Dagbók: mars 2007

Laugardagur, 31. 03. 07. - 31.3.2007 23:05

Hafnfirðingar höfnuðu deiliskipulagi, sem heimilaði stækkun álversins í Straumsvík í íbúakosningu í dag. Alls greiddu 12.747 atkvæði í kosningunni eða tæplega 77% á kjörskrá. 88 atkvæði  skildu á milli já og nei. 6382, eða 50,06% höfnuðu deiliskipulaginu, en 6294 eða 49,37% sögðu já. 71 seðill var auður eða ógildur.

Niðurstaða, sem fæst með svo litlum mun, er alltaf erfið úrlausnar, þótt svari kjósenda verði að sjálfsögðu ekki haggað. Vandinn við að hverfa frá fulltrúalýðræðinu og varpa ábyrgðinni á hinn almenna borgara er sá, að það eru aðrir en kjósendur, sem þurfa að vinna úr málinu og leiða það endanlega til lykta.

Hvort sem menn eru með eða á móti stækkun álversins, skapar þessi niðurstaða erfitt úrlausnarefni fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Hún þarf væntanlega að semja nýja tillögu að deiliskipulagi. Verður hún einnig borin undir atkvæði? Lúðvík Geirsson bæjarstjóra vildi ekki bera ábyrgð á ákvörðun um deiliskipulagið sem kjörinn fulltrúi en glímir nú við þann vanda að sætta þessar jöfnu, ólíku fylkingar í klofnu bæjarfélagi um málefni, sem varðar mjög framtíð þess.

Engu er líkara, ef marka má það, sem haft er eftir Lúðvík Geirssyni á netinu í kvöld, en hann telji sig hafa einhverja dúsu fyrir Alcan. Rannveig Rist segir kosninguna hins vegar bindandi, ef marka megi fyrri yfirlýsingar bæjarstjórnar, og Alcan muni haga sér í samræmi við það. Þeir, sem hvöttu fólk til að segja nei, eru að sjálfsögðu ekki spurðir um framtíðina.

Í raun er undarlegt, að bæjarstjóri Hafnarfjarðar skuli ekki hafa tekið opinbera og skýra afstöðu í þessu máli og kynnt hana rækilega fyrir umbjóðendum sínum. Lúðvík Geirsson hefur ekki sýnt, að hann þori að hafa skoðun og standa við hana. Að þessu leyti er hann dæmigerður forystumaður í Samfylkingunni - flokki án skoðunar en með ótakmarkaða þrá eftir völdum. Á þeim bæ eru engir leiðtogar.

Föstudagur, 30. 03. 07 - 30.3.2007 0:11

Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, datt í gamla pyttinn, þegar hann heyrði af ræðu minni hjá SVS og Varðbergi, hann fór að tala, áður en hann kynnti sér málið.

Að gamalreyndur þingmaður telji, að með breytingu á lögreglulögum sé verið að stofna íslenskan her, er auðvitað svo fráleitt, að Össur ætti að sjá sóma sinn í því að draga orð sín um þetta efni til baka, ef hann ætlar að vera marktækur í umræðum um öryggismál hér á heimavelli, en hann hefur oft sagt frá því, að á vettvangi þingmannasamtaka NATO sé hann meðal haukanna og leggi manna mest af viti til þeirra mála allra, sem þar eru rædd.

Hermálanefnd NATO er væntanleg hingað til lands einhvern næstu daga og ætti Össur að bera það upp við hana, hvort varalið á borð við það, sem ég ræddi um á fundinum í gær, yrði gjaldgengt sem liðsafli á vegum nefndarinnar. Mér segir svo hugur, að þar á bæ vissu menn ekki, hvaðan á sig stæði veðrið, ef þessi spurning yrði lögð fyrir þá.

Össur hefði átt að lesa ræðu mína, áður en hann tók að tala um varaliðið, því að þar slæ ég hvað eftir annað þann varnagla, að hér verði ekki stofnaður her, af því að engin lög heimili slíkt.

Ummæli Össurar eru sorgleg vegna þess að þau staðfesta enn, hve erfitt er að stofna til málefnalegra umræðna á stjórnmálavettvangi um öryggis- og varnarmál. Ég var að vona, að tími svona barnaskapar eða tindátaleiks væri liðinn, en hann er það ekki hjá Samfylkingunni. Talsmenn annarra flokka hafa brugðist við á mun málefnalegri hátt.

Fimmtudagur, 29. 03. 07. - 29.3.2007 20:38

Síðdegis flutti ég erindi á fundi Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs, sem ég nefndi Okkar ábyrgð - öryggi og varnir Íslendinga. Ég lagði áherslu á, að breytingar í öryggismálum kölluðu fram meiri þunga í nærvörnum borgaranna en landvörnum og þess vegna skiptu borgaralegar stofnanir meira máli en hernaðarlegar, þegar litið væri til gæslu öryggishagmunanna.

Í máli mínu ítrekaði ég oftar en einu sinni, að íslensk stjórnvöld hefðu ekki heimild til að sinna hernaðarlegum verkefnum og gætu þess vegna ekki tekið þátt í gagnkvæmu samstarfi á því sviði - hér væri engin heimild til að stofna her og hugmyndir í þá veru hefðu fallið í grýtta jörð.

Ég lýsti því, hvernig staðið hefði verið að því að hrinda yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 26. september 2006 um aukna ábyrgð íslenskra stjórnvalda í framkvæmd.

Ég varð undrandi eftir ræðu mína á spurningum fréttamanna RÚV um efni hennar. Þeir virtust helst halda, að það, sem ég sagði um varalið lögreglu, snerist um einskonar herlið. Á bakvið spurningar af því tagi býr misskilningur fyrir utan, að þær stangast á við allt það, sem ég sagði í ræðu minni um heimildir íslenskra stjórnvalda á þessu sviði. Að varalið geti haft meiri heimildir til valdbeitingar en liðið sjálft, það er lögreglan, er að sjálfsögðu með öllu fráleitt.

Án þess að ég ætla að vekja máls á því, sem helst er fréttnæmt í þessu erindi mínu, er rangt, að telja það, sem ég sagði um varaliðið fréttnæmast. Heimild til að halda úti slíku liði var í lögum hér til 1996 og veit ég ekki, hvers vegna hún var þurrkuð úr lögum.

Hafi frétt hljóðvarps ríkisins um varaliðið gefið fjölmiðlakórnum tóninn um erindið, syngur hann og þeir, sem kyrja með honum, falskt.

Miðvikudagur, 28. 03. 07. - 28.3.2007 21:09

Var síðdegis í Lögbergi, þar sem lagadeild Háskóla Íslands fagnaði því, að réttarsalur hefur verið innréttaður í húsinu að frumkvæði framkvæmdastjóra Úlfljóts og með stuðningi innan og utan skólans. Í stuttu ávarpi af þessu tilefni fagnaði ég því sérstaklega að Ármann Snævarr var meðal þeirra, sem þarna voru, en hann kenndi mér í lagadeildinni á sínum tíma, auk þess sem ég átti við hann gott samstarf, þegar hann var rektor og ég formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

Ánægjulegt er að fylgjast með fréttum af því, hve mörgum finnst vel hafa til tekist við sameiningu lögregluumdæma hér á höfuðborgarsvæðinu.

Í miðopnu Morgunblaðsins var í gær rætt við mæðgur, sem verja óratíma á degi hverjum í bíl á leið í vinnu og skóla. Önnur þeirra sagði þó:  „Það sjást mun fleiri lögreglubílar núna eftir að lögregluembættin á Reykjavíkursvæðinu voru sameinuð, við gatnamótin en áður og það skiptir miklu máli, enginn fer þá yfir á rauðu.“

Í Kastljósi sjónvarpsins er verið að kynna götueftirlit fíkniefnadeildar höfuðborgarlögreglunnar og einnig kynnumst við sérsveitinni. Með því að færa sérsveitina undir ríkislögreglustjóra, efla hana og gera hreyfanlegri nýtist hún mun betur en áður til margvíslegra verkefna. Sameining lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu veitir færi á meiri sérhæfingu en áður, eins og meðal annars birtist í stóraukinni virkni götueftirlitsins.

Þriðjudagur, 27. 03. 07. - 27.3.2007 22:34

Pétur Gunnarsson, spunameistari á netinu, dró, þegar kom að niðurstöðu í starfi Evrópunefndar, pólitískar ályktanir um framtíðina, af því að við sjálfstæðismenn vorum sammála vinstri/grænum um ýmis meginatriði. Nýlega bætti hann um betur með frásögn af fundi Geirs H. Haarde og Steingríms J. Sigfússonar, sem óljóst er, hvort var haldinn. Pétur sagðist trúa eigin frásögn, af því að hann hefði heyrt hana á bar. Össur Skarphéðinsson fjallar um málið á vefsíðu sinni og segir:

„Þetta myndi ég telja mjög trúverðugt vitni. Maður, sem er staddur um miðja nótt á Ölstofu Kormáks og Skjaldar, hefur örugglega verið fullkomlega edrú, og alls ekki líklegur til að fara með fleipur.

Viðskiptavinir Ölstofunnar eru sömuleiðis þekktir fyrir að sitja þar fram undir morgun um helgar einungis í þeim tilgangi að rækta staka bindindismennsku. Ekki er því líklegt að þeir greini rangt frá.

Pétur stendur því með pálmann í höndunum í deilu þeirra Steingríms. Kaffibandalagið er á þessari stundu í hreinu uppnámi. Í rauninni er aðeins einni spurningu ósvaraði í þessum pólitíska skandal:

Hittust Geir og Steingrímur á barnum?“

Þegar ég les þessa lýsingu Össurar, velti ég fyrir mér, hvort Pétur hafi setið á þessum rökstólum, þegar hann fékk fréttir af því fyrstur manna, sem gerðist á fundum Evrópunefndar. Að óathugðu máli hefði frekar mátt ætla, að barinn væri kenndur við Mími en Kormák og Skjöld -  Mímir hefur orðið að lúta í lægra haldi fyrir þeim félögum.

Eitt er að spinna svona á vefsíðum annað að gera það í dagblöðum. Forsíðufyrirsögn Blaðsins í dag var á þessa leið: Neikvæð afstaða Sjálfstæðisflokks til Evrópusambandsaðildar: Gengur gegn hefð flokksins. - Davíð talaði fyrir ESB-aðild 1990 - Kúventi skömmu síðar.

Með þessu forsíðudrama um 17 ára gamla frétt var verið að kynna bók Eiríks Bergmanns Eiríkssonar, dálkahöfundar Blaðsins.  Víst er, að þessi stórfrétt hefur ekki orðið til á neinum bar.


 

Mánudagur, 26. 03. 07. - 26.3.2007 19:48

Felst náttúruvernd í því að stöðva stóriðju? Hjá mörgum, sem setja náttúrvernd á oddinn, þegar þeir berjast gegn stóriðju, ræður andúðin á stóriðju áreiðanlega meiru en náttúrverndin.  Ekki bætir það stöðu stóriðjunnar, að hún skuli vera í eigu útlendinga. Yrði snúist jafnþungt gegn stóriðju í eigu Íslendinga?

Engin fyrirtæki fylgja eins ströngum öryggisreglum hér á landi og alþjóðleg álfyrirtæki. Hvers vegna skyldu þau ekki gera allt, sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir mengun? Stóriðjufyrirtæki eru vinsælir vinnustaðir.

Rannsóknir og hátækni við orkuöflun og rekstur orkufrekra fyrirtækja hefur markað þáttaskil í verkmenntun þjóðarinnar.

Víða um lönd er alið á andúð á verksmiðjum og starfsemi þeirra. Nicolas Sarkozy, sigurstranglegasti forsetaframbjóðandinn í Frakklandi, dregur ekki dul á gildi verksmiðja, þær skapi staðbundna vinnu og séu kjölfesta í byggðamálum. Hann vill veg þeirra sem mestan.

 

Sunnudagur, 25. 03. 07. - 25.3.2007 19:01

Þegar ég kannaði í morgun, hvort ég gæti fengið símann og tölvuna tengda hjá mér í Fljótshlíðinni, var svarið á þann veg hjá Símanum, að málið væri hjá fjarskiptasviði Símans, og skildist mér að þar sinntu menn ekki slíkum erindum um helgar.

Laugardagur, 24. 03. 07. - 24.3.2007 18:55

Ók frá Höfðabrekku í Fljótshlíðina, en þar voru síminn og tölvan sambandslaus. Þrátt fyrir samtöl við Securitas og Símann, var ógjörningur að fá sambandið í lag og enginn viðgerðarmaður var sendur á vettvang. Svar Símans var á þann veg, að verið væri að mæla út bilunina, en við blasti, að hún stafaði af því að á við bæinn sleit strenginn.

Föstudagur, 23. 03. 07. - 23.3.2007 18:50

Ók um hádegisbilið austur að Höfðabrekku rétt austan við Vík í Mýrdal, þar sem ég sat fund með flokkssystkinum vegna komandi þingkosninga.

Fimmtudagur, 22. 03. 07. - 22.3.2007 18:21

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið efndi til forstöðumannafundar í dag, þar var einkum rætt um málefni útlendinga og nýjungar í starfi Þjóðskrár og rafræna þjónustu. Hildur Dungal, forstöðumaður útlendingastofnunar, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, aðstoðarríkislögreglustjóri, og Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, ræddu um þróun í útlendingamálum og áhrif hennar á stofnanir þeirra. Haukur Guðmundsson, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneyti, ræddi um útgáfu nýrra dvalarleyfisskírteina, Þorsteinn Geirsson, ráðuneytisstjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, ræddi um nýja stefnumörkun fyrir Þjóðskrá og framkvæmd hennar, Þorsteinn Helgi Steinarsson, verkfræðingur og ráðgjafi ráðuneytisins um rafræn úrlausnarefni, ræddi þau viðfangsefni.

Í fréttum eru menn teknir til við að deila um, hvaða staður utan Reykjavíkur sé bestur fyrir þyrlur Landhelgisgæslu Íslands. Hvers vegna er verið að fella harða dóma um, hvar höfuðstöðvar þyrlanna eigi að verða, þegar til framtíðar er litið? Sá þáttur málsins hefur einfaldlega ekki verið ræddur til hlítar. Eins og sjá má af skýrslu um þyrlurekstur landhelgisgæslunnar, sem ég lagði fram í ríkisstjórn á þriðjudag, snúast ákvarðanir stjórnvalda nú um, hve þyrlurnar eiga að vera margar og hvernig á að tryggja, að þær séu svona margar bæði tímabundið og til frambúðar.

Erfitt er að átta sig á því, hvers vegna ekki verða neinar umræður um fjölda þyrla eða gerð þeirra, þegar skýrsla er lögð fram um það efni, heldur taki menn til við að ræða, hvar þyrlurnar eigi að vera á landinu. Með fleiri þyrlum eykst hreyfanleiki þeirra og þær verða óhjákvæmilega meira á ferð um landið allt. Það liggur í hlutarins eðli. Við höfum í áratugi búið við, að allt að sjö þyrlum hafi verið í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli, án þess að vandræði hafi af því hlotist. Þvert á móti hafa áhafnir þyrlanna unnið mörg afrek frá þessum flugvöllum.

 

 

Miðvikudagur, 21. 03. 07. - 21.3.2007 19:16

Fór á fróðlegan kynningarfund í Alþjóðahúsi síðdegis, en þar hafa umsvif aukist jafnt og þétt undanfarin ár eins og hjá öllum, sem sinna málefnum útlendinga í landinu. Alþjóðahúsið leggur mikið af mörkum til að auðvelda útlendingum að laga sig að íslensku þjóðfélagi. Styrkur starfseminnar felst í því, hve vel hefur tekist að sameina þar krafta margra. Innan hins opinbera kerfis er ekki unnt að bregðast við nýjum verkefnum eins og gera má með því að reka starfsemi á borð við þessa undir merkjum einkaframtaksins en með þjónustusamninga við þá opinberu eða einkaaðila, sem sjá sér hag af viðskiptunum.

Að loknum fundinum í Alþjóðahúsi fór ég til ríkislögreglustjóra og ritaði undir árangursstjórnunarsamning við embættið og kynnti mér starfsemi þess, en það hefur tekið miklum breytingum undanfarin misseri með eflingu sérsveitar, stofnun greiningardeildar og breyttu skipulagi við saksókn efnahagsbrota.

Í kvöldfréttum sjónvarps var rætt um þá hugmynd, að Efri-Brú yrði notuð til þjónustu fyrir fangelsismálastofnun. Þar kom ekki fram, að hugmyndin var ekki bundin við, að stofnunin tæki húsnæðið sjálf til rekstrar heldur yrði hann í höndum einkaaðila, sem mundi veita fangelsismálastofnun og öðrum þjónustu á grundvelli samnings. Þá hefur einnig verið ljóst í öllum þessum vangaveltum, að félagsmálaráðuneytið hefði húsakost á Efri Brú á sínu forræði og tæki ákvörðun um ráðstöfun þess.

Sveigjanleiki innan fangelsiskerfisins hefur þrengst vegna lengri dóma og hann mætti auka með því að koma á fót lággæslufangelsi, þar mætti vista þá, sem kallaðir eru inn til að afplána sektargreiðslur, svo að dæmi sé tekið.

Þriðjudagur, 20. 03. 07. - 20.3.2007 21:31

Á fundi ríkisstjórnarinnar lagði ég fram skýrslu starfshóps um þróun þyrlurekstrar Landhelgisgæslu Íslands og tillögur að framtíðarlausn, sem miða að því að eiga samstarf við Norðmenn um kaup á stórum, nýjum þyrlum. Samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína.

Í dag birti ég grein í Morgunblaðinu, þar sem ég undrast hvernig sumir fjölmiðlar fjalla um nýsett lög um hertar refsingar gegn kynferðisofbeldi og leita þá uppi, sem vildu ganga lengra en meirihluti þingmanna.

Atli Gíslason, hæstaréttarlögmaður og varaþingmaður vinstri/grænna, hefur talað einkennilega um vændisákvæðin í lagabreytingunum og látið að því liggja að vændi hafi verið lögfest, þótt hann segi í hinu orðinu, að svo hafi ekki verið. Þá er einnig haft eftir honum, að lögin heimili, að hér verði reist vændishverfi. Er með ólíkindum, að lögmaður tali á þennan veg.

Breytingarnar, sem gerðar eru á 206. gr. almennra hegningalaga felast í því, að það að stunda vændi sér til framfærslu er gert refsilaust. Þetta refsiákvæði hefur um árabil verið þyrnir í augum margra, ekki síst þeirra, sem tala í nafni kvenfrelsis. Að láta eins og niðurfelling þessarar refsingar hvetji til þess, að hér verið opnuð vændishverfi er að sjálfsögðu fráleitt, fyrir utan þá staðreynd, að árvökul borgar- og bæjaryfirvöld hafa að sjálfsögðu í skipulagsvaldi sínu að ákveða, hvaða starfsemi er stunduð á þeirra skipulagssvæðum - ef þau sofna á verðinu er unnt að grípa til örþrifaráða eins og á móti spilasalnum í Mjóddinni.

Talið um að sænska leiðin svonefnda, það er að refsa þeim, sem kaupir vændi, sé allra meina bót er einfaldlega blekkingartal, enda hefur engin þjóð fetað í fótspor Svía, sem hafa hvorki útrýmt vændi né mansali heldur fært starfsemina í skúmaskot, þar sem erfiðara er en áður að fylgjast með henni og uppræta.

Í áliti sínu sagði allsherjarnefnd alþingis þetta um vændisákvæði nýsamþykktra laga:

Lesa meira

Mánudagur, 19. 03. 07. - 19.3.2007 20:10

Axell Hall og Ragnar Árnason rita grein í Morgunblaðið í dag ræða um það, sem sagt hefur verið um ójöfnuð hér á landi að undanförnu og hafna þeir því alfarið, að hann sé meiri en annars staðar eða hafi vaxið hin síðustu ár.

Þegar grein þeirra félaga er lesin, vakna enn á ný spurningar um, hvað vakir fyrir þeim fræðimönnum, sem hafa haldið þeim skoðunum stíft að okkur, að íslenska þjóðfélagið sé að gjörbreytast, fjarlægjast Norðurlönd og nálgast Bandaríkin. Hagtölurnar, sem þeir Axel og Ragnar, leggja til grundvallar, sýna allt annað.

Í þessu sambandi er einnig ástæða til að nefna grein í nýjasta hefti Þjóðmála, sem kom út nú um helgina, eftir Hannes Hólmstein Gissurarson. Hún heitir Sjónhverfingar prófessoranna og snýst um talnabrellur í málflutningi prófessoranna Stefáns Ólafssonar og Þorvaldar Gylfasonar. Segir Hannes Hólmsteinn, að þeir þráist við að viðurkenna þá staðreynd að hagur allra Íslendinga hafi batnað mjög á undanförnum árum.

Enn á ný hvet ég lesendur síðu minnar til að gerast áskrifendur að Þjóðmálum en það er auðvelt í gegnum bóksöluna á www.andriki.is

Í þetta nýjasta hefti Þjóðmála ritar Aðalsteinn Eiríksson, fyrrverandi skólameistari, sem undanfarin ár hefur unnið þrekvirki innan menntamálaráðuneytisins við gerð reiknilíkans fyrir framhaldsskólana, um samkeppni þeirra skóla. Grein Aðalsteins er að nokkur leyti svar við grein Atla Harðarsonar, aðstoðarskólameistara við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, sem birtist á sínum tíma í Þjóðmálum. Af grein Aðalsteins má ráða, hve mikið hefur áunnist á þessu sviði, ekki síst fyrir þrotlaust starf hans sjálfs.

Sunnudagur, 19. 03. 07. - 18.3.2007 20:37

Ég sá í fréttum að Framtíðarlandið hefur hafið áskorunarherferð á netinu, þar sem menn eiga að skrifa undir áskorun á þess vegum. Ég veit ekki, hvernig að þessari söfnun er staðið, en ég hef nú fengið meira en 40 tilmæli um að skrifa undir þessa áskorun. Ef ég yrði við þeim öllum, yrði líklega talið, að meira en 40 áskoranir hefðu borist, þótt þær væru allar frá einum manni. Þetta vekur ekki traust á framkvæmdinni fyrir utan, hve hvimleitt er að fá stöðugar sendingar af þessu tagi inn á tölvuna sína. Lofar það ekki góðu um framtíðina, ef þessi söfnun á að standa í langan tíma. (Á meðan ég skrifaði þetta duttu 10 nýjar áskoranir inn á tölvuna mína. Þetta er hvimleið tölvumengun, hvað sem öðru líður.)

Í tilefni af samþykkt alþingis á breytingum á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga hef ég hvorki lesið né heyrt sagt frá því í fjölmiðlum um hvað meginefni breytinganna snýst. Hljóðvarp ríkisins sneri sér hins vegar til þeirra í hádegisfréttum og kvöldfréttum í dag, sem telja sig eiga um sárt að binda vegna breytinganna, þar sem sérsjónarmið þeirra náðu ekki fram að ganga.

Alþingi samþykkti ekki hina svokölluðu sænsku leið í vændismálum. Hún hefur hvergi verið samþykkt nema í Svíþjóð og miðar að því að stemma stigu við mansali og vændi vegna þess í Svíþjóð. Allt aðrar aðstæður eru þar en hér. Hart var deilt um málið á finnska þinginu, áður en sænsku leiðinni var hafnað þar.

Hvers vegna skyldi fréttastofa hljóðvarpsins aðeins sýna áhuga á því, sem ekki var samþykkt, en ekki hinu, sem var samþykkt og er orðið að lögum?

Laugardagur, 17. 03. 07. - 17.3.2007 22:55

Ingvi Hrafn Óskarsson situr fyrir mig á þingi þessa síðustu daga þess, svo að ég hef ekki tekið þátt í hinum miklu atkvæðagreiðslum lokadagana.

Í dag var sérstaklega tekið fram í fréttum, að frumvarp mitt um breytingar á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga hefði orðið að lögum með þeirri breytingu, að alvarlegustu brot gegn börnum fyrnast ekki. Bjarni Benediktsson, formaður allsherjarnefndar, beitti sér fyrir þverpólitískri sátt í nefndinni um þessa breytingu. Pólitískt mat leiddi til hennar, enda tryggði hún og brottfall breytingartillögu um svonefnt sænskt vændisákvæði, öruggan framgang þessa viðamikla máls á þinginu.

Frumvarpið var flutt í samræmi við fyrirheit mitt en Ragnheiður Bragadóttir prófessor samdi það og greinargerðina með því auk þess að vinna ötullega með allsherjarnefnd á tveimur þingum að afgreiðslu málsins.

Í pistli mínum í dag lagði ég út af fréttaskýringu Agnesar Bragadóttur á forsíðu Morgunblaðsins í dag um einangrun Össurar Skarphéðinssonar innan Samfylkingarinnar. Í Morgunblaðinu 18. mars, sem kom í kvöld, segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þetta rangt, Össur hafi ekki farið fram án stuðnings þingflokksins í auðlindamálinu.

Ég dreg þá ályktun af þessari athugasemd og bloggum spunamanna Samfylkingarinnar, að uppnámið innan flokksins vegna þessarar fréttaskýringar sé mikið og í raun séu málsvarar Ingibjargar Sólrúnar í flokknum með Morgunblaðið á heilanum. Þeir leita ekki aðeins hjá Össuri heldur einnig Morgunblaðinu skýringa á dvínandi gengi flokksins í könnunum. Greinilegt er, að tilraun þeirra til að styrkja stöðu flokksins með því að kvarta undan ómaklegu umtali um Ingibjörgu Sólrúnu hefur ekki skilað neinum árangri. Þá er róið á ný mið.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, sem birtist 18. mars, er sagt, að samfylkingarmenn séu svo gamaldags og flokkspólitískir í allri afstöðu sinni, að þeir fæli frekar frá sér fylgi en auki það.

Föstudagur, 16. 03. 07. - 16.3.2007 17:53

Fór síðdegis í Lögregluskóla ríkisins að Krókhálsi, þar sem nýtt húsnæði var formlega tekið í notkun. Auk þess ritaði ég undir árangursstjórnunarsamning um starfsemi skólans við Arnar Guðmundsson skólastjóra, staðfesti skipurit skólans og erindisbréf skólastjóra.

Þar sem varamaður situr fyrir mig á þingi er ég ekki þar við atkvæðagreiðslur eða afgreiðslu mála þessa síðustu daga þinghaldsins. Eins og áður hefur allsherjarnefnd undir formennsku Bjarna Benediktssonar unnið afar vel að öllum málum, sem ég hef lagt fram á þingi og fyrir hana hafa farið. Ræðst í dag og á morgun, hve þingið sjálft samþykkir mörg málanna, en ágreiningur er um örfá þeirra.

Dóms- og kirkjumálaráðneytið birti þessa athugasemd á vefsíðu sinni í dag:

„Dóms- og kirkjumálaráðuneytið sendi fréttastjóra Sjónvarps og umsjónarmanni Kastljóss hinn 16. mars eftirfarandi:

Dómsmálaráðuneytið vill að gefnu tilefni taka fram: Þegar rætt var í fréttatíma Sjónvarps og Kastljósi 13. mars um hina svokölluðu 24 ára reglu í útlendingalögum var hallað réttu máli. Látið var að því liggja að 24 ára reglan hefði fallið úr gildi strax um sumarið 2005, eftir að gerð var dómssátt um að fella úr gildi tvær ákvarðanir sem byggðu á henni. Hið rétta er að síðan hefur reglan verið framkvæmd á grundvelli ábendinga umboðsmanns Alþingis og hinna ströngu krafna sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið viðurkenndi, með endurupptöku málanna tveggja sem komu við sögu í fréttatímanum og Kastljósinu. Umboðsmaður Alþingis fann ekki að því að 24 ára reglunni væri beitt en taldi að ráðuneytið hefði jafnframt átt að líta til fleiri ákvæða í útlendingalögum við ákvörðun sína. Engar deilur hafa sprottið af beitingu 24 ára reglunnar síðastliðin tvö ár.

Dómsmálaráðuneytið telur athugasemd Ragnars Aðalsteinssonar lögmanns í Kastljósi um „...að hafi málinu lokið með þessum hætti sé það viðurkenning ríkisvaldsins á því að þetta ákvæði standist hvorki stjórnarskrá né aðrar skuldbindingar ríkisins“, ekki eiga sér stoð í þeim málum, sem rætt var um í Kastljósi. Með vísan til góðra stjórnsýsluhátta ákvað ráðuneytið að eigin frumkvæði að taka fullt tillit til athugasemda umboðsmanns Alþingis og endurupptaka málin, ekkert hefur komið fram sem segir að 24 ára reglan standist ekki stjórnarskrá.“

Fimmtudagur, 15. 03. 07. - 15.3.2007 22:22

Fór klukkan 06.30 í Laugardalslaugina í fyrsta sinn síðan 5. febrúar, þegar ég komst varla á milli bakka á öðru lunganu - í morgun var þetta allt annað og betra.

Þennan dag í fyrra setti ég á vefsíðu mína:

„Vara þig fimmtánda mars, sagði spámaðurinn við Júlíus Sesar, sem svaraði: Svo maðurinn er draumvís! Við skeytum ekk’ um hann; og höldum áfram. Og síðar segir Sesar hjá Shakespeare í þýðingu Helga Hálfdanarsonar: Fimmtándi mars er kominn. Og spámaðurinn svarar: Já kominn Sesar; kominn, ekki liðinn.

Síðar þennan dag var Sesar myrtur, árið 44 fyrir Krist.

Þótt sjálfur Sesar félli fyrir morðingjahendi þennan dag, lauk ekki sögu Rómaveldis, hún hélt áfram.“

Síðan minntist ég atburða, sem gerðust þennan dag árið 2006 í Baugsmálinu og varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna, þegar Bandaríkjastjórn tilkynnti, að hún mundi kalla varnarliðið heim fyrir lok september 2006.

Ég hef aldrei skilið, hvernig málsvarar Baugs hafa talið þessa tilvísun í Shakespeare þennan dag einhverja sérstaka ögrun við sig eða til þess fallna að spilla þeim málaferlum, sem enn standa. Þau viðbrögð eru í anda hinnar sögulegu dulúð ar þessa dags.

Víst er að sagan hefur haldið áfram frá 15. mars 2006 - samið var við Bandaríkjamenn og í dag voru kynnt áform um alþjóðlegan háskóla í Keflavíkurstöðinni.

Þá var einnig sagt frá því í dag, að stjórnarskrárfrumvarpi formanna stjórnarflokkanna hefði verið vísað úr sérnefnd alþingis til stjórnarskrárnefndar og þar með er ljóst, að málið verður ekki afgreitt fyrir þinglok. Sögunni lýkur ekki með því - hún heldur áfram.

 

Miðvikudagur, 14. 03. 07. - 14.3.2007 20:53

Klukkan 14.00 var ég í ráðstefnusal Þjóðminjasafns, þar sem ég flutti ræðu á málþingi safnaráðs um rafrænan aðgang að menningar- og náttúrminjum. Mér þótti forvitnilegt að kynnast á ný stöðu þessara mála af mörgum góðum erindum, sem voru flutt á málþinginu. Enn er mikið verk óunnið, þótt margt hafi áunnist.

Klukkan 17.20 ræddu þeir félagar Kristófer og Þorgeir á Bylgjunni við mig um aðgerðir lögreglumanna og tollvarða á Suðurnesjum um síðustu helgi gegn fíkniefnasölum og samstarfsmönnum þeirra. Ég sagði, að í þessari aðgerð hefði nýst breytingin á skipan lögreglumála um síðustu áramót, með því að koma á fót öflugu lögregluliði á Suðurnesjum, efla greinigarstarf lögreglu og stórefla sérsveit lögreglunna.

 

Þriðjudagur, 13. 07. 0 - 13.3.2007 19:22

Evrópunefnd efndi til blaðamannafundar í Þjóðmenningarhúsinu klukkan 14. 30 í dag og þar lögðum við fram skýrslu okkar. Nefndin er sammála um mörg mikilvæg atriði, sem eru til þess fallin að styrkja hagsmunagæslu okkar Íslendinga gagnvart Evrópusambandinu. Skýrslan er birt í heild á vefsíðu forsætisráðuneytisins. Í lok hennar birtast viðhorf einstakra nefndarmanna til ESB-aðildar og í því efni erum við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og vinstri/grænna sammála.

Samhugur nefndarmanna um skýrsluna er mikill og Hreinn Hrafnkelsson, starfsmaður nefndarinnar, hefur lagt ómetanlegt starf af mörkum fyrir nefndina og við gerð skýrslu hennar.

Enginn, sem fjallar um tengsl Íslands og Evrópusambandsins, getur gengið fram hjá þessari skýrslu og hún tekur af skarið um, að EES-samningurinn hafi staðist tímans tönn auk þess sem Schengen-samkomulagið sé mikilvægur þáttur í samstarfi okkar við ESB.

Í Íslandi í dag var rætt við mig um skýrslu Evrópunefndar.

Mánudagur, 12. 03. 07. - 12.3.2007 22:30

Evrópunefnd hélt 43. fund sinn, lokafund, í hádeginu í dag. Við gengum frá skýrslu nefndarinnar og er ætlunin að kynna hana á morgun. Starf nefndarinnar var unnið í góðri sátt og er ég viss um, að allir nefndarmenn telja sig koma nokkru fróðari um stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu frá þessari miklu vinnu.

Sunnudagur, 11. 03. 07. - 11.3.2007 23:01

Fór um hádegisbilið á sýninguna Tækni og vit 2007 í Fífunni í Kópavogi og skoðaði það, sem vakti athygli mína, auk þess sem ég fékk mér rafrænt skilríki, sem á að koma í staðinn fyrir auðkenni og allar aðrar aðgangshindranir að netheimum, þegar fram líða stundir. Þessi skilríki eiga einnig að gera okkur kleift að nýta rafræna þjónustulagið, sem þróað hefur verið á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og ég segi frá í pistli mínum í dag. Þá get ég, þegar fram líða stundir, búið þannig um hnúta hér á síðunni, að aðeins þeir, sem hafa þau skilríki, sem ég samþykki, geti skoðað einstaka þætti síðunnar, ef ég kýs að deildaskipta henni.

Klukkan 19.00 að íslenskan tíma, 20.00 að franskan, horfði ég á Jacques Chirac, fráfarandi Frakklandsforseta, tilkynna, að hann yrði ekki oftar í framboði, en mundi samt halda áfram að helga krafta sína frönsku þjóðinni, auk þess sem hann ætlaði að halda því hjá sér, hvern hann styddi sem eftirmann sinn.

Chirac hefur nú verið 12 ár forseti en rúm 40 ár eru liðin, frá því að hann komst í fremstu röð franskra stjórnmálamanna. Haft var á orði í þjóðaratkvæðagreiðslunni um stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins 2005 hefðu Frakkar sagt nei, af því að þeir hefðu verið búnir að fá nóg af Chirac.

Ræðustíll franskra forseta er einstakur, bæði taktarnir og orðfærið. Upphafin játning Chiracs um föðurlandsást sína var á þann veg. að líklega getur enginn leikið það eftir. Á 12 árunum, sem Chirac hefur verið forseti, hefur oft verið rætt um, að hann kæmi hingað til lands, en af því hefur ekki orðið.

Laugardagur, 10. 03. 07. - 10.3.2007 21:04

Nokkrum sinnum á ári lít ég inn á Sólon síðdegis á laugardögum og ræði málin við góða vini. Andrúmsloftið var lifandi og skemmtilegt í dag og mikið um að vera.

Aðdragandi kosninga, skoðanakannanir, kostir við stjórnarmyndun eru að sjálfsögu helstu umræðuefni áhugamanna um stjórnmál þessa daga.

Náin tengsl eru milli stjórnmálaumræðna og fjölmiðla. Nú hafa bankarnir þrír eða stórfyrirtæki tengd þeim náð undirtökunum í fjölmiðlaheiminum: Baugur með sína miðla, Landsbankinn er bakhjarl Morgunblaðsins og Blaðsins, Exista og Bakkavör með Viðskiptablaðið og Skjá einn. Þetta setur að sjálfsögðu svip sinn á efnistök fjölmiðlanna, eins og eignarhald gerir að sjálfsögðu alltaf.

Umræður í netheimum hér og annars staðar hafa breytt eðli fjölmiðlunar, en ég hef ekki tekið eftir því í prentmiðlum annarra landa, að lagt sé eins mikið á sig við að vitna í vefsíður eins og gert er í íslenskum blöðum. Kapphlaupið milli mbl.is og visir.is um bloggara hefur ekki farið fram hjá neinum, en það er háð til að tryggja sem flestar heimsóknir á þessar vefsíður.

Ég er ekki viss um, að netið hafi haft mikil áhrif í kosningum hér á landi til þessa, þar sem málum er ekki fylgt eftir af sama þunga og víða erlendis. Nægir að minna á bandarísku forsetakosningarnar 2004 og hve illa John Kerry var leikinn vegna umræðna á netinu um framgöngu hans í Víetnam-stríðinu eða Dan Rather, aðalfréttamaður CBS, sem hrökklaðist frá vegna þess að netverjar sýndu, að hann fór með rangt mál, þegar hann birti frétt um George W. Bush og hermennsku hans.

Þegar ég fer um netheima, rekst ég ekki á margar síður, þar sem fjallað er um málefni til að rökræða eða fræða. Miklu meira er um dóma og viðhorf, sem verða leiðinleg, þegar síðurnar hafa verið skoðaðar oft, af því að allt er svo fyrirsjáanlegt í stað þess að vera upplýsandi.

Föstudagur, 09. 03. 07. - 9.3.2007 23:44

Mánudaginn 5. mars hófst frétt í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins á þessum orðum:

„Þingflokkar Samfylkingar, Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs og Frjálslynda flokksins lýstu sig í dag reiðubúna til að greiða fyrir því að ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum sem ekki eru háðar einkaeignarrétti, verði tekið upp í stjórnarskrá. Talsmenn flokkanna segja boltann nú hjá Framsókn.

Þingflokkarnir komu saman í dag og á eftir héldu talsmenn þeirra fund með fréttamönnum og þar sagði Össur Skarphéðinsson.

Össur Skarphéðinsson, alþingismaður: Þetta hefur verið sameiginlegt baráttumál okkar sem að erum samherjar í stjórnarandstöðu og við höfum ákveðið að ganga til samstarfs eða bjóða upp á samstarf við ríkisstjórnina til þess að ná fram þessu sameiginlega baráttumáli stjórnarflokkanna og okkar.

Þingflokkarnir samþykkja jafnframt að afgreiðsla frumvarps til nýrra stjórnskipunarlaga í þessa veru, verði nú forgangsmál áður en þingi lýkur, vilji þeirra stendur til þess að ákvæðið verði almennt sameignarákvæði á öllum náttúruauðlindum. “

Á ruv.is í dag 9. mars birtist þetta:

Forsætisráðherra reiknar enn með því að auðlindafrumvarpið verði að lögum á Alþingi með stuðningi stjórnarandstöðunnar þrátt fyrir að hart væri deilt á það á Alþingi í morgun. Búist er við því að mælt verði fyrir frumvarpi formanna ríkisstjórnarflokkanna á mánudag.

Forsætisráðherra kveðst ekki eiga von á öðru enn að það verði afgreitt á vorþingi og með stuðningi stjórnarandstöðunnar þrátt fyrir harða gagnrýni úr þeirri áttinni á Alþingi í morgun. Stjórnarandstaðan álítur að formenn ríkisstjórnarflokkanna hyggist festa kvótakerfið og framsal auðlinda til einkaaðila í sessi með frumvarpi sínu til breytinga á stjórnarskránni.

Snarpar deilur urðu í upphafi þingfundar í morgun þegar stjórnarandstaðan neitaði að samþykkja að taka frumvarpið á dagskrá með afbrigðum. Formenn stjórnarflokkanna telja minnihlutann á Alþingi starfa af óheilindum og löngun til að koma illu til leiðar í stjórnarsamstarfinu.

Ósamið er um framhald þingstarfa eftir að formönnum stjórnarflokkanna og fulltrúum stjórnarandstöðunnar á Alþingi laust saman. Hún lýsti sig reiðubúna til að samstarfs ef málið yrði tekið til vandlegrar umfjöllunar á Alþingi og haldinn yrði þingfundur á morgun. Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, segir að málin skýrist á mánudag en eftir fundahöld formanna og forseta var ákveðið að hafa ekki þingfund um helgina en eitthvað verður um nefndastörf Alþingis um helgina.

Geir Haarde forsætisráðherra sagði um miðjan dag að málið hefði sinn gang og hann ætti ekki von á öðru en að það yrði tekið fyrir á mánudag og afgreitt á þinginu með stuðningi stjórnarandstöðuna. “

Hvað er að marka þessa stjórnarandstöðu?


Fimmtudagur, 08. 03. 07. - 8.3.2007 21:51

Formönnum stjórnarflokkanna þeim Geir H. Haarde og Jóni Siguðrssyni tókst með ágætum að ná samkomulagi um orðalag á grein í stjórnarskrána um náttúruauðlindir. Umræður um málið hófust fyrir réttri viku, þegar flokksþing framsóknarmanna var að hefjast, og þeir rákust á, að ákvæði stjórnarsáttmálans um þetta efni hefði ekki verið efnt. Vandinn var sá, að stjórnarskrárnefnd undir formennsku framsóknarmanns hafði lokið störfum, án þess að gera tillögu um málið. Þess vegna voru góð ráð dýr, væru stjórnarflokkarnir sammála um að efna þetta ákvæði sáttmálans. Látið var á það reyna og lagðí Geir H. Haarde fram tillögu að lausn, sem þingflokkar beggja stjórnarflokkanna samþykktu eftir nokkrar umræður. Þessi tillaga í endanlegum búningi beggja flokka er nú í frumvarpi flokksformannanna.

Hvort tillagan verður samþykkt fyrir þinglok, kemur í ljós. Stjórnarflokkarnir hafa að minnsta kosti komið sér saman um lausn, sem stjórnarandstaðan ætlar að skoða, en Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, var hvorki með né á móti tillögunni í Kastljósi í kvöld. Virtist hann helst fetta fingur út í greinargerðina með tillögunni. Þegar stjórnarandstaðan vonaði, að hún gæti stuðlað að sundrungu meðal stjórnarflokkanna, var hún reiðubúin að samþykkja blankó-tékka fyrir framsókn í málinu - nú segir Össur, að það þurfi að skoða málið. Hvað hefur breyst? Tækifærið til að sprengja stjórnina horfið og þar með viljinn til að fallast gagnrýnilaust á sjónarmið framsóknarmanna?

Talsmenn Framsóknarflokksins í blogg-heimum, þeir Björn Ingi Hrafnsson og Pétur Gunnarsson, eru mest með hugann við það, eftir að sameiginleg niðurstaða fékkst, hvort Morgunblaðið muni ekki gleðjast, 20 ára baráttu þess lokið og það að tilstuðlan Framsóknarflokksins. Telur Björn Ingi, að Morgunblaðið gefi út aukablað í tilefni dagsins.

Miðvikudagur, 07. 03. 07. - 7.3.2007 20:47

Evrópunefnd hélt 42. fund sinn í hádeginu.

Það vakti undrun mína, að á forsíðu Fréttablaðsins í dag var frétt um starfið í nefndinni. Vitnað var í gögn, sem lögð höfðu verið fram í nefndinni til umræðu og athugunar. Ég skil ekki, hver hefur séð sér hag af því að miðla þessum vinnugögnum til fjölmiðla. Stangast það á við hinn góða anda, sem ríkt hefur í nefndarstarfinu, að sagt sé frá því, án þess að heimildar sé getið.

Raunar sá ég það fyrst á vefsíðu Péturs Gunnarssonar, sem á sínum tíma starfaði náið með Halldóri Ásgrímssyni og fyrir þingflokk framsóknarmanna, að vitnað var til fundar í Evrópunefnd mánudaginn 5. mars. Virtist það gert í þeim tilgangi að gera Samfylkingunni lífið leitt. Pétur hefur síðan fylgt þessu eftir með því að vitna í Samfylkingarvefsíðu á Akureyri, sem virðist telja mig ganga erinda Bandaríkjamanna í Evrópunefnd og þess vegna hafi ég náð samstöðu með Ragnari Arnalds um andstöðu við Evrópusambandið! Kanntu annan betri? má spyrja, þegar slíkar samsæriskenningar eru lesnar.

Evrópunefnd hefur safnað miklu magni upplýsinga og síðan drögum við nefndarmenn ályktanir af þeim. Ég læt hlutlægt mat á stöðunni ráða afstöðu minni og fagna hverjum þeim, sem er sammála mér, þótt í öðrum stjórnmálaflokki sé. Illgjarn spuni Péturs Gunnarssonar um málið eða kjánalegar samsæriskenningar í nafni Samfylkingar á Akureyri breyta engu um þessa efnislegu afstöðu mína til aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

Þriðjudagur, 06. 03. 07. - 6.3.2007 22:11

Sótti ríkisstjórnarfund í morgun í fyrsta sinn síðan ég veiktist fyrir mánuði.

Mánudagur, 05. 03. 07. - 5.3.2007 21:58

Evrópunefnd hélt 41. fund sinn í hádeginu. Við erum að nálgast lyktir nefndarstarfsins.

Stjórnarandstaðan efndi til blaðamannafundar í dag til að bjóða framsóknarmönnum upp í dans um stjórnarskrána og auðlindir sjávar. Fimm til sex fundardagar eru eftir af þinginu, en sérstök stjórnarskrárnefnd var skipuð í byrjun janúar 2005 til að ræða öll álitaefni vegna breytinga á stjórnarskránni á þessu kjörtímabili og ætlaði hún að skila tillögum sínum í ágúst 2006 samkvæmt eigin vinnuáætlun, eins og sjá má á vefsíðu hennar. Skyldi þetta allt gert til að tryggja sem bestan málefnalegan undirbúning og vandaða afgreiðslu mála fyrir þinglok nú í mars.

Halldór Ásgrímsson samdi erindisbréf nefndarinnar sem forsætisráðherra og minntist þar ekki á auðlindir sjávar. Nefndin fjallaði ekki um málið.

Eru þessi vinnubrögð stjórnarandstöðunnar til þess fallin að auka virðingu alþingis? Ég dreg það stórlega í efa. Raunar felst hvorki virðing fyrir stjórnarskránni né alþingi í þeim. Nú vilja menn, sem töluðu í meira en hundrað klukkustundir um það, hvort breyta ætti ríkisútvarpinu úr ríkisstofnun í ríkishlutafélag, afgreiða breytingu á stjórnarskránni umræðulaust.

Á blaðamannafundi stjórnarandstöðunnar voru formenn tveggja flokka, Steingrímur J. Sigfússon og Guðjón Arnar Kristjánsson og síðan Össur Skarphéðinsson - var það ekki eini fréttapunkturinn við fundinn, að Össur hefur ýtt Ingibjörgu Sólrúnu til hliðar?

Sunnudagur, 04. 03. 07. - 4.3.2007 19:17

Sagt var frá því í fréttum, að líklega yrðu tveir ef ekki þrír nýir flokkar í framboði í komandi kosningum. Arndís Björnsdóttir boðaði framboð öryrkja og aldraðra og skrifar skammargrein um ríkisstjórnina í Morgunblaðið, þar sem hún sækir fram undir þeim merkjum, að við séum spilltir eiginhagsmunaseggir, sem kunnum ekki að fara með opinbert fé fyrir utan að vera sérstakir óvildarmenn aldraðra og öryrkja.

Arndís sakar okkur sjálfstæðismenn sérstaklega um að vera í öðrum takti en „gamli góði Sjálfstæðisflokkurinn okkar.“ - Þessi fortíðarþrá finnst mér alltaf dáliítið skrýtin. Hvaða ár skyldi Arndís hafa viljað, að Sjálfstæðisflokkurinn segði, að hann ætlaði hingað og ekki lengra miðað við þróun samfélagsins?

Það kemur mér óneitanlega í opna skjöldu eftir ágæt samskipti okkar Arndísar, þegar ég var menntamálaráðherra, að fá þessa köldu kveðju frá henni. Lengi skal hins vegar manninn reyna og hverjum og einum er að sjálfsögðu í sjálfsvald sett undir hvaða flaggi hann kýs að sækja fram til orrustu.

Um helgina komst ég austur í Fljótshlíð í fyrsta sinn síðan ég var þar 4. febrúar, þegar lungað féll saman í mér. Sannaðist enn og aftur, að ekki er síður gott og endurnærandi að komast í sveitasæluna um vetur en sumar.

Ánægjulegt var að heyra niðurstöður könnunar við upphaf Búnaðarþings í dag um eindregin stuðning landsmanna við bændur og matvæli frá þeim.

Föstudagur, 02. 03. 07. - 2.3.2007 22:53

Jón Kristjánsson, formaður stjórnarskrárnefndar og fulltrúi Framsóknarflokksins í henni, sagði í kvöldfréttum, að innan nefndarinnar hefði ekki verið neinn áhugi á að breyta stjórnarskránni á þann veg að setja þar ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum. Hann bætti því hins vegar við, að sér þætti brýnt að setja slíkt ákvæði í stjórnarskrána, enda væri gert ráð fyrir því í stjórnarsátmálanum. Sagði Jón þetta eindregið baráttumál Framsóknarflokksins og þau Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingaráðherra flokksins, og Guðni Águstsson, landbúnaðarráðherra, tóku undir með honum.

Fyrir þá, sem standa bæði utan Framsóknarflokksins og stjórnarskrárnefndar, er þetta einkennileg staða. Formaður stjórnarskrárnefndar hefur lagt ríka áherslu á samstiga afstöðu nefndarinnar og hann hefur jafnframt sagt hana aðeins hafa afgreitt eina tillögu, það er um aðferðina við breytingu á stjórnarskránni. Síðan kemur þessi sami fomaður fram á elleftu stundu og segir að breyta verði ákvæði stjórnarskrárinnar, sem ekki hefur verið rætt til hlítar innan nefndar hans.

Stjórnarskrárnefnd hefur réttilega verið hrósað fyrir að starfa fyrir opnum tjöldum. Ef nú á að leggja fram tillögur um breytingar á stjórnarskránni, án þess að nefndin hafi fjallað um þær, eru öll fyrirheit um öfluga kynningu gagnvart almenningi fokin út í veður og vind. Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra sagði tíma leynipukurs og funda í reykmettuðum herbergjum liðinn. Þessi hvatningarorð eiga ekki síst við, þegar stjórnarskráin og breytingar á henni eru á döfinni.  Hvers vegna á að taka upp mál á elleftu stundu og krefjast tafarlausrar breytingar á stjórnarskránni, þegar ekki var einu sinni haft fyrir að ræða málið í  sjálfri stjórnarskrárnefnd?

Fimmtudagur, 01. 03. 07. - 1.3.2007 20:32

Flutti tvö mál á þingi í morgun og voru það síðustu frumvörpin, sem ég legg fyrir þing með tilmælum, að málin fái fra,gang fyrir þinglok. Ég hafði ekki komið í þinghúsið síðan ég veiktist 5. febrúar og var mér vel fagnað af mörgum þingmönnum.

Í dag er fagnaðardagur hjá okkur, sem viljum vinna að því að lækka skatta, því að í dag, 1. mars, lækkar virðisaukaskattur á matvælum, bókum, hljómdiskum og veitingastarfsemi í 7%.

Er þetta enn ein skattalækkunin, sem við höfum beitt okkur fyrir. Árið 1995 var skatthlutfall tekjuskatts og útsvars 41,8% og skattleysismörk 57.199 krónur. Nú er þetta skatthlutfall 35,7% og skattleysismörk 90.056. Hlutur ríkisins í skattheimtu er nú 22,75% en var t.d. 34,30% árið 1994. Við höfum fellt niður eignaskatt, sem kallaður var ekknasskattur fyrir nokkrum árum og vakti mikla reiði. Erfðafjárskatti hefur verið breytt til lækkunar. Auk þess hafa skattar á fyrirtæki verið lækkaðir í 18% en tekjur ríkisins af þeim skatti hafa stóraukist, endurspeglar það styrk og vöxt efnahagslífsins.

Þegar við hófum þessa vegferð til skattalækkana, töldu andstæðingar okkar meðal vinstri grænna og samfylkingarfólks, að við værum að stofna afkomu ríkissjóðs í óbærilega hættu og höfðu stór orð um hana. Á nýlegum landsfundi vinstri grænna taldi Steingrímur J. Sigfússon, flokksformaður og ákafasti andstæðingur skattalækkananna, stöðu ríkissjóðs hins vegar svo góða, að bæta mætti á hann 7 milljarða króna útgjöldum í þágu aldraðra á ári (sama upphæð og varið er samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar á síðasta sumri), án þess að hækka skatta. Staða ríkissjóðs væri sem sagt mjög sterk!

Í dag var birt niðurstaða í Gallup-könnun, sem sýndi vinstri græn sem stærri flokk (23,5%) en Samfylkinguna (22,5%). Merkilegt er að sjá vinstri græn vaxa í réttu hlutfalli við umræður um, að þau hafi áhuga á að starfa með Sjálfstæðisflokknum að loknum kosningum.