Fimmtudagur 17.6.1999
Klukkan 10.40 hófst hefðbundin athöfn á Austurvelli en ríkisstjórn, borgarstjórn og sendiherrar erlendra ríkja koma áður saman í alþingishúsinu og ganga þaðan fylktu liði til sæta sinna við styttu Jóns Sigurðssonar. Að þessu sinni var síðan gengið til messu í Fríkirkjunni, þar sem Dómkirkjan er lokuð vegna viðgerða. Ég fór þó ekki í messuna heldur í útvarpshúsið við Efstaleiti, þar sem fulltrúar frá þættinum Outlook á BBC World Service biðu. Þetta er vinsæll þáttur og snýst hann nú í tvö skipti um Ísland. Við tókum þátt í fyrri þættinum, sem var sendur út beint, Guðmundur Hálfdanarson sagnfræðiprófessor, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri, Kári Stefánsson í Ísl. erfðagreiningu og Móeiður Júníusdóttir söngkona. Frederick Dove stjórnaði en þátturinn stóð í 40 mínútur. Dove nálgaðist viðfangsefnið, Ísland, á mjög jákvæðan hátt og voru Bretarnir mjög ánægðir yfir hvernig til tókst, eftir að útsendingu lauk. Er talið, að um 40 milljónir manna hlusti á þennan þátt.