Laugardagur, 09. 09. 06.
Var á Hvolsvelli kl. 12.00, þar sem haldinn hafði verið stofnfundur Lögreglustjórafélags Íslands, en það tekur mið af þeim breytingum, sem verða á skipan lögreglumála nú um áramótin, þegar lögregluumdæmi stækka.
Í ávarpi, sem ég flutti á fundinum ræddi ég meðal annars um það, hvernig rætt væri um lögreglumál á opinberum vettvangi. Ég rifjaði upp, að sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli hefði vakið máls á því, að margt benti til, að lítháísk mafía hefði fest hér rætur og hefði tekið í sama streng, enda hefði ég oft áður rætt hættuna á þessu og talið, að við yrðum eins og aðrir að búa okkur undir aðgerðir gegn skipulagðri, alþjóðlegri glæpastarfsemi. Morgunblaðið hefði haldið áfram að ræða málið og meðal annars snúið sér til konu frá Litháen, sem búsett væri hér á landi, en hún hefði sagt, að hér væri engin skipulögð litháisk glæpastarfsemi. Spyrja má: Hvers vænti blaðið? Að það fengi staðfestingu um litháíska mafíu frá almennum borgara?
Ég nefndi einnig frétt, sem birtist á forsíðu Morgunblaðsins í dag, um að 16 ára piltur hefði náð sambandi við mann í gegnum netið í þeim tilgangi að stinga hann á hol til að drepa hann. (Geðlæknir segir, að ætla megi, að drengurinn sé haldinn skertu veruleikaskyni vegna tölvuleikja eða vídeómynda. ) Spyrja má: Hvað ef honum hefði dottið í hug að búa til sprengju til að sjá, hvaða tjóni hann gæti valdið?
Í vikunni hefði danska leyniþjónustan eða öryggisþjónustan PET gripið unga menn í Odense við undirbúning þeirra á hryðjuverkum. Spurningar hefðu vaknað um það í Danmörku, hvort gögn PET dygðu til að fá þá dæmda í gæsluvarðhald en það hefði gengið eftir. Það væri fráleitt að láta eins og við þyrftum ekki ráðstafanir hér á landi til að bregðast við annars konar hættu að öryggi borgaranna en áður.
Ég sá það í Fréttablaðinu, að Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, vill, að lög heimili lögreglu að fjarlægja einstaklinga af heimili sínu, án þess að leita til dómara og fá úrskurð hans um nálgunarbann vegna ásakana um heimilisofbeldi. Hinn sami Ágúst Ólafur Ágústsson telur hins vegar með öllu fráleitt, að við sérstakar aðstæður, þegar unnið er að uppljóstrun afbrots, geti lögregla hlerað síma, án þess að fá úrskurð dómara.