Sunnudagur, 05. 11. 06.
Ég vek athygli á grein Einars Benediktssonar, fyrrverandi sendiherra, í Morgunblaðinu í dag, þar sem hann ræðir meðal annars um efnistök Guðjóns Friðrikssonar í ævisögunni um afa Einars og alnafna. Greinin er í senn vel skrifuð og um efni, sem verðugt er að íhugað sé, fyrir utan að vera tímabær málsvörn fyrir Einar Benediktsson vegna alls þess, sem um hann hefur verið sagt og margt af lítilli virðingu fyrir því, sem satt er og rétt.
Við urðum fyrir foktjóni í ofsarokinu, sem varð í Fljótshlíðinni í dag.
Vorum klukkan 17. 00 í Hallgrímskirkju, þar sem Schola cantorum undir stjórn Harðar Áskelssonar ásamt félögum úr Alþjóðlegu barokksveitinni í Haag fluttu verk eftir franska tónskáldið André Campra á allra sálna messu.