12.5.2016 12:00

Fimmtudagur 12. 05. 16

Nútíminn birtist í ýmsum myndum. Ein þeirra birtist á visir.is í dag. Þar segir:

 „Mér finnst þessi spurning lýsa gamaldags viðhorfi, ef ég á að segja alveg eins og er,“ segir Magnús Orri Schram, léttur í bragði, þegar hann er spurður hvers vegna hann vill verða formaður í flokki sem hann vill leggja niður.“

Tilefni spurningarnar er nýjasta tilraun Magnúsar Orra til að „komast inn í umræðuna“ sem formannsefni Samfylkingarinnar. Tilraunin vekur athygli fjölmiðlamanna. Hún snýst um að Samfylkingin hverfi með niðurlagningu. Rætt var við formannsframbjóðandan í ríkisútvarpinu í morgun og þar sagði hann meðal annars:

„Ég hef uppgötvað það að Samfylkingin sé ákveðin hindrun í veginum fyrir því að tala til fólks.  Ég held að það sé fullt af fólki sem sé sammála okkur í póltík, en er annaðhvort landlaust, utan flokka eða í öðrum flokkum. Þá á Samfylkingin auðvitað að hugsa sér að verkefnin séu miklu stærri en flokkurinn. Við eigum að setja verkefnin númer eitt. Ég tel að besta leiðin sé að taka Samfylkinguna til hliðar, með autt blað fyrir framan okkur og átta okkur á því með hvaða hætti við getum fengið fleiri að borðinu vegna þess að í kjarnanum er það skoðun mín að það séu ekki málefnin sem eru vandamálið. Ég held að þessar nálganir eigi hljómgrunn meðal þjóðarinnar. Ef við erum samt með aðeins 7% fylgi þá er það klárlega vandamálið hvernig flokkurinn er."

Verði þessi skoðun til að afla Magnúsi Orra fylgis í formannskjöri Samfylkingarinnar sem nú stendur staðfestir það aðeins dauðadóm hans yfir Samfylkingunni. Að hann telji flokknum helst til bjargar að hefja viðræður við Bjarta framtíð vekur spurningu um hvort kjörorð hins sameiginlega framboðs flokkanna í haust verði: Sælt er sameiginlegt skipbrot.

Sé það nútíminn í stjórnmálum að leggja niður flokka og stofna nýja til að ná árangri er það ekki mjög frumlegt úrræði. Þegar Magnús Orri talar um „fullt af fólki“ sem sé „sammála okkur í pólitík“ er æskilegt að vita hvaða pólitík hann boðar. Helst virðist það eitthvert miðjumoð en fréttir frá fjölda landa sýna að boðskapur af því tagi nýtur sífellt minna fylgis. Flokkar jafnaðarmanna og sósíalista eru illa leiknir vegna þess í Austurríki, Þýskalandi og Frakklandi svo að dæmi séu nefnd.