrslunnar að ekki sé annað að gera en halda viðræðunum áfram!

Þegar Pia Hansson, ritstjóri skýrslunnar sem forstöðumaður Alþjóðmálastofnunar Háskóla Íslands, er spurð um rökin fyrir að ræða skuli áfram við ESB vísar hún til „andrúmslofts“ sem höfundar skýrslunnar kynntust í Brussel. Blaðamaður sem skrifaði frétt og hefði andrúmsloft sem heimild yrði ekki langlífur í starfi.

Það var einnig með vísan til „andrúmslofts“ sem fræðimaður við Háskóla Íslands komst að þeirri niðurstöðu að ESB-viðræðunum lyki með samkomulagi árið 2010.

 

Sunnudagur 06. 04. 14 - 6.4.2014 22:20

Ranghugmyndir hér á landi í umræðum sem tengjast ESB-aðildarmálinu eru á þann veg að ekki er unnt að verjast þeirri hugsun að málið sé í raun of stórt til að menn nái almennt utan um það. Þeir sem hlustuðu á fyrirlestra François Heisbourgs í gær og í fyrradag átta sig betur en áður á ógöngunum sem við blasa vegna evru-kreppunnar. Greining hans hefur leitt til róttækrar niðurstöðu sem er tæknilega framkvæmanleg en vekur ótta meðal stjórnmálamanna sem hafa lagt mikið undir með evrunni.

Ég hef fjallað um skoðanir Heisbourgs hér á síðunni í gær og fyrradag og líkti minnihlutahópnum sem vill aðild Íslands að ESB við hópa sem kenndir eru við öfga í öðrum löndum af því að þeir eru andvígir ESB-aðild og nefndi UKIP í Bretlandi til sögunnar. Um þessa greiningu mína er meðal annars rætt á vefsíðunni Eyjunni í dag og þar segir:

„UKIP er sjálfstæðisflokkur Bretlands, sem hefur undir forystu Nigels Farage sótt mjög frá hægri að Íhaldsflokknum. Aðalmál hans eru að draga Bretland út úr Evrópusambandinu, taka upp flatan skatt og skera niður í ríkisrekstri.“

Þessi skilgreining Eyjunnar á UKIP stenst ekki skoðun eins og svo margt annað sem slegið er fram í þessum umræðum. Má því til staðfestingar vitna í frétt sem birtist á Evrópuvaktinni í dag og lesa má hér.

Að greina flokka inna ESB sem hafa snúist gegn evrunni eða ESB almennt sem hægri flokka er einföldun. Fimm-stjörnu-hreyfingin á Ítalíu er enginn hægri flokkur. Stefnu Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi er ekki auðvelt að mæla með hægri-vinstri stikunni.

Laugardagur 05. 04. 14 - 5.4.2014 22:10

Talið um nýjan stjórnmálaflokk ESB-aðildarsinna sýnir að öfgar magnast í umræðum um ESB-málin hér eins og víða í Evrópu. Hér eru öfgamennirnir ekki andstæðingar ESB-aðildar  heldur hinir sem vilja aðild að sambandinu.

Eftir því sem málefnafátækt aðildarsinna eykst leitast þeir við að beina umræðum að öðru en efni málsins. Um tíma var það þjóðaratkvæðagreiðsla nú er það nýr stjórnmálaflokkur, einskonar UKIP-flokkur með öfugum formerkjum.

Í dag flutti François Heisbourg erindi í Háskóla Íslands og áréttaði skoðun sína um að óhjákvæmilegt væri að losna við evruna til að bjarga ESB frá að splundrast. Hann ítrekaði einnig að Íslendingar ættu að gerast aðilar að ESB en ekki evru-samstarfinu, Ef þeir gætu ekki samið um að vera lausir við evruna samhliða ESB-aðild ættu þeir að skjóta sér undan henni í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu að hætti Svía.

Heisbourg jarðaði helstu gulrót ESB-aðildarsinna og ekki er unnt að stimpla hann sem andstæðing ESB eða aðildar Íslands.

ESB stöðvaði aðildarviðræðurnar við íslensku viðræðunefndina árið 2011 með því að halda rýniskýrslunni um sjávarútvegsmál hjá sér. Hún er enn geymd í lokuðum skáp í Brussel, ESB-aðildarsinnar vilja ekki ræða þessa staðreynd, hún er þó ástæðan fyrir að ESB-viðræðurnar strönduðu en ekki afstaða núverandi ríkisstjórnar.

Vilji ESB-aðildarsinnar á Íslandi koma viðræðum um aðild af stað með mótmælum eiga þeir að fara til Brussel og stilla sér upp við Berlaymont-bygginguna sem hýsir framkvæmdastjórn ESB. Þeir gera sér þetta líklega ljóst og tala þess vegna um þjóðaratkvæðagreiðslu og nýjan flokk á Austurvelli.

 

 

Föstudagur 05. 04. 14 - 4.4.2014 23:55

Fór í hádegi á fund með François Heisbourg í Valhöll þar sem hann flutti erindi um ESB og evruna sem sagt er frá hér.  Heisbourg er mikilsvirtur fræðimaður og greinandi alþjóðamála og hefur um árabil verið stjórnarformaður Alþjóðahermálastofnunarinnar (IISS) þar sem ég var félagi til skamms tíma en hætti aðild að félagsskapnum vegna þess að ég hafði ekki lengur tök á eins virkri þátttöku og áður.

Heisbourg minntist á mann sem ég hitti á vettvangi IISS og annars staðar á sínum tíma François de Rose. Hann var um skeið fastafulltrúi Frakka hjá NATO.

De Rose lést fyrir rúmri viku 103 ára að aldri. Hann var einn af þeim sem komu að stofnun CERN rannsóknastöðvarinnar í Genf á sínum tíma. Þegar hann varð 100 ára bauð CERN de Rose til Genfar og var Heisbourg fylgdarmaður hans í þeirri ferð. Þeir fóru með lest frá París til Genfar og í höfuðstöðvum CERN tóku starfsmenn rannsóknastöðvarinnar á móti þeim, hundruð manna. Afmælisbarnið 100 ára flutti ræðu og var henni vel fagnað. Þeir Heisbourg fóru aftur á brautarstöðina til að ná í lestina til Parísar. Þegar þeir sátu á brautarpallinum fór de Rose í vasa sinn, tók fram vindla og spurði Heisbourg hvort hann vildi ekki reykja sér til samlætis, sem hann gerði.

Þeir hittust síðast fyrir fáeinum vikum og sagði Heisbourg á þá hefði sér í fyrsta sinn fundist de Rose sýna ellimerki. Þremur dögum áður en de Rose andaðist kynnti hann bók með frásögnum og endurminningarbrotum, við svo búið tók hann sér hvíld, lagðist fyrir og gaf upp öndina.

Ég minnist þess þegar François de Rose kom hingað til lands vegum SVS og Varðbergs og flutti ræðu um öryggsimál á fundi samtakanna fyrir tæpum 30 árum, 22. maí 1984. Eins og sjá má hér. 

Þegar ég leitaði að frásögninni af ræðu de Rose á vefsíðunnu timarit.is sá ég einnig að vitnað var í hann frétt í Morgunblaðinu 26. mars 1949 þegar hann gagnrýndi Rússa á vettvangi Sameinuðu þjóðanna fyrir ásókn í kjarnorkuleyndarmál annarra þjóða. Sjá hér. 

Er vel við hæfi að rifja þetta upp í dag á 65 ára afmælisdegi Atlantshafsbandalagsins (NATO).

Fimmtudagur 03. 04. 14 - 3.4.2014 19:40

Í dag var þriggja erinda dagur hjá mér. Þau fjölluðu öll um ólík mál.

Aflinn, félag qi gong iðkenda, hefur efnt til fræðslumorgna og í morgun var hinn síðasti á þessum vetri. Þar flutti Þórir Sigurbjörnsson fyrirlestur um vatnið og qi gong. Karlar eru 60% vatn og konur 55% og þess vegna skiptir miklu að átta sig á viðbrögðum vatns við ólíkar aðstæðr. Viðbrögðin er unnt að mæla með því að skoða kristalla í vatni og Þórir leiddi okkur inn í þennan heim.

Varðberg efndi í hádeginu til fundar um Landhelgisgæslu Íslands og varnartengd verkefni. Þar voru Georg Lárusson forstjóri og Jón Björgvin Guðnason, framkvæmdastjóri lofthelgis- og öryggismálasviðs,  fluttu erindi. Þeir lýstu nýrri vídd í starfsemi gæslunnar sem þróast hefur undanfarin ár eftir brottför bandaríska varnarliðsins. Frá 1. janúar 2011 hefur gæslan annast daglega framkvæmd öryggis- og varnartengdra verkefna hér á landi. Verkefnið felst annars vegar í daglegum rekstri varnar- öryggis- og upplýsingakerfa Atlantshafsbandalagsins (NATO), rekstri öryggissvæða- og  mannvirkja og samskiptum við stofnanir NATO, aðildarþjóðirnar og Norðurlandaþjóðirnar og hins vegar samskiptum við þá aðila hér á landi sem að verkefninu koma.

Þetta er í fyrsta sinn sem þessi nýja vídd í störfum landhelgisgæslunnar er kynnt á þennan hátt opinberlega. Borgaralegt hlutverk gæslunnar breytist ekki en samstarf hennar við aðila sem sinna hernaðarlegu öryggi er skipulags- og samningsbundið og fellur innan ramma NATO sem samþykktur var á vettvangi bandalagsins. Þegar litið er á hlut stjórnmálamanna við töku ákvarðana um þessa þróun gæslunnar er það sögulega merkilegt að fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans, Össur Skarphéðinsson, og yfirlýsti NATO-andstæðingurinn, Ögmundur Jónasson, tóku ákvarðanir um að færa gæslunni þetta verkefni og skipa því formlega undir stjórn innanríkisráðuneytisins og stofnana á þess vegum. Hefði það komið í minn hlut að standa að því að staðfesta þessa skipan hefðu ýmsir örugglega rekið upp ramakvein um að íslenskur her væri að koma til sögunnar.

Þriðja erindið flutti Gunnar Harðarson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, síðdegis á vegum Miðaldastofu háskólans. Það fjallaði um klaustur heilags Viktors sem stóð rétt utan borgarmúra Parísar og var á 12. öld eitt helsta lærdómssetur síns tíma. Á miðöldum höfðu bæði Íslendingar og Norðmenn nokkur tengsl við klaustrið. Taldi Gunnar hugsanlegt að Þorlákur helgi hefði dvalist þar auk þess sem Helgafellsklaustur kynni að hafa lotið Viktorsreglu á síðmiðöldum. 

 

Miðvikudagur 02. 04. 14 - 2.4.2014 19:15

Þórunn Sveinbjarnardóttir og Álfheiður Ingadóttir, tveir fyrrverandi ráðherrar, önnur frá Samfylkingunni og hin frá vinstri grænum setjast í stjórn Landsvirkjunar sem fulltrúar flokka sinna.

Þetta eru einmitt flokkarnir sem leggja áherslu á að „faglega“ skuli staðið að vali á mönnum í stjórnir, nefndir og ráð á vegum ríkisins. Að þær Þórunn og Álfheiður muni láta „fagleg“ sjónarmið ráða gerðum sínum í þessari stjórn er borin von. Þær hafa sóst eftir setu í stjórninni með þann „faglega“ metnað að leiðarljósi að sérsjónarmið umhverfisverndarsinna sem líta á Landsvirkjun sem óvinveitta stofnun fái notið sín.

Nú þegar nýr meirihluti hefur tekið sæti í stjórn Landsvirkjunar vaknar spurning um hvenær fjármálaráðherra ætli að skipta um stjórn í öðru opinberu hlutafélagi, Isavia. Þetta er fyrirtæki sem skiptir ekki síður miklu fyrir þjóðarhag en Landsvirkjun. Þar situr í formennsku maður sem varla nýtur trúnaðar fjármálaráðherrans eða innanríkisráðherra sem fer með flugmál og iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem fer með ferðamál.

Isavia á útistöðum vegna kjaramála við starfsmenn á Keflavíkurflugvelli og eru skæruverkföll á næsta leiti, að sögn þeirra sem að þeim standa vegna þess að þeir fá ekki næga áheyrn hjá Isavia. 

Stjórnarformaður Isavia breytti skipan mála á þann veg að hann varð einnig stjórnarformaður Fríhafnarinnar sem stundar samkeppnisrekstur í flugstöðinni. Fráleitt er að þeir sem þann rekstur stunda standi jafnfætis á stjórnsýslulegum grunni gagnvart Isavia við þessar aðstæður. Svar stjórnarformannsins um eigið vanhæfi við töku ákvarðana vegna Fríhafnarinnar er að þrír stjórnarmanna séu ekki vanhæfir! Er þetta til marks um „faglegt“ viðhorf í stjórn Isavia?

Þriðjudagur 01. 04. 14 - 1.4.2014 19:00

Niðurstaða hefur verið birt í könnun MMR sem Sveinn Andri Sveinsson og félagar stóðu að með furðuspurningunni um stuðning við nýjan flokk ef Þorsteinn Pálsson kynni að koma þar á einhvern hátt við sögu. Tæplega 40 prósent kjósenda myndu íhuga að kjósa slíkt framboð hægrimanna, segir á Eyjunni – orðalagið „myndu íhuga“ bendir til þess að menn séu tilbúnir til að velta málinu fyrir sér sem segir ekkert um hvort þeir ætli að styðja slíkt framboð.

Á Eyjunni er einnig rætt við Þorstein Pálsson þriðjudaginn 1. apríl. Hann segir:

„Þessi spurning hefur vakið meiri forvitni þessa fyrirtækis [MMR] en mína. En þetta hefur engin áhrif á mína afstöðu. Ég hef tekið þátt í þjóðmálaumræðunni í gegnum tíðina og mun gera það áfram án þess að bjóða mig aftur fram til þings. Ein skoðanakönnun breytir engu til eða frá um það, þær koma og fara eins og allir vita.“

Spurningin var svo óljóst orðuð hjá MMR að ekki er ljóst hvort það er skilyrði fyrir stofnun hins nýja hægri flokks Sveins Andra að Þorsteinn Pálsson bjóði sig fram til þings. Það kemur væntanlega í ljós í frekari samtölum fjölmiðlamanna við Svein Andra en þeir hafa nú þegar rætt spurninguna um nýjan hægri flokk við hann í um það bil fjögur ár. Góða skemmtun!