Dagbók: september 2015
Miðvikudagur 30. 09. 15
Í dag ræddi ég við Ólöfu Nordal innanríkisráðherra í þætti mínum á ÍNN og má sjá hann klukkan 20.00 á rás 20 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun. Hvenær sem er eftir 20.00 má skoða þáttinn á tímaflakki Símans.
Þeim sem hafa fylgst með hernaðarbrölti Vladimír Pútíns í Sýrlandi undanfarið kemur ekki á óvart að hann sendi sprengjuvélar sínar til árása á aðra en Ríki íslams.
Þriðjudagur 29. 09. 15
Hér var í gær sagt frá furðulegum yfirlýsingum rússneska sendiherrans í Póllandi um hlut Pólverja vegna upphafs síðari heimsstyrjaldarinnar. Sendiherrann hefur nú dregið í land og segist ekki hafa ætlað að móðga Pólverja eins og lesa má hér.
Nú er spurning hvað þeir gera hér á landi sem lögðu blessun sína yfir orð sendiherrans. Draga þeir einnig í land? Stóru spurningunni er enn ósvarað: Hvað í ósköpunum vakti fyrir sendiherranum? Vissi hann ekki betur? Sagði hann eitthvað sem honum hafði verið kennt í skóla í Sovétríkjunum?
Mánudagur 28. 09. 15
Sendiherra Rússlands í Póllandi, Sergeij Andreev, hefur sakað Pólverja um að bera sjálfir hluta ábyrgðar á upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar. Þessi sérkennilega söguskoðun er liður í áróðri Pútín-stjórnarinnar í Rússlandi til að ófrægja Pólverja vegna ögrana stjórnarinnar í garð allra ríkja við austur landamæri Rússlands, frá Finnlandi til Úkraínu.
Skömmu fyrir innrás Hitlers í Pólland hinn 1. september 1939 gerði hann griðasáttmála við Stalín og 16 dögum eftir innrás Hitlers réðst Stalín inn í austurhluta Póllands, lét handtaka óteljandi fjölda Pólverja og flytja þá í fangabúðir í Rússlandi. Harðstjórunum lenti ekki saman fyrr en í júní 1941 þegar Hitler réðst inn í Rússland en vorið 1940 myrti NKVD, rússneska leynilögreglan, þúsundir pólskra herforingja í Katyn-skógi. Rúm 50 ár liðu þar til viðurkennt var í Moskvu að Rússar hefðu unnið ódæðið en fram til þess tíma héldu kommúnistar því jafnan fram að nazistar hefðu verið Katyn-böðlarnir.
Eftir að fréttin um ummæli rússneska sendiherrans birtist sagði Ómar Ragnarsson á vefsíðu sinni (omarragnarsson.blog.is) að í þeim fælist „sannleikskorn að einu leyti“ (!). Hann segir að Vesturveldin hafi stundað friðþægingarstefnu gagnvart Hitler, þau hafi samið við hann í München án samráðs við Stalín. Pólverjar hafi óttast Rússa og því ekki leyft þeim að senda herlið um Pólland til varnar gegn nazistum. Ómar segir: „Niðurstaða Stalíns var rökrétt: Illskásti kosturinn væri að friðþægja Hitler og tryggja þannig hernaðaraðstöðu Sovétríkjanna í Austur-Evrópu.“
Þetta er of langsótt afsökun Ómars á orðum rússneska sendiherrans til að hún sé marktæk.
Annar bloggari Vésteinn Valgarðsson (vest1.blog.is) segir herforingjastjórn í Póllandi hafa óttast Sovétmenn meira en nazista. Það hafi kannski verið skiljanlegt vegna tiltölulega nýlegrar styrjaldar. Það hafi „engir englar“ þá ráðið Póllandi. Hann klykkir út með þessari setningu: „Því er við að bæta að ég held að nasistar hafi framið Katyn-fjöldamorðin.“
Vésteinn hefur með öðrum orðum viðurkenningu Moskvumanna á sekt sovéska hersins vegna blóðbaðsins í Katyn að engu.
Það er verðugt rannsóknarefni hve fúslega einstaklingar hér á landi ganga fram á völlinn og taka til varna fyrir vondan málstað Rússa. Í Morgunblaðinu birtast öðru hverju greinar þar sem menn spinna þráðinn um Úkraínu samtímans á þann veg að engu er líkara en þeim þyki sjálfsagt og eðlilegt að stjórnvöld í Kænugarði lúti Moskvuvaldinu.
Sunnudagur 27. 09. 15
Í dag var kosið til þings Katalóníu og unnu tveir flokkar hlynntir sjálfstæði héraðsins frá Spáni hreinan meirihluta á héraðsþinginu, 72 þingsæti af 135. Flokkarnir fengu þó ekki hreinan meirihluta atkvæða, 47,8% - kosningaþátttaka var 77,5%.
Talsmenn flokkanna sögðu fyrir kosningar að fengju þeir meirihluta mundu þeir einhliða lýsa yfir sjálfstæði Katalóníu innan 18 mánaða. Stjórnin í Madrid hefur heitið því að leita til dómstóla til að koma í veg fyrir það.
Laugardagur 26. 09. 15
Í dag var efnt til tónleika hjá okkur í Hlöðunni að Kvoslæk. Við fengum góða gesti: Tríóið Sírajón (Laufey Sigurðardóttir fiðla, Einar Jóhannesson klarinetta, Anna Áslaug Ragnarsdóttir píanó), Ingibjörgu Guðjónsdóttur söngkonu og Þórð Magnússon tónskáld sem stjórnaði verki sínu, lokaverki tónleikanna, Gunnarshólma fyrir sópran og Sírajón.
Var magnað að heyra Gunnarshólma fluttan í þessum glæsilega búningi hér í Fljótshlíðinni þar sem kennileiti ljóðsins eru öll, þótt þau sæjust lítt vegna dimmviðris. Hér má sjá mynd af flytjendum í Hlöðunni.
Föstudagur 25. 09. 15
Hafi einhver haldið að lög um að binda hendur ráðherra við skipun manna í embætti hæstaréttardómara og neyða hann til að fara að vilja nefndar mundu kveða niður ágreining um val á dómurum í réttinn hlýtur hann að skoða hug sinn í þessu efni kynni hans sér efni deilu sem hefur vaknað vegna nýs dómara sem nefnd manna ákvað að skyldi skipaður.
Á mbl.is í dag segir að Ólöf Nordal, innanríkisráðherra,telji að ástæða geti verið til að endurskoða lög um skipan í embætti hæstaréttardómara. Sem stendur hafi ráðherra þá kosti að fara að ráðgjöf fimm manna dómnefndar, eða senda málið til kasta alþingis. Á mbl.is segir:
„Ólöf segir að allir umsækjendurnir hafi verið hæfir en Karl Axelsson var valinn umfram þau Ingveldi Einarsdóttur og Davíð Þór Björgvinsson.
„Í þjóðfélaginu geta verið margvísleg sjónarmið sem mönnum finnst ekki endurspeglast í réttinum. Á ráðherra þá ekki að geta haft eitthvað svigrúm til þess að velja úr tveimur jafn hæfum einstaklingum. Mér finnst það vera sjónarmið sem ástæða er til að velta upp í ljósi þeirrar fimm ára reynslu sem við höfum af lögunum,“ segir Ólöf.
Lögin voru sett með það markmið að takmarka vald ráðherra í kjölfar þess að upp komu umdeildar ráðningar í hæstarétt þar sem ráðherra tók ákvarðanir um ráðningu sem var á skjön við ráðgjöf. Ólöf segist ekki halda því fram að endilega sé ástæða sé til þess að fara aftur til slíks háttalags, en veltir því fyrir sér hvort að mögulegt sé að fara þriðju leiðina í þessu samhengi. „Er það eðlilegt að ráðherra hafi ekkert um málið að segja?,“ veltir Ólöf upp.“
Skýring blaðsins að lögum hafi verið breytt vegna „umdeildra ráðninga“ gefur þá skoðun til kynna að unnt sé að finna eitthvert kerfi sem kemur í veg fyrir deilur. Svo er auðvitað ekki. Lögunum var breytt til að þeir sem sitja í hæstarétti hefðu tök á að ákveða hvern þeir fengju í réttinn með sér. Einsleitnin við val dómara eftir nýju reglunum felur í sér að konur eru settar skör lægra en karlar. Innrækt af þessu tagi er ávallt hættuleg og almennt talin leiða til úrkynjunar.
Fimmtudagur 24. 09. 15
Viðtal mitt á ÍNN við Kristínu Eysteinsdóttur, leikhússtjóra Borgarleikhússins, frá 23. september er komið á netið og má sjá það hér.
Flugið frá Bergen um Þrándheim í dag gekk samkvæmt áætlun, meira að segja lenti Icelandair-vélin á undan áætlun.
Enn er óvíst hvort tekst að ná stjórn á straumi farand- og flóttamanna til Evrópu frá Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. Leiðtogaráð ESB-landanna 28 kom saman miðvikudaginn 23. september og þar var ákveðið að verja einum milljarði evra til stuðnings aðgerðum Flóttamannastofnunar SÞ (UNHCR) og annarra stofnana SÞ sem hafa neyðst til að draga saman seglin við störf sín vegna skorts á fjármunum. Þá verður þessum fjármunum einnig varið til stuðnings við Líbanon, Jórdaníu og Tyrkland þar sem alls eru um fjórar milljónir flóttamanna. Rætt verður við Tyrki um leiðir til að stöðva straum fólks frá Tyrklandi til Grikklands. Starf Frontex, Landamærastofnunar Evrópu, við gæslu ytri landamæra ESB verður aukið. Komið verður á fót nýjum skráningarskrifstofum „hotspots“ á ESB-máli til að skrá allt aðkomufólk sem reynir að komast inn á Schengen-svæðið.
Allt miðar þetta að því að halda sem flestum frá Evrópu og halda nákvæma skrá yfir þá sem reyna að komast þangað. Donald Tusk, forseti leiðtogaráðsins, sagði réttilega að ekki væri víst að þetta leysti vandann en um væri að ræða nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að Schengen-samstarfið yrði að engu – það yrði aðeins til í orði en ekki á borði. Hann taldi að stærsta flóttamannabylgjan hefði ekki skollið á Evrópu.
Miðvikudagur 23. 09. 15
Í kvöld var viðtal mitt við Kristínu Eysteinsdóttur, leikhússtjóra Borgarleikhússins, sýnt á ÍNN. Næst má sjá hann á rás 20 á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun en hvenær sem er á tímaflakki Símans.
Hér í Bergen var félagið Snorres Venner, Vinir Snorra [Sturlusonar] stofnað á fundi kl. 18.00. Lög félagsins voru samþykkt og kosin stjórn. Flutt var talað mál og tónlist. Fundurinn var vel sóttur og fjöldi manns hefur sýnt félaginu áhuga.
Þriðjudagur 22. 09. 15
Flaug til Bergen í dag til að taka þátt í því á morgun að stofna hér félagið Snorres Venner, Vinir Snorra. Þar er átt við Snorra Sturluson en stytta af honum stendur hér við Maríukirkjuna við hliðina á Bryggen, gömlu húsunum við bryggjuna í Bergen.
Maríukirkjan var risin þegar Snorri var hér á ferð á 12. öld og er ekki vafi á að hann hafi farið í þetta veglega guðshús. Kirkjan var nýlega opnuð að nýju eftir að hafa verið fimm og hálft ár í viðgerð. Hún er vegleg og ríkulega búin. Altaristafaflan er mikið gullslegið listaverk þar sem María guðsmóðir er miðpunkturinn. Er mikil blessun að hún var ekki eyðilögð við siðaskiptin. Er talið að þýskir kaupmenn, Hansakaupmenn, á Bryggen hafi varið kirkjuna fyrir þeim sem vildu eyðileggja allt sem minnti á pápískuna.
Stofnfundur félagsins Snorres Venner verður haldinn í bæjarsafni Bergen við hliðina á Snorra-styttunni og hefst klukkan 18.00. Hann er opinn öllum sem hafa áhuga á gerast stofnendur þessa félags.
Flugið til Bergen tók tvo klukkutíma og hér er veðrið svo gott að við snæddum hádegisverð utan dyra.
Mánudagur 21. 09. 15
Hinn 11. september 2014 kynnti Reykjavíkurborg nýtt nýtt auðkenni og slagorð fyrir Reykjavík sem áfangastað það er Reykjavík Loves. Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) hélt samkeppni um markaðsefni fyrir svæðið í heild og bar Íslenska auglýsingastofan sigur úr býtum. Auðkennið var formlega kynnt á fundi Ferðamálasamtaka höfuðborgarsvæðisins í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi þennan dag fyrir rúmu ári.
Var slagorðið unnið úr þeim gildum að Reykjavík þætti vinaleg, litrík, nútímaleg, menningarleg og friðsæl. Hugmyndin var að borgin eignaðist lifandi slagorð þar sem Reykjavík væri gestgjafinn og tæki gestum sínum og íbúum opnum örmum. Í hugmyndinni var unnið markvisst með liti borgarinnar, aðalliturinn er himinblár en stuðningslitir koma frá litríkum húsþökum, norðurljósum, steinsteypu, grasgrænu og fleiri einkennandi litum í borgarlandslaginu eins og segir í frétt á mbl.is um hið nýja slagorð fyrir ári.
Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs borgarinnar, talaði nýlega fyrir því að þetta slagorð Reykjavíkurborgar yrði tengt heiti Keflavíkurflugvallar. Hinn 18. september 2015 birti Reykjavíkurborg á vefsíðu sinni ávarp Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Undir myndbandi stendur: „Reykjavíkurborg tekur áskorun Rauða krossins um að vera virkur þátttakandi í átakinu Vertu næs. Dagur B. Eggertsson ríður á vaðið og er næs.“
Þetta birtist á vefsíðunni sama dag og rann upp fyrir Degi B. að hann hedði ekki verið næs með því að samþykkja Bjarkarkveðjuna til Ísraela í borgarstjórn þriðjudaginn 15. september.
Í dag hafa upplýsingafulltrúar Icelandair og WOW air skýrt frá afbókunum ferðamanna vegna Bjarkarkveðjunnar til Ísraela. Málið hefur þegar haft mikil áhrif á ferðaþjónustuna á Íslandi sagði Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW við mbl.is og bætti við að félagið hefði jafnframt áhyggjur af íslenska kvikmyndaiðnaðinum sem hefði verið ein besta landkynningin á síðustu árum.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði á mbl.is að félagið hefði fengið mikið af athugasemdum á samfélagsmiðlum auk skilaboða um að fólk hefði hætt við ferðir, söluaðlar hætt að selja Íslandsferðir, hætt hefði verið við ráðstefnur og að fólk mundi sniðganga Icelandair.
Að Degi B. Eggertssyni borgarstjóra þyki sjálfsagt að sitja áfram í embætti sínu og státa sig af „að vera næs“ er aðeins enn ein sönnunin á dómgreindarbrestinum í ráðhúsinu. Fólkinu sem þar ræður er ekki treystandi til að bæta skaðann sem það hefur valdið.
Sunnudagur 20. 09. 15
Fyrir þremur vikum sagði Birgitta Jónsdóttir á aðalfundi Pírata að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér aftur til þingstarfa nema samið yrði fyrir kosningar um stjórnarsamstarf sem gerði ráð fyrir að á sex mánuðum yrði stjórnarskránni breytt, þjóðin kysi um aðildarviðræður við ESB og stjórnarráðinu yrði gjörbylt. Kosið yrði að nýju til þings eftir níu mánuði.
Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar laugardaginn 19. september tók Árni Páll Árnason flokksformaður undir hugmyndir Birgittu og sagði að Samfylkingin ætti að „ leita samstöðu með öðrum umbótasinnuðum öflum um þjóðaratkvæði um framhald aðildarviðræðna, framhald stjórnarskrárbreytinga og aðrar nauðsynlegar grundvallarbreytingar í kjölfar næstu kosninga. Píratar hafa sett fram hugmynd um stutt þing í þessu skyni og það er hugmynd sem vert er að ræða.“
Í stuttu máli kraup Árni Páll í vanmætti sínum vegna fylgisleysis á kné fyrir framan Birgittu. Fréttamaður ríkisútvarpsins virtist ekki átta sig á samhengi hlutanna þegar hann ræddi við Birgittu sunnudaginn 20. september en þann dag segir á ruv.is:
„Birgitta Jónsdóttir þingflokksformaður Pírata segir að svipaða tillögu og Árni Páll hafi hún lagt fram fyrir síðustu kosningar. Hún hafi falið í sér sameiginleg markmið með tilbúnum stjórnarsáttmála en engan hljómgrunn hlotið.
„Þau hafa í það minnsta ekkert komið og rætt við okkur um þessi mál. Og ég vil líka taka það fram að mér finnst mjög mikilvægt að það komi fram að Píratar eru opnir fyrir öllum sem hafa áhuga á því að ganga bundnir að því að framfylgja því sem að við teljum að sé nauðsynlegt það er að laga gruninn að samfélaginu okkar. Það er öllum frjálst að koma að tala við okkur. Ég vil aftur á móti bara leggja höfuðáherslu á það að við erum ekki í kosningavetri. Við eigum að einbeita okkur að bara að neyðarástandi sem hér ríkir.“
Einkennilegast við þetta allt er að meira að segja Birgitta virðist í svari sínu ekki átta sig á að Árni Páll tók undir öll sjónarmið sem hún kynnti sjálf fyrir þremur vikum og sagði skilyrði framboðs síns. Var ekkert að marka þessi orð Birgittu frekar en svo margt annað sem frá henni kemur? Nú bætist pólitískt hryggbrot við önnur vandræði Árna Páls.
Laugardagur 19. 09. 15
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tilkynnti í dag að tillagan um viðskiptabann á Ísrael frá þriðjudeginum 15. september í kveðjuskyni við Björk Vilhelmsdóttur (Samfylkingu) við brottför hennar úr borgarstjórn yrði dregin til baka. Í samtali við mbl.is sagði Dagur B. að tillagan hefði verið skilin sem ætlunin væri að „sniðganga“ allar vörur frá Ísrael. Hugsunin hefði verið „að sniðganga aðeins vörur sem framleiddar væru á hernámssæðinu". Þetta væri mikilvægt að leiðrétta. Hann hefði átt „gott samtal“ við borgarstjóra Kaupmannahafnar í hádegi laugardags 19. september sem sagði Degi B. að halda sér við hernumdu svæðin en ekki Ísrael allt. „Hann ætlar að vera okkur innan handar,“ sagði Dagur B. um borgarstjóra Kaupmannahafnar.
Það þurfti sem sé borgarstjórann í Kaupmannahöfn til að koma vitinu fyrir Dag B. sem hafði þó látið eins hann hefði frá upphafi farið að fordæmi Kaupmannahafnar. Þar fór Dagur B. með rangt mál. Borgarstjóri lagði greinilega ekki neitt á sig til að kynna sér efni og afleiðingu kveðjutillögu Bjarkar – hann samþykkti hana í anda klúbbs borgarfulltrúa.
Að baki tillögu Bjarkar er hugmyndafræði hreyfingarinnar Boycott, Divestment and Sanctions Movement (BDS Movement) – Hreyfingin gegn viðskiptum, fjárfestingum og til stuðnings refsiaðgerðum. Þessi hreyfing kom til sögunnar árið 2005 og nær hún til allra landa til að auka efnahagslegan og stjórnmálalegan þrýsting á Ísrael í þágu markmiða hreyfingarinnar sem eru: brottför Ísraela af hernumdu svæðunum og stöðvun landnáms Ísraela í Palestínu, algjört jafnrétti fyrir ríkisborgara Ísraels af ættum araba og Palestínumanna og virðing fyrir rétti palestínskra flóttamanna til að koma til baka. Innan þessarar hreyfingar líkja menn ástandinu í Ísrael saman við það sem var í Suður-Afríku á tíma aðskilnaðarstefnu (apartheid) hvítra og svartra.
Gagnrýnendur BDS segja hreyfinguna ala á gyðingahatri og grafa undan lögmæti tilveru Ísraels. Þá saka þeir hreyfinguna einnig um að beita hótunum, stunda mútur og þvinganir til að fá fólk til stuðnings við BDS.
Talsmenn BDS fögnuðu ályktun borgarstjórnar Omar Barghouti sagði ekkert geta „afturkallað hinn siðferðilega sigur sem felst í þessu nýja íslenska viðskiptabanns-eldgosi, það brýtur tabú“. Dagur B. hefur nú gert þennan fögnuð að engu. Hann segir þau Björk ekki hafa undirbúið tillöguna nógu vel.
Föstudagur 18. 09. 15
Þriðjudaginn 15. september 2015 var hátíð í borgarstjórn Reykjavíkur vegna brottfarar Bjarkar Vilhelmsdóttur (Samfylkingu) úr henni. Björk átti sér þann draum að viðskiptabann yrði sett á Ísrael og flutti um það tillögu til að vinna sig í álit hjá nýjum vinnuveitendum sínum, Palestínumönnum. Meirihlutinn samþykkti tillöguna en sjálfstæðismenn í minnihluta hörmuðu að geta ekki orðið við ósk Bjarkar og báru einkum fyrir sig tæknileg rök – pólitík má ekki lengur ræða í borgarstjórn Reykjavíkur. Það er gamaldags.
Eftir þessari samþykkt borgarstjórnar var tekið í Ísrael og víðar, viðbrögðin láta ekki heldur á sér standa. Álag á íslensku utanríkisþjónustuna hefur stóraukist vegna aragrúa mótmælabréfa þar sem hvatt er til þess að íslenskar vörur séu sniðgengnar og fjöldi fólks segist ekki munu sækja Ísland heim og hvetur aðra til hins sama.
Á mbl.is er í dag rætt við Dag B. Eggertsson borgarstjóra um hina forkastanlegu samþykkt. Augljóst er af orðum hans að ekki minnsta vinna var lögð í áhættumat vegna tillögunnar eða samþykktar hennar. Borgarstjóri segir meðal annars afgreiðslunni til réttlætingar:
„Þetta tengist auðvitað líka því að þetta er lokatillaga Bjarkar sem er að hætta í borgarstjórn þannig að við gerðum þetta svona.“
Þannig að allajafna hefði tillagan ekki verið sett fram í svona miklum flýti, spyr blaðamaður og svarið er:
„Ég get kannski ekki sagt að þetta hafi verið sett fram í flýti, þetta hefur mjög víða [annars staðar] verið til umræðu og skoðunar. […] Við þurfum auðvitað að vanda okkur í þessu eins og öðru.“
Samþykktin er ekki eins og hvert annað ráðhúshneyksli heldur alþjóðlegt feilspor sem sannar enn vanhæfni borgarstjóra og liðsmanna hans.
Utanríksráðuneytið sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem áréttað er að ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur sé ekki í samræmi við utanríkisstefnu Íslands og ekki heldur til marks um tengsl Íslands og Ísraels.
Hvort þetta nægi til að slökkva reiðibálið sem samþykkt kveðjutillögu Bjarkar vakti kemur í ljós. Forseti Íslands og forsætisráðherra ættu einnig að leggja sitt af mörkum til að rétta hlut þjóðarinnar vegna þessa asnasparks borgarstjórnar í gyðinga.
Fimmtudagur 17. 09. 15
Viðtal mitt við Kenneth Cohen qi gong meistara frá Bandaríkjunum er komið á netið og má sjá hann hér.
Þegar rætt er um Schengen-framtíðina er nauðsynlegt að fylgjast náið með samskiptum þýskra og franskra stjórnvalda til að átta sig á þróuninni innan ESB. Þjóðverjar mæla með kvótum og að fólk í einu Schengen-landi verði flutt til annars til að jafna byrðunum. François Hollande á í vök að verjast. Enginn Frakklandsforseti hefur notið minna fylgis í skoðanakönnunum en hann. Mið-hægrimenn vilja ekki kvótakerfi heldur að til sögunnar komi Schengen 2, Þjóðfylkingin lengra til hægri vill burt með Schengen-samstarfið og enga kvóta.
Le Monde sagði um fund innanríkis- og dómsmálaráðherra Schengen-ríkjanna í Brussel mánudaginn 14. september að hann hefði verið „fíaskó“. Engin haldbær niðurstaða hefði náðst, ráðherrarnir ætla að hittast aftur nk. þriðjudag og eftir fund þeirra vill Angela Merkel að leiðtogaráð ESB komi saman og ræði málið.
Schengen er í uppnámi, drög að nýjum útlendingalögum hér eru reist á Schengen fyrir uppnámið. Það er sjálfgert að slá málinu á frest þar til Schengen 2 sér dagsins ljós. Það er hárrétt hjá Ólöfu Nordal innanríkisráðherra að virða ber Dublin-reglurnar. Hugmyndir um að hundsa þær eru órökstuddar.
Miðvikudagur 16. 09. 15
Í kvöld birtist á ÍNN viðtal mitt við Kenneth Cohen, qi gong meistara frá Bandaríkjunum, sem var hér á dögunum. Þetta er fyrsta viðtal mitt á erlendu máli á ÍNN. Textarnir voru skýrir á skjánum og vona ég að efni samtals okkar Kens hafi komist vel til skila hjá áhorfendum. Þátturinn verður næst sýndur klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun og hann má nálgast á tímaflakki Símans.
Að tilefni þess að meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur samþykkti viðskiptabann á Ísrael hafi verið brottför Bjarkar Vilhelmsdóttur (Samfylkingu) til starfa í Palestínu er jafnvel meirihlutanum til meiri skammar en hin í raun marklausa ályktun.
Á ruv.is sagði í dag:
„Björk Vilhelmsdóttir sem hætti í borgarstjórn í gær lagði tillöguna fram en hefð er fyrir því að fráfarandi borgarfulltrúar flytji kveðjutillögu á síðasta fundi sínum.“
Þessi sérkennilegi háttur innan borgarstjórnar og viðbrögð borgarfulltrúa almennt við tillögu Bjarkar um þetta efni bera með sér klúbb-andrúmsloftið innan borgarstjórnar. Þetta andrúmsloft gerir þessa stjórn borgarinnar æ marklausari.
Í bókun sjálfstæðismanna vegna tillögu Bjarkar sagði að þess væri saknað að tillaga Bjarkar tengdist ekki velferðarmálum, þar sem mikilla umbóta væri þörf, eins og hún hefði tjáð sig um nýlega. Þetta er tæknileg en ekki pólitísk afstaða og endurspeglar enn klúbb-viðhorfið í ráðhúsinu.
Hér er um pólitískt mál að ræða sem mótast af óvild í garð Ísraels og gyðinga. Málið á að ræða á þeim forsendum en ekki á þann hátt sem það er kynnt af borgarstjóra sem segir það mannréttindamál eða oddvita sjálfstæðismanna sem segir að tæknileg rök skorti fyrir hver verði áhrif samþykktar borgarstjórnar á innkaup í nafni Reykvíkinga.
Þegar fulltrúar stjórnmálaflokkanna afmá pólitíkina úr málflutningi sínum er ekki að undra að fólki sé sama hverja þeir kjósa.
Þriðjudagur 15. 09. 15
Vitnað var í þingræðu sem Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, flutti í dag um að nefndarfundir þingmanna yrðu í heyranda hljóði. Á visi.is var haft eftir henni: „Nefndarfundir eru stór hluti í að búa til stefnur sem landið okkar byggir. Einungis þrír nefndarfundir af fjölmörgum á þessu ári hafa verið haldnir í heyranda hljóði.“ Taldi hún þennan boðskap eiga vel við á degi lýðræðisins.
Hvað sem líður hugsjóninni að baki þessum orðum verður þeim ekki hrundið í framkvæmd nema menn vilji eyðileggja eitt helsta gildi funda þingnefnda, það er að þar ræða menn saman án þess að setja sig í sömu stillingar og þeir gera í opinbera sviðsljósinu. Í þessum orðum felst ekki að eitthvert leynimakk eigi sér stað á bakvið luktar dyr nefnda heldur ábending um að venjulegt nefndarstarf er ekki fallið til beinnar útsendingar.
Fundir alþingis hafa tekið miklum breytingum frá því að tekið var til við beinar útsendingar frá þeim og þær eru ekki allar til bóta. Raunar hefði mátt ætla að bein útsending af þingfundum minnkaði líkur á uppákomum eins og þeim sem verða þegar hundruð eða þúsund ræður eru fluttar um annað en nokkurt dagskrárefni þingsins, það er um störf þingsins eða fundarstjórn forseta. Hvílík tímasóun! Með því að ræða efni mála sem eru á dagskrá á skipulegan hátt færa þingmenn þeim sem á þá hlusta fróðleik um það sem gerist á nefndarfundum. Það er miklu betri aðferð til að auka traust á þinginu og fræða aðra um það sem þar er til meðferðar en flytja hljóðnema inn á nefndarfundi.
Hér má lesa athyglisverða frétt fyrir þá sem velta fyrir sér efni útlendingalaga
Þar kemur fram sem oft hefur verið sagt hér á þessari síðu að efni þessara laga ræður miklu um hvort ríki vilja laða að sér hælisleitendur eða ekki. Það er engin tilviljun að fjöldi hælisleitenda aukist hér eftir að fréttir eru fluttar um að taka eigi á móti þúsundum þeirra. Barack Obama Bandaríkjaforseti tilkynnti að hann ætlaði að opna Bandaríkin fyrir 20.000 sýrlenskum flóttamönnum – miðað við höfðatölu ætti að bjóða 20 hæli hér á landi.
Mánudagur 14. 09. 15
Leyniþjónusta dönsku lögreglunnar, Politiets Efterretningstjeneste (PET), varaði í síðustu viku við því að það kynnu að vera einstaklingar hlynntir herskáum íslamistum meðal flóttamanna og farandfólks í Danmörku. Hafa beri þetta í huga við áhættumat vegna Danmerkur.
Danska blaðið Berlingske Tidende lagði spurningu um þetta efni fyrir PET og birti svarið fimmtudaginn 10. september. Í svarinu til blaðsins sagði PET að meðal flóttamanna frá Sýrlandi/Írak gætu verið einstaklingar hlynntir herskáum íslamistum og þeir kynnu að falla fyrir áróðri um að ráðast beri gegn þeim ríkjum sem eigi aðild að fjölþjóða samstarfinu um að brjóta Íslamska ríkið á bak aftur, þar á meðal Danmörku,
Á blaðamannafundi fimmtudaginn 10. september var Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Dana, spurður hvort hætta væri á að hryðjuverkamenn leyndust meðal útlendinga sem dveldust í Danmörku. Hann sagði lögregluna fylgjast með ástandinu, hann og formenn annarra flokka bæru fyllsta traust til hennar.
PET bendir á að hugsanlegt sé öryggi aðkomufólksins verði ógnað af heimamönnum sem sætti sig ekki við dvöl þess í Danmörku. Ástandið kunni að vekja pólitískar öfgatilfinningar í hjörtum Dana.
Reglur Dana um útlendingamál og hælisleitendur eru strangari en reglur Svía svo að dæmi sé tekið enda sækjast mun færri eftir hæli í Danmörku en Svíþjóð. Í samanburði milli danskra og sænskra reglna er til dæmis nefnt að það sé grundvallamunur á að veitt tímabundið dvalarleyfí í eitt ár í upphafi og síðan tvö ár hverju sinni heldur en strax er veitt ótímabundið dvalarleyfi. Slíkur munur á reglum geti skipt sköpum við val hælisleitanda á umsóknarlandi. Hann hafi ef til vill greitt smyglaranum sem kom honum inn í Evrópu eina milljón ísl. króna eða meira. Hann geri því allt til að komast hjá að verða sendur fljótt til baka. Danir hafa ströngustu reglur um þetta innan ESB sem dregur úr áhuga hælisleitenda á landi þeirra. Þá er fjárstuðningur við flóttamenn minni í Danmörku en Svíþjóð.
Drög að nýjum útlendingalögum liggja nú fyrir hjá innanríkisráðherra sem tekur ákvörðun um flutning frumvarps um málið á alþingi. Við frágang málsins í ráðuneytinu er óhjákvæmilegt að taka mið af upplausninni sem nú ríkir í Schengen-samstarfinu og til hvaða breytinga hún leiðir á inntaki samstarfsins.
Sunnudagur 13. 09. 15
Greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur sent frá sér skýrslu sem hefur að geyma mat á skipulagðri brotastarfsemi. Í lok hennar segir:
„Greiningadeild telur að huga beri að stofnun rannsóknarteymis sem starfi á landsvísu og aðstoði lögregluumdæmin við rannsókn og úrvinnslu flókinna mála, t.d. tölvurannsóknir og fíkniefnamál sem krefjast mikillar sérfræðikunnáttu.
Nú er starfrækt í landinu ein vopnuð lögreglusveit; sérsveit ríkislögreglustjóra. Hún er sérstaklega þjálfuð til þess að takast á við hættuleg tilvik svo sem vopnamál, gíslatökur, hættulega einstaklinga og hópa. Styrkur hennar hefur veruleg áhrif á starfsemi lögreglunnar á landsvísu. Sérsveitin hefur ekki náð þeim styrk sem stefnt var að í upphafi. Efling sérsveitarinnar gæti ekki síst gagnast landsbyggðinni í baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi.“
Þá kemur fram að í framhaldi af útgáfu ríkislögreglustjóra í janúar 2015 á verklagsreglum vegna heimilisofbeldis hafi tilkynningum, ákærum og dómum fjölgað og nú hafi hátt á fimmta tug slíkra mála komið á borð lögreglu frá áramótum. Á fundum greiningardeildar með lögregluumdæmunum kom fram að þessar rannsóknir væru bæði flóknar og tímafrekar og takmörkuðu þannig um leið getu lögreglunnar til þess að sinna annarri frumkvæðisvinnu.
Við þennan lestur vaknar spurning um hvort ekki eigi að koma á fót landsteymi til að sinna kærum vegna heimilisofbeldis.
Í skýrslu greiningardeildarinnar er ekki vakið máls á höfuðvanda þeirra sem vilja að framkvæmd löggæslu sé markviss. Hann felst í brotthvarfi dómsmálaráðuneytisins og meiri fjarlægð en áður milli pólitískrar yfirstjórnar og þeirra sem sinna ábyrgðarmiklum störfum á vettvangi lögreglunnar. Að löggæsla og barátta gegn afbrotum séu aukageta innan innanríkisráðuneytis er fráleit aðferð til að hlú að slíkri starfsemi.
Af ummælum forráðamanna ríkisstjórnarinnar hefur mátt ætla að þeir vilji endurreisa dómsmálaráðuneytið. Þess sjást þó engin merki að unnið sé að því.
Þar sem ekki tekst lengur að verja ytri landamæra Schengen-svæðisins er samstarfið undir merkjum þess í molum. Þetta krefst aukins eftirlits á landamærum hér eins og annars staðar.
Miklar umræður fara fram um framtíð Schengen-samstarfsins. Tómlæti gagnvart þróuninni er varasöm en um árabil hefur enginn sérstakur fulltrúi íslenskrar löggæslu starfað í sendiráði Íslands í Brussel. Sérþekking á Schengen-málefnum skiptir sköpum við gæslu íslenskra hagsmuna á þessu mikilvæga sviði.
Laugardagur 12. 09. 15
Jeremy Corbyn hlaut glæsilega kosningu sem leiðtogi Verkamannaflokksins í Bretlandi, tæp 60% atkvæða. Í blaðinu The Daily Telegraph birtist þessi listi yfir áherslur hans:
Nýr fjárfestingarbanki í ríkiseign til að ýta undir hagvöxt og minnka halla.
Ríkið eigi járnbrautir og orkufyrirtæki.
Hætta við Trident-kjarnorkukafbátana og útvega störf sem viðhalda hæfni skipasmiða.
Minnka kostnað vegna félagsmála með hagvexti og fjárfestingu.
Áætlun um meira húsnæði og eftirlit með leiguverði.
Félagsleg umhyggja felld inn í ríkisrekna heilbrigðiskefið.
Ný menntamálastofnun sem veitir börnum alhliða þjónustu, afnám skólagjalda, endurupptaka styrkja og fjármögnun fullorðins-starfsþjálfunar.
Afnám ótryggðra starfssamninga og lífvænleg lágmarkslaun fyrir alla án tillits til aldurs.
Sé tekið mið af íslenskum stjórnmálum er ljóst að Verkamannaflokkurinn breski hefur valið leiðtoga sem er einskonar samnefnari milli vinstri arms Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Hvers vegna taka þessi öfl ekki höndum saman hér á landi undir formennsku Ögmundar Jónassonar? Hægri armur Samfylkingarinnar gæti hæglega sameinast Bjartri framtíð.
Í slíkri uppstokkun fælist hæfileg hreingerning á vinstri kantinum.
Brýnasta verkefni Sjálfstæðisflokksins er að skilgreina stöðu sína í Reykjavík og takast á við veikleika sem við blasa að lokinni slíkri greiningu. Á meðan flokkurinn nýtur þessa litla trausts meðal borgarbúa og ungs fólks nær hann sér ekki á strik.
Það er merkilegt að á vettvangi Sjálfstæðisflokksins virðist engin umræða um hve brýnt er að gjörbylta starfsháttunum í Reykjavík. Ólíklegt er að hún verði í aðdraganda landsfundarins nema dragi til tíðinda vegna átaka um menn. Innra starf flokksins í Reykjavík snýst um menn en málefnin sitja á hakanum.
Að enginn í forystusveit sjálfstæðismanna í Reykjavík gangi fram fyrir skjöldu og boði skipulagt átak til að endurreisa flokkinn í höfuðborginni er mikið áhyggjuefni. Þetta leiddi til þess að maður utan Reykjavíkur var kallaður til að leiða lista flokksins í borgarstjórnarkosningum án þess að hafa árangur sem erfiði.
Föstudagur 11. 09. 15
Samtal mitt við Tolla á ÍNN miðvikudaginn 9. september er komið á netið og má sjá það hér. Við ræðum meðal annars um hugleiðslu en í 60 Minutes á DR2 var í kvöld var einmitt einn þriðjungurinn um mindfulness, núvitund, hugleiðsluaðferð sem nýtur mikilla vinsælda.
Kammersveit Reykjavíkur hélt upp á 80 ára afmæli Arvos Pärts með glæsilegum tónleikum í Langholtskirkju.
Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hefur ákveðið að segja skilið við íslensk stjórnmál og snúa sér að hjálparstarfi í Palestínu,.Rætt rætt er við hana í Fréttablaðin í dag. Þar segir:
„Ertu að segja að það sé einhver aumingjavæðing í gangi? „Það er það. Þú færð meira með því að eiga svolítið bágt, meiri athygli og meiri bætur. […]
Ég ætla bara segja það hér, að mér finnst það synd þegar félagsráðgjafinn fer að líta á það sem mannréttindi skjólstæðings síns að reykja kannabis og fokka upp lífi sínu. Að fara að berjast fyrir því að hann fái að vera bara á þeim stað í tilverunni. […]
Kannski eigum við að fara að krefjast árangurs. Ég hef talað fyrir því að félagsráðgjafar og það kemur inn á rekstrahallann, að við erum með alltof mikið af vinnufæru fólki á fjárhagsaðstoð. […]
En það hefur verið andstaða við það hjá velferðarsviði borgarinnar en ekki hjá þjónustumiðstöðvunum, þar sem starfsmenn hitta unga fólkið sem er vinnufært, þar til að það verður óvinnufært því fólk sem er lengi á fjárhagsaðstoð festist í svona fátækragildru. Það smám saman missir hlutverk sitt, missir taktinn í tilverunni. Fer að sofa kannski þrettán tíma á sólarhring, fær vegna þess stoðkerfisvanda sem ekki var til staðar áður. […]Mér finnst of mikil linkind innan kerfisins og við vera með of margt vinnufært fólk á fjárhagsaðstoð. Við getum sparað mjög mikla fjármuni með því að fækka fólki á fjárhagsaðstoð. Auk þess að spara í heilsutengdum kostnaði til framtíðar. Þetta er svona stóra pólitíska málið sem ég brenn fyrir því mér finnst við eigum að gefa ungu fólki tækifæri ef ekki á vinnu þá menntun.“
Flutti Björk þennan ágæta boðskap nokkru sinni þegar hún bauð sig fram?
Fimmtudagur 10. 09. 15
Í morgun birti ég á vefsíðunni vardberg.is endursögn á frétt á vefsíðunni defensenews.com um komu Roberts Works, vara-varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hingað til lands og fund með Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra þriðjudaginn 7. september. Fréttastofa ríkisútvarpsins vitnaði í þessa endursögn mína í fréttum klukkan 18.00 eins og sjá má hér.
Fréttastofa ríkisútvarpsins sneri sér til utanríkisráðuneytisins af þessu tilefni sem lýsir hlutverki utanríkisráðherra sem hlustanda í þessum samtölum. Þeir Gunnar Bragi og Robert Work hittust í Washington hinn 1. júlí 2015 og eftir fund þeirra var utanríkisráðherra spurður á fundi hjá hugveitunni CSIS í Washington hvort hann teldi stöðu öryggismála skapa „þörf“ fyrir að endurreisa varnarlið á Íslandi undir stjórn Bandaríkjamanna eða NATO.
Utanríkisráðherra sagði erfitt að svara hvort þessa væri „þörf“. Það yrði hins vegar að bregðast við stöðunni í öryggismálum hverju sinni og nú væri öfugþróun vegna framgöngu Rússa og hættu frá hryðjuverkamönnum. Sig mundi ekki undra að Ísland yrði mikilvægara og hernaðarlegt mikilvægi landsins kæmi að nýju til umræðu. Hann væri hlynntur því ef NATO og allir samstarfsaðilar á Norður-Atlantshafi hefðu getu til að svara fljótt frá Keflavík eða í Keflavík. Hann gæti ekki sagt hvernig viðbúnaður væri bestur en eðli hans og tímasetningar yrði að ræða næstu mánuði og jafnvel ár. Íslendingar hefðu lagt áherslu á aðstöðu á Keflavíkurflugvelli fyrir leit og björgun. Ef til vill mætti skapa tengsl milli slíkrar starfsemi og varnarviðbúnaðar, það þyrfti að skoða nánar.
Undir lok fundarins sagði Gunnar Bragi íslensks stjórnvöld vilja halda allri aðstöðu á Keflavíkurflugvelli í því horfi að erlendar flugvélar undir merkjum NATO gætu „plug and play“, það er komið á völlinn og hafið þaðan aðgerðir innan fáeinna klukkustunda – þannig hefði það til dæmis verið fyrir skömmu þegar um 200 manna lið hefði birst til að stunda kafbátaleit frá vellinum.
Augljóst að inntak varnarsamstarfs Íslands og Bandaríkjanna breytist í samræmi við þróun öryggismála á norðurslóðum. Engum getur komið það á óvart. Um er að ræða stigmögnun vegna framgöngu Rússa sem leita eins og áður að veikasta hlekknum. Meginbreyting nú frá því sem áður var er þátttaka Finna og Svía í viðbragðsáætlunum undir merkjum NATO. Þróun nýtingar Keflavíkurflugvallar í þágu sameiginlegs öryggis hlýtur að taka mið af því.
Miðvikudagur 09. 09. 15
Í dag ræddi ég við myndlistarmanninn Tolla í þætti mínum á ÍNN. Hann segir frá því hvernig hann vann markvisst að því að ná sér eftir erfiðan krabbameinsuppskurð í sumar. Nú þremur mánuðum síðar er hann óvenjulega vel á sig kominn. Hann þakkar það ekki síst andlegu jafnvægi og sátt sem hann öðlast með hugleiðslu. Hana hefur Tolli stundað í sjö ár. Næst má sjá samtal okkar Tolla kl. 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun. Á tímaflakki Símans má sjá það hvenær sem er.
Á mbl.is má í dag lesa þessa frétt:
„Í staðinn fyrir að byggjast upp hægt og rólega var maður að rífa sig niður hægt og rólega,“ segir Sævar Ólafsson, íþróttafræðingur, sem hélt erindi á málþingi um andlega líðan íþróttamanna sem haldið var í Háskólanum í Reykjavík dag. Hann lék lengi knattspyrnu á sama tíma og hann var mjög þunglyndur.
Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur og sviðsstjóri íþróttasviðs Háskólans í Reykjavík, segir að rannsóknir bendi til að geðræn vandamál séu jafnvel algengari hjá afreksfólki í boltaíþróttum en hjá öðrum sambærilegum hópum í þjóðfélaginu.
Jafnframt segir hún að þrátt fyrir að umræða um geðheilsu íþróttamanna hafi verið áberandi á undanförnum misserum segir Hafrún að í raun sé ekkert verið að gera skipulega innan íþróttahreyfingarinnar til að takast á við vandamálin þegar þau koma upp.
„Það er mikil pressa, það eru miklar kröfur frá umhverfi: mögulega foreldrum, íþróttafélögunum sjálfum. Ofþjálfun getur leitt til þunglyndis, það sífellt verið að dæma þig,“ segir Hafrún og bendir á að ýmislegt í umhverfi íþróttamanna geti ýtt undir kvíða eða geðraskanir.“
Hér er greinilega um að ræða viðfangsefni sem yrði auðveldara viðfangs ef hugleiðsla væri hluti af þjálfun íþróttamanna. Margar aðferðir má stunda við hugleiðslu. Qigong er kjörin aðferð fyrir íþróttamenn til að viðhalda jafnvægi, sátt og hugarró sama hvað á bjátar. Ken Cohen, qigong-meistari, sem hefur verið hér á ferð ræddi um golf-qigong og knattspyrnu-qigong. Kínverskar bardagalistir eru þjóðaríþrótt Kínverja þær eru reistar á sama grunni og heilsu-qigong. Mælanlegur árangur qigong æfinga til að vinna á streitu, kvíða og þunglyndi hefur víða verið kynntur.
Þriðjudagur 08. 09. 15
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands gagnrýndi í ræðu við þingsetningu í dag bæði hugmyndir um breytingu á stjórnarskránni og aðferðina við að breyta henni ef kjósa ætti um málið samhliða kjöri forseta sumarið 2016 í nafni sparsemi og hagræðis. Hann sagði meðal annars:
„Efnisrökin [fyrir breytingum] eru hvorki tilvísun í þjóðarheill né ríkan vilja landsmanna, heldur almennt tal um alþjóðasamstarf, lagatækni og óskir embættismanna. Íslandi hefur þó allt frá lýðveldisstofnun tekist vel að stunda fjölþætt alþjóðasamstarf á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Norðurlandaráðs, NATO, EFTA og fleiri bandalaga, eiga gjöful og margþætt tengsl við ríki, stór og smá, í öllum álfum án þess að þörf væri að breyta fullveldisákvæðum lýðveldisins; hinum helga arfi sjálfstæðisins.[…]
Tenging við forsetakosningar næsta vor skiptir í þessum efnum litlu og er jafnvel andlýðræðisleg í eðli sínu. Sé talin nauðsyn að breyta stjórnarskrá í grundvallarefnum eru útgjöld vegna sérstakrar þjóðaratkvæðagreiðslu um þau efni léttvæg lóð enda eðlilegt að þjóðin fái ótrufluð af öðru að vega og meta slíkar breytingar.“
Hér skal tekið undir þessi meginsjónarmið forseta Íslands. Eftir deilurnar sem ESB-aðildarumsóknin olli er fráleitt að stofna nú til deilna vegna hugmynda um breytingar á fullveldisákvæðum stjórnarskrárinnar til að búa í haginn fyrir valdaafsal til Brussel – á sama tíma og ESB-ríkin vilja draga úr Brusselvaldinu yfir þjóðþingum sínum.
Ekkert knýr á um breytingar á fullveldisákvæðum stjórnarskrárinnar. Einkum þegar kröfur í því miða að minna fullveldi, afsal valds þjóðarinnar á eigin málum.
Að sameina þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar og kosningu forseta í nafni sparnaðar og hagsýni felur í sér lítilsvirðingu í garð stjórnarskrárinnar og forsetaembættisins. Á öðru er nauðsyn.
Mánudagur 07. 09. 15
Evrópustofu var lokað þriðjudaginn 31. ágúst. Á ruv.is mátti lesa þann dag:
„Starfsemi Evrópustofu var hætt í dag. Fráfarandi framkvæmdastjóri segir það skýran vilja Evrópusambandsins að starfa ekki í andstöðu við vilja stjórnvalda. […] Reksturinn var á sínum tíma boðinn út en samningurinn rann út í dag og ákveðið var að láta gott heita, segir Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Evrópustofu. „Það er alveg skýr vilji Evrópusambandsins að starfa ekki í andstöðu við vilja stjórnvalda í hverju landi fyrir sig“.
Þess vegna var dyrum Evrópustofu skellt í lás í síðasta sinn í dag. Dóra segir að verði viðræður teknar upp að nýju um aðild Íslands að ESB sé mögulegt að upplýsingaskrifstofa verði opnuð hér á landi á ný.“
Þessi tónn um Evrópustofu frá ábyrgðaraðila hennar er í andstöðu við leikritið sem sett var á svið þegar hún var opnuð í ársbyrjun 2012. Ég var á ferð í Berlín í október 2011 og fór í fyrirtækið Media Consulta sem rak stofuna á vegum stækkunardeildar ESB. Hafði ég pantað viðtal hjá fyrirtækinu til að kynna mér áform þess á Íslandi. Við komuna þangað var ég drifinn inn á fjölmennan morgunverðarfund þar sem Birna Þórarinsdóttir síðar framkvæmdastjóri Evrópustofu sat og fleiri. Síðar sagði hún viðtali við Pressuna að ég hefði verið boðflenna á þessum fundi! Var það liður í markvissri tilraun til að gera allt tortyggilegt sem ég sagði um tilurð Evrópustofu. Á fundinum í Berlín sagði forstjóri Media Consulta að samkomulag hefði verið milli stækkunardeildarinnar og ráðuneytisins að opna skrifstofuna. Hún starfaði alls ekki í óþökk ráðuneytisins.
Málið var rætt á alþingi, þar sagði Össur utanríkisráðherra: „Allt frumkvæði að Evrópustofu kom frá Brussel, eins og ýmislegt gott sem eflt hefur hag Íslands.“ Hann sagði að spyrja ætti Evrópustofu um uppruna hennar. Lét hann eins og utanríkisráðuneytið hefði ekkert um málið vitað. Allt var þetta hluti hins sameiginlega blekkingarleiks utanríkisráðuneytisins og stækkunardeildar ESB.
Nú er ljóst að ESB-viðræðunum hafði verið siglt í strand þegar Evrópustofa var opnuð. Starfsemin var frá upphafi sóun á fé ESB-skattgreiðenda og engum til gagns nema Media Consulta og starfsmönnum fyrirtækisins í Berlín og Reykjavík.
Sunnudagur 06. 09. 15
Síðari dagur vel heppnaðs qi gong námskeiðs Kenneths Cohens var á Kvoslæk í dag. Hann er hafsjór af fróðleik og bauð okkur einnig í kínverska te-listveislu.
Laugardagur 05. 09. 15
Í dag stunduðu tæplega 30 manns qi gong á Kvoslæk undir leiðsögn Kenneth Cohens. Frá því snemma morguns og þar til nú hefur svo mikill rigningarsuddi verið í Fljótshlíðinni að varla sést á milli bæja. Mér sýnist á vefsíðunni Belgingi að þetta sé einn fárra staða sem rignir á landinu – og það engin smárigning. Kenneth Cohen var hér fyrir tveimur árum tveimur vikum fyrr. Þá rigndi einnig svona mikið. Vonandi styttir upp á morgun svo að hann sjái Eyjafjallajökul – þann mikla orkubrunn.
Föstudagur 04. 09. 15
„Það var stofnað til þessa máls með illviljan að vopni,“ segir Þorsetinn Már Baldvinssyni, forstjóri Samherja um meint brot Samherja á gjaldeyrislögum. Sérstakur saksóknari felldi málið niður í dag. Þorsteinn Már segir seðlabankastjóra hafa stofnað til málsins með fölsunum. Þetta stendur á ruv.is í dag en húsleit var gerð á skrifstofum Samherja á Akureyri og í Reykjavík í mars árið 2012 að kröfu Seðlabanka Íslands og hald lagt á mikið magn gagna. Síðan var fyrirtækið kært fyrir meint brot á lögum um gjaldeyrishöft. Við rekstur málsins þurfti hins vegar að leggja fram nýja kæru þar sem ekki reyndist refsiheimild fyrir hendi vegna lögaðila. Lagði seðlabankinn því fram kæru á hendur Þorsteini Má og þremur öðrum lykilstarfsmönnum. Sérstakur saksóknari telur ekki tilefni til að verða við kæru seðlabankans.
Á mbl.is segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, að eftir standi hvort seðlabankinn telji tilefni til þess að ákvarða stjórnvaldssekt vegna málsins. Þá geti þeir sem hlut eigi að máli kært niðurstöðu sérstaks saksóknara til embættis ríkissaksóknara sem taki ákvörðun um það hvort málið skuli tekið fyrir að nýju eða staðfesti ákvörðunina.
Þetta er ekki eina málið sem til var stofnað að tilhlutan Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Hann lagði stein í götu Heiðars Guðjónssonar sem vildi kaupa Sjóvá á sínum tíma. Seðlabankastjóra tókst illa til í því máli og var kvartað til Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns alþingis. Hann hefur haft málið til meðferðar árum saman og hafa ekki borist fréttir af niðurstöðu hans. Vandræðagangurinn hjá umboðsmanni í málinu eru í andstöðu við áminningar hans í garð ýmissa stjórnvalda um að gæta að reglum um hæfilegan málshraða. Umboðsmaður hefur brotið allar slíkar reglur við afgreiðslu á þessari kvörtun vegna stjórnsýslu seðlabankastjóra. Hvers vegna? Til að halda hlífiskildi yfir Má Guðmundssyni.
Heiðar fór þess á leit við þjóðskrá að millinafnið Már yrði fellt úr nafni hans. Skyldi Þorsteinn Már gera hið sama?
Fimmtudagur 03. 09. 15
Viðtal mitt við Reyni Ingibjartsson gönguleiðafræðing á ÍNN í gær er komið á netið og má sjá það hér
Fyrir mörgum mánuðum var ákveðið að Kenneth Cohen, qi gong meistari, flytti fyrirlestur í kvöld milli 19.00 og 21.00 og misstum við áheyrendur hans af knattspyrnuleik Íslands og Hollands fyrir bragðið en af lýsingum að dæma vann íslenska liðið einstakt afrek. Cohen tók fram að hann væri stundum fenginn til að þjálfa íþróttamenn með qi gong aðferðum sem duga vel þar eins og hvarvetna þar sem þeim er beitt.
Augljóst var af fyrirlestri hans að áhugi lækna á qi gong eykst ár frá ári því að hvers kyns klínískar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum þess að qi gong aðferðum er beitt. Í meginatriðum má skipta aðferðunum í tvennt: (1) það sem hver einstaklingur gerir sjálfur fyrir sjálfan sig með því að læra og stunda æfingarnar; (2) það qi gong meistari gerir með því að beina orku úr höndum sér á skjólstæðing sinn. Allt er nú mælanlegt og augljóst að áhrif eru jákvæð í báðum tilvikum.
Merkilegar eru niðurstöður tilrauna á dýrum þar sem qi gong aðferðum er beitt, jákvæð áhrif þess að beina orku að dýrunum eru mælanleg, oft er mikill munur. Þessar tilraunir skipta miklu því að dýrin átta sig ekki á að orku sé beint að þeim úr lófa eða fingrum manna. Lyfleysur geta haft góð áhrif á mannfólkið séu þær gefnar af læknum sem segja að þeim fylgi lækningamáttur. Þann leik er ekki unnt að leika við mýs eða rottur.
Miðvikudagur 02. 09. 15
Í dag ræddi ég við Reyni Ingibjartsson, höfund sex göngubóka, í þætti mínum á ÍNN. Síðasta bók Reynis í þessum flokki kom út snemma sumars, 25 gönguleiðir á Þingvallasvæðinu. Í upphafi samtals okkar gat ég þess að á dögunum birti The Daily Telegraph frétt um að rannsóknir sýndu að 25 mínútna ganga á dag gæti lengt líf manna um allt að sjö árum.
Reynir velur gönguleiðir sínar af kostgæfni og fer síður en svo alltaf troðnar slóðir. Hann kýs einnig frekar að fara eftir örnefnum en gps-hnitum. Samtal okkar má sjá klukkan 20.00 í kvöld á ÍNN og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun, þeir sem hafa flakk Símans geta ákveðið sjálfir hvenær þeir horfa á þáttinn eftir klukkan 20.00.
Í morgun var ég í Morgunútgáfu ríkisútvarpsins kl. 07.30 ásamt Kenneth Cohen, qi gong meistara, og ræddum við um qi gong og fyrirlestur Cohens á morgun kl. 19.00 til 21.00 í húsi SÁÁ Efstaleiti 7. Cohen verður einnig með qi gong námskeið á Kvoslæk í Fljótshlíðinni um helgina, sjá hér.
Þriðjudagur 01. 09. 15
Í morgun klukkan 08.15 ók ég suður í Hafnarfjörð eftir Kringlumýrarbrautinni og var samfelld bílaröð á móti mér, bílar á leið til borgarinnar, allt að gatnamótunum í Engidal, það er í Hafnarfirði. Stundum hef ég farið þessa leið áður um svipað leyti en aldrei séð eins mikla umferð og nú. Forvitnilegt væri að vita hvað menn ætla sér langan tíma til að komast í skóla eða vinnu þegar farin er þess leið uppúr kl. 08.00 á morgnana.
Niðurstaða skoðanakönnunar um fylgi flokkanna var birt í dag á ruv.is:
„Kjörtímabilið er hálfnað og enn má sjá miklar breytingar í nýjasta þjóðarpúlsi Gallup. Píratar, sem bætt hafa stöðugt við fylgi sitt frá ársbyrjun, bæta við sig um fjórum prósentustigum frá síðasta mánuði og mælast nú með 36 prósenta fylgi. Það er mesta fylgi sem Píratar hafa mælst með og enginn annar flokkur hefur mælst með viðlíka stuðning á kjörtímabilinu.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur aðeins einu sinni mælst með minna fylgi. Hann mælist nú með 21,6 prósent. Það er um tveimur prósentustigum minna en í síðasta mánuði og minnsti stuðningur sem flokkurinn hefur mælst með síðan í nóvember 2008. Þá mældist hann með einu prósentustigi minna en nú.
Vinstri hreyfingin grænt framboð bætir við sig og mælist með tæplega 12 prósenta fylgi og Framsóknarflokkurinn með um 11 prósent. Samfylkingin tapar þremur prósentustigum og mælist með níu prósent.
Fylgi flokksins hefur ekki mælst minna í 17 ár eða síðan í maí 1998 - ári áður en flokkurinn bauð fyrst fram til Alþingis. Flokkurinn mældist með 9,3 prósent fylgi í könnun sem MMR gerði í byrjun júlí.
Björt framtíð mælist með 4,4 prósent. Það er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með á kjörtímabilinu.
34 prósent kjósenda styðja ríkisstjórnina - það er tveimur prósentustigum minni stuðningur en í síðasta mánuði.“
Þessar tölur sýna fyrst og síðast skort á pólitískri sannfæringu og að stjórnmálamenn skortir skírskotun til kjósenda. Allir flokkar þurfa að gera betur. Þeir feykjast úr einu í annað hvort sem um er að ræða viðskipti við Rússa eða móttaka flóttamanna. Hvar er fasti punkturinn? Ekki hjá Pírötum, samnefnara óvissunnar.