Dagbók: júlí 2004

Laugardagur, 31. 07. 04. - 31.7.2004 0:00

Klukkan 12.30 hélt ég af stað í Skálholt með feðginunum Kenneth og Helen East, en við Kenneth höfum þekkst síðan hann var sendiherra Breta hér á landi í síðasta þorskastríðinu,  þar til hann hætti 60 ára árið 1981. Hann var hér sendiherra, þegar stjórnmálasambandinu við Breta var slitið árið 1976 en kom síðan aftur. Ég tók einu sinni viðtal um það efni við hann fyrir sjónvarpið.

Klukkan 14.00 hlustaði ég á fyrirlestur Helgu Ingólfsdóttur, listræns stjórnanda sumartónleikanna í Skálhotli, þar sem hún fór yfir 30 ára sögu tónleikanna.

Klukkan 15.00 hlustuðum við á Bach-sveitina flytja ítalska tónlist í Skálholtskirkju.

Klukkan 16.00 hlustuðum við á Skálholtskvartettinn flytja þrjá kvartetta í kirkjunni.

Rut lék bæði í sveitinni og í kvartettinum.

Eftir kvöldverð í Skálholti héldum við áfram austur í Fljótsthlíð en um helgina ætla ég að sýna þessum ensku vinum mínum Suðurland, hvernig sem viðrar.

Fimmtudagur, 29. 07. 04. - 29.7.2004 0:00

Hitti klukkan 11.30 forráðamenn Ungmennafélags Íslands og Ungmennasambands Skagafjarðar og ræddi við þá um löggæslukostnað við landsmót þeirra.

Laugardagur, 24. 07. 04. - 24.7.2004 0:00

Sagt var frá því í fréttum, að kvöldið áður hefði lögreglan á Akureyri handtekið mann, sem ætlaði að brjótast inn í hús við Aðalstræti með stóran veiðiriffil og gera upp við íbúa þar. Lögreglan brást vel og skipulega við þessari ógn og voru sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra á Akureyri kallaðir á vettvang auk þess sem sérsveitarmenn í Reykjavík voru í viðbragðsstöðu.

Þetta atvik minnir enn á, hve brýnt er að lögreglan sé undir það búin að takast á við hættulegri verkefni en áðiur. Fyrr á þessu ári, þótti ekki öllum einsýnt, að nauðsynlegt væri að breyta skipulagi á yfirstjórn sérsveitar lögreglunnar til að sveitin væri ávallt til taks og sveigjanlegri en áður. Því síður virtist skilningur á því hjá mörgum, að nauðsynlegt væri að efla sérsveitina og fjölga í henni.

Í blaði Landssambands lögreglumanna, Lögreglumanninum, 1/2004, er stutt grein eftir Óskar Þór Guðmundsson og Steinar Gunnarsson, varðstjóra við embætti sýslumannsins á Eskifirði, í Neskaupstað og Fáskrúðsfirði. Þeir segjast ósammála mér um að nægilegt sé að styrkja sérsveit lögreglunnar eina til að takast á við harðnandi glæpastarfsemi og segja „ við teljum að tími sé kominn til að við förum að opna augun fyrir því að það er hin almenna lögregla sem verður að styrkja til að takast á við vopnaða menn.“ Í upphafi greinar sinnar segja þeir félagar, að lögreglan á Íslandi sé sennilega sú eina í Evrópu, sem ekki beri vopn við skyldustörf sín dags daglega,

Á síðasta þingi var semþykkt breyting á lögum, sem veitir lögreglu vitnavernd. Þá voru lögreglunni einnig veittar auknar heimilidir til símahlerana eins og mikið var rætt. Heimildirnar, sem þar fengust eru jafnvel víðtækari en lagt var upp með frumvarpinu, sem ég flutti, þótt það sætti gagnrýni fyrir að ganga of nærri friðhelgi manna.

Fimmtudagur, 22. 07. 04. - 22.7.2004 0:00

Þingfundur og þriðja umræða um fjölmiðlafrumvarpið hófst klukkan 10.00. Ræddu menn málið til klukkan 12.00. Þá voru greidd atkvæði, var frumvarpið samþykkt með 32 atkvæðum stjórnarsinna en stjórnarandstæðingar sátu hjá, þótt þeir teldu um brot á stjórnarskránni að ræða. Magnús Þór Hafsteinsson, þingflokkformaður frjálslyndra, fór eins og fyrri daginn yfir markið í æsingi, þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu. Gerðu aðrir þingmenn hróp að honum.

Halldór Ásgrímsson las forsetabréf um frestun funda alþingis í fjarveru Davíðs.

Miðvikudagur, 21. 07. 04 - 21.7.2004 0:00

Um klukkan 09.00 hringdi Ólafur Davíðsson, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, í mig og skýrði frá því, að þá um nóttina hefði Davíð Oddsson verið fluttur á sjúkrahús vegna kvala í kviðarholi. Skömmu síðar sendi forætisráðuneytið frá sér fréttatilkynningu um veikindi Davíðs.

Ég var með venjuleg miðvikudagsviðtöl í ráðuneytinu.

Þorsteinn, aðstoðarmaður minn, sonur Davíðs, sagði mér meira um veikindi föður síns.

Þingfundur hófst klukkan 13.30 og Bjarni Benediktsson gerði grein fyrir afstöðu meirihluta allsherjarnefndar við upphaf annarrar umræðu um fjölmiðlafrumvarpið. Umræður stóðu fram yfir klukkan 20.00 en þá  hófst atkvæðagreiðsla. Þar sem við vorum aðeins 31 stjórnarþingmaður í salnum og stjórnarandstæðingar tóku ekki þátt í atkvæðagreiðslunni , varð að afgreiða breytingartillögur með nafnakalli, það var ekki fyrr en kom að þvi að vísa málinu til þriðju umræðu, að einhverjir stjórnarandstæðingar réttu upp hönd.

Þessi háttur við atkvæðagreiðsluna réðst af því, að rafræna atkvæðagreiðslukerfið var ekki í sambandi, enda var þinghúsið í raun hálfkarað vegna endurbóta. Aðeins var unnt að nota þingsalinn sjálfan, skjöl voru fyrir framan hann á bráðabirgðaborði og þar sem símaþjónustan er venjulega hafði skjalaumsýslan aðstöðu.

Um klukkan 18.00 bárust þær fréttir af Davíð, að hann hefði verið skorinn og auk gallblöðru hefði verið tekið úr honum annað nýrað, þar sem fundist hefði æxli á því. Sátu þingmenn fyrir framan sjónvarpið í Skálanum og fylgdust með fréttum af þessu í kvöldfréttum sjónvarpsins.

Þriðjudagur, 20. 07. 04 - 20.7.2004 0:00

Ríkisstjórnin kom saman til fundar klukkan 09.30. Það dróst tæpan hálftíma að fundur hæfist, allir ráðherrar sátu fundinn fyrir utan Halldór Ásgrímsson, en hann var austur á Höfn í Hornafirði að undirbúa útför móður sinnar miðvikudaginn 21. júlí. Davíð sagði  við blaðamenn sem komu inn í ríkisstjórnarherbergið, þegar fundur var að hefjast, að hann hefði tafist vegna frágangs á textum.

Niðurstaða ríkisstjórnarfundarins var, að beðið skyldi eftir niðurstöðu fundar allsherjarnefndar síðar um daginn, en að loknum þeim fundi mundi afstaða stjórnarflokkanna liggja fyrir. Jafnframt var ákveðið að  óska eftir fundi þingflokka klukkan 16.00 þennan dag.

Bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið voru með fréttir um það á forsíðu þennan dag, að fjölmiðlalögin yrðu dregin til baka. Morgunblaðið taldi jafnframt, að flutt yrði þingsályktunartillaga um endurskoðun á I. og II. kafla stjórnarskrárinnar.

Á þingflokksfundi okkar sjálfstæðismanna gerði Bjarni Benediktsson, formaður allsherjarnefndar, grein fyrir niðurstöðu hennar og afturköllun fjölmiðlalaganna nema að því er varðar útvarpsréttarnefnd. Var góð samstaða um málið í þingflokknum. Í áliti nefndarinnar er rætt um nauðsyn þess að endurskoða stjórnarskrána en ekki var flutt sérstök þingsályktunartillaga um málið.

Ég settist við að rita pistil á vefsíðu mína við heimkomuna af þingflokksfundinum. Þar lét ég þess getið, að yrði stjórnarskránni breytt myndi forseti Íslands ekki hafa synjunarvald um það efni. Guðmundur Magnússon, blaðamaður á Fréttablaðinu, nefndi þetta sérstaklega á vefsíðu sinni og síðan í blaðinu sjálfu, þótti þetta athyglisverður punktur. Síðar sagði hann á síðunni og í blaðinu, að þessa túlkun á stjórnarskránni væri að finna hjá föður mínum í grein hans um lögkjör forseta en Ólafur Jóhannesson og Gunnar G. Schram teldu þessa túlkun hæpna. Taldi Guðmundur þetta boða nýja deilu lögspekinga.

Mánudagur, 19. 07.04 - 19.7.2004 0:00

Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hittust á stuttum fundi og ræddu um fjölmiðlafrumvarpið.

Fimmtudagur, 15. 07. 04 - 15.7.2004 0:00

Var klukkan 20.00 leiðsögumaður í fimmtudagsgöngu á Þingvöllum. Um eitt hrundrað manns tóku þátt í göngunni í einstaklega góðu veðri - á leiðinni yfir Mosfellsheiði var smáskúr á undan okkur, sem gekk yfir, áður en gangan hófst.

Í upphafi kom hópurinn saman í fræðslumiðstöðinni á Hakinu, þar sem ég sagði frá henni. Síðan fórum við á Hakið, þar sem ég ræddi stærð þjóðgarðsins og staðhætti. Þá var gengið að Lögbergi, þar sem ég ræddi skráningu Þingvalla á heimsminjaskrá UNESCO, við áttum stutta viðdvöl við svæði norðan Öxarár, þar sem börn fá leiðsögn við fornleifagröft og lokaorð um stjórnarhætti Þingvalla flutti ég við þjóðargrafreitinn.

Þegar ég hafði lokið máli mínu bauð séra Kristján Valur Ingólfsson göngufólki að ganga til kirkju, þar sem farið var með kvöldbænir.

Lauk dagskránni rétt fyrir klukkan 22.00.

Miðvikudagur, 14. 07. 04 - 14.7.2004 0:00

Var í viðtali við Ævar Kjartansson í Víðsjá á rás 1 og ræddi um Þingvelli og væntanlega leiðsögn mína í kvöldgöngu á Þingvöllum 15. júlí.

Þriðjudagur, 13. 07. 04 - 13.7.2004 0:00

Fó klukkan 11.00 í viðtal á útvarpi Sögu hjá Arnþrúði Karlsdóttur og ræddum við einkum um fjölmiðlalögin.

Mánudagur, 12. 07. 04. - 12.7.2004 0:00

Var í viðtali við Ævar Örn Jósepsson í Spegli RÚV um Þingvelli á heimsminjaskrána.

Föstudagur, 09. 07. 04. - 10.7.2004 0:00

Héldum af stað frá Qingdao klukkan 08.30 frá hóteli út á flugvöll. Fórum þaðan um klukkan 10.00 og lentum klukkustund síðar í Peking.

Snæddum hádegisverð í boði kínverskra gestgjafa á flugvellinum og fórum síðan að SAS-vélinni, sem hélt af stað klukkan 14.45 til Kaupmannahafnar.

Flugstjórinn tilkynnti, að ferðin til Kaupmannahafnar tæki um 8 klukkustundir og 50 mínútur, næstum klukkustund skemur en áætlun segði  - góður meðbyr.

Flugum yfir Mongólíu. Rússland, Lettland og til Kaupmannahafnar, þar sem við lentum 17.40 á dönskum tíma.

Flugleiðavélin fór tæplega 20.00 og við lentum í Keflavík um 20.40 á íslenskum tíma. Höfðum þá verið tæpan sólarhring á ferðalagi.

Fimmtudagur, 08. 07. 04 - 8.7.2004 0:00

Síðasti dagur Kínaferðarinnar hófst á því að við heimsóttum Haier-fyrirtækið og kynntumst starfsemi þess.

Klukkan 11.00 var fundur með embættismönnum dómsmálaráðuneytisins á staðnum og þeir kynntu starf sitt og viðfangsefni.

Eftir hádegisverð var farið í Taó-klaustur í Laoshan fjöllum, eins og það var orðað, en klaustrið var við ströndina fyrir norðan Qingdao um 40 mínútna akstur. Klaustrið er  inni í dalverpi við enda vegarins. Þar tók yfirmaður þess á móti okkur og fræddi okkur um inntak taóisma auk þess að sýna okkur klaustrið en elstu byggingar þar eru um 2000 ára gamlar og elsta tréð 2144 ára.

Síðan var snæddur kveðjukvöldverður í Qingdao með fulltrúum dómsmálaráðuneytisins.

Miðvikudagur 07. 07. 04 - 7.7.2004 0:00

Héldum af stað frá hótelinu klukkan 08.30 út á flugvöll, þar sem við tókum flugvél til borgarinnar Qingdao við Kyrrahafsströndina um 800 km frá Peking. Þar var tekið á móti okkur af fulltrúum héraðsstjórnarinnar. dómsmálaráðuneytisins og bæjarstjórnarinnar. Þarna búa tæplega átta milljónir manna á 10 þúsund hektörum lands. Flugvöllurinn er nýr og vegakerfið einnig.

Eftir að við höfðum komið okkur fyrir á hótelinu var farið með okkur í kynnisferð í Tsingdao-bjórverksmiðjuna, sem Þjóðverjar stofnuðu fyrir 100 árum en þeir réðu  borginni um nokkurra áratugaskeið og í gamla hluta hennar er eins og að vera í gamalli þýskri borg. Þetta brugghús er nú hið stærsta í Kína og selur meðal annars framleiðslu sína til Íslands.

Við fórum síðan að styttunni Fiðluleikaranum eftir Gerði Gunnarsdóttur myndhöggvara en þessi stytta er í tónlistargarði borgarinnar og var afhjúpuð við hátíðlega athöfn haustið 2001, þegar minnst var 30 ára afmælis stjórnmálasambands Kína og Íslands.

Þá áttum við fund með aðstoðarborgarstjóra Qingdao og snæddum kvöldverð í boði hennar.

Loks hittum við Hans Braga Bernhardsson, sem veitir skrifstofu SH í Qingdao forstöðu en hún var nú í vor.

Borgin hefur síðustu 12 ár breyst úr því að vera sveitaþorp umhverfis gamla þýska bæjarkjarnan í nýtískulega borg og siglingakeppni ólympíuleikanna á að fara hér fram árið 2008.

Ég hef uppfært dagbókina á hverjum degi á meðan ég hef verið opinber gestur kínverskra yfirvalda, engu að síður sé ég í vefútgáfu Fréttablaðsins, að það hefur ekki getað fengið upplýsingar um það í dómsmálaráðuneytinu, hvað ég sé að gera í Kína! Ég hef ekki fengið þessa fyrirspurn frá blaðinu, en þessi fréttaflutningur þess er aðeins enn til marks um hina sérkennilegu blaðamennsku, sem þarna tíðkast og einkennist af eltingarleik við eitthvað, sem ekkert er. Þetta á líklega að vera framlag blaðsins til baráttu þess gegn nýjum fjölmiðlalögum.

Þriðjudagur 06. 07. 04. - 6.7.2004 0:00

Fórum af stað rúmlega átta í heimsókn í Beijing-fangelsið, þar sem eru um 2000 fangar. Hlýddum á kynningu á fangelsinu og skoðuðum það síðan.

Hittum um hádegisbilið fulltrúa þeirrar stjórnarstofnunar, sem fer með yfirstjórn trúmála.

Síðan fórum við á fund forystumanna Qi gong félags Kína, sem stofnað var 13. maí 2004 og ræddi ég við þá um sameiginlegt áhugamál og fékk að sjá hjá þeim myndbönd og einn félaganna sýndi okkur æfingu.

Þá var haldið í forboðnu borgina og gengið í gegnum hana á klukkustund í 34 stiga hita.

Í lok dagsins heimsóttum við Eið sendiherra og Eygló konu hans og þáðum hjá þeim kvöldverð.

Mánudagur, 05. 04. 07 - 5.7.2004 0:00

Klukkan 08.30 héldum við af hótelinu og hófum klukkan 09.00 fund með Zhang Fusen, dómsmálaráðherra Kína, og samstarfsmönnum hans í kínverska dómsmálaráðuneytinu. Stóðu viðræður okkar í eina og hálfa klukkustund.

Síðan hittum við fulltrúa kínverska lögmannafélagsins.

Eftir hádegi var fundur í hæstarétti Kína með Jiang Xingchang, varaforseta réttarins.

Síðdegis hittum við síðan Zhou Yongkang, ríkisráðsfulltrúa, einn af æðstu mönnum Kína. Fundurinn var í hverfi stjórnmálaforingjanna, sem er lokað innan múra, skammt frá forboðnu borginni.

Deginum lauk með kvöldverði í boði Zhang dómsmálaráðherra. Hófst hann  klukkan 17.30 og var lokið um klukkustund síðar.

Sunnudagur, 04. 07. 04 - 4.7.2004 0:00

Héldum um klukkan 09.00 til flugvallar við Shanghai og fórum þaðan í hádeginu með Air China til Peking. Þar tóku fulltrúar kínverska dómsmálaráðuneytisins á móti okkur auk Eiðs Guðnasonar sendiherra, Eyglóar Haraldsdóttur, eiginkonu hans, Þorsteins Geirssonar ráðuneytisstjóra, Maríu Haraldsdóttur, eiginkonu hans, og Þorsteins Davíðssonar, aðstoðarmanns míns.

Um klukkan 15.00 héldum við frá flugvellinum að Kínamúrnum, sem við skoðuðum í fylgd fjölmargra lögreglumanna. Er ógleymanlegt að hafa skoðað þetta undur veraldar.

Við vorum komin á Grand Hotel Beijing sem gestir kínverska dómsmálaráðherrans klukkan 18.30. Um kvöldið fórum við og fengum okkur Peking-önd að sið heimamanna.

Laugardagur, 03. 07. 04. - 3.7.2004 0:00

Klukkan 08.00 var haldið í skoðunaferð um nágrenni Suzhou. Er með ólíkindum að sjá uppbygginguna alls staðar, maður finnur efnahagsumsvifin og vöxtinn allt um kring, vegagerð er með ólíkindum og alls staðar eru nýbyggingar íbúðarhús og atvinnuhúsnæði.

Við skoðuðum gamlar borgir sem staðfestu réttnefni þess að kenna þær við Feneyjar Kína eða Asíu. Það rigndi mikið og blés eftir mikinn hita og raka síðustu daga. Var léttir að fá ferskan blæ og var vel þess virði að blotna dálítið fyrir hann.

Við komum til baka til hótelsins um kvöldmatarleytið.

Föstudagur 02. 07. 04 - 2.7.2004 0:00

Um hádegi rann stóra stundinn upp. Tillagan um Þingvelli var tekin fyrir og samþykkt einróma. Vegna þess hve sumar umsóknir og tillögur sættu mikilli gagnrýni, hafði dálítill kvíði um örlög Þingvalla sótt að okkur, en hann reyndist ástæðulaus. Tillagan hlaut mjög góðar undirtektir og öll umsóknarvinnan undir forystu Margrétar Hallgrímsdóttur og Alta.

Eftir að hafa tekið á móti heillaóskum ókum við á virðulegan og góðan kínverskan matstað og héldum upp á þessi tímamót með veglegri máltíð.

Við fórum síðan aftur á fundarstað og hlýddum á umræður um tillögu um varðveislu gamallar loftskeytastöðvar í Varberg í Svíþjóð. Virtist um tíma tvísýnt um að hún hlyti samþykki, þótt það gerðist að lokum við mikinn létti sænsku fulltrúanna.

Um kvöldið var hátíðarkvöldverður í boði héraðsstjórans, en vegna þess hve langan tíma tók að afgreiða síðustu tillögurnar, dróst um klukkustund að hann hæfist eða til 21.00. Kínverjar ljúka margréttuðum málsverðum af á ótrúlega skömmum tíma og klukkan rúmlega 22.00 hittum við aðra Norðurlandamenn á fundinum, sem voru að fagna því, að samþykktir hefðu verið staðir frá Grænlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð.      

Fimmtudagur 01. 07. 04 - 1.7.2004 0:00

Fórum um klukkan 10.00 á fundinn og sátum þar allan daginn fram yfir klukkan 21. 00 og biðum árangurslaust eftir að tillagan um Þingvelli kæmi á dagskrá. Umræður urðu miklu meiri og langdregnari en menn væntu um einstaka staði og var tekin ákvörðun um að binda umræður um hvern stað við 20 mínútur. Alls voru 48 staðir til umræðu á fundinum.