Dagbók: febrúar 1999
Laugardagur 27.2.1999
Klukkan 13.00 fór ég í Vélskóla Íslands en þar var skrúfudagurinn haldinn hátíðlegur. Síðan var ég á ráðstefnunni UT99 og sleit henni klukkan rúmlega 16.00.
Laugardagur 26.2.1999
Fórum árdegis og skoðuðum skrifstofu ræðismannsins og ritstjórnarskrifstofur Lögbergs Heimskringlu. Síðan fórum við að þinghúsi Manitoba en fyrir framan það er stytta af Jóni Sigurðssyni forseta eins og sú sem er fyrir framan Alþingishúsið, stöpullinn er lægri undir styttunni í Winnipeg og nýtur hún sín betur fyrir bragðið. Ræddum við, að ekki væri úr vegi að lækka stöpulin á Austurvelli. Þá var ekið í rigningunni til Gimli, þar sem við heimsóttum Betel- elliheimilið og snæddum hádegisverð og ræddum við forystumenn í röðum V-Íslendinga. Um kvöldið var svo þorrablót.
Föstudagur 26.2.1999
Ráðstefnan UT99 um upplýsingatækni í skólastarfi hófst klukkan 13.15 í Menntaskólanum í Kópavogi. Klukkan 17.30 afhenti ég íslensku tölvuverðlaunin í fyrsta sinn við hátíðlega athöfn í Listasafni Íslands.
Fimmtudagur 25.2.1999
Síðdegis ritaði ég undir samning um að tveir grunnskólar í Vestmannaeyjum verði svokallaðir Globe-skólar, það er að þeir taki þátt í Globe-verkefninu, sem stofnað er til af Bandaríkjamönnum og miðar að fræðslu í umhverfismálum og samstarfi skólabarna um heim allan á því sviði. Klukkan 17.15 efndi málefnanefnd Sjálfstæðisflokksins um skólamál til fundar um námskrár og nýja skólastefnu. Var ég meðal frummælenda á fundinum.
Miðvikudagur 24.2.1999
Síðdegis fór ég með Guðmundi Magnússyni sagnfræðingi í Reykholt í Borgarfirði, þar sem við efndum til fundar með fulltrúum heimamanna. Kynntum við niðurstöður nefndar, sem Guðmundur stýrði um það, hvernig best verði staðið að því að styrkja Reykholt í sessi sem fræðasetur, þar sem áhersla er lögð á miðaldafræði. Var tillögum nefndarinnar vel tekið. Einnig fórum við yfir stöðu framkvæmda á staðnum og næstu skref.
Sunnudagur 24.2.1999
Um kvöldið voru tónleikar Kammersveitar Reykjavíkur í Salnum í Kópavogi þar sem Rut og Erling Blöndal Bengtsson voru einleikarar.
Mánudagur 22.2.1999
Reglulegur fundur menntamálaráðuneytisins og skólameistara framhaldsskóla var haldinn þennan dag. Þar skiptust menn á skoðunum um nýja námskrá fyrir framhaldsskóla, sem tekur gildi á þessu ári. Klukkan 17.15 efndi málefnanefnd Sjálfstæðisflokksins um skólamál til almenns fundar um agamál í skólum.
Laugardagur 20.2.1999
Fór klukkan 14.00 og setti listahátíð fatlaðra og þroskaheftra í Ráðhúsinu. Fór klukkan 16.00 í Gerðarsafn, þar sem minningarsýning á málverkum Svölu Þórisdóttur var opnuð. Fór klukkan 18.00 í Laugarásbíó og opnaði íslenskan myndbandavef.
Föstudagur 19.2.1999
Umræður á alþingi um þrjú frumvörp um háskóla, það er um Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands.
Fimmtudagur 18.2.1999
Fórum í hádegisleikhúsið í Iðnó og sáum frumsýningu á leikritinu Leitum að ungri stúlku eftir Kristján Þórð Hrafnsson.
Miðvikudagur 17.2.1999
Upptaka á útvarpsþætti um grunnskólann undir stjórn Þrastar Helgasonar, þátturinn sendur út síðdegis fimmtudaginn 18. febrúar. Svaraði fjórum fyrirspurnum á alþingi.
Þriðjudagur 16.2.1999
Fór í 100 ára afmæli KR í Ráðhúsinu, flutti KR-ingum afmæliskveðju og tók á móti glæsilegri bók um félagið. Sáum leikritið Hinn fullkomni jafningi í Íslensku óperunni, þar sem Felix Bergsson bregður sér í mörg hlutverk.
Föstudagur 12.2.1999
Klukkan 9.15 kom það í minn hlut að setja málþing um menningararfinn, auðlind í ferðaþjónustu. Var ánægjulegt að sjá, hve margir sóttu þetta þing. Klukkan 11.30 var efnt til blaðamannafundar til að kynna framkvæmdir við Þjóðminjasafn Íslands sem munu standa fram til 17. júní 2001. Má segja, að unnið sé að því að koma upp tveimur söfnum á þessum tíma, því að allir munir safnsins verða ljósmyndaðir og settir inn á netið samhliða því sem búið verður um safnið með nýjum hætti. Klukkan 17 fór ég í viðtal á rás 2 um stjórnmál, þá ræddi ég einnig við fréttamann um nýtt frumvarp til laga um Háskóla Íslands. Hjálmar Árnason, þingmaður Framsóknarflokksins, hafði látið orð falla daginn áður, sem mátti skilja á þann veg, að ég hefði farið á bakvið þingflokk framsóknarmann við framlagningu frumvarpsins. Þetta er ekki rétt og leiðrétti ég það. Þá ræddi ég einnig við fréttamann um lyktir málaferlanna yfir Bill Clinton og birtist það í fréttaauka klukkan 13 laugardaginn 13. febrúar.
Miðvikudagur 10.2.1999
Klukkan 15.30 var umræða utan dagskrár um húsnæðismál Nemendaleikhússins að ósk Steingríms J. Sigfússonar. Var hálfeinkennilegt að hlusta á þingmenn stjórnandstöðunnar flytja skrifaðar skammarræður um mál, sem hafði verið leyst með farsælum hætti og samkomulagi allra aðila.
Þriðjudagur 9.2.1999
Síðdegis hitti ég fulltrúa fjórða árs nemenda í Leiklistarskóla Íslands, sem höfðu daginn áður efnt til útifundar vegna þess, að þeir töldu, að það ætti að úthýsa sér úr Lindarbæ. Hafði málið ekki verið lagt fyrir mig áður. Eftir samtal okkar ræddi ég við Hallgrím Snorrason hagstofurstjóra og fannst þá strax lausn á málinu. Var ritað undir samkomulag um það daginn eftir.
Mánudagur 8.2.1999
Klukkan 10 fórum við Jónína í menntamálaráðuneytið í Varsjá og hittum menntamálaráðherrann og samstarfsmenn hans. Ræddum við samskipti þjóðanna í menntamálum. Klukkan 12 var athöfn í bókmenntakynningarsafninu, þar sem ég opnaðisýninguna um Halldór Laxness. Menningarmálaráðherra Póllands bauð okkur síðan í hádegisverð. Þaðan fórum við beint út á flugvöll og komum heim um kvöldið í gegnum Kaupmannahöfn.
Sunnudagur 7.2.1999
Fórum með Jónínu Michaelsdóttur, formanni Bókmenntakynningarsjóðs, á fund með stjórn vináttufélags Póllands og Íslands í skrifstofu þess. Var ánægjulegt að kynnast áhuga þessa fólks á málefnum Íslands.
Laugardagur 6.2.1999
Við Rut héldum til Varsjá til að opna Laxness-sýningu í bókmenntasafni þar.
Föstudagur 5.2.1999
Klukkan 14.30 var ritað undir samning um nýja bók í Iðnsögu Íslands, fór athöfnin fram í Sjóklæðagerðinni við Faxafen. Klukkan 17.00 vorum við í Listasafni Íslands, þegar menningarverðlaun VÍS voru afhent. Um kvöldið fórum við á frumsýningu Íslenska dansflokksins.
Fimmtudagur 4.2.1999
Ég flutti á alþingi framsöguræðu fyrir frumvarpi til útvarpslaga og fjórum frumvörpum sem starfandi dómsmálaráðherra. Klukkan 15.00 komu fulltrúar Símans í ráðuneytið og afhentu mér fyrsta íslenska GSM-símann með valmynd á íslensku og með íslenskum bókstöfum. Um kvöldið fórum við á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hallgrímskirkju, þar sem Orgelkonsert Jóns Leifs var meðal annars fluttur.
Miðvikudagur 3.2.1999
Síðdegis svaraði ég sex fyrirspurnum á alþingi.
Þriðjudagur 2.2.1999
Klukkan 11.30 fór ég í Kvennaskólann í boði skólafélagsins og efndi þar til fundar með nemendum í hádegishléi þeirra. Klukkan 15.30 var efnt til blaðamannafundar í ráðuneytinu með forráðamönnum Rannís um markáætlun í upplýsingatækni og umhverfismálum.
Mánudagur 1.2.1999
Klukkan 17.15 var ég í félagsheimli sjálfstæðismanna í Breiðholti og ræddi þar við flokksmenn. Klukkan 19.50 ræddi ég við Margréti Frímannsdóttur í beinni útsendingu á Stöð 2.