Dagbók: mars 2004

Miðvikudagur, 31. 03. 04. - 31.3.2004 0:00

Svaraði fjórum fyrirspurnum á alþingi.

Þriðjudagur, 30. 03. 04 - 30.3.2004 0:00

Sat ráðherrafund Schengen-ríkjanna  í Brussel og hélt heim um Kaupmannahöfn um kvöldið.

Mánudagur, 29. 03. 04 - 29.3.2004 0:00

Hélt upp úr hádeginu til Brussel um Kaupmannahöfn.

Sunnudagur, 28. 03. 04. - 28.3.2004 0:00

Fór síðdegis á tónleika Mótettukórsins í Hallgrímskirkju, þar sem flutt var tónlíst helguð boðunardegi Maríu.

Föstudagur, 26. 03. 04. - 26.3.2004 0:00

Klukkan 11.00 rituðum við samgönguráðherra undir samning um vaktstöð siglinga.

Klukkan 15.00 flutti ég ávarp, þegar Björgunarmiðstöðin Skógarhíð var formlega opnuð.

Fimmtudagur, 25. 03. 04. - 25.3.2004 0:00

Tók þátt í fundi um viðhorf í garð Bandaríkjanna á vegum bandaríska sendiráðsins með starfsmönnum bandarískra sendiráða við Eystrasalt milli 10.00 og 11.00 á hótel Sögu.

Klukkan 11.30 kynnti ég skipulagsbreytingar í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu á fundi með starfsmönnum þess.

Klukkan 19.30 sótti ég kvikmyndasýningu og fund á vegum SUS í Valhöll og ræddi um bandarískar forsetakosningar.

Þriðjudagur, 23. 03. 04. - 23.3.2004 0:00

Sótti klukkan 20.00 fjölmennan félagsfund sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi og ræddi þar um stjórnmál, einkum sérsveitar- og lögrerglumál auk þess sem áhugi var á stöðu forseta Íslands.

Mánudagur, 22. 03. 04. - 22.3.2004 0:00

Flutti síðdegis framsöguræðu á alþingi við fyrstu umræðu um frumvarp mitt um breytingu á útlendingalögunum.

Sunnudagur, 21. 03. 04. - 21.3.2004 0:00

Klukkan 11.00 flutti ég hugvekju við messu í Seltjarnarneskirkju.

Klukkan 18.00 var ég í Silfri Egils með Össuri Skarphéðinssyni.

Klukkan 20.00 var ég á glæsilegum tónleikum Kammersveitar Reykjavíkur í Langholtskirkju.

Föstudagur, 19. 03. 04. - 19.3.2004 0:00

Fór í hádegisverðarboð um borð í togaranum Vilhelm Þorsteinssyni við Vesturbakka í Sundahöfn en þangað var mér boðið með starfsmönnum Landhelgisgæslunnar til að fagna björgun Baldvins Þorsteinssonar. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, stóð myndarlega að þessu boði eins og hann og menn hans stóðu einstaklega vel og skipulega að björgun Baldvins. Gæslumennirnir sögðu það hafa verið einstæða og skemmtilega reynslu að vinna að þessari björgun með Þorsteini og mönnum hans.

Klukkan 18.30 var ég á opnum fundi með utanríkismálanefnd SUS til að ræða framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Fimmtudagur, 18. 03. 04. - 18.3.2004 0:00

Tók klukkan 10.30 þátt í umræðum utan dagskrár á alþingi um stöðu héraðsdómstólanna. Ég varð mest undrandi á ræðu Jónínu Bjartmarz, sem taldi stöðugt hafa sigið á ógæfuhliðina fyrir dómstólana síðan dómstólaráð kom til sögunnar. Andmælti því harðlega, að dómstólarnir væru ósjálfstæðir.

Sat borgarstjórnarfund klukkan 14.00.

Miðvikudagur, 17. 03. 04. - 17.3.2004 0:00

Fór í Laugarásbíó klukkan 20.00 á forsýningu á Passion, píslaröngu Krists, eftir Mel Gibson. Þótti mikið til myndarinnar koma.

Þriðjudagur, 16. 03. 04. - 16.3.2004 0:00

Flutti klukkan 08.30 ávarp á ráðstefnu um rafræna stjórnsýslu að hótel Nordica.

Sunnudagur, 14. 03. 04. - 14.3.2004 0:00

Fór rúmlega 13.00 af stað til Stykkishólms með Rut og Ingu, tengdamóður minni, til að taka þátt í 90 ára afmæli Árna Helgasonar, sem haldið var hátíðlegt með sérstökum glæsibrag, Við vorum komin aftur rúmlega 19.30, eftir að hafa þurft að bíða í 15 mínútur á heimleiðinni við Hvalfjarðargöngin, vegna þess hve seint gekk að innheimta veggjaldið.

Laugardagur, 13. 03. 04 - 13.3.2004 0:00

Tók þátt í fundi í Valhöll klukkan 14.00 með ungu fólki, sem hafði áhuga á að kynna sér stefnu og störf Sjálfstæðisflokksins og ræddi við þau um utanríkismál.

Fimmtudagur 11. 03. 04. - 11.3.2004 0:00

Kynnti klukkan 15.00 á fundi í Grand Hotel stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingatækni á næstu fjórum árum. Fundurinn var vel sóttur af þeim, sem að þessum málum vinna og blaðamönnum.

Miðvikudagur, 10. 03. 04. - 10.3.2004 0:00

Svaraði tveimur fyrirspurnum á alþingi klukkan 13.30.

Klukkan 14.30 fór ég í höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar og fékk skýrslu um strand Baldvins Þorsteinssonar EA og aðgerðir skipinu til bjargar en þyrla gæslunnar bjargaði áhöfninni í land skammt fyrir austan Vík í Mýrdal.

Var klukkan 22.20 á Pressukvöldi í sjónvarpi ríkisins og svaraði spurningum Þórdísar Arnljótsdóttur og Arnar Páls Haukssonar og Kristjáns Guy Burgess um ýmis mál, þar á meðal forystumál Sjálfstæðisflokksins og ráðherraskipti 15. september. Vísaði ég umræðum um þau mál frá mér sem ótímabærum.

Laugardagur, 06. 03. 04. - 6.3.2004 0:00

Síðdegis og fram á kvöld vorum við í glæsilegu brúðkaupi Ingu Maríu Leifsdóttur og Kristbjörns Helgasonar.

Föstudagur, 05. 03. 04. - 5.3.2004 0:00

Var sæmdur stjörnu vikunnar af þættinum Ísland í bítið en daginn áður var tekið við mig viðtal af því tilefni, sem sýnt var í þættinum.

Að loknum ríkisstjórnarfundi fór ég til starfa í dómsmálaráðuneytinu, en þar var árlegur tiltektardagur, þar sem starfsmenn láta hendur standa fram úr ermum við hvers kyns tiltektir.

Klukkan 17.00 fór ég í þáttinn Nei, ráðherra! á Útvarpi Sögu og sat þar í klukkustund í viðræðum við þá Hinrik Má Ásgeirsson og Sigurð Hólm Gunnarsson um hugmyndafræði, varnarmál, refsingar og milliliðalaust lýðræði. Var skemmtilegt að ræða málin frá þessum sjónarhóli og voru spyrjendur vel undirbúnir.

Fimmtudagur, 04. 03. 04. - 4.3.2004 0:00

Klukkan 10.30 hófst umræða utan dagskrár á alþingi um sérsveit lögreglunnar að frumkvæði Ögmundar Jónassonar. formanns þingflokks vinstri/grænna. Ég skýrði sjónarmið mín í ræðu og hlustaði síðan á málflutning annarra, áður en ég átti lokaorðin eins og venja er í slíkum umræðum.

Framganga Helga Hjörvars, þingmanns Samfylkingarinnar, kom mér sérstaklega á óvart, vegna þess hve ræða hans var innihaldslaus og ómerkileg.

Klukkan 14.00 fór ég á fund í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar bar lögreglumál einnig á góma með vísan til þess, hve vel hefur til tekist með hverfalöggæslu í Grafarvoginum og verkefnið Hringurinn þar. Fór svo að Guðlaugur Þór Þórðarson, borgarfulltrúi okkar sjálfstæðismanna, bar fram tillögu, þar sem fagnað var ákvörðun um að fjölga almennum lögreglumönnum í Reykjavík um 10 og hvatt til enn frekari aðgerða til að efla hina góðu hverfalöggæslu. Var tillgana samþykkt með 13 samhljóða atkvæðum af 15 í borgarstjórninni, eftir að R-listanum gafst fimm mínútna fundarhlé til að taka afstöðu til málsins.

Helgi Hjörvar er varaborgarfulltrúi og sat fyrri hluta borgarstjórnarfundarins. Fjarvera hann leiddi til þess, að unnt var að ræða á málefnalegum forsendum um löggæslu og lögreglu og komast að skynsamlegri niðurstöðu.

Ræddi um klukkan 15.30 í síma úr ráðhúsinu við Hallgrím Thorsteinsson á Útvarpi Sögu en hann var með Einar Karl Haraldsson í hljóðstofu hjá sér. Skiptumst við að skoðunum um sérsveitina.

Klukkan 19.30 var ég í Kastljósinu með Ögmundi Jónassyni og ræddi um sérsveitar- og lögreglumál við þá Sigmar og Kristján.

Miðvikudagur, 03. 03. 04. - 3.3.2004 0:00

Var með mín venjulegu viðtöl fyrir hádegi að loknu sundi og qi gong æfingum.

Klukkan 13.30 var utan dagskrár umræða á alþingi, þar sem Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, hóf máls á því, hvað ég ætlaði að gera vegna uppsagnar Landspítalans háskólasjúkrahúss á samningi um lækna um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar. Ég sagði málið til athugunar og þar yrði þeirri spurningu svarað, hvort óhjákvæmilegt væri að hafa alltaf lækni um borð.

Eftir að hafa setið á þingflokksfundi okkar sjálfstæðismanna fór ég á fund í borgarstjórnarflokknum okkar og hlustaði þar meðal annars á fróðlega kynningu á áformum um endurreisn miðborgarinnar af hálfu þeirra, sem vilja koma að því að reisa tónlistarhús og fleira á norðurvæng miðborgarinnar.

Þriðjudagur, 02. 03. 04. - 2.3.2004 0:00

Helgi Hjörvar alþingismaður tók til máls um störf alþingis í upphafi þingfundar kl. 01.30 síðdegis í dag. Hafði hann hringt í dómsmálaráðuneytið fyrr um daginn og spurt, hvort ég yrði við upphaf þingfundar, hann ætlaði að ræða um sérsveit lögreglunnar og mundi kannski minnast á fjárveitingar til dómstólanna.

Ég var við upphaf fundarins og þar fór Helgi Hjörvar mikinn og meira um dómstólana en sérsveitina og lét eins og ákvörðun um að efla sérsveitina bitnaði á fjárhag dómstólanna og réðst á mig fyrir „ofstopa“ í garð dómstóla auk þess sem ég væri að hrinda í framkvæmd hugmynd um íslenskan her.

Ég lýsti undrun yfir því, að Helgi tæki sérsveitina til umræðu á þessum forsendum, þar sem að ósk Ögmundar Jónassonar hefði verið ákveðin utan dagskrárumræða um lögreglumál fimmtudaginn 4. mars.

Ég itrekaði það sjónarmið mitt, að dómarar hefðu sýnt ábyrgðarleysi með því að lýsa réttaröryggi borgaranna í hættu vegna fjárhagsaðstæðna hjá dómstólunum. (En þetta kom fram í viðtali við mig í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins 1. mars, þegar ég brást við fréttatilkynningu dómarafélagsins.)

Einar Már Sigurðarson, þingmaður Samfylkingarinnar í Norð-austurkjördæmi, tók til máls og sagði löggæslu ekki næga við Kárahnjúka, hvort ekki væri nær að huga að henni en að því að efla sérsveitina.

Ég sagði þessi ummæli sýna, að þingmaðurinn vissi ekkert um hvað málið snerist, því að skipulagsbreyting á sérsveitinni myndi einmitt hafa í för með sér að auðveldara yrði að beita henni til dæmis við Kárahnjúka. Auk þess þætti mér skrýtið að taka þetta mál upp á þessum tíma í þinginu, þar sem fyrir lægi fyrirspurn um löggæslu við Kárahnjúka frá Atla Gíslasyni (varaþingmanni vinstri/grænna). Skildi ég ekkert í því, hvaða æsingur þetta væri hjá Samfylkingunni.

Ögmundur Jónasson, formaður þingflokks vinstri/grænna, tók til máls og lýsti einnig undrun sinni á þessu upphlaupi samfylkingarmanna, þegar mál þessi kæmu síðar á dagskrá og fyrir dyrum stæði að taka málefni heimahjúkrunar til umræðu utan dagskrár að ósk vinstri/grænna. Mátti skilja Ögmund svo, að þeir Helgi og Einar Már væru að reyna að draga athygli frá frumkvæði vinstri/grænna að umræðum um heimahjúkrun.

Klukkan 17.00 var ég í dægurmálaútvarpi Rásar 2 og ræddi sérsveitarmál og fleira við Ævar Örn Jósepsson.

Mánudagur, 01. 03. 04. - 1.3.2004 0:00

Efndi til blaðamannafundar í ráðuneytinu klukkan 10.30 með Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra og Ingimundi Einarssyni, varalögreglustjóra í Reykjavík, og kynnti breytingar á sérsveit lögreglunnar.