Dagbók: maí 2014

Laugardagur 31. 05. 14 - 31.5.2014 23:55

Kosningabaráttan í Rangárþingi eystra var skemmtileg og ánægjulegt að kynnast því ágæta fólki sem skipar D-listann. Það tókst þó ekki að fella meirihluta framsóknarmanna sem er í minnihluta meðal kjósenda með 46,9% atkvæða. D-listinn hélt sínum 2 mönnum (33,7%) af 7 en nýr listi, L-listinn, fékk 1 mann (19,4%). L-listinn var boðinn fram í þeim tilgangi að breyta og fella meirihlutann. Meirihluti kjósenda vildi breytinguna sem var í loftinu en kosningareglurnar tryggðu minnihlutanum meirihluta í sveitarstjórninni. Þessi staða er ekkert einsdæmi í Rangárþingi eystra en þar réðust úrslitin af 3 eða 4 atkvæðum og þurfti að telja oftar en einu sinni.

Heildarniðurstaðan eftir að hafa fylgst með tölunum eins og þær birtast í ríkisútvarpinu sýna sterkari stöðu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins en í skoðanakönnunum. Stjórnarflokkarnir geta vel við unað.

 

Föstudagur 30. 05. 14 - 30.5.2014 23:55

Miðað við umræðustjórn í erlendum sjónvarpsstöðvum þótti mér Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Lára Ómarsdóttir hlutdrægar í þágu ákveðinna stefnumála í umræðum kvöldsins þar sem efstu menn átta lista í Reykjavík skiptust á skoðunum.

Halldór Halldórsson á D-lista var málefnalegastur og stundaði ekki orðaleiki eins og Dagur B. Eggertsson sem sagði ekki hafa verið skipulagt neitt á „grænum svæðum“ til að þétta byggð heldur aðeins á „þegar röskuðum svæðum“, hvað sem í því felst. Dagur B. lét raunar eins og hann stæði á hærra stalli en aðrir frambjóðendur.

Að kosningum loknum kemst hann þó ekki á þennan stall án samstarfs við einhvern hinna oddvitanna. Dagur B. hefur helst augastað á S. Birni Blöndal í Bjartri framtíð. Birni brást bogalistin í þættinum, sérstaklega með því að sýna Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita Framsóknarflokksins, óvirðingu með látbragði sínu eftir að hún hafði hallmælt störfum núverandi meirihluta.

S. Björn Blöndal talaði um „örvæntingu framsóknarmanna“  og lýsti Framsóknarflokknum sem þjóðernislegum hægri öfgaflokki. Þeir sem þannig tala hafa enga hugmynd um stefnu og starfshætti flokka sem falla réttilega undir þessa skilgreiningu.

Í kvöldfréttum ríkisútvarpsins voru allar reglur brotnar með því að flytja einhliða samfylkingarfrétt til að gera stjórnendur Garðabæjar tortryggilega án þess að sjónarmið þeirra fengju rými í fréttatímanum, aðeins var rætt við frambjóðanda Samfylkingarinnar.

D-listinn í Rangárþingi eystra hafði opið hús í kosningaskrifstofu sinni á Hvolsvelli og lögðu margir leið sína þangað.

Fimmtudagur 29. 05. 14 - 29.5.2014 22:50

Í Fréttablaðinu segir í dag: „Það voru eflaust ekki margir sem áttu von á því að helsta umræðuefnið tveimur dögum fyrir borgarstjórnarkosningar væri úthlutun lóðar fyrir mosku múslima í Reykjavík.“ Hvers vegna er blaðamaðurinn undrandi á að þetta mál veki umræðu rétt áður en Reykvíkingar kjósa nýja borgarstjórn? Hið skrýtna er að ekki hafi verið meiri umræður um málið frá því að meirihluti borgarstjórnar ákvað að velja moskunni þann stað sem hann gerði.

Líklegt er að hart hefði verið deilt á meirihlutann hefði hann ákveðið að þarna risi kirkja. Reykvíkingar hafa ekki farið varhluta af deilum um um kirkjubyggingar. Þær voru til dæmis háværar um Hallgrímskirkju sem nú er mest sótti ferðamannastaðurinn í höfuðborginni. Menn hafa ekki hikað að deila um stað fyrir rétttrúnaðarkirkju og einn af frambjóðendum Samfylkingarinnar hallmælti henni með mun harðari orðum en frambjóðandi Framsóknarflokksins hefur látið falla um stað fyrir mosku.

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, telur að ekki eigi að gefa lóðir undir trúfélög í Reykjavík. Hann minnir á að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá á sínum tíma um lóðarval meirihlutans vegna moskunnar, þeim þótti lóðin „ekki heppileg“ segir Halldór við Fréttablaðið. Útspil frambjóðanda Framsóknarflokksins var ekki frumlegt en hitti í mark af því að kosningar eru á næsta leiti – þá er einmitt rétti tíminn til að hreyfa ágreiningsefnum.

S. Björn Blöndal, oddviti Bjartrar framtíðar, lætur eins og ágreiningur um lóðarvalið sé nýr á nálinni hann segir:

 „Ég setti þetta í samhengi við ákveðna bylgju í Evrópu þar sem hægriöfgaöfl og öfl sem að ala á ótta, hatri og öðru slíku voru að ná miklu fylgi í kosningum til Evrópuþingsins. Ég er alveg viss um að Reykvíkingar eru ekki að fara að láta bjóða sér þetta.“

 Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, segir:

„Mér finnst þetta bera svolítið bera mið af örvæntingu þegar Framsókn var ekki að fá mikið fylgi. Ég er hugsi yfir þessu útspili Framsóknarflokksins.“

 Að kenna þetta við örvæntingu er fráleitt. Um er að ræða val á lóð undir mosku, hina fyrstu á Íslandi. Tilraunir til að kæfa umræður um málið eru dæmdar til að mistakast.

Miðvikudagur 28. 05. 14 - 28.5.2014 23:18

Var á kosningaskrifstofu D-listans á Hvolsvelli í kvöld, ræddi við kjósendur og meðframbjóðendur mína. Þrír listar eru í framboði hér í Rangárþingi eystra B-listi framsóknarmanna og L-listi auk D-listans.

Framsóknarmenn hafa haft hreinan meirihluta síðan 2010 með Ísólf Gylfa Pálmason sem sveitarstjóra. Liggur í loftinu að framsóknarmenn missi meirihluta sinn. Stærstu mistök þeirra á kjörtímabilinu voru að breyta sorphirðu til verri vegar. Þá þykja þeir hafa einangrast frá íbúunum í meirihluta sínum.

Á Hvolsvelli er töluverður hópur Pólverja, þeir starfa flestir hjá SS, og birta flokkarnir tilkynningar sínar á íslensku og pólsku. D-listinn efnir einnig til sérstaks kosningafundar fyrir þá sem ekki tala íslensku.

Kristín Þórðardóttir er oddviti D-listans. Hún hefur setið eitt kjörtímabil í sveitarstjórn og reynst farsæl í störfum sínum. Birkir Arnar Tómasson, bóndi á Móeiðarhvoli,  er í öðru sæti á D-listanum. Nýlega birtist viðtal við hann í Morgunblaðinu vegna stórframkvæmda við nýtt og nýtíuskulegt fjós sem hann ætlar að reisa á búi sínu. Guðmundur Viðarsson, bóndi í Skálakoti, skipar þriðja sætið, baráttusætið á D-listanum.

Þriðjudagur 27. 05. 14 - 27.5.2014 23:20

Fór í dag í Skógasafn og sótti fróðleik um hið mikla starf sem þar er unnið og framtíðarstefnu. Ferðaþjónusta er mikil og vaxandi undir Eyjafjöllum og safnið að Skógum hefur mikið aðdráttarafl. Það er opið allan ársins hring og var aðeins lokað einn dag á síðasta ári. Að öllu er staðið af stórhug og myndarskap.

Þá sótti ég fund sem frambjóðendur D-listans í Rangárþingi eystra boðuðu í Gunnarshólma. Þar flutti Daði Már Kristófersson fróðlegan fyrirlestur um landbúnaðarmál og svaraði fyrirspurnum.

Þeir segja mér bændur hér um slóðir að vorið sé betra en þeir minnist að hafa kynnst áður. Þar muni mest um að það hafi ekki orðið neitt „bakslag“ eftir að tók að vora, það er ekki næturfrost auk þess rignt hafi hæfilega mikið.

Fyrir nokkru sagði ég frá hvítri tófu í túninu hjá mér. Skömmu síðar var ein slík skotin í byggð fyrir neðan þjóðveginn. Önnur hvít tófa sást hér í nágrenninu snemma í morgun og kunnugir segja að tófur sjáist víða þar sem þær hafi ekki verið áður. Það er greinilega nauðsynlegt að grípa til harðra gagnaðgerða. Að minnsta kosti eitt höfuðlaust lamb hefur fundist

Mánudagur 26. o2. 14 - 26.5.2014 23:15

Þegar stórir atburðir gerast innan ESB eins og nú þegar þar verður pólitískur jarðskjálfti í kosningum til ESB-þingsins er einkennilegt hve þeir sem tala mest með nauðsyn þess fyrir Íslendinga að ganga í sambandið eru þögulir. Þetta er þó tilefni sem skynsamlegt er að nýta til að ræða stöðuna innan ESB og hvert stefnir því að athygli allra alvöru fjölmiðla beinist nú að innra starfi ESB, hvort og hvenær sambandinu verður breytt til að höfða betur til borgaranna innan þess.

François Hollande Frakklandsforseti flutti sjónvarpsávarp í kvöld þar sem hann sagði ESB „fjarlægt og óskiljanlegt“ í augum margra, hvorki almenningur né embættismenn einstakra aðildarlanda áttuðu sig á hvað gerðist á vettvangi sambandsins.

Fréttaskýrendur eru sammála um að á ESB-þinginu muni hefðbundnu þingflokkarnir leitast við að gera sem minnst úr flokkunum gegn ESB og leitast við að takmarka völd þeirra og áhrif. Það muni þó ekki duga til að stöðva breytingaöflin. Trúverðugleiki ESB gagnvart eigin borgurum er í húfi. Hann eykst ekki með því að ætla að úthýsa fulltrúum milljóna kjósenda.

Í þremur löndum þar sem ráðandi öfl hafa litið á flokka sem boða andstöðu við ESB eins og pólitískt holdsveika eru þessir flokkar nú í fyrsta sæti í ESB-þingkosningunum: Danmörku, Bretlandi og Frakklandi. Árásir á þessa flokka og gagnrýni þar sem ekki er alltaf virt það sem sannara reynist hafa ekki slævt áhuga á að kjósa þessa flokka. Þeir hafa stækkað jafnt og þétt í heimalöndum sínum og gætu eins gert það hvarvetna innan ESB.

Sunnudagur 25. 05. 14 - 25.5.2014 22:50

Fréttir íslenskra fjölmiðla á úrslitum ESB-þingkosninganna og þeim straumum sem þær boða í stjórnmálum einkennast af því að þeir taka einkum mið af þeim miðlum sem birta fréttir á ensku.

Enginn vafi er á áhrif úrslitanna í Frakklandi verða veruleg innan ESB. Á Evrópuvaktinni má lesa stutta skýringu á úrslitunum og þar er meðal annars vitnað til þess að Manuel Valls, nýskipaður forsætisráðherra Frakka, sá ástæðu til að ávarpa þjóðina þegar ljóst var að stjórnarflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn, hafði aðeins fengið tæp 15% atkvæða og allir vinstriflokkarnir í Frakklandi um 33%.

Fyrir kosningarnar reyndi Nicolas Sarkozy, fyrrv. Frakklandsforseti, að hressa upp á fylgi flokks síns með blaðagrein um nauðsyn þess að gjörbreyta skipan ESB. Með nánara samstarfi Frakka og Þjóðverja auk þess sem Schengen-samstarfinu yrði breytt í því skyni að skapa sameiginlega stefnu allra þjóða í málefnum innflytjenda og hælisleitenda til að hefta komu þeirra inn á Schengen-svæðið.

Mið-hægrimenn í EPP-flokknum (European People's Party) mynda stærsta þingflokkinn á hinu nýkjörna þingi og gera kröfu til formennsku í framkvæmdastjórn ESB.

Í einhverjum íslenskum fjölmiðlum er EPP-þingflokkurinn kenndur við kristilega demókrata. Það er of þröng skýring. Franskir flokkar eru ekki kristilegir enda hafa verið dregin skýr skil á milli trúmála og stjórnmála í Frakklandi. Þá eru moderatarnir, hægrimenn í Svíþjóð og Finnlandi, ekki heldur kristilegir flokkar. Vilji menn íslenka heiti þessa Evrópuflokks er það Evrópski flokkur fólksins sem mætti skammstafa EFF.

Laugardagur 24. 05. 14 - 24.5.2014 23:20

Fórum á tónleika í Eldborg. Þeir enduðu á þann veg sem lýst er í þessari fréttatilkynningu frá Listahátíð í Reykjavík:

„Velski bass-barítóninn Bryn Terfel missti röddina þegar 20 mínútur voru liðnar af einsöngstónleikum hans í Eldborg á Listahátíð.  Hann tók þá ábyrgu ákvörðun að ljúka ekki tónleikunum og tilkynnti tónleikagestum að hann myndi koma aftur við fyrsta tækifæri. Ný dagsetning fyrir tónleikana hefur þegar verið ákveðin og mun hann koma og syngja í Eldborg þann 10. júlí næstkomandi. Allir seldir miðar á tónleikana 24. maí gilda á tónleikana 10. júlí.“

Það er vel að verki staðið að tilkynna strax nýjan tónleikadag.

Bryn Terfel hefur greinilega „forkelast“ hér á landi. Egill Helgason álitsgjafi sagði á vefsíðu sinni í gær:

„Ég rakst á óperusöngvarann Bryn Terfel í miðbænum í gærkvöldi. Hann var bara á skyrtunni, reyndar var mikið blíðviðri og hann virkaði afar kátur, en ég spurði hvort honum væri ekki kalt. Söngvarar eru alltaf hræddir við að kvefast.

Hann spurði hvort ég vildi lána sér jakkann minn.“

Skyldi Egill ekki hafa viljað lána honum jakkann?

Föstudagur 23. 05. 14 - 23.5.2014 23:15

Í dag varð sú breyting á Evrópuvaktinni að við hættum að skrifa fréttir og leiðara en höldum áfram með Stjórnmálavaktina, Pottinn og pistla. Við Styrmir Gunnarsson höfum nú haldið Evrópuvaktinni úti í rúm fjögur ár og birt fjölmargar fréttir á hverjum degi auk leiðara sex sinnum í viku. Framvegis leggjum við áherslu á ofangreinda þrjá þætti sem ávallt hafa verið mest lesnir á síðunni.

Osmo Vänskä stjórnaði 3. sinfóníu Mahlers á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í kvöld, um 100 mínútur án hlés. Flutningurinn var stórbrotinn og undirtektir áheyrenda í samræmi við það. Stjórnandinn vissi nákvæmlega hvað hann vildi og virkjaði hljómsveit, einsöngvara og kór með sér á áhrifamikinn hátt. Heildarmyndin var glæsileg og enn sannaðist hve frábær hljómburðurinn er í Eldborg - Osmo Vänskä kunni einnig að nýta hann af listfengi.


Fimmtudagur 22. 05. 14 - 22.5.2014 22:57

Opnunartónleikar Listahátíðar í Reykjavík voru í kvöld í Norðurljósasal Hörpu þar sem félagar í Kammersveit Reykjavíkur fluttu tvö verk: Hið fyrra var frumflutningur á verkinu Hér vex enginn sítrónuviður eftir Atla Heimi Sveinsson við ljóð Gyrðis Elíassonar og hið síðara Pierrot lunaire eftir Arnold Schönberg við ljóð eftir Albert Giraud.

Bernharður Wilkinson stjórnaði en Hanna Dóra Sturludóttir söng einsöng og flutti texta.  Benedikt Gylfason (f. 2002) söng í verki Atla Heimis.

Tónleikarnir báru heitið: Pierrot prójektið en Króatinn Valerij Lisac annaðist leikstjórn og listræna umgjörð í Pierrot lunaire sem er talið meðal erfiðustu tónverka í flutningi. Hljóðfæraleikarar voru: Áshildur Haraldsdóttir flauta, Rúnar Óskarsson klarinetta, Anna Guðný Guðmundsdóttir píanó, Una Sveinbjarnardóttir, fiðla og víóla, Hrafnkell Orri Egilsson selló en auk þess lék Frank Aarnik á slagverk í verki Atla Heimis.

Í tónleikaskrá er þess sérstaklega minnst að í ár eru 40 ár liðin frá stofnun Kammersveitar Reykjavíkur en árið 1980 frumfluttu félagar í henni Pierrot lunaire á Íslandi og stjórnaði Paul Zukofsky flutningnum. Hefur hann verið gefinn út á DVD.

Flutningurinn á verkunum í kvöld var glæsilegur. Umgjörðin um Pierrot var vel heppnuð og skiluðu listamennirnir því á frábæran hátt til fjölmenns hóps áheyrenda.

Í dag var lokaerindi flutt í flokki Miðaldastofu Háskóla Íslands um klaustur á Íslandi. Að þessu sinni talaði Margaret Cormack, prófessor í guðfræði við College of Charleston í Suður-Karólínuríki í Bandaríkjunum. Ræddi hún um upphaf klaustra á Íslandi og helgisögur tengdar stofnun þeirra.

Þá var gaman að koma í Gamla garð og sjá hve vel Félagsstofnun stúdenta (FS) hefur staðið að endurnýjun hans. Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri FS, sagði í ávarpi að um tíma hefði verið rætt hvort selja ætti húsið en niðurstaðan hefði verið að endurnýja það með hollustu við uppruna þess að leiðarljósi og hefur það tekist með ágætum. Í sumar verður hótel rekið í húsinu og stúdentar flytja þangað næsta haust.

 

 

Miðvikudagur 21. 05. 14 - 21.5.2014 20:00

Í dag ræddi ég við Óla Björn Kárason, varaþingmann Sjálfstæðisflokksins, í þætti mínum á ÍNN. Við förum yfir stöðu stjórnmála í þinglok og 10 dögum fyrir sveitarstjórnarkosningar. Hún er einna einkennilegust í Reykjavík þar sem fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar ef marka má kannanir á sama tíma og það er mikið allt í kringum höfuðborgina.

Flugufrétt birtist á netmiðlum í dag um að stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, ætlaði í hádeginu að ræða um að ýta Halldóri Halldórssyni, efsta manni á D-listanum í Reykjavík, til hliðar vegna þess hve illa gengi í kosningabaráttunni. Þetta reyndist úr lausu lofti gripið.

Þeir sem muna kosningastarf Varðar og fulltrúaráðsins í Reykjavík á árum áður vita að kosningabarátta sjálfstæðismanna í höfuðborginni er aðeins svipur hjá sjón miðað við það sem áður var.

Sjá má samtal okkar Óla Björns á ÍNN klukkan 20.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun, fimmtudag.

Þriðjudagur 20. 05. 14 - 20.5.2014 22:50

Það er engu líkara en ætlunin sé að murka lífið úr Icelandair. Hvernig stjórnendum og starfsmönnum fyrirtækisins dettur í hug að ganga fram á þann hátt sem lýst er í fjölmiðlum vekur undrun.  Spurningin er hve langan tíma tekur að spilla svo orðspori Icelandair að fólk taki að forðast það á netinu og annars staðar.

Annað sem vekur undrun í fréttum dagsins er könnun í Morgunblaðinu sem sýnir að fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hefur minnkað milli kannanna og hann fengi aðeins þrjá borgarfulltrúa kjörna, flokkurinn mælist hinn þriðji stærsti í höfuðborginni á eftir tvíburunum Samfylkingu og Bjartri framtíð.

Hið einkennilega við kosningabaráttuna í Reykjavík er að ekki hafa verið dregnar skýrar línur á milli fylkinga á þann veg að kjósendur átti sig á vali milli kosta og málefna.

Samfylkingin boðar stefnu í húsnæðismálum sem er dæmd til að mistakast, hún er í anda sósíalistaflokka í Evrópu sem láta eins og þeir geti í krafti skattheimtu breytt þjóðfélagsgerðinni. Síðasta misheppnaða tilraunin í þessa veru gerðu sósíalistar í Frakklandi og eru nú á flótta undan henni.

Umræður hafa verið um byggingar í nágrenni Hörpu og Landsbankinn keypti nýlega lóð þar fyrir einn milljarð. Hvernig verður skipulag á þessum stað? Verður þrengt að norðurenda Lækjargötu þannig að allt umhverfi Arnarhóls fær á sig nýjan svip? Hvers vegna eru ekki birtar myndir af þessu svæði eins og myndin á dögunum sem sýndi hvernig unnið er að eyðileggingu götumyndar Frakkastígs við Skúlagötu?

 

 

 

 

Mánudagur 19. 05. 14 - 19.5.2014 21:10

Huang Nubo, kínverski auðmaðurinn sem starfaði tíu ár í áróðursdeild Kommúnistaflokks Kína, lætur ekki deigan síga og kemur enn á óvart. Nú herma fréttir að í október 2013 hafi hann siglt um norskan fjörð fyrir sunnan Tromsö og skoðað land í eigu norsks kaupsýslumanns og nú hafi þeir gengið frá samningi num kaup Huangs á landinu. Þetta sé aðeins upphafið að frekari umsvifum Huangs á norðurslóðum með Norðmanninum sem heitir Ola OK Giæver jr. og er lýst sem landeiganda, flugmanni og kaupsýslumanni.

Lofotenposten spyr Giæver jr hvers vegna hann telji Huang Nubo vilja leggja sig fram í þágu Norður-Noregs og svarar hann:

„Ég þekki hann. Maðurinn er heiðarlegur og traustur og þannig er hann mjög sérstakur kapítalisti. Ég hef kynnst honum sem hreinum, beinum og áreiðanlegum. Stundum verður maður bara að taka af skarið. Ég hef gert marga viðskiptasamninga um ævina og fyrir þessu hef ég besta tilfinningu af öllu sem ég hef kynnst sem kaupsýslumaður. Við höfum kynnt þeim norskar reglur og lög af kostgæfni og þeir eru sáttir við þær.“

Þegar ég las þessi hástemmdu lofsyrði varð mér hugsað til alls þess sem ég hef lesið um Huang Nubo og hvað hann hefur sagt um Ísland og Íslendinga frá því að hann hóf baráttuna til að eignast Grímsstaði á Fjöllum síðsumars 2011 með aðstoð forystumanna í Samfylkingunni innan og utan ríkisstjórnar. Af þeim kynnum get ég ekki tekið undir mat hins norska landeiganda og seljanda því að Huang Nubo hefur talað í nokkra hringi um samskipti sín við Íslendinga og ekki hefur allt staðist sem hann hefur sagt.

Hér má fræðast nánar um landakaup Huangs í Noregi.

 

Sunnudagur 18. 05. 14 - 18.5.2014 22:10

Í dag var kosningaskrifstofa D-lista sjálfstæðismanna og annarra lýðræðissinna í Rangárþingi eystra opnuð í blíðskaparveðri á Hvolsvelli. Fjölmenni kom og hlýddi á ávörp Kristínar Þórðardóttur, efsta manns á listanum, og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Auk þess sungu ungar stúlkur nokkur lög við góðar undirtektir. Tæpar tvær vikur eru til stefnu fram að kosningum og verða þær skipulega og vel nýttar.

Þegar Rut var litið út á tún í Fljótshlíðinni í morgun sá hún hvíta tófu þjóta niður á það ofan úr hlíðardragi. Það var eins og fugl færi hratt í lágflugi um skurði í túninu og virtist tófan vita nákvæmlega hvar hún ætti að leita að æti í sefinu. Við töldum að sex gæsahreiður væru í landinu en tókum nú eftir að gæsirnar eru á bak og burt. Lágfóta var örugglega ekki þarna á ferð í fyrsta sinn. Raunar sá ég í gær egg á undarlegum stað á hlaðinu hjá mér. Hefur hún kannski glatað því úr skoltinum í fyrri ránsferð. Byssulaus hafði ég samband við nágranna sem komu vopnaðir á vettvang en sú hvíta lét ekki ná sér – ekki í þetta sinn.

Eftir þetta atvik í dag hef ég fengið fréttir af tófu víðar í Fljótshlíðinni en í þau ár sem við höfum lagt leið okkar þangað hef ég ekki áður orðið var við þetta dýr sem talið er hafa verið lengst allra hér á landi.

Oft þegar ég ek um götur Reykjavíkur ýta aðrar útvarpsstöðvar, einkum Útvarp saga, rás 1 til hliðar. Bendir þetta til að styrkur á útsendingu rásar 1 hjá ríkisútvarpinu sé ekki nægur. Þetta gerist til dæmis aldrei þegar ég hlusta á BBC World Service á 94,3.

Rás 1 helst að jafnaði inni þegar ekið er austur í sveitir. Stundum er eins og tíðni útsendinga falli ekki alveg saman og setning er endurtekin þegar útsendingin færist sjálfkrafa af einni tíðni á aðra. Í dag ruddi hins vegar önnur stöð rás 1 til hliðar þegar ég nálgaðist Selfoss að austan. Skyldi ekki vera unnt að koma í veg fyrir þetta? Eða gefa hlustendum ráð til bregðast við þessum ófögnuði? Þetta er tvímælalaust meinlegur galli á þjónustu ríkisútvarpsins.

Laugardagur 17. 05. 14 - 17.5.2014 23:40

Nú er ein vika þar til kosið verður til ESB-þingsins og alls kyns mál eru á döfinni í ESB-ríkjunum 28 til að hafa áhrif á kjósendur. Í Danmörku beinist athyglin mjög að Lars Løkke Rasmussen, formanni Venstre-flokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, vegna leka um að flokkurinn hafi lagt honum til fé vegna fatakaupa og kostað ferð fjölskyldu hans í frí til Mallorka eins og sagt er frá hér.

Í Bretlandi er hart sótt að Nigel Farage, leiðtoga UKIP, flokks sjálfstæðissinna, fyrir að hafa farið offari í hrakspám um fjölda Rúmena og Búlgara sem myndu koma til Bretlands. Í Frakklandi eru fluttar fréttir sem benda til þess að formaður mið-hægriflokksins, UMP, hafi látið flokkinn ofgreiða til fyrirtækis sem skipuleggur ráðstefnur en formaður sjálfur hefur tengsl við það.

Þannig mætti áfram telja. Í samanburði við þetta allt er baráttan vegna sveitarstjórnarkosninganna hér á landi hreinn barnaleikur. Spurning er hvaða mál koma helst til umræðu nú þegar alþingi hefur lokið störfum.

Að óreyndu hefði mátt ætla að nýsamþykkt lög um fækkun sýslumanna og stækkun lögregluumdæma gætu orðið hitamál vegna sveitarstjórnarkosninga. Ekkert ber hins vegar á ágreiningi vegna hinna nýju laga. Málið hefur verið árum saman á döfinni og er þaulrætt auk þess sem Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður þingnefndarinnar, sem fjallaði um málið, hafa haldið þannig á því að víðtæk sátt náðist um frumvörpin á alþingi. Vel af sér vikið.

Föstudagur 16. 05. 14 - 16.5.2014 23:55

Í frétt á mbl.is  segir að handrita­safn Árna Magnús­son­ar hafi átt veiga­mik­inn þátt í því að Reykja­vík var tilnefnd ein af bók­mennta­borg­um UNESCO árið 2011. Því skjóti skökku við að nán­ast sé ómögu­legt fyr­ir þá sem heim­sækja borg­ina að skoða þessi merku hand­rit.

Ellefu manna stjórn Reykja­vík­ur bók­mennta­borg­ar UNESCO skor­ar þess vegna á rík­is­stjórnina að „gera þess­ar heims­ger­sem­ar sýni­leg­ar á nýj­an leik, þar til þær eign­ast framtíðar­heim­ili við hæfi á Mel­un­um. Með stórri hugs­un er hægt að leysa þetta hratt og vel,“ seg­ir í álykt­un frá stjórn­inni.

Í álykt­un stjórn­arinnar seg­ir að þessi vegtylla gefi Reykja­vík og land­inu öllu aukna mögu­leika á því að kynna hið merka sköp­un­ar­starf sem hér sé unnið und­ir merkj­um orðlist­ar og bók­menn­ing­ar. Hand­rit­in veki aðdáun og eft­ir­tekt allra sem kom­ist í ná­vígi við þau.

Allt er þetta rétt. Áratugum saman voru handritin til sýnis við fábrotnar og þröngar aðstæður í Árnagarði. Fyrir nokkrum árum voru fáein en mikilvæg handrit flutt til sýnis í Þjóðmenningarhúsinu. Handritasýningin þar var að mörgu leyti vel heppuð. Kostaði varðstaða um þau þar tugi milljóna á ári. Nú hefur hlutverk hússins verið endurskilgreint og handritin  fjarlægð. Verður ný samstarfssýning allra íslenskra safna opnuð í húsinu og það kallað Safnahúsið eins og í upphafi.

Ætlunin er að nýtt hús rísi á Melunum, þar sem Melavöllurinn stóð. Það hýsi Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og þar á meðal handritin með sýningarsal sem hentar. Komi allt að 25% ferðamanna til landsins vegna Íslendingasagnanna og annarra miðaldahandrita hafa þau gildi umfram hið fræði- og menningarlega. Til þess er meðal annars höfðað í ályktun bókmenntastjórnarinnar.

Víða um land leggja sveitarstjórnir og heimamenn rækt við bókmenntaarfinn og fá til þess stuðning ríkisins en krefjast ekki frumkvæðis þess eins og bókmenntastjórnin gerir. Hvers vegna skapar Reykjavíkurborg ekki aðstöðu svo að unnt sé að sýna handritin þar þau verða til sýnis á Melunum?

Fimmtudagur 15. 05. 14 - 15.5.2014 22:30

Nú er svo komið að ég hef sagt upp áskrift á prentaðri útgáfu blaða og tímarita sem ég kaupi frá útlöndum og les allt erlent blaðaefni á iPad eða tölvu. Þetta er þægileg aðferð til að fylgjast með því sem gerist austan hafs og vestan. Samkeppni eykst á milli miðla á netinu og hún birtist meðal annars í því að æ fleiri fréttir eru tengdar lifandi myndum. Jafnframt er leitast við að lokka lesendur til að greiða fyrir þjónustuna.

Ritstjórar tveggja blaða sem ég les reglulega The New York Times (NYT) og Le Monde hafa horfið frá störfum síðasta sólarhring.

Jill Abramson, stjórnandi ritstjórnar NYT, var óvænt rekin miðvikudaginn 14. maí án þess að nákvæmlega sé vitað hvað olli fyrirvararlausri brottför hennar. Hún fékk stöðu sína síðsumars 2011, fyrsta konan í sögu blaðsins. Sagt er að hluti skýringar afsagnar hennar sé að hún hafi mætt óvild frá körlum undir stjórn hennar.

Natalie Nougayrède, stjórnandi ritstjórnar Le Monde, sagði af sér miðvikudaginn 14. maí. Undanfarið hafa borist fréttir af ágreiningi á ritstjórn blaðsins og nokkrir æðstu menn hennar sögðu af sér. Nú hefur fyrsta konan á toppi Le Monde síðan horfið á brott eftir að hafa aðeins verið þar síðan í mars 2013. Hið sama á við um afsögnina á Le Monde og NYT  að fréttir um hina raunverulegu ástæðu eru óljósar. Ekki kæmi á óvart að fréttir bærust af karlrembu í París eins og í New York.

Þessi tvö blöð njóta trausts og virðingar fyrir fréttir sínar. Á ritstjórnum þeirra glíma menn ekki aðeins við öflun og skrif frétta heldur þurfa þeir að finna rétt jafnvægi við miðlun þeirra á prenti og rafrænt. Af frásögnum má ráða að veruleg spenna hafi myndast innan ritstjórna þessara tveggja blaða við töku ákvarðana sem snerta þennan þátt í störfum þeirra. Þessi spenna kann að hafa flýtt fyrir brottför stjórnenda ritstjórnanna.

Það hefur verið næsta ævintýranlegt að fylgjast með þróun vefsíðu Le Monde undanfarna mánuði og hvernig prentmiðillinn og hinn rafræni falla saman á netinu. Á hverjum degi um hádegisbil fá áskrifendur tilkynningu um Le Monde sé komið út og dreifing þess hafin en fyrir hádegi hefur ritstjórnin kynnt netáskrifendum sínum efni blaðsins eins og það hefur þróast á lokastigi. NYT nálgast lesendur á annan hátt en þar hefur markvisst verið unnið að því síðustu mánuði að lokka þá til að greiða fyrir þjónustuna.

Netsíður íslenskra fjölmiðla taka einnig breytingum. Mbl.is  hefur yfirburði en aðrir sækja í sig í veðrið og vefsíða Ríkisútvarpsins hefur til dæmis tekið breytingum og styrkst undanfarið.

Miðvikudagur 14. 05. 14 - 14.5.2014 20:40

Eldhúsdagsumræður fara fram á alþingi í kvöld. Þingmenn gera hreint fyrir sínum dyrum eftir veturinn. Fyrstur reið Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á vaðið og sagði meðal annars:

„Fyrir fjórum árum var almannarómur að framboð Besta flokksins væri til marks um pólitíska upplausn og skaðlegt alvöruleysi. Þegar Jón Gnarr býr sig nú undir að kveðja hið pólitíska svið er öllum ljós að aðrir hefðbundnari stjórnmálamenn hafa frekar orðið til þess að skapa pólitíska upplausn undanfarin ár en hann og hið yfirlýsta grínframboð. Það ætti að verða okkur öllum umhugsunarefni. Ekki síst í þessum sal.“

Óljóst er hvert flokksformaðurinn er að fara með þessum orðum. Að sjálfsögðu var framboð Jóns Gnarrs til marks um pólitíska upplausn og skaðlegt alvöruleysi. Jón Gnarr talaði á þann veg sjálfur. Hann vildi gera lítið úr hefðbundnu stjórnmálastarfi. Í þeim málflutningi felst pólitísk upplausn og hún blasir víða við nú fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Það eru til dæmis átta framboðslistar í Kópavogi.

Einkenni hinnar pólitísku upplausnar hafa síður en svo minnkað með framboði Jóni Gnarrs. Þau hafa þvert á móti aukist  meðal annars af því að sumir í hinum hefðbundnu flokkum halda að þeir geti fetað í fótspor grínistans sem notaði Ráðhúsið til uppistands eða innsetningar.

Stjórnmálamenn eiga að halda sig við það sem þeir bjóða sig fram til að sinna, hag almennings, lands og þjóðar. Það er aðeins á fárra manna færi að nota stjórnmálavettvanginn sjálfum sér til upphafningar. Sé formaður Samfylkingarinnar að boða ágæti þess er hann á villigötum.

 

Þriðjudagur 13. 05. 14 - 13.5.2014 21:00

Á ruv.is segir í dag:

„Uppnám varð á þingfundi síðdegis þegar Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar sakaði stjórnarandstöðuna um málþóf í umræðu um frumvarp ríkisstjórnarinnar um séreignarsparnað.

Önnur umræða um málið stóð til miðnættis í gær og var framhaldið eftir hádegi í dag. Í andsvari við Árna Pál Árnason, formann Samfylkingarinnar, fullyrti Vigdís að málþóf væri stundað. „Að hafna því hér nú í dag að það sé málþóf er barnaskapur, það er barnalegt í meira lagi,“ sagði Vigdís. „Þetta þurfum við að kljást við að flokkarnir sem stýrðu síðustu ríkisstjórn geta ekki með nokkru móti komið að því að vinna með okkur að því að heimilin í landinu fái skuldaniðurfellingu.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði Vigdísi sýna þöggunartilburði. „Mér er þetta algjörlega misboðið, að hér er verið að beita þöggunartilburðum gagnvart Árna Páli með því að saka hann um málþóf þegar hann er í ósköp eðlilegri málefnalegri umræðu um risavaxið mál.“ 

Árni Páll sagðist vonast til að það standist sem um hafi verið samið að lykilmál stjórnarflokkanna verði afgreidd. „Meðal annars þetta mál sem við erum að ræða núna, veiðigjaldafrumvarpið. Til viðbótar sumargjöf ríkisstjórnarinnar til stórútgerðarinnar stendur nú til að gefa vorgjöf í frekari veiðigjaldalækkunum.  

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að í því samkomulagi sem tekist hefði fyrir helgi hefði falist að þessi stóru mál ríkisstórnarinnar, séreignarsparnaður og skuldaniðurfærsla,  yrðu rædd og því væri ekki um málþóf að ræða.“

Þetta er í raun stórundarleg frétt og ber allt annað yfirbragð en þegar fréttastofa ríkisútvarpsins flutti hverja kvörtunarfréttina eftir aðra í tíð stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur um að þáverandi stjórnarandstaða stundaði málþóf. Nú hefur verið samið um lyktir þingmála. Jóhanna umturnaðist jafnan þegar um slíkt var rætt við hana og stjórnmálasamband hennar og Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur þingforseta slitnaði vegna ofríkis Jóhönnu.

Nú má þingmaður ekki nefna orðið „málþóf“ án þess að formaður þingflokks sjálfstæðismanna beri blak af stjórnarandstöðunni. 

 

Mánudagur 12. 05. 14 - 12.5.2014 23:20

Paul Johnson verður 86 ára í ár. Hann er enskur blaðamaður, sagnfræðingur og rithöfundur. Um þessar mundir er hann að gefa út 50. bók sína. Hann skrifar í síðasta hefti vikuritsins The Spectator og segir meðal annars:

„Ég hef viðbjóð á Vladimír Pútin, Enginn á alþjóðavettvangi hefur vakið hjá mér slíka andúð síðan Stalín dó. Þótt Pútín sé ekki fjöldamorðingi á borð við Stalín er honum álíka lítið um mannslíf gefið. Þá má einnig greina í tengslum við hann svipuð glæpagengi og hjá Stalín: „stuðningsmenn“ hans ganga um með hulin andlit og bera skotvopn. Pútín líkist einnig Hitler þegar hann notar herskáa minnihlutahópa til að breiða út veldi sitt. Er ég að verða vænisjúkur vegna Pútíns? Ég vona ekki. Mér er hins vegar óljúft að viðurkenna að væri sterkur maður við stjórnvölinn í Washington skipti Pútin engu. Málum er einfaldlega þannig háttað að Obama forseti er svo veikburða og huglaus að Jimmy Carter virðist hugrakkur í samanburði við hann. Hann er að grafa undan strategísku afli Bandaríkjanna á sama tíma og hann flytur tætingslegar siðfræði prédikanir. Að hann skuli hafa verið kjörinn tvisvar segir harla óþægilega sögu um bandarísku þjóðina. Hann er einnig óútreiknanlegur, hann kynni allt í einu að breyta um stefnu og ákveða að sýna vald sitt. Það gæti leitt til kjarnorkustríðs. Það eru veiklundaðir menn sem kalla yfir okkur heimsstyrjaldir fyrir slysni.

Ég dái Angelu Merkel en á henni hvíla of þungar byrðar vegna hroðalegrar fortíðar Þýskalands til að hún móti harða stefnu. Þeir sem vilja kynna sér fánýta hluti velta Evrópusambandinu fyrir sér. François Hollande hefur ekki stjórn á skapsofsa kvennanna í kringum sig. Nýi valdamaðurinn í Róm lofar góðu – vinkona mín Carla Powell mælir með honum – hann þarf hins vegar tíma til að öðlast áhrif. Vingjarnlegi hrakfallabálkurinn í London, David Cameron, er dæmdur til að tapa. Eini stjórnmálamaðurinn sem sýnir meistaratakta um þessar mundir er Nigel Farage. Hann skortir hins vegar alla framsýni. Sem betur fer er Boris, vinur okkar, nálægur. Hann heldur enn að hann geti lagt undir sig Íhaldsflokkinn án þess að úthella blóði Camerons. Það er ekki rétt. Hann verður að gera upp hug sinn og sækja fram. Hann er eini maðurinn af sinni kynslóð með bein í nefinu sem hefur hæfileika og kraft Lloyds George, og hann verður framúrskarandi flokksleiðtogi, forsætisráðherra og þátttakandi í leiðtogafundum. Ég sé hann setja Pútín á þann stað sem hæfir honum. Hann verður hins vegar að láta fljótlega til skarar skríða. Auðvelt er að fara á mis við óskastundina í stjórnmálum.“

 

Sunnudagur 11. 05. 14 - 11.5.2014 23:20

Eldraunin, leikritið eftir Arthur Miller sem nú er sýnt í Þjóðleikhúsinu (stóra sal) er sett upp á einfaldan og áhrifamikinn hátt og vel flutt af frábærum leikurum. Atburðirnir sem lýst er gerðust í Salem í Massachusetts í Bandaríkjunum 1692 og 1693.

Um sig grípur múgæsing reist á ásökunum um galdra. Þótt atburðirnir hafi gerst fyrir rúmum 300 árum og þeir hafi sætt mikilli fordæmingu fer því víðs fjarri að ástandið sem lýst er sé einsdæmi. Nú á tímum samfélagsmiðla og smáskilaboða er auðveldara en nokkru sinni fyrr  að stofna tíl múgæsinga í einni eða annarri mynd og afleiðingarnar geta ekki síður orðið hörmulegar nú en þá.

Jakob Benediktsson, ritstjóri Orðabókar háskólans, þýddi leikritið fyrir sýningu Þjóðleikhússins 1955 og var þýðing hans notuð að nýju í Þjóðleikhúsinu 1986. Á ensku heitir leikritið The Crucible og er frá árinu 1953, íslenska heiti Jakobs Í deiglunni hélt ég að væri klassískt en Kristján Þórður Hrafnsson þýðandi sýningarinnar nú kallar verkið Eldraunina. Hvort þýðingarnar eru frábrugðnar að öðru leyti hef ég ekki kynnt mér en sérkennilegt er að heyra menn ávarpaða herra eða frú en síðan þúast fólk í samtölunum.

Lokaatriðið í þessari uppsetningu Þjóðleikhússins vísar til þess að hvað sem líður lygum sem eitrar samfélag heldur lífið áfram. Hvort fyrir Stefan Metz leikstjóra vaki að létta fargi af áhorfendum eftir hin dramatísku átök eða að sýna að á tíma atburðanna og endranær verði fólk að lokum að sætta sig við það sem að höndum ber er spurning. Hitt er víst að Arthur Miller samdi sígilt listaverk sem á ávallt erindi til áhorfenda.  

 

 

Laugardagur 10. 05. 14 - 10.5.2014 23:55

Felst í samningnum um framlengingu skulda Landsbanka Íslands mismunun gagnvart kröfuhöfum bankanna, í þágu kröfuhafanna? Í ráðherratíð Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra og Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra lögðu þeir óbærilega skuldabyrði á Landsbankann. Hún breytist ekki þótt lánstíminn sé lengdur, óvissan vegna hennar eykst. Körfuhafarnir fá að lokum sitt á kostnað skattgreiðenda. Þetta er í andstöðu við megininntak neyðarlaganna.

Víglundur Þorsteinsson hefur af þrautseigju dregið gögn út úr stjórnarráðinu sem sýna að undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar talaði ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins um að „friðþægja“ kröfuhöfum bankanna. Ákveðið var að hafa ákvæði neyðarlaganna að engu, ýtt var til hliðar ákvæði þeirra um að lánveitendur ættu sjálfir að sitja uppi með afleiðingar eigin áhættu. Skuldunum skyldi velt yfir á skattgreiðendur.

Óvíst er hvernig uppgjöri við kröfuhafa vegna Kaupþings og Glitnis verður háttað. Samþykki fjármálaráðuneyti og seðlabanki hinn nýja lánasamning Landsbankans – verður litið á það sem fordæmi gagnvart lánardrottnum hinna bankanna, einkabankanna?

Þessum spurningum er óhjákvæmilegt að svara. Í alþingi vinnur hópur undir forystu Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, að athugun í framhaldi af bréfum Víglundar Þorsteinssonar. Þar er um að ræða skjalfestar staðreyndir varðandi uppgjörið við kröfuhafana og snerta hinn almenna skattgreiðanda.

Katrín Ólafsdóttir hagfræðingur situr í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands. Rætt var við hana í fréttum ríkisútvarpsins í dag og á ruv.is er þetta haft eftir henni um samninginn:

„Þetta er gríðarlega mikilvægt skref, þetta er kannski stærsti einstaki atburðurinn þarna úti sem þurfti að taka á áður en lengra er haldið [við afnám gjaldeyrishaftanna], þannig að í sjálfu sér er þetta mjög mikilvægt skref. Vandinn er ekki leystur, en þetta er mjög mikilvægt skref í rétta átt. […]

Þetta er á þeim línum sem menn hafa verið að hugsa, hvort þetta er nákvæmlega þannig á eftir að skoða og hvort að þetta er nægilegt þurfa menn að skoða betur, en þetta er tvímælalaust skref í rétta átt.“

Við lestur þessara orða er maður litlu nær um efni málsins. Þau bera helst með sér að hafin sé áróðursherferð í þágu þessa samnings til að knýja fram samþykki opinberra aðila án þess að skýrt sé frá mikilvægum efnistatriðum.

 

 

 

Föstudagur 09. 05. 14 - 9.5.2014 22:30

Þáttur minn á ÍNN frá því að miðvikudaginn er kominn á netið og má sjá hann hér.  Ég ræði við Bjarna Th. Bjarnason, frambjóðanda til sveitarstjórnar í Dalvíkurbyggð, og Aldísi Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra í Hveragerði.

Enginn vafi er á að verkfall flugmanna Icelandair skaðar ímynd Íslands sem ferðamannalands og grefur undan starfsöryggi flugmannanna. Er í raun ótrúlegt að flugmenn skuli grípa til úrræðis sem vegur fyrst og síðast að þeim sjálfum. Þótt það sé sérkennilegt var hitt ekki síður skrýtið að heyra hvernig fréttastofa ríkisútvarpsins tók á málinu í morgun- og hádegisdegisfréttum. Engu var líkara en leitað væri að sökudólgi vegna þess að 60 manns höfðu farið til Keflavíkurflugvallar í morgun af því að fólkið vissi ekki af verkfallinu. Óljóst var hins vegar hver sökudólgurinn átti að vera eða hvers vegna það þótti yfirleitt fréttnæmt að rúmlega 1% þeirra sem áttu bókað flug með Icelandair í dag komu í morgun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Verkfall flugmanna Icelandair og verkföll starfsmanna ISAVIA fyrir skömmu eru skýr dæmi um hvernig andrúmsloftið í samfélaginu hefur breyst frá því veturinn 2008-09. Þá og síðan eftir gosið í Eyjafjallajökli í apríl 2010 hefði þótt jaðra við landráð að stofna til verkfalla af þessu tagi. Nú eru það hins vegar mannréttindi að skapa uppnám og óvissu með verkföllum og valda auk þess sjálfum sér og öðrum fjárhagslegu tjóni.

Fimmtudagur 08. 05. 14 - 8.5.2014 23:10

Guðvarður Már Gunnlaugsson, handritafræðingur og rannsóknardósent við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, flutti í dag fyrirlestur í röð Miðaldastofu um klausturmenningu á Íslandi og Norðurlöndum á miðöldum. Í kynningu á fyrirlestrinum sagði:

 „Í erlendum klaustrum voru allvíða sérstakar skrifarastofur, svokallaðar scriptoria, og spyrja má hvort svo hafi einnig verið hér. Til að svara því verður fyrst að skilgreina orðið scriptorium og í því samhengi er vert að velta því fyrir sér hvort orðið skrifstofa, sem kemur tvívegis fyrir í texta frá miðöldum, hafi verið bein þýðing á scriptorium. Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir fjölda þeirra handrita sem talin eru skrifuð í íslenskum klaustrum með nokkurri vissu, auk þess sem litið verður á heimildir þar sem þess er beinlínis getið að klausturfólk hafi skrifað handrit.“

Það kom mér mest á óvart að Guðvarður Már sagði að af 980 þekktum handritum frá því fyrir 1600 væru aðeins 65 með vissu skrifuð í íslenskum klaustrum. Ég segi „aðeins“ af því að ég hafði áður haldið að mun hærra hlutfall handritanna mætti með vissu rekja til klaustranna. Ekki er unnt að slá neinu föstu um hvort scriptoria hafi verið í klaustrum í þeirri merkingu að sérstakt rými hafi verið sérstaklega ætlað þeim sem unnu að skriftum.

Þá var forvitnileg umræðan um hver hafi fyrst skráð texta frá eigin brjósti á íslensku en ekki skrifað upp texta eftir aðra. Virtist samhljómur um að það hefði verið höfundur svonefndrar „Fyrstu málfræðiritgerðar Snorra-Eddu” sem talin er skrifuð á síðari hluta 12. aldar. Höfundur er ókunnur en er jafnan nefndur „fyrsti málfræðingurinn” þar sem ritgerðin er hin elsta um íslenskt mál sem varðveist hefur.

Það var mikil hrifning á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í þéttsetinni Eldborginni í kvöld þar sem Ólafur Kjartan Sigurðarson söng og Vladimir Ashkenazy stjórnaði með glæsibrag.

 

Miðvikudagur 07. 05. 14 - 7.5.2014 19:15

Í dag er gengið til kosninga í Suður-Afríku. Fyrstu frjálsu kosningarnar þar voru fyrir 20 árum, vorið 1994. Ég fór þá á vegum Evrópuráðsins sem eftirlitsmaður með kosningunum.

Það er meðal þess sem aldrei gleymist af stjórnmálaferlinum að hafa farið á milli kjörstaða frá því fyrir allar aldir og fram á kvöld í Soweto og annars staðar við Jóhannesarborg og sjá fólkið standa tímunum samana í óralöngum röðum og bíða þess að komast að kjörborðinu. Allt fór fram með miklum ágætum og voru kosningarnar lýstar löglegar.

Lýðræðisþráin var mikil hjá þjóðinni sem hafði búið við kynþáttaaðskilnað en naut þess nú að allir voru jafnréttháir í kjörklefanum. Við sjáum enn þann dag í dag að ekki er sjálfgefið að fólk fái notið lýðræðis, meira að segja í Evrópu.

Hinn 25. maí er boðað til kosninga í Úkraínu þar sem kjósa á nýjan forseta og þing. Þótt Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafi í dag kúvent og sagt að hann hafi trú á að kosningarnar stuðli að lausn deilunnar innan Úkraínu ríkir enn mikill ótti um að þetta sé aðeins sagt til að sýnast.

Pútín stundar svo einkennilega og frumstæða vinsældapólitík, heltekinn af eigin persónu, að kannski gaf hann yfirlýsingar í nýjum tón um Úkraínu í dag af því að púað var á fulltrúa Rússa á Evróvisjón í Kaupmannahöfn í gær en hrópuð hvatningar- og stuðningsorð þegar fulltrúi Úkraínu birtist.

Í kvöld klukkasn 20.00 er þáttur minn á ÍNN. Í fyrri hluta hans ræði ég við Bjarna Th. Bjarnason, efsta mann á lista Framsóknar og óháðra á Dalvík, og í seinni hlutanum við Aldsísi Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra í Hveragerði.

Þriðjudagur 06. 05. 14 - 6.5.2014 21:39

Það var glæsilegt hjá Pollapönk að komast í hóp 10 efstu af 16 í Evróvisjón-keppninni í kvöld. Danir stóðu óaðfinnanlega að framkvæmdinni og lauk útsendingunni á mínútunni 21.00. Miðað við það sem sagt hafði verið fyrir keppnina þótti ólíklegt að íslenska hljómsveitin næði svona langt. Í þessari keppni getur allt gerst og tryggir það vinsældir hennar.

Nú liggur fyrir að ekki er um eitt minnisblað að ræða í lekamálinu svonefnda heldur tvö. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra vakti máls á þessu á alþingi í dag eins og sjá má hér.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem bent er á að falsað minnisblað sé á sveimi í málinu ég minntist til dæmis á það hér á síðunni hinn 7. mars sl. Þá rifjaði ég upp tilraun Reynis Traustasonar ritstjóra DV til að þagga niður í mér vegna þessa máls með því að hóta mér málsókn vegna þess sem ég sagði um efnistök DV. Þá sagði ég hér á síðunni:

„Málið er þannig vaxið að ætla má að einkum hafi vakað fyrir ritstjóranum að þagga niður í mér og fæla frá að gagnrýna efnistök DV eða skrif Jóns Bjarka. Hann skrifar nær daglega eitthvað misjafnt um Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra og leggur net sín þannig að allt er tortryggilegt sem snertir hana, þar á meðal frændfólk hennar. Jón Bjarki minnir í sömu andrá á rannsókn lögreglunnar á því sem DV telur leka úr innanríkisráðuneytinu. Blaðið segir nú að falsað minnisblað sé í umferð. Varla er það komið úr ráðuneytinu?“

Ætli lögreglunni takist að upplýsa um uppruna beggja minnisblaðanna?

Mánudagur 05. 05. 14 - 5.5.2014 21:10

Við það er ekkert að athuga að teknar séu saman upplýsingar innan ráðuneytis um mál sem er á döfinni og snertir ráðuneytið. Þetta var gert í innanríkisráðuneytinu þegar boðað var til mótmæla við húsakynni þess vegna hælisleitanda. Lögfræðingur innan ráðuneytisins tók saman minnisblað að beiðni skrifstofustjóra um stöðu hælisleitandans. Í niðurstöðu héraðsdómara vegna máls sem rekið er vegna rannsóknar á því hvort brotin hafi verið þagnarskylda með því að koma efni minnisblaðsins á framfæri við fjölmiðla segir:

„Í minnisblaðinu er m.a. vikið að því að í beiðni um frestun réttaráhrifa úrskurðar ráðuneytisins í máli hælisleitandans hafi komið fram að hann væri nú í sambandi við nafngreinda íslenska stúlku, en áður hafi hann verið í sambandi við aðra konu sem hafi stöðu hælisleitanda. Sú síðargreinda eigi von á barni og sé A mögulega faðir þess. Þá kemur fram í minnisblaðinu að í beiðninni sé því haldið fram að A hafi stöðu grunaðs manns í tveimur málum sem séu til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Í því eintaki minnisblaðsins sem lögfræðingur ráðuneytisins tók saman er enn fremur vikið að því að í hælismáli konunnar, sem eigi von á barni, sé því borið við að hún sé mansalsfórnarlamb.

Rannsókn lögreglunnar hefur leitt í ljós að umrætt minnisblað var vistað á opnu drifi ráðuneytisins. Skrifstofustjóri sendi það með tölvupósti til ráðuneytisstjóra, ráðherra og tveggja aðstoðarmanna ráðherra kl. 17:17 hinn 19. nóvember 2013.“

Vandséð er hvað sé óeðlilegt við að upplýsingar af þessu tagi séu teknar saman innan ráðuneytis til að upplýsa yfirmenn þar um mál sem er á döfinni. Um það er í sjálfu sér ekki ágreiningur heldur hitt að upplýsingar sem raktar eru til þess sem þarna segir hafi birst í blöðum. Fréttastjóri Morgunblaðsins neitar réttilega að skýra frá heimildarmanni blaðsins og nýtur til þess stuðnings dómara.

Velti niðurstaða lögreglurannsóknar á að fá vitneskju um heimildarmann blaðamanns með því að yfirheyra fréttastjórann lýkur rannsókninni einfaldlega án niðurstöðu.

Að krefjast afsagnar innanríkisráðherra vegna þess að frétt hafi lekið úr ráðuneyti hennar og viðkomandi fjölmiðill neiti að upplýsa um heimildarmann er ómálefnalegt og ber vott um pólitíska óvild

Sunnudagur 04. 05. 14 - 4.5.2014 19:50

Markvisst er þjóðin búin undir að þingsályktunartillagan um afturköllun ESB-umsóknarinnar verði ekki afgreidd á þessu þingi. Það er enn eitt sérkennilega atvikið í sögu þessa máls eftir að kjósendur höfnuðu ESB-aðild í þingkosningunum fyrir ári og ríkisstjórn var mynduð til að ljúka umsóknarferlinu sem hófst sumarið 2009.

Sé unnt að benda á eitthvert mál sem hefur verið framkvæmt á þann veg að þekkingar- og reynsluleysi setji svip sinn á hvert skref er ESB-málið frá upphafi til enda dæmi um slíkt mál. Er þá ekki aðeins litið til meðferðar þess í tíð núverandi ríkisstjórnar heldur einnig hinnar fyrrverandi.

Innan ESB-ríkisstjórnarinnar var engin samstaða um málið þótt ráðherrar segðust vilja niðurstöðu sem mætti leggja fyrir kjósendur. Hún átti að liggja fyrir innan 18 mánaða en þegar sá tími var liðinn hafði ESB stöðvað framgang viðræðnanna og síðan runnu þær út í sandinn um miðjan janúar 2013.

Samt héldu þeir sem vilja ræða málið til annars konar endaloka áfram að heimta af nýrri ríkisstjórn sem er á móti viðræðunum að hún héldi þeim áfram. Þeir vildu ekki viðurkenna að ESB hefði stöðvað viðræðurnar.

Núverandi ríkisstjórn hafði ekki burði til að kynna stöðu málsins á þann hátt sem bar. Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá 18. febrúar 2014 leiddi hið sanna endanlega í ljós. Síðan kom önnur skýrsla frá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands samin af óskhyggju í viðtengingarhætti.

Allt liggur þetta skýrt fyrir utanríkismálanefnd alþingis. Hún treystir sér ekki til að afgreiða málið vegna ESB-aðildarsinna sem heimta þjóðaratkvæðagreiðslu um afturköllum umsóknar sem varð sjálfdauð.

 

Laugardagur 03. 05. 14 - 3.5.2014 22:10

Í Reykjavíkurbréfi nú um helgina afhjúpar Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, ósannindi Egils Helgasonar álitsgjafa. Að þessu sinni fór Egill á svig við sannleikann þegar hann skrifaði af fáfræði og Davíðsóvild um Þjóðmenningarhúsið.

Þegar Safnahúsið var opnað sem Þjóðmenningarhús 20. apríl 2000 var ég menntamálaráðherra og flutti ræðu þar sem ég sagði meðal annars:

„Þegar við blasti á níunda áratugnum, að Landsbókasafn Íslands og Þjóðskjalasafn flyttu starfsemi sína úr húsinu, hófust umræður um, hvernig skynsamlegast væri að nýta þessa þjóðargersemi. Rætt var um, að Hæstiréttur Íslands fengi hér inni eða Stofnun Árna Magnússonar, einnig var hreyft hugmyndum um sýninga- og menningarstarf í sambúð við skrifstofu forseta Íslands. Nefndir störfuðu og skiluðu ágætum hugmyndum. Öllum var ljóst, að ekkert mætti gera, sem raskaði byggingunni sjálfri með nokkrum hætti.

Hinn 16. febrúar 1996 samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína um þá skipan, sem fylgt hefur verið síðan varðandi endurnýjun og nýtingu hússins. Efni ákvörðunar ríkisstjórnarinnar blasir við okkur hér í dag í orðsins fyllstu merkingu og er ánægjulegt að sjá, hve vel hefur tekist að útfæra hana og hve góð sátt hefur náðst við yfirvöld húsafriðunar um framkvæmdir við húsið. Fé til þeirra hefur verið veitt úr Endurbótasjóði menningarbygginga, sem starfar á vegum menntamálaráðuneytisins. Er þetta stærsta einstaka verkefni, sem kostað hefur verið af sjóðnum undanfarin ár.“

Í Reykjavíkurbréfinu kemur fram að á vefsíðu sinni hafi Egill sagt að fyrst hafi verið „hugmyndin að fara með forsætisráðuneytið þarna inn – það var líkt og liður í viðleitni Davíðs Oddssonar til að samsama sig Hannesi Hafstein – en þegar það gekk ekki eftir var Þjóðmenningarhúsið stofnað“. Þetta er einfaldlega heilaspuni Egils eins og svo margt annað sem frá honum kemur. Við slíkum spuna er almennt ekkert að segja. Til Egils verður þó að gera sömu kröfur og annarra: að farið sé rétt með staðreyndir.

Föstudagur 02. 05. 14 - 2.5.2014 18:50

Ásakanir um gerræði af hálfu Dags B. Eggertssonar, formanns borgarráðs Reykjavíkur, og meirihluta borgarstjórnar magnast eftir því sem nær dregur kosningum.

 Í dag efndu forráðamenn samtakanna Hjartað í Vatnsmýri til blaðamannafundar á neyðarflugbraut Reykjavíkurflugvallar og sögðu stöðuna í flugvallarmálinu aldrei hafa verið eins alvarlega og nú. Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur hefði síðustu vikur tekið „gróf skref sem miða að niðurrifi“ flugvallarins í Reykjavík. „Þetta gerir meirihlutinn á sama tíma og hann lætur svo virðast í fjölmiðlum að málið sé í farvegi nefndar Rögnu Árnadóttur sem ríki, borg og Icelandair standa að,“ segir í tilkynningu sem send var fjölmiðlum.

Meirihluti Samfylkingar og Bjartrar framtíðar virði ekki samkomulag um sáttarferli flugvallarins sem samið var um í Hörpu hinn 25. október 2013. Í tilkynningunni segir:

„Meirihlutinn hefur hafið árás á flugvöllinn á þremur vígstöðvum samtímis og fer fram með áður óþekktu offorsi gegn flugrekendum, fasteignaeigendum og flugnemum. Hjartað í Vatnsmýri ítrekar, að 70.000 Íslendingar skrifuðu undir áskorun til meirihluta borgarstjórnar og Alþingis um að tryggja flugstarfsemi í Vatnsmýri til framtíðar. Þá vilja 80% landsmanna og 71% íbúa í Reykjavík að völlurinn verði áfram í Vatnsmýri,“

Sama dag og efnt er til þessa blaðamannafundar ritar Guðbjörg Snót Jónsdóttir grein í Morgunblaðið þar sem hún mótmælir „gerræðislegum tilburðum“ meirihluta borgarstjórnar gagnvart borgarbúum í skipulagsmálum. Hún segist ekki ætla að kjósa Samfylkinguna í kosningunum nú eins og hún gerði árið 2010 vegna þessara vinnubragða meirihlutans.

Guðbjörg Snót víkur að því sem nefnt var hér á þessum stað í gær, að hin ráðandi öfl í borgarstjórn Reykjavíkur líta niður á þá sem búa í úthverfunum. Guðbjörg Snót, guðfræðingur og fræðimaður, orðar þetta af reiðilegri þunga en gert var hér í gær þegar hún segir:

„Þeir hugsa ekki heila hugsun til enda varðandi úthverfin, og að búa í úthverfum kunna þau ekki, þessar lattelepjandi miðbæjarrottur.“

Fimmtudagur 01. 05. 14 - 1.5.2014 20:50

Sjálfstæðisflokkurinn er með mesta fylgið í Reykjavík og fær flesta borgarfulltrúa kjörna segir í nýrri könnun Fréttablaðsins. Blaðið gat þó ekki greint rétt frá fjölda borgarfulltrúa á forsíðu sinni eins og nefnt er hér. Nú yrði það talið sem góður árangur fyrir Sjálfstæðisflokkinn fengi hann 30% og þar yfir í kosningunum. Árið 2002 var það talið mikið áfall fyrir flokkinn að fá „aðeins“ rúm 40% þegar hann barðist enn við R-listann. Þetta eru skrýtnir tímar!

Óskiljanlegt er að meirihluta borgarbúa þyki mestu skipta í komandi kosningum að kjósa þá til forystu sem eru á móti skoðun rúmlega 70% Reykvíkinga í flugvallarmálinu, leggjast gegn notkun einkabílsins og vilja nota skattfé frá borgarbúum til að ráðskast með það í anda vinstrisinna sem hafa stuðlað að efnahagslegri stöðnun í Evrópuríkjum á borð við Frakkland um þessar mundir.

Verði ekki um stefnubreytingu að ræða í Reykjavík verður haldið áfram með skemmdarverk á borð við það sem hefur verið unnið á Borgartúni eða fjáraustur eins og var stundaður á Hofsvallagötunni og ætlunin er að auka enn undir stjórn endurnýjaðs meirihluta.

Valdhroki þess fólks sem hefur tögl og hagldir í borgarstjórn um þessar mundir birtist best í fyrirlitningu þess á þeim sem er því ekki sammála í skipulagsmálum. Í þeim málaflokki eru teknar ákvarðanir þar sem annaðhvort er gengið á rétt einhvers eða það látið ógert.  Meirihlutinn sem enn situr og kann að verða endurkjörinn hikar ekki við að ganga á rétt borgara í grónum hverfum eins og til dæmis í Suðurhlíðum þar sem blásið hefur verið á athugasemdir íbúanna vegna framkvæmda sem raska munu öllu jafnvægi í skipulagi hverfisins.  Þá verður eyðileggingu á Öskjuhlíðinni haldið áfram.

Yfirlætið birtist í afstöðu til þeirra sem býr í úthverfunum. Afstaðan til þessara íbúa minnir helst á hvernig sumum þótti við hæfi að tala niður til landsbyggðarfólks fyrir fáeinum árum.