Dagbók: ágúst 1999

Þriðjudagur 31.8.1999 - 31.8.1999 0:00

Um hádegisbilið kom hingað til lands Bridget Mabandla, sem fer með menningarmál, rannsóknir og vísindi í ríkisstjórn Suður-Afríku. Voru þrír samstarfsmenn hennar með í ferðinni. Ráðherrann var á ferð til allra Norðurlandanna í tilefni af því að undanfarna mánuði hefur norræna ráðherranefndin staðið fyrir samstarfi um menningarmál við S-Afríku og hefur meðal annars verið efnt til norrænna menningarviðburða í S-Afríku, lýkur þessu formlega samstarfi núna í september og stendur til að ég fari þangað af því tilefni sem formaður ráðherranefndarinnar á þessu ári. Var ánægjulegt að taka á móti frú Mabandla og samstarfsmönnum hennar. Þau höfðu mikinn áhuga á að kynnast Íslandi og hvernig hér er staðið að úrlausn ýmissa mála, þótt langur vegur sé frá því, að þjóðfélag þeirra sé á sama stigi og okkar, þó að ekki sé nema vegna þess eins, að þar eru ellefu opinber tungumál. Dvöldust gestirnir hér til fimmtudags 2. september.

Sunnudagur 29.8.1999 - 29.8.1999 0:00

Klukkan 14.00 vorum við í Samvinnuháskólanum á Bifröst og tókum þátt í setningu hans en jafnframt steig skólinn það skref, að allir nemendur hans skyldu hafa eigin fartölvu til umráða og opnað var sérstakt fjarskiptanet skólans á vegum Tals hf.

Sunnudagur 29.8.1999 - 29.8.1999 0:00

Fórum á frumsýningu myndar Sólveigar Anspach – Hertu upp hugann – á kvikmyndahátíð, en þar er farið listrænum höndum um viðkvæmt efni.

Laugardagur 28.8.1999 - 28.8.1999 0:00

Klukkan 10.00 hófst dagur símenntunar formlega í Viðskiptaháskólanum í Reykjavík. Flutti ég ræðu um símenntun á 21. öld. Síðan skoðuðum við sýningarbása í húsakynnum Verslunarskólans í Reykjavík. Klukkan 14.00 vorum við Rut í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi, þar sem Fræðslunet Suðurlands tók formlega til starfa með hátíðlegri athöfn. Klukkan 16.00 opnaði Eiríkur Smith málverkasýningu í Hafnarborg í Hafnarfirði. Var mikill mannfjöldi þar, þegar við sóttum sýninguna á leiðinni frá Selfossi. Klukkan 20.00 fórum við á sýningu á Hellisbúanum í Íslensku óperunni. Var þetta hátíðarsýning í tilefni af því, að þarna var sett aðsóknarmet í íslensku leikhúsi. Bjarni Haukur Þórisson leikari var hylltur í lok sýningarinnar ásamt þeim, sem stóðu að því að setja þennan skemmtilega einleik á svið með þeim hætti, að fleiri áhorfendur hafa sótt hann en nokkra aðra sýningu í íslensku leikhúsi.

Föstudagur 27.8.1999 - 27.8.1999 0:00

Klukkan 11.00 flaug ég til Akureyrar, þar beið mín bíll og ókum við til Siglufjarðar þar sem ég flutti ræðu á fundi SSNV og svaraði fyrirspurnum. Síðan hélt ég aftur til Akureyrar og flaug þaðan klukkan 18.10 og var kominn heim um kvöldmatarleytið. Klukkan 20.30 hófst Kvikmyndahátíð í Reykjavík og kom það í minn hlut að setja hana með ræðu. Síðan var sýnd bráðskemmtileg mynd um líf meðal Sígauna á Balkanskaga eftir Emír Kusturica.

Þriðjudagur 24.8.1999 - 24.8.1999 0:00

Um kvöldið fórum við á tónleika kórs frá Nýfundnalandi, Kórs Kársnesskóla og Kórs Menntaskólans við Hamrahlíð, sem voru í MH. Þarna voru menningarmálaráðherra Nýfundnalands og eiginkona hans ásamt fylgdarliði meðal áheyrenda. Kórinn frá Nýfundnalandi hélt fimmtudaginn 26. ágúst til Finnlands ásamt MH-kórnum, þar sem þeir taka þátt í tónlistarhátíð.

Mánudagur 23.8.1999 - 23.8.1999 0:00

Klukkan 11.00 efndum við Kevin H. Smith frá Vísindasafninu í Buffalo í New York-ríki í Bandaríkjunum til blaðamannafundar í menntamálaráðuneytinu, þar sem hann kynnti niðurstöðu sína á jaspis-steinum frá fornleifauppgreftri að L’Anse aux Meadows á Nýfundnalandi fyrir tæpum 40 árum, en steinarnir eða eldtinnurnar hafa nú verið rannsakaðar með nýrri tækni. Niðurstaðan er, að staðfest hefur verið að menn frá Íslandi voru í þessum þúsund ára gömlu víkingabúðum, niðurstaðan rennir einnig stoðum undir frásögn Grænlendingasögu um vetursetu Þorfinns karlsefnis í Straumfirði.

Sunnudagur 21.8.1999 - 21.8.1999 0:00

Klukkan 13.00 fór ég til nágranna minna í Blindrafélaginu við Hamrahlíð og fagnaði með þeim 60 ára afmæli félagsins.

Föstudagur 20.8.1999 - 20.8.1999 0:00

Dr. Henning Scherf, forsætisráðherra í Bremen, minnsta sambandslandi Þýskalands, kom í heimsókn til mín fyrir hádegi. Hann er sá þýskur stjórnmálamaður, sem lengst hefur setið samfellt í ríksstjórn. Var skemmtilegt að kynnast þessum manni, sem er hér og býr á Hjálpræðishernum með félögum sínum, en þeir ætla að sigla síðasta áfanga á heimssiglingu skútu frá Bremen, sem kemur hingað frá Halifax og verður þá skipt um áhöfn. Síðdegis flaug ég til Vestmannaeyja á SUS-þingið og tók síðasta áætlunarflug til baka um kvöldið.

Fimmtudagur 19.8.1999 - 19.8.1999 0:00

Klukkan 9.30 fór ég á fund með kennurum í Iðnskólanum í Reykjavík, sem voru að koma til fyrsta starfsdags eftir sumarleyfi. Hafði ég verið beðinn að ræða um þróun framhaldsskólastigsins og svara fyrirspurnum. Var þetta fjölmennur og ánægjulegur fundur.

Sunnudagur 15.8.1999 - 15.8.1999 0:00

Messa klukkan 13.30 á Laugardalsvelli, upphaf kristnihátíðar í Reykjavíkurprófastdæmi. Veðrið var milt og gott og sagði útvarpið, að um 6000 manns hefðu tekið þátt í messunni.

Sunnudagur 15.8.1999 - 15.8.1999 0:00

Fór um kvöldið í þéttsetna Hallgrímskirkju og hlýddi á H-moll messu Bachs undir stjórn Harðar Áskelssonar í flutningi Mótettukórsins, hljómsveitar og einsöngvara.

Fimmtudagur 12.8.1999 - 12.8.1999 0:00

Ráðstefna í Valhöll á Þingvöllum um íslenska þjóðveldið á vegum Liberty Fund.

Þriðjudagur 10.8.1999 - 10.8.1999 0:00

Blaðamannafundur klukkan 15.00 í rafveituhúsinu við Elliðaá, þar sem skrifað var undir yfirlýsingu um samstarf við að reka Lagnakerfismiðstöð Íslands.

Mánudagur 9.8.1999 - 9.8.1999 0:00

Klukkan 9.00 setning ráðstefnunnar Vestur um haf á vegum Stofnunar Sigurðar Nordals í Norræna húsinu.

Sunnudagur 8.8.1999 - 8.8.1999 0:00

Klukkan 15.30 var efnt til hátíðarathafnar við Furulundinn á Þingvöllum til að minnast þess, að 100 ár væru liðin frá því að skógrækt hófst á Íslandi en það gerðist með því, að danskur skipstjóri, Carl Hartvig Ryder, beitti sér fyrir því að hafist var handa um skógræktartilraunir á þessum stað með styrk frá danska landbúnaðarfélaginu, sem Ryder aflaði. Tómas Ingi Olrich alþingismaður og áhugamaður um trjárækt stjórnaði athöfninni og var ánægjulegt að taka þátt í henni, hlusta á tónlist, ljóð, ræður og ávörp í rúman klukkutíma í mildu, þurru veðri. Gleðilegt var, að Séra Heimir Steinsson, Þingvallaprestur og staðarhaldari, flutti hugvekju en þetta var fyrsta embættisverk hans eftir erfið veikindi frá því á páskum. Við lok athafnarinnar rituðum við Jón Loftsson, skógræktarstjóri ríkisins, og ég sem formaður Þingvallanefndar undir samstarfsyfirlýsingu, en Skógrækt ríkisins fær með henni formlega staðfestingu á mikilvægu hlutverki sínu við að fylgjast með trjágróðri innan þjóðgarðsins auk þess sem gefin er skuldbinding um varðveislu Furulundarins. Kristinn Skæringsson skógarvörður hefur fylgst með Furulundinum undanfarna áratugi af mikilli alúð en nú eru þar um 400 stæðileg tré í lundinum.

Laugardagur 7.8.1999 - 7.8.1999 0:00

Síðdegis fórum við Bjarni Benedikt til Skálholts og hlýddum á tónleika Bach-sveitarinnar, þar sem Rut var meðal einleikara. Voru tónleikarnir að venju vel sóttir.

Föstudagur 6.8.1999 - 6.8.1999 0:00

Fyrir hádegi hitti ég Georg Metakides, sem fer með upplýsingatæknimál innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Hefur hann mikinn áhuga á því, hvernig við nýtum hina nýju tækni hér á landi, ekki síst í skólakerfinu. Vill hann gjarnan efla samstarf við okkur á þessum sviðum.

Fimmtudagur 5.8.1999 - 5.8.1999 0:00

Fyrir hádegi hitti ég Stephane Dion, innanríkisráðherra Kanada. Var hann hér á landi til að flytja fyrirlestur á ráðstefnu um kanadísk málefni. Hafði hann mikinn áhuga á að kynnast mennta- og menningarmálum okkar Íslendinga og bera saman stöðuna hér og í Kanada.

Mánudagur 2.8.1999 - 2.8.1999 0:00

Við fórum aftur í Skálholt og hlustuðum á Helgu Ingólfsdóttur vinna það afrek að leika Goldberg-tilbrigðin eftir Bach á sembal. Tónleikarnir voru vel sóttir og raunar hafði aðsóknin verið mjög góð á sumartónleikana í Skálholti yfir verslunarmannahelgina. Ég átti von á því að lenda í umferðarteppu á leiðinni til Reykjavíkur eftir allt talið um hina miklu umferð um helgina. Annað var uppi á teningnum, því að ég var rétt um klukkutíma frá Skálholti heim til mín.