Mánudagur 14. 03. 16
Framsóknarflokkurinn vill stundum haga sér eins og flokkur án fortíðar. Gengur hann ekki of langt núna?
Hinn 31. janúar 2002 birti Morgunblaðið frétt um að nefnd undir formennsku Ingibjargar Pálmadóttur, fyrrv. heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins, skýrslu til Jóns Kristjánssonar, þáv. heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins, um að reisa bæri nýjan Landspítala við Hringbraut. Nefndin kannaði staðsetningu við Vífilsstaði og hafnaði henni.
Hinn 28. apríl 2004 birti Morgunblaðið frétt um samkomulag milli ríkisvaldsins og Reykjavíkurborgar um skipulag lóðar Landspítala - háskólasjúkrahúss við Hringbraut. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, og Þórólfur Árnason, borgarstjóri R-listans með aðild framsóknarmanna, undirrituðu samkomulagið. Jón Kristjánsson sagði að hér væri mjög mikilvægum og stórum áfanga náð og lagður grunnur að frekari uppbyggingu. Hann sagði brýnt að halda áfram þeirri vinnu og taka næstu skref. Hann sagði flókin og umfangsmikil mál nú komin í réttan farveg.
Hinn 3. september 2015 birti VSÓ-ráðgjöf frétt á vefsíðu sinni um að ritað hafi verið undir samning um fullnaðarhönnun meðferðarkjarna Landspítalans við Hringbraut á síðunni segir:
„Fjöldi gesta var viðstaddur afhöfnina í anddyri K-byggingar Landspítala, þar á meðal tveir fyrrum heilbrigðisráðherrar og dyggir stuðningsmenn nýs Landspítala við Hringbraut, Jón Kristjánsson og Siv Friðleifsdóttir [Framsóknarflokki]. Hátíðarstemning var, enda má líta svo á að samningur um fullnaðarhönnun meðferðarkjarnans og auglýsing um tilboð í framkvæmdir við sjúkrahótel jafngildi staðfestingu þess í reynd að nýr Landspítali rísi við Hringbraut.“
Á ruv.is er í dag sagt frá því að Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrsti varaformaður velferðarnefndar Alþingis, telji rétt að taka umræðu um staðsetningu Landspítala. Þetta sé tugmilljarða króna fjárfesting. „Ef við getum skoðað hvernig við getum byggt hraðar og jafnvel hagkvæmar og með betri vinnuaðstöðu. Nýtt húsnæði þar sem allar deildir fá pláss; af hverju eigum við ekki að hugsa hratt, hefjast handa og byggja nýtt öflugt sjúkrahús frá grunni?“ spyr framsóknarkonan.
Elsa Lára var spurð að því hvort Framsóknarflokkurinn stæði sameinaður í því að skoða eigi aðra staðsetningu. „Já, við höfum verið að ræða þetta núna og finnst mjög mikilvægt að taka umræðuna.“
Hafa Ingibjörg Pálmadóttir, Jón Kristjánsson og Siv Friðleifsdóttir sagt skilið við Landspítala við Hringbraut?