Dagbók: október 2005

Mánudagur, 31. 10. 05. - 31.10.2005 22:30

Samkvæmt Gallup-könnun, sem birt var í dag, fengi Sjálfstæðisflokkurinn 57% eða hreinan meirihluta í Reykjavík, ef kosið væri til borgarstjórnar nú. Samfylkingin fengi 25%, vinstri/grænir 12% eða samtals eru þessir rauð/grænu flokkar 37%. Framsókn fengi 4% og frjálslyndir 2%. Þetta er glæsileg niðurstaða og sýnir, að hvað sem líður eðlilegri baráttu einstakra frambjóðenda í prófkjörinu, dregur það síður en svo úr fylgi flokksins.

Ef kosið yrði til alþingis nú fengi Sjálfstæðisflokkurinn rúm 41%, Safylking tæp 28% og heldur áfram að lækka eins og hún hefur gert jafnt og þétt frá formannskjöri Ingibjargar Sólrúnar, vinstri/grænir fengju tæplega 17%, Framsóknarflokkurinn ríflega 10% og frjálslyndir tæplega 4%.

Sjálfstæðismenn geta vissulega vel við þetta unað, styrkur okkar er mikill og ótvíræður. Hvað skyldi Ingibjörg Sólrún gera næst til að auka fylgið? Hún hefur spilað út nýrri skattastefnu upp á sitt eindæmi, án þess að stuðningurinn vaxi. Nú síðast kynnti hún nýja sjávarútvegsstefnu upp á sitt eindæmi. Hvað gerir hún næst? Leggur hún til að Össur verði formaður að nýju?

Sunnudagur 30. 10. 05. - 30.10.2005 21:58

Var fram eftir degi fyrir austan fjall, það var dálítilli skrafrenningur á hálum veginum frá Hvolsvelli vestur fyrir Hellu síðdegis en minnkaði eftir því sem vestar dró og Hellisheiðin var auð.

Danski dómsmálaráðherrann og lögreglan hefur í nógu að snúast þessa dagana, þegar upp hefur komist um hryðjuverkatilburði í tengslum við Danmörku. Enn einu sinni virðist um það að ræða, að þræðirnir teygi sig víða um lönd. Þetta gerist á sama tíma og sendiherrar nokkurra islamskra ríkja í Kaupmannahöfn hafa stofnað til deilna við Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra vegna skopmyndar í dagblaðinu Jyllandsposten, sem sendiherrarnir telja móðgandi fyrir Múhameð spámann.

Að skopmynd verði tilefni milliríkjadeilu er nokkurt nýmæli, en fráleitt er að ætla, að hún geti orðið kveikja að því, að hafist sé handa við undirbúning hryðjuverks.

Laugardagur, 29. 10. 05. - 29.10.2005 21:43

Ók austur í Vík í Mýrdal, eða nánar tilgreint að Höfðabrekku, þar sem ég flutti erindi á fundi Félags íslenskra rannsóknarlögreglumanna um sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu og tók síðan þátt í pallborðsumræðum með öðrum frummælendum.

Mér kom á óvart á leiðinni austur, hve mismikill snjórinn var en mest hafði snjóað við Hvolsvöll og í Fljótshlíðinni komst ég ekki akandi heim heldur varð að fá góðan nágranna til að ryðja heimtröðina fyrir mig. Fyrir austan Skóga hafði hins vegar lítið snjóað og Mýrdalurinn var auður.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur tekið við af DV að leita að upplýsingum um, hverjir hafi svonefnda diplómatapassa, það er sérstaka gerð vegabréfa. Ég átta mig ekki á því, að hverju er verið að leita með þessum fyrirspurnum DV og nú Marðar á alþingi. Ég veit satt að segja ekki, hvort þingmenn eigi rétt á slíkum vegabréfum, ráðherrar geta vafalaust óskað þeirra. Síðan ég varð þingmaður eða ráðherra hef ég ekki notað slíkt vegabréf, en þó komist allra minna ferða hindrunarlaust og án vandræða við landamæri. Telja DV og Mörður, að um einhverja misnotkun á þessum vegabréfum sé að ræða eða við útgáfu þeirra?

Föstudagur, 28. 10. 05 - 28.10.2005 21:47

Í hádeginu hittum við Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður fulltrúa íbúasamtaka Laugardals, sem lýstu áhyggjum sínum vegna Sundabrautar og áhrifa hennar á hverfi sitt.

Klukkan 14.00 var ég á aðalfundi Dómarafélags Íslands og flutti þar ræðu.

Klukkan 16.00 fór ég með öðrum starfsmönnum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um borð í varðskipið Ægi, þar sem við hittum skipverja og aðra starfsmenn gæslunnar og skoðuðum skipið.

Leiðtogafundur Evrópusambandsins var haldinn í Hampton Court í Bretlandi í gær, án þess að þar gerðist nokkuð, sem vekur sérstaka athygli í fréttum, enda er ESB sífellt að verða innhverfara, eftir að sáttmálinn um stjórnarskrána var felldur. Það er til marks um tilgangsleysi fundarins, að þar sat Gerhard Schröder, fráfarandi kanslari Þýskalands, til þess eins að Angela Merkel, arftaki hans í kanslaraembættinu, gæti ekki tekið þátt í fundarstörfum. Lech Kaczynski, nýkjörinn forseti Póllands og efasemdarmaður um ESB, var ekki á fundinum. Þýskaland og Pólland eru með fjölmennustu ríkjum ESB og halli þau sér frekar að Bretlandi en Frakklandi, mun þungamiðjan innan ESB færast, auk þess sem ljóst er, að Jacques Chirac Frakklandsforseti er orðinn heilsuveill og farinn að búa sig undir brottför úr embætti sínu.

Fimmtudagur, 27. 10. 05. - 27.10.2005 22:56

Það er forvitnilegt að fylgjast með fréttunum af varnarmálaviðræðunum við Bandaríkjastjórn og mér heyrðist Michael Corgan, prófessor í Boston, vera með skynsamlegustu vangavelturnar í sjónvarpsfréttum í kvöld. Hann benti réttilega á, að í Washington eru menn að sjálfsögðu með hugann við annað um þessar mundir, þegar rætt er um herinn og vopnabúnað en Ísland. Bandarísku embættismennirnir höfðu líklega ekki haft nægan tíma til heimavinnu eða ekki fengið nægilega skýr fyrirmæli, áður en íslenska sendinefndin átti að hitta þá í síðustu viku.

Ég var undrandi á að heyra þá útleggingu í Stöð 2 í gærkvöldi, að það væri til marks um, að málstaður bandarískra varna á Íslandi nyti ekki lengur stuðnings í Washington, að forysta í viðræðunum væri komin í hendur þjóðaröryggisráðsins, sem starfar undir stjórn Bandaríkjaforseta. Það sýndi mér aðeins, að fréttamaðurinn þekkir ekkert til mála og dró því ranga ályktun eða hann naut leiðsagnar einhvers, sem vildi leiða hann á villigötur.

Það er ekki aðeins, að Bandaríkjastjórn er með fangið fullt af vandamálum, þegar rætt er um bandarískan herafla og framtíð hans, heldur er George W. Bush forseti að glíma við mestu erfiðleika á forsetaferli sínum. Hann losnaði við eitt vandamál í dag, þegar Harriet Miers lýsti yfir því, að hún vildi ekki láta á það reyna, hvort tilnefningin á henni í hæstarétt nyti stuðnings á Bandaríkjaþingi og dró sig í hlé.

Á morgun er búist við því, að Patrick Fitzgerald, sérlegur saksóknari, skýri frá því, hvort háttsettir og nánir samstarfsmenn Bush hafi gerts brotlegir við lög vegna uppljóstrana um starfsmann leyniþjónustunnar, CIA.

Miðvikudagur, 26. 10. 05. - 26.10.2005 22:41

Undarlegt að sjá Sigríði Dögg Auðunsdóttur, helsta pólitíska blaðamann Fréttablaðsins, skrifa um blaðið eins og stjórnmálaflokk í Bakþanka blaðsins í dag. Hún leggur að jöfnu gagnrýni sjálfstæðismanna á fréttaflutning Fréttablaðsins af landsfundarræðu Davíðs Oddsonar og gagnrýni Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, á flokksfundarræðu Steingríms J. Sigfússonar. Telur stjörnublaðamaður Baugsmiðlanna engan mun á því, hvernig fjölmiðlar segja fréttir og því, hvernig stjórnmálamenn lýsa skoðunum andstæðinga sinna? Er Sigríður Dögg með þessu að réttlæta lélegan fréttaflutning Fréttablaðsins á þeirri forsendu, að hann sé sambærilegur við það og þegar stjórnmálamaður gagnrýnir sjónarmið andstæðings síns? Það er dapurlegt fyrir umsjónarmenn Kastljóss, að Sigríður Dögg telur sig hafa rök til að draga þá í sama dilk og Fréttablaðið.

Þriðjudagur, 25. 10. 05. - 25.10.2005 18:21

Í morgun var frétt í hljóðvarpi ríkisins um, að stjórnarskráin í Írak hefði líklega verið felld í þjóðaratkvæðagreiðslu. Um hádegið var hins vegar frétt þess efnis, að stjórnarskráin hefði verið samþykkt. Síðdegis var sagt frá því í sama miðli, að súnnítar teldu svik í tafli en haft var eftir talsmanni Sameinuðu þjóðanna, að framkvæmd kosninganna stæðist allar eðilegar kröfur. Hvers vegna þessar tvíræðu fréttir? Stjórnarskráin var samþykkt og þátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslunni um hana var meiri en vænst var. Þessar staðreyndir eru hins vegar í andstöðu við málstað þeirra, sem telja allt á hverfanada hveli í Írak.

 

Mánudagur, 24. 10. 05. - 24.10.2005 21:51

Kvennafrídagurinn setti svip sinn á starf í ráðuneytinu, þar sem konur hurfu þaðan um klukkan 14.00 til að taka þátt í göngu og/eða fundi en sagt var að um 50.000 manns hafi verið í miðborginni. Þegar ég ók heim milli 16.00 og 17.00 var bílum lagt á eyjar við Sæbrautina og einnig á austanvert Miklatún og eyjar í Lönguhlíðinni.

Sagt frá því, að nýr forseti hafi verið kjörinn í Póllandi, Lech Kaczynski, en hann á rætur í Samstöðu, þar sem hann barðist gegn ofríki kommúnista með Lech Walesa. Forseti Póllands hefur vald til afskipta af utanríkismálum og Kaczynski er efasemdarmaður um ágæti Evrópusambandsins, hann vill ekki taka upp evruna, auk þess að vera fullur tortryggni í garð Rússa og Þjóðverja hinna stóru nágranna Póllands. 

Vaclav Klaus, hægrimaðurinn, forseti Tékklands, er fullur efasemda um Evrópusambandið og gagnrýnir það af miklum þunga. Lech Kaczynski er sama sinnis og báðir vilja þeir náið samstarf við Bandaríkin. Hafi pólskir kjósendur viljað mótmæla þátttöku lands síns í Íraksstríðinu, hefðu þeir ekki kosið Kaczynski.

 

Sunnudagur, 23. 10. 05. - 23.10.2005 21:51

Það var sagt frá því í fréttum, að aðeins hefði munað tveimur atkvæðum á landsfundi vinstri/grænna, að samþykkt yrði að leggja niður þjóðkirkjuna. Mátti heyra á Steingrími J. Sigfússyni, formanni flokksins, að honum var brugðið vegna þessa litla munar. Það kom mér hins vegar á óvart, að heyra tölurnar, því að þær sýndu, að fundarmenn voru nákvæmæleg 100 (49 með 51 á móti) en Steingrímur J. hefur talað um fundinn eins og um meiriháttar mannamót væri að ræða, en fjöldinn nær ekki einu sinni þeim fjölda, sem tekur þátt í störfum stórrar nefndar á landsfundi okkar sjálfstæðismanna.

Ég átta mig ekki alveg á því norræna módeli, sem Steingrímur J. segist vera að boða með tali sínu um, að stjórnarandstöðuflokkarnir hér taki höndum saman gegn ríkisstjórninni um myndi það, sem hann kallar „velferðarstjórn“ og lætur eins og hún sé á næsta leiti, ef menn fari eftir þessu norræna módeli og heiti því nú, að mynda slíka stjórn, falli sú, sem nú situr. Samstarf í ríkisstjórn byggist að sjálfsögðu ekki á neinu norrænu módeli heldur því, hvort flokkar eru sammála um málefni og hafa nægan styrk til að fylgja þeim eftir með meirihluta á þingi.

Laugardagur, 22. 10. 05. - 23.10.2005 2:04

Var í morgun á setningarfundi kirkjuþings og flutti þar ræðu.

Í hádeginu var ég á fyrsta fundi mínum í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins, en hann var haldinn í Valhöll.

Í kvöld var síðan sameiginlegur kvöldverður þingflokks og miðstjórnar í Viðey til að kveðja Ástríði og Davíð. Í ræðu sinni lét Davíð þess getið, að þennan sama dag árið 1961 hefði faðir minn tekið við formennsku í Sjálfstæðisflokknum, en Davíð myndaði fyrstu ríkisstjórn sína á afmælisdegi föður míns 30. apríl 1991.

V/g hélt landsfund sinn og þar var öll forystan endurkjörin í dag með lófaklappi!

Föstudagur, 21. 10. 05. - 21.10.2005 22:20

Setti í dag Sigurð Tómas Magnússon ríkissaksóknara í Baugsmálinu svonefnda. Ég tel mikinn feng að því að hann skuli hafa tekið þetta erfiða verkefni að sér, en Sigurður Tómas hefur undanfarin ár verið formaður Dómstólaráðs, en segir nú af sér sem héraðsdómari, svo að hann geti tekið þetta verkefni að sér. Kynnti ég ákvörðun mína fyrst fyrir ríkisstjórninni á fundi hennar í morgun.

Við þetta val á manni vaknaði sú spurning, hvort setja mætti héraðsdómara í starfið, en nefnd um dómarastörf, sem starfar lögum samkvæmt, taldi það óheimilt, þar sem viðkomandi mundi stunda málflutning. Sjálfsagt er að hafa strangar reglur um auka- eða íhlupastörf dómara og raunar spurning, hvort þeir geta tekið að sér setu í nefndum, þótt þær starfi fyrir dómsmálaráðuneytið.

Af viðbrögðum í fréttum og annars staðar dreg þá ályktun, að enginn finni að því, að Sigurður Tómas leiði þetta mál til lykta sem ákærandi, þótt einhverjir séu enn að agnúast út í að ég skuli hafa valið hann og sett til starfans. Mig undrar að það skuli gert, án þess að færð séu fyrir því nokkur rök eða bent á það af nákvæmni, hvað veldur þessu meinta vanhæfi mínu.

Síðdegis ávarpaði ég hóp starfsmanna stofnana dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem voru á kynningarfundi vegna nýskipunar í tölvu- og fjarskiptamálum ráðuneytisins en mikið þróunar og nýsköpunarstarf hefur verið unnið á því sviði í um það bil eitt ár.

Fimmtudagur, 20. 10. 05. - 20.10.2005 18:55

Var meðal líkmanna í jarðarför Más Jóhannsssonar, fv. skrifstofustjóra Sjálfstæðisflokksins, sem var jarðsunginn frá Dómkirkjunni kl. 11.00.

Klukkan 14.00 var umræða utan dagskrár um sakóknara og fleira og flutti ég þar ræðu. Enginn þingmanna sagði mig vanhæfan til að skipa saksóknara í Baugsmálinu, en sumir töldu heppilegast fyrir málið og best fyrir mig, að ég segði mig frá málinu. Ég sagði það ekki kost í stöðunni, nema lög heimuluðu mér það. Ég gæti ekki valið mér mál til meðferðar eins og rétti af matseðli eða rúsínur úr tebollu. Þakkaði ég þingmönnum umhyggjuna.

Að lokinni þessari umræðu flutti ég ræðu fyrir frumvarpi til laga um breytingar á Schengen-lögum.

Klukkan 16.00 var ég í Háskólanum í Reykjavík, þar sem haldið var málþing um dómstólavæðingu í samvinnu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og lagadeildar skólans undir stjórn Þórdísar Ingadóttur, LLM, sem er sérfræðingur við lagafeildina. Dr. Mads Bryde Andersen, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, flutti framsögu og Ragnhildur Helgadóttir, lektor við lagadeildina, sagði álit sitt á framsöguræðunni. Síðan voru almennar umræður og þar tóku til máls Ragnar Aðalsteinsson hrl., Eiríkur Tómasson prófessor og Þór Vilhjálmsson, prófessor og fv. dómari.

Ég flutti ávarp í upphafi málþingsins og sagði til þess stofnað til að ræða það, sem á erlendum málum væri kallað judikalisering og snerist um mörkin á milli dómsvalds og löggjafarvalds og hvort dómstólar væru að fara of langt inn á svið löggjafans, en Mads Bryde Andersen telur að þannig sé málum háttað að því er mannréttindadómstólinn í Strassborg varðar.

Miðvikudagur, 19. 10. 05. - 19.10.2005 22:06

Evrópunefndin hélt fund í hádeginu en klukkan 15.00 var ég úti á Seltjarnanesi til að staðfesta samstarf Seltjarnanesbæjar, Securitas og lögreglu um hverfagæslu í bænum.

Þriðjudagur, 18. 10. 05. - 18.10.2005 21:34

Á fundi ríkisstjórnarinnar lagði ég fram frv. til laga um breytingu á ýsmum lögum á sviði sifjaréttar. Þar er meðal annars að finna ákvæði um að sameiginleg forsjá verði meginregla í íslenskum rétti. Ég heyrði sagt frá þessu frumvarpi í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins, án þess að flutningsmanns væri getið. Oft gerist það, ef um umdeild mál er að ræða, að þau eru kennd við flutningsmann í fréttum og kirfilega eignuð honum. Kannski má túlka fréttina í kvöld sem gæðastimpil fréttastofunnar á efni frumvarpsins? Ríkisstjórnin samþykkti að frumvarpið gengi áfram til alþingis.

Síðdegis var ég síðan á dauflegum fundi borgarstjórnar.

Mánudagur, 17. 10. 05. - 17.10.2005 21:28

Það var góður hugur í þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, þegar þeir komu saman til fundar að loknum landsfundi, sem heppnaðist mjög vel að allra dómi. Á þingflokksfundi voru kjörnir fimm fulltrúar í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og er ég einn þeirra, en ég hef ekki setið í miðstjórninni áður.

Sunnudagur, 16. 10. 05. - 16.10.2005 21:52

Fór á landsfundinn fyrir hádegi, hlýddi á umræður og kaus í miðstjórn, áður en ég hélt inn á Stöð 2, þar sem ég ræddi við Egil Helgason um Baugsmiðlana, Baugsmálið og landsfundinn. Vona ég að samtal okkar hafi verið líflegt en á undan mér var meðal annarra Jakob Frímann Magnússon, málsvari Samfylkingarinnar, sem réðst að Davíð Oddssyni af ótrúlegri heift og á þeim nótum, sem við eigum til allrar hamingju ekki að venjast í stjórnmálaumræðum hér. Ef Jakob Frímann og Karl Th. Birgisson eru þeir málsvarar Sanfylkingarinnar, sem þykja helst samboðnir boðskap flokksins undir forystu nýs formanns er markið ekki sett hátt eða gerð mikil tilraun til stjórnmálaumræðna á málefnalegum grunni.

Síðdegis hylltum við landsfundarmenn nýjan formann, Geir H. Haarde, og varaformann, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, afgreiddum allar tillögur og ályktanir fundarins og gengum síðan sátt og glöð af glæsilegum fundi klukkan rúmlega 18.00.

Fundurinn var einstaklega vel skipulagður og vel að okkur fundarmönnum búið. Er það í sjálfu sér þrekvirki að halda þannig á málum, að í tæka tíð séu allar tillögur til prentaðar í 12 til 1300 eintökum og þeim dreift á öll borð í hinum stóra sal. Þá eru kosningar einnig þannig skipulagðar, að fljótlegt er fyrir þennan stóra hóp fólks að greiða atkvæði.

Laugardagur, 15. 10. 05. - 15.10.2005 18:42

Sat landsfundinn í dag, þegar rætt var um tillögur að áyktunum um hin ýmsu efni. Raunar hófst fundurinn í Laugardalshöll klukkan rúmlega 13.00 á því, að Davíð Oddsson minntist Más Jóhannssonar, sem hafði unnið í skrifstofu flokksins með öllum formönnum hans nema Jóni Þorlákssyni og lést í gær 85 ára að aldri. Vottuðu fundarmenn Má virðingu sína með því að rísa úr sætum.

Geir. H. Haarde flutti framboðsræðu til formanns að lokinni minningarstundinni um Má og klukkan 15.00 fluttu þau Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir mennatmálaráðherra framboðsræður til varaformanns. Þess á milli og fram eftir degi kynntu talsmenn málefnanefnda niðurstöður sínar og gengið var til atkvæða um tillögur og breytingatillögur.

Á heimleið leit ég inn í kosningaskrifstofu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, en hann bauð landsfundarfulltrúum til fagnaðar.

Föstudagur, 14. 10. 05. - 14.10.2005 23:16

Ég er að lesa endurminningabókina efti Bon Dylan, sem heitir Chronicle I og gefur nafnið til kynna, að hann eigi eftir að skrifa fleiri bækur um eigið líf, þótt bókin sé ekki ævisaga í þess orðs merkingu. Bob Dylan er þremur árum eldri en ég og á sjöunda áratugnum sló hann í gegn og varð einskonar tákngervingur mótmælahreyfinga, sem nú eru kenndar við '68-kynslóðina og Víetnamstríðið. Í bókinni, sem er mikils metin víða um heim, segir Bob Dylan, að hann hafi aldrei litið á sjálfan sig sem málsvara neins eða átrúnaðargoð. Hann hafi í raun verið á flótta með sig og fjölskylduna undan eigin frægð og þegar fólk krafðist þess, að hann yrði tákngervingur andstöðunnar við stjórnvöld. Ég er sammála þeim, sem telja bókina meðal hinna bestu á útgáfuári hennar.

Mér kemur afstaða Bobs Dylans í hug, þegar ég les ýmislegt af því, sem Baugsmiðlarnir hafa verið að skrifa vegna landsfundar okkar sjálfstæðismanna. Skrifin eru spegill sálar þess, sem skrifar, en ekki hins, sem les og kemur oft af fjöllum. Bob Dylan skildi ekki, hvers vegna verið var að reyna að gera hann að málsvara, án þess að hann teldi sig hafa unnið til þess. Hið sama á við okkur, skotspæni Baugsmiðlaeineltis. Við undrumst, að það eigi rétt á sér, hvort sem reynt er að þagga niður í okkur eða hindra að við vinnum þau verk, sem okkur ber.

Öll þessi skrif Baugsmiðlanna eru dæmigerð fyrir þá, sem hafa rekist á sker og bjargast laskaðir af högginu.

Landsfundurinn gekk vel í dag. Ég hlustaði á hluta umræðna um stjórnmálaályktunina en þar var mikið rætt  um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri flokksins, flutti góða ræðu um flokksstarfið. Hann upplýsti meðal annar, að þrátt fyrir viðgerð á Valhöll yrði flokkurinn skuldlaus um næstu áramót.

Davíð bað fundarmenn að rísa úr sætum og klappa fyrir Kjartani og 25 ára framkvæmdastjórn hans. Gekk það eftir með glæsibrag.

Í hádeginu hittust sjálfstæðismenn í Reykjavík og þótti mér vænt um, að þar hvatti Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður til þess, að menn gerðust áskrifendur að tímaritinu Þjóðmálum og tek ég undir áskorun hans

Klukkan 14. 15 hófst spurningatími ráðherra og stóð hann til tæplega 17.00.

Ég var klukkan rúmlega 18.00 í flugskýli Landhelgisgæslu Íslands til að fagna 50 ára afmæli flugdeildar hennar. Var vel að þeim fagnaði staðið og sérstaklega merkilegt að sjá myndband  með sögu fluggæslunnar. Megi þeim vel vegna um ókomin ár!

Síðan leit ég inn í glæsilegt hóf, sem Gísli Marteinn Baldursson hélt fyrir landsfundarfulltrúa úr Reykjavík til að fagna fundinum og minna á framboð sitt í prófkjöri til borgarstjórnar.

 

 

 

 

Fimmtudagur, 13. 10. 05. - 13.10.2005 21:30

Hélt af stað frá Lúxemborg með KLM til Amsterdam klukkan 11.40, var um klukkutstund á Schipol-flugvelli, áður en Icelandair vélin hélt af stað klukkan 14.00, en sá tími dugði ekki til að koma töskunni á milli véla. Lenti í Keflavík 15.20 en á leiðinni yfir hafið var óvenjumikil ókyrrð.

Við Rut vorum komin í Laugardalshöllina rúmlega 17.00 til að sitja setningarfund 36. landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Davíð Oddsson flutti gagnmerka setningarræðu, þar sem hann drap á það, sem honum þótti merkast á starfsferli ríkisstjórna sinna síðan 1991 auk þess að víkja að málefnum líðandi stundar og þar á meðal Baugsmálinu. Þá sagði Davíð:

„Því er enn dapurlegra að ekki aðeins formaður Samfylkingarinnar, heldur einnig sumir þingmenn hennar, eins og ömurlegt uppistand í þinginu síðastliðinn þriðjudag sýndi, virðast naumast líta lengur á Samfylkinguna sem flokk en fremur sem tiltölulega léttvægt dótturfélag auðhrings. Við sjálfstæðismenn getum því ekki vænst stuðnings úr þessari átt. En það þarf ekki að koma á óvart. Samfylkingin hefur gefist upp á því að hafa nokkra sannfæringu eða stefnu. Í staðinn leggur sá flokkur nú áherslu á svo kölluð umræðustjórnmál. Og þegar komið er í innihaldslaus umræðustjórnmál þá eru dylgjurnar á næsta Leiti. Hún Gróa sem þar bjó bað menn þess lengstra orða að bera sig ekki fyrir því sem hún hafði eftir ónefndum ólygnum manni. Nú geta Gróurnar ekki lengur vitnað í ónefndan, því þá halda húsbændurnir að það sé ég.“

Hið „ömurlega uppistand“, sem Davíð vísar þarna til, varð þegar Lúðvík Bergvinsson og Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmenn Samfylkingarinnar, hófu árásir á mig vegna þess, sem sagði hér í dagbókinni sl. mánudag. Framganga þeirra hafði þau áhrif á Davíð, að honum þótti þeir virðast líta á flokk sinn sem „tiltölulega léttvægt dótturfélag auðhrings“.

Lesa meira

Miðvikudagur, 12. 10. 05. - 12.10.2005 16:28

Haustveðrið í Lúxemborg er mildara en það var, þegar ég hélt að heiman í gær. Haustlitirnir eru ekki síður fallegir hér en hjá okkur og þetta er ekki síðri tími til að ferðast um þessar slóðir en á sumrin í meiri hita og með fleiri ferðamönnum.

Það er verið að byggja mikið á flugvellinum í Lúxemborg ekki síður en annars staðar í heiminum. Hér er velmegun jafnvel meiri en á Íslandi og stórhýsunum í þeim hluta Lúxemborgar, þar sem Evrópusambandið hefur aðsetur, fjölgar stöðugt. Nú er verið að leggja lokahönd á risavaxinn fundarsal ESB-þingsins, en það kemur líklega stundum saman hérna, þótt fundarstaðir þess séu í Strassborg og Brussel.

Schengen-ráðherrafundurinn var hins vegar haldinn í einhvers konar skemmu, sem hefur verið innréttuð til fundarhalda en er líklega notuð á milli funda sem sýningarskáli. Að halda fundinn hér í Lúxemborg er í samræmi við þá reglu ESB að flytja ráðherrafundi á milli Brussel og Lúxemborgar, en það tekur um tvo og hálfan tíma að aka hingað frá Brussel, lendi menn ekki í umferðarteppu. Flugtíminn frá Kaupmannahöfn en einn tími og fjörutíu mínútur og eru þrjár ferðir á dag á vegum Luxair og mér skilst að SAS sé einnig að hefja flug hingað.

Frá fornu fari finnst mér alltaf vinalegt að koma á flugvöllinn í Lúxemborg, það er frá þeim tíma, þegar hann var helsti tengipunktur okkar Íslendinga til Mið-Evrópu. Hér eru höfuðstöðvar Cargolux, sem er eitt öflugasta vöruflutningaflugfélag í heimi og býr við mikla velgengni.

Fyrir hádegi efndi ég til fundar með fulltrúa breska innanríkisráðuneytisins, en Bretar fara nú með forsæti í Evrópusambandinu (ESB) og ræddum við málefni á dagskrá Schengen-ráðherrafundarins síðdegis.

Lesa meira

Þriðjudagur, 11. 10. 05. - 11.10.2005 10:43

Um klukkan 07.30 í morgun hringdi fréttamaður af hljóðvarpi ríkisins í mig og spurði, hvort ég hefði einhverju við það að bæta, sem ég sagði hér á síðunni í gær um dóm hæstaréttar í Baugsmálinu. Ég sagði svo ekki vera.

Eftir ríkisstjórnarfundinn í morgun sátu fréttamenn fyrir mér og lögðu fyrir mig spurningar vegna Baugsmálsins. Þá heyrði ég, að Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður framsóknarmanna, hefði krafist þess, að ég segði af mér vegna orða minna á vefsíðunni. Ég varð undrandi á að heyra þetta. Á síðunni sagði ég ekki annað en almælt tíðindi, enda stendur í sjálfum dómi hæstaréttar, að málinu sé ekki lokið fyrir dómstólum og þar með ekki í réttarkerfinu. Undir lok dóms hæstaréttar segir: „Með þeirri niðurstöðu, sem að framan er getið, standa eftir í máli þessu til efnisúrlausnar ákæruliðir, sem einn eða fleiri varða alla varnaraðila. Lýkur því málinu ekki með dómi þessum gagnvart neinu þeirra.“

Ég hélt út á Keflavíkurflugvöll um klukkan 11.30 til að taka flugvél klukkan 13.15 til Kaupmannahafnar. Á leiðinni í bílnum hlustaði ég á Hallgrím Thorsteinsson á Baugsmiðlinum Talstöðinni, þar sem honum var mikið í mun á að fá álit á orðunum á vefsíðu minni og kanna, hvort þau væru ekki örugglega eitthvað úr takt við það, sem menn mættu segja, það er við hinn pólitíska eða viðskiptalega réttrúnað þessara miðla. Jú, hann fékk Jón Magnússon, verjanda Baugsmiðilsins Fréttablaðsins, til að segja að ég væri klaufi og kjáni! Síðan hringdu nokkrir og tóku undir þá skoðun, að ég hefði líklega verið að gefa fyrirmæli með orðunum á vefsíðu minni! Er líklegt, að dómsmálaráðherra noti dagbók vefsíðu sinnar til að gefa fyrirmæli?

Þar sem ég var að fara til útlanda, gat ég ekki setið þingfund, en mér bárust fregnir af því, að Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, vildi ræða við mig utan dagskrár um orðin á vefsíðu minni.

Þegar ég kom hingað til Lúxemborgar, þar sem ég sit fund Schengen-ráðherra og stjórna samsettu nefndinni á morgun, sé ég, að Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, hefur rokið upp á nef sér á alþingi og sagt samkvæmt visir.com ( Baugsmiðli), að ég hafi „blaðrað á heimasíðunni“ en síðan flúið til útlanda! Hvorugt gerði ég, en í sömu veffærslu á visir.com segir, að þingmenn stjórnarandstöðunnar hafi farið „hamförum í ræðustól á Alþingi í dag vegna skrifa Björns Bjarnasonar á heimasíðu sinni frá í gær þar sem hann sagði réttarkerfið ekki hafa sagt sitt síðasta orð í Baugsmálinu.“

Mánudagur, 10. 10. 05. - 10.10.2005 21:18

Stórfrétt dagsins er að sjálfsögðu niðurstaða hæstaréttar í kærumálinu vegna Baugs. Réttarkerfið hefur ekki sagt sitt síðasta orð í málinu. Lögheimildir eru til þess, að ákæruvaldið taki mið af því, sem fram hefur komið hjá hæstarétti við frekari ákvarðanir um framhald málsins.

Klukkan 14.00 var ég í Þjóðmenningarhúsinu með Björgu Thorarensen prófessor, sem stjórnar Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, en hún var að gefa út fyrsta hefti af reifunum á dómum Mannréttindadómstólsins í Strassborg. Dómsmálaráðuneytið styrkir útgáfuna og þess vegna sagði ég nokkur orð á fundinum, en útgáfa þessara reifana er enn til marks um alþjóðvæðingu lögfræðinnar.

Á alþingi svaraði ég einni óundirbúinni fyrirspurn frá Björgvini G. Sigurðssyni, Samfylkingu, sem ræddi um málaferli Jóns Ólafssonar í Skífunni gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni prófessor, út af ummælum, sem birtust á ensku á vefsíðu Hannesar og leiddu til þess, að dómari í London dæmi Hannes til að greiða Jóni 12 milljónir króna. Var Björgvin að velta fyrir sér réttarstöðu íslenskra netverja í þessu ljósi. Ég gat ekki annað en vísað til þess, að málið milli Jóns og Hannesar væri nú hjá íslenskum dómstóli og vildu menn breyta lögum vegna þess, væri rétt að sjá fyrst, hvað dómstóllinn segði. Þá benti ég á, að ítarlegar skýringar hefðu fylgt Lúganó-samningnum, þegar hann var lagður fyrir alþingi til fullgildingar og þær væri að finna á vefsíðu ráðuneytisins.

Klukkan 16.00 hitti ég dagskrárgerðarkonu og myndatökumann frá danska sjónvarpinu, sem eru hér að gera langan sjónvarpsþátt um Ísland og hafði hún meðal annars áhuga á að ræða við mig um qi gong. Ég svaraði á minni skandinavísku, sem hefur dugað mér bærilega í gegnum tíðina, þótt á henni séu hnökrar. Þau komu í ráðuneytið, heim til mín og síðan í þinghúsið - tók þetta næstum þrjá tíma allt saman.

Sá nýja útgáfu af Kastljósi og þótti vel til takast, á meðan mér gafst tóm til að horfa. Það var brugðið upp góðri mynd af hinu flókna Baugsmáli, bæði upphafi þess og núverandi stöðu.

Sunnudagur, 09. 10. 05. - 9.10.2005 18:52

Eftir að hafa notið morgunblíðunnar austur í Fljótshlíða og tekið hross af járnum, ókum við í Marteinstungukirkju og sátum messu hjá séra Halldóru J. Þorvarðardóttur, prófasti í Fellsmúla.

Hellisheiðin er greiðfærari, eftir að nýi vegurinn yfir Svínahraun hefur verið opnaður. Var oft tafsamt að aka þann hluta vegarins, sem hefur nú verið aflagður, auk þess sem sú aðferð að hafa þrjár akreinar er til þess fallin að draga úr því að raðir myndist á eftir hægfara bílum. Ég velti því hins vegar fyrir mér, hvernig vegrið á miðjum veginum reynist, þegar snjóa tekur.

 

 

 

 

Laugardagur, 08. 10. 05. - 8.10.2005 23:38

Sá í netútgáfu Berlingske TidendeBítlaávarpið eftir Einar Má Guðmundsson, sem er nýkomið út á dönsku, fær fjórar stjörnur af sex.

Fjölmiðlar hafa sagt frá því, að mannanafnanefnd sagði nýlega af sér. Dómsmálaráðuneytinu barst bréf, þar sem kvartað var undan því, sem talin voru ámælisverð vinnubrögð nefndarinnar. Ráðuneytið beindi því vinsamlega til nefndarinnar, að hún hugaði að málinu í ljósi meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Nefndin gerði það og sagði síðan af sér. Af sumum fréttum mætti ætla, að ráðuneytið hefði talið vinnubrögðin ámælisverð, það er misskilningur. Ráðuneytið vísaði í því efni til bréfs kvartanda.

Föstudagur, 07. 10. 05. - 7.10.2005 20:49

Ríkisstjórnin kom saman í Ráðherrabústaðnum í morgun, annan föstudaginn síðan ákveðið var að föstudagsfundir skyldu vera þar.

Við heilbrigðis- og tryggingaráðherra lögðum fram minnisblað um viðbrögð, ef hér yrði svokölluð fuglaflensa, en nú þykir sannað að spánska veikin 1918 hafi verið slík flensa, en þá létust 50 milljónir manna um heim allan. Nýlega sagði sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna, að 150 milljónir manna kynnu að látast vegna slíkrar flensu nú á tímum, en strax daginn eftir sagði talsmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) að tala látinna gæti orðið 7,5 milljónir manna.

Tillögur um viðbúnað hér á landi eru vel rökstuddar og hógværar. Vandi stjórnvalda hér sem annars staðar er að vinna að undirbúningi nauðsynlegra aðgerða, án þess að viðbúnaðurinn veki ótta meðal almennings og öryggisleysi.

Fréttir bárust um það síðdegis, að þrjú tilvik fuglaflensu hefðu verið greind í Rúmeníu, hvort það er fuglaflensan óttalega eða eitthvert annað afbrigði, kom ekki fram. Eitt er víst, að í þessu efni er allur varinn góður.

Fimmtudagur, 06. 10. 05. - 6.10.2005 21:06

Fór klukkan 17.00 í gamla Símahúsið við Austurvöll, þar sem Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarfulltrúi var að opna prófkjörsskrifstofu með pomp og pragt og miklum fjölda gesta. Illugi Gunnarsson, aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar, og Ásdís Halla Bragadóttir, forstjóri Byko, fluttu ávörp auk frambjóðandans og Ragnar Bjarnason söng með undirleik Þorgeirs Ástvaldssonar á harmóníku.

Ég hef fylgst með Hönnu Birnu, frá því að hún hóf afskipti af stjórnmálum og nú setið með henni í borgarstjórn í rúm þrjú ár, og tel hana vel að því komna að hljóta 2. sætið á framboðslistanum í vor eins og hún sækist eftir - fyrir utan að við Reykvíkingar eignuðumst með því góðan og skeleggan forystumann.

 

Miðvikudagur, 05. 10. 05. - 5.10.2005 22:08

Merkilegt að sjá það gert að jafnmiklu umræðuefni og raun ber vitni, að Hlynur Hallsson, varaþingmaður vinstri/grænna, skyldi flytja ræðu í þingi í gærkvöldi án þess að hafa hálsbindi eða slaufu. Það virtist enginn fjölmiðill hafa áhuga á því, hvað Hlynur hafði fram að færa í umræðunum, heldur hvernig hann var klæddur. Úr því að forseti þingsins leyfði Hlyni að klæðast á þennan hátt, hefur ísinn verið brotinn fyrir okkur karlana í þinginu - eða hvað? Ég minnist þess að Spánverjinn Martinez, sem kjörinn var forseti þings Evrópuráðsins, gekk aldrei með hálstau en var hins vegar oft í skyrtum með fallegum hnöppum.

Sú spurning vaknar hjá þingmönnum, hvort þeir eigi að geta verið með fartölvur í þingsalnum. Sem betur fer hefur ekki verið farið inn á þá braut, bæði vegna þess að það mundi spilla öllu andrúmslofti í salnum fyrir utan að borð hvers þingmanns er svo lítið, að það rúmar varla tölvu. Fartölvur eru leyfðar í fundarsal borgarstjórnar og finnst mér ekki fara vel á því, skrýtnast þykir mér að sjá borgarfulltrúa bera fartölvu upp í ræðustól og lesa af henni ræðu sína. Klæðaburður karla í borgarstjórn er frjálslegri en í þinginu, þótt almennt sæki karlar fundi þar í jakkafötum með hálsbindi.

Ég átta mig ekki alveg á gagnrýni frjálslyndra á þá tilhögun við kjör forseta þingsins, að ekki sé unnt að segja nei, ef aðeins einn er í kjöri - annað hvort greiðir maður þessum eina atkvæði eða skilar auðu - er einhver annar kostur? Ef dreift væri atkvæðaseðlum og menn ættu að skrifa nafn þess, sem þeir ætluðu að kjósa, myndu frjálslyndir þá skrifa nei?

Þriðjudagur, 04. 10. 05. - 4.10.2005 22:36

Borgarstjórn kom saman klukkan 14.00 og var það aðgerðalítill fundur, sérkennilegast þótti mér, að Árni Þór Sigurðsson, oddviti vinstri/grænna, flutti ræðu um alþjóðasamninga en enginn annar tók til máls um þá. Björk Vilhelmsdóttir einnig vinstri/græn talaði um velferðarmál en þær umræður snerust mest um andmæli stéttarfélags félagsráðgjafa við ráðningum starfsfólks á hinar nýju þjónustumiðstöðvar og vakti Guðrún Ebba Ólafsdóttir Sjálfstæðisflokki athygli á því, að bréf félagsráðgjafanna var skrifað 29. júní, 12. júlí lá fyrir álit embættismann borgarinnar á bréfinu en því var ekki svarað fyrr en 3. október eftir ítrekun frá félagsráðgjöfunum. Taldi Guðrún Ebba þetta ekki til marks um góða stjórnsýslu eða mikla virðingu borgarstjóra fyrir þessu félagi. Helga Jónsdóttir, staðgengill borgarstjóra, sagði ekki annað unnt en að afsaka þennan seinagang en hann væri ekki dæmigerður fyrir vinnubrögð í ráðhúsinu.

Klukkan 19.50 flutti Halldór Ásgrímsson stefnuræðu á alþingi og voru umræður um hana fram til klukkan 22.00.

Samfylkingarforystan Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður og Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður slógu bæði sama tón, að hér væru stjórnarhættir þannig að síst væri til fyrirmyndar. Einkennileg voru því lokaorð Ingibjargar Sólrúnar, eftir að hún hafði fundið ríkisstjórninni allt til foráttu, sagði hún: „Ríkisstjórnin á næsta leik.“ Er unnt að skilja þetta á annan veg en þann, að Samfylkingin sé að skjóta sér undan frumkvæði? Hvers vegna á ríkisstjórn, sem að mati ræðumanns er óalandi, næsta leik? Til að gera hvað? Halldór Blöndal afgreiddi spillingartalið í Ágústi Ólafi með því að minna á, að hann hefði verið kjörinn varaformaður með 900 atkvæðum á 500 manna fundi.

Athyglisvert var, að hvorki Ingibjörg Sólrún né Ágúst Ólafur héldu á loft kröfunni um að þingnefnd rannsakaði aðdraganda Baugsmálsins. Sú tillaga Ágústs Ólafs hefur greinilega ekki hlotið stuðning í þingfokki Samfylkingarinnar.

Mánudagur, 03. 09. 05. - 3.10.2005 21:57

Í dag eru rétt 15 ár síðan Þýskaland sameinaðist, það er 3. október 1990, innan við ári, eftir að múrinn féll. Ég sá fróðlega mynd um aðdraganda sameiningarinnar í DR 2 í kvöld, þar sem Mikhaíl Gorbatsjov, fyrrverandi leiðtogi sovéskra kommúnista, var einskonar fréttamaður og ræddi við Helmut Kohl, þáverandi kanslara Vestur-Þýskalands, Hans Dietrich-Genscher, þáverandi utanríkisráðherra Vestur-Þýskalands, og George Bush, þáverandi forseta Bandaríkjanna, auk þess rætt var við fleiri, sem komu við þessa merku sögu og sýndar myndir frá sögulegum atburðum. Hlutur Kohls í þessu ferli öllu er einstæður og hvernig hann spilaði eftir eyranu og tilfinningu sinni, þegar hann flutti ræður og mótaði leiðina til sameiningar Þýskalands, án þess að ræða það, sem hann sagði fyrirfram við utanríkisráðherra sinn eða bandamenn í Evrópu og Bamdaríkjunum. Kohl sagðisy einnig varla hafa trúað sínum eigin eyrum, þegar hann ræddi við Gorbatsjov í Moskvu síðsumars og hlustaði á Gorbatsjov lýsa yfir því, að Sovétstjórnin myndi ekki andmæla sameiningu Þýskalands.

Vel gerðir sjónvarpsþættir um sögulega atburði úr samtímanum eru alltof sjaldgæfir í íslensku sjónvarpi, hvort sem um er að ræða innlenda eða erlenda atburði. Heimildarþættir almennt um annað en náttúru og dýr virðast ekki eiga upp á pallborð þeirra, sem velja ofan í okkur sjónvarpsefni á innlendu stöðvunum.

Í dag komust utanríkisráðherrar ESB-landanna að niðurstöðu, sem dugði utanríkisráðherra Tyrklands til að halda til fundar við þá í því skyni að hefja formlega göngu Tyrkja inn í ESB - en talið er að aðildarviðræðurnar taki 10 ár.

Skýrt var frá því fréttum hljóðvarps ríkisins, að sl. fimmtudag hefði Hallgrímur Geirsson, framkvæmdastjóri Árvakurs, farið í skrifstofu Baugsfyrirtækisins Haga til að ræða um auglýsingar í Morgunblaðinu við Finn Árnason, forstjóra Haga.

Laugardagur, 01. 10. 05. - 1.10.2005 17:37

Alþingi var sett í dag. Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins komum saman á fundi klukkan 12. 30 og ræddum sameiginleg mál en rétt fyrir klukkan 13. 30 gengu þingmenn til kirkju ásamt forsetahjónunum, biskupi og séra Valgeiri Ástráðssyni, sem predikaði.

Ólafur Ragnar Grímsson flutti ræðu um við setningu þingsins og vék meðal annars að fjölmiðlum á þennan veg: „Nú ræður fjölbreytileikinn fréttum dagsins, margar stöðvar keppa um hylli fólksins og flokkarnir eiga ekki lengur á vísan að róa í fjölmiðlunum. Lýðræðið er í vaxandi mæli vettvangur fólks með ólíka reynslu, mismunandi upplýsingar, fréttir sem berast úr mörgum áttum. Enginn miðill nær lengur til allra.“

Við veltum því fyrir okkur nokkrir þingmenn eftir ræðuna, hvort síðasta setning hinna tilvitnuðu orða væri svar Ólafs Ragnars til þeirra mörgu, sem nú hafa snúist á sveif með okkur, sem teljum nauðsynlegt að setja lög um samþjöppun eignarhalds á fjölmiðum, þegar allt að 80% fjölmiðlunar í landinu er á einni hendi, og Baugsmiðlunum er beitt á einstakan hátt eins og nýleg dæmi sanna. Ef enginn einn miðill nær lengur til allra, er best að eignast alla miðlana, kynni einhver auðmaður að hafa sagt.

Ólafur Ragnar vék einnig að okkur þingmönnum, sem notum netið og sagði: „Er tölvan kannski orðin þingmönnum öflugra áhrifatæki en ræðustóllinn hér í salnum? Þarf hinn kjörni fulltrúi ekki lengur á þingfundi að halda til að koma viðhorfum sínum til kjósendanna? Getur rödd eins þingmanns sem berst eftir netslóðum orðið áhrifaríkari en ályktanir þingflokkanna?“

Svar mitt við þessum spurningum er einfaldlega nei og byggi ég það á tæplega 11 ára reynslu af því að halda úti vefsíðu. Netið eða skrif á það koma að sjálfsögðu aldrei í stað þess að flytja mál í þingsalnum eða standa að afgreiðslu mála í þingflokki. Miklu meiri spurning er, hvernig netið nýtist til að mæla afstöðu almennings til einstakra mála og hvort það kemur í stað hefðbundinna aðferða til að kynnast viðhorfi almennings, til dæmis með þjóðaratkvæðagreiðslu, og ryðji þess vegna úr vegi gamalli arfleifð í því efni, en stundum má rekja hana allt aftur til einveldistímans á 19. öld, án þess að hún sé talin þróast í takt við þingræðisregluna.