Dagbók: ágúst 1997

Föstudagur 29.8.1997 - 29.8.1997 0:00

Föstudaginn 29. ágúst fór ég í viðtal við Ævar Kjartansson í þættinum Víðsjá á Rás 1 um tónlistarhús, en sérstakur stýrihópur vinnur nú að því að undirbúa ákvörðun um húsið.

Laugardagur 23.8.1997 - 23.8.1997 0:00

Laugardaginn 23. ágúst fór ég í til Hveragerðis og skoðaði hinn glæsilega Listaskála Einars Hákonarsonar listmálara þar. Þarf mikinn stórhug til að ráðast í slíka framkvæmd, en aðstaðan, sem Einar hefur skapað er glæsileg. Frá Hveragerði fórum við og skoðuðum Húsið á Eyrarbakka. Um nokkurt árabil var það í eign Ragnhildar Pétursdóttur, ömmusystur minnar, og Halldórs Þorsteinssonar , eiginmanns hennar, og minnist ég þess úr barnæsku að hafa farið þangað með foreldrum mínum. Nú hefur Húsið verið fært í upprunalegt horf og þar hefur byggðasafni verið komið fyrir og er ánægjulegt að skoða það. Síðan heldum við í Sögusetrið á Hvolsvelli, þar sem er vettvangur þeirra, sem vilja á markvissan hátt nýta menningu þjóðarinnar og sögu til hagsældar fyrir byggðarlag sitt. Með fyrsta verkefni sínu vekur Sögusetrið athygli á því, að aðalsögusvið Njálu er í Rangárþingi. Var ánægjulegulegt að skoða þessa sýningu í Sögusetrinu. Hún gæti orðið öðrum fyrirmynd um það, hvernig unnt er að nýta sér söguna til að vekja menningarlegan áhuga á landslaginu. Við skoðuðum þessa þrjá staði á of skömmum tíma, en þeir minntu okkur á, að unnt er að ferðast um landið allt og fara víða til að fræðast um fortíð og samtíð.

Föstudagur 15.8.1997 - 15.8.1997 0:00

Síðdegis föstudaginn 15. ágúst var athöfn í Þjóðminjasafninu, þar sem kynnt var niðurstaða í samkeppni arkitekta um nýbyggingu við Nesstofu.

Fimmtudagur 14.8.1997 - 14.8.1997 0:00

Í hádeginu fimmtudaginn fór ég í Keflavíkurstöðina og flutti ávarp og svaraði spurningum hjá Kiwanisklúbbnum Brú, þar sem bæði Bandaríkjamenn og Íslendingar eru félagar. Ræddi ég meðal annars um varnarstöðina og íslenska menningu. Að kvöldi fimmtudagsins 14. ágúst fór ég á frumsýningu kvikmyndarinnar Blossa. Sýndi myndin annan heim en ég hef kynnst og er hann alls ekki til fyrirmyndar. Er umhugsunarefni, hvort myndin verður einhverjum víti til varnaðar.

Mánudagur 11.8.1997 - 11.8.1997 0:00

Í hádeginu mánudaginn 11. ágúst fór ég á Laugarvatn og setti þar með ræðu ráðstefnu um heimsminjar á Norðurlöndunum á grundvelli sáttmála milli UNESCO-ríkjanna.