Dagbók: mars 2016

Fimmtudagur 31. 03. 16 - 31.3.2016 20:45

Steingrímur J. Sigfússon (VG) hefur setið á alþingi síðan 1983 (33 ár). Hann sat í Kastljósi í kvöld og ræddi við Vigdísi Hauksdóttur, þingmann Framsóknarflokksins.  Snerust umræðurnar um leyndarmálin úr fjármálaráðherratíð Steingríms J. sem verða lokuð í læstum skápum í meira en eina öld nema tillaga framsóknarmanna um afléttingu leyndarinnar nái fram að ganga. Lýsti Steingrímur J. sig samþykkan því. Vigdís nefndi einnig lista innan úr bankakerfinu í tíð Steingríms J. um flokkun fyrirtækja sem ætti að birta.

Undir lokin barst talið að hinni furðulegu tillögu stjórnarandstöðunnar til þingsályktunar um þingrof. Tillagan virðist hugdetta Birgittu Jónsdóttur pírata sem gefur sig út fyrir að hafa sérstakan áhuga á stjórnarskránni. Tillagan rúmast þó ekki innan stjórnlaganna þar sem þingrofsvaldið er í höndum forsætisráðherra en ekki alþingis.

Þegar Vigdís vakti máls á ákvæðum stjórnarskrárinnar og vandkvæðum fyrir stjórnarandstöðuna vegna hennar sagði Steingrímur J.: En er ekki þingræði hér.

Fyrir nokkrum árum kom út fræðirit um þingræðið að tilstuðlan alþingis. Sé það skoðað verður ekki séð að þar sé einu orði minnst á að alþingi geti rofið sig sjálft og það falli undir þingræðið. Vilji alþingi koma ríkisstjórn frá völdum eins og virðist markmiðið með tillögu stjórnarandstöðunnar er flutt vantraust en ekki tillaga um þingrof.

Á ritstjórn ruv.is er einhver greinilega eitthvað óviss um hvað fyrir stjórnarandstöðunni vakir nema fyrir honum vaki að blekkja lesendur vefsíðunnar þar stendur í dag 31. mars: „Stjórnarandstaðan boðar vantrauststillögu og fer fram á þingrof.“ Stjórnarandstaðan hefur einmitt ekki boðað vantrauststillögu heldur þingrofstillögu. Kjarni þingræðisreglunnar er að ríkisstjórn hafi meirihluta þings að baki sér. Reglan snýst ekki um þingrof heldur kann samþykkt vantrausts að leiða til þingrofs.

 

Miðvikudagur 30. 03. 16 - 30.3.2016 19:10

Á mbl.is má lesa í dag:

Samþykkt var á fund­um þing­flokka stjórn­ar­and­stöðuflokk­anna sem fram fóru síðdeg­is í Alþing­is­hús­inu að lögð verði þings­álykt­un­ar­til­laga um þingrof og nýj­ar kosn­ing­ar þegar þing kem­ur sam­an í næstu viku að loknu páska­leyfi. Áður en þing­flokk­arn­ir funduðu fór fram sam­eig­in­leg­ur fund­ur formanna og þing­flokks­formanna stjórn­ar­and­stöðuflokk­anna.

Ekki hef­ur verið tek­in ákvörðun um það hvort til­laga um van­traust á rík­is­stjórn­ina verður lögð fram í fram­hald­inu en það verður skoðað nán­ar á næst­unni.“

Áður en fréttin birtist hafði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður pírata, stolist til að segja frá niðurstöðu formannafundarins í samtali á rás 2. Hún virðist ekki þurfa bera neitt upp við þingflokk sinn enda kunn fyrir að fara sínu fram.

Að stjórnarandstaðan hafi samþykkt að leggja fram tillögu um þingrof og nýjar kosningar ber með sér að ágreiningur hafi verið um málsmeðferðina og leitað að leið sem ekki hefur verið farin áður.

Í aðdraganda fundar flokksleiðtoganna bar hæst hugmyndir um að flutt yrði tillaga um vantraust á forsætisráðherra eða um að kjörin yrði rannsóknarnefnd. Fréttablaðið birti forsíðufrétt um fyrirhugaðan fund leiðtoga stjórnarflokkanna í dag. Þar er vitnað í orð Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, sem sagðist ekki útiloka tillögu Svandísar Svavarsdóttur, þingflokksformanns vinstri grænna, um rannsóknarnefnd. Fréttblaðið spurði Svandísi hvort líkurnar á að vantraust yrði lagt fram hefðu aukist hún sagði að líkurnar á að ríkisstjórnin áttaði sig á því að hún þyrfti að taka saman föggur sínar hefðu aukist. „Við þurfum kosningar,“ sagði Svandís.

Velta má fyrir sér hverjir hafi verið með í ráðum þegar stjórnarandstöðuflokkarnir tóku ákvörðun um að fara þá óvenjulegu leið að flytja tillögu um þingrof í stað tillögu um vantraust á forsætisráðherra eða ríkisstjórnina sem leitt hefði til þingrofs og kosninga hlyti hún samþykki. Hafi það nokkru sinni gerst að stjórnarandstaða flytti tillögu um þingrof er fordæmisins ekki getið fræðiritum um stjórnskipun eða þingræði.

Að aðstæður í stjórnmálum séu svo sérstakar nú að brjóta þurfi blað í stjórnskipunarsögunni vegna þeirra er vandséð. Hvað sem líður samþykkt alþingis um þingrof er álitamál hvort forsætisráðherra sé skylt að bera málið upp við forseta hins vegar yrði forsætisráðherra skylt að biðjast lausnar yrði samþykkt á hann vantraust og leiddi það vafalaust til stjórnarkreppu og síðan þingrofs og kosninga.

 

Þriðjudagur 29. 03. 16 - 29.3.2016 20:45

Nú kemur í ljós að fréttastofa ríkisútvarpsins vílar ekki fyrir sér að flytja fréttir um tengingu ráðherranna Bjarna Benediktssonar og Ólafar Nordal við lista sem eiga að gefa til kynna að viðkomandi hafi eitthvað óhreint í pokahorninu vegna tengsla við skattaskjól þótt listinn sé greinilega rangur eða úreltur. Á ruv.is má lesa í dag:

„Fyrr í dag greindi Kastljós frá því að nöfn þriggja íslenskra ráðherra og fleira áhrifafólks í íslenskum stjórnmálum væru á listum yfir eigendur aflandsfélaga í skattaskjólum.“

Fréttastofan hefur dögum saman fjallað um einkafjármál forsætisráðherrahjónanna eftir að forsætisráðherrafrúin upplýsti um að fyrirframgreiddur arfur hennar væri geymdur erlendis. Málsmeðferð fréttastofunnar er á þann veg að forsætisráðherra neitar að ræða við hana eins og sagt hefur verið frá hér á síðunni.

Bjarni Benediktsson sendi frá sér yfirlýsingu vegna fréttar ríkisútvarpsins þar segir meðal annars:

„Fyrir tíu árum keypti ég fyrir tæpar 40 m.kr. þriðjungshlut í eignarhaldsfélagi sem Landsbankinn í Lúxemborg hafði stofnað fyrir viðskiptafélaga minn um kaup á fasteign í Dubai. Ég gerði grein fyrir kaupum á félaginu og niðurlagningu þess gagnvart íslenskum skattyfirvöldum og hef alla tíð staðið í þeirri trú að félagið ætti varnaþing í Lúxemborg. Það var ekki fyrr en mér barst ábending frá erlendum blaðamanni að ég komst að því að svo hefði ekki verið, en umrætt félag Falson & Co, var skráð á Seychelles-eyjum. Það hafði þó engin áhrif í skattalegu samhengi.“

Ólöf Nordal segir meðal annars í yfirlýsingu sinni:

„Hvorki ég né eiginmaður minn eigum eða höfum átt hlut í fjárfestingar- eða eignarhaldsfélögum sem skráð eru á Bresku Jómfrúareyjum eða í nokkru öðru landi sem talin eru til skattaskjóla.“

Hún segir eins og Bjarni að fyrir nokkrum dögum hafi hún fengið fyrirspurn frá erlendum blaðamanni og bent honum á að hann hefði ekki réttar upplýsingar.

Spurning er hver sé fréttin í þessu listamáli. Færa má rök fyrir að fréttnæmast sé að erlendir blaðamenn sendi rangar upplýsingar um einkafjármál íslenskra ráðherra til ráðherranna, fái leiðréttingu en samt slái ríkisútvarpið því upp að nöfn ráðherranna séu á listanum.

 

 

Mánudagur 28. 03. 16 - 28.3.2016 16:40

Að kvöldi páskadags setti ég færslu á FB-síðu mína sjá hér um eltingarleik fréttastofu ríkisútvarpsins við forsætisráðherra. Taldi ég gang málsins í fjölmiðlum „skell“ fyrir ríkisútvarpið. Þar hlytu menn að endurmeta stöðu sína. Færslan vakti mikil viðbrögð.

Meðal fjölmargra sem létu í ljós álit sitt var Ove Pálsson sem spurði:

Ert þú, Björn Bjarnason ánægður með framgöngu forsætisráðherra í þessu máli ? Finnst þér að hann sýni heiðarleika gagnvart þjóðinni? Hvers vegna finnst þér það eðlilegt að hann neiti að tala við Ríkisútvarpið og að það sé skömm útvarpsins ?

Ég svaraði:

„Ánægður lýsir ekki skoðun minni á þessu dapurlega máli. Ráðherrahjónin gera grein fyrir máli sínu, þá er að þeim er vegið af fádæma hörku og öllum sem þekkja til vinnubragða á fréttastofu ríkisútvarpsins (þar sem ráðherrann starfaði um tíma) verður ljóst að ekki er ætlunin að afla frétta með eltingarleik við ráðherrann heldur atast í honum á sama hátt og stjórnarandstaðan gerir. Ráðherrann vill ekki taka þátt í þeim gráa leik og ræðir við aðra fjölmiðla: blað, útvarpsstöð og fjölmiðlamann á Bylgjunni sem sérhæfir sig í pólitískum fréttum auk þess sem forsætisráðherrahjónin rita greinargerð í formi spurninga og svara og birta á netinu. Öll sjónarmið ráðherrans komast rækilega til skila án þess að hann fari í gegnum stöðina í Efstaleiti. Að það sé „skömm“ ríkisfréttastofunnar hef ég ekki sagt heldur að málið sé áfall fyrir hana í þeim skilningi að hún situr eftir og minnir á liðna tíð á nýrri fjölmiðlaöld. Allar varnir fyrir fréttastofuna hér á þessum þræði hafa verið pólitískar og mótast af óvild í garð forsætisráðherra sem rennir aðeins stoðum undir þá skoðun að rót eltingarleiksins við ráðherrann sé pólitísk og því ófagleg með vísan til lögbundins hlutverks fréttastofunnar. Heiðarleiki stjórnmálamanna hér eða annars staðar ræðst ekki af því hvort þeir tala við einn fjölmiðil en ekki annan, jafnvel ríkisfjölmiðil. Vandi fréttastofunnar er meiri í þessu máli en forsætisráðherrans hvað sem efnisþáttum þess líður.“

Ég hef ekki rætt efnislegan þátt málsins og rök framsóknarmanna formanni sínum til varnar. Þar virðist um óvenjulega samræmdan málflutning að ræða og að nokkru er skotið yfir markið. Boðað er að ekki séu öll kurl til grafar komin vegna aflandseigna Íslendinga. Í því efni ber að spyrja að leikslokum. 

Sunnudagur 27. 03. 16 - Páskadagur - 27.3.2016 16:00

Gleðilega páska!

Fyrir áhugafólk um sígilda tónlist er mikill fengur að frönsku Mezzo-sjónvarpsrásunum tveimur sem eru nr. 126 og 127 hjá áskrifendum Símans. Þar er flutt tónlist allan sólarhringinn, klassík og jazz. Rás 127 geta þeir notið sem hafa aðgang að HD. Dagskrá stöðvanna er unnt að kynna sér á netinu.

Um páskahelgina eru margar óperur fluttar á þessum rásum en einnig passíur Bachs sem kenndar eru við guðspjallamennina Jóhannes og Mattheus. Að kvöldi laugardags 26. mars var Mattheusar-passían flutt í beinni útsendingu frá konunglegu kapellunni í Versölum.

Á vefsíðunni mezzo.tv segir að ná megi stöðinni í meira en 50 löndunum. Hún kom til sögunnar á tíunda áratugnum og árið 2010 bættist HD-rásin við hina fyrstu. Í grunninn er stöðin frönsk en æ meira efni hennar er þýtt yfir á ensku.

Með því að horfa á stöðina kynnist maður flutningi helstu listamanna heims í bestu tónleikasölum og óperuhúsum. 

Laugardagur 26. 03. 16 - 26.3.2016 16:00

Í gær vildi ég sannreyna fréttir um stöðugan straum ferðamanna hér um Suðurland. Ókum við að Seljalandsfossi, Skógafossi og í Reynisfjöru. Alls staðar var mikil umferð fólks, rútur og bílaleigubílar.Myndin sem hér má sjá og tekin var í Reynisfjöru sýnir hluta fjöldans sem var þar í roki og hraglanda, skaplegra veður var á Skógum og við Seljalandsfoss.

Við Reynisfjöru er myndarlegt veitingahús, Svarta fjaran, sem stendur svo hátt í landinu að sjá má út á hafið úr gluggum þess. Þar var hvert sæti skipað. Frá húsinu er stuttur spölur niður í fjöruna.

Að sjálfsögðu verður hver sá sem þangað fer að gæta eigin öryggis. Öllum skynsömum mönnum hlýtur að vera ljóst að það er enginn barnaleikur að lenda í soginu frá úthafsöldunni sem þarna brotnar með miklum drunum.

Reynisfjara er einstök frá náttúrunnar hendi. Stuðlaberg og ógnvekjandi drangar í austri en Dyrhólaey í vestri.

Svarti sandurinn hér á landi hefur einnig sérstakt aðdráttarafl. Fyrir nokkru las ég grein eftir blaðamann á The Daily Telegraph í London sem mælti með að menn sæju þennan sand einhvern tíma á lífsleiðinni. Margir dragast greinilega að bandaríska flugvélarflakinu í fjörumálinu á Sólheimasandi því að fjöldi bíla stóð utan vegar þar sem gengið er niður að vélinni.

Boðað hefur verið að sveitarfélagið hér í Rangárþingi eystra ætli að hefja gjaldtöku á bílastæðum við hina vinsælu ferðamannastaði. Það er skynsamleg ráðstöfun sem krefst þess jafnframt að gengið sé frá stæðunum á viðunandi hátt en ekki sé þar á tjá og tundri eins virtist í gær.

Þegar rætt er um öryggi á ferðamannastöðum skiptir mestu að aðgengi sé á þann veg að fólki sé ljóst hvar því er ætlaður staður og hvar varasamt er að fara eða beinlínis bannað. Mér þótti vanta varúðarskilti á gönguleiðinni síðasta spölinn niður í Reynisfjöru auk þess sem bjarghringir mættu sjást betur, þeir kalla á varúð og minna á hættu.

Nú hefur fé verið ráðstafað úr framkvæmdasjóði ferðamála. Umhverfisstofnun fær þar fjármuni, ég hélt að hún væri skrifborðs- og eftirlitsstofnun en til dæmis Landgræðslan væri útivinnu- og framkvæmdastofnun á sviði umhverfisráðuneytisins.

TripAdvisor birti í gær lista yfir 25 vinsælustu borgir þeirra sem nota þessa vinsælu síðu. Reykjavík er þar í 25. sæti, ekki dregur það úr ferðamannafjöldanum.

Föstudagur 25. 03. 16 - 25.3.2016 13:00

Hér var fullyrt í gær að Fréttablaðið teldi ekki efnislega ástæðu til gagnrýni á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra vegna eigna eiginkonu hans erlendis. Ritstjórn blaðsins hefði snúist hugur og gagnrýndi nú ráðherrann fyrir að halda ekki nógu vel á miðlun upplýsinga um málið. Þennan fimmtudag 24. mars birtist ítarlegt viðtal um málið við ráðherrann í Fréttablaðinu. Sama dag ræddi ráðherrann málið við Útvarp sögu.

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, birtir í dag harðorða grein gegn Sigmundi Davíð á vefsíðu sinni og sakar ráherrann um „hroka“ og „sjálfsupphafningu“ í svörum hans vegna málsins. Hann hafi verið í „þægilegum viðtölum“ við fjölmiðla í gær og „þaulskipulögð viðbrögð“ framsóknarþingmanna og annarra úr „innsta hring“ ráðherrans hafi ekki jákvæð áhrif.

Undir lok ádrepu sinnar segir Þórður Snær:

Með því að leggja fram vantrauststillögu [á alþingi] gera stjórnarandstöðuflokkarnir Sjálfstæðisflokkinn, sem mun að mestu verja forsætisráðherra fyrir vantrausti, hins vegar samsekan með Sigmundi Davíð. Þeir neyða samstarfsflokkinn til að verja forsætisráðherra með formlegum hætti. Og halda málinu lifandi.“

Hvað felst í orðinu „samsekur“ í þessu samhengi? Varla er það saknæmt af forsætisráðherra að svara ekki ríkisútvarpinu á þann hátt sem fréttastofa þess kýs? Varla er saknæmt ef blaðamenn leggja ekki nema „þægilegar“ spurningar fyrir forsætisráðherra?

Þórður Snær hefur dæmt forsætisráðherra og vill einnig geta dæmt Sjálfstæðisflokkinn vegna máls sem fellur innan laga og reglna hvað sem stjórnmála- eða siðferðisskoðunum manna líður. Lokasetningin í hinum tilvitnuðu orðum segir í raun alla söguna: „Og halda málinu lifandi.“

Um þetta snýst málið á þessu stigi til dæmis í fréttatímum ríkisútvarpsins. Þar var meðal annars talið fréttnæmt að kvöldi 24. mars að Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, væri „hugsi“ yfir málinu. Stóra spurningin er hvernig og hvort tekst að „halda málinu lifandi“ fram yfir páska.

Nú snýst málið um að valda sem mestum pólitískum óþægindum, einkum framsóknarmönnum og jafnframt sjálfstæðismönnum með því að gera þá „formlega“ verjendur forsætisráðherra og þar með „samseka“. Verða þetta enn höfuðatriðin að loknum páskum?

Undarlegast er að fréttahaukarnir skuli ekki grafast fyrir málið á annan hátt og finna bitastæðar efnislegar hliðar á því í stað þess að einblína á hvort forsætisráðherrann talar við þennan eða hinn.

 

Fimmtudagur 24. 03. 16 - 24.3.2016 16:00

Samtal mitt við Brasilíumanninn Luciano Dutra, þýðanda og útgefanda, á ÍNN er komið á netið og má sjá það hér. Í samtalinu birtist einstæður áhugi og dugnaður við að læra íslenska tungu og á að kynna íslenska bókmenningu fyrir hinum stóra, portúgalska málheimi.

Miðað við hvernig aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins skrifaði um forsætisráðherrahjónin 17. mars og lýst var hér á síðunni sama dag á þennan hátt kemur nokkuð á óvart að Sigmundur Davíð skuli í dag velja Fréttablaðið til að skýra sjónarmið sín varðandi aflandsreikning eiginkonu sinnar og gagnrýni á þau hjónin vegna hans.

Þetta þarf þó kannski ekki að vera undrunarefni því að aðalritstjóri Fréttablaðsins, Kristín Þorsteinsdóttir, tók í raun í lurginn á aðstoðarritstjóranum í forystugrein blaðsins þriðjudaginn 22. mars þegar Kristín sagði undir fyrirsögninni Orðhákar:

„En niðurstaða samninga ríkisins við kröfuhafa var með þeim hætti að erfitt er að halda því fram að meintir hagsmunaárekstrar Sigmundar Davíðs hafi orðið honum fótakefli. […] Þess vegna er ómerkilegt að halda því fram að fjárhagsleg tengsl Sigmundar hafi haft áhrif á niðurstöðu viðræðna við kröfuhafa.“

Ágreiningurinn um þetta mál innan ráðandi hóps á Fréttablaðinu hefur ekki verið skýrður. Nú beinist áhugi ritstjórnarinnar og gagnrýni einkum að því hvenær og hvernig forsætisráðherrahjónin greindu frá málavöxtum opinberlega. Það er klassískt umræðuefni hér á landi þegar gagnrýnendur eru komnir í málefnalegt þrot.

Þorbjörn Þórðarson skrifar forystugrein í Fréttablaðið í dag, 24. mars, undir fyrirsögninni Þögnin langa og er þar að finna aðfinnslur við forsætisráðherra fyrir að hafa þagað of lengi sama dag og blaðið birtir við hann langt viðtal sem dregur ekki síður athygli að blaðinu en málstað ráðherrans sem blaðið er hætt að gagnrýna efnislega. Þorbjörn segir til dæmis:

„Ef erlendar eignir eiginkonu forsætisráðherra í Wintris Inc. eru séreignir hennar en ekki hjúskapareignir koma þær ekki til skiptanna í skilnaði. Séu þær séreignir er engin skylda á forsætisráðherra að upplýsa um eignirnar í hagsmunaskráningu. Í prinsippinu á það ekki að skipta máli hvort forsætisráðherrann sé efnaður eða ekki. Hins vegar getur það verið kostur að forsætisráðherrann og maki hans eigi nóg af peningum. Það dregur úr líkum á því að hægt sé að hafa áhrif á ráðherrann og útilokar að hann sé fjárhagslega háður öðrum.“

Miðvikudagur 23. 03. 16 - 23.3.2016 19:20

Í kvöld klukkan 20.00 verður frumsýnt samtal mitt á ÍNN við Luciano Dutra frá Brasilíu. Það er forvitnilegt fyrir margra hluta sakir.

Össur Skarphéðinsson skrifar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann segir að næsti forseti verði að feta í fótspor Ólafs Ragnars og verja þjóðina gegn misvitrum ákvörðunum ríkisstjórnar og þingmanna. Má skilja greinina á þann veg að Össur kynni sig sem slíkan mann.

Dæmin sem Össur tekur um varðstöðu Ólafs Ragnars snúast öll um gerðir ríkisstjórnar þar sem Össur sat og taldi sig hafa alla þræði á eigin hendi í samvinnu við Ögmund Jónasson eins og lesa má í ævisögu Össurar um árið 2012. Ólafur Ragnar greip fram fyrir hendur ríkisstjórnarinnar í orðum og gerðum.

Að mati Svans Kristjánssonar, prófessors í stjórnmálafræðum og hugmyndafræðings pírata, fór Ólafur Ragnar langt úr fyrir umboð sitt í pólitískum embættisverkum sínum.

Þegar lesin eru skrif Svans um gjörðir Ólafs Ragnars nú kemur myndin Fantasía eftir Walt Disney frá 1940 í hugann og sá hluti hennar þar sem Mikka Mús er í hlutverki Der Zauberlehrling – lærisveins galdrameistarans - í kvæði Goethes frá 1797. Ekki verður vandinn við að hemja afleiðingar galdranna minni ætli Össur að taka til við að stunda þá.

Ólafur Ragnar varaði við ESB-aðildinni, stjórnarskrárbreytingum og beindi Icesave-samningunum til þjóðarinnar af því að hann vildi þá úr sögunni. Í öllum þessum málum sat Össur sem fastast í ríkisstjórn sem hafði þessi mál efst á stefnuskrá sinni? Ætli hann upplýsi ekki næst að hann hafi verið á móti þeim öllum, aðeins gert það sem Jóhanna og Steingrímur J. fólu honum?

Nú er ljóst að belgískir smáglæpamenn sem ánetjuðust öfgahyggju og fóru til Sýrlands á vit Ríkis íslams stóðu að hryðjuverkunum í Brussel í gær eins og að hryðjuverkunum í París í nóvember. Hér má lesa lýsingu fræðimanns á hvað mótar líf manna af þessu sauðahúsi.

Þá er einnig ljóst að belgískum lögregluyfirvöldum var kunnugt um glæpahneigð mannanna, þeir höfðu hlotið fangelsisdóma eins og lesa má hér.

Belgíska ríkið er sundurtætt og stjórnmálakerfið lamað mánuðum saman á meðan leitast er við að mynda stjórnhæfan meirihluta á þingi. Að baki meirihlutans er jafnan sundurlaus hópur. Afleiðingin er sundrað samfélag. Spurning er hvort voðaverkin leiða til meiri samheldni í þágu borgaralegs öryggis.

Þriðjudagur 22. 03. 16 - 22.3.2016 18:40

Hryðjuverkin í Brussel vekja enn spurningar um hvernig tryggja beri öryggi hins almenna borgara þegar vegið er að því á þann veg sem menn hafa orðið vitni að í París 13. nóvember  2015 og nú í Brussel.

Í París voru skotmörkin veitingastaður, íþróttaleikvangur og tónleikahús.  Alls féllu 130 manns. Í Brussel var ráðist á flugstöð og lestarstöð og á þessari stundu er tala fallinna 34.

Eftir að ráðist var á almenning í París var hæsta viðbúnaðarstig innleitt í Brussel á meðan leitað var að samverkamönnum þeirra sem unnu Parísar-ódæðið. Brussel var í lamasessi, ef þannig á orða það, í nokkra daga.

Föstudaginn 18. mars fannst einn árásarmannanna í París loks í Brussel. Hann var handtekinn auk nokkurra samverkamanna sinna. Krefjast Frakkar að fá hann framseldan.

Séu tengsl á milli handtökunnar á föstudag og þess sem gerðist í Brussel í dag sýnir það að Ríki íslams sem segist bera ábyrgð á árásunum ræður yfir hraðvirku og öflugu kerfi til gagnaðgerða telji það að sér eða mönnum sínum vegið. Árásirnar í Brussel sýna einnig að markmið þeirra er skapa sem mestan usla og ótta og reyna á þolmörk lögreglu og sjúkraliðs.

Miðað við viðbrögðin í Belgíu eftir árásina í París er einkennilegt að ekki skuli hafa verið innleitt þar hæsta viðbúnaðarstig strax eftir handtökuna á föstudag. Hvort það hefði komið í veg fyrir hina fólskulegu árás skal ósagt látið, það hefði þó örugglega ekki auðveldað hana.

Leyniþjónusta og lögregla Belgíu hafa greinilega verið grandalaus um hættuna sem var á næsta leiti þrátt fyrir allt sem á undan er gengið – eða kannski vegna þess.

Íslensk stjórnvöld hljóta að beita öllum ráðum sem þau hafa til að fylgjast með hættum sem kunna að steðja að hinum almenna borgara. Séu samgöngumiðstöðvar á háannatíma orðnar að skotmarki hryðjuverkamanna er aðeins einn staður á Íslandi sem dregur að sér athygli þeirra, flugstöð Leifs Eiríkssonar. Um hana fara einnig meira en 90% allra sem koma til landsins eða fara frá því.

Nýta ber flugstöðina til hins ítrasta til eftirlits með ferðum fólks. Í því efni ber í senn að nýta fullkomnustu tækni og vel þjálfaðan mannafla sem svarar til þess fjölda sem um stöðina fer. Í gæslu af því tagi felst besta varðstaðan um öryggi hins almenna borgara hér á landi.

Mánudagur 21. 03. 16 - 21.3.2016 18:30

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, var um skeið fréttastjóri á Stöð 2. Hann veit hvernig menn vinna á fréttastofu ljósvakamiðla. Nú (21. mars) skrifar hann pistil á Eyjuna um hvernig fréttastofa ríkisútvarpsins fjallar um Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins og forsætisráðherra. Segir hann ríkisútvarpið hafa „staðið fyrir herferð gegn forsætisráðherra undanfarna viku og þar hafa öll lögmál hlutlægni látið undan“.

Karl nefnir dæmi máli sínu til stuðnings:

Jón Ólafsson sem Sigmundur Davíð setti af sem formann siðanefndar á vegum forsætisráðuneytisins hafi leikið „lausum hala“ í Kastljósi. Jóhann Hauksson, „spunameistari“ Jóhönnu Sigurðardóttur var kallaður morgunútvarpið með Jóhanni Páli Jóhannssyni, blaðamanni á Stundinni föstudaginn 18. mars. Jóhann Páll tekur á Stundinni í dag pólitíska afstöðu með hvatningu um að stjórnarliðum sé stillt upp við vegg sem ekki verður gert nema með vantrausti á forsætisráðherra.

Karl Garðarsson segir að í kvöldfréttum föstudaginn 18. mars hafi fréttastofan kallað til prófessor Vilhjálm Árnason, sem á sínum tíma kallaði afstöðu Sigmundar Davíðs um að segja nei við Icesave samningum „siðferðilega óverjandi“.“

Að morgni dagsins í dag hafi þó steininn tekið úr þar sem enn á ný voru boðnir til að tjá sig tveir yfirlýstir andstæðingar Sigmundar Davíðs, þeir Róbert Marshall þingmaður Bjartrar framtíðar og Indriði H. Þorláksson hægri hönd Svavars Gestssonar í Icesave samninganefndinni“. Karl telur Róbert „fyrirlíta“ Framsóknarflokkinn. Indriði H. hafi aðeins verið kynntur sem „fyrrverandi ríkisskattstjóri“ þegar hann mætti í morgunútvarpið en hvorki minnst á aðild hans að Icesave-samningagerðinni né að hann hafi verið „hægri hönd Steingríms J. Sigfússonar þegar bankarnir voru gefnir hrægammasjóðunum“.

Karl segir:

„Allt er þetta bullandi hlutdræga fólk bara kynnt sem hlutlausir álitsgjafar í fréttaflutningi Ríkisútvarpsins, í spjalli um fréttir vikunnar og vangaveltum í morgunútvarpi. [...] Ríkisútvarpið hefur loksins fellt grímuna. Hún er ófögur ásjónan sem við blasir. Óvinur nr. 1 er fundinn í Framsóknarflokknum.“

Þetta er hörð, rökstudd gagnrýni frá manni sem veit hvernig standa má að ákvörðunum um að halda lífi í máli á hlutdrægum „fréttalegum“ forsendum. Fréttastofa ríkisútvarpsins krefst þess að Sigmundur Davíð standi fyrir máli sínu. Ætlar hún ekki að gera það sjálf?

 

 

Sunnudagur 20. 03. 16 - 20.3.2016 14:30

Áhuginn á að láta gott af sér leiða fyrir land og þjóð er mikill eins og sést í lofsverðum áhuga á að verða forseti Íslands. Í dag bárust fréttir um tvo frambjóðendur Hrannar Pétursson og Guðmund Franklín Jónsson. Að óreyndu hefði enginn talið að svo margir vildu gefa kost á sér til að sinna hinu háa embætti. Þess verður ekki vart að hópur kjósenda standi að baki nokkrum frambjóðendanna.

Hrannar Pétursson bauð blaðamönnum heim til sín í morgun og flutti ræðu þar sem hann rifjaði meðal annars upp að sjö ára gamall hefði hann á leikvelli norður á Húsavík reynt að vekja áhuga félaga sinna á framboði til forseta þegar Vigdís Finnbogadóttir var kjörin 1980. Hrannar sagði:

„Ég veit að sum­um finnst það hé­góm­leg ákvörðun að bjóða sig fram til for­seta Íslands. En staðreynd­in er sú, að for­seti Íslands er venju­leg mann­eskja og embættið er ekki frá­tekið fyr­ir dæg­ur­stjörn­ur - stjórn­mála­menn eða annað fólk sem tel­ur sig út­valið til starf­ans. For­set­inn á að vera hluti af þjóðinni, en ekki yfir hana haf­inn. Þannig for­seti vil ég að verða. Fram­sýnn en alþýðleg­ur, venju­leg­ur maður með ein­læg­an áhuga á því að láta gott af mér leiða.[…]

Hann á að beita sér fyr­ir fram­förum, ný­sköp­un í at­vinnu­lífi, menn­ingu og mennt­un. Hann á að vera helsti talsmaður kynja­jafn­rétt­is í land­inu og bar­áttumaður fyr­ir bættri lýðheilsu. Það eru mín helstu áherslu­mál. […]

Þetta stóra skref stíg ég að eig­in frum­kvæði og af ein­læg­um áhuga. Ég er ekki full­trúi ein­hverra afla í sam­fé­lag­inu, sem hafa valið sér fram­bjóðanda fyr­ir­fram, held­ur vil ég tala fyr­ir mál­efn­um sem mér finnst eiga brýnt er­indi við okk­ur öll.“

Ég hef alls ekki gert upp hug minn til forsetaframbjóðenda, það er ekki tímabært þegar þeir birtast tveir á dag. Ég vitna hins vegar til framboðsræðu Hrannar vegna þess að þar er að finna tón sem ber vott um að frambjóðandanum er þetta hjartans mál. Þetta er tónn sem hefur verið á undanhaldi í opinberum umræðum þar sem persónulegar árásir eða jafnvel svívirðingar eiga meira upp á pallborðið en hlýleiki.

Harka í mannlegum samskiptum einkennir til dæmis pírata, flokkinn sem nú nýtur stuðning flestra í könnunum. Boðskapur forsetaframbjóðenda hefur almennt verið öndverður við þetta. Spurning er hvort þrá eftir meiri mildi í opinberum umræðum ráði miklu um fjölda forsetaframbjóðenda. Sé svo ber að fagna hverjum nýjum frambjóðanda.å

 

Laugardagur 19. 03. 16 - 19.3.2016 22:30

 

Í dag sat ég ráðstefnuna Enginn er eyland: Ísland og alþjóðasamfélagið og flutti erindi sem má lesa hér.

Akureyrarakademían, utanríkisráðuneytið og Háskólinn á Akureyri efndu til ráðstefnunnar sem var vel skipulögð og vel heppnuð. 

Hér má lesa nánar um ráðstefnuna. 

Veðrið var gott. Við flugum norður með nýju Bombardier-vél Flugfélags Íslands en til baka með Fokker – um miðjan dag barst sms þar sem sagt var að yfirbókað væri á vélina til Reykjavikur og þeim boðin umbun sem vildu breyta heimfluginu.

Föstudagur 18. 03. 126 - 18.3.2016 17:00

Viðtal mitt við Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðing á ÍNN miðvikudaginn 16. mars er nú komið á netið og má sjá það hér. Bók Gunnars Þórs Þegar siðmenningin fór fjandans til um Ísland og fyrri heimsstyrjöldina kom út fyrir jól og hlaut nýlega íslensku bókmenntaverðlaunin. Var það verðskuldað. Bókin er vel skrifuð og bregður ljósi á kafla í Íslandssögunni sem hefur verið að ýmsu leyti hulinn.

Fréttir frá Brussel herma að leiðtogar ESB-ríkjanna 28 hafi síðdegis í dag náð samkomulagi við Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrkja, um að á sunnudaginn verði gripið til ráðstafana í Tyrklandi til að stöðva straum flótta- og farandfólks frá Tyrklandi til Grikklands.  Þeir sem koma ólöglega til Grikklands verða sendir aftur til Tyrklands. Fyrir hvern Sýrlending sem er endursendur geta Tyrkir sent einn Sýrlending til ESB-lands – allt að 72.000 einstaklingum.

Samvinnu Tyrkja tryggði ESB með fjárgreiðslum og fyrirheiti um meiri hraða í ESB-aðildarviðræðum Tyrkja. ESB setti Tyrkjum samtals 72 skilyrði. Hvernig málamiðlun um þau er háttað hefur ekki verið upplýst þegar þetta er skráð.

Tilgangur samkomulagsins er eyðileggja „viðskiptamódel“ smyglaranna sem taka að sér að koma fólki yfir sundin milli Tyrklands og Grikklands, að „viðskiptavinirnir“ átti sig á að þeir séu að kasta fé út í vindinn með því að borga fyrir ferð til Grikklands. Fréttir herma að nú sé meira fólk á bátum á ferð milli Líbíu og Ítalíu en verið hefur um nokkurt skeið sem bendir til nýrra ferðaleiða fólksins sem vill freista gæfunnar í Evrópu hvað sem það kostar.

Áður en samkomulag tókst sögðu ráðamenn á Kýpur að þeir mundu beita neitunarvaldi gegn öllum samningum við Tyrki nema þeir viðurkenndu Kýpur sem sjálfstætt og fullvalda ríki. Svo virðist sem Kýpverjar hafi verið kveðnir í kútinn – líklega með einhverri dúsu eins og tíðkast innan ESB þegar hagsmunir Þjóðverja og annarra stórþjóða eru í húfi. Fyrir Angelu Merkel má líkja því við spurningu um pólitískt líf eða dauða að takist að stöðva stjórnlausan straum aðkomufólks til Þýskalands.

Fimmtudagur 17. 03. 16 - 17.3.2016 15:30

Fanney Birna Jónsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, skrifar forystugrein í blaðið í dag 17. mars og fjallar um reikning forsætisráðherrafrúarinnar á Bresku jómfrúareyjum sem frúin sagði frá á FB-síðu sinni þriðjudaginn 15. mars og kynnti hvernig hún hefði ráðstafað föðurarfi sínum og séreign. Gekk hún í því efni lengra en lögskylt er. Fara erlendir sérfræðingar með stjórn eignarinnar á grundvelli samnings við eigandann. Íslensk skattayfirvöld hafa verið upplýst um eignina.

Fanney Birna telur ýmislegt orka tvímælis í málinu. Í fyrsta lagi hafi í gær (!) verið samþykktar siðareglur fyrir þingmenn og segir aðstoðarritstjórinn að í ljósi þeirra beri að skoða aðkomu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að uppgjöri slitabúa bankanna. „Eiginkona hans hefur beina fjárhagslega hagsmuni af því með hvaða hætti slitabúin muni gera upp við kröfuhafa sína.“

Í öðru lagi hafi Sigmundur Davíð „lagt ríka áherslu á að íslenska krónan sé sterkur og brúkanlegur gjaldmiðill“ meðal annars þegar hann „rökstuddi kosti nýja búvörusamningsins“. Á sama tíma og hann  tali „upp krónuna“ hafi „nánasti aðstandandi hans ákveðið að hér á landi séu fjárfestingarkostir innan hafta ekki boðlegir“.

Þá segir aðstoðarritstjórinn:

„Það er ómögulegt að halda því fram að fjármál eiginkonu Sigmundar komi honum bara alls ekki við. Um er að ræða 1.200 milljónir. [...] Þannig auðæfi að Sigmundur Davíð getur verið viss um að börn hans munu í raun aldrei þurfa að vinna handtak á ævi sinni nema þau vilji. [...]

Það er hins vegar þannig með þetta mál eins og svo oft er með önnur að þrátt fyrir að hlutirnir séu löglegir er það hverjum og einum í sjálfsvald sett að ákveða hvort þeim finnist þeir siðlegir. Og hvort þeir raunverulega skipti máli.“

Erfitt er að finna í heila brú í þessum skrifum. Hafa aðgerðir stjórnvalda ekki miðað að því að skerða hlut kröfuhafa slitabúanna? Að blanda krónunni og búvörusamningnum inn í þetta mál er langsótt. Forsætisráðherrafrúin ákvað að halda arfi sínum erlendis til að halda sig frá fjárfestingum innan lands vegna starfa manns síns. Þetta fé er forgengilegt eins og allt annað og ummælin um afkomendur forsætisráðherrahjónanna eru í raun fráleit hvernig sem á er litið. Fyrst og síðast eru þetta þó hræsnisfull skrif í blaði sem er eign eiginkonu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar vegna viðleitni þeirra hjóna til að bjarga málgagni sínu í rosalegasta fjármálavafstri Íslandssögunnar.

.

Miðvikudagur 16. 03. 16 - 16.3.2016 16:00

Í dag ræddi ég við Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðing í þætti mínum á ÍNN. Samtalið verður fumsýnt kl. 20.00 í kvöld á rás 20.

Samfylkingin hefur verið í sviðsljósinu undanfarið vegna væntanlegs formannskjörs. Árni Páll Árnason formaður hefur farið um landið og rætt við flokksmenn, Helgi Hjörvar þingflokksformaður gefur kost á sér til formanns og einnig Magnús Orri Schram, fyrrverandi þingmaður, sem telur sér helst til tekna að hafa ekki átt aðild að stjórn flokksins eða þingflokki undanfarin þrjú ár. Ný skoðanakönnun á vegum MMR leiðir í ljós að fylgi flokksins minnkar og er nú 7,8%, minna en nokkru sinni í 16 ára sögu flokksins.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, naut stuðnings flestra til að verða forseti Íslands í könnunum þar til hún tók af skarið og sagðist ekki vera í framboði. Vinstri grænir, flokkur hennar, dalar í könnun MMR og nýtur sama stuðnings og Samfylkingin, 7,8%.

Í samtali við Eyjuna í dag segir Árni Páll að það sé „gríðarlegt áhyggjuefni að Samfylking og Vinstri græn tapi fylgi og það fari ekki yfir á Pírata. Við höfum huggað okkur við það síðasta árið í þessu fylgishruni sem við höfum upplifað að fylgið hefur þó alla vega farið þangað. Ef að stjórnarflokkarnir eru allt í einu farnir að ná viðspyrnu þá er það verulegt áhyggjuefni og sýnir enn betur en áður mikilvægi þess að Samfylkingin nái vopnum sínum“.

Árni Páll telur könnunina staðfesta að Samfylkingin þurfi að taka „til hjá sér í grundvallaratriðum“.

Katrín Jakobsdóttir segir við Eyjuna:

Ég hef auðvitað áhyggjur af því að einu flokkarnir sem skilgreini sig sem vinstri flokka séu í þessum kröggum. Stóru málin í samfélaginu nú, ójöfnuðurinn, staða heilbrigðiþjónustu, hvernig núverandi ríkisstjórn hefur afsalað almenningi tekjum, allt þetta eru kjarnamál Vinstri grænna. Þegar afstaða almennings til þessara mála er mæld virðist hann eigi mikla samleið með okkur. Kjósendur virðast hins ekki tengja við flokkinn. Við þurfum því að finna út hvernig við getum komið okkar skýru stefnu til skila til kjósenda. Við þurfum að nýta tímann fram á haustið mjög vel til að greina hvers vegna við náum ekki í gegn.“

Hér var því hreyft í gær að innan stjórnarflokkanna yrðu menn að taka strategískar ákvarðanir með hliðsjón af hinni pólitísku stöðu. Óróleikinn í stjórnarsamstarfinu undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, meðal annars fyrir tilstuðlan hans er í ætt við gamalkunnugan kosningafirðing framsóknarmanna. Íhugi forystumenn stjórnarflokkanna ekki að boða til kosninga haustið 2016 ber það vott um skort á pólitísku hugmyndaflugi.

Þriðjudagur 15. 03. 16 - 15.3.2016 14:45

Nokkurs óþols gætir greinilega í stjórnarsamstarfinu. Einkum reyna framsóknarmenn að skapa sér sérstöðu. Hið einkennilega er að þeir sækja nú út á vinstrikantinn, þann kant þar sem flokkar eiga helst undir högg að sækja í evrópskum stjórnmálum. Sagan sýnir að því lengra sem framsóknarmenn sækja til vinstri þeim mun minna fylgi fá þeir. Þetta reyndu þeir á tíma viðreisnarstjórnarinnar fyrir hálfri öld og einnig fyrir aldarfjórðungi þegar þeir lögðust gegn aðild að evrópska efnahagssvæðinu. Þeir fóru einnig jafnan illa þegar Framsóknarflokkurinn snerist gegn varnarsamstarfinu við Bandaríkin.

Deilur um utanríkismál einkenna ekki stjórnmálaumræður samtímans hér á landi. Ótrúlega lítil athygli beinist að þeim málaflokki um þessar mundir þótt heimsmyndin sé að breytast og aðstæður í öryggismálum í næsta nágrenni okkar. Þá er ekki heldur deilt á þingi um útlendingamál, helsta hitamál í stjórnmálum nágrannalandanna. Þótt spáð sem allt 1.000 hælisleitendum hér á þessu ári veldur það engum sýnilegum óróleika á alþingi. Virðast þingmenn lifa í þeirri trú að frumvarp frá nefnd allra flokka um útlendingamál sem gengur í öfuga átt við hert lagaákvæði í nágrannalöndunum leysi vandann hér á landi.

Efnahagsmálin, atvinnumálin og ríkisfjármálin valda ekki heldur deilum. Ríkisstjórninni hefur tekist að lækka skuldir þjóðarbúsins í 14% af vergri landsframleiðslu sem er með ólíkindum og felur í raun í sér byltingu í ríkisfjármálum. Þetta virðist stærra mál en stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn skilja, ættu þeir þó að leggja sig meira fram um að skýra það fyrir sjálfum sér og almenningi. Sumir trúa því kannski enn sem var söngur ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og ekki síst Árna Páls Árnasonar, arftaka Jóhönnu, að ekki yrði unnt að ná þeim árangri sem við blasir í skulda- og ríkisfjármálum nema með aðild að ESB og aðstoð frá Brussel og Frankfurt.

Í stað þess að beina athygli að stóru málunum og hinum mikla árangri sem hefur náðst kýs Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra að deila um hvort nýr Landspítali rísi við Hringbraut eða hvort um endurnýjun gamals spítala með nýjum byggingum sé að ræða.

Stjórnarandstaðan er í molum hvað sem líður miklu fylgi pírata. Hugsuðu menn eftir strategískum línum í stjórnarflokkunum veltu þeir fyrir sér kosningum fyrr en síðar til að draga enn betur fram vandræðagang stjórnarandstöðunnar. Þess í stað gefa þeir stjórnarandstöðunni færi á sér með þrasi um einnota mál sem flest leysast af sjálfu sér sé farið að lögum og leikreglum.

 

Mánudagur 14. 03. 16 - 14.3.2016 19:00

Framsóknarflokkurinn vill stundum haga sér eins og flokkur án fortíðar. Gengur hann ekki of langt núna?

Hinn 31. janúar 2002 birti Morgunblaðið frétt um að nefnd undir formennsku Ingibjargar Pálmadóttur, fyrrv. heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins, skýrslu til Jóns Kristjánssonar, þáv. heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins, um að reisa bæri nýjan Landspítala við Hringbraut. Nefndin kannaði staðsetningu við Vífilsstaði og hafnaði henni.

Hinn 28. apríl 2004 birti Morgunblaðið frétt um samkomulag milli ríkisvaldsins og Reykjavíkurborgar um skipulag lóðar Landspítala - háskólasjúkrahúss við Hringbraut. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, og Þórólfur Árnason, borgarstjóri R-listans með aðild framsóknarmanna, undirrituðu samkomulagið. Jón Kristjánsson sagði að hér væri mjög mikilvægum og stórum áfanga náð og lagður grunnur að frekari uppbyggingu. Hann sagði brýnt að halda áfram þeirri vinnu og taka næstu skref. Hann sagði flókin og umfangsmikil mál nú komin í réttan farveg.

Hinn 3. september 2015 birti VSÓ-ráðgjöf frétt á vefsíðu sinni um að ritað hafi verið undir samning um fullnaðarhönnun meðferðarkjarna Landspítalans við Hringbraut á síðunni segir:

„Fjöldi gesta var viðstaddur afhöfnina í anddyri K-byggingar Landspítala, þar á meðal tveir fyrrum heilbrigðisráðherrar og dyggir stuðningsmenn nýs Landspítala við Hringbraut, Jón Kristjánsson og Siv Friðleifsdóttir [Framsóknarflokki]. Hátíðarstemning var, enda má líta svo á að samningur um fullnaðarhönnun meðferðarkjarnans og auglýsing um tilboð í framkvæmdir við sjúkrahótel jafngildi staðfestingu þess í reynd að nýr Landspítali rísi við Hringbraut.“

Á ruv.is er í dag sagt frá því að Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrsti varaformaður velferðarnefndar Alþingis, telji rétt að taka umræðu um staðsetningu Landspítala. Þetta sé tugmilljarða króna fjárfesting. „Ef við getum skoðað hvernig við getum byggt hraðar og jafnvel hagkvæmar og með betri vinnuaðstöðu. Nýtt húsnæði þar sem allar deildir fá pláss; af hverju eigum við ekki að hugsa hratt, hefjast handa og byggja nýtt öflugt sjúkrahús frá grunni?“ spyr framsóknarkonan.

Elsa Lára var spurð að því hvort Framsóknarflokkurinn stæði sameinaður í því að skoða eigi aðra staðsetningu. „Já, við höfum verið að ræða þetta núna og finnst mjög mikilvægt að taka umræðuna.“

Hafa Ingibjörg Pálmadóttir, Jón Kristjánsson og Siv Friðleifsdóttir sagt skilið við Landspítala við Hringbraut?

 

Sunnudagur 13. 03. 16 - 13.3.2016 14:00

Flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar laugardaginn 12. mars má að nokkru lýsa sem uppgjafarfundi. Flokksforystan nýtur ekki neins trausts, stefnumálin eru reist á að samkomulag náist fyrir kosningar við aðra flokka – flokkurinn er horfinn frá sjálfstæðri stefnumörkun, tekið skal mið af vilja annarra, einkum pírata.

Á sínum tíma tók Árni Páll Árnason, sitjandi flokksformaður, undir orð Birgittu Jónsdóttur yfir-pírata um stjórnarsáttmála stjórnarandstöðunnar fyrir kosningar, stutt kjörtímabil að þeim loknum til að kollvarpa stjórnarskránni og skipulagi stjórnarráðsins. Nú segir hann fulla ástæðu fyrir stjórnarandstöðuna til að stilla saman sína strengi. Innan Samfylkingarinnar sé hins vegar órætt hve langt menn vilji ganga til samstarfs við aðra. Hann vill þó skýra skuldbindingu „um lykilverkefni fyrir næsta kjörtímabil og að þessir flokkar [stjórnarandstaðan] skuldbindi sig til að reyna myndun meirihlutastjórnar“ fái þeir nægilegt fylgi (ruv.is 13. mars).

Enginn veit hvort Árni Páll verður í kjöri til formanns Samfylkingarinnar í vor. Tveir öruggir frambjóðendur eru: Helgi Hjörvar þinflokksformaður og Magnús Orri Schram, fyrrv. þingmaður.

Helgi Hjörvar segir lykilatriði fyrir stjórnarandstöðuna „að sameinast um fá mál, um stutt kjörtímabil, meðal annars um stjórnarskrárúrbætur, kjaramál og aðildarumsóknina að Evrópusambandinu og skila þeim í heila höfn“. Sundruð  nái hún ekki „árangri gegn sérhagsmunaöflunum hér í landinu“. (ruv.is 13. mars.)

Þetta tal um sérhagsmunaöflin er útslitið og gamaldags en hitt er söngur með pírötum.

Magnús Orri telur brýnt að Samfylkingin vinni „betur í sínum málum“, skerpi aðeins á skilaboðunum, tali skýrar við fólk og gefi sterkar til kynna hvar hún standi. „Umræða um kosningabandalag getur svo komið í kjölfarið, en fyrst þurfum við að vinna okkar heimavinnu,“ segir Magnús Orri á ruv.is 13. mars.

Magnús Orri hafði ekki fyrr kynnt framboð sitt til formanns en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrv. formaður Samfylkingarinnar, setti inn á FB-síðu sína:

 „Forystumaður Samfylkingarinnar í Landsdómsmálinu hefur stigið fram og telur sig vel til flokksforystu fallinn.”

Á vefsíðunni thjodmal.is er rætt um afskipti Magnúsar Orra af landsdómsmálinu eins og lesa má hér. Hann skoraðist undan að taka afstöðu til þess meginatriðis að ekki skuli ákæra neinn nema rökstutt sé að meiri líkur séu en minni á að hann verði ákærður. Hann lék með öðrum pólitískan hráskinnaleik. Á þetta vill Ingibjörg Sólrún minna og sendir því frá sér varnaðarorð.


Laugardagur 12. 03. 16 - 12.3.2016 15:00

Miðvikudaginn var rætt við mig á Bylgjunni í þættinum Reykjavík síðdegis og höfðu þeir félagar Þorgeir og Kristófer áhuga á að fræðast um hugleiðslu sem ég leiði meðal annars stöðinni Tveimur heimum í Suðurhlíð en um hana má fræðast hér.  Samtalið við mig er komið á netið og má hlusta á það hér. 

Fyrir viku sagði ég frá því sem Charles Moore skrifaði í The Spectator um Churchill og alþingi án þess að það væri rétt. Ég sendi bréf vegna þessa til ritstjóra The Spectator og birtist það í heftinu dags. 12. mars. Hér má lesa bréfið:

Disputed parentage

Sir: In his Notes on 5 March, Charles Moore tells the story of a visit by Sir Winston Churchill to the Icelandic Parliament, Althingi. Mr Moore says:

Churchill famously irritated its members by the first half of his sentence and gratified them with the second half: ‘I come from the mother of parliaments [pause] to the grandmother of parliaments.'

A good line, but one that was delivered not by Churchill but by Lord Newton, who was sent to help the Althingi celebrate its 1,000-year anniversary in 1930.

Incidentally, our first laws were spoken rather than written, so the presiding officer had to recite them when parliament met. This is the origin of the phrase ‘Mr Speaker'.
Björn Bjarnason
Kvoslaekur, Iceland

 

Föstudagur 11. 03. 16 - 11.3.2016 20:00

Kosið verður til landsþinga í þremur sambandslöndum Þýskalands, Baden-Württemberg, Rheinland-Pfalz og Sachsen-Anhalt. sunnudaginn 13. mars. Í Frankfurter Allgemeine Zeitung (FAZ) í dag segir að kosningarnar drohen für CDU und SPD zu einem Desaster zu werden. Það er að kosningarnar geti leitt hinar mestu hörmungar yfir CDU, kristilega flokk Angelu Merkel kanslara, og SPD, jafnaðarmannaflokk Sigmars Gabriels varakanslara.

Blaðið kallar daginn Super-Sonntag, ofur sunnudag, og sjaldan eða aldrei fyrr hafi menn beðið jafn spenntir eftir úrslitum í landsþingskosningum. Þetta sé fyrsta tækifæri kjósenda til að láta í sér heyra um innflytjendamál í kosningum til landsþinga og margt bendi til fylgishruns hjá CDU og SPD.

Kosið verður til þýska sambandsþingsins á næsta ári. Segja sérfræðingar FAZ að það jafngilti pólitísku sjálfsmorði fyrir CDU að fórna Angelu Merkel þótt illa fari í kosningunum á sunnudag. Hvað sem líði stefnu hennar í útlendingamálum sé hún enn bjartasta von CDU og höfði sterkar til kjósenda en aðrir forystumenn flokksins. 

Blaðið telur öðru máli gegna um Sigmar Gabriel. Honum kunni að verða fórnað fái SPD slæma útreið. Minnt er á að á flokksþingi í desember 2015 hafi hann náð endurkjöri sem formaður með 74% atkvæða. Hann hafi ekki lengur alla þræði í hendi sér.  Því er spáð að SPD kunni að verma þriðja sætið í kosningunum og fái minna fylgi en AfD-flokkurinn – Alternative für Deutschland – sem varð til á árinu 2013 gegn evrunni en hefur síðan breyst, skipt um forystu og beitir sér mjög gegn stefnu stjórnar Merkel í útlendingamálum.

Hver sem úrslitin verða hafa þau ekki aðeins áhrif í Þýskalandi heldur allri Evrópu.

 

Fimmtudagur 10. 03. 16 - 10.3.2016 19:00

Samtal mitt við Gretu Salóme, fiðluleikara og Evrívisionfara, er komið á netið og má sjá það hér. Greta lætur víða að sér kveða. Hún fer meðal annars í skóla núna og ræðir sigurlag sitt í söngvakeppni Evrópu hér á landi. Í máli sínu leggur hún áherslu á að efla styrk skólabarna gegn neikvæðu áreiti, ekki síst á netinu. Hún þakkar sínu sæla fyrir að vera ekki á grunnskólaaldri núna þegar unnt er að sækja á ungt fólk á netinu og gera því lífið leitt. Sigurlagið fjallar um nauðsyn þess að geta hrundið þessari neikvæðni frá sér eða hleypt henni í gegnum sig, ekki láta hana verða svartan blett á sálinnni.

Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar er í sviðsljósinu vegna þess að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Hildur Sverrisdóttir og Magnús Sigurbjörnsson, hafa vakið athygli á að starfsmenn Reykjavíkurborgar  „hafi fengið einhvers konar tiltal eftir að hafa tjáð skoðanir sínar á opinberum vettvangi án tengsla við starf sitt hjá borginni“.  Anna Kristinsdóttir mannréttindastjóri borgarinna, fer undan í flæmingi í svörum um þetta mál. Mannauðsskrifstofa borgarinnar segir afleiðingar þess að starfsmaður borgarinnar verði uppvís að hatursorðræðu gei leitt til áminningar í starfi og brottreksturs láti viðkomandi ekki af slíku háttalagi eftir áminningu.

„Þetta snýst um að Reykjavíkurborg skiptir sér af tjáningu starfsmanna þegar þeir eru ekki í vinnunni. Þar set ég punkt og maður verður hreinlega frekar þungt hugsi yfir slíku,“ segir Hildur Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, á dv.is þriðjudaginn 8. mars.

Nú er hafin deila milli Sóleyjar Tómasdóttur (VG), formanns mannréttindanefndar, og  píratans Halldórs Auðars Svanssonar, formanns stjórnkerfis- og lýðræðisráðs borgarstjórnar, vegna þessa máls. Halldór hefur leitað upplýsinga  hjá borgarlögmanni um réttarstöðu borgarstarfsmanna. Sóley segir fulltrúa Sjálfstæðisflokks „í ómaklegri aðför“ að mannréttindaskrifstofunni sem hafi það eitt til saka unnið að koma ábendingum frá borgarbúum á framfæri til viðeigandi sviða.

Hvor hefur betur Halldór eða Sóley kemur í ljós. Spruning hlýtur hins vegar að vakna hvor vinnustaðasálfræðingurinn verður kallaður á vettvang til að greiða úr ágreiningnum: sá sem vinnur að sáttum innan þingflokks pírata eða hinn sem vinnur að sáttum innan borgarstjórnarflokks VG.  

 

 

 

 

Mánudagur 09. 03. 16 - 9.3.2016 17:00

Í dag ræddi ég við Gretu Salóme tónlistarkonu í þætti mínum á ÍNN sem verður frumsýndur kl. 20.00 í kvöld. Greta er ótrúlega kraftmikil og lætur víða að sér kveða með miklum ágætum.

Að Katrín Jakobsdóttir hafi slegið allar hugmyndir annarra um að hún bjóði sig fram til forseta út af borðinu verður til þess að opna öðrum farvegi til Bessastaða sem annars hefðu verið lokaðir.

Nýlega sagði glöggur almannatengill við mig að hann teldi það til marks um að Össur Skarphéðinsson væri á framboðsbuxunum að þeir sæjust nú oft saman Össur og Einar Karl Haraldsson almannatengill. Færi ekki á milli mála að þeir væru að velta fyrir sér kostum vegna baráttunnar um Bessastaði. Nú sýnist Össur ætla að ná forskoti í umræðunum til að halda aftur af öðrum.

Skömmu eftir að Katrín skýrði frá ákvörðun sinni birti Jakob Bjarnar blaðamaður frétt eða öllu heldur fréttaskýringu undir fyrirsögninni: Yfirgnæfandi líkur á að Össur fari fram í forsetann á visir.is. Þar segir:

„Einstaklingur innan herráðs Össurar hefur tjáð Vísi að afar miklar líkur séu á því að Össur fari fram. Á það hefur verið bent að hann hafi verið býsna forsetalegur undanfarna mánuði“.  Þá er vitnað í færslu Össurar á Facebook að kvöldi 8. mars, þar sem birtist mynd af Össuri og Guðna Ágústssyni takast í hendur á skákmóti.  „Árið 1996 vorum við einu þingmennirnir sem studdum að lokum Ólaf Ragnar Grímsson opinberlega.,“ segir Össur og Jakob Bjarnar bætir við:

„Össur hefur á sínum stjórnmálaferli löngum eldað grátt silfur við Framsóknarmenn. En, í seinni tíð hafa skot hans á flokkinn verið góðlátlegri en oft áður og þegar hann situr og reykir friðarpípu með Guðna Ágústssyni og ræðir við hann um Ólaf Ragnar Grímsson má ljóst vera hvað klukkan slær. […]

Össur gerir sér fyllilega grein fyrir því, eins og allir sérfræðingar um íslenska pólitík og sögu forseta íslenska lýðveldisins að aldrei hefur nokkur náð kjöri í það embætti án fulltingis kjósenda Framsóknarflokksins.“

Augljóst er af texta Jakobs Bjarnar að hann er skrifaður af samúð með framboði Össurar. Í október 2014 starfaði Guðni Ágústsson fyrir mjólkuriðnaðinn sem átti mjög undir högg að sækja vegna neikvæðra frétta tengda samkeppnismálum. Þá skrifaði Jakob Bjarnar frétt um að Guðni sæi til sólar því að Einar Karl Haraldsson ætlaði að leggja honum lið í áróðursstríðinu. Þræðirnir liggja víða.

 

Þriðjudagur 08. 03. 16 - 8.3.2016 19:00

Verulega hefur færst í vöxt undanfarin ár að þeir sem ekki hafa fengið lýðræðislegt umboð til þess að stjórna einu eða neinu og bera þess vegna ekki ábyrgð gagnvart neinum stilli sér upp með kröfum um að þeir sem hafa umboð eða bera ábyrgð séu strengjabrúður þeirra sem beita mestum þrýstingi eða tala hæst. Fréttastofa ríkisútvarpsins tekur oft að sér milligöngu þeirra sem þannig vilja stjórna. Í fréttaleysi fámennisins rata hin sérkennilegustu mál inn í fréttatíma, til dæmis fámenn mótmæli þeirra sem hafna lögmætum ákvörðunum um brottvísun útlendinga sem hafa lotið íslenskum lögum.

Meðal samtaka sem starfa á þennan hátt hér á landi eru alþjóðasamtök sem kalla sig No Borders en nýlega var sagt frá mótmælafundi á þeirra vegum fyrir framan innanríkisráðuneytisins. Franska deild þessara samtaka hefur látið að sér kveða í Frakklandi, meðal annars vegna niðurrifs búða farandfólks við borgina Calais.

Mánudaginn 25. janúar 2016 birti Le Figaro frétt um franska deild No Borders og er samtökunum lýst sem ultra-gauche, það er lengst til vinstri. Þau hafi látið verulega að sér kveða í Calais og krefjist afnáms landamæra og frjálsrar farar fólks. Þá hafi samtökin einnig staðið að því að rauðmála orðin Nik la France á styttu af Charles de Gaulle, hershöfðingja og fyrrv. Frakklandsforseta, í miðbæ Calais en við hlið styttunnar sé önnur af Yvonne, eiginkonu de Gaulles.

Haft er eftir Xavier Bertrand, nýjum héraðsstjóra í Nord-Pas-de-Calais-Picardie að framkoma No Borders í Calais sé hneykslanleg, það verði að bregðast við henni með refsingu.

Le Figaro segir að No Borders hafi látið að sér kveða í Þýskalandi á tíunda áratugnum. Almennum borgurum sé í nöp við samtökin og haft er eftir manni í samtökum sem láta sér annt um aðkomufólkið í Calais: „Félagar í No Borders eru til leiðinda. Þeir reyna að heilaþvo aðkomufólkið sem hefur aðeins áhuga á að komast til Bretlands.“  

Varaborgarstjóri Calais segir að í hópi No Borders séu aðgerðarsinnar frá góðum heimilum sem þekki lög og reglur til hlítar en nýti sér aðkomufólkið til að koma illu af stað í þágu eigin málstaðar.

Eftir ítrekaða áreitni í garð lögreglu og annarra yfirvalda ákvað franska innaríkisráðuneytið í byrjun nóvember að herða eftirlit með No Borders. „Innan raða No Borders eru skráðir aðgerðarsinnar […] sem hafa hag af upplausn og þjáningum farandfólksins, þeir nýta sér þessar þjáningar og þrýsta á að fólkið grípi til örþrifaráða,“ sagði talsmaður franska innanríkisráðuneytisins.

 

 

 

Mánudagur 07. 03. 16 - 7.3.2016 18:30

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrv. utanríkisráðherra og einn ákafasti talsmaður ESB-aðildar Íslands, hefur horfið frá fyrri skoðun sinni um nauðsyn aðildar og í raun snúist harkalega gegn Evrópusambandinu eins og þessi orð á ruv.is í dag sýna:

„Hér talar maður sem var harvítugasti talsmaður þess að við eftir hrun gengjum í samfélag lýðræðisríkja, Evrópusambandið. Ég hef endurskoðað þá afstöðu. Einfaldlega vegna þess að þegar ég horfi á Evrópu, þá sé ég Evrópusamband sem er nánast í sjálfsmorðsleiðangri vegna þess að pólitíska forystan hefur algjörlega brugðist - og það er kreppa eftir kreppu eftir kreppu. Peningasamstarfið er byggt á röngum grunni og stenst ekki. Það mun ekki standast nýtt áhlaup.

Sú stefna sem Evrópusambandið hefur rekið undir forystu Merkel gagnvart þeim þjóðum sem fóru verst út úr hruninu (þá er ég að tala um Grikkland, Kýpur, Íberíuskagann og Írland) er rugl! Tómt efnahagslegt rugl! Og ekki boðleg.  Frammistaða Evrópusambandsins gagnvart þeirri áraun sem fylgja flóttamannahræringum um allan heim sýnir algjört pólitískt forystuleysi, alltaf viðbrögð við atburðum eftir á, og skammarlega lítilmennsku. […] Það þýðir ekkert að tala um að ganga inn í brennandi hús. […] Við göngum ekki inn í brennandi hús núna. Slökkvið fyrst eldana.“ 

Í dag komu leiðtogar ESB-ríkjanna saman til fundar í Brussel með forsætisráðherra Tyrklands til að ræða nánara samstarf til að stöðva straum flótta- og farandfólks. Af hálfu ESB hafa Tyrkjum verið boðnir 3 milljarðar evra til að búa í haginn fyrir fólkið sem yrði áfram í landi þeirra. Nú kemur í ljós að Tyrkir ætla að nýta sér neyðina til að knýja meira fé úr sjóðum ESB sér til handa, það er allt að 3 milljarða til viðbótar auk þess sem ESB blási nýju lífi í aðildarviðræðurnar við Tyrki sem hafa staðið árum og jafnvel áratugum saman.

Í Frankfurter Allgemeine Zeitung birtist frétt síðdegis sem ber með sér að ráðamönnum ESB sé brugðið vegna nýrra krafna Tyrkja.

Svo virðist sem forseti og ríkisstjórn Tyrkland herði markvisst pólitísk tök sín. Fyrir utan að herja á Kúrda í skjóli borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi og setja fjölmiðlun skorður á nú að nýta neyð flóttafólks til að sauma að Evrópusambandinu.

Kröfur Tyrkja munu auka á spennu innan ESB en innan sambandsins hafa menn gert sér vonir um að með aðstoð Tyrkja sé unnt að breiða yfir ágreininginn milli Grikkja og Austurríkismanna vegna lokunar norðurlandamæra Grikklands að frumkvæði Austurríkismanna.

Sunnudagur 06. 03. 16 - 6.3.2016 15:00

Kosningabaráttan um formannssætið í Samfylkingunni snýst um tvennt (1) fundi Árna Páls Árnasonar, núverandi formanns, sem fer um landið og skýrir efni bréfs sem hann sendi nýlega frá sér þar sem helst er að finna ávirðingar á Jóhönnu Sigurðardóttur og þá sem sátu í ríkisstjórn með henni og (2) bónorð Helga Hjörvars, frambjóðanda til formanns, til Birgittu Jónsdóttur og pírata.

Á mbl.is er í dag sagt frá útvarpsviðtali við Helga þar sem hann sagðist „ákaflega hrifinn“ af hugmynd Birgittu um að bindandi stjórnarsáttmáli yrði gerður milli vinstri flokkanna fyrir kosningar um að þing að loknum þeim stæði í 9 mánuði og á þeim tíma yrði stjórnarskránni kollvarpað auk stjórnarráðsins:

„Ég er ákaf­lega hrif­inn af þeirri hug­mynd og að við mynd­um um leið tryggja sem allra mesta sam­stöðu inn­an þeirra flokka sem nú eru í stjórn­ar­and­stöðu. [...] Við þurf­um að byggja aft­ur upp það traust sem hef­ur tap­ast og þessi hug­mynd Birgittu er vel til þess fall­in að byggja upp traust.“

Ástæða er til að velta fyrir sér hvort Birgitta hafi talað í nafni þingflokks pírata þegar hún setti ofagreint sem skilyrði fyrir að hún byði sig fram að nýju til þings. Réttmætt er að hafa efasemdir um umboð Birgittu enda er megn andstaða innan raða pírata gegn því að hún verði oftar í framboði fyrir flokkinn. Er það mál nú í höndum vinnusálfræðings.

Birgitta getur þó huggað sig við að hún á að minnsta kosti einn opinberan stuðningsmann, Helga Hjörvar, þingflokksformann Samfylkingarinnar.

Píratar halda stefnumálavinnustofu nú um helgina.

Erna Ýr Öldudóttir, formaður framkvæmdaráðs pírata, sagði á ruv.is í dag að kennd væri þátttaka í lýðræðinu í vinnustofunni. Flokkurinn ætti fjölda stefnumála og nú lærði fólk „stefnumálavinnu“ að hætti pírata. „Það sem við erum að reyna að kenna fólki það er þátttaka í lýðræðinu og að valdefla fólk,“ sagði Erna Ýr.

Í kynningu á fundinum á vefsíðu pírata segir að allnokkrar samþykktar stefnur fjalli um efnahagsmál af ýmsu tagi, nokkrar komi að utanríkismálum, og annað sett fjalli um jafnréttismál. Hvergi er minnst á draumamál Helga Hjörvars, grundvöll hans að samstarfi við Birgittu. Það skyldi þó ekki verða stefnumál pírata?

 

 

 

 

Laugardagur 05. 03. 16 - 5.3.2016 19:00

 

Charles Moore, breski blaðamaðurinn og opinber ævisagnahöfundur Margaret Thatcher, segir í dálki sínum í vikublaðinu The Spectator, sem út kom í vikunni, að hann hafi heyrt fólk kvarta undan því að David Cameron, forsætisráðherra Breta, hafi valið 23. júní sem dag fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um aðild að ESB þar sem ekki væri unnt að tengja þessa dagsetningu neinum sögulegum viðburði. Moore segir að þetta sé ekki rétt. Hann sé þakklátur fróðum bréfritara sem hafi upplýst sig um að 23. júní sé dagurinn sem sé hefðbundið talinn stofndagur alþingis, þings Íslendinga, árið 930. Þá segir Moore:

„Frægt er þegar Winston Churchill ávarpaði það og olli uppnámi meðal þingmanna þess með fyrri helmingi setningar sinnar og gladdi þá með seinni helmingnum: „Ég kem frá móður þjóðþinga [þögn] til ömmu þjóðþinga.“ Það er einkennilegt að frelsið sem fámennur hópur norrænna manna hafði hugrekki til að krefjast fyrir meira en þúsund árum skuli valda deilum þjóðar á 21. öld um endurreisn þess.“ 

Ég birti þennan texta einnig á ensku lesendum til glöggvunar: Churchill famously irritated its members by the first half of his sentence and gratified them with the second half: ‘I come from the mother of parliaments [pause] to the grandmother of parliaments.' It is strange that the freedom so bravely claimed by a small number of Nordic persons well over a thousand years ago should be a controversial thing for the citizens of a 21st-century nation to want to restore.

Þarna fer eitthvað á milli mála eins og þegar menn eigna Churchill orð annarra. Í síðasta nýársávarpi sem herra Ásgeir Ásgeirsson flutti sem forseti Íslands 1. janúar 1968 rifjaði hann upp ýmislegt sem hann hafði reynt og sagði meðal annars:

 „Og þá minnist ég ekki síst Alþingishátíðarinnar 1930, sem átti ríkan þátt í að efla sjálfstraust Íslendinga og athygli og álit erlendra manna á fámennri, afskekktri þjóð sem átti þúsund ára þingsögu að baki. Einn breski fulltrúinn stóð að vísu fast á því, að breska Parliamentið væri móðir þjóðþinganna, en játaði fúslega, að Alþingi Íslendinga væri þá amma þeirra. Með slíka forsögu getum vér hvorki leyft oss né megum óvirða vort eigið Alþingi. Því ber að halda í hæstum heiðri.“

Rétt er að vona að Charles Moore leiti sér öruggari heimilda við ritun ævisögu Thatcher. Tvö stór bindi hafa þegar birst og beðið er hins þriðja.

Föstudagur 04. 03. 16 - 4.3.2016 16:40

Samtal mitt við Ingva Hrafn Jónsson sjónvarpsstjóra á ÍNN sem sýnt var miðvikudaginn 2. mars er komið á netið og má sjá það hér. Við ræðum úrslit forkosninganna í Bandaríkjunum þriðjudaginn 1. mars.

Borgarráð samþykkti fimmtudaginn 3. mars 2016 þátttöku Reykjavíkurborgar í stofnun Friðarseturs, Höfði - Reykjavík Peace Center, í samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. Samkvæmt tillögu borgarstjóra er gert ráð fyrir að Reykjavíkurborg verji tíu milljónum króna til verkefnisins. Friðarsetrið verði formlega stofnað samhliða alþjóðlegum viðburðii í tilefni af því að í ár eru 30 ár liðin frá leiðtogafundi Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta og Mikaíls Gorbatsjovs, forseta Sovétríkjanna, í Höfða í októbr 2016. 

Í frétt á ruv.is um málið segir að skrifað hafi verið undir samstarfssamning milli Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands í janúar 2015 um að undirbúa stofnun friðarseturs. Þá hafi komið fram að Jón Gnarr fyrrverandi borgarstjóri yrði formaður ráðgjafarnefndar setursins en að auk hans sætu í henni Silja Bára Ómarsdóttir, fyrir hönd Háskóla Íslands, og Svanhildur Konráðsdóttir, fyrir hönd Reykjavíkurborgar.

Strax og þetta samstarf var kynnt lá í augum uppi að Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, var hugmyndasmiðurinn enda kynnti hann nýstárlegar hugmyndir, meðal annars um nýtingu Reykjavíkurhafnar í tíð sinni sem borgarstjóri. Taldi hann það meðal annars skref til friðar að banna vinveittum herskipum að heimsækja höfuðborg Íslands. 

Frá janúar 2015 hefur síðan skýrst betur en áður hvernig staðið er að ákvörðunum af þessu tagi í borgarstjórn Reykjavíkur. Litið hefur verið á þær sem kveðjugjöf eða glaðning til þeirra sem hverfa frá störfum í borgarstjórn. Friðarsetrið sem Reykvíkingar eiga í vændum er stofnað til að gleðja Jón Gnarr vegna starfa hans sem borgarstjóri á sama hátt og samþykkt var viðskiptabann Reykjavíkur á Ísrael til að gleðja Björku Vilhelmsdóttur, flokkssystur Dags B. borgarstjóra, þegar hún kvaddi borgarstjórn á síðasta ári.

„Það er biss­ness í friði,“ sagði Jón Gn­arr við und­ir­rit­un sam­starfs­samn­ings á milli Reykja­vík­ur­borg­ar og Há­skóla Íslands um friðar­set­ur I janúar 2015. Þá var sagt að setrið mundi taka til starfa  haustið 2015. Nú er boðað að setrið komi til sögunnar haustið 2016 og tengist leiðtogafundinum.

Nú liggur fyrir að Reykjavíkurborg ætlar að festa 10 m. kr. í friðar „bisness“ Jóns Gnarrs. Hvort og hvenær fjárfestingin skilar arði fyrir aðra en þá sem sitja í ráðgjafarnefndinni eða starfa við setrið er óljóst.

 

 

 

Fimmtudagur 03. 03. 16 - 3.3.2016 15:50

Áhugamenn um blaðamennsku og útgáfu frétta og greina á netinu eða í blaði hafa orðið varir við miklr hræringar á mörgum miðlum. Þær hafa stundum leitt til harðvítugra átaka á ritstjórnum þeirra milli þeirra sem skrifa á netið og hinna sem skrifa í blaðið.

Í dag boðar Pierre Collignon, aðalritsjóri Jyllands-Posten uppstokkun á ritstjórn blaðsins til að fella í einn farveg miðlun frétta á netinu og í blaðinu. Hann segir að fyrir dyrum sé að innleiða útgáfulíkan sem hann kallar Online til print og með því verði síðustu múrar milli blaðs og nets brotnir á þann hátt sem ekki hafi áður verið gert. Ætlunin er að nýja útgáfu-aðferðin komi til sögunnar í byrjun maí.

Hann segir að til þessa hafi vinnudagurinn almennt hafist á ritstjórnarfundi eða fundum þar sem ákveðið er hver séu áherslumál dagsins, verkefnum raðað á menn og síðan komið saman að kvöldi til að kanna heimtur og ákveða efni og útlit blaðsins sem út komi næsta dag.

Nú sé almennt litið þannig á að straumurinn sé frá blaði inn á netið en nýja aðferðin geri ráð fyrir að útgáfa frétta sé tímasett á ólíkum tímum sólarhringsins og án skiptingar ritstjórnar milli blaðs og nets.

Skipulagi ritstjórnarinnar verður breytt og einnig tæknilegum lausnum. Ritstjórninni er skipt í deildir og hver deild ber ábyrgð á sínu efni í hvaða formi sem það birtist. Hver blaðamaður er einnig ábyrgur fyrir texta, myndum, tengingu við annað efni á netinu og skrásetningu leitarorða. Yfirmaður hans fylgir síðan efninu eftir og hefur auga með frágangi og gæðum bæði á neti og í blaði.

Aðalritstjórinn segir að flest blöð sem þeir hafi skoðað skipti ritsjórninni milli blaðs og nets. Þeir hafi hins vegar kosið þessa leið og stuðst að verulegu leyti við fyrirmynd frá þýska blaðinu Die Welt en þó gengið lengra í samruna innan ritstjórnarinnar en þar hafi verið gert og meðal annars þróað nýjan hugbúnað og tæknilegar lausnir sem aðrir hafi ekki.

Við sem munum byltinguna sem varð með því að blaðamenn fengu tölvur og setjarar sem áður settu texta í blý hurfu vitum að undan tæknibreytingum verður ekki vikist. Þeir sem telja sér trú um að ekki verði að fylgja kröfum tímans í þessu efni daga fljótt uppi. Það verður spennandi að fylgjast með hvernig til tekst hjá Jyllands-Posten, öflugasta dagblaði Dana.

 

 

 

Miðvikudagur 02. 03. 16 - 2.3.2016 15:45

Í dag ræddi ég við Ingva Hrafn Jónsson sjónvarpsstjóra í þætti mínum á ÍNN. Hann er nú í Flórída og ræddum við úrslit forkosninganna hjá repúblíkönum og demókrötum í gær.

Hillary Clinton er komin á beinu brautina hjá demókrötum og ekkert virðist geta hindrað að hún verði forsetaframbjóðandi þeirra. Líkur á að hún nái kjöri í Hvíta húsið í nóvember eru miklar.

Donald Trump er fremstur meðal repúblíkana. Hann talar nú um sjálfan sig sem sameiningartákn, hann einn geti fylkt þjóðinni að baki sér. Hann muni sigra Hillary Clinton bjóði hún sig fram. Efasemdir hans um það eiga rætur í grunsemdum um að Hillary hafi staðið rangt að meðferð trúnaðarmála og tölvubréfa þegar hún gegndi embætti utanríkisráðherra í ríkisstjórn Baracks Obama.

Ingvi Hrafn sagði frú Clinton hafa ýtt ölum efasemdum um tölvubréfin til hliðar, það mál yrði henni ekki að fótakefli.

Í sigurræðu sinni í gær lagði frú Clinton áherslu á kærleika og velvild sem Bandaríkjamenn ættu að hafa að leiðarljósi. Hún vill nú sýna mildilegt yfirbragð andspænis bægslaganginum í Trump.

Óli Björn Kárason, ritstjóri Þjóðmála, ritar grein í Morgunblaðið í dag og vitnar meðal annars í orð mín hér í dagbókinni á dögunum um ábyrgð á öryggi ferðamanna. Nefnir hann mörg forvitnileg dæmi um tillögur alþingismanna sem allar bera vott um þá áráttu að líta á ríkið sem allsherjar barnfóstru.

Þessi árátta er síður en svo bundin við þingmenn. Hún setur til dæmis mjög rílan svip á fréttir ríkisútvarpsins. Í Markaðnum, fylgiblaði Fréttablaðsins, birtist í dag einskonar forystugrein um að spáð sé 37% fjölgun ferðamanna í ár miðað við árið 2015, þeir verði alls ríflega 1,7 milljón. Þar birtist gamalkunnur söngur:

Ekki er seinna vænna en að fara að líta heildstætt á ferðamannamál í landinu. Þar er mikilvægasta spurningin sú hvernig fjármagna eigi nauðsynlegar endurbætur á infrastrúktur. Einhver sagði að eðlilegast væri að notendur standi undir slíku.

Sjálfsagt og eðlilegt er að aðgangsgjald sé greitt að ferðamannastöðum. Einnig þarf að finna leið til að láta þá sem ósjálfbjarga verða standa undir kostnaði við björgunaraðgerðir (oftast með því að seilast í ferðatryggingar viðkomandi). Hvort tveggja væri í takti við það sem annars staðar tíðkast.

Hið opinbera þarf að hugsa fyrir því hvernig best er að vinna úr þessum málum. Áður en það verður um seinan.“

Hvers vegan hið opinbera? Löngu er ljóst að ltiið er á allar tillögur þess sem rifrildisefni. Hvers vegan grípa þeir sem hagnast mest á komu ferðamanna ekki til þeirra ráða sem duga til að þjónusta og öryggi sé viðunandi?

 

Þriðjudagur 01. 03. 16 - 1.3.2016 15:30

Skýringarnar á fylgisleysi Samfylkingarinnar eru margar. Í áranna rás hafa viðbrögð forráðamanna flokksins gjarnan verið þau að flokkurinn sé hluti af „fjórflokknum“ sem eigi undir högg að sækja. Það sé því ástæðulaust að ræða fylgisleysi hans sérstaklega líta beri á „fjórflokkinn“ í heild. Eftir að Samfylkingin fór niður fyrir 10% í könnunum er vitlausa kenningin um „fjórflokkinn“ á undanhaldi.

Nú sést því gjarnan veifað að örlög Samfylkingarinnar hér eigi að skoða í samhengi við hnignun jafnaðarmannaflokka í Evrópu almennt. Alhæfing í því efni stenst þó ekki Samfylkingunni til bjargar. Fylgisleysi hennar er heimatilbúið og skýrist best með því að skoða stefnu og störf flokksins sem fór alvarlega út af sporinu með áherslunni á ESB-aðildina og sósíalismann í stjórn Jóhönnu og Steingríms J.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, berst örvæntingarfullri baráttu fyrir eigin pólitísku lífi og flokks síns. Vopnaburðurðurinn einkennist æ meira af því hve aðþrengdur flokksformaðurinn er eins og þegar hann kaus að líkja nýgerðum búvörusamningi við Icesave-samninginn. Nefndi hann þetta meðal annars í umræðum á alþingi mánudaginn 29. febrúar þegar hann beindi fyrirspurn um búvörusamninginn til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, sem svaraði Árna Páli meðal annars á þennan hátt:

„Það er auðvitað alveg kostulegt að menn skuli bera samning eins og þann sem hér er verið að ræða [búvörusamninginn] — sem kemur í beinu framhaldi af öðrum sambærilegum samningi sem var gerður í þeirri tíð sem hv. þingmaður [Árni Páll] sat í ríkisstjórn, samningi sem var efnislega í öllum aðalatriðum alveg sambærilegur þessum, sambærilegur samningunum sem giltu þegar Samfylkingin var í ríkisstjórn — við það að setja mörg hundruð milljarða gjaldeyri til útlanda fyrir ekkert [með fyrsta Icesave-samningnum], fyrir ekki neitt, án þess að komi neitt gagngjald, bara til þess að kaupa sér frelsi, á sama tíma og menn sögðu að við þyrftum að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna til að losna við höftin. Það er alveg með ólíkindum að menn þori í þá umræðu. Við skulum endilega taka sérstaka umræðu um Icesave-samningana og landbúnaðarmálin, ég óska eftir því að fá að taka þátt í þeirri umræðu.“