Dagbók: september 1998
Þriðjudagur 29.9.1998
Síðdegis var athöfn í álverinu í Straumsvík í tilefni af því, að Stóriðjuskólinn var settur í fyrsta sinn og flutti ég ávarp af því tilefni.
Mánudagur 28.9.1998
Klukkan 9 hófust bandarískir-íslenskir vísindadagar og flutti ég ávarp við upphaf þeirra. Var þetta í fyrsta sinn sem Bandaríkjamenn efna til slíkra daga með annarri þjóð og staðfestir að mínu mati hin góðu tengsl, sem eru milli þjóðanna. Er ég viss um, að þetta samstarf eigi eftir að gagnast okkur mikið, sé rétt á málum haldið. Í ávarpi mínu minnti ég á, að nú væru tæp 60 ár liðin síðan Bandaríkjamenn tóku að sér að tryggja öryggi okkar Íslendinga, meira traust væri ekki unnt að sýna neinni þjóð en fela henni öryggi sitt.
Laugardagur 26.9.1998
Klukkan 9.30 hófst fjölmennt framhaldsskólaþing á vegum Hins íslenska kennarafélags og Kennarasambands Íslands og flutti ég ræðuvið upphaf þess. Um hádegisbilið hélt ég til Ísafjarðar eins og getið er hér að ofan, við komum aftur tæplega hálfníu um kvöldið og náði ég að skipta um föt og komast í hátíðarkvöldverð ungra sjálfstæðismanna og skoðanabræðra þeirra í Evrópu til heiðurs Davíðs Oddssyni á Hótel Sögu í sama mund og gestir voru að setjast að borðum.
Miðvikudagur 23.9.1998
Klukkan 9 um morguninn hófst vinnufundur íslenskra, evrópskra og bandarískra vísindamanna um loftslagsbreytingar og Norður-Atlantshafið, og flutti ég ávarp við upphaf fundarins. Um kvöldið fór ég á landsleik Finnlands og Íslands í handbolta í Smáranum í Kópavogi, þar sem okkar lið vann góðan sigur.
Þriðjudagur 22.9.1998
Síðdegis var glæsileg hátíð í Menntaskólanum í Kópavogi, þegar þar var haldið upp á 25 ára afmæli skólans og húsnæði fyrir kjötiðnaðarkennslu var formlega tekið í notkun. Held ég, að enginn trúi því, hve glæsilegur þessi skóli er, fyrr en hann hefur fengið tækifæri til að skoða hann. Flutti ég ávarp við þetta tækifæri.
Mánudagur 21.9.1998
Þótt vélin frá Færeyjum væri tveimur tímum of sein náði ég þó að skjótast í Safn Sigurjóns Ólafssonar og taka þar þátt í athöfn í tilefni af því, að gengið hefur verið frá skipulagsskrá fyrir Listaháskóla Íslands. Sé ég í blöðunum í dag, að auglýst er eftir rektor skólans. Þar með er ýtt úr vör á grundvelli hugmynda, sem ég tók þátt í að móta á árunum 1992 til 1993 og miða að því að Listaháskóli Íslands verði einkaskóli, sem starfi á grundvelli samnings við ríkið um fjárveitingar. Með stofnun skólans rætist gamall draumur margra og ný vídd kemur inn í menntakerfi okkar. Varð ég þess vegna undrandi á því, þegar ég las Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins í dag, þar sem fjallað var um háskólastigið, að ekki skyldi minnst á þennan merka atburð, að enn sé nýr háskóli sé að hefja störf. Með réttu er Viðskiptaháskólanum í Reykjavík fagnað í Reykjavíkurbréfinu og kveður nú við annan tón í blaðinu en fyrir nokkrum misserum, þegar þar birtist neikvæður leiðari um þann skóla og því var velt fyrir sér, hvort ekki væri nær að efla Háskóla Íslands en huga að stofnun nýs viðskiptaháskóla. Réttilega er farið góðum orðum um Háskólann á Akureyri og mikilvægt hlutverk hans. Á hinn bóginn er þessi ekki getið í Reykjavíkurbréfinu, að öllu háskólastarfi í landinu hefur verið búin ný umgjörð með nýjum lögum um háskóla. Er nú verið að laga alla háskóla að almennu lögunum en Kennaraháskóli Íslands er fyrsti skólinn, sem starfar samkvæmt þeim. Kennraháskólinn hefur um nokkurt skeið stundað mikla fjarkennslu og hitti ég meðal annars einn nemanda hans, sem er búsettur í Færeyjum. Í Reykjavíkurbréfinu segir, að ekki hafi tekist að finna hlutverk við hæfi í Reykholti í Borgarfirði, án þess að það sé rökstutt nánar. Fyrir þann sem lifir og hrærist í þessum málum er engu líkara en höfundur Reykjavíkurbréfsins hafi takmarkaða sýn á það, sem er að gerast á háskólastiginu, almennt og að því er varðar einstaka skóla, og átti sig til dæmis ekki til fulls á áhuga hvarvetna á landinu á því að bjóða símenntun og endurmenntun, þar sem framhaldsskólar og háskólar taka höndum saman og fjarkennsla er nýtt, þar má nefna Fræðslunet Austurlands eða Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og áform um svipaðar miðstöðvar á Vesturlandi og Suðurlandi. Snorrastofa starfar í Reykholti og sérstök nefnd vinnur nú að því að þróa hugmyndir um miðaldafræðastarf þar auk þess sem ráðist verður í viðgerð á gamla skólahúsinu með það fyrir augum, að það nýtist Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni, einkaaðilum gengur vel að reka hótel allt árið í Reykholti, sem er forsenda fyrir fjölbreyttu starfi á staðnum. Það er því ekkert tómarúm í Reykholti, þótt framhaldsskólinn hafi hætt þar vegna skorts á nemendum. Á hinn bóginn er auðvitað matsatriði, hvað er við hæfi í Reykholti eða annars staðar.
Fimmtudagur 17.9.1998
Allan daginn unnum við Rut að því með starfsmönnum Stöðvar 2 að gera sjónvarpsþátt. Var forvitnilegt að kynnast því, hve mörg handtök eru í kringum slíkan þátt, sem tekur ekki nema 25 mínútur að líða yfir skjáinn.
Miðvikudagur 16.9.1998
Fór í Flataskóla í Garðabæ og tók þátt í því með stjórn Soroptomista að afhenda bækling til 6 ára grunnskólabarna sem konurnar dreifa í því skyni að hvetja til gagnkvæmrar vináttu.
Þriðjudagur 15.9.1998
Í hádeginu var efnt til fundar með forráðamönnum opinberra menningarstofnana í menntamálaráðuneytinu, þar sem Ása Richardsdóttir, framkvæmdastjóri Kaffileikhússins, greindi frá niðurstöðum ráðstefnu, sem hún sótti um nýjungar við stjórn menningarstofnana, þar sem samningsstjórn tekur við af hefðbundnum stjórnarháttum og fjárveitingum.
Mánudagur 14.9.1998
Síðdegis tók ég þátt í því með Íslenskum getraunum að opna nýja vefsíðu, Eurogoals, þar sem menn geta tekið þátt í getraunaleik á tölvunni heima hjá sér.
Laugardagur 12.9.1998
Fórum síðdegis á upphafstónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Föstudagur 11.9.1998
Setti haustráðstefnu Skýrslutæknisfélags Íslands með ræðu. Fórum í Listasafn Íslands, þar sem opnuð var sýningin: Draumur um um hreint form, íslensk abstraktlist 1950 til 1960.
Miðvikudagur 9.9.1998
Sótti síðdegis stofnfund Lagnakerfismiðstöðvar Íslands.
Sunnudagur 6.9.1998
Klukkan 11.30 fórum við Rut á Lækjartorg, þar sem forystumenn Bandalags íslenskra listamanna komu saman til stuttrar athafnar í því skyni að minnast 70 ára afmælis bandalagsins. Síðan fór hópurinn á Hótel Borg og snæddi saman hádegisverð, þar rituðum við Hjálmar H. Ragnarsson tónskáld, forseti BÍL, undir samstarfssamning BÍL og ráðuneytisins. Klukkan 14.00 vorum við síðan komin í Heiðmörk, þar sem sjálfstæðismenn í Reykjavík efndu til hátíðar í veðurblíðunni. Kom í minn hlut að segja nokkur orð og síðan kepptum við þingmenn við borgarfulltrúa í knattspyrnu og lauk leiknum að sjálfsögðu með sigri okkar þingmanna, gerðum við 2 mörk en hinir ekkert.
Laugardagur 5.9.1998
Klukkan 15.00 hófst háskólahátíð í Háskóla Íslands, nýjung, sem Páll Skúlason rektor vill innleiða, það er að í upphafi hvers skólaárs komi starfsmenn skólans saman og hlýði á stefnumarkandi ræður um málefni hans og annað, sem á erindi á slíka hátíð. Þótti mér þetta vel takast, þrátt fyrir að góða veðrið hafi örugglega spillt fyrir aðsókninni. Kom það meðal annars í minn hlut að flytja ræðu á þessari hátíð. Var fróðlegt að bera saman yfirbragðið á hátíð Háskóla Íslands annars vegar og Viðskiptaháskólans hins vegar. Hvor hátíðin var með sínu sniði og allt að sjálfsögðu miklu formfastara í Háskóla Íslands, þar sem prófessorar eru í skikkjum og rektor með sérstakt virðingartákn um hálsinn, gengið er inn og út í skrúðgöngu. Ræður eru skrifaðar og formfastar. Er þannig lögð rækt við hefðir, sem ekki mega hverfa. Í Viðskiptaháskólanum bar það við, að Guðfinna Bjarnadóttir rektor flutti setningarræðu sína blaðalaust og studdist aðeins við minnissetningar á glærum, sem sýndar voru á tjaldi. Þar talaði fulltrúi nemenda einnig á þann veg, að til þess að ná árangri yrði hver og einn að leggja sig fram og þeim mun meira, eftir því sem áfram miðaði í náminu og kröfur ykjust, nýnemar skyldu átta sig á því, að það gæti verið vont fyrst en það ætti eftir að versna! Formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands var frekar á þeim nótum, að hið opinbera gerði ekki nóg fyrir námsmenn, námslánin væru ekki nógu og há og ekki væri þess að vænta, að þeir nytu sín sem skyldi, ef ekki yrði betur við þá gert af opinberri hálfu, meira að segja væri ljóst, að fjárveitingum til Lánasjóðs íslenskra námsmanna væri þannig háttað, að gert væri ráð fyrir að námsmenn ynnu með námi. Klukkan 18.45 hófst svo hinn skemmtilegi landsleikur Frakka og Íslendinga, sem áður er getið.
Föstudagur 4.9.1998
Klukkan 15.00 var hátíðleg athöfn í Borgarleikhúsinu, þegar Viðskiptaháskólinn í Reykjavík var settur í fyrsta sinn. Var ég í hópi þeirra, sem fluttu ávörpvið þetta tækifæri. Er undravert að sjá á hve skömmum tíma þessari hugmynd um nýjan háskóla hefur verið hrundið í framkvæmd, eftir að hún komst af umræðustiginu. Aðbúnaður hans í nýju skólahúsi er eins og best verður á kosið. Voru mikil og góð hvatningarorð flutt við skólasetninguna. Miklar kröfur eru gerðar til nemenda og kennara. Er ég ekki í nokkrum vafa um, að þessi nýi skóli hefur góð áhrif á allt háskólastigið. Æ fleiri hafa orð á því við mig, að þeir vilji fá tækifæri til að reyna sig í skólarekstri á sömu forsendum og Viðskiptaháskólinn og Samvinnuháskólinn eru reknir, það er sem einkaskólar í samningsbundnum tengslum við menntamálaráðuneytið um fjármál og gæðaeftirlit.
Þriðjudagur 1.9.1998
Síðdegis svaraði ég spurningum þeirra Hrafn og Jakobs á þjóðbraut Bylgjunnar um málefni RÚV. Vildu þeir vita, hvort ég hefði samþykkt 11% hækkun á afnotagjöldum RÚV, sem er ekki. Þá minntust þeir einnig á skipulag RÚV og sagðist ég sjá það fyrir mér, að sett yrðu almenn útvarpslög, þar sem tekið yrði á öllum þáttum útvarpsmála, síðan yrði sett sérstök löggjöf um RÚV og stofnuninni breytt í hlutafélag í eigu ríkisins, það væri eina skynsamlega leiðin til að RÚV gæti haldið áfram að dafna við núverandi aðstæður, hvort þetta gerðist meðan ég sæti í stól menntamálaráðherra væri óvíst, þar sem kosningar yrðu næsta vor. Þá vildu þeir vita afstöðu mína vegna umræðna um innri málefni fréttastofu sjónvarpsins. Sagðist ég ekki sjá neitt athugavert við, að menn gagnrýndu fréttir þeirrar stöðvar eins og annarra og stjórnmálamenn hefðu að sjálfsögðu fyllsta rétt til að gera það, sjálfur væri ég oft í þeim stellingum á heimasíðu minni. Þá væri ekkert heldur athugavert við, að maður í opinberu starfi hjá RÚV nýtti sér þann rétt, sem opinberir starfsmenn hafa til að skjóta málum til yfirboðara sinna, teldu þeir á sér brotið. Ekki sagðist ég vilja gefa Helga H. Jónssyni neina einkunn í beinni útsendingu, gömlum skólabróður og sessunaut í menntaskóla. (Innan sviga er ég mest undrandi á því, hve mjög Dagur lætur þessi málefni fréttastofu sjónvarpsins til sín taka, er engu líkara en blaðið líti á sig sem einhverja samvisku RÚV og allar hræringar þar snerti blaðið með sérstökum hætti.) Skömmu eftir þetta símaviðtal fór ég í höfuðstöðvar Viðskiptablaðsins í Brautaholti og tók þar þátt í beinni útsendingu þaðan um Bylgjuna, það er var viðmælandi í Viðskiptahorni, sem blaðið stendur fyrir fimm daga vikunnar. Ræddum við einkum um áhuga bandaríska kvikmyndafyrirtækisins Miramax á því að fá hér starfsaðstöðu. Einnig drápum við á stöðu íslenskrar kvikmyndagerðar. Bar ég saman hin mismunandi viðhorf, sem eru milli Bandaríkjamanna og Evrópumanna, þegar rætt er um kvikmyndagerð. Hinir fyrrnefndu leggja mesta áherslu á að ná til áhorfenda, þeir nýta sér markaðinn til hins ýtrasta og reka stóriðnað með miklum hagnaði. Hinir síðarnefndu líta á sig í varnarstöðu gagnvart Bandríkjamönnum, vilja opinberar reglur og styrki til að tryggja starfsaðstöðu sína. Óli Björn, ritstjóri Viðskiptablaðsins, benti á, að í Bandaríkjunum væri stór heimamarkaður en ekki hér. Ég benti, að ekki hefðum við stóran heimamarkað fyrir fisk en værum þó eina þjóðin í okkar heimshluta, sem ekki hefði opinbert styrkjakerfi fyrir útgerð og fiskvinnslu, græddum á tá og fingri og værum öðrum fyrirmynd á þessu sviði. Keppinautarnir berðust í bökkum þrátt fyrir allt styrkjafarganið. Hér kann að vera ólíku saman að jafna, en hitt er þó staðreynd, að sjálfskaparviðleitnin tapast fljótt hjá þeim, sem bíða eftir því að tékkinn berist til þeirra úr ríkissjóði eða opinberir aðilar setji þeim markmið og starfsramma.