Dagbók: maí 2016

Þriðjudagur 31. 05. 16 - 31.5.2016 12:00

Í fyrirlestri í Háskólanum í Bifröst 3. maí 2013 lýsti Guðn Th. Jóhannesson því að „ómenntuð sveitakona“ hefði verið „með það á hreinu að Íslendingar voru að berjast fyrir lífsafkomu sinni og að skipherrarnir á varðskipunum voru þjóðhetjurnar sem unnu stríðið“. Hann sagði síðan: „Yes! Íslandi allt! Og spurningin vaknar, er fávís lýðurinn aftur að pródúsera rangar sameiginlegar minningar? Og kemur enn til kasta okkar sagnfræðinganna. Því að því er ekki að leyna að í okkar hópi eru þeir til, og kannski er ég þar framarlega þó ég segi sjálfur frá, sem hafa lýst efasemdum um þessa sýn.“

Í samtali við Björn Inga Hrafnsson á Eyjunni sunnudaginn 15. maí nefndi Davíð Oddsson þennan fyrirlestur og sagði að Guðni Th. hefði lýst yfir að þorskastríðin væru ekki hetjudáð heldur þjóðsaga og mont. Sagði Davíð það alrangt, þarna hefði verið mikill sigur unninn hjá lítilli þjóð sem þorði að færa út landhelgina.

Hálfum mánuði síðar hittust þeir Davíð og Guðni Th. saman á Eyjunni og þá vekur Davíð enn máls á söguskoðun Guðna Th. og lýsir sig að nýju ósammála henni. Þessi orðaskipti urðu vegna málsins milli Björns Inga (BI) og Guðna Th. (GTH):

BI: Þú sagðir að fávís almenningur gæti...

GTH: ...nei...

BI: ...komið sér upp röngum [minningum]...

GTH: Það sagði ég aldrei, aldrei nokkurn tímann. Ég held það hafi verið haft eftir mér.

BI: Haft eftir þér?

GTH: Já, það er ósatt. Það er alveg ósatt. Alveg ósatt.

BI: Þannig að þú hafnar þeim ummælum.

GTH: Ég get ekki tekið svona. Þetta er ósatt.

Eftir sjónvarpsþáttinn 29. maí hafa andstæðingar Davíðs farið mikinn og sakað hann um dónaskap og leitast við að beina umræðum um þáttinn í þann farveg að vegið sé ósæmilega að Guðna Th. Þessi viðkvæmni  er í algjörri andstöðu við það sem Guðni Th. boðaði í upphafi kosningabaráttunnar, hann mundi svara öllum spurningum – hann mundi ótrauður takast á við það sem að höndum bæri í baráttunni. Nú efast hann um sómakennd Davíðs!

Fyrir 15 árum höfðu olíufélögin samráð um verð á ýmsum vörum. Vegna rannsóknar málsins voru birt tölvubréf sem gengu á milli starfsmanna félaganna. Í einu þeirra voru orð sem urðu fleyg: „fólk er fífl!!!!“ Hvert sem tilefnið var spillti þetta málstað félaganna mjög meðal almennings. Orð Guðna Th. „fávís lýðurinn“ eru af sama meiði. Þau breytast ekki með árásum á Davíð Oddsson.

Mánudagur 30. 05. 16 - 30.5.2016 20:30

Inn á Facebook setti ég 4 mínútna myndskeið sem endurspeglar hrifninguna í Semperóperunni að kvöldi sunnudags 29. maí eftir sýninguna á Lohengrin. Á myndskeiðinu sem má skoða hér sést þegar nokkrir aðalsöngvaranna og hljómsveitarstjórinn koma og taka við þökkum áhorfenda og síðan er einnig mynd af flytjendum öllum og hljómsveitinni. Hér má lesa um Lohengrin-sýninguna á vefsíðu Semperóperunnar. Uppfærslan er sannarlega meiriháttar viðburður í þýsku menningarlífi um þessar mundir. 

Fyrir þann sem notar netið eins mikið og ég skiptir aðgangur að því höfuðmáli. Í Dresden gistum við á hóteli sem er hluti alþjóðlegrar keðju sem teygir sig meðal annars til Íslands. Þar var meiri erfiðleikum bundið að komast inn á netið en á gististöðum sem falla undir Airbnb og við höfum notað í Leipzig og Berlín. Þar er greiður aðgangur að netinu ókeypis. Hótelkeðjan innheimtir 15 evrur fyrir 24 tíma netaðgang. Maður fær hann hins vegar ókeypis bóki maður beint hjá keðjunni en ekki í gegnum t. d. bookings.com og gerist auk þess meðlimur í sérstökum klúbbi keðjunnar.

Við skráningu út af hótelinu í Dresden bættist við kostnaður miðað við hið uppgefna verð hótelsins, það var 10 evru borgarskattur á nóttu, það er gistináttagjald sem hótelið innheimtir fyrir borgina og hagar innheimtunni þannig að gesturinn veit nákvæmlega hvert peningarnir renna. Er það þessi skattur sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri vill að hækki til að auka tekjur Reykjavíkurborgar?

Sé þetta gjald innheimt í Þýskalandi af þeim sem selja gistingu í gegnum Arbnb eða Bookings er það ekki sérstaklega tigreint af söluaðilum. Evran er nú tæpar 140 kr. og 10 evrur eru því tæpar 1.400 kr.

Samkvæmt íslenskum lögum um gistináttaskatt þarf leigusali að greiða 100 krónur á nótt fyrir hvert notað svefnpláss. Þessi gistináttaskattur er hinn sami á farfuglaheimilum og fjögurra stjörnu hótelum. Ríkisskattstjóri vill að skatturinn leggist einnig á gistinætur undir merkjum Airbnb. Hvernig framkvæmd á kröfu hans líður veit ég ekki.

Flugumferðarstjórar í skyndiverkföllum eru örugglega hættulegri framtíð ferðaþjónustu en viðleitni til að tryggja sjálfbærni þjónustunnar með gjaldtöku.

 

 

Sunnudagur 29. 05. 16 - 29.5.2016 23:00

Í dag fórum við í Semperoper í Dresden og sáum Lohengrin eftir Richard Wagner. Christian Thieleman var hljómsveitarstjóri. Anna Netrebko var Elsa von Brabant, Piotr Beczala Lohengrin og Evlyn Herlitzius Ortrud svo að ég nefni þá listamenn sem fengu mest lof í lófa.

Nokkrar sýningar hef ég sótt í kunnum óperuhúsum en aldrei kynnst jafnmikilli hrifningu áhorfenda og hér í Dresden í dag. Þegar lófatakið og bravó-hrópin höfðu staðið í rúmar 10 mínútur yfirgáfum við salinn en áfram var klappað og hrópað.

Semperoper var reist á 19. öld. Salurinn er glæsilegur og heldur vel utan um þá sem þangað koma. Fyrir sýninguna fengum við ásamt nokkrum Íslendingum sem gerðu sér ferð til Dresden til að njóta þessa listviðburðar að skoða óperhúsið baksviðs.

Hér steig Einar Kristjánsson óperusöngvari sín fyrstu skref á fjölunum árið 1933 þegar hann stundaði nám í Dresden. Hann var hér í þrjú ár en þá ákvað hann að flytjast til Stuttgart.

Einar B. Pálsson, verkfræðingur og prófessor, sem stundaði nám í Dresden á árum nafna síns Kristjánssonar hefur sagt frá velgengni söngvarans í Dresden, hann hafi ákveðið að flytjast til Stuttgart til að takast á við meira krefjandi verkefni.

Laugardagur 28. 05. 16 - 28.5.2016 16:30

Á tveimur dögum í febrúar 1945 var Dresden lögð í rúst í loftárásum bandamanna. Um 25.000 manns féllu og eignatjón varð gífurlegt. Þegar litið er til baka er í raun óskiljanlegt að gripið hafi verið svo harkalegra hefndaraðgerða um það leyti sem sigur yfir nazistum var í augsýn.

Nú er sá hluti borgarinnar þar sem markaðstorgið var og er, Frúarkirkjan og Zwinger-höllin þéttskipaður ferðafólki sem fer um í stórum hópum. Frúarkirkjan í hjarta borgarinnar var endurreist, stein fyrir stein, á árunum 1992 til 2005. Að endurreisn annarra bygginga hefur verið staðið á markvissan hátt.

Í Zwinger eru söfn með miklum dýrgripum og minnir ferð um þau helst á heimsókn í Hermitage-safnið í St. Pétursborg. Hér í Dresden er til dæmis hin heimsfræga Madonnumynd eftir Raphael, Sistine Madonnan frá 1512/13.

Föstudagur 27. 05. 16 - 27.5.2016 12:00

Eitt af því sem nýlga hefur komið til sögunnar í Leipzig er safn um Jóhann Sebastian Bach. Er þar beitt allri nýjustu tækni við að miðla fróðleik um Jóhann Sebastian og aðra úr Bach fjölskyldunni. Safnið er í húsi andspænis Tómasarkirkjunni og kórskólahúsinu þar sem Jóhann Sebastian og barnmörg fjölskylda hans bjó. Í húsinu sem nú geymir safnið bjó vinafjölskylda Bachs.

Þarna má sjá hluta af orgeli sem Bach skoðaði og úrskurðaði nothæft og orgelbekk sem vitað er að hann notaði á sínum tíma. Þá má einnig sjá upprunaleg handrit verka hans en þau hafa verið að finnast allt fram á síðustu ár.

Tómasarkirkjan hefur verið endursmíðuð frá tíma Bachs en minning hans svífur þarna yfir öllu.

Í kirkjunni var í gær flutt verk fyrir orgel, stóran kór og hljómsveit eftir Max Reger, tónskáld frá Leipzig.  Minnst er 100 ára ártíðar hans í ár en hann reyndi á sinn hátt að feta í fótspor Bachs.

Verkið sem hljómaði í gær heitir 100. sálmurinn og tekur um 30 mínútur í flutningi. Stjórnandinn flutti skýringar (of langar) í upphafi flutningsins og lýsti hve mikið átak hefði verið fyrir háskólakórinn í Leipzig að takast á við verkið. Kór, organleikara og hljómsveit var fagnað innilega í lok tónleikanna.

Fimmtudagur 26. 05. 16 - 26.5.2016 12:00

Leipzig fylltist af þátttakendum í kaþólskum dögum sem verða hér fram yfir helgi. Þessa daga sækja kaþólikkar alls staðar að úr Þýskalandi og einnig frá öðrum löndum. Á öllum torgum borgarinnar eru útisvið þar sem sungnar eru messur, hljómsveitir og kórar flytja tónlist og ræðumenn tala.

Tug þúsundir manna ganga um miðborgina og njóta þess sem er í boði. Hvarvetna eru sölu- eða kynningartjöld. Hátíðargestir eru auðþekktir á ljósgrænum klútum sem þeir bera um hálsinn. Ljósgrænn er einkennislitur þessarar hátíðar sem nú er haldin í 100. skipti en í fyrsta sinn hér í Leipzig sem er í grunninn mótmælendatrúar eftir að Marteinn Luther var uppi og flutti boðskap sinn í Tómasar-kirkjunni árið 1539.

Um 560.000 manns búa í Leipzig þar af eru um 26.000 kaþólskir eða 4%. Í söfnuðum mótmælenda eru um 70.000 manns eða um 13% íbúa borgarinnar. Að ferðast um austurhluta Þýskalands nú á tímum miðað við það sem áður var er að vegna nýlegrar endurreisnar hér er allt nýlegt eða nýtt og sniðið að nútímaþörfum, gististaðir, veitingahús og verslanir.

Að heimsækja Nikulásar-kirkjuna núna eðs snemma árs 1990 skapar minningu um gjörbreytinguna sem orðið hefur síðan kitkjan var miðstöð mánudags-mótmælanna í aðdraganda þess að múrinn hrundi og kommúnisminn með honum. Þá bar kirkjan merki þess að vera miðstöð fjöldahreyfingar mótmælenda nú var strengjasveit að æfa þar verk í samleik með orgelinu þegar við litum inn í hana í hádeginu í gær.

Gewandhaus-hljómsveitin á rætur aftur til 1743 þegar stofnað var til hljómleika í Gewandahaus, það er húsakynnum vefara í Leipzig. Enn er opið Gewandhaus í Leipzig, glæsilegt tónlistarhús frá 1981 við Agústusar-torg andspænis óperuhúsinu.

Við fórum þar á tónleika hljómsveitarinnar í gærkvöldi, svonefna kynningartónleika, þar sem Vorblótið eftir Stravinsky ar kynnt og flutt. Hinn heimsfrægi Andris Nelsons stjórnaði. Hann er nú að verða 21. Gewandhauskapellmeister, það er aðalstjórnandi samhliða því að vera aðalstjórnandi Boston Symphony Orcherster.

Við Ágústusar-torg stóð einnig háskólakirkjan, Páls-kirkjan, sem Walter Ulbricht kommúnistaleiðtogi lét sprengja í loft upp árið 1968 sjálfum sér og flokknum til eilífrar skammar. Í Leipzig er forvitnilegt safn um Stasi, austur-þýsku öryggislögregluna. Þar má kynnast aðferðunum sem kommúnistar beittu gegn þegnum sínum til að tryggja eigin völd.

Miðvikudagur 25. 05. 16 - 25.5.2016 12:00

Deilurnar um hvort kjósa eigi í haust eða í lok kjörtímabilsins fáeinum mánuðum síðar sýna að ekki er tekist á um djúpstæð ágreiningsmál á stjórnmálavettvangi um þessar mundir. 

Einkennilegast er þegar látið er í veðri vaka að unnt verði á næsta vetri að samþykkja á alþingi lagafrumvörp sem ekki hefur tekist að leiða til lykta frá því að ríkisstjórnin settist að völdum í maí 2013. Í stjórnmálaskýringum af því tagi skauta menn alveg fram hjá þeirri staðreynd að stjórnarflokkana greinir á um mörg mikilvæg mál. Sum þeirra eru þess eðlis að borin von er að ná sameiginlegri niðurstöðu um þau á kosningavetri þegar stjórnmálamenn og flokkar leitast við að skapa sér sérstöðu.

Ríkisstjórnin hefur lokið meginverkefni sínu. Hún hefur mótað og framkvæmt stefnu um leið þjóðarinnar út úr fjármagnshöftunum. Að gera lítið úr þeim sögulega árangri með því að setja á deilur um hvort kjósa eigi nokkrum mánuðum fyrr en síðar er einkennilegt, sérstaklega þegar einn arkitekta hins sögulega árangurs, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, kýs að gera það.

Stjórnmálalífið ber svipmót upplausnar og brýnt er að jarðtengja það sem fyrst. Það verður best gert með kosningum. Um nokkurra missera skeið hefur flokkur pírata, minnsti þingflokkurinn, mælst með mest fylgi meðal kjósenda. Samfylkingin er á vonarvöl en ætlar að ná vopnum sínum undir nýjum formanni. Framtíð Bjartrar framtíðar er óviss. Nýr flokkur Viðreisn, rær á atkvæðamið Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar. Spurt er hvort Sigmundur Davíð njóti trausts sem formaður Framsóknarflokksins og hvort flokkurinn ætli að stíga til vinstri eða halda sig áfram á hinni hverfandi miðju.

Þegar stjórnmálaástandið er á þann veg sem það er núna er eðlilegt að kjósendur komi sem fyrst til sögunnar til að greiða úr flækjunni og ákveða hverjum þeir treysta til að fara með landstjórnina að kosningum loknum.

Sé litið til málefna er einnig eðlilegt að nú við söguleg þáttaskil í efnahagsmálum þjóðarinnar líti flokkarnir inn á við og móti sér afstöðu á grundvelli hins nýja efnahagslega umhverfis og leggi stefnu sína í dóm kjósenda. 

Meginspurningin hlýtur að vera hvort kjósendur vilji að áfram verði haldið í anda borgaralegs sjálfstæðis eða horfið verði til stjórnarháttanna sem einkenndu stjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. Að skýra og skilgreina þá kosti er verðugra og tímabærra viðfangsefni en naga sig í handarbökin vegna ákvarðana um kosningar fyrir lok október 2016.

Þriðjudagur 24. 05. 16 - 24.5.2016 19:00

Í dag flugum við klukkan 06.10 frá Keflavíkurflugvelli til Berlínar með WOW-air. Öll innritunin var rafræn og hef ég ekki reynt hana á þennan hátt áður. Allt var á áætlun og gekk eins og í sögu. Frá Schönefeld-flugvelli fórum við með lest til Leipzig og komum á gististað réttum 12 tímum eftir að við lögðum af stað frá Reykjavík.

Við höfum ekki verið hér síðan 1994 þegar sjá mátti Austur-Þýskaland rísa úr rústum kommúnismans í bókstaflegri merkingu. Hús eftir hús var endurgert og í stað hrörlegra minnismerkja sósíalismans blöstu við glæsilegar gamlar byggingar, hefðu þær ekki verið sprengdar í loft upp og látnar víkja fyrir ömurlegri húsagerðarlist að smekk ráðamanna kommúnista í Austur-Þýskalandi. Á þennan hátt og annan vildu þeir ganga í augun á Kremlverjum sem litu á óskapnaðinn sem varanleg tákn um vald sitt.

Í þessu umhverfi starfaði Vladimír Pútín fyrir sovésku öryggislögregluna KGB. Hefur það vafalaust mótað viðhorf hans til húsagerðarlistar.

Mánudagur 23. 05. 16 - 23.5.2016 15:45

Í morgun var 14. aðalfundur Aflsins, félags qi gong iðkenda. Þar flutti ég skýrslu stjórnar sem má lesa hér.

Í hádeginu tók ég þátt í fundi Amerísk-íslenska verslunarráðsins þar sem við Guðni Th. Jóhannesson forsetaframbjóðandi ræddum íslensk öryggismál. Fundurinn var ákveðinn áður en Guðni Th. bauð sig fram til forseta. Var gott að hann gaf sér tíma til að ræða sögu öryggismálanna frá síðari heimsstyrjöld til ársins 2006. Ég fjallaði um það sem gerst hefur eftir 2006 og þó sérstaklega um þróun mála eftir 2014, þáttaskilin sem urðu með innlimun Rússa á Krímskaga. Hér má sjá mynd frá fundinum sem einn fundarmanna, Guðmundur Snorrason, tók.

Það er tímanna tákn að verslunarráðið telji tilefni til að ræða öryggismálin á fundi sínum. Þau voru um áratugi þungamiðjan í samskiptum Íslendinga og Bandaríkjamanna. Mikil þekking á íslenskum málefnum var þá fyrir hendi í þeim stofnunum Bandaríkjastjórnar sem fjölluðu um öryggismál og íslensk málefni sérstaklega. Hér á landi var einnig djúptæk reynsla af samskiptum við bandarísk stjórnvöld.

Ég var minntur á breytinguna sem orðið hefur fyrir nokkru þegar ég ók gesti frá Bandaríkjunum sem gegnt hafði háum embættum á þeirra vegum, meðal annars á vettvangi NATO, til Keflavíkurflugvallar þar sem hann var að ná í vél heim á leið. Mér til mikillar undrunar virtist hann ekki hafa hugmynd um að í marga áratugi hefði Bandaríkjaher haldið úti stórri herstöð við Keflavíkurflugvöll sem hann lagði í síðari heimsstyrjöldinni.

Varnarsamstarfið við Íslendinga lá greinilega lengi í þagnargildi innan bandaríska stjórnkerfisins eftir að látið var undan kröfu Donalds Rumsfelds, þáv. varnarmálaráðherra, um að loka stöðinni árið 2006. Nú hefur þögnin verið rofin bæði hér á landi og í Bandaríkjunum. Stóra spurningin er hvert umræðurnar leiða okkur.

Í greinum sem Bandaríkjamenn skrifa taka þeir mið af gildi GIUK-hliðsins í kalda stríðinu í þágu eftirlits með kafbátaferðum frá flotastövum Rússa á Kóla-skaga fyrir austan Noreg í norðri. Keflavíkurstöðin gegndi lykilhlutverki í því eftirliti. Landafræðin hefur ekki breyst og ekki heldur gildi Íslands þegar hugað er að öryggi á Norður-Atlantshafi.

Þetta er augljós staðreynd sem minnt er á oftar nú en nokkru sinni fyrr í aldarfjórðung frá hruni Sovétríkjanna.

Sunnudagur 22. 05. 16 - 22.5.2016 19:00

Í dag var endurflutt viðtal Arnþrúðar Karlsdóttur við Davíð Odddsson forsetaframbjóðanda á Útvarpi sögu. Þar var víða komið við en aldrei að tómum kofanum hjá Davíð.

Arnþrúður hafði meðal annars áhuga á að vita hvaða aðferð Davíð sæi til að veita ríkisútvarpinu aðhald. Hann nefndi þá snjöllu lausn að menn gætu merkt við það á skattskýrslu sinni hvort þeir vildu njóta þjónustu ríkisútvarpsins eða ekki. Hann nálgaðist málið meðal annars með þeim orðum að varla gætu ríkisútvarpsmenn andmælt þessu. Þeir töluðu jafnan á þann veg að öll þjóðin nyti þjónustu þeirra og vildi fá að njóta hennar. Þá ætti ekki að fella niður skatt hjá þeim sem vildu ekki að hann rynni til ríkisútvarpsins, þeir yrðu skyldaðir til að láta skattinn renna til annarrar stofnunar sem starfaði í þjóðarþágu.

Það verður spennandi að sjá hvort þessi hugmynd Davíðs nær flugi og einhver stjórnmálaflokkur tekur hana upp á arma sína.

Á vefsíðunni Stundinni birtist í dag úttekt tveggja blaðamanna hennar Ísaks Regals og Jóns Trausta Reynissonar. Úttektin ber fyrirsögnina: Sigurplan Davíðs Oddssonar. Í opnum kafla á netinu segir:

„Hluti af herbragðinu er að fá her sjálfboðaliða til þess að svara gagnrýni fólks á Davíð á Facebook. Annar hluti er að gefa þá mynd af Davíð að hann sé hress og skemmtilegur og standi vaktina betur en aðrir. Þriðji hlutinn hernaðaráætlunar Davíðs er að grafa undan öðrum frambjóðendum.

Blaðamaður Stundarinnar skráði sig sem sjálboðaliða hjá kosningateymi Davíðs Oddssonar til að kynna sér aðferðir umdeildasta stjórnmálamanns síðustu áratuga á Íslandi, sem nú vinnur að því að ná fordæmalausri stöðu með samtengingu forsetaembættisins og ríkisstjórnarinnar.“

Lengra las ég ekki vegna skorts á áskrift á Stundinni. Síðari efnisgreinin gefur til kynna að beitt hafi verið laumulegri aðferð til að afla hernaðaráætlunar Davíðs og hans manna. Í fyrri efnisgreininni er sagt frá hvernig stuðningsmenn Davíðs ætla að kynna og berjast fyrir sinn.

Þyki blaðamönnum Stundarinnar þarna um frumlegt „herbragð“ Davíðsmanna að ræða er það fyrst og síðast til marks um reynsluleysi blaðamannanna af kosningabaráttu. Allt eru þetta sjálfsagðir hlutir í slíkri baráttu, Nýmælið er hve skipulega Davíðsmenn nýta Facebook og hve mikill áhugi er á að hafa samband við Davíð þar. Hann skyldi þó aldrei brjóta ísinn við notkun samfélagsmiðla í kosningabaráttu á Íslandi?

 

 

 

Laugardagur 21. 05. 16 - 21.5.2016 19:00

Sigurður Sigurðarson er ötull bloggari eins og sjá má hér. Hann vekur í dag máls á því að Atli Fannar Bjarkason, sjálfstæður pistlahöfundur [leiðrétt frá upphaflegum texta þar sem hann var sagður blaðamaður] á vefsíðunni kjarninn.is, fær ekki á heilum sér tekið vegna forsetaframboðs Davíðs Oddssonar. Atli Fannar býsnast yfir því að á mbl.is hafi birst frétt undir fyrirsögninni að 27.000 manns hafi horft á Davíð svara spurningum í beinni útsendingu á Facebook-síðu símafyrirtækisins Nova nú í vikunni. Dregur Atli Fannar fjöldann í efa og segir í grein undir fyrirsögninni: Er öllum drullusama um Morgunblaðið? að deila megi í fjöldann með þremur. Sigurður Sigurðarson segir af þessu tilefni:

„Annars er það grátlega fyndið að lesa tilraun Atla Fannars til að telja niður þá sem fylgdust með upptöku af viðtalinu við Davíð Oddsson. Með tæknilegum útskýringum fær hann það út að aðeins 9.000 manns hafi horft á viðtalið, ekki 27.000.

Hann deilir í töluna með tveimur eða þremur. „En þetta snýst ekki um það,“ segir Atli. Lesandanum er það ljóst. Þetta snýst eiginlega um Atla Fannar og heift hans gegn Davíð, en hverjum er ekki „drullusama“ um geðheilsu hins fyrrnefnda.

Davíð var reglulega fyndinn og skemmtilegur í þessu viðtali, ég hlustaði á það allt og skemmti mér afar vel.“

Davíð Oddsson sló í gegn í þessu viðtali eins og öðrum sem hann hefur veitt í kosningabaráttunni. Á ensku nota menn orðið narrative til að lýsa því hvernig frambjóðendur eða aðrir ná til fólks með boðskap sínum, að hann hafi innihald sem höfðar til fólks. Augljóst er á viðbrögðum við samtölum við Davíð í fjölmiðlum að það sem hann hefur fram að færa höfðar til fólks og hreyfir við því. Enginn annar frambjóðandi hefur slíka skírskotun og þess vegna er líklegt að þeir verði leiðinlegir eftir því sem oftar er talað við þá. Engin hætta er á að Davíð lendi í þeirri stöðu.

Fleira er fyndið við uppnámið hjá Atla Fannari en það sem Sigurður nefnir. Fyrir nokkrum vikum skömmuðu Atli Fannar og félagar Morgunblaðið fyrir að segja 9.500 manns hafa komið saman til mótmæla á Austurvelli 4. apríl en ekki 23.000 eins og fjölmiðlavinir mótmælenda nefndu. Lögreglan staðfesti að Morgunblaðið fór með rétt mál. Ætli Atli Fannar leiti til hennar núna vegna fjöldans sem heimsótti Nova á meðan Davíð svaraði þar spurningum?

 

Föstudagur 20. 05. 16 - 20.5.2016 18:15

Samtal mitt á ÍNN við Jón Atla Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, er komið á netið og má sjá það hér.

Fyrir þingkosningar vorið 2009 samþykkti landsfundur Sjálfstæðisflokksins málamiðlunartillögu okkar Friðriks Sophussonar um að ekki yrði sótt um aðild að ESB nema umsóknin yrði fyrst samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Strax eftir fundinn tóku ESB-aðildarsinnar innan flokksins að agnúast út í þessa tillögu og fundu henni margt til foráttu. Tillagan var höfð að engu á alþingi sumarið 2009. Sótt var um aðild í krafti baktjaldamakks undir forystu Össurar Skarphéðinssonar með stuðningi vinstri grænna sem sviku með því kosningaloforð Steingríms J. Sigfússonar.

Þegar við blasti í hve miklar ógöngur stefndi í ESB-viðræðunum samþykkti landsfundur sjálfstæðismanna 24. febrúar 2013 að þeim skyldi hætt og þær ekki hafnar að nýju nema þjóðin samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá taldi landsfundurinn að loka ætti Evrópustofu, áróðursstofu ESB á Íslandi. Við þessa samþykkt umturnuðust áköfustu ESB-aðildarsinnarnir innan Sjálfstæðisflokksins undir merkjum Sjálfstæðra Evrópusinna þar sem Benedikt Jóhannesson var formaður.

Eftir landsfundinn sagðist Benedikt tala fyrir munn margra sem teldu sig „landausa“ vegna ESB-ályktunar landsfundarins. Þótti honum „kjánalegt“ að ályktað hefði verið gegn Evrópustofu og íhlutun sendiherra ESB í íslensk stjórnmál. Taldi hann þetta flokknum „til mikillar skammar“ eins og hann orðaði það í samtali við Fréttablaðið 4. mars 2013.

Nú finnst líklega öllum uppnámið vegna ályktunarinnar um Evrópustofu kjánalegra en efni ályktunarinnar enda var það rökrétt afleiðing af stöðvun ESB-viðræðnanna að stofunni yrði lokað.

Benedikt hefur haldið lífi í hreyfingu sinni og ætlar nú að stofna flokkinn Viðreisn. Evrópustefnan hefur hins vegar útvatnast. Benedikt segir til dæmis á vefsíðunni heimur.is 8. maí 2016: „Þjóðin kjósi strax um hvort ljúka skuli aðildarviðræðum við Evrópusambandið til þess að ná aðildarsamningi sem borinn verður undir þjóðina.

Hann fellst með öðrum orðum á meginstefnu Sjálfstæðisflokksins í ESB-málinu. Ekki er minnst á ESB í auglýsingu um stofnfund Viðreisnar. Benedikt þegir um ESB-afstöðu sína í atkvæðavon. Samt segir hann í ofannefndri grein: „Þjóðin þarf ekki þingmenn sem svíkja loforð.“

Viðreisn hefur fengið listabókstafinn C, gamla staf Sósíalistaflokksins sameiningarflokks alþýðu. Það hefði átt að leyfa Viðreisn að hafa stafina EC til að staðfesta gæðastimpil Evrópusambandsins.

 

Fimmtudagur 19. 05. 16 - 19.5.2016 19:00

Það vakti athygli á dögunum að Magnús Orri Schram, formannsframbjóðandi í Samfylkingunni, telur Samfylkinguna standa í vegi fyrir því að fylgi flokksins aukist og þess vegna beri að ýta henni til hliðar. Í Fréttablaðinu í dag birtist grein eftir Magnús Orra þar sem hann segir lesendum hvað eigi að koma í stað flokksins. Hann segir:

Skrifstofa stjórnmálahreyfingarinnar á að vera á jarðhæð við fjölfarna götu þar sem er vítt til veggja og hátt til lofts. Dýnamískt umhverfi með kaffihúsi og félagsmiðstöð. Einhvers konar nýsköpunarhús stjórnmálanna. Neistaflug og nýjungar. Stjórnmálahreyfingar mega ekki staðna heldur eiga þær sífellt að leitast við að ná sem bestu sambandi við almenning.“

Af þessum orðum má ráða að formannsframbjóðandinn vill breyta Samfylkingunni í kaffihús og félagsmiðstöð. Hlýtur fylgi við hann að margfaldast við þetta.

Rætt var við Guðna Th. Jóhannesson forsetaframbjóðanda í Spegli ríkisútvarpsins í dag og snerist viðtalið um sögulegar tilvísanir Guðna Th. og skýringar hans á viðhorfum forseta í áranna rás. Augljóst er að styrkur hans sem frambjóðanda felst í þekkingu hans á forsetasögunni.

Í þessu ljósi er því ekki undarlegt að þeir sem keppa við Guðna Th. líti til sögunnar þegar rætt er um framboð hans og skoðanir. Þetta fer þó greinilega fyrir brjóstið á einhverjum, þar á meðal álitsgjafanum Agli Helgasyni. Honum finnst einkennilegt að rætt sé um afstöðu Guðna Th. til Icesave eða þorskastríðanna. Í von um að slá umræðum um þessi mál á dreif segir Egill í nýlegum pistli á Eyjunni: „Þá má kannski bæta við – hver var þín afstaða til ritsímans? Fjárkláðans (sem olli því á sínum tíma að Jón forseti móðgaðist). Og ef til vill má fara enn lengra: Hvernig stendurðu gagnvart kristnitökunni?“

Á sínum tíma var Egill málsvari rétttrúnaðarins í Icesave-málinu og um ESB-umsóknina. Nú er krafa Egils að allt sem sagt var eftir reglum rétt þenkjandi af forsetaframbjóðandanum Guðna Th., skuli í raun afmáð af spjöldum sögunnar, og þeir sem hafi fyrri orð hans eftir við kjósendur séu varhugaverðir. Líta beri á Guðna Th. sem pólitískan hvítvoðung frá framboðsdegi.

Guðna Th. er enginn greiði gerður með kröfum um þöggun hans vegna. Hún vegur beinlínis að ástæðu framboðs hans: hve oft hann hefur verið kallaður til sem fréttaskýrandi vegna þekkingar á sögunni.

Miðvikudagur 18. 05. 16 - 18.5.2016 15:00

Í dag ræddi ég við Jón Atla Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, í þætti mínum á ÍNN. Nýlega var stefna Háskóla Íslands fram til 2021 birt og skýrir rektor nokkur atriði hennar. Þátturinn verður frumsýndur klukkan 20.00 í kvöld á rás 20 og síðan er hann aðgengilegur á tímaflakkinu.

Furðuskrifin vegna forsetakosninganna taka á sig ýmsar myndir. Ein birtist á vefsíðunni Stundinni þar sem tveir blaðamenn, Atli Már Gylfason og Jón Trausti Reynisson, leggja út af leiðara Morgunblaðsins í gær. Pistillinn hefst á þeim orðum að „leynd hvíli yfir höfundi“ leiðarans eins og það sé sérstakt álitaefni en allir leiðarar blaðsins eru nafnlausir og hafa verið áratugum saman, þar er lýst skoðun blaðsins en ekki einstaklings.

Síðan taka höfundarnir við rökstyðja þá skoðun sína að Morgunblaðið geri „lítið úr“ fjölmiðlamönnum vegna gagnrýni þeirra á söfnun nafna til stuðnings framboði Davíðs Oddssonar meðal starfsmanna Morgunblaðsins. Hið sérkennilega er að engu er líkara en hvorki Atli Már né Jón Trausti hafi lesið leiðarann því að athugasemdir þeirra snúast um orð í honum sem eru tilvitnun í texta sem birtist á vefsíðunni Eyjunni.

Skrif þeirra félaga á Stundinni þjóna þeim tilgangi að vega að trúverðugleika Morgunblaðsins. Málið snýst hins vegar í höndum þeirra vegna þess hve þeir standa illa að verki. Sé þráðinn að rekja til áróðursmanna Guðna Th. ættu þeir að gæta sín á að ýta ekki undir stuðning við hann á Stundinni. Vinnubrögðin sæma ekki framboðinu og vinna gegn því.

Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi vandaði ríkisútvarpinu ekki kveðjurnar þegar hann sat fyrir svörum í Speglinum klukkan 18.00 þriðjudaginn 17. maí. Arnar Páll Hauksson fréttamaður ætlaði að setja Ástþór út af laginu í upphafi samtalsins með því að nefna tölur úr skoðanakönnunum sem sýndu að stuðningur við Ástþór hefði ekki aukist þótt hann hefði margsinnis reynt að ná kjöri sem forseti. Taldi Ástþór að fréttamaðurinn ætti frekar að vinna á kassa í Bónus en titla sig fréttamann því hann væri svo vilhallur og ófaglegur! Hér má heyra brot af viðtalinu.

 

 

 

Þriðjudagur 17. 05. 06 - 17.5.2016 14:00

Hafi einhverjir haldið að Samfylkingin fengi byr í seglin við að Árni Páll Árnason félli frá framboði til formanns flokksins hafa þeir orðið fyrir vonbrigðum þegar þeir lásu í morgun niðurstöður nýrrar könnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem sýnir flokkinn með aðeins 8.9% fylgi.

Séra Gunnlaugur Stefánsson, fyrrverandi þingmaður Alþýðuflokksins, birtir grein í Fréttablaðinu í morgun þar sem hann gagnrýnir Árna Pál og Magnús Orra Schram formannsframbjóðanda fyrir „að afneita eða afskræma sögu flokksins, upphefja meint „mistök“ með stóryrðum og biðja kjósendur afsökunar á tilveru sinni“. Gunnlaugur telur flokk sem hagar málflutningi sínum á þennan veg „tæpast“ geta „notið trausts hjá þjóðinni“.

Undir þessa skoðun skal tekið. Uppdráttarsýkin sem einkennir málflutning forkólfa Samfylkingarinnar ýtir stoðum undir réttmæti fullyrðinga um að flokkurinn og forystumenn hans séu stefnulaus strá í vindi skoðanakannanna.

Af góðmennsku reynir Gunnlaugur að fegra Samfylking án þess að innistæða sé fyrir lofinu. Hér skulu nefnd fjögur atriði þessari fullyrðingu til staðfestingar:

1.   Það er ekki rétt hjá Gunnlaugi að Samfylkingin hafi verið stofnuð „ af öflugum stjórnmálahreyfingum“. Þar sameinuðust flokkar og flokksbrot í veikleika.

﷒2. Það er rangt að flokkurinn hafi frá stofnun „gegnt stóru hlutverki í stjórnmálum“. Af 16 ára tilveru hefur hann verið 6 ár í ríkisstjórn og hófst hnignun hans eftir að hafa átt forsætisráðherra í rúm 4 ár.

﷒3. Það er rangt að farsæld þjóðarinnar í dag megi rekja til ríkisstjórnarára Samfylkingarinnar 2009 til 2013.

4. Það er blekking að í útlöndum skynji menn ágæti verka Samfylkingarinnar betur en hér á landi.

Varanlegasta sögulega framlag Samfylkingarinnar var að standa sem ríkisstjórnarflokkur að setningu neyðarlaganna í október 2008. Um þetta vilja málsvarar Samfylkingarinnar sem minnst tala vegna tilrauna til þöggunar á setu ráðherra flokksins í ríkisstjórn á tíma bankahrunsins – þá var þó viðskiptaráðherrann meira að segja úr Samfylkingunni.

Í lok greinar sinnar segir Gunnlaugur að Samfylkingin njóti ekki traust nema að „þekkja sögu sína og uppskeru verkanna til heilla fyrir þjóðina“. Auðnist  flokknum þetta ekki, liggi „Alþýðuflokkurinn í dvala og nærtækt að vekja hann til verka“. 

Engum er til framdráttar og síst af öllu fylgislitlum stjórnmálaflokki að saga hans sé fegruð í blekkingarskyni eins gert er í grein Gunnlaugs Stefánssonar. Er ekki tímabært að vekja Alþýðuflokkinn?

 

Mánudagur 16. 05. 16 - 16.5.2016 19:15

Í allan dag sat ég málstofu í Snorrastofu í Reykholti um höfundarverk Snorra Sturlusonar og viðtökur þess. Viðfangsefni fyrirlesarana sýndu að líta ber til margra þátta þegar hugað er að höfundarverki Snorra. Leitað var svara við spurningunni um höfund eða höfunda þegar litið er til miðaldaverka og hvort æðri eða umfram merking fælist í verkum Snorra. Rætt var um melankólíu á tímum Snorra, sagnaritun og brúðkaup í Reykholti 1241 og endurritarann Snorra. Þá var litið til Snorra og mótunar ensku þjóðarinnar, Snorra og Norðmanna í Ameríku og loks til ímyndar Snorra og Reykholts í nútímanum.

Málstofan markar upphaf nýs rannsóknarverkefnis á vegum Snorrastofu um höfundarverk Snorra og í ávarpi við setningu þess, sem má lesa hér, gerði ég grein fyrir öðru rannsóknarverkefni sem nú er ýtt úr vör með aðild Snorrastofu, Þingeyraverkefninu.

Áhugi á miðaldamenningu á Íslandi er mikill og vaxandi eins og sést best af mikilli aðsókn á fyrirlestra sem Miðaldastofa Háskóla Íslands skipleggur en þeir snerust á liðnum vetri um Sturlungu.

Snorrastofa kom til sögunnar fyrir 20 árum og mátti ekki vera seinna á ferðinni til að hún gæti orðið virkur þátttakandi og í raun nýsköpunarvettvangur í fræðilegu miðaldabyltingunni sem við kynnumst nú í upphafi 21. aldar.

Ánægjulegt er að ríkisstjórnin hefur kynnt áætlun um að hús íslenskra fræða rísi á því tímabili sem ný fjárlagaáætlun spannar. Það er ekki vansalaust að handritunum sé ekki búin umgjörð sem hæfir þeim og aðstöðu til að rannsaka þau.

Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á að hér sé sköpuð aðstaða til alþjóðlegs háskólanáms í ýmsum greinum s.s. jarðfræði og sjávarútvegi. Ekki er síður mikilvægt að skapa aðstöðu á heimsmælikvarða fyrir þá sem vilja rannsaka íslenskan menningararf og miðla honum til umheimsins.

Hvað sem líður höfundarverki Snorra er hann mikilvægt „brand“, svo að vitnað sé til nútíma markaðsfræða, sem ekkert fær haggað og unnt er að nýta á margvíslegan hátt Íslandi og Íslendingum til framdráttar og til að bregða allt annarri mynd á þjóðina en birtist í fjármálabröltinu.

Til Reykholts koma tug þúsundir manna ár hvert í einskonar pílagrímsför. Rannsóknir sem þar hafa verið stundaðar undanfarin ár leggja grunn að enn öflugri kynningu á Snorra en til þessa. Hið ótrúlega er hve erfitt er að afla skilnings á því meðal fjársterkra aðila í ferða- eða fjármálaheiminum hvílík tækifæri felast í að gera veglegan minjagarð um Snorra í Reykholti.

 

Sunnudagur 15. 05. 16 - 15.5.2016 21:10

Davíð Oddsson opnaði kosningaskrifstofu sína við Grensásveg föstudaginn 13. maí. Ég va fjarri góðu gamni ef marka má frásagnir þeirra sem sóttu viðburðinn. Davíð fór á kostum í ræðu sinni. Er ekki að efa að hann auki fylgi sitt nýti hann kosningabaráttuna til að hafa samband við sem flesta kjósendur. Davíð hefur einstakan hæfileika til að vinna fundi á sitt band og fólk hefur almennt ánægju af að hlusta á hann því að hann dregur aldrei af sér.

Hann var í samtali við Björn Inga Hrafnsson á Eyjunni í dag og sagðist ekki ætla að þiggja laun sem forsetu heldur láta eftirlaun sín duga. Ekki er að efa að þetta óvænta innlegg í baráttuna á eftir að skerpa hana. Þá hefur Davíð ítrekað gagnrýni sína á Guðna Th. vegna afstöðu hans til ESB og Icesave.

Ummæli Guðna Th. um afstöðu sína til ESB í samtali mínu við hann á ÍNN voru afdráttarlaus. Hann vill ekki að sótt sé um aðild að ESB að nýju nema það sé samþykkt í þjóðaratkvæðagfreiðslu. Hann tók sæti í nefnd á vegum utanríkisráðuneytisins sem átti að vera einskonar brú gagnvart almenningi og sagði að í því starfi hefði hann áttað sig á að umsóknin var í raun ónýt vegna þess hvernig að henni var staðið.

Miðað við umræðurnar á þessum tíma vaknar spurning um hvers vegna Guðni Th. lýsti ekki þessari afstöðu á meðan hann sat í nefndinni. Þsð hefði að minnsta kosti verið í samræmi við tilgang nefndarinnar: að upplýsa almenning um stöðu mála.

Ég skrifaði reglulega um ESB-viðræðurnar á vefsíðuna evropuvaktin.is og undraðist oft hvað þessi nefnd á vegum utanríkisráðuneytisins væri að gera. Taldi ég hana setta á fót að kröfu ESB til að segja mætti að skipulegt samráð væri við fulltrúa almennings.

Í samtalinu á Eyjunni sagði Davíð einnig að Guðni Th. hefði lýst yfir því að þorskastríðin væru ekki hetjudáð heldur þjóðsaga og mont. Sagði Davíð það alrangt, þarna hefði verið mikill sigur unninn hjá lítilli þjóð sem þorði að færa út landhelgina Hér má sjá fyrirlestur Guðna Th. um þetta efni.

 


Laugardagur 14. 05. 16 - 14.5.2016 12:00

Fréttastofa ríkisútvarpsins er eini fjölmiðillinn sem gerir opinberri heimsókn Finnlandsforseta og fjögurra norrænna forsætisráðherra til Baracks Obama Bandaríkjaforseta föstudaginn 13. maí nokkur skil. Sýnir þetta hve sorfið er að öðrum fjölmiðlum í landinu að þeir hafi hvorki burði né áhuga á að sýna þessum einstaka viðburði þá athygli sem ber.

Áhugi á utanríkismálum og þróun þeirra er í lágmarki á fjölmiðlum. Hið einkennilega er að þeir nota ekki takmarkaðan mannafla eða rými til að einbeita sér að þeim þáttum utanríkismálanna sem snerta Ísland og okkar heimshluta mest. Ekki er unnt að treysta því að nokkurt blað haldi til dæmis skipulega utan um fréttir af þróun öryggismála í austurhluta Evrópu eða á Eystrasalti. Breytingarnar sem hafa orðið þar á tveimur árum eru í raun með ólíkindum en hafa farið fyrir ofan garð og neðan hér á landi vegna áhugaleysis fjölmiðlamanna.

Á vefsíðunni vardberg.is hef ég um nokkurt skeið leitast við að segja fréttir af þessum breytingum öryggismála með því að birta fréttir sem aflað er úr mörgum ólíkum fjölmiðlum en allar hafa í raun sama inntak: spennan vex með auknum hernaðarmætti og framtíðin er óvissari en áður.

Þótt ekki hafi verið hamrað á þessu í ræðum manna í Washington föstudaginn 13. maí og oft hafi verið slegið á létta strengi í ræðum manna eins og sjá má hér þar sem Washington Post segir Sigurð Inga Jóhannsson hafa slegið í gegn með skemmtilegheitum í kvöldverði forsetahjónanna er ljóst að tilefni heimsóknarinnar og undirtónn er alvarlegur og til þess að árétta samstöðu Bandaríkjanna og Norðurlandanna á óvissu- og jafnvel hættutímum.

Það eitt að ríkin öll eigi sameiginlega fulltrúa í boði Bandaríkjaforseta hefði verið óhugsandi fyrir fáeinum árum vegna stefnu Finna og Svía í öryggismálum.

Í gær birtist grein eftir mig í Morgunblaðinu sem lesa má hér. Þar bendi ég á neikvæða þróun útlendingamála hvarvetna í nágrenni okkar og á það mat Europol að smyglarar standi 90% að baki komu fólks til Evrópulanda og græði á því stórfé. Stærstu hópar hælisleitenda hér eru frá Albaníu og Makedóníu, öruggum löndum. Ný útlendingalög eru til umræðu á alþingi. Lögreglustjórar telja samþykkt þeirra minnka valdheimildir lögreglu. Ekkert er um málið rætt á þingi. Þetta sannar enn almennt andvaraleysi í utanríkis- og öryggismálum.

Föstudagur 13. 05. 16 - 13.5.2016 19:30

Viðtal mitt við Guðna Th. Jóhannesson forsetaframbjóðanda á ÍNN 11. maí er komið á netið og má sjá það hér.

Í Fréttablaðinu í dag er langt viðtal við Ólaf Ragnar Grímsson. Þar segist hann enn og aftur hafa tilkynnt framboð sitt 18. apríl af ótta við að enginn þeirra sem þá voru í kjöri nyti þess stuðnings sem þyrfti til að geta staðið undir kröfum sem gerðar eru á hendur forsetaembættinu.

Í viðtali mínu við Guðna Th. segir hann að sunnudaginn 17. apríl hafi verið ákveðið að hann byði sig fram. Mánudagskvöldið 18. apríl var Guðni Th. spurður hvort hann ætlaði ekki að bjóða sig fram. Hann sagði að mikið þyrfti að breytast til að hann byði sig fram gegn sitjandi forseta. Þetta gerði hann þó fimmtudaginn 5. maí. Í samtali okkar má heyra rök hans fyrir því.

Davíð Oddsson kynnti framboð sitt sunnudaginn 8. maí og mánudaginn 9. maí afturkallaði Ólafur Ragnar ákvörðunina um eigið framboð. Eftir framboð Guðna Th. og Davíðs „var komin upp sú ánægjulega staða að þjóðin átti kost á því að velja milli fræðimanns sem hefur mesta þekkingu allra núlifandi Íslendinga á forsetaembættinu og þess sem lengst hefur verið forsætisráðherra í lýðveldissögunni og haft samskipti við forseta, bæði Vigdísi og mig,“ segir Ólafur Ragnar í Fréttablaðinu og einnig:

„Þess vegna er ég svona glaður. Vegna þess að ég verð að skilja við embættið á þann hátt að þjóðin með góðum hætti finni sér nýjan forseta og hann geti tekið við á þann hátt að embættið sé sterkt, samband þess við þjóðina traust og forseti skilji sig frá þessari hringiðu sem einkennir flokkana, Alþingi og þann þátt lýðræðiskerfis.“

Hér er forsetinn fráfarandi að lýsa eigin skoðun. Menn geta verið honum sammála eða ósammála. Hitt er næsta undarlegt að kalla það „frjálslega umgengni við sannleikann“ að menn lýsi rökum að baki eigin ákvörðun. Þetta gerir álitsgjafinn Egill Helgason þó í pistli á Eyjunni í dag vegna viðtalsins við Ólaf Ragnar og segir hann „reyna að halda andlitinu“ þrátt fyrir eigin mistök. Eftir að hafa rætt málið stuttlega við Ólaf Ragnar er ég sannfærður um að óskammfeilni Egils er ekki á rökum reist.

 

Fimmtudagur 12. 05. 16 - 12.5.2016 12:00

Nútíminn birtist í ýmsum myndum. Ein þeirra birtist á visir.is í dag. Þar segir:

 „Mér finnst þessi spurning lýsa gamaldags viðhorfi, ef ég á að segja alveg eins og er,“ segir Magnús Orri Schram, léttur í bragði, þegar hann er spurður hvers vegna hann vill verða formaður í flokki sem hann vill leggja niður.“

Tilefni spurningarnar er nýjasta tilraun Magnúsar Orra til að „komast inn í umræðuna“ sem formannsefni Samfylkingarinnar. Tilraunin vekur athygli fjölmiðlamanna. Hún snýst um að Samfylkingin hverfi með niðurlagningu. Rætt var við formannsframbjóðandan í ríkisútvarpinu í morgun og þar sagði hann meðal annars:

„Ég hef uppgötvað það að Samfylkingin sé ákveðin hindrun í veginum fyrir því að tala til fólks.  Ég held að það sé fullt af fólki sem sé sammála okkur í póltík, en er annaðhvort landlaust, utan flokka eða í öðrum flokkum. Þá á Samfylkingin auðvitað að hugsa sér að verkefnin séu miklu stærri en flokkurinn. Við eigum að setja verkefnin númer eitt. Ég tel að besta leiðin sé að taka Samfylkinguna til hliðar, með autt blað fyrir framan okkur og átta okkur á því með hvaða hætti við getum fengið fleiri að borðinu vegna þess að í kjarnanum er það skoðun mín að það séu ekki málefnin sem eru vandamálið. Ég held að þessar nálganir eigi hljómgrunn meðal þjóðarinnar. Ef við erum samt með aðeins 7% fylgi þá er það klárlega vandamálið hvernig flokkurinn er."

Verði þessi skoðun til að afla Magnúsi Orra fylgis í formannskjöri Samfylkingarinnar sem nú stendur staðfestir það aðeins dauðadóm hans yfir Samfylkingunni. Að hann telji flokknum helst til bjargar að hefja viðræður við Bjarta framtíð vekur spurningu um hvort kjörorð hins sameiginlega framboðs flokkanna í haust verði: Sælt er sameiginlegt skipbrot.

Sé það nútíminn í stjórnmálum að leggja niður flokka og stofna nýja til að ná árangri er það ekki mjög frumlegt úrræði. Þegar Magnús Orri talar um „fullt af fólki“ sem sé „sammála okkur í pólitík“ er æskilegt að vita hvaða pólitík hann boðar. Helst virðist það eitthvert miðjumoð en fréttir frá fjölda landa sýna að boðskapur af því tagi nýtur sífellt minna fylgis. Flokkar jafnaðarmanna og sósíalista eru illa leiknir vegna þess í Austurríki, Þýskalandi og Frakklandi svo að dæmi séu nefnd.

 

Miðvikudagur 11. 05. 16 - 11.5.2016 17:10

Í dag ræddi ég við Guðna Th. Jóhannesson forsetaframbjóðanda í þætti mínum á ÍNN. Samtalið verður frumsýnt kl. 20.00 í kvöld og verður síðan á tveggja tíma fresti og einnig á tímaflakki Símans.

Í skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt var í morgun er Guðni Th. með tæplega 70% stuðning, Davíð Oddsson með tæp 14% og Andri Snær Magnason tæp 11%.

Í tilefni af könnuninni sagði Davíð við Bylgjuna:

„Þessi könnun er tekin eftir einn dag þar sem framboð mitt hefur legið fyrir og Guðni Jóhannesson fær mjög fína útkomu og ég óska honum til lukku með það. Ég las hana yfir þegar ég var að borða grautinn í morgun og ég verð að viðurkenna að ég bætti nokkrum rúsínum út á til að auka sætabragðið að öðru leyti er ekkert um þetta að segja.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, birti í dag í Morgunblaðinu og á heimasíðu sinni upplýsingar um eignir og skattgreiðslur sínar og Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur eiginkonu sinnar frá árinu 2007 til 2015. Sigmundur hvetur aðra kjörna fulltrúa til þess að birta ámóta upplýsingar.

Hafi Sigmundur Davíð haldið að þessar ítarlegu upplýsingar dygðu til að stöðva hælbítana rætist það ekki. Þeir halda áfram að glefsa í hann og meta framtakið einskis. Að stjórnmálamenn haldi áfram á þessari braut friðar ekki óvini þeirra heldur er eins og ákafi þeirra í að geta velt sér upp úr einhverju aukist við hvert skref sem stigið er til móts við þá.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, spyr réttilega á FB-síðu sinni:

„Viljum við svona samfélag?

Samræmist þetta firðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu sem er stjórnarskrárvarið?

Samræmist þetta jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar þar sem segir að allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta manréttinda án tillits til m.a. efnahags?“

Menn hika ekki við að grípa til rangfærslna til að sverta Sigmund Davíð. Gísli Baldvinsson bloggari er í þeim hópi þegar hann segir:

„Það skýrasta við framlagninguna er að hér sést skýrlega auðlegðarframlag Sigmundar og konu hans. Sjálfur lagði hann þennan skatt af ásamt fjármálaráðherra 2013. Þetta eru heilar 85 miljónir.“

Hið rétta er að Jóhanna og Steingrímur J. sem lögðu á þennan dæmigerða skatt vinstrisinna, auðlegðarskattinn, ákváðu að hann skyldi álagður í nokkur ár og var ekki hróflað við þeirri ákvörðun af nýrri ríkisstjórn eftir kosningar vorið 2013.

Þriðjudagur 10. 05. 16 - 10.5.2016 14:40

Hér var í gær vitnað til þess sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Bylgjunni sl. sunnudag um samskipti sín við Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Ólaf Ragnar Grímsson þriðjudaginn 5. apríl, daginn sem Sigmundur Davíð boðaði afsögn sína sem forsætisráðherra.

Frásögn Bjarna varð til þess að Ólafur Ragnar ræddi málið frá sinni hlið í sjónvarpsfréttum klukkan 22.00 mánudaginn 9. maí, sama dag og hann boðaði að hann yrði ekki í framboði að nýju sem forseti Íslands. Á ruv.is er vitnað í  Ólaf Ragnar á þennan veg:

Venjan hefur nú eiginlega verið sú að menn hafa ekki verið að greina frá svona atburðum fyrr en í ævisögu sinni eða þegar dagbækur eða minnisgreinar eru birtar mörgum áratugum síðar. En fyrst Bjarni Benediktsson nefnir þetta þá get ég staðfest það að það virðist vera með þeim hætti að þáverandi forsætisráðherra hafi ekki rætt það við Bjarna Benediktsson að hann væri á leiðinni til Bessastaða með því að óska eftir þingrofi sem er nánast alveg ótrúlegt.“

Segir Ólafur Ragnar. Atburðarásin hafi satt að segja verið ótrúleg. Hann hafi sjálfur ekki viljað að forsetaembættið væri notað og því ákveðið að halda blaðamannafund eftir fundinn með Sigmundi Davíð. Ólafur Ragnar segir að Sigmundur hafi misskilið þingrofsvaldið. 

„Þetta var bara eins manns för hingað til Bessastaða til þess að knýja á um það í krafti misskilnings á þingrofsvaldinu að hann einn gæti rofið þing.“

Til þessa atviks verður lengi vitnað þegar stjórnlaga- og stjórnmálasaga Íslands er skoðuð. Dómur stjórnmálasögunnar verður að Ólafur Ragnar hafi brugðist við á skynsaman hátt þegar hann taldi nauðsynlegt að hugsa málið og skýra frá afstöðu sinni. Dómur stjórnlagafræðinnar kann að verða flóknari. Þegar hann er felldur er fyrst nauðsynlegt að vita fyrir víst hvort Sigmundur Davíð lagði beina tillögu fyrir forseta Íslands eða sýndi honum aðeins embættismenn og ríkisráðstöskuna.

Ólafur Ragnar ákvað að hætta við að hætta 18. apríl sama dag birtist þessi frétt á hringbraut.is:

„Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, er í hópi þeirra sem styðja undirskriftasöfnun sem nú þegar hefur verið hrundið af stað á Netinu þar sem skorað er á Ólaf Ragnar Grímsson að hætta. [...]

Enginn bað þig um að halda áfram, segir í áskoruninni.“

Ólafur Ragnar hætti 9. maí og Birgitta sagði: „ „Mér finnst þetta svolítið ómaklegt..“ við ríkissjónvarpið.

 

Mánudagur 09. 05. 16 - 9.5.2016 14:30

Þremur vikum eftir að  Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti (18. apríl) að hann yrði þrátt fyrir allt í framboði til embættis forseta Íslands í sjötta sinn skýrði hann frá því í dag (9. maí) að hann hefði fallið frá ákvörðun um framboð. Hann sendi frá sér tilkynningu þar sem sagði meðal annars:

Af skyldurækni og ábyrgð gagnvart þeim sem lengi höfðu sýnt mér mikið traust tilkynnti ég 18. apríl að ég myndi verða við þessum óskum en lýsti jafnframt yfir, að ég myndi taka því vel ef í ljós kæmi að aðrir nytu nægilegs trausts þjóðarinnar til að gegna embættinu. “

Eftir að Davíð Oddsson og Guðni Th. Jóhannesson hafa boðið sig fram er eðlilegt að Ólafur Ragnar endurskoði afstöðu sína og er niðurstaða hans rökrétt.

Rætt var við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, á Bylgjunni að morgni 8. maí og spurði Páll Magnússon hann meðal annars hvers vegna hann hefði hrósað Ólafi Ragnari fyrir viðbrögð hans þriðjudaginn 5. apríl eftir fund hans með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra þegar aðrir segðu að forsetinn hefði dregið Sigmund Davíð „yfir naglabrettið“ á blaðamannafundi eftir fund þeirra.

Bjarni sagði þetta hafa verið sína „upplifun“ á því sem gerðist þennan dag. Það hefði orðið algjör trúnaðarbrestur milli forseta og forsætisráðherra á fundi þeirra og forseti hefði viljað skýra sína hlið strax eftir fundinn áður en sagt yrði frá honum á annan veg.

Bjarni sagði margt hafa verið „óvanalegt“ þennan dag. Hann hefði hitt Sigmund Davíð milli klukkan 09.00 og 10.00 þennan dag og þá hefði forsætisráðherra ekki sagt sér að hann væri að fara til Bessastaða „með þingrofið“ eins og Bjarni orðaði það. Þetta gerði forsætisráðherra fyrir hádegi þennan sama dag.

Eftir hádegi batt Sigmundur Davíð síðan enda á ráðherraferil sinn á þingflokksfundi framsóknarmanna. Hann sagði síðar að hann hefði viljað hafa heimild til þingrofs tilbúna til varnar uppreisnarmönnum gegn Bjarna innan Sjálfstæðisflokksins!

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ritar grein í Morgunblaðið í dag sem lýkur á þessum orðum:

„Þannig liggur fyrir að Gylfi Magnússon, stjórnarmaður, vildi stefna að því að lágmarka skatta Orkuveitunnar með notkun aflandsfélags – þó Gylfi Magnússon, háskólakennari, finni aflandsfélögum allt til foráttu. Gylfi Magnússon, ráðherra, hafði ekki meira við aflandslögsögur að athuga en að hann ákvað að ráða guðföður aflandsfélaga Íslendinga, sem forstjóra Fjármálaeftirlitsins!“

 


Sunnudagur 08. 05. 16 - 8.5.2016 12:00

Davíð Oddsson hefur ákveðið að leita eftir stuðningi í forsetakosningunum 25. júní. Hann orðaði framboð sitt á þann veg í samtali við Pál Magnússon á Bylgjunni að framboðsfrestur rynni út 21. maí og fram til þess tíma hefði hann tóm til að taka endanlega ákvörðun. Ekki fór hins vegar á milli mála að Davíð hefur gert upp hug sinn og rökstuddi framboð sitt á öflugan hátt eins og honum einum er lagið.

Við þetta verða enn þáttaskil í kosningabaráttu sem fáir væntu að yrði stormasöm áður en birting Panamaskjalanna hófst. Hvað sem segja má um efni skjalanna sem verða birt í heild í á morgun hafa þau markað varanleg spor í íslenska stjórnmálasögu. 

Davíð taldi í samtalinu við Pál að atburðarásin hefði verið alltof hröð eftir að sjónvarpsviðtalið birtist við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sunnudaginn 3. apríl. Spurning er hver átti að stíga á bremsuna og hægja á ferðinni. Áfallið vegna þess hvernig forsætisráðherrann var leikinn í sjónvarpsþættinum var þess eðlis að hann einn gat snúið vörn í sókn. Honum mistókst það.

Vissulega er rétt hjá Davíð að illa var farið með Sigmund Davíð í sjónvarpsþættinum. Hann var hins vegar tekinn upp 11. mars og allan tímann fram til 3. apríl hafði forsætisráðherra til að búa í haginn fyrir sig. Það gerði hann ekki á þann hátt sem þurfti til að minnka áhrif þáttarins þegar hann var sýndur.

Tveimur vikum eftir að dagar Sigmundar Davíðs í embætti forsætisráðherra voru taldir lýsti Ólafur Ragnar yfir að hann væri hættur við að hætta vegna mótmæla og óvissu á stjórnmálavettvangi. Gaf hann til kynna að hann hefði áfram hlutverki að gegna sem öryggisventill í samfélaginu.

Guðni Th. Jóhannesson gaf kost á sér til forseta á fjölmennum fundi fimmtudaginn 5. maí og nú Davíð Oddsson fimm vikum eftir að Panamaskjölin og handhafar þeirra komu forsætisráðherra í opna skjöldu segir Davíð Oddsson í útvarpsviðtali að hann sé í framboði.

Davíð hefur áður valið útvarpsviðtal til að flytja þjóðinni mikilvægan boðskap. Þetta gerði hann til dæmis á bolludag í mars 2003 þegar hann snerist til varnar gegn bandalagi Fréttablaðsins og Samfylkingarinnar í morgunspjalli við Óðin Jónsson sem þá var að fara af stað með nýjan þátt í ríkisútvarpinu eins og Páll gerir núna á Bylgjunni. Viðtalið 2003 skipti miklu í kosningabaráttunni Davíð í vil. Gerist hiða sama núna?

 

Laugardagur 07. 05. 16 - 7.5.2016 13:30

Vegna þess hvernig reikningshaldi sveitarfélaga er háttað er lítið gegnsæi í því og þess vegna erfitt fyrir almenning að átta sig á raunverulegri stöðu þegar hallar undan fæti. Þetta skýrir meðal annars hvers vegna erfitt er að átta sig á hvað raunverulega gerðist í Reykjanesbæ og varð til þess að nú rambar hann á brúninni.

Staðan er nú sú í Reykjavík að ógjörningur er að ræða raunverulega fjárhagsstöðu borgarinnar vegna leikni þeirra sem fara með stjórn hennar við að fela sporin, megi orða það svo.

Dæmigert er að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skuli tala um „tekjuvanda“. Með því vísar hann einfaldlega til þess að hann geti ekki aflað nægilega mikilla tekna til að standa undir útgjöldunum. – Þetta er hin dæmigerða afstaða sósíalista sem líta á álögur á almenning sem upphaf og enda velgengni sinnar í stjórnmálum. Draumur Dags B. er að krækja í meiri tekjur í stað þess að horfast í augu við hinn raunverulega vanda sem snýr að rekstrinum, útgjöldunum.

Dagur B. kvartar undan tekjuvanda þegar útsvar er eins hátt og það má vera og skatttekjur hærri en áætlað var. Borgarstjórinn er einfaldlega ekki fær um að taka erfiðar ákvarðanir um rekstur borgarinnar. Hann kýs að láta taka af sér myndir við að hreinsa drasl úr Tjörninni vegna þess að ESB stofnar til hreinsunardags eða með felgujárn í hendi 15. apríl þegar skipta ber á sumardekk. Að hann gangi fram fyrir skjöldu sem raunverulegur stjórnandi borgarinnar gerist einfaldlega ekki.

Sé svo komið í grunnskólum Reykjavíkur að vegna skorts á fagfólki sé ekki unnt að sporna gegn nýjum aðferðum til að hrella nemendur í grunnskólum borgarinnar er það málefni sem borgarstjórinn á að láta sig varða. Hann þegir þunnu hljóði. Einnig þegar rifin eru friðuð hús í leyfisleysi eða vegið að grafarró í elsta kirkjugarði borgarinnar á þann veg að mörgum blöskrar.

Þegar reikningar ársins 2015 voru til umræðu í borgarstjórn þriðjudaginn 3. maí sagði Dagur B. að að háar lífeyrisskuldbindingar hefðu „stolið senunni“ í ársreikningnum. Virðist þetta hafa komið honum í opna skjöldu því að hann stóð á sínum tíma á áætlun sem gerði ráð fyrir 7,3 milljarða afgangi en hallinn varð tæpir 5 milljarðar, það er 12 milljarða munur. Það muna um minna!

 

 

Föstudagur 06. 05. 16 - 6.5.2016 18:40

Skammt er stórra högga á milli á stjórn- og þjóðmálasviðinu.

Í fyrsta lagi: Ólafur Ragnar Grímsson hætti við að hætta sem forseti. Hann hefur síðan lent í óvæntum mótbyr af tveimur ástæðum (1) vegna upplýsinga í Panamaskjölunum um fjármál tengd fjölskyldu Dorritar, eiginkonu sinnar, (2) vegna framboðs Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings sem hefur fengið meiri byr í seglin en jafnvel áköfustu stuðningsmenn hans ætluðu, þeir segja 700 manns hafa verið á fundi í anddyri Salarins í Kópavogi þegar hann kynnti framboð sitt fimmtudaginn 5. maí.

Rætt var við Ólaf Ragnar föstudaginn 22. apríl á sjónvarpsstöðinni CNN. Christiane Amanpour spurði hvort hann sjálfur eða Dorrit ættu einhverja aflandsreikninga. „Er eitthvað sem á eftir að koma í ljós sem varðar þig eða fjölskyldu þína?" spurði Amanpour. „Nei, nei, nei, nei ,svaraði forsetinn, það ætti ekki eftir að gerast. Annað hefur komið í ljós. Nú segist forsetinn ekki hafa neina vitneskju um fjármál tengdafjölskyldu sinnar sem má til sanns vegar færa miðað við svar hans.

Í öðru lagi: Árni Páll Árnason hefur afsalað sér formennsku í Samfylkingunni. Þetta gerði hann í bréfi til flokksmanna í dag þar sem hann dró ákvörðun sína um að leita endurkosningar frá fimmtudeginum 28. apríl til baka. Á einni viku hefur hann áttað sig endanlega á að hann nýtur ekki nægilegs stuðnings. Á þessari viku hafa birst niðurstöður í þremur skoðanakönnunum sem sýna allar að fylgi Samfylkingarinnar er í sögulegu lágmarki, um 9%. Í bréfinu til flokksmanna segir Árni Páll meðal annars:

Staða flokksins er óásættanleg. Sem fyrr vara ég flokksfólk við að halda að á henni séu einfaldar lausnir. En hugsjónir jafnaðarmanna þurfa samhentan og skynsaman flokk sem ber þær fram og persónur geta ekki staðið þeim framar. Ég hef því ákveðið að bjóða mig ekki fram til endurkjörs sem formaður flokksins.“

Áður en Árni Páll steig þetta skref hafði Katrín Júlíusdóttir, varaformaður flokksins, einnig sagt sig frá flokksforystu fyrir utan að falla frá framboði til þings í næstu kosningum.

Oddný Harðardóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra, er talin sigurstranglegust af formannsframbjóðendum. Hún er lengst til vinstri af þeim. Með því að kjósa hana kann Samfylkingin að höggva í raðir vinstri grænna sem hafa verið á nokkurri siglingu. Kapphlaupið á vinstri vængnum er rétt að hefjast.

 

Fimmtudagur 05. 05. 16 - 5.5.2016 16:30

 

Viðtal mitt á ÍNN sem frumsýnt var í gær við Pétur Pétursson, prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands er nú komið á netið og má sjá það hér. Við ræðum  meðal annars um heilagan anda, inngöngu Péturs í kaþólsku kirkjuna og kynni hans af Frans páfa. 

Guðni Th. Jóhannesson bauð sig fram til forseta í dag. Kannanir sýna að hann stendur næst því að fella Ólaf Ragnar Grímsson. Sagan kennir að Ólafur Ragnar fer oft fram úr sér eða færist of mikið í fang. Þetta vitum við sem höfum fylgst með stjórnmálastarfi áratugum saman. Margt bendir til að þetta hafi enn einu sinni gerst þegar hann tilkynnti að hann væri hættur við að hætta sem forseti og ætlaði að bjóða sig fram enn á ný eftir 20 ára setu á Bessastöðum.

Í Morgunblaðinu í dag birtist grein eftir Inga Hans Jónsson sem segist hafa verið meðal þeirra sem hvöttu Ólaf Ragnar til forsetaframboðs 1996. Inga Hans telur nú sé nóg komið hjá sínum gamla félaga í forsetaembættinu. Hann vitnar í viðtal við Ólaf Ragnar í Vikunni frá 1973 þar sem hann kvartaði undan „páfakomplexum“ einstakra manna sem hafnir séu á stall eða setja sig sjálfir á stall. Þá segir Ingi Hans:

„Þetta var dapurlegt en hárrétt og er það er ekkert síður í dag. En snúningspilturinn Ingi Hans er farinn annað til að velja sér forseta. Forseta sem er í stíl við kröfu ungs fólks um breytingar og draumsýnina um hið nýja Ísland. Ég vil þakka þér fyrir þitt framlag. Framundan er framtíðin sem vonandi verður í höndum nýrrar kynslóðar með nýja drauma og nýja sýn. Við erum orðnir gamlir og eigum að víkja úr vegi fyrir ungu fólki sem langar að gera eitthvað svipað og við gerðum fyrir nærri hálfri öld. Kæri vinur, það er óþarfi að óttast komandi tíma, því framtíðin kemur hvort sem við verðum þar eða ekki, þú og ég.“

Þarna fer ekkert á milli Ólafur Ragnar hefur gengið fram af Inga Hans.

 

Miðvikudagur 04. 05. 16 - 4.5.2016 15:00

Í dag ræddi ég við Pétur Pétursson, prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands, í þætti mínum á ÍNN. Uppstigningardagur er á morgun en samtal okkur snýst að mestu um trúarleg efni auk þess sem Pétur segir frá kynnum sínum af kardínálanum sem síðar varð Frans páfi. Þátturinn verður fumsýndur kl. 20.00 í kvöld á rás 20 og verður á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun og alltaf aðgengilegur á tímaflakki Símans.

Fundargerðir framkvæmdaráðs pírata hafa verið aðgengilegar á netinu í anda hins opna samfélags sem þeir segjast boða. Nú bregður hins vegar svo við að aðgangi að fundargerðunum hefur verið lokað. Hefur birst opinber skýring á þessari ráðstöfun? Stafar hún af vaxandi átökum innan raða pírata? Eða má rekja hana til spennu innan framkvæmdaráðsins? Formaður þess sagði nýlega af sér vegna deilna við Birgittu Jónsdóttur sem hefur tekið að sér að verða andlit flokksins út á við. Segist hún taka nærri sér að þurfa að skýra fall flokksins í könnunum fyrir erlendum blaðamönnum.

Í dag birtist í Morgunblaðinu frásögn af fyrirhuguðum rannsóknum á Þingeyrum í A-Húnavatnssýslu sem ráðist er með leyfi og að frumkvæði eigenda Þingeyra, Valgerðar Valsdóttur og Ingimundar Sigfússonar. Hef ég unnið að því með Ingimundi frá hausti 2013 að koma verkefninu í það horf sem kynnt var fjölmiðlum með tilkynningu í gær. Þar segir:

„Klaustur var rekið á Þingeyrum frá 1133 til 1551, lengur en á nokkrum öðrum stað á landinu. Rannsóknin verður þríþætt og mun miða að uppgreftri minja tengdum klaustrinu, rannsóknum á vistfræði staðarins og nágrennis hans á miðöldum og loks athugunum á handritamenningu miðalda. Þá verður unnið að miðlun upplýsinga um framgang rannsóknanna.

Telja má víst að minjar í jörðu á Þingeyrum geymi mikilvægar upplýsingar um fjölþætta starfsemi klaustursins þar. Rekstur þess nær yfir góðærisár og tímaskeið hörmunga, eins og t.d. þegar svarti dauði gekk tvívegis yfir og litla ísöldin hófst.“

Þeir sem stýra rannsóknum á Þingeyrum eru Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands, Egill Erlendsson, lektor í landfræði við Háskóla Íslands, og Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu.

Í stjórn Þingeyraverkefnisins er Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, með okkur Ingimundi.

Litið er á árið 2016 sem undirbúningsár en markvissar rannsóknir hefjist árið 2017, fáist nauðsynlegt fjármagn til þeirra.

Þriðjudagur 03. 05. 16 - 3.5.2016 12:00

Í nýrri könnun frá Gallup sem birt var í gær er Sjálfstæðisflokkurinn (27%) orðinn ívið stærri en píratar (26,6%) sem lækka um 9 prósentustig milli kannanna. Framsóknarflokkur mælist með 11% og hækkar um 4 prósentustig milli kannanna. Niðurstaðan fer fyrir brjóstið á Birgittu Jónsdóttur, leiðtoga pírata, sem segir á FB-síðu sinni mánudaginn 2. maí:

„Ekki græt ég tilfærslur á fylgi við okkur, en að almenningur umbuni panamaflokkunum með auknu trausti eftir allt það sem á undan er gengið er mér algerlega ofviða. Framsókn bætir við sig 4% frá síðustu könnun (fylgisaukning upp á 1/4) og Sjálfstæðisflokkur heldur sínu.

Ég hreinlega þori ekki að deila þeirri staðreynd með erlendum blaðamönnum því nú er sem sú mikla mótmælaalda sem reið yfir landið eins og siðferðislegur jarðskjálfti hafi hafi þveröfug áhrif.“

Sérkennilegt er að Birgittu eru erlendir blaðamenn hugleiknastir þegar hún ræðir þessa könnun. Það kemur þó heim og saman við að enginn þingmaður hefur líklega nýtt setu sína á þingi jafn ríkulega til að koma ár sinni fyrir borð erlendis og Birgitta. Hún sagði til dæmis skilið við Margréti Tryggvadóttur og Þór Saari í Hreyfingunni sumarið 2012 og gekk til liðs við pírata af því að þau vildu ekki að hún yrði fulltrúi þeirra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna haustið 2012. Var Birgittu þetta svo mikið hjartans mál að Hreyfingin reyndi meira að segja að fá reglum alþingis hnikað henni í vil.

Meðal ráðamanna í flokki pírata loga illdeilur vegna framgöngu Birgittu sem miðar allt flokksstarfið við sig og hvernig mál líta út fyrir hana sjálfa, ekki síst gagnvart erlendum blaðamönnum. Þori hún að tala við erlenda blaðamenn núna færir hún frásögnina í hagstæðan búning fyrir sig.

Virðing pírata fyrir háttvirtum kjósendum birtist í ummælum á FB-síðu Birgittu. Hér eru fjögur fyrstu tekin sem dæmi:

„Höfðingjaóttinn og þrælslundin virðist vera innbyggður í landann. Alveg ótrúlegt!!!“

Má ég giska á að þetta sé fyrst og fremst afneitun og síðan flokksblinda og flokkshollusta.“

íslenska gullifiskasyndromið, alveg með ólíkindum hvað skammtímaminni landans er lítið, það er eins og fólki muni ekki milli daga hvað er að gerast í þjóðfélaginu.“

„Þjóðin hefur farið í gegnum fjögur stig sorgarviðbragða og fer síðan eins og lamda eiginkonan heim til hrottans aftur“

 

 

 

Mánudagur 02. 05. 16 - 2.5.2016 13:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er hætt að skýra opinberlega frá því hvað margir mótmælendur safnast saman á Austurvelli sagði í Morgunblaðinu laugardaginn 30. apríl. Þar stóð í grein eftir Benedikt Bóas:

„Talning á bak við áætlaðan fjölda er þó vísindaleg og þegar lögreglan hefur handtalið eftir að mótmælin eru yfirstaðin er hún yfirleitt nærri lagi. Lögreglan ætlar þó að hætta að telja mótmælendur á Austurvelli, en hún varð fyrir töluverðri gagnrýni eftir að hafa gefið upp allt aðra tölu en skipuleggjendur mótmælanna. Lögreglan áætlaði að í kringum 10 þúsund manns hefðu mætt á Austurvöll þann 4. apríl sl. en mótmælendur sögðu að allt að 25 þúsund manns hefðu mætt. Eftir að hafa rýnt í vísindin á bak við talninguna er ljóst að tölur lögreglunnar eru mun nákvæmari.“

Mótmæli geta auðveldlega leitt til annarrar niðurstöðu en að er stefnt. Það mátti að minnsta kosti ætla að varla hefði vakað fyrir þeim sem margfölduðu fjöldann á Austurvelli 4. apríl að hvetja Ólaf Ragnar Grímsson til að bjóða sig fram til setu á Bessastöðum sjötta kjörtímabilið. Hann vitnaði hins vegar til mótmælanna þegar hann sagðist hættur við að hætta á blaðamannafundinum mánudaginn 18. apríl. Taldi hann þau til marks um að hann mætti ekki yfirgefa hið háa embætti sitt.

Í leiðara The Wall Street Journal í dag er vakið máls á því hvort ekki beri að líta á mótmælendurna sem reyna að eyðileggja prófkjörsfundi Donalds Trumps sem laumu-stuðningsmenn hans. Þeir gætu ekki lagt meira af mörkum til að sannfæra milljónir repúblíkana um að greiða Trump atkvæði. Kjósendur fengju að minnsta kosti þá afsökun að gera það ekki til annars en verja mál- og fundafrelsi.

Blaðið segir að vegna prófkjörsins í Kalforníu 7. júní færist mótmælin í aukana. Aðgerðasinnar láti að sér kveða við fundarstaði, trufli umferð, beiti bíla bareflum og kalli ókvæðisorð til stuðningsmanna Trumps. Þeir saki Trump ekki síst um að kynda undir hatri.

Blaðið segir að orðbragð aðgerðasinnanna vekja spurningar um hver ýti í raun undir hatur. Trump og menn hans viti hvaða áhrif ofbeldi mótmælenda hafi á hinn venjulega sjónvarpsáhorfanda. Brot gegn lögum eða ákall til stuðnings ólöglegum innflytjendum kalli á atkvæði fyrir Trump.

 

 

 

Sunnudagur 01. 05. 16 - 1.5.2016 15:00

Merkilegt er að fylgjast með því hve margir umturnast enn þann dag í dag þegar rætt er um forsætisráðherraferil Davíðs Oddssonar sem hófst 30. apríl 1991 og lauk 15. september 2004. Í tilefni af því að 25 ár voru liðin frá 30. apríl 1991 í gær ritaði Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor grein í Morgunblaðið þar sem hann lýsti stjórnmálastarfi Davíðs frá sínum sjónarhóli.

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, sem af mestu innsæi skýrir hug Ólafs Ragnars Grímssonar þegar hann ræðir óljósum orðum um eigin framtíð gekk svo langt í tilefni af grein Hannesar Hólmsteins að segja á FB-síðu sinni: „Mitt mat (skoðun en ekki vísindi): DO er mesti ógæfumaður Íslandssögunnar í pólitík, Sturla Sighvatsson included ..“

Þessi lýsing á Sturlu birtist í grein eftir Aðalgeir Kristjánsson í Lesbók Morgunblaðsins 12. ágúst árið 2000:

„Sturla Sighvatsson er að sumu leyti persónugervingur Sturlungaaldar. Hann var glæsimenni, en valdagráðugur og yfirgangssamur við aðra höfðingja og hikaði ekki við að ganga á orð og eiða. Saga hans er flétta hagsmunasamninga, vinslita og undirmála eftir því hvernig vindurinn blés.“

Að nefna Davíð Oddsson og telja hann verri en mann sem „hikaði ekki við að ganga á orð og eiða“ eða hagaði seglum eftir vindi til „vinslita og undirmála“ ber vott um heift og vanþekkingu. Margt má segja um Davíð og störf hans, þau eru ekki hafin yfir gagnrýni frekar en önnur mannanna verk, að vega að honum sem sviksömum ósannindamanni er hins vegar með öllu ómaklegt.

Til orðaskipta hefur komið í netheimum vegna þessara ummæla Ólafs Þ. Harðarsonar. Hann er nú staddur í Harvard-háskóla. Páll Bragi Kristjónsson segir til dæmis á FB-síðu Ólafs Þ.: „Hvað sem öðru kann að líða, getur sennilega komið til álita, Ólafur Þ. Harðarson, að telja þessi ummæli þín, frá Cambridge MA um fyrrverandi forsætisráðherra Íslands, vera fyrir neðan þína virðingu og til vansæmdar.“ Ólafur Þ. svarar að bragði: „Soldill stráksskapur. Játa það strax. En má maður það ekki á sjötugsaldri?“

Er það ekki dæmigert að reyna að afgreiða mál sem „stráksskap“ þegar menn verða sér til skammar?  Dugar það fyrir prófessor og virðulegan álitsgjafa ríkisútvarpsins um stjórnmál og kosningar jafnvel þótt hann sé kominn á sjötugsaldur? Annað: Hvers eiga menn á sjötugsaldri eða eldri að gjalda?