12.12.2012 18:50

Miðvikudagur 12. 12. 12.

Fyrsti bókaþáttur minn á ÍNN er kominn á netið og má sjá hann hér. Ég ræði við Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðing um bók hans Upp með fánann!

Á fésbókarsíðu Jóns Magnússonar hrl. má lesa:

„Ég sá í fréttum að starfrækt hefur verið spilavíti í gamla skrifstofuhúsnæðinu mínu í Skeifunni. Spilavítið kom raunar ekki beint á eftir heldur var Rannsóknarnefnd Alþingis með aðstöðu þarna í millitíðinni.

Í fréttum sjónvarpsstöðvanna var sérstaklega tekið fram að þrír lásar væru á hurðinni. Væntanlega til að sýna hversu útpæld þessi meinta glæpastarfsemi væri. Þetta kom mér á óvart. Ég setti þessa þrjá lása upp til að það væri erfiða„ra að brjótast inn. Áttaði mig ekki á því fyrr en í kvöld hvað þetta var útpælt og andstyggilegt eins og sjónvarpsfréttamennirnir virðast telja.“

Ábending Jóns um lásana minnir á að unnt er grípa til ýmissa ráða, ekki síst í sjónvarpsfréttum, til að gera sjálfsagða hluti tortryggilega. Í þingfréttum ríkisfréttastofunnar er til dæmis ýtt undir að eitthvað óeðlilegt sé að gerast á alþingi þegar sagt er frá hve þingfundir hafi staðið lengi og hve margir talað og síðan minnt á að starfsáætlun alþingis geri ráð fyrir að þingmenn fari í jólaleyfi á ákveðnum degi. Verður það svo sérstakt fréttaefni ef ekki tekst að standa við áætlunina og látið í veðri vaka að þar hafi gerst einhver pólitísk stórtíðindi.

Allt þetta tal um lengd þingfunda, fjölda óafgreiddra mála, margar ræður og yfirvofandi jólaleyfi þingmanna miðað við starfsáætlun er í ætt við ábendinguna um lásana þrjá sem áttu að sýna að um harðsvíraða menn væri að ræða en reyndist ekki annað en lélegur spuni þegar að er gáð. Starfsáætlun alþingis er ekki annað en skjal til viðmiðunar, það bindur engan og breytir engu um ákvarðanir þingmanna hvort við áætlunina er staðið eða ekki.  Ræðustóll alþingis er til þess að menn geti talað þar, þingsköpin mæla fyrir um skipulag umræðnanna. Þingmenn hafa frelsi til að nýta sér ræðustólin og rétt sinn í þingsköpum. Það er sérkennilegt ef fréttir af því sem gerist á alþingi snúist einkum um hvernig þingmenn nýta sér þennan rétt en ekki til hvers, það er hvað þeir segja.