13.6.2008 15:57

Föstudagur, 13. 06. 08.

Áður en við fluttum okkur um set úr nágrenni Deia, ætluðum við að líta inn í safnið um Robert Graves í húsinu hans við bæinn. Verk hans I Claudius er talið meðal bestu skáldsagna sögunnar - og er til í stórgóðum framhaldsþáttum BBC.

Vörslukonan í Graves-safninu setti upp snúð og sagði svo mikið fjölmenni innan dyra, að ekki kæmust fleiri að; það hefðu tvær rútur komið með fólk og við kæmumst ekki að fyrr en eftir einn til tvo tíma. Hún yrði að fara að reglum, við hlytum að skilja það. Við játuðum því. Þegar við ókum af stað stóð hópur kvenna vel við aldur fyrir innan lokað safnhliðið og beið þess greinilega að komast sem fyrst á brott.

Skálholtskvartettinn efndi til tónleika klukkan 21.00 í Palau March Museu, sem er á milli þinghúss Mallorca og dómkirkjunnar miklu í Palma. Salurinn var þéttsetinn og fögnuðu tónleikagestir listamönnunum vel og innilega. 

Í sama mund og tónleikarnir voru að hefjast komu til mín boð í BlackBerrysímann um, hvað yrði á dagskrá Meet the Press nk. sunnudag og hugði ég gott til glóðarinnar, enda reyni ég ávallt að fylgjast með því, sem Tim Russert hefur að bjóða í frábærum þætti sínum. Skömmu síðar barst annað tölvuboð þess efnis að Tim Russert hefði orðið bráðkvaddur í skrifstofu sinni í Washington, 58 ára að aldri. Hann hefði fengið svo bráða kransæðastíflu, að engum vörnum hefði verið við komið. Með honum hverfur frábær sjónvarpsmaður af sviðinu.

Þá bárust fréttir um, að Írar hefðu hafnað Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu 12. júní með tæpum 54% atkvæða gegn 46%.