Dagbók: apríl 2005

Laugardagur, 30. 04. 05. - 30.4.2005 14:17

Fór og sá kvikmyndina Der Untergang, sem sýnd er á kvikmyndahátíð í Regnboganum. Myndin sýnir síðustu daga Hitlers á einstaklega raunsæjan hátt. Það var við hæfi að sjá þessa mynd þennan dag, þegar rétt 60 ár voru liðin frá dauða Hitlers fyrir eigin hendi.

Á sínum tíma, þegar ég starfaði hjá Almenna bókafélaginu vann ég að því að gefa út bókina Síðustu dagar Hitlers eftir Hugh Trevor-Roper í þýðingu Jóns R. Hjálmarssonar. Sagnfræðingurinn Trevor-Roper var fenginn af bresku ríkisstjórninni til að skrá skýrslu um örlög Hitlers strax að lokinni síðari heimsstyrjöldinni til að í eitt skipti fyrir öll væri tekinn af allur vafi um, að Hitler væri allur og til að koma í veg fyrir, að goðsagnir yrðu til um örlög hans og Evu Braun eða annarra, sem voru með einræðisherranum síðustu daga hans.

Kvikmyndin Der Untergang fjallar um þetta sama efni á trúverðugan hátt og lögð er áhersla á að ganga ekki lengra í frásögninni en unnt er að styðja með heimildum.

Þótti mér myndin mjög áhrifamikil ekki síður en bókin forðum daga.

Föstudagur, 29. 05. 04. - 29.4.2005 14:09

Skýrt frá því Morgunblaðinu og Viðskiptablaðinu, að ég og systur mínar Guðrún og Anna hefðum selt hlut okkar í Árvakri hf., útgáfufélagi Morgunblaðsins.

Fimmtudagur, 28. 04. 05. - 28.4.2005 14:03

Klukkan 11.00 efndi dóms- og kirkjumálaráðuneytið til málþings á Hótel Sögu, þar sem forsjárnefnd undir formennsku Daggar Pálsdóttur hrl. kynnti skýrslu sína.

Miðvikudagur, 27. 04. 05. - 27.4.2005 14:06

Var með viðtöl fyrir hádegi eins og venjulega á miðvikudögum.

Þriðjudagur, 26. 04. 05. - 26.4.2005 13:59

Flugvélin frá Kaupmannahöfn lenti um klukkan 15.00. Var gott að koma út í hressandi, bjarta loftið.

Mándagur, 25. 04. 05. - 25.4.2005 6:47

Ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn glæpum lauk í ráðstefnumiðstöðinni í Bangkok klukkan 17.20 og hafði þá staðið í viku, sem er langur tími fyrir slíkar ráðstefnur.

Í lokin var samþykkt ályktun, Bangkok-yfirlýsingin, sem unnið var að fyrir ráðstefnuna og á meðan á henni stóð, raunar tókst ekki að ná samkomulag um orðalag fyrr en klukkan 05.00 að morgni mánudagsins 25. apríl. Þegar upphaflegi textinn, sem var lagður fram, og lokatextinn eru bornir saman, virðist í raun enginn efnislegur munur á textunum, en engu að síður gátu sérfróðir fulltrúar einstakra landa á ráðstefnunni setið jafnlengi yfir textanum og raun varð. Allra þeirra fjögurra atriða, sem ég nefndi í ræðu minni, er getið í yfirlýsingunni.

Að loknum fundum var ekki annað á dagskrá en pakka, fá sér kvöldverð og halda út á flugvöll klukkan 21.30 til að ná í vél SAS, sem hélt af stað til Kaupmannahafnar klukkan 00.20. Á leiðinni út á flugvöll mátti sjá, að á þeim tíma var hitinn 32 gráður.

Við lentum í Kaupmannahöfn klukkan 06.30 að morgni þirðjudagsins 26. apríl á dönskum tíma eftir rúmlega 10 tíma flug. Var hressandi að ganga inn ranann úr flugvélinni með 3 stiga hita utan dyra.

Þá hófst bið eftir heimferð með Icelandair klukkan 14.00. Ákvað ég að fá mér þráðlausa tengingu og sit nú í biðsalnum og skrái þetta.

 

Sunnudagur, 24. 04. 05. - 24.4.2005 3:21

Hitinn í Bangkok hefur verið mikill - milli 35 og 40 gráður alla dagana. Heppilegt er að vera nærri neðanjarðarbrautarstöð og þurfa því ekki að vera lengi utan dyra á leiðinni frá hóteli á fundarstað.

Fundahöld héldu áfram í allan dag á ráðstefnunni og í hádegishléi sátum við sérstakan kynningarfund hjá fyrirtæki, sem sérhæfir sig í upplýsingaöflun um alþjóðleg fjármálaviðskipti.

Um kvöldið var málsverður í boði dómsmálaráðherrahjóna Tælands. Var hann haldinn utan dyra í háskólagarði og þótt sólin væri sest var hiti mikill og ekki síður raki.

Laugardagur, 23. 04. 05. - 23.4.2005 16:16

Þennan dag flutti ég ræðu mína á ráðstefnunni. Sat hana meirihluta dagsins auk þess að sækja sérstakan fræðslufund um uppbyggilega réttvísi.

Um kvöldið bauð forsætisráðherra Tælands um 5000 manns til málsverðar og var hann haldinn í háskóla flotans í Bangkok.

Föstudagur, 22. 04. 05. - 22.4.2005 16:12

Eftir fundarsetu á ráðstefnunni alla daginn, hittum við Mark Viravan vararæðismann og fór hann með okkur til kvöldverðar með föður sínum, Chamnarn Viravan aðalræðismanni, móður og bróður á hinu heimsfræga Oriental hóteli, en það er við fljótið mikla, hina fornu lífæð borgarinnar. Við bjuggum fjarri fljótinu, á Westin-hóteli, skammt frá ráðstefnuhöllinni, sem var næsta neðanjarðarbrautarstöð við hótelstöðina og var gott að þurfa ekki að ganga lengi í ofurhitanum til að komast á milli hótels og fundarstaðar.

Fimmtudagur, 21. 04. 05. - 21.4.2005 15:55

Fórum í heimsókn til fiskvinnslufyrirtækis, þar sem stunduð er vinnsla fyrir BlueIce eða Sea Viking, sem er fyrirtæki í eigu Sjóvíkur. Fiskvinnslan er rétt fyrir utan Bangkok hjá Tep Kinsho Food. Louis Win Naing Chit forstöðumaður Sea Viking var leiðsögumaður okkar og var einstaklega fróðlegt og ánægjulegt að kynnast þessari starfsemi og þeim mikla metnaði, sem ríkir hjá fyrirtækinu og samstarfsfyrirtæki þess. Hreinlæti er mikið við fiskvinnslu á Íslandi en í Tælandi eru gerðar miklu meiri ráðstafanir í þágu þess við  móttöku gesta en á Íslandi, enda nokkur munur á veðráttu - hitinn var nálægt 40 gráðum, þegar við vorum þarna á ferð. 

Miðvikudagur, 20. 04. 05. - 20.4.2005 15:48

Tókum þátt í fundum ráðstefnunnar og áttum fund með framkvæmdastjóra hennar, sem taldi, að þetta væri í fyrsta sinn sem dómsmálaráherra frá Íslandi tæki þátt í ráðstefnu af þessu tagi, en nú eru 50 ár liðin frá því, að hún var fyrst haldin.

Síðdegis var ráðstefnugestum boðið í Grand Palace í Bangkok að skoða höllina miklu og búdda-líkneski, sem hefur mesta helgi í landinu.

Þriðjudagur, 19. 04. 05. - 19.4.2005 15:45

Fórum árla dags og heimsóttum kvennafangelsi, fangasjúkrahús og karlafangelsi í Bangkok. Þetta var einstaklega fróðleg ferð, þar sem við fengum tækifæri til að ræða við fangaverði og lækna og auk þess fanga, sem gátu talað ensku. Þarna var til dæmis Breti, sem hafði verið dæmdur í 25 ára fangavist fyrir heróín-smygl. Hann kaus frekar að eyða tíma sínum í þessu fangelsi en verða sendur í fangelsi í Bretlandi. Hann sýndi okkur hvernig fangar unnu myndlistarverk, þá lék hann einnig í hljómsveit, sem lék tælenska tónlist.

Fangar, sem dæmdir eru til lífstíðar, eru í fangeisi til lífstíðar, þess vegna er líknardeild á sjúkrahúsinu og heimsóttum við hana auk skurðdeildar og tannlæknadeildar.

Tæplega 5000 konur voru í kvennafangelsinu og var okkur sagt, að 26 svæfu saman á gólfinu í hverjum svefnsal, sem var um 40 fermetrar og við mikla ásókn í fangelsin væru allt að 50 í einum slíkum sal eða herbergi. Hundruð kvenna sátu aðgerðarlausar í skugga í hitanum, en ég sá einnig hóp kvenna stunda qi gong æfingar og var sagt, að þær væru einkum fyrir þær, sem væru komnar til ára sinna.

Um 80% fanga í Tælandi sitja inni vegna fíkniefnabrota.

Mánudagur 18. 04. 05. - 18.4.2005 11:25

Klukkan 10.30 hófst 11. ráðstefna Sameinuðu þjóðanna gegn glæpastarfi og um refsirétt í ráðstefnuhöllinni í Bangkok.

Klukkan 15.00 flutti krónpris Tælands, Maha Vajiralongkorn ræðu á hátíðar-setningarfundi ráðstefnunnar fyrir hönd konungs Tælands, en hann er Bhumibol Adulyadej. Með krónprinsinum var dóttir hans, Bajrakitiyabha prinsessa.

Sunnudagur, 17. 04. 05. - 17.4.2005 11:18

Lentum í Bangkok rúmlega 15.30 að þeirra tíma, sem er sjö tímum á undan íslenskum tíma.

Laugardagur 16. 04. 05. - 16.4.2005 11:17

Flugum klukkan 16. 10 til Kaupmannahafnar með Icelandair og þaðan með SAS klukkann 22.45 til Bangkok,

Fimmtudagur, 14. 04. 05. - 14.4.2005 11:07

Var klukkan 08.30 var við upphaf ráðstefnu til heiðurs Vigdísar Finnbogadóttur vegna 75 ára afmælis hennar.

Tók þátt í viðræðum við Jón Ólafsson í Víðsjá rásar 1 um alþjóðleg hryðjuverk og baráttu gegn þeim.

Miðvikudagur 13. 04. 05. - 13.4.2005 11:13

Tók klukkan 10.00 á móti Sir John Reith, hershöfðingja og öðrum æðsta yfirmanni Evrópuherafla NATO, í höfuðstöðvum landhelgisgæslunnar og síðan fórum við í björgunarmiðstöðina við Skógarhlíð.

Í hádeginu var 10. fundur Evrópunefndar.

Tók síðdegis á móti hópi, sem hefur verið að vinna að aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi og kynntu fulltrúar í hópnum mér áætlunina, en ég hef hug á því að dóms- og kirkjumálaráðuneytið taki við þessu skjali í því skyni að vinna úr þeim hugmyndum, sem þar eru kynntar. Ég tel mikils virði, að þetta samstarf skuli hafa skilað þessari niðurstöðu, án þess að ég hafi tekið afstöðu til einstakra álitamála.

Föstudagur, 08. 04. 05 - 8.4.2005 14:35

Fundur dómsmálaráðherra Evrópuráðsríkja hófst að nýju klukkan 09.00 - ég flutti þar tvær ræður. Fundinum lauk í tæka tíð til að ég gæti fylgst með meginhluta útfarar páfa í sjónvarpinu.

Klukkan 17.45 flaug ég með Finnair til Kaupmannahafnar og þaðan klukkan 19.45 með Icelandair til Keflavíkur, þar sem lent var um 21.00.

Fimmtudagur, 07. 04. 05. - 7.4.2005 14:31

Klukkan 09.00 hófst fundur dómsmálaráðherra Evrópuráðsríkja í Helsinki, um 30 ráðherrar sóttu fundinn og stóð hann allan daginn.

Miðvikudagur, 06. 04. 05. - 6.4.2005 14:29

Flaug klukkan 08.15 frá Færeyjum með Atlantic Airways til Kaupmannahafnar og þaðan síðdegis með SAS til Helsinki.

Þriðjudagur, 05. 04. 05. - 5.4.2005 14:28

Klukkan 09.00 hófst fundur í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn með landstjórninni og helstu embættismönnum hennar um Evrópumálefni. Jóannes Edesgaard lögmaður setti fundinn, eftir að allir höfðu sungið ættjarðarlag, og skýrði frá því að landstjórnin hefði ákveðið að efna til málþinga fyrir æðstu stjórnendur landsins til að móta síðan framtíðarstefnu. Að þessu sinni vorum við þrír, sem fluttum erindi: Claus Grube, sendiherra Danmerkur hjá Evrópusambandinu. William Rossier, framkvæmdastjóri EFTA, auk mín. Erindi mitt er hér á síðunni.

Síðdegis gafst okkur tækifæri til að heimsækja þinghúsið og ræða óformlega við þingmenn, þar á meðal Edmund Joensen, forseta þingsins.

Einnig skrapp ég yfir til Kirkjubæjar en þangað hef ég ekki komið síðan ráðstafanir hafa verið gerðar til að verja kirkjurústina með nýsmíði.

Mándudagur, 04. 04. 05 - 4.4.2005 14:20

Ríkisstjórnin kom saman á aukafund klukkan 12.00 til að samþykkja skilmála fyrir sölu Símans.

Klukkan 13. 15 fluag ég með Atlantic Airways til Færeyja og lenti þar klukkan 15.30 að þeirra tíma. Ók síðan frá flugvellinum til Þórshafnar og breytir miklu, að nú eru komin göng undir fjörðinn yfir til Straumeyjar.

Sunnudagur, 03. 04. 05. - 3.4.2005 13:07

Fór með Gunnari Eyjólfssyni í messu í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði klukkan 08.30 og þar var þess minnst, að Jóhannes Páll páfi II andaðist kvöldið áður. Við ræddum við systur Agnesi að lokinni messu og skynjuðum, hve mikil áhrif andlát páfans hefur á þær systurnar í klaustrinu, sem allar eru pólskar.

Var klukkan 17.00 í Þorlákskirkju í Þorlákshöfn, þar sem Kammersveit Reykjavíkur flutti strengjakvintett í C-dúr op. 163 eftir Franz Schubert.

Laugardagur, 02. 04. 05. - 2.4.2005 13:05

Fórum klukkan 20.00 í Salinn og hlýddum á Gunnar Kvaran leika þrjár einleikssvítur Bachs fyris selló.

Föstudagur 01. 04. 05. - 1.4.2005 21:19

Var kominn í alþingi rétt fyrir 10.30 til að flytja þar framsögu fyrir þremur frumvörpum. Komst ekki að fyrr en um klukkustund síðar, þar sem tíminn fór í umræður um störf þingsins og fundarstjórn forseta, en undir þessum liðum býsnaðist stjórnarandstaðan á ráðningu nýs fréttastjóra á hljóðvarp ríkisins. Ég gat flutt ræður fyrir tveimur frumvörpum áður en fundi var frestað rúmlega 12.00. Í upphafi fundar klukkan 13.30 fóru um 30 mínútur í umræður um fréttastjóramálið en ég gat lokið þriðja máli mínu um 14.20.

Var klukkan 16.00 í þættinum Allt og sumt á Talstöðinni hjá Hallgrími Thorsteinsson og Helgu Völu Helgadóttur.