Dagbók: október 2000

Þriðjudagur 31.10.2000 - 31.10.2000 0:00

Hélt heim frá Brussel fyrir hádegi, flugvél SA S var 30 mín. of sein að leggja af stað vegna veðurs en náði tímanum að mestu upp á leiðinni til Kaupmannahafnar vegna meðvinds. Flugleiðavélin var á áætlun og var ekki nema 2 tíma og 40 mínútur að fljúga heim frá Kaupmannahöfn. Síðdegis hitti ég sendinefnd frá Frakklandi, sem var hér til viðræðna um menningar-, mennta- og vísindamál.

Mánudagur 30.10.2000 - 30.10.2000 0:00

Klukkan 15.00 hitti ég Philippe Busquin, vísindastjóra Evrópusambandsins, og ræddi við hann í klukkustund um vísindastefnun ESB og hlut okkar Íslendinga, sem hefur verið góður og verður áfram, ef rétt er á málum tekið. Einnig sat ég fundi í sendiráði Íslands en þar eru meðal annars tveir fulltrúar frá menntamálaráðuneytinu til að fylgja eftir málum á starfssviði þess. Veðrið var slæmt þennan dag og gekk mikið óveður yfir suðurhluta Englands en angi þess teygði sig til Brussel.

Sunnudagur 29.10.2000 - 29.10.2000 0:00

Flaug snemma morgun um Kaupmannahöfn til Brussel.

Laugardagur 28.10.2000 - 28.10.2000 0:00

Klukkan 13.30 fór ég á þing Iðnnemasambands Íslands og tók þar þátt í skemmtilegum umræðum fram yfir klukkan 15.00.

Fimmtudagur 26.10.2000 - 26.10.2000 0:00

Klukkan 08.00 fór í ég tíma í stjórnmálafræði í Verslunarskóla Íslands og ræddi við nemendur. Um kvöldið fór ég í Smiðjuna, nýtt nemendaleikhús Listaháskóla Íslands, sem ég tók þátt í að opna og sá síðan sýningu nemenda á Ofviðrinu eftir William Shakespeare. Þótti mér hinir ungu leikarar sýna góð tilþrif auk þess sem skemmtilegt er að sjá, hve öllu er haganlega komið fyrir í þessu gamla smiðjuhúsnæði Landssmiðjunnar við Sölvhólsgötu. Fasteignir ríkissjóðs hafa umsjón með húsnæðinu og hafa komið að endurbótum á því en menntamálaráðuneytið fjármagnaði tækjakaup.

Miðvikudagur 25.10.2000 - 25.10.2000 0:00

Var með viðtöl fyrir og eftir hádegi en klukkan 15.00 tók ég þátt í athöfn í Þjóðmenningarhúsinu, þar sem afhent var Evrópumerkið svonefnda fyrir gott nýbreytniverkefni í tungumálanámi og kennslu. Að þessu sinni fékk verkefnið Tungumálanám á Neti merkið.

Þriðjudagur 24.10.2000 - 24.10.2000 0:00

Í hádeginu komu þeir til mín í skrifstofuna Ólafur Hand frá Aco og Viggó Viggóson frá Tölvudreifingu og afhentu mér nýja Office: Mac 2001 hugbúnaðinn. Klukkan 17.15 efndi íþrótta- og æskulýðsnefnd Sjálfstæðisflokksins til opins fundar um afreksstefnu í íþróttum og var ég einn frummælenda. Fundurinn var vel sóttur og líflegar umræður fram yfir klukkan 19.00

Mánudagur 23.10.2000 - 23.10.2000 0:00

Þessi vika er svokölluð kjördæmavika í alþingi, þannig að þar eru ekki fundir. Ég nota tímann meðal annars til þess að efna til funda með starfsfólki menntamálaráðuneytisins, það er einstökum skrifstofum þess. Einnig ætla ég að reyna að kalla á sem flesta, sem hafa óskað eftir viðtali við mig í þessari viku. Vegna ferðalaga til útlanda hafa viðtöl sl. tvo miðvikudaga fallið niður hjá mér.

Laugardagur 21.10.2000 - 21.10.2000 0:00

Fór síðdegis í Austurstræti 17, þar sem World Class var að opna nýja, glæsilega líkamsræktarstöð.

Föstudagur 20.10.2000 - 20.10.2000 0:00

Fór síðdegis í Reykholt í Borgarfirði og tók um kvöldið þátt í fundi Rannsóknarráðs Íslands, þar sem ég reifaði hugmyndir um breytingar á lögum um ráðið.

Miðvikudagur 18.10.2000 - 18.10.2000 0:00

Við Ingimundur fórum fyrir hádegi á bókasýninguna og heimsóttum Íslendingana, sem þar voru með aðstöðu. Edda, hið sameinaða fyrirtæki Máls og menningar og Vöku-Helgafells, var með stóra sýningaraðstöðu og um 20 manns til að sinna erindum á sýningunni, en okkur var sagt, að aldrei fyrr hefði verið jafmikill áhugi á því að ræða við íslenska útgefendur um það, sem þeir hafa á boðstólnum. Við hittum einnig fulltrúa minni útgefenda, sem stóðu saman að sýningaraðstöðu. Þá hittum við forráðamenn sýningarinnar og fórum í fylgd eins þeirra til fimm þýskra útgefenda, sem gefa út verk íslenskra höfunda og var ánægjulegt að kynnast áhuga þeirra. Flaug heim með Flugleiðum klukkan 14.00 og um kvöldið tók ég þátt í setningartónleikum á ART 2000, þar sem flutt var raf- og tölvutónlist, sem lauk með flugeldatónlist og miklum hvelli.

Þriðjudagur 17.10.2000 - 17.10.2000 0:00

Flutti ræðu á ráðherrafundinum bækur og rafræna útgáfur. Eftir að fundinum lauk vorum við Ingimundur Sigfússon sendiherra við setningu bókasýningarinnar í Frankfurt, sem er hin stærsta í heimi.

Mánudagur 16.10.2000 - 16.10.2000 0:00

Flaug klukkan 7.25 til Frankfurt en klukkan 15.00 að staðartíma hófst þar ráðstefna menningarmálaráðherra Evrópuráðsríkjanna um bækur og rafræna tækni.

Laugardagur 14.10.2000 - 14.10.2000 0:00

Klukkan 15.00 opnaði ég yfirlitssýningu á verkum Þórarins B. Þorlákssonar í Listasafni Íslands, einstæða sýningu og komu margir til að skoða hana þennan fyrsta dag hennar.

Föstudagur 13.10.2000 - 13.10.2000 0:00

Klukkan 14.00 var ég í Þjóðmenningarhúsinu og tók þátt í athöfn, sem var haldin í tilefni af því, að Gísli Sigurðsson, umsjónarmaður Lesbókar Morgunblaðsins, var sæmdur verðlaunum Móðurmálssjóðsins, sem var stofnaður í nafni Björns Jónssonar, ritstjóra Ísafoldar. Klukkan 15.30 tók ég þátt í pallborðsumræðum um fjölmenningarþjóðfélag á Íslandi á ráðstefnu, sem Reykjavíkurborg efndi til að Grand hotel. Kom mér á óvart, að Jón Björnsson, embættismaður hjá Reykjavíkurborg, hafði orð á því úr ræðustól að loknu pallborði, þegar hann var að búa sig undir ráðstefnuslit. að ekki hefði verið miklu lofað af þeim, sem við pallborðið sátu og var þetta greinilega sagt í vandlætingartón, án þess að okkur gestum hans á ráðstefnunni gæfist færi á að gera athugasemd. Man ég ekki eftir slíkri framgöngu af hálfu gestgjafa áður og vissi raunar ekki að á mig hefði verið kallað að borðinu til að gefa einhver loforð eða gangast undir skuldbindingar.

Fimmtudagur 12.10.2000 - 12.10.2000 0:00

Klukkan 10 fór ég í Kennaraháskóla Íslands og hitti þar Margrethe Vestager,, menntamálaráðherra Dana, sem ég hafði boðið hingað til lands meðal annars í því skyni að rita undir samstarfssamning um dönsku kennslu hér á landi. Ólafur Proppé, rektor KHÍ, flutti ávarp auk okkar ráðherranna. Síðan skoðuðum við teikningar af nýju húsi við skólann. Við ókum frá KHÍ í fallegu og björtu veðri til Selfoss, þar sem Óli Þ. Guðbjartsson, skólastjóri í Sólvallaskóla, tók á móti okkur og efndi til góðrar athafnar á sal skólans með upplestri á dönsku og söng barnakórs Selfosskirkju. Ég kvaddi ráðherrann á Selfossi að sinni en hún hélt í skoðunarferð til Gullfoss og síðan um Þingvöll til Reykjavíkur, þar sem við hittumst aftur um kvöldið. Síðdegis hélt ég til Keflavíkurflugvallar, þar sem ég tók á móti Völu Flosadóttur, bronsverðlaunahafa í stangarstokki á Ólympíuleikunum í Sydney.

Miðvikudagur 11.10.2000 - 11.10.2000 0:00

Klukkan 15.40 var umræða utan dagskrár á alþingi að frumkvæði Kolbrúnar Halldórsdóttur, Vinstri-grænum, sem vildi ræða við mig um RÚV. Ekkert nýtt kom fram í þeim umræðum fyrir utan það, að tveir varaþingmenn Framsóknarflokksins, Páll Magnússon og Árni Gunnarsson, tóku til máls og voru jákvæðari í garð breytinga á lögum um RÚV en áður hefur komið frá meðal framsóknarmanna. Klukkan 16.30 var blaðamannafundur í Þjóðarbókhlöðunni, þar sem við Einar Sigurðsson landsbókavörður rituðum undir samning við fulltrúa fyrirtækisins Bell and Howell um aðgang allra Íslendinga að gífurlega miklum rafrænum gagnasöfnum og tímaritum fyrirtækisins.

Þriðjudagur 10.10.2000 - 10.10.2000 0:00

Hitti í morgunverði Magnús Bjarnason og Pétur Óskarsson í viðskiptaskrifstofu sendiráðs Íslands í NY og Einar Gústavsson frá Ferðamálaráði, sem lýstu fyrir mér umfangi hinnar miklu kynningar, sem Ísland hefði fengið vegna komu Íslendings og Víkingasýningar Smithsonian. Sýndu mér mikið af blaðaúrklippum og löngum greinum auk mynda úr sjónvarpsþáttum. Fór með Magnúsi og Thor H. Thors í New York University, þar sem ég afhenti bóksafni þess Íslendingasögurnar að gjöf. Heimsóttum Museum of Natural History við Central Park West, þar sem Nancy Lynn sýndi okkur, hvernig að því er staðið að setja þar upp víkingasýninguna frá Smithsonian. Finnst mér hún jafnvel glæsilegri þarna en í Washington auk þess sem Ísland er meira áberandi í NY, vegna þess að sýndar eru sérstaklega stórar Íslandsmyndir eftir Pál Stefánsson, ljósmyndara. Við Thor fórum í Columbia University, þar sem ég afhenti Íslendingasögurnar í Butler-bókasafninu. Snæddum hádegisverð í mötuneyti skólans með tveimur íslenskum nemendum: Hauki Jónassyni, sem leggur stund á guðfræði, og Sigríði Björnsdóttur, sem er í Columbia School of Journalism. Fórum síðan með þeim á fund hjá Jonathan R. Cole sem er Provost skólans. Síðdegis var athöfn í Waldorf Astoria hótelinu til að minnast þess, að 1931 vann Nína Sæmundsson myndhöggvari samkeppni um styttu yfir anddyri þessa fræga hótels. Þarna var Ríkey Ríkharðsdóttir frænka Nínu, sem hefur beitt sér fyrir því, að minning hennar væri í heiðri höfð. Ég sagði nokkur orð og einnig Eric Lang hótelstjóri auk þess sem Egill Ólafsson og félagar fluttu tvö lög. Flaug heim um kvöldið.

Mánudagur 9.10.2000 - 9.10.2000 0:00

Hitti Ólaf Jóhann Ólafsson, formann Íslensk ameríska verslunarráðsins, Kristján Ragnarsson, formann American Scandinavian Foundation (AFS) og Magnús Gústafsson, varaformann ASF, á morgunverðarfundi ásamt með Magnúsi Bjarnasyni, viðskiptafulltrúa og ræðismanni. Heimsótti klukkan 10.00 Scandinavian Foundation bygginguna við Park Avenue og skoðaði hana. Fór um hádegisbilið að skipinu Íslendingi við South Street Seaport, hitti Gunnar Marel Eggertsson og nokkra aðra úr áhöfninni. Hlustaði á Egil Ólafsson og félaga syngja á útisviði - kalt var í veðri og fólk var því frekar á gangi en að það næmi staðar til að hlusta, sem dágóður hópur gerði þó, Hitti síðdegis forráðamenn Artec-fyrirtækisins, sem eru að hanna hljómburð í tónlistarhúsið í Reykjavík. Klukkan 20.00 hófust tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Carnegie Hall, húsið var þéttsetið og tónlistinni var mjög vel tekið og lék SÍ tvö aukalög. Að tónleikum loknum bauð ég hljómsveitinni í stutta móttöku rétt við hótel hennar á Broadway.

Sunnudagur 8.10.2000 - 8.10.2000 0:00

Klukkan 13.30 fór ég í þáttinn Silfur Egils með Össuri Skarphéðinssyni, sem sótti fast að mér í menntamálum en hafði ekki kynnt sér þau nema að takmörkuðu leyti , sem ég marka af því, að hann hélt því fram, að ég hefði ekki gert neitt til að stytta nám til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú. Sérkennilegast þótti mér þó, þegar hann sagði okkur Agli Helgasyni, að við skyldum bara bíða, Samfylkingin færi að ná sér á strik. Taldi ég þetta tal um bið eftir að sigurgangan hæfist væri orðin hlægileg, til dæmis hefðum við síðasta vetur átt að bíða, þar til formaður yrði kjörinn í Samfylkingunni, hann væri nú kominn en ekki hið aukna fylgi. Fór í viðtal við fréttastofu sjónvarps RÚV um prest á Þingvöllum. Flaug til New York klukkan 16.20.

Laugardagur 7.10.2000 - 7.10.2000 0:00

Fagurt veður var á Akureyri og fórum við í gönguferð fyrir hádegi í Lystigarðinn og í Skautahöllina, sem var ánægjulegt að skoða. Flugum til Reykjavíkur uppúr hádeginu í Metro-vél, var það í fyrsta sinn, sem ég fór í slíkt farartæki, og fékk ég snert af innilokunarkennd, áður en lagt var í loftið, en ferðin tók ekki nema rúmar 30 mínútur.

Föstudagur 6.10.2000 - 6.10.2000 0:00

Við Jóhanna María aðstoðarmaður minn flugum til Akureyrar klukkan 14.00 og var blíðviðri og 15 stiga hiti, þegar við lentum þar og hittum Þorstein Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, en með honum ókum við í Sólborg, þar sem ég opnaði formlega nýtt húsnæði skólans að viðstöddu margmenni. Um kvöldið tók ég þátt í málefnaþingi SUS á Akureyri og ræddi um Evrópumál.

Fimmtudagur 5.10.2000 - 5.10.2000 0:00

Síðdegis var ég við hátíðlega setningu item, Informal European Theatre Meeting, sem hófst í Loftkastalanum. Um kvöldið tók ég þátt í umræðum um skólamál í félagsskapnum Round Table með þeim Elnu Katrínu Jónsdóttur, formanni Félags framhaldsskólakennara, og Þorvarði Elíassyni, skólameistara í Verzlunarskóla Íslands.

Miðvikudagur 4.10.2000 - 4.10.2000 0:00

Síðdegis tók ég þátt í því í Þjóðmenningarhúsinu, þegar fulltrúar Eimskips, Búnaðarbankans og Urðar, Verðandi, Skuldar rituðu undir samning við Viðar Hreinsson um ritun ævisögu Stephans G. Stephanssonar. Er þetta einstakur samningur um 7 milljón króna styrk. Við þetta tækifæri færði ég Herði Sigurgestssyni, fráfarandi forstjóra Eimskips, þakkir fyrir einstakan stuðning hans við menningu og listir í forstjóratíð hans.

Þriðjudagur 3.10.2000 - 3.10.2000 0:00

Tók þátt í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra um kvöldið, var síðastur ræðumanna Sjálfstæðisflokksins. Eins og venjulega var Svanfríður Jónasdóttir með allt á hornum sér í menntamálunum og Össur Skarphéðinsson er að fikra sig í slíkan málflutning. Annars vakti sérstaka athygli, að talsmenn Samfylkingarinnar minntust ekki einu orði á utanríkismál og sýnir það, hve þau taka nei-úrslitin í Danmörku nærri sér.

Mánudagur 2.10.2000 - 2.10.2000 0:00

Alþingi var sett að lokinni messu í Dómkirkjunni, sem hófst klukkan 13.30. Að lokinni setningarathöfn var gert hlé til þingflokksfunda til klukkan 16.00 þegar gengið var til þess að kjósa forseta og í nefndir.

Sunnudagur 1.10.2000 - 1.10.2000 0:00

Fórum klukkan 14.00 á 70 ára afmælishátíð Tónlistarskólans í Reykjavík í Háskólabíói. Var fjölmenni á hátíðinni, sem stóð til klukkan 16.30, og var unga tónlistarfólkinu, sem þar kom fram fagnað innilega.