14.4.2013 22:20

Sunnudagur 14. 04. 13

Á Evrópuvaktinni er sagt frá því að Mario Soares telji aðhaldskröfur vegna evru-aðildar og framkvæmd þeirra hafa „eyðilagt“ landið. Mario Soares er sósíalisti og pólitískur andstæðingur núverandi ríkisstjórnar í Portúgal. Hann hefur hins vegar áunnið sér sess sem einskonar landsfaðir Portúgala eftir að hafa leitt þá á fyrstu árum lýðræðis í landinu og gegnt embætti forsætisráðherra og forseta. Hann segir að geti maður ekki borgað skuldir sínar, geri hann það ekki og telur að greiðslufall Argentínu hafi ekki haft nein áhrif. Hann boðar með öðrum orðum að Portúgalir láti hjá líða að greiða skuldir sínar og segi þar með skilið við evruna.

Af mörgu sem birst hefur um afstöðu stjórnmálamanna eða fyrrverandi stjórnmálamanna í evru-löndum til evrunnar er boðskapur Soares hinn róttækasti. Hann ögrar ekki aðeins ríkisstjórninni í Lissabon heldur einnig Portúgalanum, José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB.

Það er ótrúlegt að allar viðvaranir sem berast frá evru-löndunum um erfiðleikana sem við er að etja þar, einkum í jaðarríkjum, skuli ekki breyta neinu um afstöðu þeirra sem enn berjast fyrir aðild Íslands að ESB og leyfa sér að láta eins og allt færi á betri veg hér með evru sem gjaldmiðil.