Dagbók: ágúst 2010

Þriðjudagur, 31. 08. 10. - 31.8.2010

Í kvöldfréttum er sagt frá því, að fyrir dyrum sé uppstokkun á ríkisstjórninni. Það kemur ekki á óvart, að Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, verði ekki oftar í þingsalnum, eftir að hafa sagt þingmönnum ósatt 1. júlí 2009 um myntkörfulánin. Hitt er undarlegra að spyrða þau Rögnu og Gylfa saman og láta hana víkja, af því að Gylfi á engan annan kost en hverfa úr embætti.

Ragna er langvinsælasti ráðherra ríkisstjórnar, sem stendur höllum fæti. Vinsældir ríkisstjórnarinnar aukast ekki við að reka Rögnu úr henni. Með því að fjölga ráðherrum um tvo úr hópi þingmanna, kunna Jóhanna og Steingrímur J. að styrkja stöðu sína í þingflokkunum. Það verður þó aðeins skammvinnt vopnahlé innan stjórnarliðsins. Alvara stjórnmálalífsins breytist ekki með andlitsbreytingu.

Mánudagur, 30. 08. 10. - 30.8.2010

Ókum frá Akureyri til Blönduóss, þar sem við skoðuðum hið glæislega textilsafn undir leiðsögn Elínar Sigurðardóttur, forstöðukonu, sem hefur haft forgöngu um að koma því á fót.  Safnið hlaut tilnefningu til veðlauna á safnadeginum fyrr í sumar.

Þá fórum við að Þingeyrum og fengum leiðsögn um hina merku steinkirkju þar.

Sunnudagur 29. 08. 10. - 29.8.2010

Fyrir hádegi ókum við um Eyjafjarðarsveit og komum meðal annars að minningarlundi um Jón Arason biskup á fæðingarstað hans að Grýtu.

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands efndi til tónleika í menningarhúsinu Hofi klukkan 16.00 undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar. Salur hússins var þéttsetinn.

Tónleikarnir hófust á verkinu Hymnos, Op. 45 eftir Hafliða Hallgrímsson, sem samið var sérstaklega fyrir hljómsveitina í tilefni af því, að Hof er opnað. Verkið var einnig flutt á hátíðinni í Hofi í gær en nú hafði Hafliði bætt við klukknaspili í lokin, sem vísaði til Akureyrarkirkju og gaf það verkinu aukið gildi.

Víkingur Heiðar Ólafsson lék einleik í píanókonsert eftir Edvard Grieg við mikla hrifningu áheyrenda.

Tónleikunum lauk með sinfóníu Dvoráks Úr nýja heiminum og sagði Guðmundur Óli, að verkið minnti á, að Sinfóníuhljómsveit Norðurlands flytti nú í nýjan heim í Hofi.

Hljómburður í salnum er góður og til fyrirmyndar, hve rúmt er á milli bekkja. Fyrir hlé hitnaði um of í salnum. Hljómlistarmönnunum var innilega fagnað með bravóhrópum í lok tónleikanna.

Í gærkvöldi var opið húsi í Hofi á Akureyrarvöku og gestum boðið kaffi og kleinur. Heyrði ég, að drukknir hafi verið 600 lítrar af kaffi, svo að talsverður hópur folks hefur nýtt sér tækifærið til að skoða hið glæsilega hús.

Laugardagur, 28. 08. 10. - 28.8.2010

Ókum norður á Akureyri í prýðilegu veðri. Það kólnaði eftir því sem norðar dró og greinilega hafði snjóað í efstu fjallsbrúnir, þegar litið var til þeirra úr Skagafirði.

Klukkan 16.00 var menningarhúsið Hof opnað formlega á Akureyri við hátíðlega athöfn og með góðri dagskrá. Ég minnist þess vel frá ársbyrjun 1999, þegar ríkisstjórnin samþykkti að reisa menningarhús utan Reykjavíkur samtímis því, sem tillaga mín um tónlistarhús í Reykjavík var samþykkt.

Ég skrifaði hér á síðuna 8. janúar 1999:

Fimmtudaginn 7. janúar var svo efnt til blaðamannafundar í Ráðherrabústaðnum. Forsætisráðherra boðaði til fundarins og auk hans sátum við utanríkisráðherra og félagsmálaráðherra fundinn. Með því að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson formenn stjórnarflokkanna voru á þessum fundi var áréttað, að efnið, sem þar var kynnt, ætti öflugan pólitískan stuðning. Þarna var verið að kynna tillögu um, að reist verði á næstu árum svonefnd menningarhús á Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Egilsstöðum og í Vestmannaeyjum. Næsta skrefið er, að ég skipa nefnd til að vinna að þessu verkefni.

Þessar hugmyndir um menningarhús eru í samræmi við ábendingar um það, að menning og menntun skipti miklu, þegar leitað er úrræða til að tryggja búsetu um land allt. Verður spennandi að sjá, hvernig tekst að vinna úr þessu máli á næstu árum. Ég hef orðið var við, að ýmsir staldra við, þegar við blasir, að ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um fimm staði í þessu efni. Er það þó forsenda þess, að skipulega verði að málinu unnið, síðan þarf að raða þessum stöðum í forgangsröð, því að forsætisráðherra kynnti á blaðamannafundinum, að stefnt yrði að því að ljúka verkefninu á tíu árum eða svo og eðlilegt væri, að kostnaðarskipting yrði 60% hjá ríki og 40% hjá sveitarfélögum.

Nú þegar tæp tólf ár eru liðin frá þessari samþykkt er hið glæsilega menningarhús, Hof, risið á Akureyri. Var ánægjulegt að verða þess var í dag, hve vel áheyrendur fögnuðu öllum, sem fram komu við athöfnina í Hofi. Ekki síst snerti það marga, að Kristján Jóhannsson, Akureyringur og stórsöngvari, skyldi syngja Hamraborgina með sinfóníuhljómsveit Norðurlands.

Á öðrum stöðum, sem nefndir voru í samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því í janúar 1999. hefur einnig verið unnið að framkvæmd hennar. Ísfirðingar hafa eignast góðan tónlistarsal og endurgert Edinborgarhúsið. Skagfirðingar hafa einnig ráðist í endurbætur á eldri húsum. Enn vantar sal á Austfjörðum, sem um var rætt, að risi á Egilsstöðum, þótt ráðist hafi verið í endurbætur á mögum menningarmannvirkjum. Í Vestmannaeyjum hafa verið hugmyndir um gerð menningarhúss í eldhrauninu.

Föstudagur, 27. 08. 10. - 27.8.2010

Klukkan 17.30 úthlutaði Samband ungra sjálfstæðismanna frelsisverðlaunum, sem kennd eru við Kjartan Gunnarsson, fyrrv. framkvæmastjóra Sjálfstæðisflokksins,  við hátíðlega athöfn. Verðlaunin hlutu Brynjar Níelsson, hrl., vegna staðfestu sinnar í þágu frelsis í skrifum sínum og afstöðu og Indefence-hópurinn, sem berst gegn því, að gengið verði undir Icesave-okið.

Ég hef stundum nefnt lítinn dálk efst á leiðarasíðu Fréttablaðsins húskarlahorn blaðsins, því að þar er komið á framfæri skoðunum um menn og málefni í þágu eiganda blaðsins.

Í gær nefndi ég hér á þessum stað, að grein sr. Þóris Stephensens um það, sem ég hefði sagt árið 1992 í ritdómi um bók um sjávarútvegsstefnu ESB, minnti mig helst á lúsarleit Baugsmanna á tíma Baugsmálsins að öllu, sem ég hefði sagt og gæti gagnast þeim í málaferlunum.

Húskarlahorn Fréttablaðsins var þá gjarnan notað til að árétta hagsmuni eigenda Baugsmiðlanna. Þetta endurtekur sig í dag, þegar einn húskarlanna býsnast yfir því, að ég hafi ekki skrifað um grein sr. Þóris á síðu Evrópuvaktarinnar og gefur til kynna, að það snerti mig eitthvað illa, að minnt sé á hana. Spuni af þessu tagi sannfærir mig aðeins enn frekar um, hve mikla áherslu Baugsmenn leggja á ESB-málin og telja mikilvægt, að fjölmiðlar þeirra séu nýttir til áróðurs fyrir aðild.  Allt í sama anda og á tíma Baugsmálsins.

Fimmtudagur, 26. 08. 10. - 26.8.2010

Á tíma Baugsmálsins og eftir að ég varð dómsmálaráðherra sátu Baugsmenn og áróðursmeistarar þeirra yfir hverju orði, sem ég sagði, í von um að finna eitthvað til að nýta í málflutningnum. Oftar en einu sinni var reynt að eyðileggja málið fyrir dómstólum með því að nota þau orð, sem ég skrifaði eða sagði, og Baugsmenn töldu nýtanleg fyrir sig. Allt kom fyrir ekki. Dómarar höfnuðu því, að ég hlutaðist til um málið með orðum mínum.

Mér datt þetta í hug í morgun þegar ég sá grein eftir sr. Þóri Stephensen í Fréttablaðinu, þar sem hann vitnar í ritdóm eftir mig frá 1992 um bók eftir Ketil Sigurjónsson um sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB. Skilst mér, að sr. Þórir telji sig sanna, að í þessum ritdómi segi ég eitthvað, sem stangist á við þá skoðun mína, að með aðild að ESB afsöluðum við okkur forræði á sjávarauðlindinni.

Ég er sannfærður um, að skoðun sr. Þóris stæðist ekki óhlutdrægt mat. Hitt er mér að meinalausu, að menn leiti með stækkunargleri að því, sem ég hef sagt um Ísland og ESB. Ég mundi til dæmis ekki eftir þessum ritdómi. Sé tilgangurinn að hafa mig ofan af þeirri skoðun, að Íslendingar eigi ekki heima innan ESB, er leitin að gömlum greinum mínum um ESB tímasóun. Eigi að nota gamlar greinar til að sannfæra aðra um, að ég hafi aðra skoðun en þá, sem ég hef mótað mér á þessu máli, er ekki heiðarlega að verki staðið.

Miðvikudagur, 25. 08. 10. - 25.8.2010

Klukkan 09.00 var ég í Folketinget í Kaupmannahöfn og tók þátt í „höring“ eða opnum fundi varnarmálanefndar danska þingsins um viðbúnað á norðurskautssvæði og Norður-Atlantshafi i Langtingssalen, þar sem um 50 manns sátu auk þess sem sjónvarpað var frá fundinum á rás danska þingsins.

Lars Emil Johansen, þingmaður frá Grænlandi, stjórnaði umræðum um stöðuna, eins og hún er núna og meðal ræðumanna þar var Henrik Kudsk, yfirmaður herstjórnarinnar á Grænlandi.

Högni Hoydal, þingmaður frá Færeyjum, stýrði síðan umræðuna um framtíðarþróun. Þar vorum við þrír meðal ræðumanna Kuupik Kleist, landsstjórnarformaður á Grænlandi, Jörgen Niclasen, utanríkisráðherra auk mín.

Lauk fundinum um klukkan 13.00 og síðan var boðið til hádegisverðar í þinghúsinu.

Flaug ég heim um kvöldið með Icelandair.

Þriðjudagur, 24. 08. 10. - 24.8.2010

Flaug klukkan 11.25 með SAS frá Mílanó Malpensa-flugvelli til Kaupmannahafnar.

Mánudagur, 23. 08. 10. - 23.8.2010

Vilji menn skoða söfn í Mílanó er mánudagur ekki rétti dagurinn, því að þau eru öll lokuð þann dag. Þá er borgin einnig í sumarleyfi í ágúst, ef marka má skilti á verslunum og veitingahúsum. Okkur þótti þess vegna frekar fáir á ferli, þegar við gengum um stræti borgarinnar, skoðuðum dómkirkjuna og kastala og fleira, sem fyrir augu bar.

Sunnudagur, 22. 08. 10. - 22.8.2010

Ókum úr franska Alpaþorpinu Le Plevoux til Mílanó og tók ferðin um fjóra tíma. Við kvöddum frönsku Alpanna með söknuði og í huga að heimsækja þá aftur, til að njóta kyrrðar og fegurðar í heilnæmu fjallaloftinu.

Sunnudagur, 15. 08. 10. - 15.8.2010

Ókum frá hóteli skammt frá Malpensa-flugvelli í frönsku Alpana, þar sem Rut skyldi taka þátt í tónlistarhátið í eina viku með Skálholtskvartettinum og fleiri tónlistarmönnum. Leiðin lá fram hjá Tórínó og þaðan inn í Alpana eftir góðum vegum, sem lagðir höfðu verið í tilefni af vetrar Ólympíuleikunum árið 2006. Yfir eitt 1.800 metra hátt skarð var að fara, áður en við komum til Frakklands á austurjaðri frönsku Alpanna.

Laugardagur, 14. 08. 10. - 14.8.2010

Í blöðum í dag er rætt við Pál Winkel, fangelsismálastjóra, um gengjamyndun í íslenskum fangelsum og aukinn vanda vegna þeirra. Hann sagði fyrst frá þessu í viðtali við mig á ÍNN. sem birtist fyrst 11. ágúst, er endursýnt nú um helgina og má sjá hér.

Flugum til Milanó klukkan á seinni tímanum í 11.00 með Icelandair. Flugið tók tæpa fjóra tíma og  klukkan var að nálgast fimm á staðartíma, þrjú á íslenskan, þegar við lentum. Það rigndi, þegar við komum út úr flugstöðinni. Ókum á sveitahótel í nágrenni Malpensa-flugvallar með góðri nettengingu, eins og þessi færsla ber með sér. Nú er að sjá, hvort þetta verður eins á öðrum dvalarstöðum í ferðinni.

Föstudagur, 13. 08. 10. - 13.8.2010

Í hádeginu var ég úti í Gróttu og flutti þar smákynningu á qi gong á fjölmennum Rotary-fundi. Rotary-félagar á Seltjarnanesi fengu naust Alberts, síðasta vitavarðar í Gróttu, í arf og hafa breytt því í samkomuhús. Héldu þeir fundinn þar, eins og þeir gera, þegar fært er í eyjuna og hún er opin mönnum. Nokkra mánuði á sumri eru allar mannaferðir um Gróttu bannaðar vegna fuglalífsins.

Síðdegis skrifaði ég pistil hér á síðuna um vandræði Gylfa Magnússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra. Tel ég þau þess eðlis, að hann hljóti að hverfa úr ríkisstjórninni. Geri hann það ekki, sannast enn, hve illa er haldið á forystu ríkisstjórnarinnar. Fréttir bárust síðdegis, að þau hefði náð sambandi hvort við annað Jóhanna Sigurðardóttir og Gylfi, hefði hún kallað hann á teppið.

Mér finnst ótrúlegt, hvað stjórnarandstaðan sýnir ríkisstjórninni mikið langlundargeð. Aðhaldsleysi af hálfu stjórnarandstöðunnar verður aðeins til að gera illt verra.

Nú er boðað, að taka eigi upp að nýju viðræðuþráðinn um Icesave. Til hvers? Í ljós hefur komið, að allar hrakspár, um hvað myndi gerast, ef ekki yrði samið um Icesave, hafa reynst rangar. Það stendur ekki steinn yfir steini í þeim hræðsluáróðri. Forseti ESA hefur gert stofnun sína vanhæfa til að fjalla frekar um málið. Þótt ESB taki undir með niðurstöðu ESA, af því að hún fellur að hagsmunum ESB, eru rökin fyrir niðurstöðunni ekki hin sömu. Sýnir það enn, hve veikur málstaður Breta og Hollendinga er.

Málstaður þeirra, sem neita að játast undir ESA-skuldirnar, styrkist eftir því, sem lengri tími líður án samninga. Nauðsyn þess að látið sá málið reyna fyrir dómi, verður einnig augljósari. Ástæðuslaust er fyrir stjórnarandstöðuna að rétta ríkisstjórninni hjálparhönd í þessu máli. Hvernig væri að krefjast þess af forsætisráðherra og utanríkisráðherra, að þau berðust fyrir málstað þjóðarinnar en lægju ekki í ESB-duftinu?

Fimmtudagur, 12. 08. 10. - 12.8.2010

Hér má lesa frásögn á vefsíðu BBC af hvalveiðum Íslendinga og tengslum þeirra við ESB-aðildarumsóknina. Enginn íslensku viðmælandanna nefni hvalreka, whaledrift, og gildi hans fyrir afkomu Íslendinga um aldir. Um skiptingu hvals, sem rak á land, giltu fastmótaðar reglur, svo að allir fengju að njóta á tímum harðræðis. Þá er ástæðulaust að gleyma því, að Bandaríkjamenn gengu hvað harðast fram við hvalveiðar. Þótt þeir hafi samviskubit, er ástæðulaust af þeim að ætla, að aðrir sýni sömu drápsgleði.

Grænlendingar eru eina þjóðin, sem hefur sagt sig úr ESB. Þeir gerðu það árið 1985 og vildi 53% þeirra, sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, vera utan ESB. Ein af ástæðunum var andstaða íbúa ESB-ríkja við hvalveiðar og selveiðar.

Fyrir tæpum tveimur áratugum, þegar ég sat á þingi Evrópuráðsins, sættu Íslendingar sig við hvalveiðibann, þótt við vildum einnig halda rétti okkar til veiðanna á loft. Stóð ég meðal annars fyrir því, að nokkrir breskir íhaldsþingmenn komu hingað til lands til að kynnast sjónarmiði okkar til hvalveiða.

Ég lagði ekki í að bjóða Tony Banks, þingmanni Verkamannaflokksins, sem síðar varð íþróttamálaráðherra, en er nú látinn fyrir aldur fram. Eitt sin þegar hvalamál voru til umræðu á Evrópuráðsþinginu og minnt var á, að hvalveiðar skiptu máli vegna fæðuöflunnar, stóð Tony Banks upp, flutti innblásna ræðu og sagði meðal annars: „Ef þeir geta ekki lifað, án þessa að éta hval, segi ég bara: Látum þá éta hvern annan."

Þingmenn i Þýskalandi og á ESB-þinginu setja sem skilyrði fyrir aðild Íslands að ESB, að við föllum frá hvalveiðum. Illskiljanlegt er, hvernig Diana Wallis, ESB-þingmaður með áhuga á aðild Íslands, getur ímyndað, að unnt sé að ná sáttum um framhald íslenskra hvalveiða og aðild Íslands að ESB.

Miðvikudagur, 11. 08. 10. - 11.8.2010

Í kvöld ræddi ég við Pál Winkel, fangelsismálastjóra, í þætti mínum á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Þyngri refsingar fyrir fíkniefnabrot og kynferðisbrot auk skilvirkari löggæslu hefur leitt til þess, að fangelsi eru yfirfull og biðlisti eftir að komast í afplánun lengist. Vorum við Páll sammála um, að löng fangelsisvist væri ekki endilega bestu viðbrögð samfélagsins við afbrotum. Önnur betrunarúrræði kynnu að vera betri fyrir allan þorra brotamanna.

Hér á landi eru 44 á 100 þúsund íbúa í fangelsum í Bandaríkjunum er þessi tala 700 á 100 þúsund íbúa. Refsigleði bandarískra yfirvalda er komin út í öfgar eins og nýlega var rakið í vikuritinu The Economist. Þingmenn láta undan þrýstingi þeirra, sem krefjast sífellt þyngri refsinga, af því að það er helst til pólitískra vinsælda fallið. Sömu þróunar gætir hér á landi. Dómarar hafa sætt gagnrýni, ef þrýstihópi finnst þeir ganga of skammt í dómum sínum í einstökum málaflokkum.

Sé litið til afstöðu vegna efnahagsbrota, hefur hún gjörbreyst eftir bankahrunið. Fram að því lá í loftinu, að eitthvert réttarhneyksli hefði verið framið með því að ákæra Baugsmenn fyrir að „borga kók með röngu kreditkorti“ eins og einhver afsakandi þeirra orðaði það. Þá virtust margir sjá eftir hverri krónu, sem varið var til saksóknar gegn Baugsmönnum og mikið var látið með þá skoðun, að ákæran hefði verið alltof víðtæk. Spurning er, hvort nú þyrfti að verja fimm milljörðum króna á fáeinum árum til að rannsaka efnahagsbrot á vegum sérstaks saksóknara, ef dómarar hefðu tekið ákæruliði í Baugsmálinu öðrum tökum. Við þeirri spurningu fást aldrei svör, en víst er, að andrúmsloftið í þjóðfélaginu er nú þannig, að líklegra er en áður í 50 ár, að alþingi samþykki í haust fjárveitingu til að reisa fangelsi fyrir gæsluvarðhaldsfanga, konur og skammtímavistun í Reykjavík.

Þriðjudagur, 10. 08. 10. - 10.8.2010

„Telur hann [Gylfi Magnússon] lögmæti myntkörfulána hafið yfir allan vafa?“ spurði Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, viðskiptaráðherra 1. júlí, 2009. Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, svaraði:

„Ég vík fyrst að fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um lögmæti lána í erlendri mynt. Lögfræðingar bæði í viðskiptaráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni hafa vitaskuld skoðað það mál. Niðurstaða þeirra er að lánin séu lögmæt. En það er auðvitað ekki framkvæmdarvaldsins að skera úr um það. Ef það réttarágreiningur í máli sem þessu er það dómstóla þannig að ég tel að telji einhverjir að þessi lán séu ólögmæt þá liggi beinast við að dómstólar skeri úr um það. Það er alla vega hvorki á valdi viðskiptaráðuneytisins né annarra arma framkvæmdarvaldsins að gera það.“

10. ágúst 2010 hefur hæstiréttur dæmt myntkörfulánin ólögmæt. 10. ágúst 2010 hefur einnig verið upplýst, að viðskiptaráðuneytið bjó 1. júlí 2009 yfir upplýsingum um, að lögfræðistofan LEX og aðallögfræðingur Seðlabanka Íslands teldu myntkörfulánin ólögmæt. 10. ágúst 2010 segist Gylfi Magnússon hafa verið að ræða allt önnur lán en Ragnheiður nefndi í fyrirspurn sinni, þegar hann talaði um „lán í erlendri mynt“ og sagði þau lögmæt. Hann vill skýra setningarnar, sem á eftir koma í svari hans á þann veg, að þar hafi hann verið að fjalla um myntkörfulánin. Um þau hafi ríkt réttaróvissa.

Hér skal fullyrt, að enginn, sem hlustaði á Gylfa Magnússon tala í sal alþingis 1. júlí 2009 hafi skilið orð hans á þann veg, sem hann skýrir þau núna. Hann var í svari sínu 1. júlí að slá þann varnagla, að lánin, sem hann sagði lögmæt, kynnu að verða dæmd ólögmæt, af því að dómstólar ættu síðasta orðið um lögmætið.

Að hann skyldi jafnframt fullyrða, að lögfræðingar í „viðskiptaráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni“ hefðu skoðun á málinu, sýnir, að hann vissi, að málið hafði verið skoðað í ráðuneytinu og utan þess en innan stjórnsýslunnar. Hvar? Í Seðlabanka Íslands? Hann segist þó ekki hafa vitað um álit bankans og LEX.

Miðað við stjórnsýslu leyndarhyggju og orðhengilsháttar innan ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur er vafalaust, að Gylfi telur sig komast upp með yfirlýsingar af þessu tagi við ríkisstjórnarborðið. Jóhanna lýsti líka yfir trausti á honum í dag.

Jóhanna gaf sjálf fordæmi í umræðum um launamál Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra. Þá fór hún undan í flæmingi. Nú heimtar Jóhanna skýrslu af seðlabankanum um það, hvers vegna hún fékk ekki að sjá lögfræðiálitið um ólögmæti myntkörfulánanna. Hún veit, að skýrslan breytir engu um gang mála. Beiðnin kann hins vegar að slá ryki í augu einhverra. Hvers vegna birtir Jóhanna ekki skýrslu um launamál Más?

Mánudagur, 09. 08. 10. - 9.8.2010

Þegar skýrsla rannsóknarnefndar alþingis kom út vakti það, sem í henni sagði um stjórnsýsluna, jafnvel meiri athygli, einkum á ljósvakamiðlunum, en hitt, sem í henni stóð, að bankarnir hefðu verið rændir af þeim, sem höfðu takmarkalausan aðgang að lánsfé þeirra, án þess að leggja fram nógu traustar tryggingar.

Aðfinnslur um stjórnsýsluna snerust meðal annars um, að upplýsingum hefði ekki verið miðlað, réttir menn hefðu ekki komið að ákvörðunum, ekki hefði verið brugðist rétt við þeim upplýsingum, sem þó var miðlað og fleira í þeim dúr.

Nú er til umræðu mál, sem segja má, að snerti bankakreppu nr. 2, eftir að dæmt var, að ólöglegt væri að gengistryggja lán, sem veitt voru í íslenskum krónum.

Í ljós hefur komið að innan Seðlabanka Íslands hefur í meira en ár legið álit frá lögfræðistofunni Lex og aðallögfræðingi bankans um, að lán af þessu tagi væru ólögmæt. Ekki nóg með það. Seðlabankinn tilkynnti viðskiptaráðuneytinu um þetta álit í tölvupósti.

Í dag var rifjað upp í sjónvarpi, að Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, sagði alþingi, eftir að álit seðlabankans lá fyrir, að lán af því tagi, sem bankinn taldi ólögmæt, væru lögmæt. Ráðherrann segist nú ekki hafa vitað um álit bankans, þótt það hafi verið kynnt ráðuneyti hans. Hann hafi því sagt alþingi satt!

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, var ekki tekinn við þvi embætti, þegar aðallögfræðingurinn gaf álit sitt. Það breytir að sjálfsögðu engu fyrir bankann, enda kynnti bankinn ráðuneytinu afstöðu sína, þótt Már segi nú, að þetta hafi ekki verið álit bankans! Bankinn hefði ekki tekið neina afstöðu til málsins. Kannski er Már með þessu að reyna milda málið fyrir Gylfa Magnússon. Már fær því að minnsta kosti ekki breytt, að álit bankans lá fyrir og var kynnt ráðuneytinu. Er ástæða til að efast um, að það falli undir góða stjórnsýsluhætti að tala um málið á þann veg, sem Már kýs að gera.

Staðreynd er, að hvorki innan seðlabankans né viðskiptaráðuneytisins var brugðist við þessu áliti eins og yfirstjórn bar að gera. Hún getur ekki afsakað sig með því, að önnur mál hafi verið í gangi, eins og Már, seðlabankastjóri, gerði í Kastljósi kvöldsins.

Sunnudagur, 08. 08. 10. - 8.8.2010

Í því felst ótrúleg þrákelkni af hálfu Samfylkingarinnar að halda fast í kröfuna um aðild Íslands að Evrópusambandinu, þrátt fyrir hina miklu andstöðu, sem er við þessa stefnu. Með þessu er stofnað til ófriðar milli flokka, innan flokka og við sjálft ríkisstjórnarborðið. Ekki verður vart neinnar viðleitni til að skapa þá stöðu í málinu, að hugsanleg sé að skapa frið um það í þjóðfélaginu.

Út á við er haldið fram þeirri blekkingu, að Íslendingar hafi ólmir viljað ganga í ESB, eftir að bankarnir hrundu, en síðan hafi Icesave-málið dregið úr stuðningi við ESB-umsóknina. Þetta er blekking vegna þess að krafa Samfylkingarinnar um ESB-aðild á í raun ekkert skylt við bankahrunið. Málsvarar hennar sáu sér hins vegar nýjan leik á borði eftir hrunið til að setja þetta mál á oddinn. Frekja þeirra dugði ekki til að hagga við sjálfstæðismönnum en hún leiddi hins vegar vinstri-græna inn á ESB-aðildarleiðina, af því að þeir þráðu að sitja í ríkisstjórn.

Ekkert af því, sem sagt var, að fylgja myndi umsókninni til batnaðar í efnahags- og stjórnmálum hefur gerst. Hins vegar hefur aðildarbröltið spillt samningsstöðu Íslands vegna Icesave og öllu pólitísku andrúmslofti í landinu.

Þjóðin vill ekki fara inn í ESB, málið er ekki flóknara. Nú á hins vegar með fé frá ESB að gera enn eina tilraunina til að snúa Íslendingum til fylgis við ESB-aðild.

Laugardagur, 07. 08. 10 - 7.8.2010

Í dag skrifaði ég leiðara á Evrópuvaktina um Icesave og velti fyrir mér, hvort Steingrímur J. Sigfússon myndi standa á rétti Íslendinga. Því miður efast ég um það. Hann hefur brugðist tvisvar sinnum.

Mér var bent á, að Ólafur Arnarson, penni á Pressunni, teldi sig betur færan en mig til að fjalla um aðild Íslands að Evrópusambandinu, af því að hann hefði búið í Bandaríkjunum og Þýskaland, en ekki ég.

Mér er ekki ljóst, hvort þetta er grín hjá Ólafi eða framlag hans til alvarlegra umræðna. Ég kýs að líta á það sem vandræðalegt grín, ekki fyndið heldur hlægilegt.Fimmtudagur, 05. 08. 10. - 5.8.2010

Í dag kynnti ég mér betur en áður áminningarbréf ESA til ríkisstjórnar íslands vegna Icesave og umsagnir framkvæmdastjórnar ESB um málið. Því betur, sem lögfræðileg hlið málsins er skoðuð, þeim mun betur verður ljóst, að ESB og ESA eru að skella skuld á Íslendinga, sem er með öllu óréttmæt. Að þessir aðilar skuli túlka tilskipun ESB um innlánstryggingarkerfi á þennan veg gagnvart Íslendingum er með ólíkindum. Hitt er þó verra, að Steingrímur J. Sigfússon hefur engan skilning á þessum lögfræðilegu álitamálum og lítur á hlutverk sitt að semja.

Ábyrgð embættismanna utanríkisráðuneytisins í þessu máli er mikil. Þeir hafa greinilega ekki lagt stjórnmálamönnum þau rök í hendur, sem við blasa, til að halda að erlendum stjórnvöldum og þó sérstaklega ESA og ESB til að brjóta málflutning þeirra á bak aftur. Utanríkisráðuneytið lítur á Icesave, sem tæknilega hindrun á leiðinni inn í ESB og vill, að um hana sé samið, svo að unnt sé að sinna hinu háleita markmiði að koma Íslandi í ESB af meiri þunga en áður.

Hér má lesa samantekt mína um ESA, ESB og Icesave.

Miðvikudagur, 04. 08. 10. - 4.8.2010

Á sínum tíma var erfitt að stofna til umræðna á fundum borgarstjórnar Reykjavíkur um málefni Orkuveitu Reykjavíkur. Dagskrá var skipulega þannig háttað af þeim Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Alfreð Þorsteinssyni, stjórnarformanni OR, að málefni fyrirtækisins kæmu sem sjaldnast inn í borgarstjórn. Innan stjórnar OR var meira að segja einnig erfitt að fá upplýsingar. Alfreð túlkaði fyrirspurnir um málefni fyrirtækisins gjarnan sem árás á starfsmenn þess.

Eitt sinn hafði ég tök á að vekja máls á því sjónarmiði, að einkennilegt væri, hve OR teldi skynsamlegt að taka mikið af erlendum lánum í ljósi þess, að fyrirtækið hefði aðeins tekjur í íslenskri mynt. Þetta þótti að sjálfsögðu hámark heimskunnar vegna stöðu og styrks OR. Nú er undrast, hve erlendar skuldir OR eru háar, 240 milljarðar króna, heyri ég rétt. Spurt er, hvers vegna svo mikið hafi verið tekið af erlendum lánum. Skýringar finnast í yfirlýsingum stjórnenda OR á fyrstu árum 21. aldarinnar. Ég hef ekki skilið, hvers vegna sjálfstæðismenn stigu ekki á lántökubremsuna eftir 2006.

Þeir smituðust að vísu af útrásarsýkinni eins og REI-málið sýndi, en sáu þó að sér í því.

Ný stjórn í OR segist ætla að velta hverjum steini, áður en hún leggur til hækkun á  vatni og rafmagni. Vonandi birtir hún skýrslu um niðurstöðu athugana sinna. Þá fáum við kannski að vita, hvað höfuðstöðvar OR kostuðu. Farið var með það eins og mannsmorð. Alfreð var líka alltaf í samkeppni við Landsvirkjun og taldi sig geta gert flest betur en gert var innan þess fyrirtækis. Nú var sagt í fréttum, að staða Landsvirkjunar væri mun betri en OR, enda hefði verið staðið betur að málum þar en í OR.

Þriðjudagur, 03. 08. 10. - 3.8.2010

Ég verð undrandi þegar ég les, að menn með mína skoðun á aðild Íslands að ESB hafi haft um það forystu innan Sjálfstæðisflokksins á tímum útrásarinnar að leiða Baugsmenn og aðra slíka fjármálafursta til öndvegis og blekkja með því þjóðina. Þess vegna sé ekki unnt að treysta dómgreind minni, þegar kemur að því að ræða ESB-aðildarmálin. Þessu er haldið blákalt fram, um og leið og þess er krafist af sama greinarhöfundi, að menn feti stigu sannleikans í „upplýstri umræðu“ um ESB.

Á tímum útrásarinnar sat ég undir stöðugum árásum Baugsmanna fyrir að siga lögreglunni á þá, sem ég gerði ekki, og ræða um nauðsyn þess, að réttarkerfið lyki sínu verki í Baugsmálinu. Baugsmenn blönduðu sér í prófkjör í Reykjavík til að reyna að koma mér af þingi og Jóhannes í Bónus hóf einka-auglýsingaherferð í sama skyni.

Hafi einhver stjórnmálaflokkur lagt sig fram um að greiða götu útrásarvíkinga og ekki talið nóg að gert í þeirra þágu, er það Samfylkingin undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur frá því fyrir kosningar 2003. Samfylkingin tók síðan við ESB-keflinu af Jóni Ásgeiri sumarið 2008, þegar viðskiptaveldi hans var að molna að innan og hann ákallaði ESB sér til hjálpar.

Það er í góðu samræmi við málefnafátækt ESB-aðildarsinna að bera blak af Baugs-dekri Samfylkingarinnar, þegar þeir boða stefnu hennar í ESB-málum. Hinu má svo ekki gleyma, að Ingibjörg Sólrún taldi rétt að leggja ESB-aðildarumsóknina til hliðar, af því að Össur héldi svo illa á henni. Össur svaraði og sagði, að vandi Samfylkingarinnar væri sá, að óuppgerð væru óheppileg tengsl forystu hennar við ónafngreint viðskiptaveldi, les: Ingibjargar Sólrúnar við Baugsveldið.

Mánudagur, 02. 08. 10. - 2.8.2010

Nú er bráðum ár liðið frá því, að fyrsti þáttur minn birtist á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Nú hef ég verið með 25 þætti og má nálgast þá hér.

Umferðin var róleg um hádegisbilið úr Fljótshlíðinni. Næsta hlægilegt var að sjá fréttamann sjónvarps í beinni útsendingu á Suðurlandsvegi í kvöldfréttunum og næstum engir bílar á ferð. Fréttamaðurinn ætlaði að mynda bílaraðirnar. Fréttamatið í kringum verslunarmannahelgina er orðið nokkuð gamaldags og leiðigjarnt.

Í dag skrifaði ég pistil um dönsk stjórnmál.

Sunnudagur, 01. 08. 10. - 1.8.2010

Við ókum síðdegis niður í Landeyjahöfn, 30 km frá Hvolsvelli. Herjólfur var í höfninni og nokkur mannfjöldi. Mesta athygli vakti hins vegar bílafjöldinn í sandinum allt í kringum höfnina og á nýju stæði í nokkurri fjarlægð frá höfninni.

Björgunarsveitarmaður var á hafnarveginum og spurði, hvert væri erindi okkar. Við sögðumst í skoðunarferð. Hann ráðlagði okkur að fara ekki niður að höfninni, mikið öngþveiti væri þar. Við gætum beygt til hægri  eftir nálæga brú og skoðað okkur um í Landeyjunum. Það var aldrei ætlan okkar og ókum við niður að bryggju. Þar var múgur og margmenni, en allt með kyrrum kjörum. Snerum þar við og ókum til baka. Gekk það allt slysalaust fyrir sig.