Dagbók: apríl 2013

Þriðjudagur 30. 04. 13 - 30.4.2013 19:10

Menn þurftu ekki að vera með háskólapróf í stjórnmálafræði til að átta sig á því hvert stefndi eftir samtöl Ólafs Ragnars við stjórnmálaleiðtoga í gær. Tveir þeirra utan Framsóknarflokksins, Árni Páll Árnason (Sf) og Birgitta Jónsdóttir pírati sögðu að þau hefðu lagt til að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) fengi umboð til stjórnarmyndunar. Einn skilaði auðu eins og jafnan, Guðmundur Steingrímsson (Bf), og Bjarni Benediktsson (S) taldi eðlilegt að hann fengi umboðið sem formaður stærsta flokksins en gerði það ekki að neinu úrslitaatriði.

Í morgun tilkynnti Ólafur Ragnar að Sigmundur Davíð fengi umboðið. Við svo búið sagðist formaður Framsóknarflokksins ætla að ræða við forystumenn allra flokka.

Innan Framsóknarflokksins hafa ávallt verið öflugir talsmenn þess að flokkurinn  starfaði til vinstri, hann ætti ekki pólitíska samleið með Sjálfstæðisflokknum. Þetta heyrðist á þeim árum sem ég sat í ríkisstjórn með ráðherrum Framsóknarflokksins. Nú er nýr, stór þingflokkur framsóknarmanna tekinn til starfa. Það verður spennandi að vita hvernig hann tekur á málum og hve sterk staða Sigmundar Davíðs er innan hans.

Allt kemur þetta í ljós næstu sólarhringa og einnig hve liprir flokksformenn eru í viðræðum um myndun ríkisstjórnar. Enginn þeirra hefur áður komið að slíku verkefni.

Þegar ríkisstjórn sjálfstæðismanna og framsóknarmanna var mynduð eftir kosningar 1995 áttum við Guðmundur Bjarnason okkar þátt í að skapa traust á milli forystumanna og nutum þar samstarfs okkar á þingi Evrópuráðsins í Strassborg. Þetta var vandasöm stjórnarmyndun af því að sjálfstæðismenn sögðu skilið við Alþýðuflokkinn sem hafði klofnað fyrir tilverknað Jóhönnu Sigurðardóttur og var auk þess með ESB-aðild á stefnuskrá sinni. Hún tókst hins vegar á farsælan hátt.

Nú hafa báðir flokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, verið utan stjórnar í eitt kjörtímabil, framsóknarmenn raunar síðan 2007, og aðstæður eru því aðrar en 1995. Lykillinn að farsælu samstarfi er hins vegar sá sami og áður, að það ríki traust á milli þeirra sem taka höndum saman um að stjórna landinu.

Mánudagur 29. 04. 13 - 29.4.2013 21:40

Eftir fyrsta dag þar sem rætt er um stjórnarmyndun hefur Birgitta Jónsdóttir pírati sagt að hún ætli ekki að taka þátt í vinnunni á neðri hæðinni. Píratar ætli ekki í ríkisstjórn.

Guðmundur Steingrímsson frá Bjartri framtíð hlýtur lýsir ekki neinni skoðun. Þessi sérkennilega fælni hjá stjórnmálamanni að láta við það sitja að gera alltaf skoðanir annarra tortryggilegar hlýtur að fæla menn frá að ræða við Guðmund um stjórnarmyndun.

Tveir hafa dottið upp fyrir á fyrsta degi . Þá eru fjórir eftir.

Árni Páll Árnason, formaður  Samfylkingarinnar, sagði á Bessastöðum:

„Við fórum [Ólafur Ragnar Grímsson] yfir stöðuna og ræddum mögulegar stjórnarmyndanir. Ég sagði það sem ég hef áður sagt að mér finnst einboðið að formaður  Framsóknarflokksins fengi stjórnmyndunarumboðið í ljósi þingkosninganna, hann er auðvitað stærsti sigurvegari  kosninganna.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, varðist allra frétta á Bessastöðum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagðist hafa rætt við formenn annarra flokka á óformlegan hátt, lengst við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, sem  var einlægastur og sagði mest bitastætt eftir fundinn með forsetanum. Bjarni sagði:

„Ég er þeirrar skoðunar að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn ættu að setja kraft í viðræður sín í milli núna og geri ráð fyrir því að við gerum það strax í dag.

Það eru miklar væntingar úti í þjóðfélaginu um kjarabætur á komandi árum. Þess vegna skiptir máli að menn séu með samtaka stjórn og öflugan þingmeirihluta til að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana. Forsetanum er umhugað um að hér takist að mynd sterka stjórn með skýra stefnu.

Ég er svo sannarlega tilbúinn til þess að láta á það reyna  að mynda ríkisstjórn ef til þess kæmi undir okkar forystu. En mér finnst ekki rétt af mönnum að setja sjálfa sig í forgrunn við þær aðstæður sem eru núna. Nú erum við að reyna vinna þjóðinni gagn, og það er málefnalega staðan sem skiptir öllu; stjórnarsáttmálinn og stefnan sem eiga að vera í forgrunni. Við sem sá flokkur sem naut mests fylgis í kosningunum erum að sjálfsögðu tilbúin að rísa undir því trausti sem okkur er sýnt með því.“

Ætlar Ólafur Ragnar að rugga bátnum eða velja einföldu leiðina?

Sunnudagur 28. 04. 13 - 28.4.2013 22:17

Nú liggja úrslit kosninganna fyrir. Stjórnarflokkarnir töpuðu samtals 27,7% fylgi frá kosningunum 2009, Samfylkingin tapaði 16,9% og VG 10,8%. Á landsvísu bætti Framsóknarflokkurinn við sig 9,6%, Sjálfstæðisflokkur bætti við sig 3%, 

Nýju flokkarnir tveir, Björt framtíð og Píratar fengu samtals 13,3%, sá fyrrnefndi 8,2% og sá síðarnefndi 5,1%.

Sjálfstæðisflokkur er stærsti flokkur landsins, fékk 26,7% atkvæða og 19 þingmenn. Framsóknarflokkurinn er næst stærstur með 24,4% og 19 þingmenn. Samfylkingin fékk 12,9% atkvæða og níu þingmenn, VG með 10,8% og sjö þingsæti, Björt framtíð 8,4% sex þingmenn og Píratar fengu 5,1% og þrjá þingmenn.

Allir stjórnarandstæðingar hljóta að fagna þessari niðurstöðu. Útreið ríkisstjórnarinnar er hrikaleg, öll fyrirstaða í hennar þágu brast. Hún er hin eina og sanna hrunstjórn Íslandssögunnar.

Í kortunum er að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur myndi ríkisstjórn. Formenn flokkanna eiga að tilkynna forseta Íslands áform sín um það þegar þeir hitta hann á morgun. Þingið ræður hvaða stjórn er mynduð en ekki forsetinn.

Enginn tími má fara til spillis. Þjóðarhagur krefst þess að tafarlaust verði horfið af braut Jóhönnu og Steingríms J.

Hafi eitt mál fengið illa útreið í kosningunum er það ESB-aðildarmálið. Nú á að láta það liggja í láginni, endurmeta stefnuna og endurskipuleggja samstarfið við ESB með nýjum mönnum. Í grein á Evrópuvaktinni sem lesa má hér lýsti ég stöðu ESB-málsins og sagði það lík í lestinni sem ætti að setja sem fyrst fyrir borð.

Ég bendi á Facebook síðu mína þar sem ég hef minnst á nokkur atriði í dag og hafa orðið líflegar umræður um þau.

Tíundi og síðasti þáttur í Borgen var sýndur í kvöld. Hann endaði á gleðilegri nótum en almennt gerist í pólitík eða fjölmiðlun.

 

 

Laugardagur 27. 04. 13 - 27.4.2013 23:55

Samfylkingin tapaði illilega í þingkosningunum, Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra lýsti úrslitunum sem „hamförum“ fyrir sinn flokk. Hann taldi sig samt í færum á kjördagskvöld til að taka mikið í upp í sig um aðra flokka. Líklegt er að stóryrði og glamur Össurar í aðdraganda kosninganna hafi spillt fyrir flokki hans.

Af stjórnarflokkunum er útreið Samfylkingarinnar verri en VG – sá mikli munur er á stefnu flokkanna að Samfylkingin lagði áherslu á ESB-aðild en VG ekki. Úrslit kosninganna eru algjört vantraust á Össur og ESB-stefnu hans. Dytti nokkrum flokki í hug að halda áfram á þeirri óheillabraut að kosningum loknum sýndu forystumenn þess flokks mikið dómgreindarleysi.

Þegar þetta er skrifað er tap Samfylkingarinnar og brotthvarf ríkisstjórnarinnar stærstu tíðindi kosninganna.

Hér verður ekki lagt út af þeim tölum sem birtar hafa verið. Þær breyta engu um þá staðreynd að ný ríkisstjórn verður að glíma við mikinn vanda. Ríkisstjórninni var hafnað af því að fólk hefur fengið nóg af stjórnarháttum hennar.

Það voru taktísk mistök hjá ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að sitja út kjörtímabilið í stað þess að rjúfa þing þegar fyrir lá að kjörtímabilið dygði ekki til að ljúka kvótamálinu, stjórnarskrármálinu og ESB-málinu. Hér hefur oft verið lýst undrun yfir að þingflokkur Samfylkingarinnar tæki ekki í taumana. Hann hefði ekki minnkað eins mikið og raun er ef fyrr hefði verið kosið.

Ástæðan fyrir þrásetu ríkisstjórnarinnar er skapgerð Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún sat lengur en hún í raun gat og með hverjum mánuði sem leið minnkaði traust í hennar garð og fylgi flokks hennar.

Það kæmi ekki á óvart að verkefni nýrrar ríkisstjórnir reyndust svo hrikaleg að nýja kjörtímabilið yrði stutt og þeir sem í stjórnina setjast veldu þann kost að leggja mál að nýju í dóm kjósenda fyrr en síðar til að fá nýtt umboð.

 

Föstudagur 26. 04. 13 - 26.4.2013 22:50

Umræðuþátturinn í sjónvarpinu í kvöld þar sem fulltrúar framboða sem bjóða fram á landinu öllu ræddu stjórnmálin daginn fyrir kjördag undir stjórn Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur og Sigmars Guðmundssonar er eini umræðuþátturinn sem hefur vakið áhuga minn í kosningabaráttunni. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum og tel að Bjarni Benediktsson hafi borið höfuð og herðar yfir aðra þátttakendur enda varð hann einskonar öxull í umræðunum. Leitast var við að brjóta hann sem tókst ekki og hann lét ekki ómaklegar ávirðingar setja sig út af laginu.

Umræðurnar drógu fram muninn á einsmálsflokkum og fámennisflokkum sem hafa orðið til í skyndi í kringum menn (Björt framtíð) eða þröng málefni (Lýðræðisflokkurinn, Regnbogaflokkurinn) eða um málefni sem kynnt eru með lýðskrumi (Hægri grænir, Flokkur heimilanna, Píratar og Dögun) og hinum hefðbundnu flokkum: Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki, Samfylkingu og VG.

Meiri kröfur eru eðlilega gerðar til flokka sem kjósa forystumenn og móta stefnu á lýðræðislegan hátt innan samþykkts skipulags en þeirra sem verða til með hraði og þar sem menn skipa sér sjálfir í forystusæti með því að velja sér titil eins og „vaktstjóri“ eða „kapteinn“.

Ég skrifaði pistil í tilefni kosninganna hér á síðuna sem lesa má hér.

Fimmtudagur 25. 04. 13 - 25.4.2013 23:00

Gleðilegt sumar!

Í Þýskalandi óttast innanríkisráðherrann að sprengjuárásin í Boston boði nýjar hættur sem steðji að hinum almenna borgara frá hryðjuverkamönnum; annars konar ódæðismönnum en starfa innan skipulagðra samtaka á borð við al-Kaída. Á ferð séu einmana úlfar sem sitji við tölvur heima hjá sér og forherðist við að horfa á myndbönd um ofstæki. Ráðherrann telur nauðsynlegt að fjölga eftirlitsmyndavélum og nefnir járnbrautastöðvar, flugvelli og skyndibitastaði. Á Evrópuvaktinni má lesa viðtal við ráðherrann sem birtist á vefsíðunni SpiegelOnline.

Hér á landi hefur Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra leitast við að slá á allar umræður um aðgerðir til að efla varðstöðu gegn samtökum sem geta ógnað öryggi almennra borgara og annarra með ofbeldisaðgerðum. Fyrir honum vakir að láta af störfum sem ráðherra er stóð vörð um rétt samtaka á borð við Saving Iceland til að starfa án gripið sé til forvirkra aðgerða gegn þeim. Viðleitni Ögmundar hefur staðið nauðsynlegri þróun á þessu sviði fyrir þrifum.

Öryggis- og lögreglumál hefur ekki borið hátt í aðdraganda kosninganna. Fyrir nokkru kom hins vegar út skýrsla sem sýndi að það skorti 3 milljarða til að koma lögreglumálum í viðunandi horf.  Ögmundur hefur skotið sér undan óhjákvæmilegum ákvörðunum um meiri sameiningu lögregluliða.

Of mikil óvissa ríkir um framtíð þyrlusveitar landhelgisgæslunnar. Bresk yfirvöld hrundu nýlega í framkvæmd áætlun um einkavæðingu leitar- og björgunarþyrlna á Bretlandseyjum. Reglur um opinber kaup setja stjórnvöldum strangar skorður við kaup á þyrlum eins og öðrum tækjum. Í núverandi stöðu hljóta stjórnvöld að verða að skoða alla kosti við öflun á þyrlum. Sé Ögmundur Jónasson samkvæmur sjálfum sér hefur hann örugglega haft þröngt ríkissjónarmið við mat sitt á lausn þyrluvandans.

 

Miðvikudagur 24. 04. 13 - 24.4.2013 23:30

Í dag ræddi ég við Kjartan Gunnarsson, fyrrv. framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, á ÍNN í 50 mínútur í tilefni kosninganna á laugardaginn. Samtal okkar skiptist í þrjá hluta. Í fyrsta lagi um reynslu Kjartans af kosningum á 26 ára ferli hans sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, á tímabilinu 1980 til 2006 þegar hann stjórnaði kosningabaráttu flokksins 13 sinnum. Í öðru lagi kosningabaráttu líðandi stundar og í þriðja lagi um úrslit komandi kosninga. Þátturinn verður sýndur næst klukkan 12.00 á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Ég hef um langt árabil verið áskrifandi að breska vikuritinu The Spectator. Hef ég fengið það sent í pósti og almennt hefur það borist innan þolanlegs tíma frá útgáfudegi. Þetta hefur hins vegar breyst til verri vegar undanfarna mánuði og þegar ég fékk tvö gömul tölublöð samtímis ákvað ég að senda tölvubréf til áskriftardeildarinnar og kvarta. Ég sagði reyndar að fyrir mig og útgefanda blaðsins væri hagkvæmast og einfaldast að ég gerðist app-áskrifandi, það er fengi blaðið aðeins sent inn á iPad eða iPhone, hvort slík þjónusta væri í boði,

Innan sólarhrings hafði ég fengið svar um að ég gæti gerst app-áskrifandi og kostaði áskriftin 65 pund á ári í stað 155 punda fyrir venjulega áskrift, það er að prentútgáfunni, net- og app-útgáfunni. Ég þyrfti hins vegar að hringja til þeirra til að ganga frá breytingu á áskriftinni vegna viðkvæmra upplýsinga sem ekki mætti senda í tölvubréfi.

Ég hringdi og þá kom í ljós að áskriftadeildin er tvískipt – prentdeild og rafræn deild. Rafræna deildin var mín deild og þar var ég spurður hvort ég vildi bara app-áskrift eða einnig  netáskrift, en app- og netáskrift kostaði 75 pund. Ég valdi bara app-áskriftina fyrir 65 pund. Gengið var frá endurgreiðslu á prentáskriftinni og skráningu á app-áskriftinni og nú hef ég fengið fyrirmæli um hvernig ég eigi að virkja hana.

Ég segi frá þessu hér til að lýsa þróun í fjölmiðlaheiminum. Ég er einnig net- og app-áskrifandi að Le Monde.

Nú fletti ég þessum blöðum um leið og þau birtast í netheimum og ergi mig ekki lengur yfir að dragist að þau komi með póstinum.

Þriðjudagur 23. 04. 13 - 23.4.2013 22:50

Enn ein könnunin um afstöðu þjóðarinnar til ESB-aðildar var birt í dag og sýndi enn á ný að meirihlutinn er á móti aðild. Rúmur fjórðungur þeirra sem tók afstöðu var mjög (11,4)  eða frekar (16,2) fylgjandi inngöngu í sambandið. Tuttugu prósent  sögðust hlutlaus en rúmur helmingur sagðist frekar (20,5) eða mjög (31,7) mótfallinn inngöngu  segir á ruv.is. Þar kemur jafnframt fram að 52,7% vilja halda áfram viðræðunum. 64% þeirra sem eru mótfallnir ESB aðild vilja hætta viðræðum. Aðrir vilja halda áfram eða taka ekki afstöðu. Á ruv.is segir:

„Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, segir  skýringuna á því að hluti andstæðinga Evrópusambandsaðildar vilji klára aðildarviðræðurnar vera mögulega þá að menn vilji ljúka langdregnu máli sem hafi kostað tíma og fjármuni. „Menn gætu líka talið að það væri eina leiðin að ljúka málinu að þjóðin fengi að greiða atkvæði um samning. Margir þeirra væru nokkuð öruggir í sinni sök sjálfsagt um það að þjóðin myndi hafna samningnum að minnsta kosti ef gengið yrði til atkvæða á næstu misserum og líta svoleiðis á að það sé farsælasta ferlið í málinu.““

Þessi skýring Rúnars er rökrétt. Í skýringunni er hins vegar lýst óskhyggju. Ágreiningi um ESB lýkur ekki hér frekar en annars staðar hvort sem aðild yrði felld eða samþykkt. Þetta er mál sem sífellt er til umræðu í Evrópulöndum hvort sem þau eru í ESB eða ekki. Nú hefur evru-vandinn orðið til að ýta undir deilur milli ríkja og valda klofningi innan ríkja.

Í tíð þeirrar stjórnar sem nú situr er deilt um ESB af því að aðild er á dagskrá. Í stjórn sem tekur við að kosningum loknum verður deilt um ESB af því að aðild verður ekki á dagskrá. Mestu skiptir að stjórnvöld vinni að sátt um tengslin við ESB án þess að yfirráðum þjóðarinnar í fiskimálum sé fórnað eða vegið að íslenskum landbúnaði. Það er best gert með aðild að EES-samningnum. Hann veitir varanlega undanþágu af hálfu á báðum þessum sviðum. Betri niðurstaða næðist ekki í aðildarviðræðunum.

Mánudagur 22. 04. 13 - 22.4.2013 22:30

Öryggisgæslu á flugvöllum má að verulegu leyti rekja til þess að Bandaríkjastjórn leit þannig á að hryðjuverkamenn mundu leggja leið sína til Bandaríkjanna. Hugmyndafræðin að baki hinnu miklu öryggisleit og gæslu á flugvöllum og við hafnir er að stemma stigu við komu hryðjuverkamanna til Bandaríkjanna. Þar hafa menn ekki reiknað með að innan landamæra Bandaríkjanna kæmu til sögunnar menn sem mundu grípa til hryðjuverka í nafni íslam eða annarra trúarbragða eða hugsjóna.

Hryðjuverkið í Boston fyrir viku og fréttir af þeim sem að því stóðu sýna að í Bandaríkjunum getur hugarfar afmyndast á þann hátt að menn ákveði að valda meðborgurum sínum tjóni með því að standa að ódæði, hryðjuverki, í þeim tilgangi að sem flestir falli. Vakið hefur athygli að Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur þótt hógværari en ýmsir aðrir bandarískir stjórnmálamenn í orðum um hryðjuverkið og viðbrögð við því. Er ekki vafi á að þetta á meðal annars rætur að rekja til að stóryrtar yfirlýsingar af hálfu forsetans kalla á stórkallaleg opinber viðbrögð. Ætli Bandaríkjastjórn að grípa til þeirra á heimavelli með auknu eftirliti og afskiptum af einstaklingum kynni ýmsum þótt vegið að réttindum sínum á óbærilegan hátt.

Hér skal engu spáð um hver verður afleiðing hryðjuverksins í Boston. Eftir atburðina í barnaskólanum í Sandy Hook í Newtown, Connecticut 14. desember 2012 þegar tuttugu börn og sex kennarar féllu fyrir byssu Adams Lanza urðu kröfur háværar um hertar reglur um byssueign. Nýlega felldi öldungadeild Bandaríkjaþings lagafrumvarp um slíkar reglur.  Spurning er hvort þingmenn taki til við að semja og samþykkja auknar heimildir til eftirlits og afskipta af þeim sem eru innan landamæra Bandaríkjanna eftir hryðjuverkið í Boston.

Hinn 10. apríl ræddi ég við Pál Winkel fangelsismálastjóra á ÍNN og má sjá viðtalið hér.

 

Sunnudagur 21. 04. 13 - 21.4.2013 22:55

Qi gong kyrrðardögunum lauk um hádegisbilið í Skálholti og ókum við til baka til Reykjavíkur í sólbjörtu veðri. Ég hef ekki tölu á hve oft við Gunnar Eyjólfsson við höfum verið saman í Skálholti á kyrrðardögum en ávallt er jafngott á þessum stað sem Gunnar segir hinn helgasta á landinu. Hann minnist jafnan píslarvottarins Jóns Arasonar biskups og fórum við að minnisvarðanum um hann áður en við ókum til borgarinnar.

Gunnar segir gjarnan sögu af því þegar hann var með hópi kaþólskra gesta frá  Póllandi í Skálholti. Hann lýsti fyrir þeim örlögum Jóns og sona hans. Pólverjarnir hófu þá að syngja og gengu að minnisvarðanum í einfaldri röð, krupu á kné og kysstu jörðina þar sem blóð þess sem fallið hafði fyrir trú sína rann á sínum tíma. Nú reynir á nýjan páfa, Frans, hvort hann samþykkir að taka Jón Arason í helgra manna tölu.

Laugardagur 20. 04. 13 - 20.4.2013 20:00

Það skiptust á skin og skúrir í Skálholti í dag,  jörð er alhvít nú undir kvöld. Engin truflun var á qi gong kyrrðardögunum vegna þessa enda erum við í góðu yfirlæti í Skálholtsskóla.

Þess verður minnst í sumar að 50 ár eru liðin frá vígslu Skálholtsdómkirkju og hlýtur kirkjuráð sem fer með æðsta vald í málefnum staðarins að sjá til að þessara tímamóta verði minnst á verðugan hátt. Skálholtshátíðin sumarið 1963 er enn í minnum höfð enda var mjög til hennar vandað.

Á Skálholtshátíðinni afhenti ríkið kirkjunni Skálholt til eignar, varðveislu og nýtingar. Baráttan fyrir endurreisn Skálholts var til marks um vilja íslensku þjóðarinnar til að skerpa sjálfsmynd sína og leggja rækt við meginþætti í arfi sínum. Það voru innan við 20 ár liðin frá því að lýðveldi var stofnað þegar kirkjan var reist og vígð. Stjórnvöld og einstaklingar á Norðurlöndunum létu sig málið mikið varða og færðu Skálholti góðar gjafir.

Í ávarpi sem ég flutti í Reykholti á dögunum þegar opnuð var sýningin Saga Snorra sagði ég meðal annars:

„Sýningin dregur athygli að fleiri stöðum en Reykholti. Hún minnir á tenginguna við Þingvelli, Skálholt og Odda á Rangárvöllum. Allt eru þetta staðir sem settu mikinn svip á tíma Snorra. Ég tel að á líðandi stundu beri að huga að tengslum þessara staða og mynda keðju menningar- og sögustaða sem teygir sig frá Reykholti um Þingvöll og Skálholt að Odda. Hver hlekkur í keðjunni haldi sinni sérstöðu en saman myndi þeir heild sem fulltrúar ritlistar, stjórnmála, kristni og menningartengsla við umheiminn.“

Það færi vel á að kirkjuráð tæki frumkvæði til samstarfs af þessu tagi í tilefni af 50 ára afmæli Skálholtsdómkirkju í sumar.

 

Föstudagur 19. 04. 13 - 19.4.2013 22:41

Við Gunnar Eyjólfsson og Þóra Halldórsdóttir ókum austur í Skálholt síðdegis þar sem eru qi gong kyrrðardagar fram á sunnudag á vegum staðarins en við leiðum æfingar og hugleiðslu.

Að dveljast í Skálholti er ávallt ánægjulegt vegna helgi staðarins, hins góða aðbúnaðar í skólanum og nálægðarinnar við söguna. Séra Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup sat með okkur í kvöld og ræddi um staðinn, söguna og kristindóminn.

Á leiðinni austur var hífandi rok og rigning, krapi á Hellisheiðinni. Það er gott að jörðin fái vætu eftir þurrkana undanfarið.

Fimmtudagur 18. 04. 13 - 18.4.2013 19:40

Nokkrir erlendir blaðamenn koma til landsins í tilefni af þingkosningunum og þar á meðal til að átta sig á stöðunni í ESB-málinu. Ég ræddi við einn þeirra í dag. Það vekur undrun að lagt hafi verið af stað í ESB-vegferðina á jafnveikum grunni og gert var. Venjulega sendir ríkisstjórn ekki inn umsókn nema hugur hennar og meirihluta þjóðarinnar standi til aðildar. Hér var sótt um með því fororði að kanna ætti málið, sjá til hvers umsókn leiddi og greiða síðan atkvæði um niðurstöðuna. Er einsdæmi að þannig sé staðið að málum.

Sé farið af stað til að fá einhverja niðurstöðu sem enginn vill styðja nema kannski embættismennirnir sem stóðu að niðurstöðunni og þetta gert að markmiði umsóknar um aðild sjá allir sem þekkja til  ESB og stækkunar sambandsins að hér er um pólitískan leikaraskap að ræða. Þannig standa málin núna að látið er eins og það sé markmið í sjálfu sér að fá einhverja niðurstöðu og takast síðan á um hana á heimavelli. Niðurstaða í þeim átökum muni leiða til þess að ESB-mál verði ekki ágreiningsmál í íslenskum stjórnmálum.

Þetta afstaða er þeim óskiljanleg sem fylgst hafa með umsóknum og aðildarviðræðum annarra þjóða. Þær hafa rætt við ESB um aðild af því að ákvörðun hefur verið tekin á heimavelli um að brýnir hagsmunir mæli með aðild. Hér ekki neinu slíku haldið fram heldur látið í veðri vaka að hér skapist annars konar efnahagsástand en hvarvetna annars staðar í jaðarríkjum ESB.

Miðvikudagur 17. 04. 13 - 17.4.2013 21:55

Margaret Thatcher var jarðsungin í dag. Athöfnin var hátíðleg en látlaus í St. Paul‘s dómkirkjunni í London, ef unnt er að nota orðið „látlaus“ þegar um er að ræða útför með þátttöku breska hersins þar sem 700 hermenn standa heiðursvörð og 4.000 lögreglumenn standa á götum úti til að gæta öryggis. Mikill mannfjöldi stóð við leiðina sem kistan var flutt úr Westminster í dómkirkjuna, hluta leiðarinnar á fallbyssuvagni. Skotið var á mínútu fresti úr fallbyssu við Tower of London en Big Ben sló ekki á meðan útförin fór fram.

Umbúnaðurinn um jarðarförina var hinn sami og þegar Sir Winston Churchill var jarðsunginn 1965. Líklega hefur verið sjónvarpað beint frá þeirri athöfn til Breta en ekki til alls heimsins eins og nú var gert. Árið 1965 var íslenska sjónvarpið ekki komið til sögunnar, í dag var það þögult um Thatcher og útför hennar nema í fréttatíma. Stöð 2 sló ríkissjónvarpinu við með því að sýna heimildarmynd um Thatcher í kvöld.

Hið einkennilega við ríkisútvarpið er að það virðist hafa glatað hæfileikanum til að tileinka sér viðburði samtímans til að hefja dagskrá sína á áhugavert stig. Dagskráin endurspeglar einhvers konar tilvistarvanda sem maður verður ekki var hjá ljósvakamiðlum sem lifa og hrærast í samtímanum og taka á viðburðum hans með opnara hugarfari en einkennir efnistök á ríkisútvarpinu.

Þriðjudagur 16. 04. 13 - 16.4.2013 20:10

Enginn þarf að efast um að reynsluboltarnir í Samfylkingunni, formennirnir fyrrverandi, Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson, hafa litið á það sem mikilvægt framlag sitt til að styrkja eigin stöðu og Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni að fara til Peking tveimur vikum fyrir kjördag og skrifa undir fríverslunarsamning við Kína. Þau hefðu ekki farið nema vegna þess að litið var á þetta sem kosningabragð eins og allt annað sem ráðherrar rembast við að gera nú fáeinum dögum fyrir kosningar.

Af öllu sem ráðherrar taka sér fyrir hendur á þessum dögum er svo mikil kosningalykt að það veikir trúna á að innistæða sé að baki samningunum, skóflustungunum og opinberu fyrirheitunum öllum. Mesta pólitíska hrakförin hefur þó verið farin til Kína ef marka má viðbrögð meðal forystumanna Alþýðusambands Íslands sem sumir hafa setið á þingi fyrir Samfylkinguna eins og Magnús M. Norðdahl sem segist beinlínis skammast sín fyrir  flokkinn. Magnús er deildarstjóri lögfræðideildar Alþýðusambands Íslands og fyrsti varaþingmaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi og skrifar meðal annars á fésbókarsíðu sína:

Eina glætan er sú að gegn þessi ráðslagi [undirritun fríverslunarsamningsins við Kínverja] hefur núverandi formaður Samfylkingarinnar  [Árni Páll] verið settur til hliðar sem undirstrikar þau mistök sem það voru að skilja á milli þess embættis og þeirra valda sem því raunverulega eiga að fylgja þegar flokkurinn er í stjórn. Kjördagur verður erfiður fyrir marga Jafnaðarmenn.”

Magnús lifir í trú á að Árni Páll hefði stöðvað för Össurar til Kína hefði hann orðið forsætisráðherra þegar hann tók við formennskunni í flokknum. Er líklegt eins og Össur talar að nokkur mannlegur máttur hefði haldið aftur af honum? Árna Páli hefði örugglega ekki tekist það. Hvar hefur komið fram að Árni Páll hafi einhverjar efasemdir um nauðsyn fríverslunarsamnings við Kína? Þegar Árni Páll var viðskiptaráðherra haustið 2011 lagði hann fram minnisblað í ríkisstjórn um ágæti þess að Huang Nubo keypti Grímsstaði á Fjöllum. Katrín Júlíusdóttir, núv. varaformaður Samfylkingarinnar, hét því sem iðnaðarráðherra að veita Huang Nubo ráðgjöf svo að hann næði markmiði sínu á Grímsstöðum þrátt fyrir andstöðu Ögmundar Jónassonar.

Kínverjar hafa fulla ástæðu til að ætla að ekkert stjórnmálaafl á Íslandi sé þeim vinveittara en Samfylkingin.

Mánudagur 15. 04 13 - 15.4.2013 22:17

Í Bíó Paradís er myndin Hanna Arendt (f. 1906 d.1975) sýnd um þessar mundir. Arendt var þýskur gyðingur og heimspekingur eða stjórnmálakenningasmiður eins og sagði sjálf. Hún flúði til Bandaríkjanna 1941 með móður sinni og eiginmanni. Myndin gerist þar um 20 árum síðar þegar Arendt tók að sér að rita um réttarhöldin yfir Adolf Eichmann (árið 1961) fyrir New Yorker.

Enginn annar var í salnum þegar ég sá myndina sem sannar hve virðingarverð starfsemi er rekin í Bíó Paradís. Margarethe von Trotta er leikstjóri hinnar áhrifamiklu myndar sem hefur hlotið lof gagnrýnenda og á erindi til samtímans þar sem „the banality of evil“ setur sterkan svip á mannleg samskipti. Arendt notar þetta hugtak til að lýsa því að Eichmann hafi ekki verið gyðingahatari heldur embættismaður sem fór að fyrirmælum eins og viljalaust verkfæri sem sinnti störfum í þágu hins illa. Síðar hefur komið í ljós að hún lét blekkjast af framkomu Eichmanns í réttarsalnum í Jerúsalem. Hann var eindreginn gyðingahatari fyrir utan að vinna illvirki eins og hvert annað starf.

Greinaflokkur Arendt í New Yorker vakti mikið uppnám og var hún sökuð um að taka málstað Eichmanns og gagnrýna forystumenn gyðinga á stríðsárunum. Að óathugðu máli hefði mátt ætla að flókin deila um afstöðu Arendt til Eichmann-réttarhaldanna hæfði ekki sem efni í kvikmynd. Sjón er sögu ríkari og brugðið er upp forvitnilegri mynd af lífi menntamanna í New York á sjötta áratugnum. Mary McCarthy rithöfundur var nánasta vinkona Arendt og kemur við sögu í myndinni. Hún aðhylltist kommúnisma og ég las einhvers staðar að hún hefði verið svo lygin að ekki væri einu sinni unnt að trúa orðinu „og“ í texta eftir hana.

Hanna Arendt hafði mikil áhrif með bókum sínum um stjórnmálakenningar. Rit hennar snerust um eðli valds, stjórnmál, áhrifamátt og alræðisstefnu. Í fyrsta meginriti hennar The Origins of Totalitarianism (1951) rekur hún rætur stalínisma og nasisma til gyðingahaturs og heimsvaldastefnu. Vinstrisinnar beittu sér gegn bókinni þar sem höfundurinn segði sambærilega harðstjórn einkenna þessar hreyfingar, kommúnista og nasista.

 

 

Sunnudagur 14. 04. 13 - 14.4.2013 22:20

Á Evrópuvaktinni er sagt frá því að Mario Soares telji aðhaldskröfur vegna evru-aðildar og framkvæmd þeirra hafa „eyðilagt“ landið. Mario Soares er sósíalisti og pólitískur andstæðingur núverandi ríkisstjórnar í Portúgal. Hann hefur hins vegar áunnið sér sess sem einskonar landsfaðir Portúgala eftir að hafa leitt þá á fyrstu árum lýðræðis í landinu og gegnt embætti forsætisráðherra og forseta. Hann segir að geti maður ekki borgað skuldir sínar, geri hann það ekki og telur að greiðslufall Argentínu hafi ekki haft nein áhrif. Hann boðar með öðrum orðum að Portúgalir láti hjá líða að greiða skuldir sínar og segi þar með skilið við evruna.

Af mörgu sem birst hefur um afstöðu stjórnmálamanna eða fyrrverandi stjórnmálamanna í evru-löndum til evrunnar er boðskapur Soares hinn róttækasti. Hann ögrar ekki aðeins ríkisstjórninni í Lissabon heldur einnig Portúgalanum, José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB.

Það er ótrúlegt að allar viðvaranir sem berast frá evru-löndunum um erfiðleikana sem við er að etja þar, einkum í jaðarríkjum, skuli ekki breyta neinu um afstöðu þeirra sem enn berjast fyrir aðild Íslands að ESB og leyfa sér að láta eins og allt færi á betri veg hér með evru sem gjaldmiðil.

Laugardagur 13. 04. 13 - 13.4.2013 22:05

Bjarni Benediktsson sagði á 700 manna fundi í Garðabæ að hann mundi halda áfram sem formaður Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir niðurstöðu skoðanakönnunar í Viðskiptablaðinu frá fimmtudeginum 11. apríl sem sýndi að líklega fengi Sjálfstæðisflokkurinn fleiri atkvæði væri hann ekki leiðtogi flokksins heldur Hanna Birna Kristjánsdóttir varaformaður.

Þessi uppákoma innan Sjálfstæðisflokksins er hið dramatískasta sem gerst hefur í kosningabaráttunni til þessa. Forystumenn flokksins Bjarni og Hanna Birna héldu vel á málinu og sýndu að þau standast þrýsting vegna óvæntra atvika. Starf stjórnmálamanna snýst að verulegu leyti um viðbrögð við hlutum sem ekki eru á valdi þeirra.

Að venju kallaði fréttastofa ríkisútvarpsins á stjórnmálafræðing til að setja fundinn í Garðabæ í ljós sem fréttastofan telur við hæfi. Kallað var á Birgi Guðmundsson, stjórnmálafræðing á Akureyri, sem sat ekki fundinn en sagði hann sýna að málinu væri ekki lokið og Hanna Birna hefði „skaðast á málinu“. Fundurinn hefði þó „líklega náð að lágmarka þann skaða sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði getað orðið fyrir“ vegna málsins. „Einnig megi halda því fram að málið hafi ýtt við flokksmönnum og verið eins konar rafstuð á þá og þeim hafi ofboðið aðfarirnar.“

Já, „aðfarirnar“, þær fólust í skoðanakönnun og birtingu niðurstöðunnar í Viðskiptablaðinu. Þessi orðnotkun er harkaleg en fellur að viðleitni til að breyta málinu í samsæri innan Sjálfstæðisflokksins. Fyrir því eru hins vegar engar sannanir. Þvert á móti er auðvelt að sýna að menn segja ósatt í þágu þess málstaðar eins og Hannes Hólmsteinn Gissurarson bendir á hér. Karl Th. Birgisson sem kemur við sögu í frásögn Hannesar Hólmsteins var framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar um tíma.

Birgir segir málinu ýtt „eitthvað inn í framtíðina“, það bíði „úrlausnar“. Hvað bíður úrlausnar? Það er ekki skýrt. Birgir færir ekki heldur nein rök fyrir hvers vegna atvikið hafi ekki áhrif á kjósendur til eða frá, breyti í raun engu, þetta er tilfinning hans og hefði fréttastofan getað leitað til hvers sem er í þeim tilgangi að kynnast viðhorfi sem er reist á tilfinningu.

Birgir segir að „ekki [hafi] mikið breyst gagnvart kjósendum“ og skautar framhjá sjónvarpsviðtalinu við Bjarna að kvöldi fimmtudags 11. apríl, einu af þessu sjónvarpsviðtölum sem geta skipt sköpum fyrir stjórnmálamann og hefur örugglega gagnast Bjarna. Birgir leggur lykkju á leið sína til að stimpla Hönnu Birnu sem „klækjapólitíkus“ án þess að hafa nokkuð fyrir sér annað en eigin skoðun og stimpil annarra.

Föstudagur 12. 04. 13 - 12.4.2013 22:41

Umræður eru skrýtnar hér á landi. Viðskiptablaðið kaupir könnun. Niðurstaðan vekur mikla athygli. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, bregst við henni með því að sýna á sér nýja og einlægari hlið í sjónvarpi, viðurkennir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki gert upp við hrunið á viðunandi hátt og hann þurfi að íhuga stöðu sína. Fylgi flokksins tveimur vikum fyrir kosningar sé minna en viðunandi sé, hann hljóti að taka á síg ábyrgð vegna þess. Hann ætli sér 24 til 48 stundir til þess að hugsa sinn gang, þær eru ekki liðnar þegar þetta er skrifað

Af umræðum í netheimum er ljóst að Bjarni hefur í sjóvarpsviðtalinu náð til áhorfenda, grasrótarinnar, á annan hátt en áður. Hann gaf meira af sér persónulega en hann hefur áður gert. Atvik á borð við þetta geta skipt sköpum fyrir stjórnmálamenn, hvort heldur til góðs eða ills. Almennt sýnist að þetta hafi orðið Bjarna til góðs. Um stjórnmálamenn gildir hið sama og um fólk almennt að áhrif orða þeirra vega misþungt, augljóst er að Bjarni snerti marga með framgöngu sinni að þessu sinni.

Ræða menn þetta helst eftir þáttinn? Nei, ætlunin er að sanna að könnunin hafi verið gerð af illum huga og birt á þeirri stundu sem kom Bjarna verst. Því er jafnvel haldið fram að Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, eða útsendarar hennar hafi beitt sér fyrir könnuninni til að koma höggi á formanninn.  Þessi þráður er spunninn í þeim eina tilgangi að ýta undir ágreining í Sjálfstæðisflokknum.

Útgefandi Viðskiptablaðsins vann fyrir mig í prófkjöri 2006 og fyrir Hönnu Birnu í prófkjöri 2005 vegna borgarstjórnarkosninga. Hvaða afstððu hann hefur nú til manna og málefna, veit ég ekki. Ritstjóri Viðskiptablaðsins er gamall stuðningsmaður Bjarna Benediktssonar. Að þessir tveir menn hafi af illum eða annarlegum huga ráðist í könnun til að koma Bjarna í koll er með ólíkindum. Ég held að þeir hafi  fylgt straumnum hjá fjölmiðlum og talið söluvænt að birta enn eina könnuninna. Þeir hafa örugglega ekki tapað á því miðað við áhugann og athyglina sem könnunin hefur vakið.

 

Fimmtudagur 11. 04. 13 - 11.4.2013 23:00

Í Viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag birtist viðtal við Jón Guðmann Pétursson, forstjóra Hampiðjunnar, sem er alþjóðlegt þjónustufyrirtæki við sjávarútveg. Jón Guðmann hefur því náin kynni af sjávarútvegi og umræðum um um hann í mörgum löndum. Í viðtalinu segir hann meðal annars:

„Hampiðjan er með starfsemi víða um heim, og við heyrum hvergi talað um sjávarútveg með sama hætti og er í tísku hér. Engu að síður hefur kvótakerfi rutt sér til rúms í mörgum löndum, eins og t.d. í Danmörku og Noregi. Kvótakerfið hefur skapað mikið hagræði í greininni, mörg fyrirtæki sem glímdu við taprekstur hafa náð að snúa rekstrinum mjög til betri vegar og útgerðir í þessum löndum hafa fjárfest grimmt í nýjum og glæsilegum skipum. Engu að síður hef ég ekki orðið var við, að talað sé um sjávarútveginn í þessum löndum með líkum hætti og hér.

Íbúar í Kaupmannahöfn virðast ekki vera stöðugt uppteknir af því að útgerðir í Hirtshals eða Thyborön á Jótlandi séu reknar með hagnaði. Hvað þá að þeir heimti hagnaðinn gerðan upptækan í ríkissjóð. Áður en kvótakerfið kom til sögunnar hér á landi gengu útgerðirnar illa og oft þrautin þyngri að fá reikningana greidda hjá þeim. Þær áttu margar í stökustu vandræðum. Það er ekki lengra síðan en 1988 að stofnaður var opinber sjóður með skattfé sem átti að bjarga þeim útgerðum sem hægt var að bjarga, að sögn þáverandi forsætisráðherra. Nú er vandinn sem sumir stjórnmálamenn sjá helstan í landinu að útgerðir hagnast.

Ríkisstjórnin hefur með atlögum sínum að sjávarútveginum svipt hann framtíðarsýninni. Þegar svo ber undir hætta fyrirtækin að skapa sér tækifæri til framtíðar, að þróa, fjárfesta og sækja fram. Það er umtalað í alþjóðlegum sjávarútvegi hve gömul íslensku skipin eru orðin. Það er auðvelt fyrir fólk að setja sig í sömu spor; ef það veit ekki hvort það hafi atvinnu og tekjur að ári liðnu fer það ekki að kaupa nýjan bíl. Sömu lögmál gilda um alla atvinnuvegi.“

Þessi ótrúlega lýsing er sönn úttekt á stefnunni sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur fylgt gagnvart íslenskum sjávarútvegi. Jóhanna sjálf hefur margsinnis talað af meiri óvild í garð útgerðarmanna en nokkur forsætisráðherra á undan henni.

Það er fagnaðarefni að allar tilraunir ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms J. til að eyðileggja kvótakerfið hafa misheppnast.   

 

Miðvikudagur 10. 04. 13 - 10.4.2013 17:40

Í dag ræddi ég við Pál Winkel fangelsismálastjóra í þætti mínum á ÍNN. Þátturinn verður frumsýndur klukkan 20.00 og síðan sýndur á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Í síðustu viku var tekin fyrsta skóflustunga að nýju fangelsi á Hólmsheiði, er það fyrsta sérhannaða fangelsið hér á landi frá því að Hegningarhúsið við Skólavörðustíg kom til sögunnar fyrir um 140 árum.

Í um 50 ár hefur verið rætt um nauðsyn þess að reisa nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu en gangi áætlanir eftir verður hið nýja fangelsi komið til sögunnar árið 2015. Eins og þeir munu sjá sem horfa og hlusta á samtal okkar Páls er tímabært að stíga þetta stóra skref núna. Þeim sem dæmdir eru til refsingar hefur fjölgað mikið hin síðari ár.

Í kvöld var sýndur þáttur á norsku sjónvarpsstöðinni NRK 2 um áhrif gossins í Eyjafjallajökli á bændur á þremur bæjum á Þorvaldseyri og í Önundarhorni  Eyjafjöllum og í Fljótsdal, innsta bænum í Fljótshlíð. Skemmtilegur og fróðlegur þáttur.


Þriðjudagur 09. 04. 13 - 9.4.2013 20:45

Skrifaði pistil á Evrópuvaktina í tilefni af frétt ríkisútvarpsins um söluna á hlutabréfunum í FIH-banka sem fór fram í september 2010 rétt í sama mund og Gylfi Magnússon hætti sem bankamálaráðherra. Eigendaskipti urðu í janúar 2011. Nú lætur fréttastofa ríkisútvarpsins eins og um nýja frétt sé að ræða og staldrar enn og aftur við símtal Geirs H. Haarde og Davíðs Oddssonar frá október 2008. Fréttamanninum datt hins vegar ekki í hug að spyrja Gylfa um hvaða aðkomu hann hafði sem bankamálaráðherra að sölunni á FIH-bankanum. Það er þó hún sem var til umræðu í fréttinni en ekkert sem sneri að símtalinu umrædda.

Hér má lesa pistilinn á Evrópuvaktinni,

Mánudagur 08. 04. 13 - 8.4.2013 22:20

Hvergi annars staðar en á Evrópuvaktinni var vísað til fréttar í The New York Times um eftirvæntingu í Peking vegna komu Jóhönnu Sigurðardóttur og Jónínu Leósdóttur. Kínverjar hafa áhuga á hvernig tekið verður á móti samkynhneigðu pari, tveimur konum, í opinberri heimsókn. Það er furðulegt að frásögnin í bandaríska blaðinu veki ekki áhuga utan Evrópuvaktarinnar en að hún birtist þar sýnir enn hve Evrópuvaktin segir vel frá málum sem snerta hagsmuni Íslands. Hér má lesa fréttina.

Ráðherrar nýta nú síðustu daga sína í embætti til að heimsækja fjarlæg lönd. Ferðin til Kína er einna furðulegust. Enginn samningur um fríverslun Íslands og Kína hefur verið kynntur . Af fundargerðum utanríkismálanefndar alþingis má ráða að málið hafi ekki verið á dagskrá nefndarinnar síðan 17. janúar 2013. Hefur fullbúinn fríverslunarsamningur við Kína verið lagður fyrir utanríkismálanefnd alþingis?

Ef stjórnarflokkarnir svara ekki spurningu um þetta ætti stjórnarandstaðan að gera það. Hefur hún samþykkt fríverslunarsamning við Kína?

Í dag skrifaði ég pistil um Margréti Thatcher látna og má lesa hann hér.

 

Sunnudagur 07. 04. 13 - 7.4.2013 22:50

Í þættinum Höllinni er orðið spindoktor íslenskað með orðinu „ráðasmiður“ í stað þess að tala um spunaliða eða eitthvað í þá áttina. Minnt var á hve orðið „ráðasmiður“ er fráleitt í þessu samhengi í þættinum Ferðalok sem sýndur var næst á eftir Höllinni. Í Ferðalokum var fjallað um Njálu og einn hinna fróðu viðmælanda kallaði Njál „ráðasmið“. Þeir sem ekki vissu betur en fylgdust með Höllinni gætu haldið að Njáll á Bergþórshvoli hinn forvitri lögspekingur hefði verið eins og hver annar spindoktor. Hverjum skyldi hafa hugkvæmst að kalla spunaliða ráðasmið?

Í fréttum ríkisútvarpsins í dag var sagt frá ákvörðun Þingvallanefndar um að banna veiðar að næturlagi í landi þjóðgarðsins við Þingvallavatn. Fulltrúi stangveiðimanna mótmælti. Hvenær kemur að því að formaður Þingvallanefndar skýrir opinberlega frá því hvort hverjum og einum sé heimilt að koma með eigin fána og flagga á Lögbergi? Helsta skylda nefndarinnar er standa vörð um virðingu þinghelginnar á Þingvöllum og þar er Lögberg þungamiðjan.

Laugardagur 06. 04. 13 - 6.4.2013 22:10

Nokkrar umræður hafa orðið í netheimum í tilefni af því sem ég skrifaði hér í gær um flöggun ritstjóra Fréttatímans á Lögbergi til að ná í mynd af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins. Umræðurnar urðu meðal annars á dv.is. Hvað vakir fyrir þeim sem halda úti dv.is að veita þessum óhróðri farveg um síðu sína, að hafa þar opið holræsi?

Hið einkennilega við netumræðurnar á dv.is er að þeir sem taka þátt í þeim forðast að ræða efnið sem dv.is notar til að hleypa umræðunum af stað. Að mestu eru þetta óvildarskrif um þann sem setur fram upphaflegu skoðunina og útleggingin snýst um að ráðast á hann eða hana persónulega. Þetta er tilgangslaust snakk, oftast reist á óvild. Það bætir ekki neinni þekkingu við upphafsefnið. Höfundur efnisins skiptir meira máli en það sem hann segir. Þetta sýnir best hve sjálfhverfir þeir eru sem láta ljós sitt skína á dv.is. Þeim er almennt sama um annað en eigin skoðanir eða óvild í garð annarra.

Kosningarnar og afstaða manna til stjórnmálaflokkanna eða þeirra sem leiða þá setja svip sinn á efni á fésbókinni. Þar sem menn ráða vinum sínum er líklegt að þeir þurrki þá einfaldlega af listum sínum sem ekki eru sömu skoðunar þegar harkan í kosningabaráttunni eykst. Menn endi því á að deila skoðunum með samherjum í  stað þess að boða fagnaðarerindið til þeirra sem þurfa á því að halda.

Föstudagur 05. 04. 13 - 5.4.2013 23:00

Framsóknarmenn hafa verið miður sín í dag vegna viðtals sem Sigríður Dögg Auðunsdóttir, ritstjóri Fréttatímans, tók við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, flokksformann framsóknar, þar sem hann er kynntur til sögunnar sem næsti forsætisráðherra Íslands og birt mynd af honum á Lögbergi fyrir framan blaktandi fána. Í viðtalinu sem birtist í tbl. Fréttatímans sem er dags. 5. til 7. apríl segir meðal annars:

„Við [Sigmundur Davíð, Sigríður Dögg og Hari ljósmyndari] tökum upp léttara hjal á leið að Almannagjá. Ég tilkynni Sigmundi að ég sé með fána með mér því ég hafði útskýrt fyrir honum fyrr um daginn að pælingin væri að vera með blaktandi fána í bakgrunni. Ég bjóst hins vegar ekki við því að verið væri að flagga á Þingvöllum – sem reyndist rétt. Við röltum þrjú upp að útsýnispallinum og fánastönginni og ég hefst handa við að binda fánann á stöngina. Sigmundur lætur sem hann sjái mig ekki þegar ég gef honum bendingu um að koma. Ég var að vona að hann fengist til að draga fánann að húni. Það hefði verið flott forsíðumynd.

Hann er hins vegar ófeiminn við að láta stilla sér upp á hverri klettasyllunni á fætur annarri þótt ég sé dauðhrædd um að tvímenningunum skriki fótur. Það gerist sem betur fer ekki en uppstillingin vekur athygli hinna fjölmörgu ferðamanna sem komnir eru á þennan forna þingstað og eru þeir myndaðir í bak og fyrir. Þegar rétta myndin er komin – eftir dágóða stund – röltum við til baka. Sigmundur er afskaplega þægilegur og viðkunnalegur þótt tilhugsunin um að hann sé að öllum líkindum verðandi forsætisráðherra sé óneitanlega framandi.“

Ég sé ekki að framsóknarmenn geri athugasemd við þennan kafla í hinu dæmalausa viðtali. Í huga þess sem veit um helgi Þingvalla, Lögbergs og fánastangarinnar sem þar stendur er í þessum orðum lýst dæmalausu virðingar- og dómgreindarleysi allra sem hlut eiga að máli. Er með ólíkindum ef Þingvallanefnd og þjóðgarðsvörður geri ekki opinbera athugasemd við þá framgöngu sem þarna er lýst. Er svo komið að hver sem er getur komið með fána í farteskinu, dregið hann að húni á Lögbergi og tekið myndir af vild til að auglýsa sig sem næsta forsætisráðherra? Eða jafnvel kynnt sig í öðrum tilgangi?

Þá er ástæða til að spyrja: Er ekki flaggað daglega á Lögbergi með ríkisfánanum?

Fimmtudagur 04. 04. 13 - 4.4.2013 21:40

Furðulegt að fréttastofa ríkisútvarpsins skuli láta eins og The Guardian sé eini fjölmiðllinn sem hafi aðgang að 2,5 milljón skjölum með upplýsingum úr skattaskjólum. Skjölin voru afhent Alþjóðasambandi rannsóknarblaðamanna í Washington á síðasta ári og þau eru í höndum fjölmiðla í 46 löndum. Hvað eftir annað er hins vegar látið í ríkisútvarpinu eins og aðeins The Guardian hafi aðgang að skjölunum.

Í þýska blaðinu Süddeutsche Zeitung er til dæmis sagt frá að Gunther heitinn Sachs, þýskur iðnjöfur, komi við sögu. Blaðið er meðal þeirra sem hafa haft aðgang að skjölunum í nokkra mánuði.

Hér er um alþjóðlegt mál að ræða og ættu íslenskir fjölmiðlar að kanna hvort þeir fái ekki aðgang að skjölum hjá Alþjóðasambandi rannsóknarblaðamanna til að þeir geti kannað hvort Íslendingar komi við sögu málsins.

Miðvikudagur 03. 04. 13 - 3.4.2013 21:42

Í hádeginu flutti ég erindi í Rotary-klúbbi Reykjavíkur um öryggis- og varnarmál og má lesa það hér.

Viðtal mitt við Unni Brá Konráðsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins, sem birtist á ÍNN 27. mars er komið á netið og má sjá það hér.

Í Hardtalk  á BBC í dag ræddi Stephen Sackur við Christopher A. Pissarides frá Kýpur. Hann er prófessor í London School of Economics og Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði frá 2010. Viðtalið má sjá hér 

Það er fróðlegt að hlusta prófessorinn lýsa stöðunni á Kýpur og færir áhorfandann nálægt því sem er að gerast. Prófessorinn er ómyrkur í máli þegar hann gagnrýni evru-ráðherrahópinn og ómarkviss vinnubrögð hans. Frásögn hans sýnir enn á ný hve mikið ber á milli manna og þjóða á evru-svæðinu.

Hann telur ekki óeðlilegt að lítil ríki menntaðra þjóða sem eigi ekki margra kosta völ í samkeppni við stærri ríki sjái sér hag af því að reka fjármálaþjónustu. Þau fari að öllum ESB-reglum en lendi samt í vandræðum af því að þær séu sniðnar að þörfum stærri ríkja öflugum eftirlitsstofnunum og meiri hemil á þenslu fjármálakerfisins. Sérstakar aðstæður skapist á hverjum stað. Á Kýpur hafi tveir stærstu bankarnir vaxið meira en hæfði hagkerfinu og þeir hafi því leitað til „móðurríkisins“, Grikklands, og fjárfest þar sem hafi riðið þeim að fullu við hrunið í Grikklandi. Stærð bankakerfis umfram hagkerfi viðkomandi ríkis segi alls ekki alla söguna, þannig sé bankakerfið í Lúxemborg mun stærra miðað við landsframleiðslu (22 sinnum) en á Kýpur (átta sinnum).

Þá gagnrýnir prófessorinn þá meginhugsun að viðskiptavinir banka, eigendur bankareikninga, séu látnir leggja fé sitt af mörkum til að bjarga viðkomandi banka. Þetta stangist á við meginregluna um að viðskiptavinir banka fái ekkert í aðra hönd þótt bankinn stórgræði. Hvers vegna skyldu þeir verða látnir fjármagna tapið ef þeir fá ekki að njóta gróðans.

Þegar hlustað er á prófessorinn sem nú er meðal helstu ráðgjafa Kýpurforseta skýrist að nokkru hvers vegna allt fer friðsamlega fram við stjórn landsins. Hann flytur mál sitt öfgalaust og af festu. Hann minnti mig á Þráin Eggertsson, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, sem ávallt talar með rödd skynseminnar og skýrir það sem helst ber að huga að í hagfræðilegum efnum hér á landi.

Þriðjudagur 02. 04. 13 - 2.4.2013 23:55

Lokaatriði Glæpsins kom á óvart í ljósi skapstillingarinnar og rökhyggjunar sem Sarah Lund sýnir jafnan.

Fyrir okkur sem höfum tekið þátt í stjórnmálum er andkannalegt að leitað sé skýringa hjá öðrum en frambjóðendum sjálfum gangi þeim ekki sem skyldi að afla þess fylgis sem stuðningsmenn vænta. Leiti menn skýringa á röngum stað finna þeir ekki heldur réttu lausnina og þar með leiðina til að auka fylgið.

Í umræðuþætti í sjónvarpinu í kvöld lögðu talsmenn flokkanna áherslu á að kosningabaráttan væri að hefjast og þeir ætluðu allir að vinna sigur í henni.

Úrslit kosninga ráðast ekki fyrr en á kjördegi og þangað til er rétt að umræður snúist um annað en hvernig þau verða því að það veit enginn. Hvernig væri að ræða eitthvað sem er umræðunnar virði?

Mánudagur 01. 04. 13 - 1.4.2013 23:55

Icelandair-vélin lagði af stað á réttum tíma kl. 23.00 frá Bilbao-flugvelli og lenti um klukkan 00.40 á Keflavíkurflugvelli, löngu fyrir auglýstan komutíma samkvæmt áætlun. Mátti jafnvel ætla að höfundur áætlunarinnar hefði gleymt því að klukkunni var flýtt um klukkustund á meginlandinu um helgina.

Síðasta daginn í Bilbao fór ég að nýju í Guggenheim-safnið einstæða. Einnig í skoðunaferð eftir ánni eða fljótinu sem rennur um Bilbao og sigldum við í áttina til sjávar. Af því sem leiðsögumaður sagði hafa heimsfrægir arkitektar komið að teikningum húsa eða gerð skipulags í nágrenni við hið fræga hús eftir Frank O. Gehry og má sjá það hér hve margar glæsilegar byggingar prýða borgina. Gamlar myndir frá svæðinu þar sem Guggenheim-safnið stendur nú sýna að þar var höfn og hnignandi gámasvæði.

Eftir að járniðnaður og skipasmíðar lögðust af varð Bilbao bær úr alfaraleið og varð að huga að framtíð hennar eftir nýjum leiðum.  Það heppnaðist með miklum ágætum.