Dagbók: febrúar 2011

Mánudagur 28. 02. 11. - 28.2.2011

The King's Speech

fékk Óskarsverðlaun sem besta kvikmyndin í ár, Colin Firth fyrir besta karlhlutverkið og Tom Hooper fyrir bestu leikstjórn. Myndin er vel að þessum verðlaunum komin. Við fylgdumst með þessu í Boston að kvöldi sunnudags 27. febrúar, eftir að síðari hluta qi gong námskeiðsins lauk.

Sunnudagur 27. 02. 11. - 27.2.2011

Nýjasti þáttur minn á ÍNN er kominn á netið og má sjá hann hér Þar ræði ég við Ólaf R. Dýrmundsson, ráðunaut hjá Bændasamtökum Íslands, meðal annars um fæðuöryggi sem er sífellt meira til umræðu á alþjóðavettvangi.

Laugardagur 26. 02. 11. - 26.2.2011

Frá klukkan 08.00 til klukkan 18.00 vorum við í burtu frá hótelinu vegna qi gong æfinga hjá dr. Yang.

Föstudagur 25. 02. 11. - 25.2.2011

Það rigndi eldi og brennisteini fram eftir degi í Boston en undir kvöld fór að snjóa. Við fórum í Symphony Hall síðdegis og hlýddum á Boston Symphony Orchestra (BSO) leika 9. sinfóníu Mahlers.

Tónlistarhúsið var opnað í október árið 1900 og var hljómburður í því sérhannaður af Wallace Clement Sabine, ungum aðstoðarprófessor í eðlisfræði við Harvard-háskóla. Segir í kynningu á húsinu að það hafi verið hið fyrsta þar sem beitt var vísindalegum aðferðum til að ná sem bestum hljómburði. Húsið sé nú talið eitt af þremur bestu hljómburðarhús um heims, hin séu Concertgebouw í Amsterdam og Musikverein í Vínarborg. Bruno Walter hafi nefnt það „göfugasta tónlistarhús Ameríku“ og Herbert von Karajan hafi borið það saman við Musikverein með þeim orðum, að það stæði Musikverein jafnvel framar fyrir flesta gerð tónlistar.

James Levine er aðalstjórnandi BSO auk þess að stjórna við Metropolitan óperuna í New York. Hann átti að stjórna 9. sinfóníu Mahlers á fernum tónleikum nú um helgina en forfallaðist vegna veikinda. Í skarðið hljóp ungur aðstoðarstjórnandi BSO, Sean Newhouse. Hann fékk þarna fyrsta tækifæri sitt til að stjórna BSO á tónleikum og gerði það með mikilli prýði.

Fimmtudagur 24. 02. 11. - 24.2.2011

Í dag á Gunnar Eyjólfsson, ferðafélagi okkar hér í Boston, 85 ára afmæli og gerum við ýmislegt  skemmtilegt okkur til hátíðarbrigða.

Meirihluti nefndar sem Jóhanna Sigurðardóttir fól að ræða viðbrögð við ógildingu hæstaréttar á kosningu til stjórnlagaþings hefur lagt til að þeir sem náðu kjöri geti ráðið því hvort þeir setjist í stjórnlagaráð sem alþingi kjósi. Þetta eru fráleit vinnubrögð og megn óvirðing við stjórnarskrána.

Í lýðræðisríki er lögmæt framkvæmd kosninga grundvallaratriði heilbrigðra stjórnarhátta. Ríkisstjórn sem getur ekki tryggt snurðulausa framkvæmd kosninga er ekki á vetur setjandi. Að nú skuli meirihluti þingmanna sem stendur að baki ríkisstjórninni gera illt verra með því að ætla alþingi að lögfesta rétt þeirra sem hlutu ógilda kosningu til að sýsla með sjálfa stjórnarskrána og gera tillögur til breytinga á henni er með öllu óviðunandi.

Fallist Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon á þessa tillögu og hún hljóti stuðning meirihluta þingmanna sannar það aðeins enn og aftur hve ríkisstjórnin er á hættulegri braut er ósýnt um að hafa lög og rétt að leiðarljósi við ákvarðanir sínar.

Miðvikudagur 23. 02. 11. - 23.2.2011

Við héldum af stað tæplega 07.30 út í qi gong setrið í Boston með neðanjarðarlest. Þar var nokkur hópur fólks að æfa, þar á meðal taji. Þótti okkur forvitnilegt að fá að taka þátt í æfingunum.

Museum of Fine Arts í Boston er virði heimsóknar. Nýlega hefur verið byggð við það ný álma sem hefur að geyma bandaríska list, málverk og hönnun. Þar sá ég hve Bostonbúar hafa listmálarann Copley í miklum hávegum en torg í hjarta borgarinnar er einnig nefnt eftir honum.

Þriðjudagur 22. 02. 11. - 22.2.2011

Kuldinn heldur áfram í Boston, 11 stiga frost í morgun þegar við héldum af hótelinu. Það var hins vegar stillt og bjart. Undanfarnir þrír dagar hafa verið frídagar. Nú færist líf í umferðina á götunum.

Ég var í hópi þeirra sem töldu að forseti Íslands hefði ekki heimild til að beita 26. grein stjórnarskrárinnar á þann veg sem Ólafur Ragnar gerði með því að hafna fjölmiðlalögunum í byrjun júní 2004. Það var hins vegar gert og hefur nú verið gert tvisvar sinnum að nýju. Þessu valdi verður forseti Íslands ekki sviptur nema með breytingu á stjórnarskránni.

Eftir að forseti hefur beitt þessu valdi sínu er ég þeirrar skoðunar að breyti alþingi lögum eftir að þeim hefur verið hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna neitunar forseta eigi að leggja ný lög um sama efni fyrir þjóðina. Ólafur Ragnar valdi að móta reglu um þetta með því að neita að skrifa undir Icesave III. Hún verður ekki afnumin nema með stjórnarskrárbreytingu.

Stjórnlagafræðingar þurfa að greina hina nýju reglu, viðurkenna gildi hennar og útfæra með rökum.

Mánudagur 21. 02. 11. - 21.2.2011

Það snjóaði í Boston í nótt og fram eftir degi. Frostið var þess vegna ekki eins mikið í dag og það hefur verið. Það sést við gangstéttar að miklum snjó hefur verið rutt af götum í vetur. Hann virðist fyrst að bráðna núna og því fylgja mikil óþrif á fáförnum götum.

Ég átta mig ekki á því hvers vegna hættulegra er talið að láta reyna á rétt Íslendinga í Icesave málinu fyrir dómi en almennt þegar deilt er um skuldir og óvissa talin ríkja um greiðsluskyldu. Annað hvort er hún fyrir hendi eða ekki. Sé hún fyrir hendi kemst dómarinn að þeirri niðurstöðu.

Hvort dómarar taki sér síðan fyrir hendur að ákveða á hvern hátt skuldin skuli greidd er annað mál. Hafi aðilar komið sér saman um einhver kjör á endurgreiðslu áður er dómur um greiðsluskylduna féll, er eðlilegt að dómari taki tillit til þess og slái því föstu að það samkomulag haldi. Vilji annar hvor aðili málsins ekki sætta sig við þá niðurstöðu kann að reyna á þann þátt sérstaklega.

Minnst þykir mér til þeirra sjónarmiða koma í Icesave-málinu, að best sé að ljúka því, þar sem það hafi svo lengi vakið deilur.

Sunnudagur 20. 02. 11. - 20.2.2011

Það er ekki alveg eins kalt hér í Boston í dag og verið hefur, þótt frostið sé 8 gráður vegna þess að það blæs ekki eins mikið og í gær.

Ólafur Ragnar neitaði að skrifa undir Icesave III í dag og af því tilefni skrifaði ég þennan pistil.

Laugardagur 19. 02. 11. - 19.2.2011

Fyrsti dagur qi gong námskeiðsins hjá dr. Yang, Jwing-Ming hér í Boston leiddi enn í ljós hve miklu er unnt miðla með æfingunum og veita mörgum aðstoð að tilstuðlan þeirra. Hér er fólk víða að úr heiminum.

Kuldinn í Boston er meiri en ég vænti vegna þess hve hvass vindurinn er og eykur kælinguna mikið. Að fara um miðborgina minnir helst á að ganga um Lækjargötuna þegar norðangarrinn er mestur.

Föstudagur 18. 02. 11. - 18.2.2011

Flaug klukkan 17.00 með Icelandair til Boston. Skráði mig inn á netinu. Þegar ég ætlaði að losa mig við töskuna við innritun í Leifsstöð var enginn til að taka við henni, þannig að ég varð að fara í röðina eins og ég hefðti ekki innritað mig á netinu.

Í Boston lenti ég í hinu sama og oft hefur gerst við komu til Bandaríkjanna að ég þurfti að fara í sérstaka vegabréfaskoðun þar sem fingraför mín eru illa skráð í gagnabanka heimavarnaráðuneytis Bandaríkjanna og krefst það því tvöfaldrar skoðunar hjá landamæravörðum hvort mér megi hleypa inn í landið.

Fimmtudagur 17. 02. 11. - 17.2.2011

Nú er augljóst að fréttastofa RÚV er á móti söfnun undirskrifta kjosum.is . Af hennar hálfu er ekki flutt ein frétt af söfnuninni án þess að bæta því við að einhverjir einstaklingar hafi horn í síðu hennar af því að hún sé ekki nógu vönduð. Þá hafi þeir skotið máli sínu til persónuverndar. Í Kastljósi var meira segja hringt til manns í Gautaborg í Svíþjóð til að fá neikvæð viðhorf til kjosum.is.

Hvaða tilgangi þjónar þetta? Jú, fyrir þeim sem ala á því að ekkert sé að marka söfnunina vakir að draga athygli frá því hve skjótt almenningur hefur látið til sín heyra með því að rita nafn sitt á síðuna og skora á Ólaf Ragnar Grímsson að staðfesta ekki Icesave III. Þá telja úrtölumennirnir að þeir geti haft áhrif á Ólaf Ragnar og fælt hann frá því að taka mark á því sem fyrir hann verður lagt.
Miðvikudagur 16. 02. 11. - 16.2.2011

Alþingi samþykkti Icesave III með 44 atkvæðum í dag. Fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins voru á móti: Unnur Brá Konráðsdóttir, Pétur Blöndal, Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson. Fellt var 32 gegn 30 að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Fagna ber því að allir sjálfstæðismenn greiddu atkvæði með þeirri tillögu.

Fyrir nokkru hitti ég erlendan lögfræðing sem starfar í Brussel en þekkir vel til aðstæðna hér á landi. Hann taldi fráleitt að nokkur stjórnmálamaður tæki ákvörðun um að leysa þetta mál með samningi eftir að fram hefðu komið jafnskýr rök gegn því að kröfur Breta og Hollendinga styddust við lög.

Þingmenn sem styðja þennan gjörning láta eins og það skapi honum sérstöðu meðal laga að tveir þriðju þingmanna studdu frumvarpið að lokum. Það breytir einfaldlega ekki neinu um réttarstöðu málsins. Helst mál skilja orð þingmannanna á þann veg að skoða beri þessa staðreynd í ljósi 26. gr. stjórnarskráinnar um rétt forseta Íslands til að hafna lögum.

Ef litið er til yfirlýsinga Ólafs Ragnars um rök hans fyrir því að beita 26. greininni er það gjáin milli þings og þjóðar sem hann hefur í huga eða hve margir þingmenn hafa áhuga á að viðkomandi mál sér lagt fyrir þjóðina.

Hin ný samþykktu lög voru send með hraði til forseta. Var sagt frá því í fréttum að á forsetaskrifstofunni myndu menn ekki eftir slíkum flýti af hálfu ríkisstjórnar og alþingis. Síðast þegar Ólafur Ragnar fékk Icesave-lög frá Steingrími J. gerðist það á ríkisráðsfundi. Þá hlupu þau Jóhanna og Steingrímur J. á sig þegar þau samþykktu að Ólafur Ragnar tæki sér frest til hugsa málið. Nú vilja þau ekki gefa honum neitt slíkt ráðrúm heldur heimta undirritun strax.

Beðið er yfirlýsingar frá Bessastöðum.

Þriðjudagur 15. 02. 11. - 15.2.2011

Fallegt ferðaveður var á leiðinni austan úr Fljótshlíð í morgun og góður þáttur í RÚV hjá Margréti Örnólfsdóttur sem kynnti til sögunnar óperuaríur með Maríu Callas og tengdi þær kvikmyndum.

Um kvöld efni Kammersveit Reykjavíkur til tónleika á Kjarvalsstöðum, Nautabani og syngjandi silungur. Alfredo Oyaguez frá Majorka lék á píanó, meðal annars Silungakvintettinn.

Mánudagur 14. 02. 11. - 14.2.2011

Fréttir úr alþingi benda til þess að þingmenn ætli að flýta sér að afgreiða Icesave III í von um að þar með hindri þeir að almenningur nái að setja fram háværa kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Tillaga um slíka atkvæðagreiðslu var felld í fjárlaganefnd þingsins í dag. Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem lýst hafði stuðningi við þjóðaratkvæðagreiðslu opinberlega í síðustu viku stóð ekki einu sinni með því að fara þá leið, ef marka mál fréttir.

Undarlegt er ef þingmenn telja að málskot til þjóðarinnar að nýju við afgreiðslu Icesave-málsins skapi fordæmi. Svo er alls ekki því að sérstaða laganna er svo mikil miðað við forsögu þeirra, að í raun þarf sterkari rök til að hafna þjóðaratkvæðagreiðslu en samþykkja hana.

Afstaða ríkisstjórnarinnar og þigmanna í málinu minnir ekki á annað en aðferðir valdhafa Evrópusambandsins við að ná málum fram án þess að leyfa lýðræðinu að njóta sín.

Sunnudagur, 13. 02. 11. - 13.2.2011

Einkennilegt er að fylgjast með þögn annarra miðla en Morgunblaðsins um undirskriftasöfnunina kjosum.is sem snýst um að hvetja til þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave III. Enginn þarf að efast um stuðning minn við þann málstað. Þótt þögn ríki um söfnun undirskriftanna hafa um 10.000 manns þegar skráð nafn sitt undir áskorun um að þjóðin eigi síðasta orðið um Icesave III.

Í fréttum RÚV er sagt frá því að þúsundir kvenna mótmæli Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, en ekki er minnst einu orði á mótmæli þúsundanna hér á landi. Forvígismenn kjosum.is hafa boðað til blaðamannafundar á morgun. Kannski frétta RÚV og Baugsmiðlarnir þá af þessu framtaki.

Laugardagur 12. 02. 11. - 12.2.2011

Á Evrópuvaktinni er vakin athygli á því í dag að Magnús M. Norðdahl, hrl., lögfræðingur ASÍ og gjaldkeri Samfylkingarinnar, skrifar mjög harðorða grein um Svandísi Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, á vefsíðu Herðubreiðar sem er málgagn samfylkingarfólks. Í grein sinni gengur Magnús gegn sjónarmiði Jóhönnu Sigurðardóttur, formanns Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, sem gerir ekki athugasemd við framgöngu Svandísar.

Það er dæmigert fyrir fátæklega pólitíska fréttamennsku hér á landi og skort fjölmiðlamanna á auga fyrir því sem er fréttnæmt á stjórnmálavettvangi að ekki skuli vakin athygli annars staðar á þessum ágreiningi um stöðu umhverfisráðherra á æðstu stöðum innan Samfylkingarinnar.

Í morgun sat ég fyrir svörum á útvarpi Sögu Lúðvíki Lúðvíkssyni og ræddum við um afstöðuna til ESB. Í gær var á hinn bóginn rætt við mig í Víðsjá á rás 1 hjá RÚV í tilefni af því að 6. febrúar voru 100 ár liðin frá fæðingu Ronalds Reagans, forseta Bandaríkjanna. Mér var ljúft að taka þátt í því að leggja mat á hlut Reagans í sögunni. Ég tel hann í hópi merkustu forseta Bandaríkjanna.

Föstudagur 11. 02. 11. - 11.2.2011

Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, hrökklaðist frá völdum í dag. Hann sagði ekki sjálfur af sér heldur kom það í hlut varaforseta landsins að tilkynna í nokkrum setningum að Mubarak væri hættur að stjórna landinu og herinn tekinn við því hlutverki. Reiðin sem blossaði upp í gærkvöldi eftir ræðu Mubaraks jók enn á fjöldamótmælin í dag. Við blasti að til blóðbaðs kæmi ef forsetinn ætlaði að sitja áfram við völd.

Í dag hlustaði ég á viðtal sem Pétur Halldórsson tók við Önnu Svövu Traustadóttur á Akureyri og útvarpað var sl. mánudag. Áhugi minn á samtali þeirra byggðist á því að þau minntust á qi gong og mátti skilja á þeim að mikill munur væri á æfingum undir stjórn Gunnars Eyjólfssonar hér í Reykjavík og æfingum sem Anna Svava stundaði og kenndi undir stjórn meistara í New York. Var jafnvel látið í veðri vaka að Gunnar kenndi einhvers konar leikfimi en Anna Svava eitthvað annað.

Allar qi gong æfingar miða að hinu sama: að opna orkubrautir og stuðla þannig að betri líðan. Anna Svava nefndi um 1.000 ólíkar æfingar, aðrir segja að þær séu 3.000. Allar lýsingar Önnu Svövu á markmiðum þess sem hún lærir í New York eiga við um markmið æfinganna sem kenndar eru við Gunnar Eyjólfsson. Æfingakerfin eru ólík en miða að hinu sama.

Hér í Reykjavík og nú í nágrannabyggðum hefur hópur fólks stundað qi gong æfingar reglulega í tæpa tvo áratugi. Innan Aflsins, félags qi gong iðkenda, er hins vegar lögð áhersla á að enginn í hópnum líti á sig sem heilara að einhverju tagi en Anna Svava er að fara inn á þá braut með námi sínu. Hún fræðir fólk til dæmis um mataræði og aðra slíka hluti sem ekki er gert á vegum Aflsins.

Því ber að fagna að fleiri átti sig á gildi þess að stunda qi gong. Hver og einn getur þróað sitt eigið æfingaferli sem byggist á grunnreglunni um agaða öndun, agaðan líkamsburð og einbeitingu.

Fimmtudagur 10. 02. 11. - 10.2.2011

Samtal mitt á ÍNN við Unni Brá Konráðsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins, frá 9. febrúar má sjá hér.

Hosni Mubarak ávarpaði Egypta í kvöld um klukkan 23.00 að staðatíma. Allar alþjóðlegar fréttastöðvar spáðu því að hann mundi tilkynna afsögn sína. Hann minntist ekki einu orði á hana. Að vísu sagðist hann ætla að deila völdum að einhverju leyti með varaforseta sínum.

Mikil reiði braust út hjá hundruð þúsundum manna sem voru á Tahrir-torgi í Kairó þegar þeir heyrðu Mubarak ætla að halda í forsetavöld sín. Var því spáð að fólkið mundi í nótt ganga nokkra vegalengd til forsetahallarinnar. Allt bendir til þess að til blóðugra átaka komi landinu áður en Mubarak hrökklast frá völdum.Miðvikudagur 09. 02. 11. - 9.2.2011

Í dag ræddi ég við Unni Brá Konráðsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins úr suðurkjördæmi, í þætti mínum á ÍNN og var samtalið sýnt í fyrsta sinn klukkan 20.00 í kvöld síðan verður það að nýju klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti þar til klukkan 18.00 á morgun fimmtudag. Unnur Brá er skelegg í málflutningi sínum og enginn þarf að efast um skoðanir hennar í atvinnumálum, ESB-málum og Icesave-málinu eftir að hafa hlustað á þáttinn.

Charlemagne er dulnefni blaðamanns The Economist sem skrifar reglulega dálk í blaðið um málefni Evrópusambandsins. Í nýjasta hefti ræðir hann um Cathy Ashton, utanríkisráðherra ESB, sem er í nokkurs konar tilvistarkreppu en utanríkisþjónusta ESB hóf störf formlega störf um síðustu áramót. Charlemagne segir að Ashton hafi verið svo óheppin að koma að nýju embætti sínu þegar stækkun ESB væri ekki líkleg til að valda breytingum innan þess, þar sem fyrir utan Króatíu og hugsanlega fáein Balkanríki hafi stækkunarferli ESB meira og minna stöðvast (EU enlargement has more or less ground to a halt).

Charlemagne hefur ekki fyrir því að nefna Ísland til sögunnar þegar hann minnist á stækkun ESB. Annað hvort er hann þeirrar skoðunar að hún skipti í raun engu máli og þess vegna taki því ekki að nefna hana eða hann telur að til aðildar Íslands komi ekki. Ég hallast að síðari skýringunni. Í Brussel hljóta menn að gera sér grein fyrir því, hvað sem líður túlkunum formanns íslensku viðræðunefndarinnar á áhuga Íslendinga á því að ljúka viðræðum við ESB, að meðal þjóðarinnar er enginn áhugi á efni málsins, það er aðildinni sjálfri. Ef einhverjir sjá á hve veikum ís íslensk stjórnvöld eru í tali sínu um eðli viðræðnanna við ESB eru það embættismennirnir í Brussel. Þeir hika heldur ekki við að leiðrétta það sem íslenskir ráðherrar segja á blaðamannafundum með þeim.
Á mánudaginn minnti Olli Rehn á það á blaðamannafundi með Árna Páli Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, að enginn gæti stytt sér leið inn í evru-landið, öllum skilyrðum yrði að að verða fullnægt áður en til inngöngu kæmi. 27. júlí minnti Stefan Füle, stækkunarstjóri ESB, Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, á að engar varanlegar undanþágur yrðu veittar frá sjávarúrvegsstefnu ESB.

Þriðjudagur 08. 02. 11. - 8.2.2011

Á sínum tíma þótti ekki beint diplómatískt af George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, að hvetja til þess að lýðræðisþróun yrði í arabaríkjum. Líklega hefur verið fussað og sveiað vegna þessa í forseta- og furstahöllum. Nú er annað uppi á teningnum. Allar fréttastöðvar heims eru með beinar útsendingar frá Egyptalandi þar sem þess er beðið að hinn almenni borgari hreki Hosni Mubarak úr embætti sínu eins og Ben Ali var sendur í útlegð frá Túnis. Vonandi fær lýðræði að spretta í þessum löndum eftir fall einræðisherranna.

Í Jemen hefur komið til mótmæla. Jórdaníukonungur skipti um ríkisstjórn. Einræðisherrann í Sýrlandi talaði um farsótt eða vofu sem færi um arabaheiminn og yrði að kveða niður.

Fréttir frá Íran um að ríkið sé hætt að greiða niður eldsneyti á bíla og matvörur hafi snarhækkað í verði benda til þess að þar eigi almenn óvild í garð stjórnvalda eftir að aukast.

Á Vesturlöndum eru menn teknir að velta fyrir sér tengslum ráðamanna við einræðisherra arabaríkjanna. Utanríkisráðherra Frakka berst fyrir embætti sínu vegna þess að hún flaug tvisvar með einkaþotu vinar Ben Ali ættarinnar á meðan hún var í fríi í Túnis eftir að mótmælin hófust. Forsætisráðherra Frakka er gagnrýndur fyrir að hafa notið gistivináttu Mubaraks í Egyptalandi um síðustu áramót.

Hvað um þá þjóðkjörnu fulltrúa sem hafa stofnað til vináttu við einræðisherra annars staðar meðal araba, til dæmis við Persaflóa? Hvenær taka alþjóðlegir fjölmiðlar til við að rýna í slík tengsl?
Mánudagur 07. 02. 11. - 7.2.2011

Því meira sem ég les af skýringum um Icesave III þeim mun sannfærðari verð ég um hve misráðið er að láta ekki reyna á málið fyrir dómstólum. Auðheyrt var á Lee Bucheit, aðalsamningamanni Íslands í lokasamningalotunni, að hann var hlyntur því að láta dómara fjalla um málið. Umboð hans í nafni Steingríms J. Sigfússonar var hins vegar að semja.

Í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis eru kynnt sterk lögfræðileg rök gegn skyldu Íslendinga til að verða við kröfum Breta og Hollendinga.

Margir erlendir lögfræðingar hafa bent á haldleysið í áliti ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, sem síðan var stuðst við af leiðtogaráði ESB og framkvæmdastjórn ESB sumarið 2010. Þessir lögfræðingar segja afdráttarlaust að löglaust sé að gera þær kröfur á hendur Íslendingum sem Bretar og Hollendingar hafa gert. Þá benda þeir á að fráleitt sé að stjórnmálamenn taki pólitískt af skarið um jafnmikilvægt lögfræðilegt álitaefni.

Furðulegt er að íslensk stjórnvöld skuli ekki hafa brugðist við áliti ESA og lagt fyrir stofnunina lögfræðileg sjónarmið sín samhliða því að krefjast þess að forstjóri ESA víki sæti í málinu vegna vanhæfis eftir ummæli hans hér á landi í 50 ára afmæli EFTA sumarið 2010. Skyldi það vera rétt sem heyrst hefur að samningamenn Breta og Hollendinga hafi lagt hart að Íslendingum að senda ESA ekki lögfræðileg sjónarmið sín?

Íslensk stjórnvöld og þeir stjórnmálamenn sem styðja Icesave III hafa ekki gefið  nein haldbær rök fyrir því að lögfræðilegri hlið málsins hafi verið stungið undir stól. Helsta stoð smáríkja í deilum við sér stærri ríki er að verja rétt sinn fyrir dómstólum. Halda menn að það sé tilviljun að Bretar og Hollendingar hafa aldrei hótað Íslendingum málssókn? Eru það ekki hin eðlilegu viðbrögð lánardrottna gegn þeim sem þeir telja skuldunauta sína?


Sunnudagur 06. 02. 11. - 6.2.2011

Töluvert er síðan ég hef verið í Fljótshlíðinni í jafnmiklum snjó og í dag. Hvort hann endist eitthvað kemur í ljós en vafalaust er gott fyrir jörðina að fá þessa hvítu þekju á sig. Snjórinn kann að binda öskuna enn frekar en hún hefur rokið upp vegna þurrka fyrr í vetur, sem ollu því að um tíma var ástæða til að óttast sinubruna.

Allt er þetta þó smáræði eitt miðað við náttúruhörmungar í Ástralíu ef marka má fréttir: flóð, hvirfilbyljir og skógareldar.
Laugardagur 05. 02. 11. - 5.2.2011

Í dag efndi Bjarni Benediktsson til fundar í Valhöll og skýrði afstöðu sína til stuðnings Icesave-samningunum. 500 manns sóttu fundinn að sögn fjölmiðla. Friðrik Sophusson stjórnaði fundinum. Að honum loknum lýstu Geir H. Haarde og Þorsteinn Pálsson stuðningi við Bjarna. Í fréttum var sagt að flestir fyrirspyrjendur hefðu nálgast málið frá sjónarhóli efasemdarmanna.

Ég er undrandi á því að Bjarni taki ekki undir það sjónarmið að hin nýju Icesave-lög verði borin undir þjóðina. Rökin fyrir því eiga ekkert skylt við það hvort fleiri eða færri þingmenn samþykkja lögin. Meginrökin eru þau að málið er í höndum þingsins af því að þjóðin vísaði því þangað í atkvæðagreiðslu. Þingið á að fela þjóðinni að eiga síðasta orðið í málinu nema þingmenn vilji skilja það eftir sem opið sár.

Föstudagur 04. 02. 11. - 4.2.2011

Á dögunum vakti ég máls á því hér á síðunni að ummæli Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, um stjórnlagaþingskosningarnar ógildu og hæstarétt hefðu minnt mig á að hann sagði í þættinum Sjálfstæðu fólki að sem stjórnmálamaður væri hann fyrst sósíalisti og síðan anarkisti.

Ögmundur bregst illa við þessari upprifjun minni á orðum hans og segir meðal annars á vefsíðu sinni í tilefni af henni:

„Skyldi það vera almennt viðhorf í íslensku þjóðfélagi að varasamt sé að hafa í mannréttindaráðuneyti - og þess vegna dómsmálaráðuneyti -  ráðherra sem er efins um valdstjórn og vill samfélag sem ekki byggir á yfirgangi og undirokun? Eða skyldi vera eftirspurn eftir þeim viðhorfum sem fram koma hér í skrifum  Björns Bjarnasonar?:

Sjálfum finnst mér þau vera ofstækisfull  - vart sæmandi virðulegum lífeyrisþega, Birni Bjarnasyni.“

Í niðurlagsorðunum gætir í besta falli einhverrar hótfyndni í garð þeirra sem hafa öðlast lögbundinn rétt til lífeyris ef ekki tilraunar til ritskoðunar.  Í tíð minni sem ráðherra var stundum fundið að skrifum mínum og sagt að þau hæfðu ekki embættinu, nú hæfa þau ekki aldri mínum. Það er vandlifað fyrir þeim sem telja sig í færum um að setja öðrum siða- og ritreglur.

Skáletruðu orðin í tilvitnuninni í Ögmund lýsa skilningi hans á anarkisma, stjórnleysi. Skýring hans er óvenjuleg og frumleg eins og við var að búast.

Skýringin í Merriam Webster-orðabókinni á orðinu Anarchist er þessi:

  1. : a person who rebels against any authority, established order, or ruling power    (maður sem rís gegn öllu valdi, ríkjandi skipulagi eða ríkjandi valdi)

  2. : a person who believes in, advocates, or promotes anarchism or anarchy; especially : one who uses violent means to overthrow the established order (maður sem trúir á, boðar eða ýtir undir stjórnleysisstefnu eða stjórnleysi;    einkum: sá sem notar ofbeldisaðferðir til að kollvarpa ríkjandi skipulagi).

Undrar nokkurn  að innaríkisráðherra Íslands vilji skýra hugtakið anarkisti upp á nýtt þegar til þess er vitnað að hann segist aðhyllast þá stefnu í stjórnmálum næst á eftir sósíalismanum?

Fimmtudagur 03. 02. 11. - 3.2.2011

Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, sagðist í kvöld  við ABC News hafa fengið nóg af því að sitja í embætti sínu, hann gæti þó ekki hætt, því að þá lenti stjórn landsins í höndum Bræðralags múslíma og það mætti ekki gerast í Egyptalandi. Varaforseti Egyptalands sagði í sjónvarpssamtali fyrr í dag að hann hefði boðið fulltrúum frá bræðalaginu til viðræðna um stjórn landsins en þeir hefðu hikað.

Augljóst er að Mubarak situr eins lengi og hann, stuðningsmenn hans og herinn telja það nauðsynlegt til að völdin færist í hendur einhvers sem heldur borgaralegri stjórn í landinu eða í hendur hersins frekar en Bræðralags múslíma. Mubarak er hershöfðingi sem  hefur setið  að völdum í 30 ár.

Alþingi samþykkti Icesave-frumvarpið eftir aðra umræðu í dag, þorri þingmanna Sjálfstæðisflokksins greiddi atkvæði með ríkisstjórninni, fjórir sátu hjá og einn á móti. Ég skrifaði um málið á Evrópuvaktina og mælti með því að lögin yrðu lögð undir þjóðina til endanlegrar afgreiðslu. Mér finnst rökin fyrir því augljós. Þjóðin hafnaði Icesave-samningunum 6. mars 2010 á eftirmannalegan hátt. Þingið tók málið þá aftur í sínar hendur. Þingmenn eiga að sjálfsögðu að gefa þjóðinni tækifæri til að segja álit sitt á málinu að nýju.

Ákvörðun um að vísa málinu til lokaafgreiðslu hjá þjóðinni skapar ekkert fordæmi, af því að meðferð þessa máls er fordæmalaust í stjórnlagasögunni. Eftir að Ólafur Ragnar stöðvaði fjölmiðlalögin flutti ríkisstjórn Davíðs Oddssonar breytingu á fjölmiðlalögunum. Framsóknarmenn óttuðust að Ólafur Ragnar mundi hafna þeim líka og sendu Guðna Ágústsson, varaformann sinn, til Bessastaða 19. júlí 2004 til leynilegra viðræðna við Ólaf Ragnar. Við svo búið var fjölmiðlalögunum enn breytt og loks samþykkt í þeirri mynd að þau snerust aðeins um útvarpsréttarnefnd.

Þegar Lee Bucheit, formaður samninganefndar Íslands, kynnti niðurstöðuna samningaviðræðnanna mátti skilja á máli hans að hann hefði kosið að málið færi fyrir þriðja aðila til að ákvarða lögmætið í málinu. Ég er þeirrar skoðunar að á það hefði átt að reyna. Vissulega ber að virða rétt þingmanna til að taka sínar ákvarðanir í málinu. Úr því að þeir vilja ekki beina því til hlutlauss dómara eiga þeir að sjá sóma sinn í því að leggja það undir þjóðina, umbjóðendur sína.

Miðvikudagur 02. 02. 11. - 2.2.2011

Ótrúlegt er að sjá ruglið og ósannindin sem velta upp úr nafnleysingjum á netinu eftir að ég sagði að í sporum Ögmundar Jónassonar sem dómsmálaráðherra hefði ég tekið pokann minn ef hæstiréttur hefði ógilt kosningar á minni ráðherravakt. Fremstur meðal jafningja í ruglinu er Egill Helgason, höfuðbloggari Eyjunnar, og tvöfaldur þáttastjórnandi á RÚV. Hann kveikti umræðuþráð fyrir hjörðina sem honum fylgir og ræðst á fólk í skjóli nafnleyndar með lygi og rógi.

Ögmundur Jónasson á í vök að verjast í þessu máli. Hann hefur farið offari í gagnrýni sinni á hæstarétt eftir að niðurstaða réttarins birtist. Ögmundur segir í öðru orðinu að niðurstöðu réttarins beri að virða en hinu að sé einhver ábyrgur fyrir því að kosningarnar séu ógildar sé það hæstréttur ekki síður en hann sjálfur.

Þegar Ögmundur var í þættinum Sjálfstæðu fólki á Stöð 2 á dögunum sagðist hann í fyrsta lagi líta á sig sem sósíalista og öðru lagi sem anarkista, það er stjórnleysingja. Athafnir hans eftir ógildingu stjórnlagaþingskosninganna benda til að anarkimsinn sé að ná yfirhöndinni í stjórnmálastarfi innanríkisráðherrans.

Ögmundur hefur birt svar við mati okkar þriggja fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem hnígur í þá átt, að honum beri að segja af sér vegna kosningaklúðursins. Hann svarar að sjálfsögðu ekki málefnalega heldur með skætingi. Meðal annars þeim að ég hafi á sínum tíma sagt, þegar kærunefnd jafnréttismála gaf út álit með ávirðingum á mig vegna þess að ég skipaði ekki Hjördísi Hákonardóttur hæstaréttardómara, að teldi nefndin sig knúna lögum samkvæmt að gefa út slíkt álit væri það vegna laga, sem væru barn síns tíma. Séu þau orð mín skoðuð í ljósi þess sem Ögmundur segir nú um hæstarétt var um barnaleik að ræða af minni hálfu. Jafnréttislögin hafa verið tekin til endurskoðunar og enginn man lengur eftir kærunefnd jafnréttismála. Við Hjördís komumst að samkomulagi og síðar var hún skipuð í hæstarétt. Að Ögmundur hlaupi í þetta skjól til að skjóta sér undan ábyrgð á ógildum kosningum sýnir aðeins hve vondan málstað hann hefur að verja.

Hér skal ítrekað, að Ögmundur hefði mestan sóma af því að segja af sér. Hann ber pólitíska ábyrgð á því að hæstiréttur gat ekki annað en ógilt kosningar sem til hans voru kærðar.

Þriðjudagur 01. 02. 11. - 1.2.2011

Augljóst er að Hosni Mubarak hefur runnið sitt skeið. Hann hefur gert ráðstafanir til þess að herinn og öryggislögreglan leiði þjóðina undir stjórn nýs leiðtoga. Konungur Jórdaníu hefur skipt um ríkisstjórn til að friða þjóð sína. Forseti Sýrlands, einræðisherra, segir „pólitískan sjúkdóm“ breiðast um nágrannaríkin.  Nú er spurningin hvaða einræðisherra verður fyrir barðinu á honum næst.

Anna Runólfsdóttir í Fljótsdal sendi mér tvær myndir í dag frá þeim sögulega atburði sunnudaginn 30. janúar þegar ég Fjalla-5endurheimti fjallakindina mína.  Hún er hér við hliðina. Eins og sjá má er hún bærilega á sig komin eftir að hafa verið tæp fjögur ár á fjöllum og aðeins undir manna höndum í nokkrar vikur síðasta sumar á flótta undan öskunni.
Hér eru við Anna Runólfsdóttir með hina frægu kind sem fjöldi manna reyndi Fjalla-4árangurslaust að fanga.Í dag skrifaði ég pistil í tilefni af tveggja ára afmæli ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Þetta er pólitísk hrakfallasaga sem er tímabært að ljúki.