Dagbók: 2012

Mánudagur 31. 12. 12 - gamlársdagur - 31.12.2012 16:50

Í dag setti ég pistil hér inn á síðuna í tilefni af ávarpi sem Úlfar Þormóðsson flutti þegar hann tók við rithöfundaverðlaunum ríkisútvarpsins.

Í marga áratugi hef ég lesið áramótahugleiðingu forsætisráðherra Íslands. Aldrei fyrr hefur hún verið rituð af jafnmikilli heift og grein Jóhönnu Sigurðardóttur í Morgunblaðinu í dag. Jóhanna sannar í grein sinni allt sem ég hef sagt um hana sem forsætisráðherra. Hún ráði ekki við að gegna embættinu vegna áráttu hennar til að efna til sundurlyndis og deilna. Jóhanna var kjörin til forystu í Samfylkingunni af því að annars yrði hún ekki þar til friðs. Ein ástæða þess að ríkisstjórn Jóhönnu situr kjörtímabilið á enda er að Jóhanna getur ekki sprengt eigin ríkisstjórn með því að ráðast að þeim sem stjórnar henni. Hún losaði sig hins vegar fyrir ári við tvo ráðherra.

Sérkennilegast er þó að Jóhanna ritar af alkunnri heift í garð Sjálfstæðisflokksins þótt hún sé sjálf að hætta á þingi og fari á hliðarlínuna eftir nokkrar vikur þegar nýr formaður hefur verið kjörinn í Samfylkingunni. Það verður friðsamlegra á alþingi þegar Jóhanna hverfur þaðan. Ekki tekst að afgreiða stjórnarskrárbreytingar á dögunum 27 sem alþingi á eftir að starfa fram að kosningum vegna þvermóðsku Jóhönnu Sigurðardóttur. Hafi einhver haldið að hún vildi ná samkomulagi við sjálfstæðismenn um þetta mál eða eitthvað annað hlýtur sá hinn sami að sjá að sér eftir lestur áramótagreinarinnar í Morgunblaðinu.

Ég þakka samfylgdina á árinu 2012.

Sunnudagur 30. 12. 12. - 30.12.2012 23:20

Conrad Black átti á sínum tíma The Daily Telegraph í London og blöð um allan heim en var sakaður um að halda ekki rétt á fjármálum hlutafélaga sinna. Hann var dæmdur í fangelsi í Bandaríkjunum en hefur nú tekið út dóm sinn og hafið baráttu til að rétta hlut sinn á opinberum vettvangi. Hann telur sig aldrei hafa gerst sekan um neitt ólögmætt.

Fall hans var mikið eins og sést af nýrri bók hans Matter of Principle. Ég kynntist Black lítillega á sínum tíma og þótti hann ekki allskostar viðfelldinn. Hann var harðskeyttur blaðakóngur og lifði og hræðrist meðal fólks á æðstu stigum í stjórnmálum og fjármálum í Kanada, Bandaríkjunum og Bretlandi þar sem hann var aðlaður.

Þegar skýrt var frá að Black hefði verið sviptur forystu í fyrirtækjum sínum hófu fjölmiðlar að fjalla um hann á þann hátt sem honum þótti með öllu ósæmilegur. Hann velti fyrir sér að höfða meiðyrðamál en hætti við og segir: „As I was almost instantly without reputation I was practically unable to sue anyone.“ – Þar sem virðing mín hvarf svo til samstundis var í raun ógerlegt fyrir mig að stefna nokkrum.

Hér á landi telur fésýslumaður, dæmdur fyrir meiri háttar bókhaldsbrot og ákærður fyrir önnur brot, sig hafa æru að verja vegna prentvillu og dómari tekur undir með honum. Á næsta ári kemur í ljós hvort hæstiréttur sé sömu skoðunar.

Laugardagur 29. 12. 12. - 29.12.2012 19:36

Nú er viðtalsþáttur minn á ÍNN við Helgu Birgisdóttur um  bókina Nonna komin á netið og má sjá hann hér. 

Nýjasta hefti af Þjóðmálum kom út skömmu fyrir jól. Þar er að venju mikið af fróðlegu efni um stjórnmál auk þess sem umsagnir eru birtar um nokkrar jólabækur.

François Hollande ætlaði að slá sér upp á 75% skatti á auðmenn yrði hann forseti í Frakklandi. Hann hlut kjör í embættið og síðan fengu flokksbræður hans úr flokki sósíalista hreinan meirihluta á þingi í júní. Forsetinn og þingmenn brettu upp ermarnar og tóku til við að breyta sköttum. Áformin um 75% skattin voru lögfest. Stjórnarandstaðan ákvað að biðja stjórnlagaráð Frakklands  „hina vitru“ eins og Frakkar segja um álit á skattinum á auðmenn. Ráðið gaf út úrskurð sinn í dag og ógilti lögin um 75% skattinn, hann bryti gegn jafnræðisreglum.

Tilgangur skattsins var að ná til einstaklinga sem hefðu 1 milljón evra eða meira í árstekjur. Skatturinn sneri að einstaklingum en ekki sameiginlegum tekjum hjóna eða sambúðarfólks. Hjón með 900 þús. evrur í tekjur hvort sluppu, væri einn á öðru heimili með 1,2 milljón evrur í árstekjur yrði hann að greiða skattinn án tillits til tekjuöflunar maka.

Þessi niðurstaða er enn eitt áfallið fyrir Hollande en álit Frakka á honum hefur minnkað jafnt og þétt. Sósíalistar geta þakkað sínu sæla fyrir vandræðin í stóra stjórnarandstöðuflokknum, UMP, mið-hægriflokknum þar sem tekist er á um leiðtogasætið eftir brotthvarf Nicolas Sarkozys af ótrúlegri hörku. Kosningin verður endurekin haustið 2013.

Er í raun ótrúlegt að franskir sósíalistar hafi ekki búið þannig um lögfestingu á einu helsta kosningamáli sínu að það stæðist stjórnarskrána. Vandræði vinstri stjórnarinnar í Frakklandi eru í ætt við vandræðaganginn hjá vinstri stjórninni á Íslandi.

 

 


Föstudagur 28. 12. 12. - 28.12.2012 22:55

Fréttastofa ríkisútvarpsins nálgaðist stjórnmálafréttir á nýstárlegan hátt í kvöld þegar sagt var frá því  sem aðalefni fréttar að tæplega 22 prósent landsmanna væru ánægð með störf stjórnarandstöðunnar, samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallups. Um 49 prósent segðust hins vegar vera óánægð með störf hennar.

Rúmlega 1.400 manns voru í úrtakinu og var svarhlutfall 60,1 prósent. Óánægja með stjórnarandstöðuna hefur aðeins minnkað frá fyrri mælingum.

Í fréttinni sagði einnig að fleiri teldu að stjórnarandstaðan myndi standa sig betur en ríkisstjórnin þegar kæmi að efnahagsmálum, heilbrigðismálum og menntamálum. Fréttastofan tók fram að það væri lítil breyting frá síðustu mælingu. Þegar kæmi að velferðarmálum teldu álíka margir að stjórnarandstaðan myndi standa sig betur en ríkisstjórnin og að hún myndi standa sig verr.

Ef fleiri töldu að almennt mundi stjórnarandstaðan taka betur á mikilvægum málum en ríkisstjórnin hefði verið forvitnilegt að vita hvað margir eru nú ánægðir með ríkisstjórnina í þessum nýja þjóðarpúlsi.

Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur hins vegar ekki áhuga á neikvæðum fréttum um ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. – hún hefur aldrei haft það og áhuginn á því eykst ekki þegar dregur að kosningum.

 

Fimmtudagur 27. 12. 12. - 27.12.2012 22:00

Í Morgunblaðinu í dag birtist frásögn um útgáfu Skagfirðingabókar árið 2012. Ég var beðinn að skrifa í hana um dvöl mína í sveit að Reynistað á sjötta áratugnum og var mér það ljúft og er minnst á þessa grein mína í Morgunblaðinu eins og sjá má hér.

Eftir að ég skrifaði frásögnina minnist ég hluta sem ég hefði átt að láta getið eins og hve við biðum spennt eftir að hlusta á Gunnar G. Schram lesa söguna Hver er Gregory? eða þegar póstpokinn var opnaður og blöð og bréf birtust.

Miðvikudagur 26. 12. 12. - 26.12.2012 16:30

Það er skrýtið af ríkissjónvarpinu að halda þannig á sýningum á Downton Abbey að tvær vikur líði frá því að lokaþætti í 2. hluta raðarinnar er sjónvarpað í Bretlandi og annars staðar þar til hann sést hér á landi. Í blöðum erlendis birtast nú viðtöl við einn aðalleikara þáttanna sem hefur sagt skilið við þá til að leita á önnur mið og þarf því að hverfa úr sögunni á dramatískan hátt. Vitneskjan um það er „spoiler“ svo að vitnað sé til enska orðsins sem oft birtist til að vara fólk við að skoða efni vilji það forðast að vita um framvindu sjónvarpsþátta eða kvikmynda áður en það sér þáttinn eða myndina sjálfa.

Mér skilst að Stöð 2 hafi sýnt síðasta þáttinn af Homeland 2 daginn eftir að hann var frumsýndur erlendis og þannig leitast við að koma til móts við áskrifendur sína með góðri þjónustu. Ríkisútvarpið telur sig ekki þurfa að sinna þjónustu við áhorfendur sína á sama hátt. Þjónusta ríkisútvarpsins minnir dálítið á virðulegu herramennina í Downton Abbey sem vilja ekki horfast í augu við samtíma sinn heldur lifa í gamla tímanum.

Þriðjudagur 25. 12. 12. - jóladagur - 25.12.2012 18:50

Átök innan Samfylkingarinnar vegna formannskjörs snúast nú um hvort krefjast skuli félagssgjald af samfylkingarfélögum í Reykjavík til að þeir geti kosið formann. Fréttastofa ríkisútvarpsins talar enn um „kjörgengi“ þegar rætt er um kosningarétt. Þetta er undarlega þrálát villa hjá starfsmönnum fréttastofunnar. Í kosningum eru þeir kjörgengir sem hafa rétt til að vera í framboði, kjósendur hafa kosningarétt. Deilan innan Samfylkingarinnar snýst um hvort réttmætt sé að þrengja að kosningarétti þeirra sem skráðir eru í flokksfélagið í Reykjavík.

Ég skrifaði um þetta á Evrópuvaktina eins og lesa má hér.

Í dag er sagt frá orðinu ugsome á vefsíðunni A.Word.A.Day. Orðið er skýrt með orðunum dreadful, loathsome, hroðalegur, fyrirlitlegur. Uppruni orðsins er rakinn til old norse og íslenska sagnorðsins ugga - að óttast. Af sögninni er enska orðið ugly, ljótur, meðal annars dregið. Lýsingarorðið ugsome er sjaldan notað ólíkt ugly en fyrst sést það skráð um 1425.

Mánudagur 24. 12. 12. - aðfangadagur - 24.12.2012 17:10

Ég óska lesendum síðu minnar gleðilegra jóla.

Í tilefni jólanna skrifaði ég pistil um uppgjöf strokufangans Matthíasar Mána og má lesa hann hér.

Sunnudagur 23. 12. 12. - 23.12.2012 23:00

Sunnudagur hæfir Þorláksmessu vel. Aðdragandi jólanna er almennt ofsafenginn, Þorláksmessa á sunnudegi dregur úr spennunni þótt verslanir séu opnar og margir vinni langan dag. Látið er sem verslun gangi vel fyrir jól að þessu sinni en þeir sem standa í eldlínunni segja að þess sjáist greinileg merki að fólk haldi meira að sér höndum en áður.

Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, tók að láta að sér kveða í netheimum fyrir nokkrum mánuðum og gerðist baráttumaður í þágu ríkisstjórnar Samfylkingar og vinstri-grænna. Hann segist þó hvorki vera í Samfylkingunni né vinstri sinnaður.

Af mörgu undarlegu sem Stefán hefur skrifað tel ég að pistill sem hann birti í dag á Eyjunni í dag um Hörpuna og ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. sé sá skrýtnasti.

Stefán segir frá för sinni á klassíska jólatónleika Frostrósa í Hörpu og þótti honum húsið sjálft „ævintýri“ þar sem kristallaðist „saga þjóðarinnar frá ræningjatíma frjálshyggjunnar til upprisunnar eftir hrunið“.  Hann segir að „leiðtogar víxlaranna“ hafi viljað „byggja monthús fyrir sig og hyski sitt, fyrir lánsfé eins og allt annað sem þeir komu nálægt“. Almenningur hafi kallað á „Jóskubusku og Steinbrjót til forystu í endurreisnarstjórn“. Þau hafi ekki viljað láta húsið standa „sem minnisvarða um hégóma, græðgi og heimsku“  heldur „ákveðið að klára höllina sem menningarhús íslenskrar tónlistar [...] Harpan reynist vera eitt dýrasta djásnið í krúnu ríkisstjórnarinnar.“

Þessi sögufölsun er með ólíkindum en því miður í samræmi við annað sem Stefán skrifar þegar hann tekur sér fyrir hendur að verja Jóhönnu Sigurðardóttur og hyski hennar. Þau Jóhanna og Steingrímur J. áttu alls engan þátt í að ráðist var í smíði Hörpunnar. Það voru allt aðrir sem tóku ákvarðanir um það og alls ekki hefði verið ákveðið að ljúka við að reisa húsið eftir hrun ef Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi borgarstjóri, hefði ekki átt hlut að máli.

Nú undir lok stjórnartíma „Jóskubusku og Steinbrjóts“ taka málsvarar þeirra og spunaliðar að skreyta þau með stolnum fjöðrum af því að ekkert af því sem þau hafa sjálf lagt af mörkum er þess eðlis að unnt sé að flagga því sem tákni um markverðan, varanlegan árangur.

Fyrir þá sem sækja tónleika í Eldborg skiptir mestu að frá því á fyrsta stigi ákvarðana um Hörpu var krafist 100% hljómgæða og þau heilla alla sem koma í salinn sem flytjendur eða áheyrendur. Jóhanna og Steingrímur J. áttu engan hlut að neinu sem gerir Hörpu að einstöku tónlistarhúsi.

 

Laugardagur 22. 12. 12. - 22.12.2012 18:50


Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu, baðst lausnar fyrir sig og ríkisstjórn sína í dag. Stjórnin situr sem starfsstjórn undir forsæti hans fram að kosningum. Monti baðst lausnar af því að hann naut ekki lengur stuðnings meirihluta ítalska þingsins. Fréttastofa ríkisútvarpsins sagði réttilega frá lausnarbeiðninni og að við tæki starfsstjórn í fréttatímum fram eftir degi en undir kvöld rugluðust menn í ríminu á fréttastofunni og sögðu að Monti hefði beðist lausnar fyrir sig og „starfsstjórn“ sína. Þetta minnir á þegar fréttamenn ríkisútvarpsins rugluðust á kjörgengi manns og töluðu um það í staðinn fyrir kosningarétt mannsins, kjörgengi þýðir að menn séu hæfir til að bjóða sig fram, kosningaréttur að þeir hafi rétt til að kjósa. Starfsstjórn er stjórn sem beðist hefur lausnar en situr áfram að ósk forseta eins og nú á Ítalíu. Starfsstjórn fer frá völdum eftir að ný stjórn með pólitískt umboð kemur til sögunnar.

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, sagði í kvöldfréttum ríkisútvarpsins að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefði oft hangið á horriminni en í gærkvöldi hefði hún breyst í minnihlutastjórn þegar hún gat ekki tryggt stjórnarfrumvörpum framgang á þingi.

Þessi kenning prófessorsins rennir enn stoðum undir þá kröfu að alþingi verði rofið strax og gengið til kosninga. Ríkisstjórn sem stendur jafnilla og þessi stjórn Jóhönnu verður skaðlegri með hverjum degi sem líður og óhjákvæmilegt er að því fylgi að tekið sé af skarið um að ganga strax til kosninga.

Furðulegt er að allir flokkar skuli standa að framlengingu gjaldeyrishafta og að framkvæmd þeirra verði í höndum seðlabankans. Hver eru rökin? Að seðlabankinn hafi staðið sig ofurvel við framkvæmdina? Höftin áttu að vera í 10 mánuði, nú stefnir í að ekki verði einu sinni tekist á um þau og afnám þeirra í komandi kosningabaráttu. Samtrygging stjórnmálamanna í þágu hafta og einræðislegrar framkvæmdar þeirra lofar ekki góðu.

 

tdráttur

Föstudagur 21. 12. 12. - 21.12.2012 22:55

Viðtal mitt við Helgu Birgisdóttur um ævisögu Nonna var ekki á ÍNN í gærkvöldi heldur í kvöld og verður næst klukkan 23.00, síðan 01.00 og á tveggja tíma fresti til 19.00 á morgun, áhugavert efni um merkilega bók.

Þá er lokið útsendingu á fjórum bókaþáttum mínum á ÍNN og eru þrír þeirra komnir inn á netið. Ég birti krækju á hinn fjórða þegar hann birtist á INNTV.IS.

Í vikunni kom út nýtt hefti af tímaritinu Þjóðmálum þar legg ég til að þing verði rofið strax og gengið til kosninga, stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi runnið sitt skeið og hafi ekki lengur nein tök á málum á alþingi. Þetta sannaðist enn einu sinni í atkvæðagreiðslum á þingi í dag þar sem ríkisstjórnin hafði ekki styrk til að knýja fram mál á þann veg sem ráðherrar og stjórnarþingmenn vildu.

Þetta ástand mun ekki batna þegar nær dregur kosningum og eftir að Jóhanna hættir sem formaður Samfylkingarinnar verður hún endanlega úr sögunni sem pólitísk áhrifakona.

Þorvaldur Gylfason prófessor skrifar dæmalausan samsetning um stjórnarskrármálið í dag á dv.is. Tilgangurinn virðist sá að sanna að sjálfstæðismenn styðji tillögur stjórnlagaráðs. Miðað við skrif Þorvalds fyrir og einkum eftir hrun er ekkert mál gott sem sjálfstæðismenn styðja. Nú er annað uppi á teningnum að hans mati, hið versta fyrir prófessorinn er að hann hefur enn einu sinni rangt fyrir sér. Sjálfstæðismenn styðja ekki tillögur stjórnlagaráðs.

Að hann leyfi sér að halda því fram að þeir sem vildu standa vörð um lýðveldisstjórnarskrána hefðu lagt lið samsuðunni frá stjórnlagaráði sem er reist á óvild í garð stjórnarskrár lýðveldisins sýnir aðeins hve langt Þorvaldur telur sér sæma að ganga í von um að blekkja fólk til stuðnings við hið einstaklega misheppnaða skjal sem kom frá hinu umboðslausa stjórnlagaráði sem kom saman þrátt fyrir að hæstiréttur hefði ógilt kosninguna til þess.


Fimmtudagur 20. 12. 12. - 20.12.2012 16:20

Í kvöld klukkan 21.30 er síðasti bókaþáttur minn á ÍNN að sinni. Þar ræði ég við Helgu Birgisdóttur doktorsnema um bókina um Nonna eftir Gunnar F. Guðmundsson sagnfræðing.

Viðtal mitt við Sigurjón Magnússon rithöfund um bók hans Endimörk heimsins er komið á netið og má sjá það hér.

Rúmum sólarhring eftir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Ŝtefan Füle, stækkunarstjóri ESB, hreyktu sér af því á ríkjaráðstefnunni í Brussel hve allt hefði gengið vel og hratt fyrir sig í aðildarviðræðunum við Ísland leyfir Urmas Paet, utanríkisráðherra Eistlands, sér að segja við fréttastofu ríkisútvarpsins að hann sé „vonsvikinn með hversu langan tíma aðildarviðræður Evrópusambandsins við Ísland hafi tekið“.

Fróðlegt verður að sjá hvernig Össur bregst við þessari yfirlýsingu ráðherrans sem hefur verið utanríkisráðherra  lands síns síðan 2005, árið eftir að Eistland gekk í ESB. Vorið 2005 fórum við Össur saman í Evrópunefnd til Brussel og hittum þá Ollie Rehn, þáverandi stækkunarstjóra ESB. Hann sagði við okkur nefndarmenn að það þyrfti ekki nema nokkra menn til að ræða við Íslendinga í nokkra mánuði til að ganga frá aðild Íslands að ESB. Það yrði mun minna mál en til dæmis að ganga frá aðild Eistlands að ESB.

Við upphaf aðildarferlisins hélt Össur örugglega að orð Rehns um hinn skamma tíma mundu standa. Annað hefur komið í ljós. Össur hefur hins vegar jafnan látið eins og allt gengi eins og best yrði á kosið enda vill hann ekki styggja Füle eða aðra Brusselmenn. Hinn gamalreyndi utanríkisráðherra Eistlands blæs á allt slíkt og lýsir hlutunum eins og hann sér þá.

Urmas Paet gagnrýnir ESB en sér ekkert athugavert við að Íslendingar skoði hug sinn til viðræðnanna og málið sé borið undir þjóðaratkvæði. Á ruv.is segir:

„Paet á ekki von á hörðum viðbrögðum frá Evrópusambandinu ef samþykkt verði að leggja áframhaldandi aðildarviðræður í þjóðaratkvæði eins og meirihluti utanríkismálanefndar Alþingis vilji. Öll aðildarríki hafi skilning á því hvernig ákvarðanir eru teknar á Íslandi og beri virðingu fyrir því.“

 

 


Miðvikudagur 19. 12. 12. - 19.12.2012 15:25

Í morgun klukkan 07.00 leiddi ég qi gong í Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði.

Nýjasti þáttur minn á ÍNN er kominn inn á vefinn og má sjá hann hér. Þar ræði ég við Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræðing. Í kvöld verður sýnt samtal mitt við Sigurjón Magnússon rithöfund og hefst það klukkan 20.00.


Þriðjudagur 18. 12. 12. - 18.12.2012 21:25

Fór síðdegis i heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði og flutti þar fróðleik um qi gong á kyrrðardögum sem eru í boði samhliða almennri starfsemi í stofnuninni þessa síðustu viku fyrir jól. Kyrrðardagar og qi gong falla vel saman eins og ég hef margreynt í Skálholti. Hjá NLFÍ í Hveragerði er aðstaða ekki síðri til að nýta sér æfingarnar og hugmyndafræðina á bakvið qi gong.

Æfingarnar hafa náð flugi á Vesturlöndum og ekki síst í Bandaríkjunum þar sem litið er á qi gong sem hluta af heilbrigðiskerfinu, bæði forvarnarhluta en einnig sem lið í lækningum. Eftir að qi gong læknar í Kína kynntust áhuga Bandaríkjamanna á að nýta sér kínverska læknislist hafa margir læknar frá Kína flust til Bandaríkjanna. Þar hafa einnig margir lagt mikið af mörkum til að kynna qi gong meðal vestrænna lækna og má þar nefna Bandaríkjamanninn Kenneth Cohen sem hefur komið þrisvar sinnum hingað til lands og er væntanlegur í fjórða sinn í 23. til 25. ágúst 2013 í samvinnu við Aflinn, félag qi gong iðkenda. Koma Cohens verður kynnt nánar síðar en þeir sem vilja forvitnast um komu hans og hvernig námskeiðum í tengslum við hana verður háttað geta hæglega sent mér fyrirspurn á bjorn@bjorn.is eða með því að nota fyrirspurnakerfið hér á síðunni.

Mánudagur 17. 12. 12. - 17.12.2012 21:40

Í kvöld klukkan 20.30 var sýnt  á ÍNN viðtal mitt við Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræðing í tilefni af bók hennar um rannsóknirnar á klaustrinu að Skriðu. Viðtalið verður sýnt 22.30 og síðan á tveggja tíma fresti til 18.30 á morgun. Þetta er annar bókaþáttur minn á ÍNN. Hinn þriðji verður miðvikudaginn 19. klukkan 20.00 og þá ræði ég við Sigurjón Magnússon rithöfund um bók hans Endimörk heimsins.

Hvarvetna á Norðurlöndunum sýna ríkissjónvörp bandaríska þáttinn Homeland sem keppir við Downton Abbey sem einn vinsælasti sjónvarpsþáttur heims um þessar mundir.  Hvers vegna skyldi ríkisútvarpið hafa farið á mis við þennan þátt? Söguþráðurinn er listlega spunninn og samtöl betri en almennt gerist í slíkum þáttum.

Lokaþáttur 2. hluta myndaflokks Homeland var frumsýndur að kvöldi síðasta sunnudags og hann birtist á næstunni í norrænu stöðvunum en þær eru ekki allar á sama staða í þáttaröðinni ef þannig má orða það.

Sunnudagur 16. 12. 12. - 16.12.2012 18:50

Fyrir þá sem til þekkja var furðulegt að heyra Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra kasta allri ábyrgð á vatnasviði og lífríki Þingvallavatns á herðar Þingvallanefndar og forsætisráðuneytisins í samtali við fréttamann ríkisútvarpsins að kvöldi sunnudags 16. desember. Málum er alls ekki háttað eins og umhverfisráðherra heldur.

Hinn 13. júlí 2006 gaf forveri Svandísar, Jónína Bjartmarz, út reglugerð 650/2006 um framkvæmd verndunar vatnasviðs og lífríkis Þingvallavatns. Þar segir: „Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 1. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2005, um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Reglugerðin er jafnframt sett með stoð í lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.“ Allt er þetta á verksviði umhverfisráðherra.

Hafi flokkssysturnar Álfheiður Ingadóttir, formaður Þingvallanefndar, og Svandís Svavarsdóttir komið sér saman um annað en í lögum og reglum um verndun Þingvallavatns segir fara þær einfaldlega á svig við landslög.

Ábyrgð Þingvallanefndar nær til þess hluta strandar vatnsins sem er innan þjóðgarðsins og þess hluta vatnsins sem er innan hans. Forsætisráðuneytið á ekki beina aðild að þessu máli. Umhverfisráðuneytið ber hina stjórnsýslulegu ábyrgð vegna Þingvallavatns og verndunar þess.

Hvers vegna vill Svandís Svavarsdóttir ekki kannast við pólitíska ábyrgð sína í þessu máli?

Hitt er síðan í samræmi við annað að fréttamenn ríkisútvarpsins trúa því eins og nýju neti sem ráðherrar segja við þá og hafa ekki fyrir að kanna hvort farið sé með rétt mál.

Laugardagur 15. 12. 12. - 15.12.2012 23:10

Fyrsta frétt ríkisútvarpsins klukkan 18.00 var að Steingrímur J. Sigfússon hefði fengið 199 af 261 atkvæði í forvali VG í NA-kjördæmi og hlotið fyrsta sæti þar sem hann var einn í kjöri. Fréttin var í norður-kóreustíl. hið eina sem skorti voru lofsamleg ummæli um leiðtogann mikla.

Ég skrifaði um kosningasigur Steingríms J. á Evrópuvaktina eins og má lesa hér.

Svavar Gestsson, fyrrverandi sendiherra og ráðherra Alþýðubandalagsins, segir í Morgunblaðinu í dag að sjálfstæðismenn séu ergilegir og fúlir af því að þeir sitji ekki í ríkisstjórn. Fúllyndi vegna stjórnarinnar er meira annars staðar en í Sjálfstæðisflokknum. Nægir í því sambandi að minna á rifrildi Steingríms J. og Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, í Speglinum og Kastljósi á fimmtudaginn. Steingrímur J. hefur öskrað á marga og sakað þá um virðingarleysi við sig sem ráðherra en ekki á neinn eins og Gylfa.

Menn hafa gleymt því að á sínum tíma töldu sjálfstæðismenn það þjóna flokkslegum hagsmunum sínum að öðru hverju kynntist þjóðin vinstri stjórn og fengi tækifæri til að átta sig á hve illa hún stæði að stjórn mála þjóðarinnar. Vinstri stjórnin sem nú situr, hin hreina og tæra, er líklega verst af þeim öllum og helsti gallinn fyrir hana er að lafa svona lengi. Arfleifðin verður verri því lengur sem hún situr. Það verður auðveldara fyrir sjálfstæðismenn til að benda vinstri vítin til að varast eftir að þessi vandræðastjórn hefur setið í fjögur ár.

Við því var aldrei að búast að Jóhanna Sigurðardóttir mundi segja af sér. Hún virðist enn lifa í þeirri trú að henni takist að ljúka við að eyðileggja stjórnkerfi fiskveiða, tækifæri til frekari virkjana, stjórnarskrána og fullveldi þjóðarinnar. Jóhönnu er sama, hún ætlar að hætta. Hið óskiljanlega er að þingmenn Samfylkingarinnar taki þátt í skemmdarverkunum. Hvað ætla þeir að bjóða í komandi kosningabaráttu? VG býður Steingrím J. sem fékk 199 atkvæði í forvali, var einn í kjöri og segist hafa unnið „afgerandi“ sigur.

 

 

Föstudagur 14. 12. 12. - 14.12.2012 23:50

Framkoma Steingríms J. Sigfússonar í garð Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, í Spegli og Kastljósi ríkisútvarpsins í gær var ofsafengin. Hún minnti mig á atvikið sem lýst er hér og gerðist fyrir fjórum árum.

Þá kom upp í hugann að hinn 11. desember hvatti Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks framsóknarmanna, Steingrím J. til að mótmæla aðdróttunum Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, í garð Íslendinga vegna makríldeilunnar. Gunnar Bragi benti á að Damanaki færi með rangt mál.

Steingrímur J. birtist þá í ræðustól alþingis sem prúður friðarins maður. Hann sagði að Damanaki hefði stundað „hefðbundinn umkenningarleik“ en mestu skipti fyrir Íslendinga að „standa fast í fæturna“ við samningaborðið og það væri mikilvægara en að grípa til „hreystiyfirlýsinga og munnbrúks“.

Þannig talaði Steingrímur J. þegar hann var hvattur til að standa á rétti Íslendinga gagnvart ESB í makrílmálinu. Þegar hann greip til varna gegn Gylfa Arnbjörnssyni sparaði Steingrímur J. hvorki „hreystiyfirlýsingar né munnbrúk“ hann lýsti Gylfa sem ósannindamanni og að hann kynni ekki mannasiði eins og lesa má hér hjá Óla Birni Kárasyni. 

Óvildin í garð Gylfa og ASÍ undir hans forystu leyndi sér ekki. Allt annað viðmót var í garð Damanaki og ESB sem sannar aðeins að Steingrímur J. er ESB-sinni inn við beinið.

 

Fimmtudagur 13. 12. 12. - 13.12.2012 17:55


Deilur stjórnmálafræðinga vegna stjórnlagatillagnanna magnast. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við Háskóla Íslands, gagnrýnir alla þætti stjórnarskrármálsins harðlega í Morgunblaðinu í dag. Eiríkur Bergmann Einarsson, háskólanum á Bifröst og stjórnlagaráðsmaður, snýst til varnar á vefsíðunni Eyjunni og segir meðal annars:

„Nú heldur virðulegur stjórnmálafræðiprófessor því fram að Stjórnlagaráð hafi verið umboðslaus kaffisamkoma fræga fólksins þegar hið rétta er að það væri bæði þjóðkjörið og svo þingskipað í kjölfar inngrips hæstaréttardómaranna. Satt að segja er leitun að þeim opinbera hópi sem hefur haft viðameira lýðræðislegt umboð – sem svo var stimplað af sjálfri þjóðinni í einu allsherjaratkvæðagreiðslunni sem Alþingi efnir til á lýðveldistímanum.“

Þetta er ótrúleg samsuða hjá Eiríki Bergmann og í ætt við sumt annað sem frá stjórnlagaráðsmönnum hefur komið.  Hann segir að ráðið hafi bæði verið „þjóðkjörið og þingskipað í kjölfar inngrips hæstaréttardómaranna“. Að maður sem sýslar við stjórnlögin tali á þennan veg sannar aðeins algjört virðingarleysi hans fyrir lögum og rétti þegar hann á sjálfur í hlut. Hæstiréttur ákvað að kjör Eiríks Bergmanns og annarra væri ógilt – aldrei fyrr hafa kosningar af þessu tagi verið ógiltar vegna þess hve illa var að framkvæmdinni staðið. Kosningarnar voru ekki endurteknar heldur tók fólkið að sér að setjast umboðslaust frá almenningi í stjórnlagaráð í umboði alþingis.  Engu er líkara en Eiríkur Bergmann telji sig hafa tvöfalt lýðræðislegt umboð. Hvílík fásinna! Síðan túlkar hann skoðanakönnunina sem alþíngi ákvað að verja 250 til 300 milljónum til sem gæðastimpil á pakkann sem varð til í bögglauppboði innan stjórnlagaráðs. Þegar innihald þessa pakka er skoðað kemur í ljós að það er almennt ónothæft.

Miðvikudagur 12. 12. 12. - 12.12.2012 18:50

Fyrsti bókaþáttur minn á ÍNN er kominn á netið og má sjá hann hér. Ég ræði við Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðing um bók hans Upp með fánann!

Á fésbókarsíðu Jóns Magnússonar hrl. má lesa:

„Ég sá í fréttum að starfrækt hefur verið spilavíti í gamla skrifstofuhúsnæðinu mínu í Skeifunni. Spilavítið kom raunar ekki beint á eftir heldur var Rannsóknarnefnd Alþingis með aðstöðu þarna í millitíðinni.

Í fréttum sjónvarpsstöðvanna var sérstaklega tekið fram að þrír lásar væru á hurðinni. Væntanlega til að sýna hversu útpæld þessi meinta glæpastarfsemi væri. Þetta kom mér á óvart. Ég setti þessa þrjá lása upp til að það væri erfiða„ra að brjótast inn. Áttaði mig ekki á því fyrr en í kvöld hvað þetta var útpælt og andstyggilegt eins og sjónvarpsfréttamennirnir virðast telja.“

Ábending Jóns um lásana minnir á að unnt er grípa til ýmissa ráða, ekki síst í sjónvarpsfréttum, til að gera sjálfsagða hluti tortryggilega. Í þingfréttum ríkisfréttastofunnar er til dæmis ýtt undir að eitthvað óeðlilegt sé að gerast á alþingi þegar sagt er frá hve þingfundir hafi staðið lengi og hve margir talað og síðan minnt á að starfsáætlun alþingis geri ráð fyrir að þingmenn fari í jólaleyfi á ákveðnum degi. Verður það svo sérstakt fréttaefni ef ekki tekst að standa við áætlunina og látið í veðri vaka að þar hafi gerst einhver pólitísk stórtíðindi.

Allt þetta tal um lengd þingfunda, fjölda óafgreiddra mála, margar ræður og yfirvofandi jólaleyfi þingmanna miðað við starfsáætlun er í ætt við ábendinguna um lásana þrjá sem áttu að sýna að um harðsvíraða menn væri að ræða en reyndist ekki annað en lélegur spuni þegar að er gáð. Starfsáætlun alþingis er ekki annað en skjal til viðmiðunar, það bindur engan og breytir engu um ákvarðanir þingmanna hvort við áætlunina er staðið eða ekki.  Ræðustóll alþingis er til þess að menn geti talað þar, þingsköpin mæla fyrir um skipulag umræðnanna. Þingmenn hafa frelsi til að nýta sér ræðustólin og rétt sinn í þingsköpum. Það er sérkennilegt ef fréttir af því sem gerist á alþingi snúist einkum um hvernig þingmenn nýta sér þennan rétt en ekki til hvers, það er hvað þeir segja.


 


Þriðjudagur 11. 12. 12. - 11.12.2012 23:00

Ég sagði frá því hér í dagbókinni í gær að mér hefði komið á óvart að á fundi með mönnum úr utanríkismálanefnd alþingis þann sama dag hefði ég komist að raun um að fyrir lægi greinargerð frá Björgu Thorarensen lagaprófessor um hvaða ráð væru til að breyta stjórnarskránni til að framselja fullveldi þjóðarinnar. Ég hafði vænst þess að sjá þessa greinargerð á vefsíðu laganefndar ESB-viðræðunefndarinnar en þar er sagt frá því að hinn 9. janúar 2012 hafi verið ákveðið að Björg semdi greinargerðina.

Í dag sá ég greinargerðina síðan á vefsíðu utanríkisráðuneytisins um viðræður Íslands og ESB, ekki undir laganefndinni heldur á forsíðu viðræðu-vefsíðunnar og er greinargerðin dags. 22. október 2012, tveimur dögum eftir könnunina á skoðun þjóðarinnar á tillögum stjórnlagaráðs. Hér má nálgast greinargerðina. 

Að þessu sinni verður ekki fjallað um efni greinargerðarinnar. Það vekur hins vegar enn undrun mína að athygli okkar sem utanríkismálanefnd kallaði á fund sinn til að ræða framsalsákvæðið í 111. gr, stjórnlagaráðstillagnanna skuli ekki hafa verið vakin á því að þetta skjal (12 bls.) hafi verið birt – eða var það ekki birt fyrr en núna?

Allt ber þetta vott um hve ruglingslega er staðið að vinnunni við þinglegan frágang á þessum stjórnlagaráðstillögum.  Margt bendir til að vilji ESB-aðildarsinna hnigi að breytingu á einmitt þessu ákvæði stjórnarskrárinnar til að ryðja hindrunum fyrir aðild úr vegi. Þetta ákvæði eitt kallar á miklu meiri og skipulegri umræður um en orðið hafa til þessa. Hvers vegna er staðið að málatilbúnaði á þann hátt sem hér er lýst? Að mörg opinber skjöl liggi fyrir um sama málið.

Flest bendir til að Björg Thorarensen hafi dregið að dagsetja greinargerð sína þar til eftir skoðanakönnunina um stjórnlagaráðstillögurnar. Þar var ekki leitað sérstaklega álits á framsalsmálinu sem er einkennilegt miðað við mikilvægi þess.

Mánudagur 10. 12. 12. - 10.12.2012 19:20

Í kvöld klukkan 20.30 er fyrsti bókaþáttur minn á ÍNN. Ég ræði við Gunnar Þór Bjarnason um bók hans Upp með fánann!  Hún fjallar um uppkastið 1908 og hin hörðu átök vegna þess. Fróðleg og vönduð bók.

Undir kvöld fór ég á fund manna í utanríkismálanefnd alþingis. Þangað hafði ég verið boðaður til að segja álit mitt á 111. gr. í tillögum stjórnlagaráðs um framsal ríkisvalds eða fullveldis til alþjóðastofnana. Ein helsta efnislega ástæðan fyrir að uppkastið 1908 náði ekki fram að ganga var að þar var ekki vikið að fullveldinu, það kom ekki til sögunnar fyrr en með sambandslögunum 1918.

Nú er svo komið að almennt er talið nauðsynlegt að setja ákvæði í stjórnarskrána sem taka mið af nýrri stöðu í alþjóðasamstarfi. Vegna aðildar að EES og Schengen-samstarfinu mátu sérfræðingar hvort brotið yrði gegn stjórnarskránni með aðildinni. Niðurstaðan varð í báðum tilvikum að svo væri ekki. Síðan hefur samstarfið innan EES þróast á þann veg að sérfræðingar telja óhjákvæmilegt að huga að stjórnarskrárheimildum vegna aðildar að nýjum stofnunum undir EES-hattinum.

Ég er sammála því mati að huga eigi að breytingum á stjórnarskránni vegna alþjóðasamstarfs. Tillagan í 111. gr. stjórnlagaráðsins er ekki boðleg í þessu efni. Ég tel að huga beri að því að setja ákvæði í stjórnarskrána sem heimili aðild að EES og Schengen enda sé ákvæðið rökstutt á þann veg að ekki fari á milli mála við hvað er átt.

Ég vék að því á fundinum í utanríkismálanefnd að ég vildi ekki segja endanlegt álit mitt á þessu efni fyrr en ég sæi greinargerð sem boðað var 9. janúar 2012 að Björg Thorarensen prófessor mundi semja fyrir þá sem ræða við ESB um aðild. Mér þætti undarlegt að þetta álit lægi ekki fyrir við meðferð þessa máls. Þá kom í ljós að nefndin hafði álit Bjargar í fórum sínum. Hvers vegna er það ekki birt? Hvers vegna eru þeir sem boðaðir eru á fund nefndarinnar til að fjalla um þetta mál ekki upplýstir um lykilskjal af þessu tagi?

Sunnudagur 09. 12. 12. - 9.12.2012 21:50

Birt hefur verið umsögn um Lohengrin í La Scala, frumsýninguna á föstudaginn. Tómas Tómasson má vel við dóminn una, hann má lesa hér.

Fjórir 30 mínútna bókaþættir verða á dagskrá ÍNN fram að jólum þar sem ég ræði við þrjá höfunda um bækur þeirra og lesanda hinnar fjórðu.

Fyrsti þátturinn verður að kvöldi mánudags 10. desember klukkan 20.30. Þar ræði ég við Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðing um bók hans Upp með fánann! um uppkastið 1908. Þátturinn verður endurtekinn á tveggja tíma fresti til 18.30.

Fimmtudag 13. desember kl 21.30 ræði ég við Steinunni Kristjánsdóttur um bók hennar Sagan af klaustrinu á Skriðu mánudag 17. desember kl. 20.30 ræði ég við Sigurjón Magnússon um skáldsögu hans Endimörk heimsins og föstudag 21. desember kl 21.00 ræði ég við Helgu Birgisdóttur um Nonna sögu Paters Jóns Sveinssonar eftir Gunnar F. Guðmundsson.

Bækurnar hafa allar verið tilnefndar til íslensku bókmenntaverðlaunanna.

 

Laugardagur 08. 12. 12. - 8.12.2012 22:41

Nýjasti þáttur minn á ÍNN er kominn á netið, viðtal við Pál Harðarson, forstjóra Kauphallarinnar, og má sjá það hér.

Kyoto-samningurinn var í dag framlengdur til 2020 og látið er eins og í því fælist markverður árangur í loftslagsmálum. Doha-ráðstefnu um aðgerðir gegn hlýnun jarðar lauk á þennan hátt í dag en þar var hver höndin upp á móti annarri. Stórveldi eins og Bandaríkin, Kína og Indland hafa ekki skuldbundið sig til að hlíta Kyoto-samningnum. Hann er því mun minna virði en af er látið, samningurinn var samþykktur 11. desember 1997 í japönsku borginni Kyoto.

Áhugi á umhverfismálum hefur minnkað undanfarin ár. Stjórnmálamenn eru með hugann við annað. Þau settu hvorki svip á forsetakosningar í Bandaríkjunum né Frakklandi á þessu ári. Hér á landi hafa vinstri-grænir notað umhverfismál til að tefja fyrir ákvörðunum um ýmsar framkvæmdir. Þeir munu þó ekki tala mikið um það skemmdarstarf í komandi kosningabaráttu frekar en framlag sitt til ESB-aðildar.

Í dag skrifaði ég leiðara á Evrópuvaktina um grein sem sr. Örn Bárður Jónsson birti í Fréttablaðinu í dag þar sem hann hóf sjálfan sig og aðra stjórnlagaráðsliða til hæstu hæða vegna framlags þeirra til Íslandssögunnar. Hann telur afrekið og afreksmennina ekki metna að verðleikum og er reiður. Honum er sérstaklega í nöp við fræðimenn sem hafa gert athugasemdir við afraksturinn frá stjórnlagaráði.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hafði það til málanna að leggja í dag að stjórnarskrármálið yrði fyrsta mál á dagskrá alþingis eftir jólaleyfi! Hún vildi samkomulag en þó ekki um lægsta samnefnara. Þetta er furðutal hjá ráðherra sem hefur ekkert vald lengur á stjórnarskrármálinu og hefur aldrei lýst neinni skoðun á því hvað hún vill að standi í nýrri stjórnarskrá. Hver er samnefnarinn í málinu að mati Jóhönnu?  Ef hann er að kasta lýðveldisstjórnarskránni er málið jafn dauðadæmt núna í höndum Jóhönnu og þegar hún vildi fyrir tæpum fjórum árum svipta alþingi rétti til að breyta stjórnarskránni.

Föstudagur 07. 12. 12 - 7.12.2012 23:40

Eitthvað óraunverulegt og því í anda Lohengrins var að sitja í Fljótshlíðinni og horfa á óperu Richards Wagners Lohengrin í beinni útsendingu frá La Scala í Mílanó í Arte. Tómas Tómasson baritónn syngur eitt aðalhlutverkið sem Friedrich von Telramund. Jonas Kaufman er Lohengrin. Anja Harteros átti að syngja hlutverk Elsu von Brabant en hún er með flensu og einnig Ann Petersen sem æfði hlutverkið til vara. Til að bjarga málum var kallað í Annette Dasch sem hefur sungið Elsu í Bayreuth síðan 2010, hún kom ekki til Mílanó fyrr en í gærkvöldi. Þýska söngkonan Evelyn Herlitzius  fer með hluverk Ortrud. Þjóðverjinn René Pape er Heinrich konungur. Daniel Barenboim stjórnar hljómsveitinni.

Að Tómas Tómasson skuli syngja eitt aðalhlutverka í þessari uppfærslu Scala staðfestir aðeins hve langt hann hefur náð í list sinni. Hann stóð þarna jafnfætis hinum fremstu.

Rætt var við Barenboim í hléi. Hann sagði að við flutning verksins yrðu menn að hafa  í huga sem Wilhelm Furtwängler hefði sagt að líta þyrfti á samhengið milli fyrsta tóns verksins og hins síðasta, það væri hin eina rétta strategíska sýn, ekki mætti gleyma sér í taktískum atriðum sem hvert og eitt væru hluti heildarmyndarinnar en ekki atriði fyrir sig. Sýningin er í þessum anda og áhorfendur rjúfa hana aldrei með því að klappa eftir arírur. Verkið flýtur áfram eins og svanur á lygnu fljóti.

Með frumsýningunni á Lohengrin hefst starfsár Scala-óperunnar 2012-2013. Á árinu verður minnst 200 ára afmælis Þjóðverjans Wagners annars vegar og Ítalans Giuseppe Verdis hins vegar. Hneykslast margir á að Wagner skuli vera á undan Verdi. Barenboim sagði að þetta tal væri tóm vitleysa. Afmælisárið væri 2013 og nú væri 2012, Verdi yrði minnst að verðleikum.

Girorgio Napolitano, forseti Ítalíu, var dreginn inn í deiluna um Wagner eða Verdi þegar látið var að því liggja að hann sækti ekki frumsýninguna til að mótmæla verkefnavalinu. Forsetinn sagði þetta rangt. Hann þyrfti að sinna skyldustörfum í Róm, sér væri misboðið með hinni ómaklegu gagnrýni á Scala. Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu, sást meðal óperugesta og lét ekki trufla sig þótt flokkur Berlusconis hefði horfið frá stuðningi við ríkisstjórnina í gær. José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, komst ekki til Milanó vegna snjókomu í Brussel.

Hinn 15. janúar verður Falstaff eftir Verdi frumsýnd. Á árinu 2013 verða sjö óperur Verdis fluttar og sex eftir Wagner.

Fylgjast mátti með sýningunni í sjónvarpi og 600 kvikmyndahúsum um heim allan auk þess var skjám komið fyrir utan dyra víða í Mílanó. Undir klukkan 22.00 að íslenskum tíma varð tæknileg bilun í nokkrar mínútur. Þá rofnaði sendingin einnig þegar listamönnunum var fagnað í lokin.

 

 

 

Fimmtudagur 06. 12. 12. - 6.12.2012 21:10

Varnaðarorðin sem látin eru falla vegna þess hvernig haldið er á stjórnarskrármálinu á alþingi eru þess eðlis að væri um venjulegt lagafrumvarp að ræða hefði það verið afturkallað. Þetta er hins vegar sjálf stjórnarskráin samt er látið eins og ekkert sé sjálfsagðara en að böðlast áfram. Ég ræddi þetta í pistli sem ég birti hér á síðunni í dag.

Merkilegt var að heyra Árna Þór Sigurðsson (VG), formann utanríkismálanefndar alþingis, lýsa yfir í Spegli fréttastofu ríkisútvarpsins í kvöld að hann teldi koma til greina að gera „formlegt hlé“ á ESB-viðræðunum vegna komandi þingkosningana. Taldi hann að annir stjórnmálamanna yrðu svo miklar að ekki gæfist neitt tóm til að sinna ESB-málinu í aðdraganda kosninganna.

Hingað til hafa menn eins og Árni Þór talað eins og alls ekki ætti að huga að neinu hléi á viðræðunum, þeir hafa að minnsta kosti lagst á móti stefnu Sjálfstæðisflokksins um það. Hún felur jafnframt í sér að viðræðuþráðurinn verði ekki tekinn upp að nýju fyrr en þjóðin hefur veitt umboð til þess í atkvæðagreiðslu.

Árni Þór er með þessu að leitast við að tala sig í mjúkinn hjá þeim kjósendum sem hafa sagt skilið við VG vegna svika flokksins í ESB-málinu. Nú á að bregða upp nýrri grímu fyrir kosningar. Hentistefnustjórnmálamaður eins og Árni Þór notar þá grímu hverju sinni sem hann telur best fallna til að ná settu marki. Hann mun ekki hika við að kaupa völd að kosningum loknum með stuðningi við ESB-aðildarviðræður.


Miðvikudagur 05. 12. 12. - 5.12.2012 23:20

Í dag ræddi ég við Pál Harðarson, forstjóra Kauphallarinnar, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum um leið úr gjaldeyrishöftum. Páll hefur vel ígrundaða skoðun á vandanum. Hann telur að of mikið sé gert úr hættu á útstreymi fjár verði höftunum aflétt, mesta hættan sé kannski að Íslendingar ákveði sjálfir að flytja fé úr landi. Besta leiðin til að afnema höftin á skynsamlegan hátt sé að góð efnahagsstjórn sé hér á landi. Því fari víðsfjarri að svo sé núna. Þáttinn má næst sjá á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Í kvöld hlustaði ég á Messías í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, kórs Áskirkju og fjögurra einsöngvara í Eldborg undir stjórn Nicholas Kraemers. Flutningnum var mjög vel tekið. Að þessu sinni flytur þessi hópur listamanna Messías á tvennum tónleikum í Eldborg, Verkið var flutt þar á einum tónleikum í fyrra og var þá ekki unnt að koma til móts við alla sem vildu fá miða.

Framboðið á tónleikum í Reykjavík fyrir og um jólin jafnast á við það sem er í boði í milljónaborgum.

Þriðjudagur 04. 12. 12 - 4.12.2012 19:20

Í dag efndi Varðberg til fundar í Odda, Háskóla Íslands, um voðaverk gegn þjóðaröryggi. Þar flutti Sture Vang frá embætti ríkislögreglustjórans í Noregi erindi um voðaverkið 22. 07. 11 þegar Anders Breivik lagði bíl með sprengju í anddyri forsætisráðuneytisins í Osló og olli gífurlegu tjóni. Síðan hélt hann í Útey og réðist þar með skotvopnum á ungt fólk. Hann felldi 77 manns.  Hér má lesa frásögn af erindi Vangs. Þegar hann hafði lokið máli sínu ræddi Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, málið frá sjónarhóli íslenskra lögregluyfirvalda. Hér má lesa frásögn af ræðu Jóns.

Sture Vang sagði að gagnrýni á viðbrögð norsku lögreglunnar vegna voðaverkanna ætti við rök að styðjast og unnið væri að endurbótum, hvítbók um nauðsynlegar úrbætur væri væntanleg í febrúar. Það mundi kosta nokkur hundruð milljónir norskra króna að hrinda þeim í framkvæmd. Í Noregi réð lögreglan til dæmis ekki yfir nægilega góðu fjarskiptakerfi til að takast á við atburð af þessu tagi.

Hér á landi er fjarskiptakerfi lögreglunnar öflugra en í Noregi. Á hinn bóginn þarf að taka risaskref við að styrkja lögregluna til að hún geti tekist á við ný viðfangsefni sem við blasa ef mark er tekið á mati greiningardeildar lögreglunnar. Fyrsta verkefnið er þó að tryggja  sjálfan grunn löggæslu í landinu en að honum er nú vegið vegna fjárskorts.

Síðan er sérstakt umhugsunarefni að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga sem þrengir rannsóknarheimildir lögreglu auk þess sem hann leggst alfarið gegn heimild til að stunda forvirkar rannsóknir. Í skýrslu um voðaverkin í Osló er lögð áhersla á gildi slíkra rannsókna. Allt bendir til að markvisst sé unnið að því að veikja lögregluna og starfsgrundvöll hennar.

Mánudagur 03. 12. 12 - 3.12.2012 21:00

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S), einn varaforseta alþingis, tók af skarið í dag um að ekki hefði verið gert neitt samkomulag um hvernig standa ætti að 2. umræðu fjárlagafumvarpsins á þingi. Björn Valur Gíslason (VG) og Lúðvík Geirsson (SF) báru fyrir sig slíkt samkomulag og þeir hefðu verið að framfylgja því með forkastanlegri framgöngu og spjöldum með áletruninni MÁLÞÓF að kvöldi föstudags 30. nóvember fyrir framan sjónvarpsmyndavélina í þingsalnum. Þetta gerir hlut þeirra Björns Vals og Lúðvíks enn verri en áður.

Nú er ljóst að eftir að Huang Nubo misheppnaðist að beita sveitarstjórnarmönnum á Norðausturlandi fyrir sig að hann hefur rekið enn einn fleyginn milli Ögmundar Jónassonar og Steingríms J. Sigfússonar eins og lýst er hér á Evrópuvaktinni. VG má ekki við frekari klofningi en honum er þröngvað upp á flokkinn vegna undirlægjuháttar Steingríms J. gagnvart Samfylkingunni sem er á góðri leið til að gera flokkinn minni en Bjarta framtíð Guðmunds Steingrímssonar.

Stjórnarhættir ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur eru á þann veg að eina leiðin til að losna undan okinu sem hún leggur á þjóðina er að rjúfa þing og efna til kosninga strax á nýju ári.

Sunnudagur 02. 12. 12. - 2.12.2012 23:55

Wagner-félagið sýndi í Norræna húsinu mynd sem breski leikarinn og þáttargerðarmaðurinn Stephen Fry hefur gert um aðdáun sína á Richard Wagner og ferð á sumarhátíðina í Bayreuth. Fry er gyðingur og varð að gera upp við misnotkun Adolfs Hitlers og nasista á Wagner áður en hann settist í hinn einstaka sal á Grænu hæðinni í Bayreuth og naut verka Wagners.

Myndin er vel gerð eins og aðrar heimildarmyndir Frys. Mat hans er að list Wagners eigi ekki að gjalda þess að Hitler hreyfst af henni og því síður að ýmsir úr fjölskyldu Wagners hrifust af nasisma. Athyglisvert að breskir makar afkomenda Wagners  gengu lengst í aðdáun á Hitler og boðun þjóðernisstefnu.

Athygli mín var vakin á því af öryggissérfræðingum í Stokkhólmi að á Íslandi gilti enn regla við öryggisskoðun vegna flugferða sem ekki gilti annars staðar í Evrópu, að menn þyrftu að fara úr skónum. Á Arlandaflugvelli er þess ekki krafist og ekki heldur að maður taki af sér beltið. Hvað veldur þessum mun? Maður sem flaug um London frá Toronto sagðist hafa orðið að fara úr skónum á Heathrow-flugvelli. Hvers vegna þar en ekki á Arlanda?

 

Laugardagur 01. 12. 12 - 1.12.2012 21:21

Flugum heim frá Stokkhólmi í dag með Icelandair og allt var á áætlun. Á leiðinni út til Arlanda-flugvallar var snjór yfir öllu en auð jörð frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur.

Málþing SIPRI um þróun mála innan Norðurskautsráðsins og á norðurslóðum var eitt af ótalmörgum  alþjóðlegum fundum sem efnt er til um þessar mundir um málefni norðurslóða. Þarna var sérstaklega rætt um Norðurskaustráðið á þeim tímamótum þegar formennska í ráðherraráði þess færist frá Norðurlöndunum til Norður-Ameríku.

Augljóst er að mikilvæg þáttaskil verða í starfsemi ráðsins með ráðningu Magnúsar Jóhannessonar sem forstjóra skrifstofu ráðsins í Tromsö. Magnús er með reynslu af sviði umhverfismála og siglingaröryggis. Það fellur að hefðbundnum verkefnum Norðurskautsráðsins. Á málþingi SIPRI kom hins vegar fram að þróa yrði ráðið á þann veg að það yrði vettvangur til að skapa traust á milli þjóðanna á sviði hernaðarlegra samskipta (Confidence Building Measures, CBMs).

Þessi áhersla á CBMs bendir til að umræðurnar um að ekki þurfi að hafa áhyggjur af hernaðarlegum umsvifum á svæðinu séu að taka nýja stefnu, það sé þrátt fyrir allt ástæða til að huga að þeim þætti eins og öðrum í samskiptum þjóðanna.

Föstudagur 30. 11. 12 - 30.11.2012 21:10

Það snjóaði í Stokkhólmi í dag. Margt fólk var þó á ferli á verslunargötum.

Í Hallwylska Museet sem er í Hallwylska palatset (Hallwylska-höllinni) í miðborg Stokkhólms má nú sjá sýningu á kjólum sem frúrnar klæðast í sjónvarpsþáttunum Downton Abbey. Höllin var reist á árunum 1893 til 98 sem vetrarheimili fyrir Walther og Wilhelminu von Hallwyl. Hjónin gáfu sænska ríkinu húsið árið 1920 til að þar yrði safn og var það opnað árið 1938.

Í Nóbelsafninu við Stortorget, Gamla Stan, er nú sérstök sýning tileinkuð Hertu Müller (f. 1953) sem hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 2009. Þar má sjá við hve mikið ofríki hún bjó í Rúmeníu á stjórnarárum Ceausescu-hjónanna. Hún hóf feril sinn sem rithöfundur til að brjótast undan því oki öllu og kommúnismanum.

Í Nóbelsafninu er margt til sýnis sem tengist Nóbelsverðlaunahöfum í áranna rás, þar á meðal viðtöl við þá sem hafa fengið þau hin síðari ár og myndskreyttar frásagnir af eldri verðlaunahöfum.

Ummæli þeirra eiga það sammerkt að enginn stefndi að uppgötvun eða afreki sem leiddi til Nóbelsverðlauna. Þeir hlutu þau fyrir eitthvað sem varð til vegna mikillar menntunar, þjálfunar, vinnu og þrautseigju. Að lokum réð oft tilviljun eða hugmynd sem vaknaði annars staðar en við skrifborðið eða rannsóknartækin að rambað var á eitthvað sem leiddi til verðlaunanna.

 

Fimmtudagur 29. 11. 12 - 29.11.2012 19:55

Sat í dag málþing SIPRI hér í Stokkhólmi þar sem rætt var um breytingar á Norðurskautsráðinu þegar formennska í því flyst frá Norðurlöndunum til Norður-Ameríku í maí 2013 og verður þar til 2017, fyrst í höndum Kanadamanna og síðan Bandaríkjamanna. Merkilegt var að hlusta á útlistanir á óskum Kína og ESB um fasta áheyrnaraðild að Norðurskautsáðinu og hve mikill samhljómur er í rökum þeirra. Ég lét undir höfuð leggjast að benda á, að bæði Kína og ESB sækjast eftir auknum ítökum á Íslandi til að styrkja stöðu sína á norðurslóðum. Ég er ekki sannfærður um að aðild Íslands að ESB mundi á nokkurn hátt styrkja stöðu Íslendinga gagnvart ásókn Kínverja. Sumir aðildarsinnar á Íslandi sýnast þeirrar skoðunar.

Fréttir af frumvarpi Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra um að takmarka rannsóknarheimildir lögreglunnar eru í samræmi við stefnu VG um að gera lögreglu eins máttlitla og frekast er unnt. Þá samrýmast þessar tillögur Ögmundar einnig vel þvermóðsku Samfylkingarinnar þegar ég vildi styrkja lögregluna á sínum tíma og þingflokkurinn Samfylkingarinnar brá fæti fyrir alla marktæka viðleitni til að skapa lögreglu betri skilyrði en áður til að takast á við skipulagða glæpastarfsemi.

Hvert frumvarpið eftir annað sem miðaði að vernd almennra borgara var tekið í gíslingu af andstæðingum Sjálfstæðisflokksins eða stefnu minni, meðal annars innan Framsóknarflokksins, til að ganga í augun á einhverjum þrýstihópum sem reistu skoðanir sínar á misskilinni umhyggju fyrir minnihlutahópum eða jafnvel femínisma.

Ég skil ekki að nokkrum hafi dottið í hug að Ögmundur Jónasson mundi skila af sér sem innanríkisráðherra með þann vitnisburð að hann hefði eflt og styrkt lögregluna í landinu með því að auka öryggi lögreglumanna eða auðvelda þeim að takast á við sífellt hættulegri brotastarfsemi með auknum rannsóknarheimildum. Ekkert slíkt vakir fyrir honum enda mundi hann með því brjóta á bága við stefnu VG. Þetta telja ráðherrar VG sér skylt að framkvæma með vísan til stefnu flokks síns á sama tíma og þeir svíkja allt sem þeir hafa sagt um ESB-aðild og andstöðu sína við hana.

Miðvikudagur 28. 11. 12 - 28.11.2012 15:40

Flugum með Icelandair frá Keflavík til Stokkhólms, vél stundvísasta flugfélags í Evrópu komst ekki af stað á mínútunni af því að dráttarbíll startaði ekki og því tafðist að draga hana frá rananum á Leifsstöð.

Við lentum þó á áætlun á Arlanda-flugvelli. Ég hef ekki áður farið með Arlanda Express á 20 mínútum frá flugvellinum inn í hjarta borgarinnar. Mikil og góð breyting á tenginu flugvallar og miðborgar.

Það rignir í Stokkhólmi og er heldur drungalegt yfir öllu þótt jólaljósin séu tekin að lýsa upp skammdegið.

Þriðjudagur 27. 11. 12 - 27.11.2012 22:00

Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, kom hingað til lands í annað sinn frá hruni bankanna haustið 2008 og gaf okkur góð ráð í hátíðarsal Háskóla Íslands. Sagt er að salurinn hafi verið þéttsetinn. Persson er góður ræðumaður og reyndist þjóð sinni ágætur forsætisráðherra. Hann reyndist hins vegar hafa rangt fyrir sér um afstöðu hennar til evrunnar. Persson barðist eindregið fyrir upptöku evru í Svíþjóð.

Hann tapaði í þjóðaratkvæðagreiðslu sem efnt var til um miðjan september 2003. Þá greiddu 56,1% atkvæði gegn upptöku evru en 41,8% studdu evruna, þátttaka í atkvæðagreiðslunni var mikil, 81,2%. Í ræðum Perssons fyrir kjördag fór hann mikinn og hafði uppi stór orð um hættuna sem steðjaði að Svíum segðu þeir nei. Hann talaði á svipaðan hátt og þeir gerðu hér sem sögðu að allt mundi fara til fjandans ef Íslendingar höfnuðu Icesave-samningunum.

Eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna sat Persson fyrir svörum fréttamanna á fundi. Þá spurði einn: Forsætisráðherra, fyrir kjördag boðaðir þú að hér yrði allt í kalda koli ef menn segðu nei við evrunni. Hvenær hefjast þær hörmungar? Persson svaraði: Nú, á ég að hafa sagt það, ég man bara ekki eftir því.

Eitt af því sem Persson sagði þegar hann kom hér í fyrra skiptið til að stappa stálinu í okkur Íslendinga var að hið vitlausasta sem menn gerðu á stundu sem þessari væri að rjúfa þing og ganga til kosninga. Að þessu leyti reyndist hann sannspár. Hvernig sem á málið er litið getur enginn sagt að það hafi verið heppilegast fyrir Íslendinga að Ólafur Ragnar  leyfði Jóhönnu og Steingrími J. að mynda minnihlutastjórn og hefja síðan þá sundrungariðju sem þau hafa stundað og ekki er enn lokið. Sundrungin er svo mikil að Ólafur Ragnar taldi sig ekki eiga annarra kosta völ en bjóða sig fram í fimmta sinn sem forseti. Þjóðin yrði þó að eiga eitthvert sameiningartákn!

Göran Persson segir að Íslendingar eigi að ljúka viðræðum við ESB með niðurstöðu. Þetta bendir til að hann viti ekki um hvað málið snýst í viðræðum Íslands og ESB. Þá sé hann álíka mikið úti að aka um afstöðu Íslendinga og um afstöðu Svía árið 2003 þegar hann taldi að þeir mundu samþykkja upptöku evru. Enn þann dag í dag neitar sænska ríkisstjórnin að taka þátt í ERM II sem er fyrsta skref til upptöku evru. Að reglum ESB er Svíum skylt að nota evru, aðeins Bretar og Danir hafa frelsi frá Brussel til að nota eigin mynt.

 

Mánudagur 26. 11. 12 - 26.11.2012 21:50

Það er ótrúlegt að lesa nöldrið í óvildarmönnum Sjálfstæðisflokksins þegar þeir fjalla um hið velheppnaða prófkjör flokksins í Reykjavík laugardaginn 24. nóvember.

Óli Björn Kárason vakti athygli á rangfærslum stjórnmálafræðings við Háskólann á Akureyri um þátttöku í prófkjörinu. Hún er síst verri en áður. Yfirlýsingar Grétars Þórs Eyþórssonar kennara við HA um prófkjör sjálfstæðismanna og forval VG virðast hafa verið gefnar að óathuguðu máli. Hér má sjá grein Óla Björns.

Það er ekkert einstakt við að þingmaður færi sig af lista utan af landi til Reykjavíkur. Að Björn Valur Gíslason skuli hafa gert það skýrir ekki afhroð hans í forvali VG í Reykjavík eins og Grétar Þór vildi gera.

Skoðanir Björns Vals eða framganga höfða einfaldlega ekki til kjósenda. Eftir að hann varð formaður fjárlaganefndar alþingis lætur hann eins og ekkert sé honum og stórkallalegum yfirlýsingum hans óviðkomandi. Þá snerist hann á sínum tíma öndverður við skoðunum Katrínar Jakobsdóttur og Svandísar Svavarsdóttur um að eðlilegt væri að endurskoða forsendur ESB-viðræðnanna vegna þess hve þær hefðu dregist á langinn og ástandið innan ESB væri allt annað nú en 2009. Meira að segja Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar alþingis, var mildari í garð ESB-sjónarmiða VG-ráðherranna tveggja en Björn Valur. Í forvalinu fékk Árni Þór mun meira fylgi en Björn Valur.

Ókum norðan úr Húnavatnssýslu í dag í fegursta veðri. Íbúar fyrir norðan sögðu að við hefðum verið heppin um helgina því að undanfarandi helgar hefðu einkennst af vondu veðri og ófærð.

Sunnudaginn 25. 11. 12 - 25.11.2012 23:55

Í dag klukkan 15.00 hélt Rut stofutónleika í hinu glæsilega Heimilisiðnaðarsafni á Blönduósi. Hún lék þar einleiksverk á fiðlu.

Ég skrifaði pistil um úrslit prófkjara.

Laugardagur 24. 11. 12 - 24.11.2012 23:10

Sjálfstæðisflokkurinn kemur sterkur frá prófkjörinu í Reykjavík í dag undir nýrri forystu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem hlaut glæsilega kosningu. Þá styrkti flokkurinn sig verulega á landsbyggðinni þegar kjördæmisþing flokksins í NV-kjördæmi ákvað á fundi í Borgarnesi að velja Harald Benediktsson í 2. sæti á lista flokksins þar. Hanna Birna og Haraldur eru bæði með mikla reynslu af starfi í almannaþágu hvor á sínum vettvangi og hafa áunnið sér traust samstarfsfólks langt út fyrir raðir sjálfstæðismanna.

Þá var einnig ánægjulegt að Brynjar Níelsson hrl. hlaut gott brautargengi í prófkjörinu í Reykjavík. Brynjar hefur verið ódeigur við að lýsa skoðunum sínum og segir óhikað hinni pólitísku rétthugsun stríð á hendur. Það er mikil þörf fyrir menn með hugrekki til þess á hinum pólitíska vettvangi.

Allt annað yfirbragð er á ákvörðunum sjálfstæðismanna um skipan á lista en VG þar sem efnt var til forvals í SV-kjördæmi og Reykjavík í dag. Ég tel að Steingrímur J. komi laskaður frá átökunum í forvalinu því að útsendarar hans náðu ekki settu marki eins og ég lýsi hér.

Þáttur minn á ÍNN frá 21. nóvember þar sem ég ræði við Hafstein Þór Hauksson, lektor við lagadeild HÍ, um stjórnarskrármálið er kominn á netið  og má sjá hann hér.

Í dag ókum við norður í Húnavatnssýslu í ágætri færð en töluverðri hálku, krapi var í Norðurárdalnum. Umferð var ekki mikil.

Föstudagur 23. 11. 12 - 23.11.2012 23:40

Það er frábært framtak hjá Elínu Hirst, Kjartani Gunnarssyni og þeim sem unnu með þeim að heimildarmyndinni um stofnfrumurnar að kynna þær og mikið gildi þeirra fyrir almenningi á þann hátt sem gert er í myndinni. Hún er í senn fræðandi og áhrifamikil.

Íslendingar eru fordómalausir í samanburði við aðrar þjóðir í þessu efni. Íslensk mynd um stofnfrumur á erindi til fleiri en áhorfenda hér til að opna augu sem flestra fyrir gildi þess að nýta þessa tækni til að sigrast á sjúkdómum sem til þessa hafa verið taldir ólæknandi. Myndin sýnir að það er unnt og fékk Elín hugrakka einstaklinga til að segja sögu sína og lýsa eigin reynslu.

Á morgun er prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík. Ég hef á öðrum vettvangi lýst skoðun minni á nauðsyn endurnýjunar. Tækifæri til hennar gefst í þessu prófkjöri. Dugnað stjórnmálamanna má mæla á ýmsan hátt. Ég tel mestu skipta að enginn efist um meginskoðanir þeirra og hvaða aðferðum þeir beita við úrlausn mála.

Lítið hald reynist í mönnum sem haga sér eins og vindurinn blæs og hengja sig á það sem þeir telja helst til þess fallið að vekja athygli á hverjum tíma án þess að því sé fylgt eftir með öðru en upphrópunum. Jóhanna Sigurðardóttir starfaði þannig í stjórnarandstöðu.Hún var aldrei til friðs innan eigin flokks og þegar hún komst á toppinn hlaut íslenska þjóðin forsætisráðherra án annars markmiðs en að gera stjórnarandstöðunni lífið leitt. Jóhanna breytti í raun ekki um takt.

Rætt er um það sem dugnað að elta stjórnarherra með sífelldum fyrirspurnum. Vissulega er góðra gjalda vert að afhjúpa það sem miður fer og hér skiptir atbeini stjórnmálamanna meiru í því efni en víða annars staðar vegna þess hvernig fjölmiðlun er háttað.  Að lokum skiptir þó miklu meira máli að vekja athygli á brotalömum í stefnu andstæðinga í stjórnmálum og leggja fram heildstæða stefnu sem vekur meiri tiltrú en til dæmis stjórnarherrarnir fylgja. Ná að setja fram skoðanir sínar á þann hátt að vitað sé fyrir hvað menn standa og höfða með því til almennings.

Í framboði í prófkjöri sjálfstæðismanna er fólk sem ég tel fært um að móta og fylgja fram stefnu flokksins af meiri þunga en gert hefur verið. Ég vona að það nái allt kjöri.

 

 

 

Fimmtudagur 22. 11. 12 - 22.11.2012 22:20

Aðalfundur Varðbergs var haldinn í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns í dag og var stjórn félagsins endurkjörin. Ég flutti skýrslu stjórnar og má lesa hana hér.

Morgunblaðið birtir í dag frétt um að Gunnar Þ. Andersen, fyrrv. forstjóri Fjármálaeftirlitsins, hafi kært „alþingismanninn Guðlaug Þór Þórðarson, Ágústu Johnson, eiginkonu Guðlaugs, og Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, til embættis sérstaks saksóknara. Kæran lýtur að meintum brotum á lögum um mútur og umboðssvik og hlutdeild í málum tengdum Bogmanninum, félagi í eigu Guðlaugs Þórs og Ágústu,“ segir í blaðinu.

Guðlaugur Þór segir „ekkert athugavert við þessi viðskipti sem voru fyrir áratug og menn mega skoða það eins og þeir vilja“. Þingmaðurinn segir kæruna þátt „í leikriti Gunnars Andersen og Inga Freys [blaðamanns] á DV“ og hann „efast ekki um að þeir verða örugglega fleiri“ leikþættirnir.

Stuðningsmenn Guðlaugs Þórs setja fréttir af einvígi Gunnars Þ. og Guðlaugs Þórs í samband við prófkjör sjálfstæðismanna  í Reykjavík nk. laugardag þar sem Guðlaugur Þór sækist eftir 2. sæti. Halldór Jónsson í Kópavogi, eindreginn stuðningsmaður Guðlaugs Þórs, segir á vefsíðu sinni í dag:

„Auðvitað skaðar þetta Guðlaug Þór í prófkjörinu, þar sem einhverjir kjósa hann ekki vegna þessa máls sem annars hefðu kosið hann og kjósa þar með aðra. Forstjórinn og DV geta vel við unað. Spurningin er hversu mikinn skaða Guðlaugur ber af þessu máli hvað sem svo líður útkomu þess í fyllingu tímans. Sýkna eða sakfelling breytir þar engu um og skiptir ekki máli, því skaðinn er skeður. Fáir munu taka eftir málalyktum þegar þær verða.“

Björn Jón Bragason, sagnfræðingur og laganemi við HR, segir Gunnar Þ. í  „ófrægingarherferð gegn Guðlaugi Þór og eiginkonu hans. Svo virðist sem siðferðisbrestur Gunnars Þ. Andersen sé algjör,“ segir Björn Jón.

Prófkjör bindur ekki enda á þetta mál. Hætta er á að því verði að ósekju klínt á Sjálfstæðisflokkinn.  Hér er meira í húfi en hagsmunir eins frambjóðanda þótt alls ekki beri að gera lítið úr þeim.  Málum af þessu tagi ber að ljúka fyrir dómstólum en ekki á pólitískum vettvangi.