3.9.2015 22:10

Fimmtudagur 03. 09. 15

Viðtal mitt við Reyni Ingibjartsson gönguleiðafræðing á ÍNN í gær er komið á netið og má sjá það hér 

Fyrir mörgum mánuðum var ákveðið að Kenneth Cohen, qi gong meistari, flytti fyrirlestur í kvöld milli 19.00 og 21.00 og misstum við áheyrendur hans af knattspyrnuleik Íslands og Hollands fyrir bragðið en af lýsingum að dæma vann íslenska liðið einstakt afrek. Cohen tók fram að hann væri stundum fenginn til að þjálfa íþróttamenn með qi gong aðferðum sem duga vel þar eins og hvarvetna þar sem þeim er beitt.

Augljóst var af fyrirlestri hans að áhugi lækna á qi gong eykst ár frá ári því að hvers kyns klínískar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum þess að qi gong aðferðum er beitt. Í meginatriðum má skipta aðferðunum í tvennt: (1) það sem hver einstaklingur gerir sjálfur fyrir sjálfan sig með því að læra og stunda æfingarnar; (2) það qi gong meistari gerir með því að beina orku úr höndum sér á skjólstæðing sinn. Allt er nú mælanlegt og augljóst að áhrif eru jákvæð í báðum tilvikum.

Merkilegar eru niðurstöður tilrauna á dýrum þar sem qi gong aðferðum er beitt, jákvæð áhrif þess að beina orku að dýrunum eru mælanleg, oft er mikill munur. Þessar tilraunir skipta miklu því að dýrin átta sig ekki á að orku sé beint að þeim úr lófa eða fingrum manna. Lyfleysur geta haft góð áhrif á mannfólkið séu þær gefnar af læknum sem segja að þeim fylgi lækningamáttur. Þann leik er ekki unnt að leika við mýs eða rottur.