Dagbók: júní 1999
Laugardagur 26.6.1999
Frá París flugum við til Berlínar og vorum þar í nokkurra daga fríi með vinum okkar. Skoðuðum við meðal annars Reichstag-bygginguna, það er þinghúsið, sem var brennt á tímum nasista, og stóð sem hálfgerð rúst við Múrinn í næsta nágrenni Brandenborgarhliðsins, þar til Þýskaland var sameinað og hefur nú verið endurreist með glæsilegum hætti. Starfsmaður þingsins fylgdi okkur um bygginguna og sýndi jafnt þingsalinn sem fundarherbergi þingflokka. Síðan gengum við upp í glerhvolfið yfir þingsalnum, sem teygir sig upp úr byggingunni og þaðan sést yfir alla Berlín. Tugir þúsunda manna heimsækja þinghúsið á degi hverjum og ganga upp í hvolfið. Norðurlöndin fimm fengu lóð á besta stað í Berlín, tiltölulega skammt frá þinghúsinu, til að reisa skrifstofur fyrir sendiráð sín og eru húsin fimm reist í þyrpingu og er ætlunin að opna þau formlega 20. október nk. Við fórum í íslenska húsið, sem er á lokastigi. Varð okkur ljóst af samtölum við Berlínarbúa, að þar vita menn svo sannarlega af því, að Norðurlöndin eru að reisa sendiráðsbyggingar sínar á þessum virðulega stað. Þá skruppum við einnig til Potsdam, sem áður var í Austur-Þýskalandi. Fórum í Sanssouci-höllina, sem Frikrik mikli reisti. Einnig fórum við í Cecelienhof, þar sem Potsdam-fundur þeirra Stalíns, Trumans, Churchills og síðan Atlees var haldinn. Loks heimsóttum við húsið við Wannsee, þar sem Wannsee-ráðstefnan illræmda fór fram, en þar lögðu nasistar á ráðin um útrýmingu gyðinga. Var óhugnanlegt að ganga þar um sali, en húsið var opnað almenningi árið 1992 og er einkum ætlað til þess að fræða ungt fólk um þennan þátt í grimmdarverkum nasista. Segja má að á þessum litla bletti í Potsdam og nágrenni megi fá mynd af stóratburðum í þýskri sögu. Ekki var síður fróðlegt að fara inn í Potsdam-bæinn sjálfan og sjá, hvernig unnið er að því að reisa hann úr rústum kommúnismans. Fyrir framtaksleysi miðstjórnarkerfisins voru reisluleg hús látin drabbast niður og nú rísa þau úr öskustónni, kannski ríkulegri enn nokkru sinni fyrr. Heim fórum við frá Berlín um Charles de Gaulle flugvöll í París. Vél Flugleiða var eins og endranær á áætlun en hins vegar fór allt í handaskolum hjá afgreiðslumönnum vallarins með farangur okkar, sem fylgdi okkur ekki heim og er ein taskan enn týnd. Segja liprir starfsmenn Flugleiða í tapað-fundið á Keflavíkurflugvelli að með ólíkindum sé að fylgjast með vinnubrögðunum á Parísarvellinum. Skil ég ekki hvernig Frakkar hyggjast gera Charles de Gaulle völl að helstu miðstöð millilandaflugs í Evrópu, ef þeir geta ekki einu sinni séð um að koma tveimur töskum á milli flugvéla á tæpum tveimur tímum.
Mánudagur 21.6.1999
Við Rut héldum til Parísar á mánudeginum, þar sem ég sat ráðherrafund á vegum OECD 22. og 23. júní um rannsóknir og vísindi og tók þátt í umræðum. Einnig gafst okkur tækifæri til að fara í Bastillu-óperuna og sjá glæsilega sýningu á Don Carlos eftir Verdi, þar sem Kristinn Sigmundsson söng hlutverk yfirmanns spænska rannsóknarréttarins og hlaut gott lof áheyrenda. Hittum við Kristin í stutta stund baksviðs að sýningu lokinni og lýstum stolti okkar yfir að hafa verið meðal áheyrenda hans. Hann var einnig með veigamikið hlutverk í Don Giovanni í óperunni þessa sömu daga. Kristinn vakti athygli okkar á því, hve risavaxið óperuhúsið er, listrænn metnaður þess er ekki síður mikill og það talið meðal hinna bestu í Evrópu. Þá átti ég einnig fund með Íslendingum í París, sem hafa unnið að því að undirbúa víðtæka menningarkynningu þar og vilja stofna til samstarfs við menntamálaráðuneytið.
Laugardagur 19.6.1999
Þetta var stór dagur, brúðkaupsdagur Sigríðar Sólar dóttur minnar og Heiðars Más Guðjónssonar. Athöfnin fór fram í Fríkirkjunni í Hafnarfirði og gaf sr. Einar Eyjólfsson prestur þar þau saman. Kirkjuna völdu þau vegna þess hve þeim þykir hún falleg, enda hefur hún verið endurgerð með glæsilegum hætti. Að lokinni vígslunni var boðið til hátíðar í Ásmundarsafni við Sigtún. Fór þetta allt mjög ánægjulega fram og lifir góð minning um daginn vonandi lengi í hugum þeirra, sem samfögnuðu með brúðhjónunum.
Föstudagur 18.6.1999
Klukkan 14.00 var athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í tilefni af því að úthlutað var fyrstu styrkjunum samkvæmt markáætlun Rannsóknaráðs Íslands um umhverfismál og upplýsingatækni. Klukkan rúmlega 15.00 fór ég í Hafnarbúðir, þar sem fyrirtækið Lyfjaþróun var að hefja starfsemi í nýjum húsakynnum.
Fimmtudagur 17.6.1999
Klukkan 10.40 hófst hefðbundin athöfn á Austurvelli en ríkisstjórn, borgarstjórn og sendiherrar erlendra ríkja koma áður saman í alþingishúsinu og ganga þaðan fylktu liði til sæta sinna við styttu Jóns Sigurðssonar. Að þessu sinni var síðan gengið til messu í Fríkirkjunni, þar sem Dómkirkjan er lokuð vegna viðgerða. Ég fór þó ekki í messuna heldur í útvarpshúsið við Efstaleiti, þar sem fulltrúar frá þættinum Outlook á BBC World Service biðu. Þetta er vinsæll þáttur og snýst hann nú í tvö skipti um Ísland. Við tókum þátt í fyrri þættinum, sem var sendur út beint, Guðmundur Hálfdanarson sagnfræðiprófessor, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri, Kári Stefánsson í Ísl. erfðagreiningu og Móeiður Júníusdóttir söngkona. Frederick Dove stjórnaði en þátturinn stóð í 40 mínútur. Dove nálgaðist viðfangsefnið, Ísland, á mjög jákvæðan hátt og voru Bretarnir mjög ánægðir yfir hvernig til tókst, eftir að útsendingu lauk. Er talið, að um 40 milljónir manna hlusti á þennan þátt.
Miðvikudagur 16.6.1999
Í þann mund, sem þinghaldi lauk, klukkan 14.00 fór ég í Þingholt og tók þátt í því að opna leitarvélina http://www.leit.is sem á að auðvelda öllum Íslendingum að leita upplýsinga á vefnum.
Sunnudagur 13.6.1999
Við Rut flugum til Egilsstaða um hádegisbilið og vorum síðdegis við frumsýningu á Töfraflautinni eftir Mozart að Eiðum undir stjórn Keiths Reeds. Var þetta ógleymanleg stund og sannar, hve miklu er unnt að áorka með góðum vilja og mikilli vinnu.
Miðvikudagur 9.6.1999
Fundur menningarmálaráðherra á Norðurlöndum í Færeyjum.
Mánudagur 7.6.1999
Þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman eftir hádegið og samþykkti tillögur formanns síns, Sigríðar Önnu Þórðardóttur, um skiptingu manna í nefndir og formennsku í þeim.
Sunnudagur 6.6.1999
Fórum á tónleika í Hallgrímskirkju við upphaf kirkjulistarhátíðar.
Laugardagur 5.6.1999
Var í Þjóðarbókhlöðunni þegar sameiginleg sýning Þjóðminjasafns og Landsbókasafns Íslands – háskólabókasafns um Eggert Ólafsson var opnuð. Fór um kvöldið til Hvolsvallar og hlustaði á Sinfóníuhljómsveit Íslands leika í íþróttahúsinu þar en SÍ hafði verið á Höfn, Kirkjubæjarklaustri og í Vík frá því á fimmtudag.
Föstudagur 4.6.1999
Fór um kvöldið á frumsýningu á Litlu hryllingsbúðinni í Borgarleikhúsinu, mikil stemmning.
Fimmtudagur 3.6.1999
Hóf daginn á því að ræða við menningarfréttamann frá danska útvarpinu, sem kom hingað í tilefni af menningarárinu 2000.
Miðvikudagur 2.6.1999
Hefðbundinn viðtalstími fyrir hádegi, en ég hafði gert hlé á honum á meðan unnið var að myndun ríkisstjórnarinnar.
Þriðjudagur 1.6.1999
Fyrri hluta dags var fundur norrænu menntamálaráðherranna í skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupamannahöfn og stýrði ég honum. Málefni háskóla og framtíð háskólastigsins var þar efst á dagskrá. Hélt heim síðdegis