Dagbók: mars 1998
Laugardagur 28.3.1998
Klukkan 10.00 fór ég á ráðstefnu Sjálfstæðisflokksins um sveitarstjórnamál í tilefni af komandi kosningum. Klukkan 14.00 opnaði ég formlega Viðskipta- og tölvuskólann í Reykjavík, sem er framsækinn einkaskóli, rekinn af miklum stórhug af rafiðnaðarmönnum; skóli á heimsmælikvarða að mínu mati. Í fréttum hljóvarps ríkisins um kvöldið heyrði ég að Ari Sigvaldason sagði frá þessum atburði án þess að lýsa honum með nokkrum hætti og ræddi frekar um næsta skref rafiðnaðarmanna um margmiðlunar- og fjarkennsluskóla. Klukkan 17.00 fór ég á tónleika Fílharmónukórsins í Langholtskirkju og var þar fram að hlé. Eftir tónleikana fór ég í 60 ára afmæli Óðins í Valhöll.
Föstudagur 27.3.1998
Þessi dagur fór verulega úr skorðum, ef svo má orða það, vegna afgreiðslu laganna til lausnar sjómannadeilunni á þingi. Vegna atkvæðagreiðslu aflýsti ég bæði þátttöku minni í aðalfundi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og för minni í Þjóðleikhúsið til að horfa á frumsýningu á nýju leikriti eftir Birgi Sigurðsson. Klukkan 14.30 efndi ég til blaðamannafundar til að kynna úttekt á kennaramenntastofnunum þremur, Kennraháskóla Íslands, Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri.
Fimmtudagur 26.3.1998
Klukkan 13.30 fór ég í Listasafn Einars Jónssonar og skoðaði það með Hrafnhildi Schram forstöðumanni og Ármanni Snævar stjórnarformanni eftir gangerar endurbætur innan húss og utan. Er gleðilegt að sjá, að tekist hafi að varna stórfelldum skemmdum á þessu merka safni. Klukkan 15.00 sat ég fund í boði Hins íslenska kennarafélags til að ræða um nýju skólastefnuna. Voru þar forráðamenn HÍK og formenn fagfélaga og voru umræðurnar hinar gagnlegustu.
Fimmtudagur 26.3.1998
Klukkan 16.00 boðaði menntamálaráðuneytið fulltrúa í 7 starfsgreinaráðum af 14 til fundar í Ársal Hótel Sögu. Sátu rúmlega 100 manns fundinn og var þessum fyrstu ráðum ýtt þar úr vör. Bind ég miklar vonir við störf þeirra í þágu starfsmenntunar, en ráðin eiga meðal annars að gera tillögur um námskrár einstakra starfsgreina. Um kvöldið var Kastljós-þáttur í sjónvarpinu undir stjórn Ernu Indriðadóttur um nýju skólastefnuna. Hef ég orðið var við, að hann hafi mælst vel fyrir. Sjálfum þótti mér hann vel gerður.
Fimmtudagur 25.3.1998
Klukkan 16.00 boðaði menntamálaráðuneytið fulltrúa í 7 starfsgreinaráðum af 14 til fundar í Ársal Hótel Sögu. Sátu rúmlega 100 manns fundinn og var þessum fyrstu ráðum ýtt þar úr vör. Bind ég miklar vonir við störf þeirra í þágu starfsmenntunar, en ráðin eiga meðal annars að gera tillögur um námskrár einstakra starfsgreina. Um kvöldið var Kastljós-þáttur í sjónvarpinu undir stjórn Ernu Indriðadóttur um nýju skólastefnuna. Hef ég orðið var við, að hann hafi mælst vel fyrir. Sjálfum þótti mér hann vel gerður.
Þriðjudagur 24.3.1998
Um kvöldið fór ég á fund um nýju skólastefnuna í Mýrarhúsaskóla á Seltjarnanesi. Var hann skipulagður af sjálfstæðismönnum í bænum. Fjölmennti fólk úr öllum stjórnmálaflokkum til að ræða málið.
Mánudagur 23.3.1998
Vegna veðurs aflýsti ég í annað sinn auglýstum fundi um nýju skólastefnuna á Akureyri. Er þetta síðasti fundurinn um málið, sem ráðuneytið skipuleggur og frestaði ég honum fram á síðdegi fimmtudagsins 2. apríl.
Laugardagur 21.3.1998
Klukkan 11 fórum við með vél Flugmálastjórnar til Sauðárkróks. Þegar ég vaknaði og hlustaði á fyrstu veðurfréttir var ég sannfærður um, að ég yrði að aka norður til að komast þar á fund klukkan 14.00. Ég var í þann mund að leggja af stað, þegar sagt var, að unnt yrði að fljúga. Nokkuð hvasst var þegar við lentum og töldu menn á jörðu niðri, að vélin myndi ekki lenda. Allt gekk þó að óskum enda vanir menn við stjórnvölinn og fundum við raunar meira fyrir vindinum, þegar farið á loft um fimmleytið, þótt þá hefði mikið lægt. Fundurinn á Sauðárkróki var haldinn í Kaffi Krókur og var salurinn þéttsetinn. Nokkrir komu alla leið frá Hvammstanga til fundarins.
Fimmtudagur 19.3.1998
Klukkan 16.00 kom það í minn hlut að opna sýninguna Matur '98 í Smáranum. Var skemmtilegt og fróðlegt að ganga á milli sýningarbása og kynnast því, sem í boði var. Klukkan 18.00 sat í fyrir svörum í þjóðarsálinni á Rás 2 en Sigríður Arnardóttir stjórnaði þættinum. Hringdu fjölmargir. Klukkan 20.00 var skólastefnufundur í Skútunni í Hafnarfirði. Þar var einnig þéttsetinn salur og margir tóku til máls.Var sérstaklega ánægjulegt, hve margir foreldrar létu í sér heyra á fundinum.
Miðvikudagur 18.3.1998
Fórum á skólastefnufund á Selfossi. Var hann haldinn í hótelinu þar og hófst klukkan 20. Var þéttsetinn salur og urðu miklar umræður. Fyrir fundinn fór ég í hálftímaviðtal við Valdimar Bragason í Svæðisútvarpi Suðurlands, sem er einkastöð og nær til alls Suðurlands, þar með Vestmannaeyja.
Sunnudagur 15.3.1998
Við Rut fórum á námskynningu í Háskóla Íslands, það er í tveimur húsum, Odda og Árnastofnun. Þaðan héldum við síðan í opið hús í Borgarholtsskóla. Á báðum stöðum var margt um manninn.
Laugardagur 7.3.1998
Ók um morguninn með Ólafi Ragnarssyni, sveitarstjóra á Djúpavogi, til Fáskrúðsfjarðar, þar sem ég efndi klukkan 10.30 til fundar um hina nyju skólastefnu í hótelinu. Var hann vel sóttur og urðu góðar umræður. Um klukkan 13.00 héldum við Ólafur áfram leið okkar í fögru en köldu veðri til Egilsstaða, þar sem menntamálaráðuneytið hafði boðað til fyrsta almenna fundarins um nyju skólastefnuna klukkan 15.00. Var hann haldinn í hinu nýja hóteli við góðar aðstæður og var fundurinn vel sóttur. Fór ég heim með kvöldvélinni frá Egilsstöðum og lenti hún um kl. 21.00
Föstudagur 6.3.1998
Klukkan 12.00 athöfn í þjóðarbókhlöðunni við upphaf Framadaga námsmanna, þar sem ég flutti stutt ávarp. Klukkan 14.00 flogið til Hafnar í Hornafirði, þar sem Egill Jónsson alþingismaður tók á móti mér. Við fórum síðan í grunnskólann, þar sem ég ræddi um skólamál við forystumenn sveitarfélagsins og skólamenn. Síðan ókum við Egill til Djúpavogs, þar var fundur í Löngubúð um kvöldið, þar sem ég skyrði hina nyju skólastefnu og tók þátt í líflegum umræðum. Var sérstaklega ánægjulegt að koma til Djúpavogs og ekki síst að sjá, hve vel hefur tekist til við að endurreisa Löngubúð.
Fimmtudagur 5.3.1998
Ragnhildur Sverrisdóttir kom fyrir hádegi og tók viðtal um hina nyju skólastefnu fyrir Morgunblaðið, sem birtist í sunnudagsblaði þess. Klukkan 20.00 ÍR-mót í stangarstökki kvenna og hástökki karla í Laugardalshöll.
Miðvikudagur 4.3.1998
Klukkan 13.30 svaraði ég fyrirspurn Svanfríðar Jónasdóttur á Alþingi um umræður um skólamál eftir að birtar voru niðurstöður samræmdra prófa í einstökum skólum. Klukkan 14.00 tók ég þátt í athöfn og flutti stutt ávarp í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, þegar Landslið Íslands gegn fíknefnum var kynnt, en þetta var upphaf skipulegs forvarnarstarfs íþróttahreyfingarinnar. Klukkan 15.15 hófst blaðamannafundur um hina nyju skólastefnu í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Klukkan 19.30 hófst kvöldverður til heiðurs Völu Flosadóttur í Ráðherrabústaðnum.
Þriðjudagur 3.3.1998
Klukkan 13.30 voru umræður utan dagskrár á Alþingi um íslenska skólakerfið í ljósi TIMSS-skýrslnanna og var Svanfríður Jónasdóttir þingflokki jafnaðarmanna málshefjandi. Klukkan 21.30 vorum við Rut komin út á Keflavíkurflugvöll til að taka á móti Völu Flosadóttur.
Mánudagur 2.3.1998
Formenn Hins íslenska kennarafélags, Kennarasambands Íslands, fulltrúar Rafiðnaðarskólans og Viðskipta- tölvuskólans komu í ráðuneytið og rituðu með mér undir samkomulag um endurmenntun framhaldsskólakennara að því er varðar tölvunotkun. Klukkan 17.00 efndi þingvallanefnd til fundar með fulltrúum frá landeigendum við þingvallavatn og kynnti þeim áform um stækkun þjóðgarðsins og verndun vatnasviðsins.