Dagbók: maí 2003
Laugardagur, 31. 05. 03
Klukkan 13.30 opnaði ég sýninguna Þorskastríðin - lokasigur í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu.
Föstudagur, 30. 05. 03.
Fórum um kvöldið í Hallgrímskirkju, þar sem Mótettukórinn undir stjórn Harðar Áskelssonar flutti Elia eftir Mendelsohn með Sinfóníuhljómsveit Ísland og einsöngvurum.
Fimmtudagur, 29. 05. 03.
Klukkan 09.00 héldu félagar í Aflinum, félagi qi gong iðkenda af stað í vorferð sína undir forystu Gunnars Eyjólfssonar. Var ekið frá Laugardalshöll til Keflavíkur, þar sem fleiri félagar bættust í hópinn og síðan út að Reykjanesvita, þar sem við gerðum æfingar undir stjórn Gunnars. Síðan fórum við í Sjávarperluna í Grindavík og fengum þar góða sjávarréttasúpu, héldum aðalfund í Aflinum og ókum síðan sem leið liggur um Krýsuvík til Reykjavíkur og vorum við Laugardalshöllina rúmlega 15.30 eftir vel heppnaða ferð í einstaklega góðu veðri.
Eftir heimkomuna fór ég í Menntaskólann við Hamrahlíð, þar kórarnir hennar Þorgerðar efndu til Vorvítamíns.
Miðvikudagur, 28. 05. 03.
Ríkisstjórnin kom saman til fyrsta fundar klukkan 09.30 í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Ekki var unnt að funda á venjulegum fundarstað í stjórnarráðshúsinu vegna framkvæmda í Bankastræti og umróts í kringum húsið. Er ekki síður gott að hittast í ráðherrabústaðnum, sérstaklega þegar veðrið er jafngott og það var þennan dag.
Eftir ríkisstjórnarfundinn fékk ég tíma til fyrsta almenna viðtalsins í dóms- og krikjumálaráðuneytinu - en þar eins og áður verð ég með viðtalstíma á miðvikudagsmorgnum. Var undantekning, að ríkisstjórn kom saman á miðvikudegi en fundartímar hennar eru klukkan 09.30 á þriðjudögum og á sama tíma á föstudögum, á meðan þing situr, en utan þingtíma aðeins á þriðjudögum.
Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna kom saman í ráðhúsinu klukkan 16.00 og samþykkti einróma með lófataki, að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson tæki við af mér sem oddviti flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.
Þriðjudagur, 27. 05. 03
Þing kom saman klukkan 13.30 og þá voru kjörbréfin samþykkt, síðan var kosið í nefndir. Um kvöldið flutti Davíð Oddsson stefnuræðu sína. Rut kom heim um kvöldið úr ferðinni með Ashkenazy til Belgíu og Rússlands og gekk hún með afbrigðum vel.
Mánudagur, 26. 05. 03.
Alþingi var sett klukkan 13.30 - að loknum fundi í kjörbréfanefnd stofnuðu stjórnarandstæðingar til umræðna um framkvæmd kosninganna og vildu fresta samþykkt kjörbréfa. Var því hafnað en umræður um málið stóðu til klukkan 21.00.
Klukkan 19.00 var ég á Stöð 2 og sat fyrir svörum í Íslandi í dag sem nýr dóms- og kirkjumálaráðherra.
Laugardagur, 24. 05. 03.
Sólríkur dagur rann upp í Fljósthlíðinni og gat ég sinnt vorverkum meðal annars á traktornum mínum, sem ég keypti uppgerðan Massey Ferguson frá 1966 í vetur. Nú er ég að taka til við útihús og slétta landið í kringum þau með aðstoð Viðars bónda Pálssonar á Hlíðarbóli. Einnig hef ég gert ráðstafanir til að mokað verði út úr gömlum fjárhúsum.
Um kvöldið horfði ég á Evrovision-keppnina, þar sem Ísland lenti í 9. sæti og taldi Gísli Marteinn sérfræðingur í Evrovison-keppni, að við gætum vel við það unað.
Föstudagur, 23. 05. 03.
Klukkan 11.00 var ég í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur á útvarpi Sögu og ræddum við saman í klukkustund. Hlustendur gátu hringt og lagt fyrir mig spurningar. Fyrsta spurningin var frá áhyggjufullri konu, sem spurði mig, hvort Gísli Marteinn yrði að hætta á sjónvarpinu, ef hann yrði borgarfulltrúi ef ég hyrfi úr borgarstjórn. Ég sagðist því miður ekki geta svarað þessari spurningu, hún sneri að stjórnendum Ríkisútvarpsins.
Klukkan 13.10 fór ég að heiman að Bessastöðum en klukkan 13.30 hófst þar ríkisráðsfundur til að skipa hina nýju ríkisstjórn. Lauk þeirri athöfn rúmlega 14.00 og þar með einnig myndatökum en síðan tóku fréttamenn viðtöl við okkur nýju ráðherrana, Árna Magnússon félagsmálaráðherra og mig.
Klukkan 15.00 var ég í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og tók þar við lyklavöldum af Sólveigu Pétursdóttur, hitti starfsfólk og átti síðan fund með Stefáni Eiríkssyni, skrifsofustjóra, en Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri var erlendis.
Eftir að hafa verið í símaviðtali við Bylgjuna hélt ég austur að Kvoslæk í yndislegu veðri.
Fimmtudagur, 22. 05. 03.
Klukkan 10.45 var ég kominn í Ráðherrabústaðinn en þá var ég bókaður til að hitta Davíð Oddsson þar til að ræða við hann um ráðherrval og nefndasetu á alþingi. Ég fór ekki á fundinn með þá ósk á vörunum að verða ráðherra að nýju.
Viðtölin höfðu tekið lengri tíma við þá, sem voru á undan mér í starfrófinu innan þingflokksins og beið ég nokkra stund eftir að ná tali af Davíð. Fór vel á með okkur að vanda og var ég að nýju kominn út í blíðviðrið rúmlega 11.30.
Var ég síðan heima við síðdegis meðal annars til að skrifa vettvangsgrein mína í Morgunblaðið.
Klukkan 18.00 kom flokksráð sjálfstæðismanna saman í Valhöll og var tillaga Davíðs um stjórnarmyndun með Framsóknarflokknum samþykkt meö öllum atkvæðum gegn einu.
Strax eftir fundinn hittist þingflokkurinn í Valhöll og þar kynnti Davíð ákvörðun sína um ráðherra og samkvæmt henni varð ég dóms- og kirkjumálaráðherra.
Miðvikudagur, 21. 05. 03.
Klukkan 15.00 kom þingflokkur sjálfstæðismanna saman og gerði Davíð Oddsson honum grein fyrir sáttmálanum, sem hann hafði samið um við Halldór Ásgrímsson, og er grundvöllur nýrrar ríkisstjórnar. Jafnframt sagði Davíð frá því, að hann mundi hverfa úr stóli forsætisráðherra 15. september 2004 en Halldór taka við af sér, Sjálfstæðisflokkurinn fengi þá utanríkisráðuneyti og umhverfisráðuneyti í sinn hlut.
Var einhugur innan þingflokksins um efni stjórnarsáttmálans og eftir að hafa hlustað á rök Davíðs samþykktu þingmenn einnig þá skipan á stjórnarsamstarfinu að öðru leyti, sem hann kynnti.
Lauk fundinum skömmu fyrir klukkan 17.00
Þriðjudagur, 20. 05. 03.
Fór á fyrsta fund minn í stjórn skipulagssjóðs Reykjavíkurborgar, síðan var borgarráðsfundur.
Davíð Oddsson fór á fund forseta Íslands og skýrði honum frá því, að þeir Halldór Ásgrímsson hefðu lokið stjórnarmyndun og yrði stjórnarsáttmáli kynntur þingflokkum ríkisstjórnarinnar daginn eftir.
Mánudagur, 19. 05. 03.
Síðdegis var haldinn aðalfundur í Aflvaka hf. Um það hafði verið rætt, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hætti formennsku og hætti í stjórninn en Þórlófur Árnason borgarstjóri tæki við af henni. Lét Þórólfur orð falla um þetta á fundi borgarstjórnar, þegar rætt var um framkvæmdastjóra miðborgar. Taldi borgarstjóri, að með formennsku í stjórn skipulagssjóðs, Aflvaka og sem yfirmaður framkvæmdastjóra miðborgar gæti hann beitt sér best til að efla miðborgina.
Á aðalfundinum kom hins vegar fram tillaga um, að Ingibjörg Sólrún sæti áfram sem formaður en Þórólfur yrði áfram í stjórn og voru samþykktir félagsins skýrðar sérstaklega til að borgarstjóri gæti verið áfram í stjórninni.
Laugardagur, 17. 05. 03.
Fór klukkan 10.00 í garðinn við Kjarvalsstaði, þar sem við qi gong félagar vorum fram undir klukkan 13.00 að gera myndband með æfingum okkar undir stjórn Gunnars Eyjólfssonar. Var þetta einstök æfing í góðu vorveðrinu.
Föstudagur, 16. 05. 03
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hélt stjórnarfund í Þorlákshöfn klukkan 14.00 og var þar meðal annars rætt um reikninga dótturfyrirtækja. Lögðum við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram bókanir vegna tapreksturs á Línu. neti og Tetra Ísland.
Að loknum fundinum var haldið í Öndverðarnes, þar sem hitaveita Grímsness var opnuð við hátíðlega athöfn.
Mánudagur, 12. 05. 03
Hinn nýkjörni þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman til fundar klukkan 17.00 í alþingishúsinu. Þar ræddu menn kosningaúrslitin og var Davíð Oddssyni veitt umboð til stjórnarmyndunarviðræðna við Halldór Ásgrímsson.
Um kvöldið hittist þingflokkurinn með mökum og borðaði saman að Grand hotel.
Laugardagur 10. 05. 03
Kosningadagur. Kaus um klukkan 10.00 og var síðan á ferðinni á kosningastöðvum fram til klukkan 21.00 en Rut hélt í tónleikaferð til New York síðdegis þennan dag.
Um klukkan 23.00 fór ég í stutta stund á kosningavöku sjálfstæðismanna að hótel Nordica.
Föstudagur, 09. 05. 03.
Fór í hádeginu á fund með starfsfólki PriceWaterhouse/Coopers.
Fimmtudagur, 08. 05. 03.
Fór í hádeginu á fund með starfsfólki Íslenskrar erfðagreiningar með Guðlaugi Þór Þórðarsyni.
Miðvikudagur, 07. 05. 03
Fór klukkan 08.30 á fund með starfsfólki Kaupþings með þeim Þorgerði Katrínu Gunnardsóttur og Birgi Ármannssyni. Síðdegis var ég á fundi um menntamál í Kennaraháskóla Íslands með fulltrúum allra framboðanna.
Miðvikudagur, 07. 05. 03
Var klukkan 08.30 á fundi með starfsmönnum Kaupþings með þeim Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Birgi Ármannssyni. Síðdegis var ég á fundi í Kennaraháskóla Íslands með fulltrúum annarra framboða.
Þriðjudagur 06. 05. 03.
Var fyrir hádegi á fundi með starfsmönnum Gámaþjónustunnar við Súðarvog. Spjallaði um menntamál á fundi í skrifstofu hverfafélags Nes- og Mela síðdegis.
Mánudagur, 05.05. 03.
Var í hádeginu á fundi með fulltrúum annarra flokka og starfsmönnum Landhelgisgæslunnar í flugskýli hennar.
Laugardagur 03. 05. 03.
Fór fyrir hádegi á mjög fjölmennan og skemmtilegan almennan fund með Davíð Oddssyni í Valhöll. Milli 14.00 og 16.00 var ég við gamla Gufunesbæinn í Grafarvogi og tók þar þátt í fjölmennri fjölskylduhátíð á vegum hverfafélags sjálfstæðismanna.
Fimmtudagur, 01. 05. 03.
Sigríður Sól og synir hennar Orri og Bjarki komu heim frá New York og ætla verða hér um nokkurn tíma, þar til fjölskyldan flytur til London. Fórum út á flugvöll og náðum í þau.