28.10.2005 21:47

Föstudagur, 28. 10. 05

Í hádeginu hittum við Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður fulltrúa íbúasamtaka Laugardals, sem lýstu áhyggjum sínum vegna Sundabrautar og áhrifa hennar á hverfi sitt.

Klukkan 14.00 var ég á aðalfundi Dómarafélags Íslands og flutti þar ræðu.

Klukkan 16.00 fór ég með öðrum starfsmönnum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um borð í varðskipið Ægi, þar sem við hittum skipverja og aðra starfsmenn gæslunnar og skoðuðum skipið.

Leiðtogafundur Evrópusambandsins var haldinn í Hampton Court í Bretlandi í gær, án þess að þar gerðist nokkuð, sem vekur sérstaka athygli í fréttum, enda er ESB sífellt að verða innhverfara, eftir að sáttmálinn um stjórnarskrána var felldur. Það er til marks um tilgangsleysi fundarins, að þar sat Gerhard Schröder, fráfarandi kanslari Þýskalands, til þess eins að Angela Merkel, arftaki hans í kanslaraembættinu, gæti ekki tekið þátt í fundarstörfum. Lech Kaczynski, nýkjörinn forseti Póllands og efasemdarmaður um ESB, var ekki á fundinum. Þýskaland og Pólland eru með fjölmennustu ríkjum ESB og halli þau sér frekar að Bretlandi en Frakklandi, mun þungamiðjan innan ESB færast, auk þess sem ljóst er, að Jacques Chirac Frakklandsforseti er orðinn heilsuveill og farinn að búa sig undir brottför úr embætti sínu.