Dagbók: nóvember 2006

Fimmtudagur, 30. 11. 06. - 30.11.2006 18:24

Það er merkilegt að sjá. hvernig fjölmiðlar segja frá því, að fyrir alþingi hefur verið lagt frumvarp, sem lækkar opinberar álögur á almenning um 12,5 milljarða króna. Þóra Kristín Ásgeirsdóttir á líklega vinningin í frumlegheitum. Fyrirsögnin á frétt hennar á visir.is var á þann veg, að ætla hefði mátt, að hún hefði verið samin af harðsvíruðum gæslumanni ríkissjóðs, hún var á þennan veg:

Ríkið verður af 12,5 milljörðum

Efnisatriði málsins er, að lækka skal matarverð en virðisaukaskattur lækkar úr fjórtán prósentum í sjö, þann fyrsta mars, og vörugjöld af öðru en sykri og sætindum falla niður. Þá lækkar einnig virðisaukaskattur af annarri þjónustu og vörum sem báru áður fjórtán prósenta virðisaukaskatt, til að mynda bókum, blöðum, húshitun og hótelgistingu. Virðisaukaskattur af þjónustu á veitingahúsum lækkar úr tuttugu og fjórum og hálfu prósenti í sjö og einnig af annarri veitingaþjónustu, geisladiskum, hljómplötum og segulböndum og öðrum sambærilegum miðlum. 

Frumvarpið um skattalækkunina var rætt í dag en í upphafi þingfundar í morgun voru greidd atkvæði um afbrigði til að það kæmist á dagskrá og var engu líkara en stjórnarandstaðan teldi sig vera að gera stjórnarflokkunum stórgreiða með því að samþykkja afbrigðin. Hvers vegna? Jú, af því að það væri svo stutt til jóla og aðeins vika eftir af þingi fyrir jólaleyfi, það gæti meira að segja farið svo, að það reyndist ekki unnt að ljúka málinu fyrir jólaleyfið.  Þetta tal 30. nóvember um jólaleyfi og tímahark vegna jólanna, hljómaði einkennilega, svo að ekki sé meira sagt.

Sá nýjustu Bond-myndina Casino Royal og skemmti mér vel. Með þessari mynd tekur gerð Bond-mynda nýja og góða stefnu. Sum atriðin eru vissulega harðneskjulegri en í fyrri myndum,  frásögnin og framvinda hennar færist þó nær raunveruleikanum og minna er um tæknibrellur, sem voru orðnar all öfgakenndar og hlægilegar.

Lesa meira

Miðvikudagur, 29. 11. 06. - 29.11.2006 22:26

Málefni eldri borgara heyra ekki undir mitt ráðuneyti og ég er þess vegna ekki beinn þátttakandi í neinum viðræðum við þá, en hef hins vegar tækifæri til að fylgjast með framvindu samskipta við fulltrúa Félags eldri borgara af frásögnum annarra. Ég minnist þess fyrr á árinu, hve talið var mikils virði að samkomulag hefði tekist í nefnd sem Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari stýrði, samkomulag, sem var ritað undir af ráðherrum og fulltrúum eldri borgara við hátíðlega athöfn í Ráðherrabústaðnum. Til viðbótar við þetta samkomulag hefur ríkisstjórnin nú lagt fram tillögu um 300 þúsund króna frítekjumark til að draga úr skerðingum hjá eldri borgurum vegna atvinnutekna. Af hálfu ríkisvaldsins hafa þannig verið gerðar markverðar ráðstafanir til að koma til móts við sjónarmið forystumanna eldri borgara. Nú heyrist mér hins vegar, að þessir sömu forystumenn gefi lítið ef nokkuð fyrir þessa niðurstöðu og telji raunar, að þeir hafi ekki ritað undir neitt samkomulag heldur yfirlýsingu!

Það er greinilega erfitt að átta sig á því, hvað fyrir þessum talsmönnum eldri borgara vakir og hvort þeir vilji í raun leggjast á nokkra sveif með ríkisvaldinu heldur skipa sér jafnan í stjórnarandstöðu og hrópa með þeim, sem hæst lætur hverju sinni. Ég hélt raunar að tími slíkra aðferða væri liðinn, en það getur vissulega lifað lengi í gömlum glæðum.

Það var dæmigert fyrir hlutdrægni í fréttamennsku að heyra Heimi Má í kvöldfréttum Stöðvar 2 tala um, að Bjarni Benediktsson hefði sem dómsmálaráðherra „fyrirskipað“ hleranir hjá Hannibal Valdimarssyni, þegar um það var að ræða, að dómsmálaráðuneytið bar málið undir sakadómara, sem úrskurðaði um heimild til hlerunar með vísan til laga um meðferð opinberra mála. Þetta minnti á, þegar Heimir Má ræddi við Samfylkingarmann og sagði „við“ og vísaði þá til, að hann væri í flokki með viðmælanda sínum. Dómsmálaráðherra „fyrirskipaði“ ekki hleranir árið 1961 - dómari heimilaði þær og slík heimild jafngildir því ekki, að sími hafi verið hleraður. Þessar staðreyndir pössuðu einfaldlega ekki inn í áróður Heimis Más, sem fluttur var sem frétt.

Þriðjudagur, 28. 11. 06. - 28.11.2006 22:13

Ég flutti ræðu mína á ráðherrafundinum fyrir hádegi. Hélt af stað út á flugvöll í niðaþoku um klukkan 16.00. Héldum við að kannski væri ekki hægt að fljúga í þessu dimmviðri, en það reyndist ekki rétt. Air France vélin lagði af stað á nákvæmlega réttum tíma kl. 17.50 og sömu sögu var að segja Icelandair vélina frá Kastrup klukkan 20. 10 og lentum við klukkan 22.20.

Mánudagur, 27. 11. 06. - 27.11.2006 22:10

Ráðherrafundur Pompidou-hópsins hófst með hádegisverði í veitingastað í Evrópuhöllinni, aðsetri Evrópuráðsins. Það var gaman að koma þangað aftur en ég sótti reglulega fundi á þessum stað á fyrsta kjörtímabili mínu á þingi. Þótti mér alltaf gaman að koma til Strassborgar. Ég gat fyrir hádegisverðinn gengið um miðborgina og skoðað jólamarkaðinn mikla, sem sagt er að 2 milljónir manna heimsæki.

Fundurinn var einnig á gamalkunnum stað, það er þingsal Evrópuráðsins.

Sunnudagur, 26. 11. 06. - 26.11.2006 22:06

Flaug klukkan 14.15 með Icelandair til Kaupamannahafnar og þaðan klukkan 19.00 með Air France til Strassborgar á ráðherrafund Pompidou-hópsins.

Laugardagur, 25. 11. 06 - 25.11.2006 17:14

Var klukkan 13.00 til 16.30 við doktorsvörn Sveins Einarssonar við hugvísindadeild Háskóla Íslands en hann varði ritgerð sína A People´s Theatre Comes of Age. A Study of the Icelandic Theatre 1860-1920. Vörnin fór fram í hátíðasal háskólans, Aðalbyggingu og hefst kl. 13. Andmælendur voru dr. Sveinn Yngvi Egilsson og dr. Trausti Ólafsson. Athöfninni stýrði Oddný G. Sverrisdóttir, forseti hugvísindadeildar.

Ég dáist af dr. Sveini fyrir að ráðast í þetta stórvirki en fróðlegt var að fylgjast með viðræðum hans og andmælenda og ræðum þeirra allra og er ég margfróðari um íslenska leiklistarsögu og gildi leiklistar í þjóðarsögunni eftir að hafa hlustað á þá. Þeir ræddu til dæmis mikið um skilin á milli áhugamennsku (amateurism) og fagmennsku (professionalism) í leiklist en kenning Sveins er sú, að þrátt fyrir að íslenskir leikarar hafi að mestu verið sjálfmenntaðir á þeim tíma, sem ritgerð hans spannar, hafi þeir samt sýnt svo mikla fagmennsku, að árið 1923 samþykkti alþingi, að reist skyldi þjóðleikhús, en slík hús séu reist um faglega leiklistarstarfsemi.

Við umræðurnar vaknaði enn sú spurning í huga mínum, hvenær segja megi, að nútíminn hafi komið til Íslands. Við hvað á að miða? Fyrsta vélbátinn 1902? Eða rómantísku vakninguna á 19. öld, sem olli svo miklum straumhvörfum í andlegu lífi þjóðarinnar og blés henni kjarkinn til sjálfstæðis í brjóst?

2004 var hundrað ára afmælis heimastjórnar minnst. Á næsta ári er unnt að minnast 100 ára afmælis svo margs, sem tengist afrekum hennar - til dæmis aldarafmælis fræðslulaga. Kom nútíminn til Íslands með þeim? Endurreisn alþingis 1843? Þjóðfundinum 1851? Stjórnarskránni 1874?

Upphaf leiklistar er samofin vakningunni, sem varð á 19. öld og bent var á það við doktorsvörnina, að yrðu íbúar á einhverjum stað á landinu fleiri en 100 tóku þeir fljótt til við að stunda leiklist og líta má á hana sem arf frá kvöldvökum í baðstofum fyrri alda, þar sem sagnamenn styttu fólki stundir.

Ofurbloggarinn Össur ritar á vefsíðu sína:

„Egill Helgason hefur skrifað af meistaralegri kaldhæðni um löngu gleymd „menningarhús“ ríkisstjórnarinnar sem átti að reisa á landsbyggðinni. Menningarhúsavæðingin var framlag Björns Bjarnasonar til byggðastefnu á sínum tíma. Hefur lítt til hennar spurst síðan fremur en annarra þátta byggðastefnu ríkisstjórnarinnar.“

Álitsgjafinn Egill segir:

„Jú, það er rétt, ég gerði smá feil með menningarhúsin. Ég í útlöndum þegar samið var um framkvæmdirnar við menningarhúsið á Akureyri. Las fréttirnar ekki nógu vel.“

Egill hefur vinninginn - Össur þarf að kynna sér málið betur - kemur ekki á óvart, frekar en fyrri daginn.

Föstudagur, 24. 11. 06. - 24.11.2006 19:27

Á fundi ríkisstjórnarinnar fékk ég heimild til að leggja fram fjögur frumvörp: 1. um breytingu á lögum um ríkisborgararétt, þar sem m. a. er gert ráð fyrir, að krafist verði kunnáttu í íslensku til að hljóta þennan rétt; 2. um herta refsingu fyrir að beita lögreglumenn ofbeldi; 3. um breytingar á dómstólalögum þar sem meðal annars er gert ráð fyrir að fjölga héraðsdómurum úr 38 í 40; 4. um að biskup en ekki ráðherra skipi sóknarpresta.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í dag, að menntaður ljósmyndari eða nemi í ljósmyndun ætti að taka myndir vegna vegabréfa hjá sýslumönnum eða lögreglustjórum.

Í dóminum kemur fram, að ekki séu skert eignar- eða atvinnuréttindi ljósmyndara þannig að í bága fari við stjórnarskrá. Dómurinn segir að í vernd þessara réttinda felist ekki fortakslaus skylda ríkisins til að tryggja áframhaldandi óskert viðskipti ljósmyndara.

Málið er til athugunar hjá embætti ríkislögmanns.

Fimmtudagur, 23. 11. 06. - 23.11.2006 20:42

Við höfum oft heyrt þann söng undanfarin ár hjá álitsgjöfum og stjórnarandstöðunni, að stjórnarhættir hér hafi þróast á hinn versta veg og stjórnræði hafi tekið við af lýðræði. Stoðunum var kippt undan þessum fullyrðingum í forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag, þar sem sagði:

„Ísland er í öðru sæti á lista rannsóknarfyrirtækis breska blaðsins The Economist yfir lönd þar sem lýðræðið þykir vera mest.

Listinn er í sérblaði The Economist um horfur í heimsmálunum á næsta ári. Svíþjóð trónir í efsta sæti á listanum með meðaleinkunnina 9,88 af 10 mögulegum. Ísland kemur næst með einkunnina 9,71.

Listinn byggist á mati rannsóknarfyrirtækisins Economist Intelligence Unit (EIU) sem gefur 165 sjálfstæðum ríkjum einkunnir í sex flokkum. Ísland fær 10 í einkunn í þremur flokkum: framkvæmd kosninga og fjölræði, pólitísk menning og borgaralegt frelsi. Aðeins tvö lönd fá einkunnina 10 í flokknum pólitísk menning, þ.e. Holland og Ísland.“

Egill Helgason heldur áfram að fjargviðrast yfir verkum okkar stjórnmálamannanna. Hann segir nýjast á síðu sinni:

„Það er búið að setja hundrað milljónir í íslenskukennslu fyrir útlendinga, mörg hundruð milljónir í kvikmyndagerð - allt án þess að Alþingi hafi verið spurt álits.

Það liggur við að maður fari að rifja upp gömlu loforðin um menningarhús í alla fjórðunga - ég man reyndar ekki betur en að þau hafi verið fjölnota - og um milljarðinn sem átti að setja í að berjast gegn fíkniefnabölinu. “

Líklega ætlar Egill ekki að vera sniðugur heldur vill, að hann sé tekinn alvarlega, þótt hann sé hlægilegur. Allt eru þetta innistæðulausar upphrópanir: Tillögurnar um fjárveitingar til íslenskukennslu og kvikmyndagerðar eru nú til afgreiðslu á alþingi. Unnið er að framkvæmd áætlunarinnar um menningarhúsin úti á landsbyggðinni eins og byggingu tónlistar- og ráðstefnuhússins í Reykjavík. Nýlega var skýrt frá því á alþingi, að 1700 milljónum króna hefði verið varið til að berjast gegn fíkniefnabölinu.

Miðvikudagur 22. 11. 06. - 22.11.2006 21:39

36. fundur Evrópunefndar var haldinn í hádeginu í dag. Nefndin er nú að ljúka yfirferð sinni yfir þau mál, sem hún ætlaði að ræða og næst er vinna við skýrslu hennar.

Ég svaraði fyrirspurn á alþingi í dag frá Magnúsi Þór Hafsteinssyni, þingmanni frjálslyndra, en fyrir honum vakti að gera það tortryggilegt, að ekki væri skoðaður hugsanlegur sakaferill þeirra EES-borgara, sem hingað koma, einkum frá A-Evrópu. Var þetta greinilega liður í framlagi Magnúsar Þórs til umræðna um útlendingamál, en hann vill draga upp dökka mynd af þeim, sem hingað koma sem EES-borgarar. Ég svaraði á þann veg, að Íslendingar gætu fengið vinnu erlendis án þess að vera krafðir um sakavottorð og sama gilti um EES-borgara hér á landi.

Ég taldi hreint ábyrgðarleysi að ræða um málið á þann veg sem Magnús Þór gerði - ef hann vildi breyta þessu hér á landi, yrði hann að krefjast úrsagnar úr EES og afnáms reglunnar um frjálsa för.

Raunar skil ég ekki, hvers vegna frjálslyndir stíga ekki skrefið til fulls og krefjast úrsagnar úr EES, ef þeim vex svona í augum rétturinn til frjálsrar farar. Morgunblaðið gerir því skóna í leiðara í dag, að ekki sé langt á milli viðhorfa Steingríms J. Sigfússonar, formanns vinstri/grænna, og frjálslyndra í útlendingamálum. Í blaðinu segir:

„Steingrímur er augljóslega heldur ekki sáttur við að hér á landi skuli borgarar frá öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eiga frjálsan atvinnu- og búseturétt. Hann segir í grein sinni (í Morgunblaðinu  21. nóvember) að með gildistöku EES-samningsins hafi Íslendingar orðið aðilar að hinum sameiginlega vinnumarkaði Evrópusambandsins og EFTA-ríkja „og þangað er í raun að rekja rót þeirra aðstæðna sem við búum nú við.“

Steingrímur J. Sigfússon var auðvitað á móti EES-samningnum á sínum tíma. Ein ástæða þess var að honum hugnuðust ekki ákvæði hans um frjálsan atvinnu- og búseturétt. Hann útmálaði í þingræðum að ekki þyrfti „nema bara að íbúar í tveimur til þremur blokkum í Lissabon kæmu hingað til þess að ójafnvægi gæti skapazt á íslenzka vinnumarkaðnum.““

 

Þriðjudagur 21. 11. 06. - 21.11.2006 22:04

Þingfundur í dag hófst á umræðum um flóð vegna frosta, sem varð í mannlausum íbúðarhúsum í Keflavíkurstöðinni, en ekkert eftirlit var með þeim innan dyra og sprungu vatnsleiðslur í frostum síðustu daga. Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra baðst afsökunar á óhappinu en húsin eru enn á forræði utanríkisráðuneytisins og lyklavöld í höndum flugmálastjórnar á vellinum.

Mánudagur, 20. 11. 06. - 20.11.2006 21:19

Í dag voru óundirbúnar fyrirspurnir á alþingi og þar spurði Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, um viðbrögð mín vegna greinar eftir Arnar Jensson aðstoðaryfirlögregluþjón í Morgunblaðinu og leiðara eftir Þorstein Pálsson í tilefni af grein Arnars í Fréttablaðinu. Beindi Jóhanna athygli að því, hvort jafnræði væri fyrir íslenskum dómstólum og taldi ég jafnræðisregluna gilda þar, en þingmönnum gæfist færi á að ræða um þessi mál, þegar frumvarp til laga um meðferð sakamála kæmi fyrir þing, hugsanlega á þessum vetri. Þá skýrði ég frá því, að á nýlegum aðalfundi Dómarafélags Íslands hefði ég rætt um, hvort hér ætti að taka upp þriðja dómsstigið og reifað þá skoðun, hvort óheppilegt væri, að hafa sett öll mál undir einn héraðsdóm í stað þess að hafa sérstakan sakadóm og annan sem fjallaði um einkamál. Þetta teldi ég ástæðu til að ræða, þegar fjallað væri um dómstóla. Ég minnti jafnframt á, að skoðanafrelsi væri í landinu og menn rituðu greinar í blöð og lýstu skoðunum sínum og gerði ég ekki athugasemd við það en ég kysi, að lýsa mínum eigin skoðunum í þingsalnum en ekki skoðunum annarra.

Mér skildist á Jóhönnu Sigurðardóttur, að uppi væru hugmyndir um, að dómsmálaráðherra veitti dómara lausn frá embætti, ef hann sætti sig ekki við niðurstöðu hans. Hvað ef hæstiréttur sættir sig ekki við niðurstöðu héraðsdóms? Á þá að huga að því að reka dómara? Eða ef mannréttindadómstóll Evrópu finnur að niðurstöðu hæstaréttar? Eða á bara að reka dómara, ef dómsmálaráðherra er ósammála niðurstöðu hans? Í 61. grein stjórnarskrárinnar segir: „Þeim dómendum, sem ekki hafa að auki umboðsstörf á hendi, verður ekki vikið úr embætti nema með dómi, og ekki verða þeir heldur fluttir í annað embætti á móti vilja þeirra, nema þegar svo stendur á, að verið er að koma nýrri skipun á dómstólana.“ Vilja menn breyta þessu og heimila dómsmálaráðherra að reka dómara, ef hann er ósammála dómi hans? Hvert eru þessar umræður að þróast? Það er einkennilegt, að enginn skuli staldra við og spyrja sig að því, frekar en vænta þess, að dómsmálaráðherra blandi sér í þær á þann veg, sem Jóhanna Sigurðardóttir vildi á alþingi í dag.

Sunnudagur 19. 11. 06. - 19.11.2006 12:13

Dreifingu Fréttablaðsins er þannig háttað, að blaðið berst aðeins öðru hverju heim til mín og þar af leiðandi les ég það æ sjaldnar. Hvort ég fer á mis við eitthvað, sem máli skiptir, veit ég ekki, en einn lesanda blaðsins sendi mér skammarbréf með vísan til fréttar í blaðinu þess efnis, að ekki væri nóg með, að ég hefði ákveðið að Coast Guard skyldi ritað á síðu vaðskipsins Týs heldur ætti nú að fara taka upp orðið police á lögreglubúninga. Þarna mun blaðið hafa verið að vísa til svars, sem ég gaf á alþingi miðvikdudaginn 15. nóvember. Ég veit ekki, hvernig sagt frá þessu í Fréttablaðinu en á alþingi sagði ég:

„Spurt er: „Hvers vegna er varðskipið Týr merkt „Coast Guard“ á báðum síðum skipsins í stað „Landhelgisgæslan“ eftir nýlegar endurbætur á skipinu í Póllandi?“

Þetta var gert í Póllandi eins og fram hefur komið en hefur nú verið afmáð af skipinu og verður væntanlega merkt bæði með íslensku og ensku heiti Landhelgisgæslunnar, eins og tíðkast víða um heim til að þau skip séu auðþekkjanleg, bæði fyrir þá sem kunna tungumál viðkomandi ríkis og einnig hinn erlenda aðila sem slík skip eiga óhjákvæmilega samskipti við.

„Verða önnur varðskip Landhelgisgæslunnar merkt á ensku í stað íslensku eins og verið hefur?“

Ef þetta verður útfært þannig að merkt verður bæði á íslensku og ensku, þá verður það væntanlega látið gilda um öll skip gæslunnar.

„Verða tæki og búnaður löggæslunnar, svo sem lögreglubílar og lögreglustöðvar, framvegis merkt á ensku en ekki íslensku?“

Það verður ekki farið að merkja lögreglubíla á ensku. Sumar lögreglustöðvar hafa nú þegar í dag heiti sitt á ensku. Ég tel líklegt að á nýjum búningum lögreglumanna muni einnig koma fram enska orðið „police“ til að það liggi ljóst fyrir hverjir eru þar á ferð.“

Ég sé satt að segja ekki, að vá sé fyrir dyrum, þótt orðin Coast Guard standi til dæmis á brúarvæng varðskips en orðið Landhelgisgæsla stórum stöfum á síðu þess, eða orðið Police standi einhvers staðar að búningi lögreglumanns.

Björg Eva, þingfréttaritari hljóðvarps ríkisins, klippti í hádegisfréttum búta úr umræðum á þingi 15. nóvember, þegar ég svaraði spurningu Kristins H. Gunnarssonar um hleranir á símum alþingismanna. Klippinu lauk á seinni ummælum Kristins H. en sleppti lokaorðum mínum - umræðurnar má lesa í heild á vefsíðu alþingis.

Laugardagur, 18. 11. 06. - 18.11.2006 11:52

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag birtist frétt um, að á næstu árum getum við Íslendingar vænst þess að ferðum risastórra gasflutningsskipa í lögsögu okkar muni fjölga. Vísað er til ummæla Norðmanna um þessa þróun, sem telja lokun Keflavíkurstöðvarinnar tímaskekkju í ljósi hennar.

Ég hef oft vakið máls á þessari þróun í ræðu og riti og hinn 2. nóvember sl. efndi dóms- og kirkjumálaráðuneytið til alþjóðlegrar ráðstefnu hér á landi um málið og kallaði til sérfróða menn frá Noregi. Danmörku, Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum auk þess sem rússenski sendiherrann á Íslandi flutti ræðu á ráðstefnunni.

Í Morgunblaðinu er boðaður greinaflokkur um varnar- og öryggismál og er fagnaðarefni, að þessi mál séu tekin til umræðu. Við endurskipulagningu Landhelgisgæslu Íslands og við gerð krafna til nýs varðskips er einmitt tekið mið að þessari þróun. Á ráðstefnunni 2. nóvember gerði Ásgrímur L. Ásgrímsson grein fyrir starfi og stefnumörkun Landhelgisgæslu Íslands.

Föstudagur, 17. 11. 06. - 17.11.2006 11:42

Var klukkan 17.00 í húsi ÍSÍ í Laugardal, þar sem efnt var til hátíðar vegna 20 ára afmælis Íslenskrar getspár - það er lottósins.

Ég sagði nokkur orð og vakti máls á málaferlum fyrir EFTA-dómstólnum, þar sem eftirlitsstofnun EFTA, ESA, er í málaferlum við norska ríkið vegna þess, að það eitt rekur lottó í Noregi. Dr. Páll Hreinsson prófessor flutti ræðu til stuðnings Norðmönnum fyrir dómstólnum og af hálfu Íslands var lögð fram ítarleg greinargerð gegn sjónarmiðum ESA. Tapi Norðmenn málinu kann það að draga erfiðan dilk á eftir sér en einka-spilafyrirtæki eru alls staðar að reyna að brjótast inn á evrópska markaði.

Hér eru gífurlegir hagsmunir í húfi þegar litið er til þeirra tekna, sem aflað er með lottói og almennt er nýtt til alls kyns þjóðþrifamála. Næðu alþjóðleg stór-spilafyrirtæki undirtökum á þessum mörkuðum í Evrópu myndi það leiða til þess, að skatta yrði að hækka til að standa straum af kostnaði, sem nú er fjármagnaður af lottóum eða öðrum sambærilegum aðilum.

Fimmtudagur, 16. 11. 06. - 16.11.2006 19:25

Dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur í 11. sinn. Hér á síðunni má lesa um það, þegar hann var haldinn í fyrsta sinn og tildrög þess að tillögu minni sem menntamálaráðherra. Njörður P. Njarðvík fékk verðlaun Jónasar Hallgrímssonar í dag en hann átti góðan þátt í því á sínum tíma, að ég flutti tillögu um daginn í ríkisstjórn.

Í tilefni dagsins var okkur Rut boðið í Hvolsskóla á Hvolsvelli og hlýddum við þar á nemendur í 10. bekk lesa Njálu en þau skiptust á að lesa hana frá upphafi til enda allan daginn. Þá hlustuðum við á söng barnakórs Hvolsskóla, fimmundarsöng stúlkna úr 10. bekk, ljóðalestur og lestur á útdrætti úr sögum hjá nemendum í 5. og 6. bekk auk þess sem við skoðuðum skólann undir leiðsögn Unnars Þórs Böðvarssonar skólastjóra og Halldóru Magnúsdóttur aðstoðarskólastjóra. Nýbygging skólans vakti sérstaka athygli okkar en þar eru ekki hefðbundnar skólastofur heldur opið svæði, þar sem nemendur hafa starfsaðstöðu og rými til að kennarar geti rætt við lítinn hóp kennara. Þá var okkur einnig boðið í góðan hádegisverð með kennurum og nemendum.

Hvolsskóli er einstaklega vel úr garði gerður og skólabragur mjög góður. Metnaðarfull dagskráin í tilefni dags íslenskrar tungu er til marks um, hve vel hefur tekist til með daginn í grunnskólunum fyrir utan allt annað, sem menn gera sér til hátíðabrigða í tilefni dagsins.

Í stuttu ávarpi sem ég flutti minntist ég þess, að séra Tómas Sæmundsson, prestur á Breiðabólstað í Fljótshlíð ,hefði verið Fjölnismaður með Jónasi Hallgrímssyni og á næsta ári yrðu 200 ár liðin, frá því að þeir báðir fæddust. Rangvellingar ættu ekki aðeins mikinn menningarf í héraði sínu úr Njálu heldur einnig þann arf, sem tengdist Fjölnismönnum.

Miðvikudagur, 15. 11. 06. - 15.11.2006 20:28

Við qi gong félagar í Aflinum fengum nýjan samastað, þegar við hittumst um áttaleytið í nýju húsi SÁÁ að Efstaleiti 7, þar sem er glæsilegur salur til fyrirlestra og flutnings tónlistar. Forráðamenn hússins þeir Arnþór Jónsson og Ari Matthiasson hafa leyft okkur að nýta þennan góða sal og leist okkur mjög vel á alla aðstöðu þar. Við höfum um árabil notið góðvildar forráðamanna Þjóðleikhússins en nú er unnið að endurbótum á því og einnig á gamla dómssal hæstaréttar, þar sem við vorum síðast í skjóli Þjóðleikhússins.

Svaraði þremur fyrirspurnum á alþingi í dag um ljósmyndir vegna vegabréfa, áletrunina Coast Guard á varðskipið Tý og hleranir hjá alþingismönnum. Samfylkingarmenn eru á móti því, að almenningur fái þá þjónustu hjá sýslumönnum, að þar sé unnt að taka vegabréfsmynd. Ég skýrði frá því, að enska áletrunin á Tý hefði verið afmáð og líklega yrði bæði íslensk og ensk áletrun á varðskipunum. Fyrirpsurninni um hleranir taldi ég mér ekki fært að svara með vísan til árekstra milli einkalífs- og almannahagsmuna, auk þess sem heimild til hlerunar jafngilti því ekki, að sími hefði verið hleraður, og loks væri nefnd í krafti ályktunar alþingis með sérstöku lagaumboði að auki að rannsaka málið. Kristinn H. Gunnarsson framsóknarmaður spurði um hleranirnar en Björn Ingi Hrafnsson, flokksbróðir hans, taldi hann vera með auglýsingamennsku. Samfylkingarmennirnir í þingsalnum hlupu upp til handa og fóta til að aðstoða Kristinn H. og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir hafði þetta sem fyrstu frétt í kvöldfréttum Stöðvar 2 en ekki var sagt frá málinu í fréttum RÚV, hvorki hljóðvarpi né sjónvarpi um kvöldmatarleytið.

Hjálmar Árnason, framsóknarþingmaður í suðurkjördæmi, vakti máls á því utan dagskrár, hvort starfsemi Landhelgisgæslu Íslands öll eða að hluta gæti flust til Keflavíkurflugvalla og hafna á Suðurnesjum. Ég fjallaði aðeins um flugdeild gæslunnar og taldi önnur verkefni þar brýnni en flutning til Keflavíkurflugvallar, þótt ekki væri unnt að útiloka hann m.a. með vísan til þróunar á Reykjavíkurflugvelli.

Arnar Jensson aðstoðaryfirlögregluþjónn skrifar grein í Morgunblaðið í dag og segir, að árásir á sig í Blaðinu hafi þann tilgang að veikja trúverðugleika sinn sem vitni í Baugsmálinu. Hann telur Sigurjón M. Egilsson, ritstjóra Blaðsins, hafa þau tengsl, að þessi skoðun sín eigi við rök að styðjast.

 

 

 

 

Þriðjudagur, 14. 11. 06. - 14.11.2006 22:40

Var í hádeginu í Breiðholtskirkju, þar sem séra Sigurjón Árni Eyjólfsson afhenti okkur herra Karli Sigurbjörnssyni biskupi bók sína Ríki og kirkja.

Ég hef oftar en einu sinni vakið máls á furðulegum málflutningi Björgvins G. Sigurðssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, hér á síðunni, en hann verður í fyrsta sæti flokksins í suðurkjördæmi í komandi þingkosningum. Enn er ástæða til að nefna hann til sögunnar eftir umræður í upphafi fundar á alþingi í dag, þar sem Sæunn Stefánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, vakti máls á rangfærslum Björgvins um kosningaloforð framsóknarmanna frá því fyrir kosningar 1999 um að varið skyldi sérstaklega einum milljarði króna í baráttuna gegn fíkniefnum. Björgvin telur, að loforðið hafi ekki verið efnt en Sæunn nefni 1700 milljónir til sögunnar til að hnekkja þessum rangfærslum. Björgvin lét sér að sjálfsögðu ekki segjast heldur barði hausnum áfram við steininn.

Hvað knýr Björgvin til að byrja núna að þrasa um framkvæmd þessa kosningaloforðs frá 1999? Jú, svona rifrildi um tölur er þess eðlis, að alltaf má toga þær út og suður - nú er mikil umræða um fíkniefnavandann og þess vegna sé ágætt að  klína honum á Framsóknarflokkinn með því að segja hann hafa svikið kosningalorforðið um milljarðinn frá 1999. Þetta er enn til marks um, hve Björgvin lægst lágt í málflutningi sínum. Enn sannast, að ekki er  gott fyrir neinn málstað, að Björgvin vilji slá sér upp á honum.

 

 

 

Mánudagur, 13. 11. 06. - 13.11.2006 20:48

Hinar miklu umræður um merkingar vegna framkvæmda við vegi og umferðaræðar eru löngu tímabærar, en verða nú vegna hörmulegs slyss. Tildrög slyssins hafa ekki verið skýrð en ekið var á hindrun, sem sett hafði verið á veg vegna framkvæmda við hann.

Ég hef ekið töluvert erlendis og kynnst því þar, hve rækilega er leitast við að gera ökumönnum grein fyrir því, ef eitthvað óvenjulegt er á seyði framundan, hvort sem það er vegna framkvæmda eða annars. Mér hefur oft þótt skorta á sambærilegar viðvaranir hér, spurst fyrir um málið og hvatt til aðgæslu.

Látið var að því liggja í sjónvarpsfréttum, að verktakar héldu þessum viðvörunum í lágmarki vegna kostnaðar við þær. Ekki var leitað svara við því, hvort gert væri  ráð fyrir kröfum í þessu efni í útboðum og kostnaður vegna þeirra þá reiknaðar inn í verðið, sem vegagerðin greiðir verktökum.

Fyrir mörgum árum skrifaði ég leiðara í Morgunblaðið um skort á vegmerkingum og taldi þær miðast við, að vegfarendur vissu meira en við mætti búast. Næst frétti ég það af málinu, að sérfræðingur vegagerðarinnar í vegmerkingum hringdi í ritstjórann og lýsti undrun sinni yfir fávisku leiðarahöfundarins. Síðan hef ég látið mér nægja að íhuga þetta mál, án þess að tjá mig um það opinberlega. Ég er þó enn sömu skoðunar og þá, að merkingar hér á vegum, hvort sem er vegna hættu eða annars séu skornar of mikið við nögl. Er það gert í sparnaðarskyni?

Laugardagur, 11. 11. 06. - 11.11.2006 17:20

Dr. Þór Whitehead prófessor skrifar grein í Lesbók Morgunblaðsins í dag, þar sem hann sýnir með rökum, að fullyrðingar Jóns Ólafssonar í lesbókinni 7. október um, að íslenskir kommúnistar hafi ekki búið sig undir að geta beitt valdi til að ná fram markmiðum sínum á Íslandi standast ekki. Raunar sýnir Þór einnig svart á hvítu, að Jón hefur orðið margsaga um þetta mál.

Dr. Þór hefur fylgt grein sinni í Þjóðmálum um viðbrögð stjórnvalda við valdabrölti kommúnista svo fast eftir, að þeir, sem að honum hafa vegið, Guðni Th. Jóhannesson, Kjartan Ólafsson og Jón Ólafsson sitja eftir með sárt enni.

Guðni Th. er hinn eini, sem hefur haft manndóm til að viðurkenna, að hann fór með fleipur, þegar hann lagði út af grein Þórs. Kjartani er mest í mun að fegra hlut sinn og annarra kommúnista á tímum kalda stríðsins og gera sem minnst úr Sovéttengslunum. Eftir lestur greinar Þórs um vinnubrögð Jóns Ólafssonar er ástæða til að spyrja, hverjum Jón telur sig vera að þjóna með því að fara meira að segja á svig við sín eigin skrif um þjálfun kommúnista á Íslandi til vopnaburðar.

Jón Baldvin Hannibalsson skrifaði af mestri illkvitni um Þór í tilefni af grein hans í Þjóðmálum og reyndi hvað hann gat, til að ýta undir þá skoðun, að með greininni hefði Þór verið að gera mér óleik vegna prófljörs okkar sjálfstæðismanna. Um þessa illmælgi er í raun ekkert að segja, því að hún dæmir sig sjálf, þegar menn kynna sér grein Þórs og það, sem hann hefur síðan sagt um málið í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Væri raunar fullt tilefni til að gefa þetta allt út í sérstöku hefti Þjóðmála, svo að menn gætu kynnt sér þetta á einum stað.

Að mínu mati staðfesta þessar umræður vegna greinar Þórs þá skoðun mína, að umræðuhefð kalda stríðsins lifir enn meðal vinstrisinna, þótt langt sé um liðið frá lyktum stríðsins. Þeir hafa einfaldlega ekki enn komist yfir að hafa tapað því og að málstaður þeirra lenti á sorphaugi sögunnar. Bandaríkjaóvildin hefur ekki heldur horfið úr huga þeirra, eins og best sannast á þeim óhróðri, sem Jón Baldvin telur sér nú sæma að flytja um Bandaríkin.

Föstudagur, 10. 11. 06. - 10.11.2006 23:53

Margrét Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, var í Kastljósi í kvöld til að bera blak af Magnúsi Þór Hafsteinssyni, þingflokksformanni frjálslyndra, og Jóni Magnússyni hrl., sem nýlega er genginn til liðs við flokkinn - en þeir hafa valdið nokkrum titringi með tali sínu um fjölda útlendinga í landinu. Var þetta annað Kastljósið í röð, þar sem málsvara frjálslyndra eru kallaðir til að skýra stefnu sína en Jón Magnússon var þar í gærkvöldi.

Menn þurfa ekki að vera vel að sér í stjórnmálaþróun nágrannaríkjanna til að átta sig á því, hvað fyrir frjálslyndum vakir í tali sínu um innflytjendur - þeir eru að skipa sér á sama bekk og ýmsir kenndir við öfgar hafa gert í öðrum löndum í umræðum um útlendingamál - það er að gera þetta eina mál að höfuðumræðuefni í því skyni að höfða til óttatilfinninga og hala inn atkvæði. Að sjálfsögðu viðurkenna frjálsyndir ekki, að þeir séu að feta í þessi fótspor og leitast meira að segja við að skýla sér á bakvið menn eins og séra Tashiki Toma, sem lýsti yfir stuðningi við vinstri/græn, af því að honum þótti Samfylkingin ekki nógu afdráttarlaus í þeim málum, sem hann telur mestu skipta, þar á meðal útlendingamálum. Skyldi séra Toma taka því vel, að frjálslyndir telja sig vera að fylgja fram sömu stefnu og hann?

Margrét lét í Kastljósi eins og upphlaup frjálsyndra réði einhverju um það, að í morgun lögðum við þrír ráðherrar fram tillögu á ríkisstjórnarfundi um nýtt skipulag á íslenskukennslu fyrir útlendinga. Ég veit manna best, hve lengi þetta mál hefur verið á döfinni og afgreiðsla þess á ekkert skylt við tal Magnúsar Þórs Hafsteinssonar. Orð Margrétar sýndu mér aðeins, hve langt er seilst af frjálslyndum til að skreyta sig með fjöðrum annarra.

Í dag ætlaði ég að halda norður í Húnavatnssýslu til að taka þátt í því á morgun að opna með pomp og prakt innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar á Blönduósi. Ekkert varð af ferðinni vegna slæmrar veðurspár og frestaði sýslumaður athöfninni til betri tíðar.

Fimmtudagur, 09. 11. 06. - 9.11.2006 18:48

Egill Helgason tekur því greinilega illa, sem ég sagði um álitsgjafa hér á síðunni á dögunum. Hann svarar á þann veg, að stjórnmálamenn fái þá álitsgjafa, sem þeir eiga skilið! Síðan heldur hann áfram að fjargviðrast yfir því, að ég skuli nota orðið „andstæðingur“ um þá, sem berjast við mig á stjórnmálavettvangi. Hann rökstyður, að orðið megi ekki nota á þennan frumlega veg: „Eða að hvaða leyti er miðlungs Samfylkingarmaður andstæðingur Björns í raun og veru? Þá greinir kannski á um fáeina hluti en líklega eru þeir sammála um miklu fleira. Þeir gætu jafnvel haft sama smekk á kvikmyndum.“

Röksemdarfærslan byggist á því viðhorfi Egils, að háttsettir stjórnmálamenn séu „vænisjúkir“ og tekur hann þar undir með öðrum álitsgjafa, Jónasi Kristjánssyni. Þessar vangaveltur Egils staðfesta, að stjórnmálaleg álitsgjöf hér á landi sé á allt öðru og lægra plani en annars staðar. Egill og aðrir í hans liði kjósa að tala til stjórnmálamanna á eigin vegum en ekki annarra.

Matthías Johannessen birti ljóðabálkinn Hrunadans í Morgunblaðinu  síðastliðið sumar. Þar yrkir hann meðal annars um álitsgjafa og segir:

Það er vegið að þeim sem vitja síns tíma með dug

eins og vandræðaskáld sem telur sjálfum sér borgið

en það er víst erfitt að komast á krassandi flug

í kastljósi frétta og venja sig sífellt við orgið

í álitsgjöfum sem hatast við annarra hug

og halda í gislingu þjóð sem ráfar um torgið

þar sem frelsið er iðkað og afskræmt eins og gengur

og enginn veðjar á frelsisgyðjuna lengur.

 

Miðvikudagur, 08. 11. 06. - 8.11.2006 17:38

Flaug klukkan 08.15 frá Kaupmannahöfn til Billund á Jótlandi og ók þaðan í rúman klukkutíma í áttina að Horsens, þar sem ég heimsótti nýtt fangelsi, Statsfængslet Östjylland, og skoðaði það undir leiðsögn Jörgens Bangs, forstöðumanns fangelsins, og Annette Esdorf, aðstoðar-fangelsismálastjóra Danmerkur.

Flaug til baka til Kaupmannahafna kl. 15.35 og síðan til Keflavíkur. Valtýr Sigurðsson, fangelsismálastjóri, og Þórunn J. Hafstein, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, voru einnig í þessari skoðunarferð. Var hún liður í undirbúningi undir smíði nýs fangelsins hér hjá okkur en Danir hafa þar veitt ómetanlegan ráðgjöf.

Þriðjudagur, 07. 11. 06. - 7.11.2006 17:31

Var klukkan 09. 30 á fundi fjármálaráðherra EFTA-ríkjanna í Brussel stað Árna Mathiesen, sem ekki átti heimangengt, og tók síðan þátt í árlegum, sameiginlegum fundi fjármálaráðherra aðildarríkja EFTA og Evrópusambandsins. Sat síðan fundi í íslenska sendiráðinu í Brussel, áður en ég hélt til Kaupmannahafnar klukkan 17.25.

Þorsteinn Þorgeirsson skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins var með mér í förinni til Brussel.

Mánudagur, 06. 11. 06. - 6.11.2006 17:27

Flaug klukkan 14.15 frá Keflavík um Kaupmannahöfn til Brussel, þar sem ég lenti rúmlega 22.00 að staðartíma.

Sunnudagur, 05. 11. 06. - 5.11.2006 20:53

Ég vek athygli á grein Einars Benediktssonar, fyrrverandi sendiherra, í Morgunblaðinu í dag, þar sem hann ræðir meðal annars um efnistök Guðjóns Friðrikssonar í ævisögunni um afa Einars og alnafna. Greinin er í senn vel skrifuð og um efni, sem verðugt er að íhugað sé, fyrir utan að vera tímabær málsvörn fyrir Einar Benediktsson vegna alls þess, sem um hann hefur verið sagt og margt af lítilli virðingu fyrir því, sem satt er og rétt.

Við urðum fyrir foktjóni í ofsarokinu, sem varð í Fljótshlíðinni í dag.

Vorum klukkan 17. 00 í Hallgrímskirkju, þar sem Schola cantorum undir stjórn Harðar Áskelssonar ásamt félögum úr Alþjóðlegu barokksveitinni í Haag fluttu verk eftir franska tónskáldið André Campra á allra sálna messu.

Laugardagur, 04. 11. 06. - 4.11.2006 19:49

Sagt frá því í fréttum NFS í kvöld, að Alyson J. K. Bailes, forstjóri SIPRI, alþjóðlegrar friðarstofnunar í Stokkhólmi, teldi ekkert óeðlilegt við það, að varnaráætlanir Bandaríkjamanna vegna Íslands væru ekki birtar opinberlega - slík leynd væri í samræmi við það, sem gerðist í öðrum löndum. Forvitnilegt verður að fylgjast með því, hvort þessi yfirlýsing hafi áhrif á stjórnarandstöðuna hér, sem telur reginhneyksli, að varnaráætlunin sé ekki birt opinberlega. Þá var ekki annað að heyra en forstjórinn teldi einsýnt, að hlutverk lögreglu, landhelgisgæslu og landamæravarða mundi aukast á næstunni til að tryggja öryggi landsmanna. Það kom ekki fram, hvort Bailes hafi verið spurð um, hvort hún teldi nauðsynlegt að efla greinigar- og öryggisþjónustu lögreglu.

Morgunblaðið segir í forystugrein í morgun, að til að herða aðgerðir gegn fíkniefnasölum eigi lögreglan að fylgjast með fjárstreymi, því að viðskipti með fíkniefni séu talin skipta milljörðum. Eftirlit með fjárstreymi byggist á því að hafa heimildir til þess með vísan til laga um persónuvernd og laga um meðferð sakamála eða sérstakra laga um greiningar- og öryggisþjónustu að stilla saman upplýsingar tengdar nafni einstakra manna, sem liggja undir rökstuddum grun eða jafnvel ekki.

 

Föstudagur, 03. 11. 06. - 3.11.2006 21:19

Flutti ræðu á aðalfundi Dómarafélags Íslands í Fjalarkettinum klukkan 14.00.

Kjartan Ólafsson, fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans og forystumaður Sósíalistaflokksins, skrifar grein í Morgunblaðið í dag til að hreinsa sig af Sovétdekri íslenskra sósíalista á tímum kalda stríðsins og af fjárstuðningi frá Moskvu. Þetta tengist framgöngu hans vegna stóra hleranamálsins en ekkert liggur fyrir um, að sími Kjartans hafi verið hleraður. Engu að síður segir hann í þessari grein sinni: „væri álíka fráleitt og að kveða upp allsherjardóm yfir Bjarna Benediktssyni, fyrrum formanni Sjálfstæðisflokksins, aðeins út frá því að hann lét hlera símann hjá mér og mörgum öðrum“ - hin tilvitnuðu orð sýna óheiðarleika Kjartans í þessum umræðum.

Lögregla óskar eftir því við dóms- og kirkjumálaráðuneytið, að það leggi fyrir dómara ósk um, að heimild fáist til að hlera síma hjá þeim aðilum, sem líklegastir þykja til að espa til ófriðar í landinu - dómari fellst á tilmælin. Í endursögn Kjartans breytist þetta í það, að dóms- og kirkjumálaráðherra Bjarni Benediktsson hafi látið hlera síma Kjartans. Hvar er sönnun Kjartans fyrir því, að sími hans hafi verið hleraður? Hún hefur hvergi komið fram. Eitt er, að lögregla fái hlerunarheimild, annað að hún sé notuð. Kjartan hefur ekkert í höndunum, sem sannar, að sími hans hafi verið hleraður - engu að síður leggst hann jafnlágt og orð hans í Morgunblaðinu sýna til að sverta minningu látins manns. 

Þegar Kjartan Ólafsson tekur sér fyrir hendur að ræða um deilur kalda stríðsins, er engu líkara en öskutunna sé opnuð, fnykurinn verður slíkur.

 

Fimmtudagur 02. 11. 06. - 2.11.2006 17:00

Klukkan 07.45 var viðtal sem Ólöf Rún Skúladóttir tók við mig flutt á Morgunvakt rásar 1.

Klukkan 09.00 hófst ráðstefna með þátttöku um 60 manns á hótel Loftleiðum, þar sem rætt var til klukkan 15. 30 um orku-öryggi með sérstakri vísan til siglinga frá Kólaskaganum til Norður-Ameríku með olíu og gas um borð í risaskipum. Augljóst er að þessum skipum mun fjölga mjög á næstu árum hér í nágrenni við Ísland og þau munu fara bæði austan og vestan við landið. Við vorum minnt á hættuna við siglingar milli Íslands og Grænlands í sumar, þegar rússneskt skip fékk gat á skrokkinn í ís í júlí og varð að fara í slipp í Hafnarfirði.

Egill Helgason og Jónas Kristjánsson hafa komist að þeirri niðurstöðu á vefsíðum sínum, að ómaklegt sé hjá mér að tala um „andstæðinga“, þegar ég ræði um þá, sem styðja mig ekki í stjórnmálum. Jónas kallar það „vænissýki“, að ég skuli nota þetta orð.

Þessar aðfinnslur í anda pólitísks rétttrúnaðar styðja aðeins þá kenningu mína, að framlag svonefndra álitsgjafa til stjórnmálaumræðna hér á landi sé hjákátlegra en annars staðar. Kannski er þetta einhver tegund af póst-módernisma, þar sem allt er lagt að jöfnu og flatneskjan ein virðist mega móta umhverfið.

 

Miðvikudagur, 01. 11. 06. - 1.11.2006 20:59

Á ruv.is mátti í kvöld lesa þessa frétt:

„Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig 2 prósentustigum og nýtur nú fylgis 43% þjóðarinnar samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi. Um er að ræða símakönnun sem gerð var dagana 29. september til 24. október. Samfylkingin missir þau 2 prósentustig sem flokkurinn bætti við sig í síðustu könnun og nýtur að þessu sinni fylgis fjórðungs þjóðarinnar. Framsóknarflokkurinn mælist með 8% fylgi á landsvísu, fer niður um 1% og hefur aldrei mælst með minna fylgi á þessu ári. Fylgi annarra flokka er nær óbreytt frá síðasta mánuði; Vinstri grænir með 20%, Frjálslyndir með 4%. Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú 53%.

Eftir kjördæmum skiptist það þannig að Framsóknarflokkurinn hefur minnst fylgi í Reykjavíkurkjördæmi suður, eða 3%, en mest í Norðvestur- og Norðausturkjördæmum, með 16% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist minnst með 35% fylgi í Norðvesturkjördæmi og mest fylgi í Suðvesturkjördæmi þar sem flokkurinn nýtur stuðnings helmings kjósenda. Frjálslyndir fá minnst fylgi í Norðausturkjördæmi, eða 2%, og mest í Norðvesturkjördæmi eða 6%. Samfylkingin hefur mest fylgi í Suðurkjördæmi, 28%, en minnst í Reykjavík suður með 23%. Þar eru Vinstri grænir stærri, með 25% fylgi en minnst fylgi fær flokkurinn í Suðurkjördæmi eða 16%.“

Hafi það verið ætlan Samfylkingarinnar að ná fylgi af Sjálfstæðisflokknum með hlerunarmálinu og framtaki Jóns Baldvins Hannibalssonar hefur það mistekist. Fylgi Samfylkingarinnar minnkar um 2% en fylgi okkar sjálfstæðismanna eykst um 2%. Það verður spennandi að fylgjast með því upp á hverju Samfylkingin finnur næst til að auka fylgi sitt.

Í dag tók ég þátt í umræðum utan dagskrár á alþingi, þegar ég brást við ósk Þórunnar Sveinbjarnardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um að ræða, hvort vopna ætti íslenska lögreglumenn, en enginn hefur gert um það tillögu. Líklega er það einmitt þess vegna, sem óskað er umræðna um málið utan dagskrár á alþingi - í því skyni að ala á grunsemdum um, að líklega eigi að vopna lögregluna! Þetta er það, sem nefnt hefur verið kjaftasögustjórnmál. Þau virðast ekki duga Samfylkingunni að auka fylgi sitt frekar en umræðustjórnmálin.