Dagbók: júní 2008

Mánudagur, 30. 06. 08. - 30.6.2008 20:58

Nú fer sá tími í hönd, þar sem sumarleyfi draga úr starfi innan ráðuneyta eins og á öðrum vettvangi. Í sumum löndum er beinlínis gert ráð fyrir, að sem flestu sé lokað á sama tíma, svo að fólk geti tekið sér ærlegt sumarfrí.

Þeir, sem skoða síðu mína, frá því að ég tók til við að skrá efni inn á hana snemma árs 1995, áður en ég varð menntamálaráðherra, sjá, að á hana eru ekki skráðir margir frídagar, enda er ég haldinn þeirri áráttu að halda mig frekar að vinnu en fara í frí.

Raunar hefur mér ekki heldur orðið misdægurt, ef frá eru taldar vikurnar fyrri hluta árs 2007, þegar hægra lungað féll saman og ég gekk undir mikinn uppskurð.

Sunnudagur, 29. 06. 08. - 29.6.2008 22:43

Skrifaði pistil í dag í tilefni af tónleikum Bjarkar. Ég er að reyna að átta mig á því um hvað málið snýst.

Umrferðin að austan síðdegis var mikil og þung. Ekkert bendir til, að dregið hafi úr akstri þótti dísel-líterinn sé kominn í 190 krónur.

Þegar ekið er í bílalestum eins og í dag, þar sem allir sigu áfram, án þess að nokkur reyndi að troðast, er ástæða að velta því fyrir sér, hvers vegna látið er svona mikið með umferðina um verslunarmannahelgina. Er það bara gert af gömlum vana? Umferðin er álíka mikil um aðrar helgar, án þess að allir fjölmiðlar standi á öndinni.

Við Hellu var að rísa húsbíla- og tjaldvagnaþorp vegna landsmóts hestamanna.

 

Föstudagur, 27. 06. 08. - 27.6.2008 12:01

Norræni ráðherrafundurinn um útlendingamál stóð fram yrfir hádegismat og síðan var flogið frá Sönderborg til Kaupmannahafnar og fór Icelandair vélin af stað heim á áætlun kl. 19.45. Við höfðum óttast seinkun vegna boðaðs verkfalls flugumferðarstjóra, en óttinn reyndist ástæðulaus, þar sem samið var í morgun.

Vélin frá Sönderborg var hins vegar í seinkun og sagði flugstjórinn það stafa af því, hve lengi tæki að koma flugmumferðastjórn pg þjónustu á Kastrup í viðunandi horf, þótt breytingin hefði staðið í meira en hálft ár.

Þegar við héldum frá Kastrup í gær var hálftíma seinkun vegna þess að flugstjóranum tókst ekki að fá afgreitt eldsneyti á vélina í tæka tíð. Á dögunum var tæplega tveggja tíma seinkun við brottför okkar á vegum Sterling frá Kastrup, þar sem ekki tókst að setja töskur um borð í vélina á réttum tíma.  Í báum tilvikum sátu farþegar í flugvélunum og biðu þess, að þær fengju afgreiðslu. Þessi lélega þjónusta við flugvélar stangast á við annað í hinni ágætu Kastrup-flugstöð.

Á ráðherrafundinum var enn og aftur áréttuð nauðsyn þess, að sem mest samræmi væri í útlendingalöggjöf Norðurlandanna og við framkvæmd hennar. Til Noregs streyma nú íraskir flóttamenn frá Svíþjóð, eftir að Svíar gerðu endurkomusamning við stjórnvöld í Bagdad, en hann skuldbindur írösk stjórnvöld til að taka á móti Írökum frá Svíþjóð, enda séu þeir fluttir til ákveðinna svæða í landinu.

Á síðasta ári fengu um 13.500 útlendingar dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi, sem er svipuð tala og í Finnlandi, þar sem íbúar eru 5 milljónir.

Fimmtudagur, 26. 06. 08. - 26.6.2008 16:52

Flugum frá Bergen um Kaupmannahöfn til Sönderborg á Suður-Jótlandi til að taka þátt í fundi norrænna ráðherra, sem fara með útlendingamál.

Miðvikudagur, 25. 06. 08. - 25.6.2008 21:16

Við héldum af stað klukkan 09.00 með Magne Bjergene  og ókum fyrst til Dale, þar sem  Arve Helle, sveitarstjóri, tók á móti okkur í sólskininu, hitinn var 9 gráður og sagði Magne hann hafa farið í frostmark um nóttina.

Dale er við Dalsfjörðinn en þeir fóstbræður Ingólfur og Hjörleifur lögðu upp úr firðinum í ferð sína til Íslands. Tengsl Íslands við Dale voru mikil á síldarárunum, því að þaðan komu síldartunnurnar í söltunarstöðvarnar og sagðist Arve Helle muna eftir því, þegar allir, sem vettlingi gátu valdið, voru kallaðir út til aðferma síldartunnuskipin til Íslands.  Hefði hann verið í þeim hópi undir lok síldaráranna.  Petter Jonny Rivedal  í Rivedal, sem er út með firðinum að norðanverðu, sagðist eiga eina af þessum tunnum ósnerta í kjallara sínum, hún hefði dottið af  skipi og flotið í land.  Þetta væri síðasta síldartunnan til Íslands frá Dale! Ég sagði hana eiga heima á Síldarminjasafninu á Siglufirði og tók hann vel í það. Arve Helle hefur áhuga á að stofna til vinabæjarsambands við bæ á Íslandi til að efla tengslin.

Frá Dale ókum við inn með firðinum til Osen í Gaular kommune og hittum þar Jenny Fælling sveitarstjóra . Osen er myndarlegur bóndabær á sléttu í botni fjarðarins við árós og um 12 metra háan  foss. Þessi staður á sögu langt aftur í aldir, jafnvel 2000 ár fyrir Krists burð. Þar hafa einnig  fundist haugar og  langhús frá um 800, sem er sagt nákvæmlega eins og langhúsið í hjarta Reykjavíkur, við Aðalstræti, þar sem Ingólfur tók sér búsetu.

Leiðsögn og gestrisni hjónanna  í Osen, Unn Karin Kleppe og Olaf  Johan Mo, var einstök.  Við bæinn þeirra hefur Gaularleikverkið verið sýnt annað hvert ár í 20 ár, en þar segir frá átökum Atla jarls og Ingólfs Arnarsonar, sem lýkur með Íslandsför Ingólfs.  Jenny Fælling fagnaði því að Gaulen væri í sérstöku sambandi við Áskirkju. Við Osen er laxastigi við hlið fossins, en hann var gerður af  Íra um 1870 og er talinn þriðji laxastigi í veröldinni.

Næst var tekin ferja í Dale og siglt í 25 mínútur yfir fjörðinn til Eikenes og þaðan ókum við 1.5 kílómetra til Rivedal. Þar var okkur tekið fagnandi undir forystu  Petter Jonny Rivedal af hálfu Rivedælinga og Aud Kari Steinsland, sveitarstjóra í Askvoll. Boðinn var hádegisverður í samkomuhúsinu, fyrrverandi skólahúsi, og kynning á þeim þætti úr sögu staðarins, sem tengist því, þegar kýr voru  reknar á fjöll til sumardvalar og konur fóru þangað til mjalta og bjuggu í seljum auk þess sem leikið var fyrir okkur á Harðangursfiðlu.

Lesa meira

Þriðjudagur, 24. 06. 08. - 24.6.2008 21:15

Magne Bjergene frá Dale í Fjalar ók okkur frá Eivindvik ásamt Arne Osland frá Red Cross Nordic United World College nógu snemma um morguninn til að við næðum ferjunni frá Rutledal norður yfir Sognfjörð til Leirvik í Hyllestad. Þar hittum við sveitarstjórann og fulltrúa í bæjarstjórn, sem buðu okkur til hádegisverðar, með Trond Taugböl frá þjóðminjastofnun Noregs.

Að loknum hádegisverði fórum við með fulltrúum bæjarstjórnar og skoðuðum Kvernsteinsparken. Þetta er minjagarður um þann stað, þar sem allt frá víkingaöld hafa verið hoggnir myllusteinar og krossar, einstakir á heímsvísu.

Ég ætla mér ekki þá dul að lýsa einkennum steinsins en eitt er víst, að á þessum stað hefur verið einskonar stóriðja á sínum tíma og finna má merki hennar í myllusteinum víða um heim, meðal annars í kjallara Bessastaða að sögn heimamanna hér, sem hafa skoðað það, sem komið hefur upp við fornleifagröft þar.

Frá Hyllestad ókum við inn í Fjalar og út til Korssund, þar sem er að finna tæplega þriggja metra háan kvernsteinskross frá Hyllestad sem talinn er 1030 ára gamall.

Skoðunarferðinni lauk síðan á United World College, en Magne Bjergene stofnaði hann fyrir rúmum áratug og við hlið hans er rekið endurhæfingarheimili, sem einnig má rekja til Magne. Er augljóst, að hann hefur látið margt gott af sér leiða fyrir byggðarlag sitt. Íslendingar eiga fulltrúa í stjórn skólans og hefur Sigríður Anna Þórðardóttir setið þar undanfarin ár.

Í kvöldverði á náttstað okkar, Lillingstonheimen, gömlu sveitasetrim sem var áfnafnað sveitarfélaginu, hittum við fjóra sveitarstjóra

Mánudagur, 23. 06. 08. - 23.6.2008 20:49

Megintilgangur ferðar okkar á þessar slóðir  er að sitja málþing um forna þingstaði við N-Atlantshaf. Forráðamenn Gula og gæslumenn Gulaþings áttu frumkvæði að þessum fundi og hann sækja auk Norðmanna fulltrúar frá Orkneyjum, Skotlandi, Mön, Færeyjum, Íslandi og Grænlandi. Þá eru einnig fræðimenn á sviði sagnfræði og ferðamála meðal ræðumanna.

Þingvellir skipta miklu í þessu samhengi, því að þeir eru eini forni þingstaðurinn, sem hefur fengið viðurkenningu með skráningu á heimsminjskrá UNESCO auk þess að vera mest sótti þingstaðurinn af ferðamönnum.

Ég flutti stutt erindi á málþinginu um  Þingvelli og áform um fjölþjóðlega skráningu víkingaminja hjá UNESCO.  Ísland hefur tekið að sér forystu þess verkefnis og er það í undirbúningi á vegum heimsminjanefndar, þar sem við sitjum Össur Skarphéðinsson, Sæunn Srefánsdóttir og ég. Gerði ég grein fyrir stöðu málsins hjá nefndinni, en menntamálaráðuneytið hefur unnið að því að fá staðfestan áhuga ríkisstjórna annarra landa á þátttöku. Þá greindi ég einnig frá því, að í september yrði fundur  evrópskra fræðimanna á Íslandi um forn þing frá Agórunni í Aþenu til alþingis á Þingvöllum.

Umræðurnar í Eivindvik staðfestu mikinn og vaxandi áhuga á þessum forna arfi. Hitt er víst, að skráning víkingaminjanna er síður en svo einfalt viðfangsefni.

Sigurður K. Oddsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, og Einar Á. E. Sæmundsen, fræðufulltrúi þjóðgarðsins, kynntu innra starf á Þingvöllum og síðan svöruðum við spurningum fundarmanna.

Heide Grande Röys, samstarfsráðherra Norðurlanda í ríkisstjórn Noregs, var meðal ræðumanna á fundinum og lýsti eindregnum stuðningi norsku ríkisstjórnarinnar við hið sameiginlega víkingaverkefni og þá ætlan, að hefja hina fornu þingstaði til vegs og virðingar. Vandi þeirra Gulaþingsmanna er, að ekki er nein staðfest vitneskja fyrir hendi um gamla þingstaðinn, hins vegar er talið, að hann hafi verið, þar sem bæjarskrifstofurnar í Eivindvik eru nú.

Í lok málþingsins var ákveðið að boða til fundar um þetta efni á Íslandi árið 2009.

Sunnudagur, 22. 06. 08. - 22.6.2008 20:48

Fengum um morguninn leiðsögn um safn Hansakaupmanna í Bergen.  Marco Trebbi, forstöðumaður safnsins, opnaði okkur sýn á líf og störf  Hansakaupmanna á svo ljóslifandi hátt, að ekki gleymist.  Hann hefur ritað bókina Bryggen Bergens hjerte en Bryggen var  árið 1980 skráð á heimsminjaskrá UNESCO. Skoðuðum við byggingarnar þar og einnig Håkanshallen, sem var reist um 1260 eða um svipað leyti og Íslendngar gengu Noregskonungi á hönd með gamla sáttmála. Síðasti þátturinn í þessari skoðunarferð um bryggjusvæðið í Bergen var heimsókn í  Rosenkrantztårnet.

Við avo búið ókum við frá Bergen norður um Hörðaland í Sogn og firðina og vorum  á næsta gististað í Eivindvik í Gula um klukkan 17.00. Á leiðinni inn í þennan smábæ ókum við að minnismerki um Gulaþing, sem sagt er, að hafi verið stofnað um árið 900, þar sem Eivindvik stendur. Eru tveir steinkrossar taldir til marks um það.

Erindið hingað á þessar söguslóðir er einmitt að taka þátt í málþingi undir merkjum Gulaþings  um þing til forna.

Laugardagur, 21. 06. 08. - 21.6.2008 21:08

Flugum kl. 10.20 til Bergen og tók ferðin 95 mínútur. Hæfileg flugferð milli borga í Evrópu! Sólbjart var við brottför en rigning og frekar kalt í Bergen, þegar Anne-Karin Misje, forstöðumaður Gulaþings-verkefnisins, tók á móti okkur.

Ég heimsótti heimili Edvards Griegs árið 1961, svo að það var tímabært að komast aftur á Troldhaugen, þar sem húsið stendur. Síðan hefur verið reistur fallegur tónlistarsalur við hliðina á húsinu með útsýnisglugga af sviðinu yfir að komponista-húsinu niður við vatnið. Þar sat Grieg og samdi við glugga fram að vatninu. Þá er einnig safn þarna, en bæði nýju húsin falla svo vel inn í umhverfið, að gamla íbúðarhúsið nýtur sín ótruflað.

46 tónleikar eru á Troldhaugen, í tónlistarsalnum við Grieg-húsið nú í sumar, frá 7. júní til 26. október. Samkvæmt tónleikaskránni verða 6. júlí tónleikar með Harald Björköy, tenór, og Selmu Guðmundsdóttur, píanóleikara. Á hverjum tónleikum er að minnsta kosti eitt verk eftir Grieg.

Við innganginn í tónlistarsalinn er stytta af Grieg í fullri líkamsstærð en hann var aðeins 152 cm á hæð. Ungur að árum fékk hann berkla og féll vinstra lungað saman. Á myndum heldur hann oft hendinni upp að hálsi vinstra megin til að hylja hið samfallna brjóst. Þá voru púðar settir í vinstra brjóst jakka hans til að ekki sæist munur á hægri og vinstri hlið hans.

Svanur Kristjánsson prófessor hefur ritað tvær greinar í Fréttablaðið til að ófrægja Hannes Hólmstein Gissurarson, prófessor og samkennara sinn við félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Jafnframt hefur Svanir veist að Ólafi Þ. Harðarsyni, prófessor við sömu deild, auk þess að gagnrýna Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands. Á bakvið þessi skrif býr óvenjulegur illvilji.

Ég hef ekki kynnt mér önnur skrif Svans á fræðasviðinu en þau, sem snerta embætti forseta Íslands. Þau ná ekki máli, heldur byggjast á annarlegum sjónarmiðum eins og skrif Svans um Hannes Hólmstein.

 

Föstudagur, 20. 06. 08. - 20.6.2008 20:28

Síðdegis ókum við Össur Skarphéðinsson að Austur-Meðalholtum í Flóa og heimsóttum hjónin Kristínu Magnúsdóttur og Hannes Lárusson, sem vinna þar að merkum verkefnum undir heitinu Íslenski bærinn - www.islenskibaerinn.com . Markmiðið er að kynna íslenskan torfbæjaarf í þúsund ár. Sögu, tækni, fagurfræði. Þarna má sjá staðbundinn byggingararf, hefðbundið hadverk og samtímalist. Unnið er að því að hrinda þessu hugsjónastarfi í framkvæmd með nýbyggingu og endurreisn gamalla húsa.

Við Össur höfðum áhuga á að kynnast því, sem er að gerast í Austur-Meðalholtum af eigin raun með því að heimsækja þau hjón, þar sem við teljum, að nýta eigi krafta Hannesar við að hrinda þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar í framkvæmd, að íslenski torfbærinn komist á heimsminjaskrá UNESCO.

Morgunblaðið birti við mig viðtal í dag um framkvæmdir í fangelsismálum og ákvörðun um verkaskiptingu milli væntanlegs fangelsis á höfuðborgarsvæðinu og Litla Hrauns. Ég set viðtalið hér á síðuna en tek mér það bessaleyfi að leiðrétta ömurlega málvillu í því, til að augljóst sé, að ég kann að nota orðatiltækið „ríða baggamuninn“.

Fimmtudagur, 19. 06. 08. - 19.6.2008 21:25

Þar sem ég var bundinn á fundi, fór Þórir Hrafnsson, aðstoðarmaður minn, á Austurvöll klukkan 11.00 og tók við bleika steininum frá feministum. Hann er afhentur í tilefni kvenréttindadagsins til að brýna menn til dáða í jafnréttismálum.

Klukkan 13.00 var ég í þéttsetinni Bústaðakirkju við útför herra Ólafs Skúlasonar biskups. Séra Skúli, sonur hans, flutti fögur minningarorð en séra Pálmi Matthíasson þjónaði fyrir altari og moldaði, en herra Karl Sigurbjörnsson biskup flutti ávarp við upphaf athafnar og blessunarorð í lok hennar.

Ávallt þegar við Ólafur hittumst, skiptumst við á kveðju og nokkrum orðum. Hann og frú Ebba, kona hans, hafa jafnan sýnt okkur Rut einlæga vináttu og kveð ég hann með söknuði. 

Sænska þingið samþykkti í dag lög, sem heimila leyniþjónustunni, Säpo, (ekki lögreglunni) að hlera alþjóðasímtöl og skoða alþjóðleg tölvu- og faxsamskipti án þess að leita til þess heimildar hjá dómara. Andstæðingar laganna segja, að með þeim sé gengið lengra við hleranir en í nokkru öðru Evrópulandi. Málsvarar laganna segja þau nauðsynleg til að tryggja öryggi þjóðarinnar. Innanlandssamskipti verði ekki hleruð.

Í nýjasta hefti tímaritsins Foreign Affairs, júlí/águst 2008, er fjögurra blaðsíðna kostuð kynning á Íslandi. Birtir eru kaflar úr viðtali við Geir H. Haarde, forsætisráðherra, um efnahagsmál, sem kom upphaflega í Iceland Review í mars 2008. Þá er grein eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, um nauðsyn þess, að Ísland fái sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

 

Miðvikudagur, 18. 06. 08. - 19.6.2008 0:32

Yfirmenn bandarísku strandgæslunnar voru hér í dag og kynntu sér starfsemi landhelgisgæslunnar. Efla þarf samstarf borgaralegra stofnana til að tryggja öryggi sjófarenda við Ísland.

Þriðjudagur, 17. 06. 08. - 17.6.2008 21:15

Tók þátt í þjóðhátíðarhöldum Fljótshlíðinga í Goðalandi. Fræddist um ferðir þrílembunnar minnar, sem var týnd í allan vetur og var nú sögð í túnjaðrinum hjá mér með afkvæmi sín. Tel líklegt, að hún sé svona hænd að nágranna mínum í Kollabæ, sem hefur reynst henni betri en enginn.

Rétt í þann mund, sem talið var, að tækist að svæfa hvítabjörninn við Hraun á Skaga, setja hann í búr og um borð í varðskip til flutnings á Grænlandsís, barst fregn um, að óargadýrið hefði fælst vegna mannaferða og verið fellt með skotvopni. Þannig fór um sjóferð þá hjá þessum bangsa, sem reyndist birna, særð og svo illa vannærð, að sagt var, að hún hefði líklega ekki lifað áraunina af svæfingu og flutningi.

Það er fengur að því fyrir Morgunblaðið að Kolbrún Bergþórsdóttir fylgdi Ólafi Þ. Stephensen ritstjóra til starfa á blaðinu. Til marks um það má nefna grein Kolbrúnar við hlið leiðara blaðsins í dag.

Kolbrún segir meðal annars: „Eitt sinn, og það er ekki ýkja langt síðan, ólu foreldrar börn sín upp í því að bera virðingu fyrir lögum og reglum og þar með lögreglunni. Ef lögregla mætti á svæði þar sem slagsmál fóru fram þá leystust ólæti yfirleitt upp. Nú sér fólk ekkert athugavert við að veitast að lögreglu geri hún sig líklega til að skakka leikinn.“

Til að herða á refsingu fyrir árásir á lögreglumenn beitti ég mér fyrir breytingu á almennu hegningarlögunum veturinn 2006/2007. Á þetta nýja ákvæði reyndi í hæstarréttardómi frá 5. júní sl.

Í forsendum dómsins segir m.a.:

„Ákærði er fundinn sekur um alvarlega árás á lögreglumann. Hinn 23. mars 2007 tóku gildi lög nr. 25/2007 um breyting á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 þar sem bætt var 2. málslið við 1. mgr. 106. gr. um brot gegn opinberum starfsmanni. Viðbótin kveður á um að beinist brot gegn opinberum starfsmanni, sem að lögum hefur heimild til líkamlegrar valdbeitingar, megi beita fangelsi allt að átta árum. Brot ákærða var framið eftir að þessi viðbót gekk í gildi. Með henni var vernd lögreglumanna í starfi aukin. Ákærði er auk brots gegn valdstjórninni sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Afleiðingar brotsins voru töluverðar svo sem lýst er í héraðsdómi. Eins og atvikum máls þessa er háttað og með hliðsjón af dómafordæmum fyrir framangreinda lagabreytingu og að teknu tilliti til hennar, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði.“

Feitletrunin er mín en í henni felst afdráttarlaus staðfesting hæstaréttar á ætlun löggjafans með lagabreytingunni um aukna refsivernd lögreglumanna.

 

Mánudagur, 16. 06. 08. - 16.6.2008 20:39

Það léttir töluvert störf við heimkomu, að hafa verið í tölvusambandi við samstarfsfólk á ferðalagi erlendis, þó bíða ávallt nokkur verkefni á skrifborðinu - að þessu sinni til dæmis nokkrir tugir ríkisborgarabréfa til undirritunar.

Síðdegis var ég við hátíðlega athöfn, þegar sendiherra Chile sæmdi Brynjólf Bjarnason, stórriddarakrossi með stjörnu, fyrir störf hans sem aðalræðismaður Chile á Íslandi. Brynjólfur hefur látið af ræðismannsstörfunum og Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri Granda, tekið við af honum.

Enn bárust fréttir af hvítabirni á Skaga, nú í nágrenni Hrauns, þar sem hann gæddi sér á eggjum í æðarvarpi. Með aðstoð Dana og fjárhagslegum stuðningi Novators er ætlunin að bjarga dýrinu lifandi.

Sunnudagur, 15. 06. 08. - 15.6.2008 20:39

Við urðum að fara á fætur fyrir allar aldir til að að taka airberlin.com vélina frá Mallorca til München og Icelandair vélina þaðan heim til Íslands, en hér lentum við klukkan 16.15.

Ég hef ekki áður flogið með lággjaldaflugfélaginu airberlin.com en mæli hiklaust með því eftir reynsluna í dag. Einnig var skemmtilegt að koma á hinn gæsilega og bjarta Franz Josep Strauss flugvöll við München.

Laugardagur, 14. 06. 08. - 14.6.2008 20:22

Skálholtskvartettinn hélt lokatónleika sína á Mallorca í kvöld í mikilli menningarmistöð, Centro Cultural Andratx, CCA, í bænum Andtrax um 20 km vestur af Palma. Þarna er 4000 fermetra bygging helguð nútímamyndlist - risastórir sýningarsalir, vinnuaðstaða, listamannaíbúðir, veitingastaður og allt gert á þann veg að stórhugurinn vekur undrun.  Miðstöðin kom til sögunnar árið 2001 að frumkvæði dönsku hjónanna Jacobs og Patriciu Asbæks, en þau eru heimskunn meðal myndlistarmanna fyrir gallerí sitt í Kaupmannahöfn.

Kynni okkar af Mallorca á þessari tónleikaferð voru annan veg en ef við hefðum gert okkur ferð þangað til að njóta strandlífs og sólar. Kom okkur skemmtilega á óvart að kynnast þeim menningaráhuga, sem birtist í því, hve tónleikar Skálholtskvartettsins voru vel sóttir og mikils metnir.

 

Föstudagur, 13. 06. 08. - 13.6.2008 15:57

Áður en við fluttum okkur um set úr nágrenni Deia, ætluðum við að líta inn í safnið um Robert Graves í húsinu hans við bæinn. Verk hans I Claudius er talið meðal bestu skáldsagna sögunnar - og er til í stórgóðum framhaldsþáttum BBC.

Vörslukonan í Graves-safninu setti upp snúð og sagði svo mikið fjölmenni innan dyra, að ekki kæmust fleiri að; það hefðu tvær rútur komið með fólk og við kæmumst ekki að fyrr en eftir einn til tvo tíma. Hún yrði að fara að reglum, við hlytum að skilja það. Við játuðum því. Þegar við ókum af stað stóð hópur kvenna vel við aldur fyrir innan lokað safnhliðið og beið þess greinilega að komast sem fyrst á brott.

Skálholtskvartettinn efndi til tónleika klukkan 21.00 í Palau March Museu, sem er á milli þinghúss Mallorca og dómkirkjunnar miklu í Palma. Salurinn var þéttsetinn og fögnuðu tónleikagestir listamönnunum vel og innilega. 

Í sama mund og tónleikarnir voru að hefjast komu til mín boð í BlackBerrysímann um, hvað yrði á dagskrá Meet the Press nk. sunnudag og hugði ég gott til glóðarinnar, enda reyni ég ávallt að fylgjast með því, sem Tim Russert hefur að bjóða í frábærum þætti sínum. Skömmu síðar barst annað tölvuboð þess efnis að Tim Russert hefði orðið bráðkvaddur í skrifstofu sinni í Washington, 58 ára að aldri. Hann hefði fengið svo bráða kransæðastíflu, að engum vörnum hefði verið við komið. Með honum hverfur frábær sjónvarpsmaður af sviðinu.

Þá bárust fréttir um, að Írar hefðu hafnað Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu 12. júní með tæpum 54% atkvæða gegn 46%. 

Fimmtudagur, 12. 06. 08. - 12.6.2008 15:18

Nú skein sólin í allri sinni dýrð og dökkblátt Miðjarðarhafið tengdist dökkgrænu skógivöxnu klettabeltinu fyrir neðan hótel Encinar.

Um kvöldið hélt Skálholtskvartettinn fyrstu tónleika sína á Mallorca og voru þeir liður í alþjóðlegri tónlistarhátið, sem kennd er við bæinn Deia.

Umgjörð tónleikanna var smáhöll. San Marroig, sem Lúðvík Salvator (1847 til 1915) erkihertogi af Habsborgaraætt reisti á nítjándu öld. Þar er nú safn á einstaklega fögrum stað í klettahlíðunum við hafið bláa.

Erkihertoginn átti einnig stærri höll en þessari á þessum slóðum en Michael Douglas, kvikmyndaleikarinn góðkunni, á hana núna.

Hátt í hundrað manns sótti tónleikana og var gerður góður rómur að flutningi listamannanna. Flutt voru verk eftir Purcell, Vivaldi, Bach og Haydn.

Miðvikudagur, 11. 06. 08. - 11.6.2008 15:11

Hélt um hádegisbil með kvartettinum inn í Palma og skoðaði mig um á Plaza Major, á meðan þau æfðu.

Að æfingu lokinni skoðuðum við Rut hina miklu dómkirkju, sem gnæfir yfir Palma.

Á leiðinni þaðan í bílinn varð skýfall í orðsins fyllstu merkingu og ekki dró það úr vatnsflauminum í þröngum borgargötunum, að vatnið steyptist af þökum húsanna ofan í þær.

Þriðjudagur 10. 06. 08. - 10.6.2008 15:08

Skálholtskvartettinn æfði allan daginn bæði í Encinar og einnig í Palma með Javier Nunez semballeikara og Wojtek Aobolewsky, bassaleikara.

Ég reyndi að tengja tölvuna en átti í miklu basli, þótt stundum næði ég sambandi í gegnum þráðlaust net hótelsins. Virtist umferðarþunginn svo mikill, að ekki tókst að ná neinu niður á tölvuna.

Rétt fyrir kvöldverð hringdi hótelstjórinn og sagði óráðlegt að hreyfa sig af hótelinu, þar sem lýst hefði verið rauðu hættuástandi á eyjunni. Fellibylur væri í nágrenni Ibiza. Skömmu síðar hringdi hann aftur, hættuástandi hefði verið aflétt, bylurinn stefndi í norður fram hjá eyjunni.

Ég spurði hann síðar, hvort almannavarnir eyjunnar létu hótel vita af slíkri hættu. Hann sagði svo ekki vera, en hann ætti börn í skóla og þess vegna vissi hann um þetta.

Um nóttina var mikið þrumuveður.

 

 

Mánudagur, 09. 06. 08. - 9.6.2008 14:56

Við lásum, að í maí hefði rignt meira á Mallorca en áður í manna mi nnum. Rigningar hafa einnig verið miklar í júní eins og við höfum reynt.

Ókum norður eftir ströndinni til Sollier.

Rut er hér með Skálholtskvartettinum og komu þau hin í dag: Jaap Schröder frá Hollandi, Svava Bernharðsdóttir frá Íslandi og Sigurður Halldórsson frá Barcelona.

Sunnudagur, 08. 06. 08. - 8.6.2008 14:51

Við lentum á flugvellinum í Palma dr Mallorca síðla kvölds í gær og eftir nokkurt bras vegna bílaleigubíls komum við um klukkan 01.30 í næturstað á Encinar hóteli milli Valldemossa og Deia, um 17 km norður af Palma, í um 500 m hæð. Fyrir neðan skógivaxna klettaströnd er dökkblátt Miðjarðarhafið.

Valldemossa er heimsþekkt vegna þess að þar höfðu þau Chopin og George Sand vetursetu, sem hún hefur gert ódauðlega í bókinni Vetur á Mallorca. Chopin segir á einum stað að Valldemossa sé fallegasti staður á jarðríki. Karþúsa-klaustrið, þar sem Chopin bjó, er nú safn. Vissulega er fallegt af svölunum, þar sem snillingurinn bjó.

Jorge Louis Borges, skáld og rithöfundur, bjó um hríð með foreldrum sínum í Valdemossa, þegar þau leituðu þar athhvarfs eftir fyrri heimsstyrjödlina.

Við Deia bjó Robert Graves, skáld og rithöfundur. Hús hans er til sýnis.

Laugardagur, 07. 05. 08. - 7.6.2008 13:13

Hinn 21. maí var ný flugstöð tekin í notkun á Findel-flugvelli í Lúxemborg. Glæsilegt og mikið mannvirki. Starfsmaður sagði hana reynast vel. Eitt er víst, að nógu er hún stór.

Í dag birtist grein eftir mig í Morgunblaðinu um hleranir.

Ég vek athygli lesenda síðu minnar á nýútkomnu hefti af Þjóðmálum. Þar er eins og áður mikið af góðu efni. Þorsteinn Sæmundsson segir sögu Varins lands - og var tími til þess kominn að skrá hana. Vilhjálmur Eyþórsson skrifar um villu vinstrisinna með vísan til Víetnam-stríðsins. Ágúst H. Bjarnason ræðir um loftlagsmál og segir náttúrukrafta ráða meiru en framlag okkar mannanna. Ég birti vegvísi um Evrróuumræðuna. Margt fleira forvitnilegt er þarna að lesa og hvet ég alla áhugamenn um þjóðmál að kynna sér efni tímaritsins í traustri ritstjórn Jakob F. Ásgeirssonar.

Föstudagur, 06. 06. 08. - 6.6.2008 18:39

Sat fund í dag hér í Lúxemborg um samskipti Íslands og Evrópusambandsins á sviði lögreglumála auk þess sem ég ræddi, hvaða evrópsk sjónarmið þarf að hafa í huga við endurskoðun lögreglulaganna. Hún hefst nú, eftir að ný lög um meðferð sakamála eru komin til sögunnar og ný almannavarnalög.

Ég notaði einnig tækifærið til að kynna mér afstöðu ESB til ríkja utan sambandsins og upptöku evrunnar. Nauðsynlegt er að velta fyrir sér lögheimildum í því sambandi.

 

Fimmtudagur, 05. 06. 08. - 5.6.2008 19:53

Fundur Schengen-ráðherra hér í Lúxemborg í morgun snerist að mestu um ólögmæta hælisleitendur og hvernig taka eigi á málefnum þeirra.

Rigningin var ótrúlega mikil síðdegis en þá gafst tóm til að skoða nýtt tónlistarhús hér í borginni. Þar rúmar salurinn um 1500 gesti og er því ívið minni en salurinn í tónlistarhúsinu í Reykjavík.

Einnig litum við inn í nýlistasafnið, sem er ekki síður glæsileg bygging en tónlistarhúsið.

Menningarbyggingarnar eru báðar í Evrópuhverfinu svonefnda á Kirchberg. Þær eru við hliðina á fyrsta háhýsinu í Lúxemborg, sem reist var fyrir Evrópusambandið. Það stendur nú eins og fokhelt, þar sem verið er að endurgera það við hlið á nýrri ráðstefnumiðstöð. Þar til hún verður tekin í notkun eru fundir Schengen-ráðherranna í vörusýningarskála.

Þriðjudagur, 03. 06. 08. - 3.6.2008 21:25

Klukkan 18.00 var ég í ráðhúsinu á Selfossi og efndi þar til fundar með fulltrúum sveitarfélaganna Árborgar, Hveragerðis, Grafnings og Ölfuss, sýslumanninum á Selfossi, fulltrúum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, forstjóra Neyðarlínunnar og fulltrúum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Tilefnið var að stofna formlega þjónustumiðstöð í þágu íbúa sveitarfélaganna vegna jarðskjálftanna og kynna verkefnastjóra á vegum almannavarnadeildarinnar, Ólaf Örn Haraldsson, fyrrverandi alþingismann, en hann verður tengiliður vegna þessara þjónustumiðstöðva milli allra þeirra, sem að þeim koma, í umboði almannavarnadeildar.

Að loknum fundinum fórum við í þjónustumiðstöðina í Tryggvaskála á Selfossi og ræddum við fulltrúa Rauða krossins, sem þar hafa starfað síðan föstudaginn 30. maí, þegar miðstöðin var opnuð. Þaðan ókum við í Hveragerði og fórum í húsnæði Rauða krossins þar og hittum þá, sem þar hafa starfað síðan 30. maí. Í báðum miðstöðvunum hefur fólk haft nóg að gera. Var það mat heimamanna, að þessari þjónustu hefði verið vel tekið og af þakklæti.

Ánægjulegt var að heyra lýsingar á því, hvel vel og greiðlega allir aðilar höfðu verið virkjaðir til hjálpar og aðstoðar eftir jarðskjálftann 29. maí.

 

Mánudagur, 02. 06. 08. - 2.6.2008 22:18

Styrmir Gunnarsson kveður ritstjórastól Morgunblaðsins í dag. Ég þakka honum samfylgd og vináttu í áranna rás. Við vorum ekki alltaf sammála en vináttan slitnaði ekki, þótt á reyndi. Ég óska Ólafi Þ. Stephensen heilla við ritstjórn hans.

Íslensk blaðamennsk hefur ekki batnað og hún mun enn dala hratt, ef hún tekur mið af bloggi síðari ára. Fráleitt er að elta bloggsíður á prenti eða halda að blöð batni með vísan til þeirra. Stíll og efnistök eru gjörólík milli miðla. Styrmir hefur gert margt gott og haldið ýmsu í horfinu á Morgunblaðinu. Hann hefur einnig gefið eftir, án þess að blaðið batnaði. Sú árátta að fjarlægjast Sjálfstæðisflokkinn hefur ekki orðið til að fjölga áskrifendum blaðsins, þeim hefur þvert á móti fækkað. Áskriftarblöð þurfa að hafa skýran markhóp, eins og allir, sem bjóða eitthvað til sölu.

Í raun er sorglegt, að metnaðarfull ritstjórnarstefna Morgunblaðsins hafi lent í glímu við lágkúru Jónasar Kristjánssonar. Fyrir Morgunblaðið er þó huggun harmi gegn, að Jónas kúldrast nú með sérvisku sína á eigin vefsíðu, af því að honum hefur verið úthýst annars staðar.

Að Jónas telji sig meira lesinn á eigin síðu en í þeim blöðum, sem hann ritstýrði, lýsir best, hve hátt verð menn urðu að gjalda fyrir störf hans. - Blöðin, sem hann ritstýrði, eru líka öll úr sögunni í sinni fyrri mynd.

Það er ein af þversögnum samtímans, að Jónasi skuli hafa verið falið að halda námskeið um blaðamennsku. Kannski er það vísasti vegurinn til að grafa undan marktækum fjölmiðlum í landinu - eða hvað?

Hörður Sigurgestsson fagnaði 70 ára afmæli í dag og flutti ég honum heillaóskir af því tilefni.

Fréttablaðið vísar til þess, að ég hafi ekki talið skynsamlegt, að Orkuveita Reykjavíkur ræki tetra-fjarskiptakerfið, og síðan þeirra orða minna, að kerfið hafi gefið góða raun í jarðskjálftunum 29. maí. Telur blaðið þessi viðhorf ósamrýmanleg. Staðreynd er, að þá fyrst komst rekstur tetra í lag, þegar orkuveitan var víðs fjarri rekstrinum.

 

Sunnudagur, 01. 06. 08. - 1.6.2008 21:53

Í pistli mínum í dag dreg ég saman nokkur atriði vegna jarðskjálftans 29. maí og nefni í því sambandi tillögu mína um varalið, það er að lögregla hafi heimild til að kalla út menn til að taka að sér verkefni fullgildra lögreglumanna, þegar þeir þurfa að einbeita sér að óvæntu sérverkefni.

Útdráttur úr pistlinum er birtur á mbl.is og viti menn, fólk tekur til við að blogga um orð mín og sumir láta enn og aftur eins og ég sé að leggja til stofnun herafla eða jafnvel að móðga björgunarsveitir og aðra, sem brugðust við á frábæran hátt, þegar kallið kom vegna skjálftans.

Hvernig í ósköpunum unnt er að draga þessar ályktanir af orðum mínum, er ofvaxið mínum skilningi. Varalið er varalið - kallað á vettvang í stað aðalliðsins, þegar það er bundið við annað, til dæmis björgunarstörf vegna jarðskjálfta. Að heimild sé til slíks jafngildir ekki að koma á fót herliði eða draga úr áherslu að nauðsyn öflugs lögregluliðs.

Þegar varnarliðið fór af landi brott, tók ríkisstjórnin nokkrar ákvarðanir. Ein þeirra sneri að því að tetravæða fjarskipti lögreglu og björgunarsveita, eins og síðan hefur verið gert með frábærum árangri. Önnur var að veita lögregluyfirvöldum heimild til að kalla út varalið. 

Varnarmálastofnun tók til starfa í dag á vegum utanríkisráðuneytisins. Hún á að sinna hernaðarlegum málefnum á vegum ríkisins. Þeir, sem hafa áhuga á því, hvort íslenska ríkið haldi úti hernaðarlegri starfsemi eiga að beina athygli sinni að störfum þessarar stofnunar en ekki þeirra, sem starfa á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Við afgreiðslu alþingis á lögum um varnarmálastofnun var lögð áhersla á eldveggi milli varnarmálastofnunar og borgaralegra stofnana á borð við landhelgisgæslu og lögreglu.