Dagbók: júlí 2013
Miðvikudagur 31. 07. 13
Í dag ræddi ég við Jón Ásbergsson, forstjóra Íslandsstofu, í þætti mínum á ÍNN. Næst má sjá þáttinn klukkan 22.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun.
Stefán Ólafsson prófessor skipti um gír þegar dró að kjördegi og tók að gera hosur sínar grænar fyrir Framsóknarflokknum í stað þess að mæra Samfylkinguna, Að kosningum loknum uppskar hann traust Eyglóar Harðardóttur, félagsmálaráðherra úr Framsóknarflokknum, og var endurskipaður formaður stjórnar Tryggingastofnunar ríkisins.
Stefán hamrar á að hann sé ekki í Samfylkingunni – hvað sem því líður snýst hann harkalega gegn Sjálfstæðisflokknum og segir í nýjasta bloggi sínu (31. júlí):
„Frjálshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum eru nú á dögum helstu öfgamennirnir í íslenskum stjórnmálum. Fyrir margt löngu mátti segja það um þá sem voru lengst til vinstri, sósíalista og kommúnista. […]
Framsóknarmenn verða að passa sig á því að láta ekki Sjálfstæðismenn draga sig ofan í þetta fen [að normalísera hægri öfgana í bandarískum stjórnmálum inn í íslensk stjórnmál eins og Stefán orðar það] í stjórnarsamstarfinu. Það er mikilsvert að viðhalda norrænu samfélagsgerðinni hér á Íslandi áfram. […]
Framsókn hefur mikilvægu sögulegu hlutverki að gegna. Hún þarf að vera mótvægi gegn öfgafrjálshyggjunni í Sjálfstæðisflokknum og viðhalda og endurnýja norræna velferðarkerfið á Íslandi.“
Ástæða er til að spyrja hvaða erindi sjálfstæðismenn telja sig í eiga í samstarf við stjórnmálaflokk sem treystir manni með slíka pólitíska dómgreind til að sitja í formennsku Tryggingastofnunar ríkisins. Er prófessorinn að sinna „mikilvægu sögulegu hlutverki“ og fórna sér gegn „öfgafrjálshyggjunni“ með því að taka að sér þessa formennsku? Hefur Stefán Ólafsson efni á að saka aðra um öfga?
Þriðjudagur 30. 07. 13
Að loknum sumarleyfum taka stjórnmálaflokkarnir til við að ákveða framboðslista sína fyrir sveitarstjórnakosningarnar vorið 2014. Erfitt er að átta sig hvað helst muni setja svip á kosningabaráttuna. Í Reykjavík hefur markvisst verið unnið að því að þurrka stjórnmálaátök út í borgarstjórn og erfitt að sjá um hvað verður tekist bæði innan flokka og milli flokka í tilefni af kosningunum. Þessi þróun er ekki til þess fallin að vekja áhuga almennings á stjórn sveitarstjórna. Sé allt sami grautur í sömu skál skiptir engu hver er kosinn.
Dramað í kringum REI-málið haustið 2007 skyldi eftir sig sár hjá öllum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem stöðvuðu framgang málsins eiga lof skilið fyrir það en þeir sátu undir hörðum árásum og enn þann dag í dag má finna einstaklinga, meðal annars innan Sjálfstæðisflokksins, sem umturnast þegar vikið er því hve illa og hneykslanlega var staðið að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur þegar hún var leidd út í REI-foraðið. Vinstri flokkunum er ekki ljúft að um málið sé rætt.
Mánudagur 29. 07. 13
Það fer ekki á milli mála að stefnt er að framhaldsþáttum af House of Cards en fyrstu lotu lauk í sjónvarpinu í kvöld. Þá er boðað að í september verði fjórða lota að Downton frumsýnd í Bretlandi og Danir boða Brúna II. Gamlir kunningjar eru greinilega vinsælir í sjónvarpi.
Sunnudagur 28. 07. 13
Ólafsvakan er hafin í Færeyjum til minningar um Ólaf helga. Þar minnast menn sögu sinnar og þjóðmenningar með því að heiðra Ólaf hinn helga Noregskonung. Siðaskiptin megnuðu ekki að rjúfa þessi tengsl við hin kristilegu gildi sem móta þjóðarsöguna. Unnt var að fylgjast með setningu vökunnar í færeyska sjónvarpinu í kvöld.
Í dag lauk Reykholtshátíð í Borgarfirði, frú Agnes M. Sigurðardóttir biskup flutti prédikun í hátíðarmessu. Tónlistarhátíðinni lauk á píanókvartett eftir J. Brahms í glæsilegum flutningi Ara Þórs Vilhjálmssonar fiðlu, Ásdísar Valdimarsdóttur lágfiðlu, Bryndísar Höllu Gylfadóttur selló og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur píanó.
Kirkjan var þéttsetin og flytjendum var innilega fagnað í lok tónleika.
Það var skýfall utan dyra og mátti heyra þrumur í þögn milli kafla í flutningi kvartettsins.
Laugardagur 27. 07. 13
Eiður Guðnason var á sínum tíma fréttamaður ríkissjónvarpsins, síðan alþingismaður, ráðherra og sendiherra. Hann heldur úti vefsíðu með fjölmiðlagagnrýni og segir þar í dag:
„Það er til lítils að beina spurningum til Ríkisútvarpsins. Stjórnendur þar telja óþarft að svara slíku. Stofnunin skuldi almenningi ekki neinar skýringar í sambandi við framkvæmd dagskrár í útvarpi og sjónvarpi. Okkur kemur það ekki við.“
Eiður birtir þetta sama dag og sagt er frá því í Morgunblaðinu að ríkisútvarpið stefni á að halda opið útvarpsþing næstkomandi vetur, verði þingið opið almenningi og auglýst þegar nær dregur. Af orðum Páls Magnússonar útvarpsstjóra má ráða að dagsetning þingsins miðist við komu erlendra gesta til þess „allskonar aðilar verði fengnir til að vera með framlög, innlegg og erindi á þinginu varðandi alla þætti í starfi og stefnu Ríkisútvarpsins,“ segir í frétt Morgunblaðsins.
Fréttina og viðbrögð útvarpsstjóra má rekja til þess að Óli Björn Kárason vakti í grein í Morgunblaðinu miðvikudaginn 24. júlí máls á ákvæði í þjónustusamningi ráðuneytis og ríkisútvarps frá 2011 þar sem stjórnendur útvarpsins eru skyldaðir til að efna árlega til opins útvarpsþings.
Í viðtalinu við Morgunblaðið hafði Páll Magnússon enga haldbæra skýringu á hvers vegna útvarpsing var ekki haldið árið 2012. „Það er svo sem engin ástæða fyrir því önnur en sú að það var aðeins að bögglast fyrir okkur formið á þinginu, þ.e. hvernig við ættum að hafa þetta, hverja ætti að boða til þess og svoleiðis,“ segir útvarpsstjóri. Nú hefur ríkisútvarpið náð tökum á því að halda útvarpsþing – tímasetningin ræðst af komu erlendra gesta!
Hvernig halda menn að fréttastofa ríkisútvarpsins tæki á máli af þessu tagi ef um væri að ræða aðra opinbera stofnun? Stofnun sem kynni ekki að halda ársfund?
Föstudagur 26. 07. 13
Undanfarin ár hafa Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon látið eins og stjórn þeirra á ríkisfjármálum og efnahagsmálum hafi tryggt Íslendingum aðra og betri stöðu en öðrum þjóðum sem fóru illa út úr alþjóðlegu bankarkreppunni. Ríkisreikningur síðasta árs stjórnar Jóhönnu var birtur á dögunum.
Hagfræðideild Landsbankans segir að niðurstaða reksturs ríkisins á árinu 2012 hafi verið tvöfalt verri en lagt var upp með í fjárlagafrumvarpi ársins. Fjárlagafrumvarpið var upphaflega lagt fram með 18 milljarða halla en endanleg niðurstaða varð 36 milljarða halli. Deildin segir að skuldastaða ríkisins sé mjög alvarleg og mun verri en gerist í flestum nálægum ríkjum. Á árinu 2012 hafi tæplega 15% tekna ríkisins runnið í vaxtagreiðslur. Sú upphæð nemi tvöföldum rekstri Landspítalans á árinu 2013. Það sé því mjög mikilvægt að ná tökum á rekstri ríkisins, skapa afgang og hefja niðurgreiðslu skulda.
Hagfræðideildin segir að skuldastaða ríkissjóðs hafi verið orðin „vel ásættanleg“ fyrir hrun en á hinn bóginn numið 1.950 milljörðum króna um síðustu ármót þar af hafi lífeyrisskuldbindingar verið um 390 milljarðar króna. Sé miðað við hlutfall heildarskulda af vergri landsframleiðslu hafi það hlutfall farið yfir 117% á árinu 2011, en lækkaði niður í 114% á árinu 2012. „Þetta hlutfall er mjög hátt í sögulegu samhengi, en einnig í samanburði við þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við,“ segir hagfræðideildin.
Árið 2012 var skuldahlutafallið yfir 100% í fjórum evru ríkjum: Grikkland 156,9%, Ítalíu 127%, Portúgal 123,6% og Írlandi 117,6%. Hvergi telja menn að þjóðir þessara landa standi vel að vígi.
Fimmtudagur 25. 07. 13
Í dag var sagt frá því að stærsti blaðaútgefandi í Þýskalandi Axel Springer-verlag hefði selt flest blöð sín og tímarit fyrir utan Bild og Die Welt fyrir tæpan milljarð evra. Ný stefna hefði verið mótuð innan fyrirtækisins með rafræna útgáfu að leiðarljósi.
Þessi þróun er í samræmi við allt annað sem er að gerast hjá stærstu blaðaútgefendum heims. Þeir vinna hörðum höndum að breytingum sem miða að nýtingu upplýsingatækninnar til að halda stöðu sinni og hasla sér völl á nýjan hátt.
Axel Springer hefur meðal annars breytt prenttækni við útgáfu á fjöldablaðinu Bild til að venja lesendur þess á að nýta netið til upplýsingaöflunar.
Er unnið að sambærilegri stefnumótun innan íslenskra útgáfufyrirtækja?
Miðvikudagur 24. 07. 13
Á dv.is er slegið upp að við Eiður Guðnason séum ósáttir við að engir ráðherrar skuli hafa verið á Skálholtshátíð sunnudaginn 21. júlí. Ég lét mér það í léttu rúmi liggja en minntist á þessa staðreynd lauslega í pistli mínum um hátíðina þennan sunnudag. Ég sagðist ekki heldur hafa séð neinn þingmann sem ég þekkti á hátíðinni þann dag. Laugardaginn 20. júlí hitti ég hins vegar Vilhjálm Bjarnason, þingmann Sjálfstæðisflokksins, á þeim hluta hátíðarinnar sem þá var haldinn.
Eftir að frá þessu er sagt á dv.is koma þeir úr fylgsnum sínum sem telja sér sæma að ausa úr skálum reiði sinnar yfir þeim sem þeir eru ósammála. Það er ánægjulegt fyrir ráðherrana að fá stuðning úr þeirri átt í umræðum um fjarveru þeirra frá Skálholtshátíðinni.
Frumlegasta sjónvarpsdagskrá norðurslóða og þótt víðar væri leitað er í NRK 1 um þessar mundir, sólarhingum saman, bein útsending frá ferð skips með strönd Noregs. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem efnið er sýnt enda nýtur það mikilla vinsælda í Noregi. Öðru hverju er leikin tónlist annars ríkir þögn í útsendingunni.
Þriðjudagur 23. 07. 13
Jónas Haraldsson lögfræðingur ritar athyglisverða grein í Morgunblaðið í dag um meðferð kínverska ríkisins á húseign sinni við Víðimel í Reykjavík. Engu er líkara en Kínverjar líti þannig á að húsið sé einskis nýtt eftir að þeir yfirgáfu það og þeir ætli að láta það grotna niður sjálfum sér til skammar.
Þetta er ekki fyrsta dæmið um að nágranni erlends sendiráðs í Reykjavík kvarti undan nábýlinu. Nágrannar rússneska sendiráðsins við Garðastræti hafa lent í útistöðum við rússnesk yfirvöld án þess að íslensk stjórnvöld geti látið málið sig varða vegna úrlendisréttar sendiráða, þau eru í raun hluti þess ríkis sem á þau og innlendum yfirvöldum er bannað að láta að sér kveða innan þeirra eða á lóðum þeirra.
Jónas segir meðal annars í grein sinni:
„Ekki er hægt að líta á hús sem einhvern hlut eða drasl, sem eigandinn er hættur að nota eða búinn að fá leið á og hefur hent út í kompu, en ætlar kannski að nota einhvern tímann í framtíðinni ef svo ber undir. Hér mætti taka tillit til okkar næstu nágranna.“
Kínverskir sendiráðsmenn svöruðu ekki fréttamönnum sem leituðu viðbragða þeirra við grein Jónasar. Þau kunna að verða á þann hátt að um móðgun í garð kínverska ríkisins sé að ræða og íslenskum stjórnvöldum beri að verja hagsmuni kínverskra yfirvalda gagnvart gagnrýni af þessu tagi. Viðbrögðin kunna einnig að verða þau að Kínverjar taki sig saman í andlitinu og hressi upp á húseign sína og garðinn sem henni fylgir eða selji þessa eign. Áður en til þess kemur eiga þeir áreiðanlega eftir að fínkemba hana til að afmá allt sem vekja kann grunsemdir um óvenjulega starfsemi í húsinu.
Mánudagur 22. 07. 13
Mikillar tvöfeldni gætir í umræðum á opinberum vettvangi. Annars vegar er hópur fólks sem telur sér heimilt að vega að öðrum á algjörlega ómálefnalegan hátt með skömmum og svívirðingum. Þetta fólk lætur einkum að sér kveða með neikvæðum upphrópunum og ásökunum í netheimum. Hins vegar er hópur fólks sem býður fram krafta sína til starfa fyrir samfélagið og axlar ábyrgð á orðum sínum. Þegar þetta fólk segir skoðun sína er eins og því séu settar einhverjar skorður, það megi ekki lýsa afstöðu sinni, hvað það telur sig hafa gert rétt eða rangt.
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, ræðir við Þóru Tómasdóttur, ritstjóra tímaritsins Nýs lífs, og í öðrum fjölmiðlum hefur athygli verið dregin að orðum hennar þar sem hún segist skammast sín fyrir að hafa staðið að kjöri Ólafs F. Magnússonar sem borgarstjóra í janúar 2008. Fyrir þetta hefur hún verið ávítt.
Ég sat í borgarstjórn í fjögur ár 2002 til 2006 og minnist þess ekki að Ólafur F. hafi látið vinsamleg orð falla í garð okkar sjálfstæðismanna og þótti því sérkennilegt þegar hann tók yfirleitt í mál að gegna embætti borgarstjóra með stuðningi þeirra. Mér finnst ekki á nokkurn hátt ámælisvert að Þorbjörg Helga segi skoðun sína á þessu máli eða öðrum.
Einn þeirra sem gekk fram fyrir skjöldu og gagnrýndi Þorbjörgu Helgu var Sigurjón M. Egilsson, fjölmiðlamaður og álitsgjafi á Bylgjunni. Því ber að sýna samúð að Sigurjóni M. sé misboðið þegar fólk lýsir opinberlega yfir að það skammist sín fyrir aðild sína að einhverju opinberu máli. Í mínum huga er hann marklaus fjölmiðlamaður á meðan hann gerir ekki upp við þjónkun sína við Baugsmenn þegar þeir beittu fjölmiðlum sínum purkunarlaust í eigin þágu og höfðu framvarðarsveit sem beitti stílvopni sínu fyrir eigendur Baugsmiðlanna. Þar lá Sigurjón M. ekki á liði sínu. Það eru meðmæli með Þorbjörgu Helgu sem stjórnmálamanni að Sigurjón M. hallmæli henni.
Sunnudagur 21. 07. 13
Laugardagur 20. 07. 13
Séra Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti, setti Skálholtshátíð klukkan 12.00 í dag á tröppum Skálholtskirkju. Þaðan var gengið að Þorlákssæti þar sem séra Kristján Valur og og séra Egill Hallgrímsson, prestur í Skálholti, sungu messu.
Eftir hádegisverð opnaði séra Kristján Valur sýningu í Skálholtsskóla „Hálfrar aldar hátíð“ en nú er minnst að 50 ár eru liðin frá því að kirkjan fékk Skálholt til eignar og dómkirkjan var vígð.
Þá flutti Guðmundur G. Þórarinsson tæplega 60 mínútna erindi um hina fornu sögualdartaflmenn frá Ljóðhúsum á Suðureyjum – The Lewis Chessmen – sem hann telur að hafi verið gerðir af Margréti hinni oddhögu í Skálholti á dögum Páls biskups Jónssonar. Guðmundur G. flutti sannfærandi rök fyrir að taflmennirnir væru íslenskir að uppruna.
Niðurstöður Guðmundar G. Þórarinssonar um þetta efni eru stórmerkilegar og vekja athygli langt út fyrir landsteinana.
Fræðasamfélagið hér á landi er ákaflega íhaldssamt gagnvart nýjum hugmyndum þótt þær séu studdar sterkum rökum. Dr. Helgi Guðmundsson prófessor ritaði þó á sínum tíma bókina Um haf innan þar sem færð eru sannfærandi rök fyrir mikilvægi Grænlandssamskipta fyrir ríkidæmi Íslendinga um svipað leyti og sögualdartaflmennirnir voru gerðir.
Síðdegis söng kór Breiðholtskirkju undir stjórn Arnar Magnússonar í Skálholtskirkju og að loknum aftansöng og kvöldverði lék Skálholtskvartettinn tvo kvartetta eftir Joseph Haydn.
Föstudagur 19. 07. 13
Ken Rudd, nýr forsætisráðherra Ástralíu, tilkynnti í dag að framvegis kæmi ekki einn einasti hælisleitandi til Ástralíu. Þeir yrðu allir fluttir til Papúa Nýju-Gíneu þar sem þeir myndu dveljast. Í BBC var rætt við þingmann þess kjördæmis þar sem hælisleitendurnir munu búa á Papúa Nýju-Gíneu og var hann í skýjunum yfir að samningur hefði tekist um þetta við ríkisstjórn Ástralíu. Þetta þýddi að Ástralar myndu leggja betri flugvöll í kjördæmi hans og skapa fjölda fólks vinnu. Flóttamennirnir myndu ekki trufla líf heimamanna því að þeir yrðu í sérstökum búðum á kostnað Ástrala. Það væri skiljanlegt að ríkisstjórn Ástralíu tæki þessa ákvörðun það hlyti hver maður að sjá hve óeðlilegt væri að óboðnir reyndu að komast bakdyramegin inn í eitthvert land.
Ken Rudd er úr Verkamannaflokknum í Ástralíu, hann var nýlega endurkjörinn flokksleiðtogi eftir nokkurra ára hlé. Í fyrri leiðtogatíð sinni fylgdi hann hefðbundinni stefnu Verkamannaflokksins sem er reist á vilja til að taka við hælisleitendum. Stefnan mælist almennt illa fyrir meðal Ástrala og með kúvendingu sinni ætlar Rudd að skáka hægri mönnum í kosningum sem talið er að hann boði fljótlega.
Markmið forsætisráðherrans er að bjarga lífi flokks síns og boða stefnu sem hann telur að geti aflað honum nægilegs fylgis til að halda völdum í næstu kosningum.
Fimmtudagur 18. 07. 13
Þátturinn á ÍNN þar sem ég ræði við Vilhjálm Bjarnason, þingmann Sjálfstæðisflokksins, er kominn á netið og má sjá hann hér.
Einkennileg deila er sprottin upp þar sem starfsmenn fréttastofu ríkisútvarpsins og Páll Vilhjálmsson blaðamaður deila um hvernig eigi að íslenska orðið accession þegar rætt er um viðræðurnar um umsókn Íslendinga um aðild að ESB.
Ástæðulaust er að deila um að orðrétt þýðing á þessu orði er aðild. Það segir hins vegar ekkert um að ekki sé rétt að tala um aðlögunarviðræður á íslensku. Það er í góðu samræmi við að nota gegnsæ orð til að lýsa því sem um er að ræða. Meðal ráðamanna ESB í Brussel tíðkast ekki að finna orð sem lýsa því sem að baki býr.
Hvað halda menn að orðin European Semester þýði á ESB-Brusselmáli? Orðrétt mundi fréttastofa ríkisútvarpsins tala um evrópska önn og hlustendur héldu að framkvæmdastjórn ESB sinnti saklausu fræðslustarfi. Orðin ná hins vegar til þess að fulltrúar framkvæmdastjórnarinnar fara í saumana á fjárlagatillögum aðildarríkjanna, gefa þeim einkunn og leggja til breytingar, um er að ræða framsal á fjárlaga-fullveldi
Miðvikudagur 17. 07. 13
Í dag ræddi ég við Vilhjálm Bjarnason, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í þætti mínum á ÍNN og má næst sjá þáttinn á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun. Þar kemur meðal annars fram að Vilhjálmur er í sambandi við alþjóðlegan lögfræðing sem hefur áhuga á úrlausn mála gagnvart kröfuhöfum í þrotabú bankanna. Í raun er illskiljanlegt hvers vegna ekki hefur verið myndað alþjóðlegt teymi lögfræðinga til að takast á við kröfuhafana og knýja fram lausn.
Ég spurði Vilhjálm hvort þetta uppgjörsmál væri í raun í verkahring stjórnmálamanna eða hvort þeir skiptu sér af því þar sem þeir treystu ekki Seðlabanka Íslands. Hann svaraði á þá leið að þarna kæmi einnig til álita þörfin á að eigna sér lausn. Samfylkingin vildi ekki vinna að þessu máli og afnámi gjaldeyrishaftanna af því að hún taldi að nýta ætti höftin til að knýja á um ESB-aðild, það féll hins vegar vel að stefnu VG að halda í höftin, þau eru í anda ofríkisstefnu flokksins.
Nú eru nýir stjórnarherrar sestir í ráðherrastóla. Þeir semja ekki um uppgjör á þessum skuldum við kröfuhafa. Þeir verða hins vegar að móta stefnu og sjá til þess að henni sé fyglt fram. Alþjóðlegir lögmenn sem þekkja sjóðina sem í hlut eiga og hafa orð á sér fyrir hörku í þágu sinna umbjóðenda eru best fallnir til að gæta hagsmuna Íslendinga í þessu mikla uppgjörsmáli.
Þriðjudagur 16. 07. 13
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var í Brussel í dag og hitti æðstu menn Evrópusambandsins og NATO. Nú hafa bæði utanríkisráðherra og forsætisráðherra hitt Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra NATO, á þeim tveimur mánuðum sem liðnir eru frá því að ríkisstjórnin var mynduð. Með þessu hafa ráðherrarnir áréttað á afgerandi hátt hve mikla áherslu ríkisstjórnin leggur á aðildina á NATO þótt ekki sé minnst á hana í stefnuyfirlýsingu hennar.
Ég skrifaði leiðara á Evrópuvaktina í dag í tilefni af för Sigmundar Davíðs til Brussel og má lesa hann hér.
Mánudagur 15. o7. 13
Í sjónvarpinu í kvöld var sýnd fróðleg heimildarmynd um The New York Times og baráttu blaðsins fyrir tilveru sinni á tíma rafrænnar miðlunar. Í lok þáttarins var sagt að ekki væri unnt að nálgast efni á vefsíðu blaðsins án þess að greiða fyrir aðganginn. Þetta er ekki rétt. Blaðið reyndi þetta um tíma varðandi hluta efnis en hvarf frá því. Nú fikrar það sig mjúklega til sömu áttar. Í þættinum kom einnig fram að tilraun blaðsins til gjaldtöku á sínum tíma var illa tekið.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í þjóðhátíðarræðu sinni að ESB þyrfti að „sanna sig¨ gagnvart Íslendingum. Sigmundur Davíð er í dag í Brussel og þá kýs Maria Damanaki sjávarútvegsstjóri að tilkynna áform um refsiaðgerðir gegn Íslendingum vegna makrílveiðanna. Sigmundur Davíð hittir ESB-toppana á morgun, skyldu þeir „sanna sig“.
Sunnudagur 14. 07. 13
Forvitnilegt er að fylgjast með hvernig dagblöð fikra sig inn á þá braut að heimta gjöld fyrir aðgang að efni þeirra á netinu. Nú hefur The Daily Telegraph sett reglu um að unnt sé að nálgast 10 greinar endurgjaldslaust en vilji maður lesa fleiri ber að skrá sig, þá fær maður ókeypis aðgang í 30 daga að öllu efni en greiðir síðan 1,99 pund á mánuði sem tekið er af kreditkortinu.
Þá hefur The New York Times einnig lagt hart að þeim sem nota vefsíðu blaðsins að gerast áskrifendur og greiða lagt gjald. Blaðið lokaði um tíma aðgangi að ýmsu efni nema menn greiddu fyrir hann en opnaði síðan aftur.
Ég veit ekki betur en allir sem eru áskrifendur að prentaðri útgáfu þessara blaða fái jafnframt hindrunarlausan aðgang að netútgáfunni, það sé talið í hlutarins eðli og gildir til dæmis um vikuritið The Economist.
Áskrifendur að prentútgáfu Morgunblaðsins geta lesið blaðið á netinu en vilji þeir nálgast það í gegnum iPad verða þeir að greiða sérstakt gjald auk þess sem þeir hafa almennt takmarkaðan aðgang að greinasafni blaðsins.
Prentmiðlar keppast við að búa í haginn fyrir að prentvélarnar hverfi og sambandið við lesandann verði aðeins á netinu. Þeir verða að ná í sem flest nöfn og netföng til að tryggja sér viðskiptavini auk þess að fá þá til að greiða fyrir þjónustuna.
Miðað við þjónustu erlendra miðla standa hinir innlendu höllum fæti. Þótt alla skipti máli að vita hvað gerist á heimavelli skiptir mat á erlendu fréttaefni miklu og að það skírskoti á einn eða annan hátt til innlendra lesenda. Þessi miðlun krefst þekkingar og áhuga blaðamanna sem minnkar eftir því sem minni áhersla er lögð á erlendar fréttir í íslenskum fjölmiðum almennt. Það er mikil afturför, leiðir til fáfræði, ranghugmynda og minnimáttarkenndar.
Laugardagur 13. 07. 13
Páll Magnússon útvarpsstjóri skrifar skammargrein um Davíð Oddsson, ritstjóra Morgunblaðsins, í Fréttblaðið, ber blak af ríkisútvarpinu og hallmælir Morgunblaðinu. Fréttastofa ríkisútvarpsins birtir auglýsingu um eigið ágæti í sjónvarpinu. Er einhver fjölmiðlakönnun í gangi? Könnun á trausti manna til fjölmiðla?
Í Bretlandi hefur stjórn BBC áhyggjur ef sjónarhorn ríkisútvarpsins er á skjön við viðhorf almennings. Þá er varað við einsleitni í skoðunum í fjölmennum starfsmannahópi á sama vinnustað þar sem ýtt er undir fordóma í samtölum í stað þess að sækja út fyrir hinn einsleita hóp.
Hér krefst forstjóri ríkisútvarpsins ekki aðeins að menn láti af gagnrýni á stofnun sína heldur einnig að efni annarra fjölmiðla sé honum alfarið að skapi. Skörin færist upp í bekkinn. - Telur hin fjölmenna stjórn ríkisútvarpsins hlutverk sitt að standa innan skjaldborgarinnar í Efstaleiti með útvarpsstjóra eða koma fram fyrir hönd almennings sem borgar brúsann?
Föstudagur 12. 07. 13
Mánudaginn 8. júlí var Placido Domingo söngvari lagður inn á sjúkrahús í heimaborg sinni Madrid vegna blóðtappa í lunga. Sagt var frá þessu á vefsíðunni mbl.is þriðjudaginn 9. júlí. Þar stóð:
„Spænski stórtenórinn Placido Domingo var í dag lagður inn á spítala vegna blóðtappa í lunga.
Söngvarinn, sem er 72 ára, mun að sögn lækna ná fullum bata. Læknar söngvarans ráðlögðu honum hins vegar að taka sér þriggja til fjögurra vikna hvíld, og hefur hann því þurft að hætta við fimm tónleika.
Domingo varð heimsfrægur sem hluti af Tenórunum þremur, ásamt Luciano Pavarotti og Jose Carreras.“
Þessi stutta frétt ber ekki með sér mikla vandvirkni. Í fyrsta lagi er ekki sagt hvar Domingo var þegar hann veiktist, grundvallarregla er að geta þess hvar atburður gerist. Í öðru lagi er ekki sagt rétt frá hvenær hann veiktist, dagsetningin er röng. Hann var lagður inn 8. júlí ekki hinn 9. Í þriðja lagi felst undarlegt mat í þeim orðum að Domingo hafi hlotið heimsfrægð með því að syngja með Pavarotti og Carreras. Þeir tóku að syngja saman af því að þeir voru heimsfrægir en ekki til að öðlast heimsfrægð.
Fimmtudagur 11. 07. 13
Nokkrar umræður hafa orðið um hóp þingmanna stjórnarflokkanna sem hefur verið falið að vinna tillögur um hagræðingu og aukna hagkvæmni í ríkisbúskapnum. Nokkrir áratugir eru síðan gripið var til þess ráðs að fela þingmönnum verkefni af þessu tagi. Úrræðið er tvíbent. Það kann að draga úr markvissu starfi undir forystu ráðherra og innan ráðuneyta um að ná settum markmiðum í ríkisfjármálum. Þessi skipan veldur hættu á að þeir sem best þekkja til innviða stjórnkerfisins setjist með hendur í skaut og bíði tillagna frá hópnum sem óvíst er að verði framkvæmanlegar.
Í Stöð 2 var rætt um störf hópsins við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og hann spurður hvort ekki blasti við að fækka þyrfti ríkisstarfsmönnum ætluðu menn að spara myndarlega hjá ríkissjóði þar sem launakostnaður væri stærsti útgjaldaliður ríkisstofnana. Ráðherrann sagði að ríkisstarfsmönnum kynni að fækka „til langs tíma“ með sameiningu stofnana en það væri „ekki gert ráð fyrir verulegum uppsögnum ríkisstarfsmanna“ enda væri „hagkerfið viðkvæmt fyrir slíku“.
Forsætisráðherra vísaði til aðgerða í „mörgum Evrópulöndum að undanförnu“ þar sem farið hefði verið „í harðan niðurskurð“ þá hefði kostnaður lent á ríkinu annars staðar og því væri þetta „meira spurning um langtímaáhrif“.
Ákveðið var að alþingi kæmi síðar í haust en ella hefði verið að ósk ríkisstjórnarinnar til að hún fengi rýmri tíma til að undirbúa fjárlög. Af orðum forsætisráðherra er ekki ljóst hvort hagræðingarhópur þingmannanna komi að undirbúningi fjárlaga árið 2014 eða horfi lengra fram á veginn.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra ritaði grein í Morgunblaðið í morgun og sagði 8.600 milljónir króna vanta í heilbrigðiskerfið. Kerfið væri komið að fótum fram. Viðskiptaráð bendir á í dag að meira fé sé varið til að mennta hvern grunnskólanema en nemanda í háskólanámi. Þetta sé óviðunandi. Víða eru brotalamir og því af nógu að taka fyrir þá sem taka að sér að líta á nýjar lausnir í ríkisfjármálum.
Miðvikudagur 10. 07. 13
Bandarískur dómari hefur úrskurðað að Apple-fyrirtækið hafi tekið höndum saman við fimm útgefendur til að hækka smásöluverð á rafbókum. Dómsmálaráðuneytið höfðaði málið til að rjúfa verðsamráðið. Málið á rætur í samningum sem Apple gerði árið 2010 þegar iPadinn kom til sögunnar. Apple ætlar að áfrýja dómnum.
Apple var sakað um samsæri í því skyni að grafa undan Amazon.com sem þá hafði 90% hlutdeild á rafbókamarkaði. Amazon greiddi almennt 9,99 dollara heildsöluverð fyrir metsölubækur á Kindle. Apple gerði samning við fimm útgefendur um 12,99 og 14,99 dollara verð á rafbókum.
Harkan í framgöngu Apple og annarra stórfyrirtækja á sviði upplýsingatækni er mikil og dómsmálin eru mörg enda gífurlegir hagsmunir í húfi. Síðan er hin hliðin á starfsemi þessara fyrirtækja, það er hvernig þau nýta upplýsingarnar sem þau afla um viðskiptavini sína í því skyni að höfða til auglýsenda og kalla þá til viðskipta við sig. Loks hefur nú verið skýrt frá nánu samstarfi fyrirtækjanna við njósna- og hleranastofnanir.
Frétt birtist í dag á Evrópuvaktinni um að Helmut Schmidt (94 ára), fyrrverandi Þýskalandskanslari, hefði keypt 38.000 mentól-sígarettur af því að hann bjóst við að Brusselmenn bönnuðu þær til að bjarga heilsu hans og lífi. Mótmæla má á ýmsan hátt.
Þriðjudagur 09. 07. 13
Ólafur Ragnar Grímsson bætti enn einni fléttunni í ákvarðanir sínar í krafti 26, gr. stjórnarskrárinnar, leifanna frá einveldistímanum sem hann hefur nýtt til að grafa undan þingræðisreglunni. Að þessu sinni stóð hann með löggjafanum og ákvað að rita undir lögun sem snerta veiðileyfagjald.
Ólafur Ragnar tekur geðþóttaákvarðanir um undirritun laga og leitast við að færa þær í rökheldan búning þegar á hann er gengið. Hann er hættur að vera ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum eins og forseta ber að vera og er á kafi í pólitískri glímu.
Fyrir níu árum þegar Ólafur Ragnar tók til við að synja lögum staðfestingar og lagði Baugsmönnum lið í baráttu þeirra við ríkisstjórn og meirihluta alþingis vegna fjölmiðlalaganna var hrópað á hann til útlanda og hann beðinn að koma tafarlaust heim, annars myndu handhafar forsetavalds rita undir lögin. Að þessu sinni var Ólafur Ragnar einnig grábeðinn að dveljast í landinu, hótuðu Píratar málþófi á alþingi til að trygga að Óalfur Ragnar yrði á Bessastöðum í dag. Þeir vonuðu að hann hafnaði lögunum.Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur farið hamförum í þessu máli og flækt það í huga almennings í von um að hræða Ólaf Ragnar til að skrifa ekki undir lögin.
Mánudagur 08. 07. 13
Franska matvælaeftirlitið varar fólk við að borða fisk oftar en tvisvar í viku vegna mengunar í sjó og ferskvatni, sterkust er viðvörunin vegna ferskvatnsfiska. Þetta er alvarleg viðvörun og má velta fyrir sér hvaða áhrif hún hefur í öðrum löndum. Innan Evrópusambandsins eru menn mjög á varðbergi vegna matvæla og öryggis við neyslu þeirra eftir svik á liðnum vetri þar sem hrossakjöt var notað í fullunnum vörum sem áttu að geyma nautakjöt.
Eva Hauksdóttir sem brá sér í gervi nornar í tilefni af bankahruninu og fór með bölbænir á blettinum fyrir framan Stjórnarráðshúsið hefur farið mikinn og heimtað að fá að vita hvað Geir Jón Þórisson, fyrrv. yfirlögregluþjónn, skrifaði um sig í skýrslu sem hann samdi fyrir embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu vegna atburðanna veturinn 2008 til 2009 og afskipta lögreglunnar. Úrskurðarnefnd upplýsingamála heimilaði Evu að sjá það sem stendur um hana í skýrslu Geir Jóns.
Eftirminnileg er för þeirra Geir Jóns og Evu upp Arnarhól að húsi Seðlabanka Íslands þar sem Eva vildi fá að hitta Davíð Oddsson seðlabankastjóra og fylgdi Geir Jón henni á fund hans. Óljóst er hvort Geir Jón sat fundinn en ólíklegt er að hann hafi gert það og því sé ekki skýrt frá efni hans í skýrslunni góðu.
Hvernig væri að Eva Hauksdóttir hætti að krefjast upplýsinga um sjálfa sig af öðrum og segði frá því hvað gerðist innan dyra í húsi seðlabankans þegar hún fór þangað á fund? Hvert var erindið? Hvernig var henni tekið? Hafði hún erindi sem erfiði?
Upplýsingamiðlun af þessu tagi færi Evu betur en að sitja við að skrifa skammarbréf um úrskurðarnefndina sem kom þó til móts við óskir hennar.
Sunnudagur 07. 07. 13
Samtal mitt við Birgi Ármannsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins og formann utanríkismálanefndar alþingis, er komið inn á netið og má sjá það hér .
Vangaveltur um hvort Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, skrifar undir lög um breytingu á veiðigjaldi eða ekki hafa sett svip á fréttir ríkisútvarpsins um helgina og menn verið kallaðir til með og á móti.
Þar sem um geðþóttaákvörðun forseta er að ræða og hann þarf ekki að rökstyðja hana frekar en hann vill geta menn velt þessu máli endalaust fyrir sér og lýsa í raun ekki öðru að lokum en eigin skoðun á veiðigjaldsmálinu. Stjórnarandstaðan vill leggja stein í götu þess að lög sem hún hafnaði verði staðfest en stjórnarsinnar vilja að lögin nái strax fram að ganga.
Að ákvæði 26. gr. stjórnarskrárinnar sé arfur frá tíma einvaldskonungs skýrist æ betur eftir því sem fleiri bænaskrár eru lagðar fyrir forseta Íslands og hann setur sig í stellingar til að ákveða hvort hann eigi að skrifa frekar undir ein lög en önnur. Þessi framkvæmd er í andstöðu við þingræðislega stjórnarhætti.
Að hafa þann varnagla í stjórnlögum að bera megi mál undir þjóðina að uppfylltum gagnsæjum skilyrðum er sjálfsagt og eðlilegt, hitt er fráleitt að láta slíkt ráðast af geðþótta eins manns.
Laugardagur 06. 07. 13
Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, er húsnæðis- og félagsmálaráðherra. Hún segir við Fréttablaðið fimmtudaginn 4. júlí að það sé í höndum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis að ákveða hver framtíð Íbúðalánasjóðs verði eftir að svört skýrsla hefur verið birt um sjóðinn og starfsemi hans.
„Skýrslan er hörð, óvægin og skýr áfellsdómur yfir stjórmálamenningunni sem ríkt hefur á Íslandi,“ segir Eygló við blaðið, ekki megi þó gleyma að horfa á stöðu sjóðsins með tilliti til hrunsins hún sé „líka hluti af því ástandi sem skapaðist hér 2008“. Þá segir í Fréttablaðinu:
„Spurð hvort ekki standi til að láta hlutaðeigandi sæta ábyrgð vill Eygló ekki taka beina afstöðu til þess en segir þó að eðli málsins samkvæmt komi það vel til greina.
„Ég tel að það sé fyrst og fremst hlutverk Alþingis að álykta þar um. En mér þykir það eðlilegt að menn verði látnir svara fyrir það á viðeigandi stöðum til dæmis hjá lögreglu hafi þeir á annað borð brotið lög. Það er mjög mikilvægt,“ segir hún.“
Eygló stóð á sínum tíma að tillögu um að ákæra Geir H. Haarde og kalla hann fyrir landsdóm. Hún efast ekki um réttmæti þess óhæfuverks þótt þing Evrópuráðsins telji mannréttindabrot að breyta pólitískum ágreiningi í refsimál.
Hvernig á að skilja orð ráðherrans í samtalinu við Fréttablaðið um að „hlutaðeigandi“ eigi að sæta ábyrgð og það sé „fyrst og fremst“ alþingis að álykta um það og síðan minnist hún á lögreglu? Ber að skilja orð félagsmálaráðherra á þann veg að hún vilji að alþingi álykti að hafin skuli lögreglurannsókn á hendur einhverjum einstaklingum?
Eitt er að hafa hlaupið illilega á sig með stuðningi við ályktun um málshöfðun fyrir landsdómi, það mál heyrir þó undir alþingismenn, annað að gefa til kynna að þingmenn eigi að álykta um upphaf lögreglurannsóknar. Það er tímabært að einhver bendi félagsmálaráðherra á að hún ber pólitíska ábyrgð á viðbrögðum við skýrslunni um Íbúðalánasjóð – hún getur hvorki varpað henni á þingnefnd né lögreglu. Var einhver að tala um slæma stjórnmálamenningu?
Föstudagur 05. 07. 13
Í Frakklandi hefur það gerst eins og lesa má hér að Nicolas Sarkozy og flokki hans UMP hefur verið neitað um 11 milljón evra styrk, um 1,8 milljarðar ísl. króna, úr ríkissjóði vegna forsetakosningabaráttunnar veturinn og vorið 2012 þegar hann tapaði fyrir François Hollande.
Í Frakklandi fylgist sérstök nefnd með ráðstöfun frambjóðenda og flokka á opinberum styrkjum til stjórnmálastarfs og leggur mat á hvort heimilt sé að inna greiðslur af hendi miðað við gildandi reglur. Nefndin ályktaði í desember 2012 að Sarkozy hefði brotið reglurnar og ætti ekki rétt á styrknum sem nemur tæpum 50% af útgjöldum vegna kosninganna. Sarkozy sætti sig ekki við niðurstöðuna og skaut málinu til stjórnlagaráðs Frakklands þar sem níu fulltrúar sitja auk fyrrverandi forseta landsins, þrír þeirra eru nú á lífi. Stjórnlagaráðið hafnaði kröfu Sarkozys.
Þetta er einstakt mál í franskri stjórnmálasögu. Í úrskurðinum er Sarkozy ekki sviptur kjörgengi og spá ýmsir að niðurstaða stjórnlagaráðsins auki líkur á að Sarkozy verði að nýju virkur í stjórnmálum með forsetaframboð árið 2017 að markmiði. François Fillon, forsætisráðherra í forsetatíð Sarkozys, hefur lýst áformum um forsetaframboð án tillits til hugsanlegs framboðs Sarkozys.
Efni þessa máls er eitt, annað er eftirlitið og aðferðin við að framkvæma það. Sannast enn hve miklu skiptir að fyrir hendi sé úrskurðaraðili á borð við stjórnlagaráðið franska til að taka af skarið um álitaefni tengd æðstu stjórnvöldum ríkisins. Umræður um ýmis málefni hefðu verið á annan veg hér á landi undanfarin ár ætti slíkur aðili síðasta orð. Þörfin fyrir hann eykst í réttu hlutfalli við deilur um rétt forseta Íslands til afskipta af málum sem snerta þingræðisregluna og aðra þætti á valdi stjórnmálamanna.
Fimmtudagur 04. 07. 13
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, lítur á setu sína á alþingi sem tæki til að auglýsa sig á alþjóðavettvangi. Framganga hennar þjónar ekki öðru en að draga athygli að henni sjálfri. Þegar bandarískur saksóknari vildi kynna sér Twitter-samskipti hennar gerði hún það að umtalsefni á erlendum þingmannavettvangi og krafðist alþjóðlegrar friðhelgi í krafti þingmennsku sinnar. Það mál varð að engu þegar frá leið og hið sama má segja um fullyrðingar Birgittu um að hún yrði handtekin færi hún til Bandaríkjanna. Það hefur reynst tóm vitleysa.
Nýjasta auglýsingamennska Birgittu er að skálda eitthvað um Ban Ki-moon, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, og uppljóstrarann Edward Snowden eftir að utanríkismálanefnd alþingis tók á móti aðalritaranum á fundi þriðjudaginn 2. júlí. Í dag segir hún við vefsíðuna visir.is að Ban Ki-moon sé „ömurlegur“ og á vefsíðunni stendur: „Ban Ki-moon er lélegur aðalframkvæmdastjóri miðað við Kofi Annan að mati Birgittu og hún segir hann ekki hafa farið fögrum orðum um forvera sinn í embættinu á fundinum.“
Þetta er skrýtilegt tal sem stafar af því að Ban Ki-moon tók ekki undir eitthvað sem Birgitta sagði.Á síðasta þingi sátu Birgitta og Þór Saari saman í þingflokki Hreyfingarinnar. Þá bar ekki eins mikið á skammarlegri þingframkomu Birgittu og nú af því að framganga Þórs var enn verri en hennar. Nú hefur verið upplýst að Þór hafi afvegaleitt rannsóknarnefnd vegna Íbúðalánasjóðs með ósannindum um látinn mann, nefndin gekk í vatnið og trúði honum. Tveir þingmenn segja Birgittu greina rangt frá fundi utanríkismálanefndarinnar. Ósannindi stjórnmálamanna gera þá endanlega marklausa.
Miðvikudagur 03. 07. 13
Í dag ræddi ég við Birgi Ármannsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins og formann utanríkismálanefndar alþingis, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum um sumarþingið, ákvörðunina um að halda áfram endurskoðun stjórnarskrárinnar í nýjum farvegi og stöðuna í ESB-málinu. Birgir er þeirrar skoðunar að alþingi eigi að samþykkja nýja ályktun um afstöðuna til ESB. Hann segir óráðlegt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-viðræður samhliða sveitarstjórnakosningum. Það falli alls ekki saman og raunar sé ekki lofað neinu um þjóðaratkvæðagreiðslu í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þar segi hins vegar að ekki verði haldið áfram að ræða við ESB án þess að það sé samþykkt af þjóðinni.
Næst má sjá samtal okkar Birgis á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.
Ég man vel eftir kosningabaráttunni 2003 þegar framsóknarmenn lögðu höfuðáherslu á 90% húsnæðislán. Eftir kosningarnar gerðu vinstri flokkarnir Halldóri Ásgrímssyni, formanni Framsóknarflokksins, tilboð um stjórnarsamstarf undir forsæti hans. Niðurstaðan varð þó að Davíð Oddsson og Halldór sömdu um framhald á samstarfi sjálfstæðismanna og framsóknarmanna enda yrði Halldór forsætisráðherra síðustu tvö ár kjörtímabilsins.
Þessi breyting á húsnæðislánum var okkur sjálfstæðismönnum ekki að skapi, án hennar hefðu framsóknarmenn hins vegar ekki sest í ríkisstjórn með okkur. Öll gagnrýni okkar var túlkuð á hinn versta veg af þingmönnum VG og Samfylkingarinnar.
Ávallt hafa flokkar til vinstri við Sjálfstæðisflokkinn lagt áherslu á að hann ætti ekki ráðherra félagsmála en húsnæðismál eru á hans könnu. Það er pólitísk goðsögn að sjálfstæðismönnum sé ekki að treysta í þessum málaflokki og öll gagnrýnisorð af okkar hálfu um opinbera stjórn húsnæðismála eru talin til sannindamerkja um nýfrjálshyggju. Enginn hefur staðið betri vörð um þessa goðsögn í meira en 30 ár en sjálf Jóhanna Sigurðardóttir, henni voru húsnæðismálin og lánakerfi vegna þeirra jafnvel kærari en jafnréttismálin.
Að reyna að klína óráðsíu og klíkustjórn á vettvangi Íbúðalánasjóðs á sjálfstæðismenn er pólitískt ofstæki af versta tagi.
Þriðjudagur 02. 07. 13
Á fundi alþingis í dag sagði Brynhildur S. Björnsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar (Bf), að það hefði vakið „heimsathygli“ að engin kona sæti í hópi þriggja íslenskra þingmanna sem sitja á þingi Evrópuráðsins. Beindi hún spurningum um málið til Karls Garðarssonar, þingmanns Framsóknarflokksins (F), formanns þingmannanefndarinnar.
Karl sagði að mönnum hefði verið ljóst að þessi þriggja karla þingmannanefnd bryti í bága við reglur þingsins í Strassborg. Það hefði hins vegar ekki tekist samkomulag milli þeirra þriggja flokka sem eiga fulltrúa í nefndinni, þ.e. Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, um hvaða karl ætti víkja fyrir konu. „Þetta er mikilvæg nefnd. Flokkarnir þrír leggja mikla áherslu á að ákveðnir aðilar séu í þessari nefnd og er ekkert við það að athuga í sjálfu sér,“ sagði Karl. Á ensku kynni einhver að segja að þetta sjónarmið væri „sexist“ en Karl bætti við:
„Auðvitað hefðum við átt að ná samkomulagi um þetta mál áður en farið var út. Við vissum af þessari reglu rétt áður en við fórum út en hins vegar náðist ekki samkomulag. Það vantar aðila innan þingsins sem tekur á málum af þessu tagi og hefur vald til að taka ákvörðun. Enginn slíkur aðili er til staðar í dag sem þýðir að flokkarnir, þrír í þessu tilfelli, verða sjálfir að ná samkomulagi. Sjálfur lagði ég, áður en við fórum út, mikla áherslu á að slíkt samkomulag næðist en það tókst því miður ekki.“
Vegna þessara má spyrja: Hvaða aðila finnst Karli vanta? Jafnréttisfulltrúa sem hafi vald til að grípa fram fyrir hendur þingflokka? Hrópi þingmenn á aðila til að segja sér fyrir verkum verður lítið úr gildi 48. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir: „Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“ Má ekki segja stjórnendum þingsins í Strassborg frá þessu stjórnarskrárákvæði? Alþingismenn geti ekki verið bundnir við annað en sannfæringu sína.
Mánudagur 01. 07. 13
Í ritdómi um sjálfsævisögu Svavars Gestssonar í nýjasta hefti Þjóðmála segir Styrmir Gunnarsson að Svavar geri ekki upp við tengsl Alþýðubandalagsins við kommúnista í A-Evrópu á skilmerkilegan hátt. Styrmir segir þetta bagalegt því að fyrir utan Svavar sé líklega enginn fær um að segja hið sanna og rétta um þau mál öll en Kjartan Ólafsson sem var ritstjóri Þjóðviljans eins og Svavar auk þess sem Kjartan var innsti koppur í búri Sósíalistaflokksins, arftaka Kommúnistaflokks Íslands.
Þessi ábending Styrmis um einstæða vitneskju Kjartans kom mér í hug þegar ég kveikti fyrir tilviljun á rás 1 um 11.30 í morgun og kom inn í þáttinn Sjónmál sem Hanna G. Sigurðardóttir stjórnar. Þar fór viðmælandi hennar mikinn vegna gömlu hleranamálanna sem rædd voru mikið árið 2006 en voru nú komin á dagskrá að nýju í þessum þætti sem ég hef aldrei hlustað á áður og vissi ekki að væri enn einn einhliða pólitískur þáttur á vegum ríkisútvarpsins. Þarna var þá sjálfur Kjartan Ólafsson enn kominn á kreik til að tala um þá hneisu að einhverjum skyldi hafa dottið í hug að hlera síma hans og annarra kommúnista hér á landi á tíma kalda stríðsins – allt var það gert að fengnum úrskurði dómara en Kjartan og skoðanabræður hans láta eins og um tilhæfulausar pólitískar ofsóknir á hendur sér hafi verið að ræða.
Augljóslega vakti ekki fyrir Hönnu G. Sigurðardóttur að kynna báðar hliðar þessa máls og því síður datt henni í hug að leggja spurningar fyrir Kjartan Ólafsson um tengsl hans og annarra skoðanabræðra hans við einræðisflokkana í A-Evrópu. Skyldi þáttarstjórnandinn ekki gera sér grein fyrir að síðan 2006 hefur dr. Þór Whitehead, sagnfræðiprófessor við Háskóla Íslands, skrifað ítarlega bók sem setur þetta mál allt í miklu trúverðugra samhengi en birtist í einræðu Kjartann Ólafssonar? Málflutningurinn í þættinum einkenndist af sérkennilegri sjálfsvorkunn. Kommúnistar hafa aldrei sýnt stjórnmálaandstæðingum neina miskunn og vildu misnota lýðræðið til að grafa undan því.
Hvað vakti fyrir Hönnu G. Sigurðardóttur með þessum efnistökum í miðli sem lögum samkvæmt ber að kynna mál á hlutlægan hátt? Hvers vegna gerði hún ekki minnstu tilraun til að reifa sjónarmið þeirra sem andmæla kveinstöfum Kjartans Ólafssonar? Þá hefði mátt láta þess getið að símahleranir lögreglu hafa aldrei verið meiri í Íslandssögunni en í ráðherratíð Ögmundar Jónassonar, flokksbróður Kjartans.