Dagbók: september 2006

Föstudagur, 29. 09. 06. - 29.9.2006 12:31

Í dag hófust reglulegir föstudagsfundir ríkisstjórnarinnar en þeir falla niður yfir sumartímann.

Klukkan 13. 30 var ég í Borgarleikhúsinu, þar sem Síminn fagnaði 100 ára afmæli sínu með hátíðarfundi, sem Halla Tómasdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, stjórnaði. Ræðumenn voru Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Símans, Andrew Zolli, framtíðarfræðingur, og Rudolph W. Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York, sem flutti erindi um hlutverk leiðtogans. Síðan var mikil afmælishátíð í Laugardalshöll.

Fimmtudagur, 28. 09. 06. - 28.9.2006 21:36

Í dag efndi ég til funda með forystumönnum hjá embætti ríkislögreglustjóra, landhelgisgæslunnar og Landssambands lögreglumanna til að ræða aukið hlutverk stofnana og starfsmanna á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins við gæslu öryggis landsmanna eftir brottför varnarliðsins.

Össur Skarphéðinsson hefur eins og kunnugt er háð harða baráttu fyrir því innan vébanda þingmannasambands NATO, að Bandaríkjamenn hyrfu ekki með herafla sinn af landinu. Ef marka má frásagnir á vefsíðu hans og annars staðar hefur hann oft þrengt að fulltrúum Bandaríkjanna með ræðum sínum. Þær breyttu þó ekki þeim staðfasta ásetningi Bandaríkjastjórnar að loka Keflavíkurstöðinni.

Nú veltir Össur því fyrir sér, hvort ég telji loftvarnir landsins nægilega vel tryggðar, úr því að orrustuþoturnar séu á bak og burt. Mín skoðun er vissulega sú, að betra hefði verið að hafa þær hér áfram, en á hinn bóginn tel ég þá niðurstöðu, sem fengist hefur með vísan til hreyfanlegs herafla og annarra skuldbindinga, viðunandi fyrir okkur. Össur telur, að þotur hér gætu varnað því, að farþegaflugvél yrði breytt í einskonar eldflaug eins og gerðist 11. september 2001. Össur segir vegna 11. september á vefsíðu sinni:

„Kallar Björn Bjarnason það ekki hættuástand? Það er hins vegar staðreynd, að nýi varnarsamningurinn felur ekki í sér neinar varnir gegn slíkum atburði. Ísland yrði þá fullkomlega varnarlaust. Afhverju skrifar Björn ekki um það?“

Spyrja má af þessu tilefni: Er Össur Skarphéðinsson tilbúinn til að samþykkja lög, sem veita heimild til að skjóta niður farþegaflugvél? Magnea Marínósdóttir, stjórnmálafræðingur, ræðir þessa spurningu í grein í Þjóðmálum 2. hefti á þessu ári, sem heitir: Orrustuþotur eða gagneldflaugar? Hún segir að með gagneldflaugakerfi gegn farþegaflugvél á valdi hryðjuverkahóps gætu Íslendingar riðið á vaðið innan NATO og ákveðið með lögum í samráði við Bandaríkjamenn og NATO hvernig beita mætti flaugunum, ef tilvist þeirra ein dygði ekki sem fæling.

Það gæti verið spennandi fyrir Össur að reifa viðhorfin í grein Magneu á fundi þingmannasambands NATO og upplýsa okkur síðan um, hverjar viðtökurnar urðu. Hann gæti einnig safnað þar upplýsingum um, hve mörg þjóðþing hafi veitt herafla sínum heimild til að skjóta niður farþegaflugvélar á valdi hryðjuverkahóps.

Miðvikudagur, 27. 09. 06. - 27.9.2006 21:02

Það er forvitnilegt að heyra sagnfræðinga og stjórnmálafræðinga ræða um stöðuna í varnarmálunum, eftir að samkomulag hefur tekist við Bandaríkjamenn. Ég er sammála Þór Whitehead, þegar hann sagði í Kastljósi í kvöld, að hernaðaráætlanir lægju almennt ekki á glámbekk. Þess vegna er undarlegt, að Baldur Þórhallsson skuli gera það að höfuðatriði í málflutningi sínum, að nú þurfi að kynna hernaðaráætlun Bandaríkjamanna til varnar Íslandi, annars hafi hún ekki fælingarmátt.

Fælingarmáttur á tímum kalda stríðsins fólst í varnarstefnu, sem byggðist á stigmögnun átaka, ef til árásar kæmi, og beitingu kjarnorkuvopna að lokum. Áætlanir um það, hvernig brugðist yrði við innan þessarar stefnu, voru ekki birtar, en draga mátti ályktanir um efni þeirra af heræfingum. Fælingarmáttur nú á tímum byggist einnig á varnarstefnu og vitneskju um herafla til að framfylgja þessari stefnu, en ekki á áætlunum um, hvernig heraflanum skuli beitt í einstökum tilvikum - ályktanir um það má hins vegar draga af æfingum og þær á á stunda hér á landi samkvæmt samningnum við Bandaríkin.

Á tímum kalda stríðsins var herafla NATO-ríkja skipað á þann hátt, að hann væri sem næst hugsanlegri víglínu og tilbúinn til átaka með skömmum fyrirvara - þetta átti einnig við hér á Norður-Atlantshafi, einkum á fyrri hluta níunda áratugarins. Stöðug viðvera mikils herafla var einkenni þessarar varnarstefnu. Nú er hreyfanlegur herafli með langan viðbragðstíma einkenni varnarstefnunnar og hernaðaráætlanir vegna Íslands taka mið af því. Ísland hefur enn sérstöðu meðal evrópskra NATO-ríkja að því leyti, að samstarf okkar við Bandaríkin byggist á tvíhliða varnarsamningi.

Það er rétt hjá Vali Ingimundarsyni sagnfræðingi, að það kallar á nokkurn viðvörunartíma að virkja þotur frá til dæmis Skotlandi til loftvarna á Íslandi. Að búa þotur til hernaðarátaka á Norður-Atlantshafi mundi varla tengjast hættuástandi vegna Íslands eins - það yrði liður í herútkalli vegna mun víðtækari hættu.

 

 

 

Þriðjudagur, 26. 09. 06. - 26.9.2006 21:57

Á fundi ríkisstjórnarinnar var gengið endanlega frá málum vegna viðræðnanna um varnarmál við Bandaríkjastjórn, kl. 12.30 hittu Geir H. Haarde forsætisráðherra og Jón Sigurðsson, starfandi utanríkisráðherra, forystumenn stjórnarandstöðunnar, síðan utanríkismálanefnd og loks héldu þeir blaðamannafund kl. 16.00. Fórst forsætisráðherra kynningin vel úr hendi.

Sjónvarpið ræddi við mig fyrir fréttir sínar kl. 22.00 en gert er ráð fyrir því, að verkefni á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og stofnana þess aukist samkvæmt samkomulaginu og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem því fylgdi.

Ég heyrði í Speglinum, að Gunnar Gunnarsson, fréttamaður, nefndi það, sem ég sagði hér á þessum stað í gær um samskipti Steingríms Hermannssonar við embættismenn um innri öryggismál ríkisins og mátti skilja Gunnar á þann veg, að ekki væru til neinar heimildir um, að rætt hefði verið um þessi mál við Steingrím.

Málið er í sjálfu sér ekki flóknara en það, að hinn 19. mars 1986 flutti Matthías Á Mathiesen, utanríkisráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, þar sem Jón Helgason var dóms- og kirkjumálaráðherra, tillögu um að á vegum ríkisstjórnarinnar yrði sérstökum hópi manna frá utanríkisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og forsætisráðuneyti falið að fara yfir stöðu þessara mála og gera tillögur til úrbóta. Ákvað ríkisstjórnin undir forsæti Steingríms hinn 29. júlí 1986, að þetta skyldi gert. Eins og kunnugt er hafa þeir Steingrímur og Jón báðir sagt, að aldrei hafi verið rætt um þennan þátt öryggismálanna við sig. Hvernig í ósköpunum má það vera? Hver skipaði menn í starfshópinn fyrir þá?

Raunar er furðulegt, að blaðamaður með jafnmikinn áhuga á þessum málum og Gunnar Gunnarsson, skuli ekki hafa getað leitað þetta uppi, hann hefði til dæmis getað farið inn á síðuna hjá þessum bloggara: http://gudmundurmagnusson.blogspot.com/

Mánudagur, 25. 09. 06. - 25.9.2006 21:27

Eftir að Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, gagnrýndi tillögur Samfylkingarinnar um lækkun matarverðs og sýndi með rökum, að þær væru aðför að hag bænda, hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, umturnast af heift í hans garð og nú er þessi auglýsingabrella flokksins að breytast í hatursherferð á hendur Sigurgeir.

Ef Ingibjörg Sólrún telur, að með þessum látum afli hún tillögum Samfylkingarinnar einhvers staðar fylgis, er öruggt, að hún fer vill vega. Lætin í henni leiða til þess eins, að enginn tekur eftir því, hvað í tillögunum felst. Fer þá fyrir tillögunum eins og ræðu Gordons Browns, fjármálaráðherra breska Verkamannaflokksins, á þingi flokksins í dag, framboðsræðu til forsætisráðherra, að hún virðist hverfa í skuggann fyrir því, sem Bloomberg-fréttastofan heldur fram að Cherie Blair, forsætisráðherrafrú, hafi sagt, að Brown væri að ljúga, þegar hann lýsti því, hvílík sérréttindi það hefðu verið að starfa með Tony Blair.

Ég tek undir með Steingrími Hermannssyni, fyrrverandi ráðherra, að það væri með  miklum ólíkindum, ef embættismenn hefðu ekki upplýst hann um ráðstafanir lögreglunnar til að gæta öryggis ríkisins, þegar hann var dóms- og kirkjumálaráðherra eða forsætisráðherra. Hafi Steingrími ekki verið sagt frá þessum grundvallaratriðum að fyrra bragði, trúi ég ekki öðru en jafnathugull maður og hann hafi spurt.

Hitt er annað mál, að starf á sviði innri öryggismála var allt annars eðlis árið 1978 en fyrir síðari heimsstyrjöldina, þegar Hermann, faðir Steingríms, lagði á ráðin um eftirgrennslan með Agnar Koefod Hansen lögreglustjóra, eða þegar Bjarni Benediktsson beitti sér fyrir öryggisráðstöfunum árið 1948 eða 1950.

Ég var skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu árið 1978, þegar Steingrímur varð ráðherra í fyrsta sinn, og starfaði þá í eitt ár með Ólafi Jóhannessyni forsætisráðherra. Ég fullyrði, að þá var farið með þessi mál á sama veg í forsætisráðuneytinu og þegar Geir Hallgrímsson var forsætisráðherra 1974 til 1978 og Ólafur Jóhannesson, dóms- og kirkjumálaráðherra.

Á þessum árum  beindist athygli á sviði innri öryggismála einkum að umsvifum sovéska sendiráðsins, eins og sjá má í blöðum frá þeim tíma. 

Sunnudagur, 24. 09. 06. - 24.9.2006 21:07

Enn sannaðist í dag, að ógjörningur er að átta sig á því, hvenær fjölmiðlamenn kveikja á því, hvort eitthvað sé fréttnæmt eða ekki. Hér er ég að vísa til þess, að í dag var sagt frá því í fréttum hljóðvarps ríkisins, eins og um nýmæli væri að ræða, að íslensk og norsk stjórnvöld hefðu ráðið ráðum sínum um kaup á nýjum björgunarþyrlum. Ítarlegustu frásögnina um þetta er að finna í skýrslu um þyrlubjörgunarþjónustu, sem sett var á vefsíðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 18. júlí síðastliðinn.

Ég ræddi þetta við Einar Þorsteinsson, fréttamann hljóðvarpsins, vegna kvöldfrétta. Hann spurði mig einnig um það, sem hann taldi hafa komið fram í hjá Guðna Th. Jóhannessyni sagnfræðingi, að lögreglan hefði haldið úti einskonar öryggisdeild Sjálfstæðisflokksins. Mér er óskiljanlegt, hvernig sagnfræðingur getur talað á þann veg, að fréttamenn dragi þessa ályktun af orðum hans. Þess vegna sagði ég, að Guðni Th. hlyti sem sagnfræðingur að leggja fram einhver gögn máli sínu til stuðnings. Af reynslu minni bæði sem embættismaður og ráðherra teldi ég þetta fráleitar fullyrðingar.

Laugardagur, 23. 09. 06. - 23.9.2006 21:40

Um klukkan 19.00 fékk ég sunnudags Morgunblaðið með viðtali við mig um Þingvelli og forsíðufrétt, þar sem sagt er frá því framtaki okkar Þingvallanefndarmanna að leita álits almennings á hugmynd um nýja brú yfir Öxará við Drekkingarhyl.

Með því að fara inn á vefsíðuna thingvellir.is er unnt að skoða mynd af nýju brúnni og einnig segja álit sitt. Það verður að spennandi á fylgjast með því, hvort þetta veki áhuga almennings og umræður, sem verði Þingvallanefnd til leiðbeiningar við ákvörðun sína.

Í gær kynnti ég þau áform dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að leita álits og umsagna um tillögur réttarfarsnefndar um frumvarp til laga um meðferð sakamála. Það verður einnig forvitnilegt að sjá, hve margir bregðast við því kalli.

Notkun netsins til lifandi samskipta af þessu tagi eru ekki nægilega mikil að mínu mati, kannski virkar það ekki eins vel í þessu efni og auðvelt er að nota.

Föstudagur, 22. 09. 06. - 22.9.2006 19:37

Klukkan 11.30 var ég á fundi Sýslumannafélags Íslands og flutti þar ávarp og svaraði fyrirspurnum um málefni á dagskrá dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Klukkan 12.00 hóf hádegisverður í súlnasal hótel Sögu og síðan málþing á vegum Lögfræðingafélags Íslands um drög að frumvarpi um meðferð sakamála, sem réttarfarsnefnd samdi, og nú verður til kynningar á vefsíðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til 1. nóvember, eins og kom fram í setningarávarpi mínu á málþinginu.

Ég ræddi við fréttastofu sjónvarps ríkisins um það, sem fram kemur í ritgerð Þórs Whiteheads í Þjóðmálum um öryggisþjónustu íslenska ríkisins á tímum kalda stríðsins og lýsti þeirri skoðun, að undrun vekti, hve smátt þetta hefði allt verið í sniðum og starfsemin hefði að sjálfsögðu verið innan ramma laganna, enda hefðu símar til dæmis ekki verið hleraðir án heimildar frá dómurum.

Hlustaði með öðru eyranu á það, sem um ritgerð Þórs var sagt í Speglinum  á rás 1 og brugðust efnistökin þar ekki væntingum, því að þau hafa vafalaust glatt þá, sem telja sig eiga um sárt að binda vegna ritgerðar Þórs.

Skýrt var frá því, að Baugsmiðillinn NFS mundi hætta störfum þetta sama kvöld og Robert Marshall, sem ritaði bréfið Kæri Jón í dagblöðin fyrr í vikunni, hefði verið sagt upp störfum.

 

Fimmtudagur, 21. 09. 06. - 21.9.2006 22:05

Nýtt hefti Þjóðmála kom út í dag með fróðlegri grein eftir dr. Þór Whitehead um öryggisþjónustu lögreglunnar frá þriðja áratugnum fram á kalda stríðið.

Útgáfa Þjóðmála undir ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar hefur heppnast vel og hvert hefti vekur verðskuldaða athygli fyrir það efni, sem þar er að finna.

Miðvikudagur, 20. 09. 06. - 20.9.2006 21:58

Þingvallanefnd hittist á fundi síðdegis á Þingvöllum - fórum við í skoðunarferð um þjóðgarðinn og kynntum okkur framkvæmdir sumarsins með Sigurði K. Oddssyni þjóðgarðsverði.

Í Morgunblaðinu birtist svar mitt við óvildargrein Hreins Loftssonar, stjórnarformanns Baugs Group, í minn garð.

Í Morgunblaðinu birtist einnig svar mitt við ávirðingum Sigurðar Gylfa Magnússonar sagnfræðings í minn garð vegna færslu gagna úr dóms- og kirkjumálaráðuneyti í Þjóðskjalasafn.

Þriðjudagur, 19. 09. 06. - 19.9.2006 19:32

Vörður, fulltrúaráð sjálfstæðismanna í Reykjavík, boðaði til fundar kl. 17. 30 í Valhöll, þar sem ákveðið var einróma, að efnt yrði til prófkjörs vegna þingkosninganna 27. og 28. október.

Í morgun birtist frétt á bls. 2 í Morgunblaðinu um, að Guðlaugur Þór Þórðarson stefndi að 2. sæti í prófkjörinu, hinu sama og ég hef nefnt.

Á fulltrúaráðsfundinum lýsti Sólveig Pétursdóttir yfir því, að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér. Hvatti hún til þess, að öflugar konur byðu sig fram í prófkjörinu.

 

Sunnudagur, 17. 09. 06. - 17.9.2006 20:16

Réttað var í Fljótshlíðinni í morgun í hita og blíðu.

Sagt var frá því í kvöldfréttum sjónvarps ríkisins, að Guðlaugur Þór Þórðarson ætlaði að bjóða sig fram í 2. sætið í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík og látið að því liggja, að það væri vegna einhvers ágreinings okkar Geirs H. Haarde, formanns flokksins og forsætisráðherra. Við Geir eigum ágætt samstarf á vettvangi flokks og ríkisstjórnar og að mínu áliti er enginn fótur fyrir þessu mati fréttastofunnar á ástæðum framboðs Guðlaugs Þórs, en fréttastofan gat ekki um neinn heimildarmann.

Nokkrir dagar eru liðnir frá því, að ég tilkynnti um framboð mitt í 2. sætið. Þá sagði ég jafnframt, að þetta yrði síðasta kjörtímabil mitt á þingi. Fyrir mig er engin nýlunda, að fleiri sækist eftir sama sæti og ég í prófkjöri. - Ég hef ekki boðið mig fram gegn neinum samflokksmanna minna, enda tel ég samstöðu innan flokka best fallna til sigurs og hef viljað vinna að henni innan Sjálfstæðisflokksins á þingi og í borgarstjórn. Í þeim anda lagði ég mig fram um einingu innan flokksins um Geir sem eftirmann Davíðs Oddssonar á formannsstóli og einnig um Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson sem oddvita okkar sjálfstæðismanna í borgarstjórn.

Laugardagur, 16. 09. 06. - 16.9.2006 21:37

Héldum af stað í Fljótshlíðarleitirnar heiman frá mér kl. 07.20 og ég var kominn heim aftur kl. 19.00. Veðrið var einstaklega gott, logn, sólskin og hiti. Ég átti von á, að erfitt yrði að reka féð í hitanum, en það reyndist ekki vera.

Ég var einhesta á Breka og reyndist hann miklu betur en í fyrra, enda var þess gætt í sumar, að hann hlypi ekki í spik auk þess sem ég setti hann í þjálfun síðastliðinn vetur.

Nú er þess minnst, að í dag eru 70 ár frá því að Pourquoi-pas? fórst við Mýrar. Þetta mikla sjóslys sameinar Íslendinga og Frakka á einstæðan hátt. Eins og sjá má hér á síðunum fór ég sem menntamálaráðherra til borgarinnar St. Malo á Bretagne skaga í Frakklandi og afhjúpaði þar við höfnina styttu Einars Jónssonar myndhöggvara um dr. Charcot og Pourquoi-pas?

 

Föstudagur, 15. 09. 06. - 15.9.2006 21:53

Eftir fundi fram í hádegið hélt ég austur í Fljótshlíð síðdegis og fór um klukkan 18.00 á hestinum Breka upp að Reynifelli, vestan Þríhyrnings, en þangað höfðu bændur farið með hóp hrossa til að geyma yfír nóttina fyrir leitirnar á morgun. Veðrið var eins og best verður á kosið.

Samfylkingin er að keppa við vinstri/græn í umhverfismálum og vill nú setja eitthvert bann á framkvæmdir til að gæta að umhverfinu. Undir forystu Dags B. Eggertssonar Samfylkingarmanns eru hins vegar uppi áform um að vega að umhverfi Öskjuhlíðar með 2000 jeppa bílastæði milli Nauthólsvíkur og hlíðarinnar auk bygginga Háskólans í Reykjavík. Skyldi framkvæmdabann Samfylkingarinnar í þágu umhverfis fela í sér bann við framkvæmdum í Vatnsmýrinni við jaðar Öskjuhlíðarinnar.

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag er sagt frá því, að bygging höfuðstöðva Orkuveitu Reykjavíkur hafi kostað 5,8 milljarða króna - en talan er ívið hætti en sú, sem við sjálfstæðismenn nefndum í umræðum um kosnað við höfuðstöðvarnar. Okkar tölum var hins vegar alltaf mótmælt sem alltof háum, Með hliðsjón af því, hve heitt þetta mál var í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna 2002, hefði mátt ætla, að þeir létu til sín heyra í þeim umbrotum, sem nú verða.

Fimmtudagur, 14. 09.06. - 14.9.2006 23:40

Var klukkan 17.00 í Norræna húsinu og hlustaði á Pál Skúlason, prófessor og fyrrverandi rektor, flytja erindi á vegum Stofnunar Sigurðar Nordals í tilefni af 120 ára afmæli Sigurðar. Páli mæltist vel fyrir fullu húsi. Menning og markaðshyggja var viðfangsefni hans og hlutverk stjórnmálanna að sameina hvoru tveggja.

Það gladdi mig sérstaklega hve ákveðið Páll tók undir kröfu mína um friðun svæðisins við Öskjuhlíð vestanverða, þar sem Háskólinn í Reykjavík vill fá aðsetur. Hann var sama sinnis og ég, að ákvörðun um þessa aðför að Öskjuhlíðiinni væri illa ígrunduö.

Miðvikudagur, 13. 09. 06. - 13.9.2006 22:03

Flaug norður á Akureyri kl. 07.45, þar sem Guðmundur Skarphéðinsson tók á móti okkur Hjalta Zophaníassyni, skrifstofustjóra í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, og Þorsteini Davíðssyni og ók okkur til Siglufjarðar.

Við hittum Guðgeir Eyjólfsson sýslumann og Halldór Halldórsson lögfræðing hjá honum og ræddum um flutning bótanefndar til sýslumannsembættisins og framkvæmd mála frá því, að það var gert.

Bæjarstjórn bauð okkur til hádegisverðar í Bátahúsi Síldarminjasafnsins og skoðuðum við þetta einstaka safn, sem hefur að miklum verðleikum hlotið evrópska safnaviðurkenningu.

Að lokinni heimsókninni til Siglufjarðar ók Guðmundur okkur um Siglufjarðarskarð til Akureyrar og lentum við í Reykjavík um 19. 15.

Þriðjudagur, 12. 09. 06. - 12.9.2006 21:32

Í fréttum var sagt frá því, að Dagsbrún, Baugsmiðlafyrirtækinu, hefði verið skipt í tvennt. Mikill tapsrekstur var á fyrri hluta ársins eða nálægt 1,5 milljarði og Dagsbrún skuldar um 73 milljarða króna eða meira en íslenska ríkið.

í Kastljósi var sýndur átakanlegur þáttur um afleiðingar ofsaaksturs og rætt um, að hann hefði færst mjög í vöxt og ylli gífurlegri hættu í umferðinni. Síðan ræddi Jóhanna Vilhjálmsdóttir við Ragnheiði Davíðsdóttur - Jóhanna spurði mest út frá þeim sjónarhóli, hvort ekki þyrfti að auka ökukennslu og áherslu á umferðarmenningu og öryggi í skólakerfinu. Ragnheiður leit til baka til þess tíma, þegar hún taldi eftirlit lögreglu hafa verið meira og betra en nú á tímum og ítrekaði það, sem hún hefði oft sagt, að eina leiðin væri að auka eftirlit lögreglu og herða refsingar.

Þessi tvö sjónarmið að höfða til kunnáttu og ábyrgðar þess, sem ekur, eða höfða til þess að enn meira eftirlit þurfi að vera á vegunum og harðar tekið á þeim, sem brjóta lögin, eiga bæði erindi í þessum umræðum.

Tölfræði um störf lögreglu sýnir, að hún situr alls ekki auðum höndum, þegar að umferðareftirliti kemur. Að leggja áherslu á sífellt meira eftirlit í stað þess að höfða til ábyrgðar þeirra, sem hlut eiga að máli, kann að leiða til þeirrar ranghugmyndar hjá einhverjum, að allt sé leyfilegt, úr því að ekki séu eftirlitsmenn á hverju strái. Skortur á eftirlitsmönnum getur ekki verið orsök vandans heldur ásetningur þeirra, sem brjóta umferðarlögin. Þessi ásetningur verður ekki upprættur með því að kvarta undan skorti á eftirliti - hann verður aðeins upprættur með því að höfða til samvisku og ábyrgðar þeirra, sem ógna öryggi sjálfra sín og annarra í umferðinni.

Ég dreg í efa, að réttmætt sé að benda til eftirlits og ökulags fyrr á tímum, þegar rætt er um stöðuna núna. Umferðin hefur tekið stakkaskiptum, vegir eru betri en áður og bílar.  Það er víðar en hér á landi, þar sem menn eru agndofa andspænis ofsaakstri ungmenna.

Samgönguráðuneytið, sem fer með umferðaröryggismál, hefur samið við embætti ríkislögreglustjóra um sameiginlegar aðgerðir til að vinna að umferðaröryggi. Enginn vafi er á því, að þetta hefur leitt til fjölgunar lögreglubíla á vegunum og návist leiðir vissulega til þess, að ökumenn draga úr hraða. Eftirliti er einnig unnt að sinna með myndavélum á fleiri stöðum en við fjölfarin gatnamót, þar sem umferð er stýrt með ljósum.  Sjúkdómurinn verður hins vegar ekki læknaður með eftirliti - það verður aðeins gert með því að sjúklingurinn líti í eigin barm og geri betur.

Mánudagur, 11. 09. 06. - 11.9.2006 21:59

Um heim allan minnast menn voðaverkanna í New York og Washington þennan dag fyrir fimm árum, til að sjá hvað ég hafði um hann að segja, bendi ég á færslur mínar hér á síðunni frá þeim tíma.

Í áranna rás hef ég rætt svo mikið um afleiðingar árásarinnar, að ég ætla ekki að bæta neinu við það allt saman á þessari stundu. Mín niðurstaða varð fyrir löngu sú, að ekki væri rétt að tala um stríð gegn hryðjuverkamönnum - þetta væri langvinn barátta stjórnvalda til að tryggja öryggi borgara sinna gegn nýrri ógn.

ABC sjónvarpsstöðin bandaríska mun hafa gert sjónvarpsþætti í tilefni 9/11 eins og Bandaríkjamenn nefna voðaverkin, af því að þau eru svo sérstæð, að ekkert eitt orð dugar til að lýsa þeim. Í þáttunum er aðdragandanum lýst og þar mun koma fram, að í tíð Bills Clintons í Hvíta húsinu hafi ekki verið sýnd nægileg aðgæsla af hálfu stjórnvalda gegn hryðjuverkamönnunum. Fréttir hafa birst um, að Clinton sjálfur hafi reynt að beita áhrifum sínum til að fá þáttunum breytt.

Ég veit ekki meira um málavexti en nefni þetta til að minna á þá eðlilegu kröfu til stjórnvalda, að þau leitist við að byrgja brunninn, áður en barnið dettur ofan í hann.

Sunnudagur, 10. 09. 06. - 10.9.2006 21:26

Fór gangandi í leitir í Klofningum fyrir ofan Fljótsdal í Tindfjöllum. Þetta var mikill og erfiður göngutúr í góðu veðri.

Laugardagur, 09. 09. 06. - 9.9.2006 17:53

Var á Hvolsvelli kl. 12.00, þar sem haldinn hafði verið stofnfundur Lögreglustjórafélags Íslands, en það tekur mið af þeim breytingum, sem verða á skipan lögreglumála nú um áramótin, þegar lögregluumdæmi stækka.

Í ávarpi, sem ég flutti á fundinum ræddi ég meðal annars um það, hvernig rætt væri um lögreglumál á opinberum vettvangi. Ég rifjaði upp, að sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli hefði vakið máls á því, að margt benti til, að lítháísk mafía hefði fest hér rætur og hefði tekið í sama streng, enda hefði ég oft áður rætt hættuna á þessu og talið, að við yrðum eins og aðrir að búa okkur undir aðgerðir gegn skipulagðri, alþjóðlegri glæpastarfsemi. Morgunblaðið hefði haldið áfram að ræða málið og meðal annars snúið sér til konu frá Litháen, sem búsett væri hér á landi, en hún hefði sagt, að hér væri engin skipulögð litháisk glæpastarfsemi. Spyrja má: Hvers vænti blaðið? Að það fengi staðfestingu um litháíska mafíu frá almennum borgara?

Ég nefndi einnig frétt, sem birtist á forsíðu Morgunblaðsins í dag, um að 16 ára piltur hefði náð sambandi við mann í gegnum netið í þeim tilgangi að stinga hann á hol til að drepa hann. (Geðlæknir segir, að ætla megi, að drengurinn sé haldinn skertu veruleikaskyni vegna tölvuleikja eða vídeómynda. ) Spyrja má: Hvað ef honum hefði dottið í hug að búa til sprengju til að sjá, hvaða tjóni hann gæti valdið?

Í vikunni hefði danska leyniþjónustan eða öryggisþjónustan PET gripið unga menn í Odense við undirbúning þeirra á hryðjuverkum. Spurningar hefðu vaknað um það í Danmörku, hvort gögn PET dygðu til að fá þá dæmda í gæsluvarðhald en það hefði gengið eftir. Það væri fráleitt að láta eins og við þyrftum ekki ráðstafanir hér á landi til að bregðast við annars konar hættu að öryggi borgaranna en áður.

Ég sá það í Fréttablaðinu, að Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, vill, að lög heimili lögreglu að fjarlægja einstaklinga af heimili sínu, án þess að leita til dómara og fá úrskurð hans um nálgunarbann vegna ásakana um heimilisofbeldi. Hinn sami Ágúst Ólafur Ágústsson telur hins vegar með öllu fráleitt, að við sérstakar aðstæður, þegar unnið er að uppljóstrun afbrots, geti lögregla hlerað síma, án þess að fá úrskurð dómara.

Föstudagur, 08. 09. 06. - 8.9.2006 21:27

Schengen-ráðstefna Evrópunefndar og Háskólans á Bifröst var haldin í dag og stóð frá 09.00 til 17.00 undir stjórn Þórunnar J. Hafstein, skrifstofustjóra hjá EFTA, sem er að koma til starfa sem skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 1. nóvember, þar sem hún tekur við starfi Stefáns Eiríkssonar, sem ég skipaði lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og ég sagði frá í dagbókarfærslu fyrr í vikunni fengum við góða fyrirlesara frá Brussel og Noregi til að tala á ráðstefnunni, þar skipti Jean Claude Piris, yfirmaður lagasviðs ráðherraráðs ESB, ekki minnstu. Hann hefur fylgst með þróun Schengen og EES um árabil og tók meðal annars undir það mér í dag, að í umræðum um framtíð EES, ef Noregur færi í ESB, mætti ekki gleyma því, að við gerð EES-samningsins hefði alveg eins verið búist við, að Noregur yrði aðili að ESB og þá aðeins Ísland og Liechtenstein aðilar að EES frá EFTA, þess vegna væri það ekki framandi fyrir ESB, að sú skipan kynni að koma til sögunnar.

Í ræðu minni á ráðstefnunni komst ég að þeirri niðurstöðu, að ekki væri skynsamlegt að ætla sér að sameina EES og Schengen. Var það samdóma álit allra ræðumanna, sem tóku afstöðu til þess - það væri svo sem hægt lagalega en pólitískt mundi það líklega aldrei ganga.

Jean Claude Piris sagði mér, að hinn 2. september hefði birst viðtal við mig í franska blaðinu la Libération um varnarmálin og hef ég sett það hér á síðuna.

Þetta er önnur alþjóðlega ráðstefnan, sem haldin er á vegum Evrópunefndarinnar. Þessi ráðstefna var sérstæð að því leyti, að líklega hefur aldrei verið gerð úttekt af þessu tagi á þróun Schengen samstarfsins og lagt mat á stöðu þess frá þeim sjónarhóli, sem ræðumenn gerðu.

Ræddi við fréttamann NFS um brottför þyrla varnarliðsins um miðjan mánuðinn og áréttaði, að ég hefði aldrei rætt við Bandaríkjamenn, að þeir frestuðu brottför þyrla sinna um nokkra daga eða vikur og það hefði enginn gert að mínu fyrirlagi.

Fimmtudagur, 07. 09. 06. - 7.9.2006 23:20

Sigríður Sól, dóttir mín, og Heiðar Már, maður hennar, eignuðust dóttur í London í dag, hún er 18,5 merkur og heilsast þeim mæðgum vel, þetta er þriðja barn þeirra og þar með þriðja barnabarn okkar Rutar, fyrir eiga þau tvo syni, Orra 6 ára og Bjarka 4 ára.

Ég heyrði í fréttum sagt frá fundi allsherjarnefndar alþingis í morgun um fangelsismál. Þetta var gert á forsendum Björgvins G. Sigurðssonar, þingmanns Samfylkingarinnar. Það virðist sama hvort hann næstum missir af flugvél til Kiruna eða heimtar fund í allsherjarnefnd - alltaf hlaupa sumir fréttamenn á eftir honum og sitja síðan uppi með eitthvað, sem ekkert er.

Björgvin G. heimtar fund í allsherjarnefnd vegna þess að ég geri ekkert í fangelsismálum og krefst þess, að ég sitji fundinn. Þetta fer í fjölmiðla og látið er eins og þessi krafa hans á hendur mér hafi eitthvert annað gildi en einmitt að komast í fjölmiðla. Allir vita, að ég mun ekki sitja fund allsherjarnefndar til að svara Björgvini.

Nefndarfundurinn er haldinn að morgni 7. september og þangað fara Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, og Valtýr Sigurðsson, fangelsismálastjóri. Þau lýsa því fyrir nefndarmönnum, hvað er að gerast í fangelsismálum og þar sé markvisst unnið að umbótum.

Fjölmiðlamenn tala aftur við Björgvin G., sem endurtekur sömu rulluna og fyrir fundinn og látið er í veðri vaka, að það sé eitthvað dularfullt við að ég hafi ekki sótt hann.

Eftir stendur: Hverju breytti þetta brölt allt saman? Hvers vegna láta fjölmiðlamenn við það sitja að elta Björgvin G. í þessu máli? Ég er hins vegar sömu skoðunar og áður, að það sé ekki neinu máli til framdráttar, að Björgvin G. Sigurðsson taki það upp á sína arma. Það hefur að minnsta kosti ekki aukið áhuga minn á því að koma til móts við óskir og sjónarmið Samfylkingarinnar í fangelsismálum að fylgjast með þessum æfingum þingmannsins, sem snúast í raun ekki um fangelsismál heldur um viðleitni hans til að gera lítið úr því, sem verið er að gera til að bæta fangelsin í von um að koma póltísku höggi á mig - og væntanlega upphefja sjálfan sig á kostnað annarra.

Miðvikudagur, 06. 09. 06. - 6.9.2006 20:48

Við hófum qi gong æfingar ársins í morgun kl. 08. 10 og sami trausti hópurinn hittist að nýju sér til styrkingar. Gunnar Eyjólfsson leiddi fyrsta tímann.

Tveir blaðamenn ræddu við mig um Schengen-ráðstefnuna, sem Evrópunefnd og Háskólinn á Bifröst efna til á föstudag. Ég er ekki viss um, að menn átti sig almennt á því, hve einstök þessi ráðstefna er, þegar við köllum sérfróða menn saman til að ræða þau álitaefni, sem eru á dagskrá hennar. Ræðumenn á ráðstefnunni verða háttsettir embættismenn og sérfræðingar frá ráðherraráði og framkvæmdastjórn ESB, m.a. Jean Claude Piris, yfirmaður lagasviðs ráðherraráðsins og Karel Kovanda, aðstoðarframkvæmdastjóri á sviði erlendra samskipta (DG RELEX) hjá framkvæmdastjórn ESB, sem er m.a. ábyrgur fyrir EES málum. Erna Solberg formaður norska íhaldsflokksins er í hópi ræðumanna og Fabrice Filliez, sem fer með Schengenmálefni í stjórnarráði Sviss, mun fjalla um þróun innanríkis- og dómsmálasamstarfs ESB og hugsanleg áhrif þeirrar þróunar á stöðu Sviss, Noregs og Íslands í Schengen samstarfinu. Ég fullyrði, að í sögu Schengensamstarfsins sé þetta fyrsta ráðstefnan af þessu tagi.

Þá hafði fréttamaður samband við mig vegna þess að nokkrar vikur mundu líða frá brottför þyrla varnarliðsins, þar til tvær leiguþyrlur koma til starfa hjá landhelgisgæslunni. Ég sagðist ekki sjá, að þetta væri fréttnæmt. Það hefði áður gerst á undanförnum árum, að þyrlur varnarliðsins væru ekki hér til taks og hjá gæslunni væru menn búnir undir þetta. Nú hefði hins vegar verið búið þannig um hnúta, að þyrlum til starfa að leit og björgun á vegum landhelgisgæslunnar mundi fjölga. Aldrei hefði verið rætt um það við mig, að Bandaríkjamenn myndu fresta brottför þyrla sinna af tilliti til okkar. Raunar hef ég ekki vænst þess í því ferli, sem hófst 15. mars 2006, að Bandaríkjamenn væru að hugsa um annað en sjálfa sig við framkvæmd brottfarar varnarliðsins.

Á meðan ég er að skrifa þetta, fylgist ég með Sky News, þar sem allt snýst um vandræðin hjá Tony Blair - en 7 aðstoðarráðherrar sögðu af sér í dag til að knýja á um afsögn hans. Þá er sagt, að það sé „melt down“ milli Blairs og Gordons Browns. Þessar pólitísku hamfarir minna aðeins á, að fyrir leiðtoga er ekki síður erfitt að hætta en ná völdum.

Þriðjudagur, 05. 09. 06. - 5.9.2006 9:43

Fór að sjá myndina um Leonard Cohen á kvikmyndahátíðinni og varð ekki fyrir vonbrigðum.

Net-alfræðiorðabókin Wikipedia er mögnuð og í færslunni um Cohen segir til dæmis um þessa mynd, sem hér er sýnd:

„A film titled Leonard Cohen: I'm Your Man was released in the USA on June 21, 2006. It is a film of the 2005 tribute to Leonard Cohen "Came So Far For Beauty" held at the Sydney Opera House; the concert was produced by Hal Willner. The film, directed by Lian Lunson, has appearances by Nick Cave, Beth Orton, Antony of Antony and the Johnsons, Rufus and Martha Wainright, among others, and a performance of "Tower of Song" by Cohen and U2. The film also features Cohen recalling significant parts of his life and career.“

Í Wikipedia er sagt frá því síðasta, sem á daga Cohens hefur drifið, en hann er farinn að syngja opinberlega aftur vegna fjárhagsþreningina, eins og hér má lesa:

Lesa meira

Mánudagur, 04. 09. 06. - 4.9.2006 22:27

Tæplega 19.30 fór ég í klukkstundarflug með Falcon 2000 þotu frá Dassault, var farið í 41 þúsund feta hæð og flogið á 840 km hraða norður yfir Vestfirði að Akureyri og síðan til Reykjavíkur að nýju. Þetta er glæsileg vel og einstaklega þægileg.

Margrét Frímannsdóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, var í Íslandi í bítið á NFS og ræddi fangelsismál á mun jákvæðari hátt en flokksbræður hennar Björgvin G. Sigurðsson og Ágúst Ólafur Ágústsson, sem hafa alltaf allt á hornum sér, eins og kunnugt er. Margrét taldi á hinn bóginn margt gott hafa áunnist síðustu misseri, þótt vissulega þyrfti að gera betur.

Össur Skarphéðinsson var síðar í sama þætti að ræða póltík við Guðlaug Þ. Þórðarson og fagnaði sérstaklega umbótum á lögreglunni og fjölgun í sérsveitinni. Taldi hann þetta skynsamleg skref til aefla öryggi landsmanna og hér væri ekki þörf á varnarliði. Össur sagði oftar en einu sinni, að í Kastljósi kvöldið áður hefði Davíð Oddsson sagt, að hann hefið viljað segja upp varnarsamningnum vegna tilkynningar Bandaríkjastjórnar 15. mars 2006. Össur sleppti þeim orðum Davíðs, að hann hefði síðan gert nýjan varnarsamning. Hvers vegna skyldi Össur hafa sleppt þessari mikilvægu viðbót?

Ummæli Össurar stinga algjörlega í stúf við stóryrði og skammir flokksbróður hans í Samfylkingunni, Helga Hjörvar, þegar ég var að kynna breytingar á sérsveitinni og stækkun hennar.

Þessi tvöfalda afstaða Samfylkingarfólks í fangelsismálum og sérsveitarmálum leiðir hugann að tvöfeldni sjálfrar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í Kárahnjúkamálinu.

Ég man það úr borgarstjórn í janúar 2003, þegar menn biðu þess spenntir, hvernig hún myndi greiða atkvæði um ábyrgð Reykjavíkurborgar sem eiganda Landsvirkjunar vegna lántöku til að ráðast í Kárahnjúkavirkjun - hún greiddi atkvæði með ábyrgðinni og þar með virkjuninni. Nú mætti helst ætla, að hún hefði ekki gert það, ef hún hefði vitað um athugasemdir Gríms Björnssonar. Helgi Hjörvar, fulltrúi Reykjavíkurborgar í stjórn Landsvirkjunar, hafði fengið þessar athugasemdir í nóvember 2002. Lét hann borgarstjóra ekki vita um þær? Taldi hann þær of léttvægar til þess?

Að Ingibjörg Sólrún skuli telja sig vera í stöðu til að gagnrýna Valgerði Sverrisdóttur, þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, vegna þessara athugasemda Gríms Björnssonar er fráleitt - og ekki síður hitt, að hún telji sig geta hlaupist undan ábyrgð á Káranhjúkavirkjun vegna þess að athugasemdunum hafi verið haldið leyndum!

Sunnudagur, 03. 09. 06. - 3.9.2006 21:44

Viðtal Helga Seljan við mig birtist á NFS.

Föstudagur, 01. 09. 06. - 1.9.2006 12:41

Hitti Helga Seljan, fréttamann á NFS, heima hjá mér klukkan rúmlega 14.00 og tókum við upp samtal hans við mig til útsendingar sunnudaginn 3. september. Helgi sagði mér, að þetta væri líklega síðasta samtal hans fyrir þennan þátt, þar sem hann hefði þennan sama dag ákveðið að hætta á NFS og fara til starfa hjá Katljósi.

Við komum víða við í samtali okkar og stóð það í um 50 mínútur, en ég veit ekki, hvað Helgi hefur rúman tíma.