24.7.2013 23:30

Miðvikudagur 24. 07. 13

Á dv.is er slegið upp að við Eiður Guðnason séum ósáttir við að engir ráðherrar skuli hafa verið á Skálholtshátíð sunnudaginn 21. júlí. Ég lét mér það í léttu rúmi liggja en minntist á þessa staðreynd lauslega í pistli mínum um hátíðina þennan sunnudag. Ég sagðist ekki heldur hafa séð neinn þingmann sem ég þekkti á hátíðinni þann dag. Laugardaginn 20. júlí hitti ég hins vegar Vilhjálm Bjarnason, þingmann Sjálfstæðisflokksins, á þeim hluta hátíðarinnar sem þá var haldinn.

Eftir að frá þessu er sagt á dv.is koma þeir úr fylgsnum sínum sem telja sér sæma að ausa úr skálum reiði sinnar yfir þeim sem þeir eru ósammála. Það er ánægjulegt fyrir ráðherrana að fá stuðning úr þeirri átt í umræðum um fjarveru þeirra frá Skálholtshátíðinni.

Frumlegasta sjónvarpsdagskrá norðurslóða og þótt víðar væri leitað er í NRK 1 um þessar mundir, sólarhingum saman, bein útsending frá ferð skips með strönd Noregs. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem efnið er sýnt enda nýtur það mikilla vinsælda í Noregi. Öðru hverju er leikin tónlist annars ríkir þögn í útsendingunni.