Dagbók: febrúar 2009

Laugardagur, 28. 02. 09. - 28.2.2009 21:15

Í dag hefur verið qi gong dagur í yndislega fallegu veðri í Skálholti. Æfingar og hugleiðsla frá morgni til kvölds auk gönguferðar og tíðasöngs.

Föstudagur, 27. 02. 09. - 27.2.2009 10:00

Í Fréttablaðinu er efst við hlið leiðarans einskonar húskarlahorn, þar sem blaðamenn geta skrifað eins og þeir telja, að sé þóknalegt Baugsmönnum, eigendum blaðsins. Á þessum stað taka húskarlarnir einnig upp hanskann hver fyrir annan. Þetta gerist í dag, þegar bergsteinn@frettabladid.is tekur upp hanskann fyrir Sigurjón M. Egilsson, starfsmann á hjáleigu Baugs, en að Sigurjóni M. var vikið hér á síðunni í gær vegna rangfærslna hans um efnahagsbrotadeild.

Bergsteinn þykist ná vopnum fyrir félaga sinn Sigurjón M. með því að segja mig svara Sigurjóni M. en láta Davíð Oddssyni ósvarað, en Davíð minntist á starfsmannafjölda efnahagsbrotadeildar í Kastljósi sl. þriðjudag. Davíð sagði:

„Og ég sagði reyndar líka á þessum sama ríkisstjórnarfundi [30. september 2008], ég segi þetta vegna þess að aðrir hafa lekið útaf fundinum - ég sagði líka á þessum ríkisstjórnarfundi að ég hefði heyrt að minn ágæti vinur dómsmálaráðherrann hefði ætlað að fækka í efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra um helming, í þeirri deild þyrfti nú að þrefalda eða fjórfalda. Þessu var reyndar ekki lekið út úr ríkisstjórninni.“

Lesendum síðunnar er auðvelt að bera þessi orð saman við það, sem verðlauna-blaðamaðurinn Sigurjón M. Egilsson skrifaði. Davíð segist hafa heyrt, að eitthvað hafi staðið til, sem síðan varð ekki, enda aldrei á döfinni hjá mér. Sigurjón M. fullyrti hins vegar, að ég hefði veikt efnahagsbrotadeildina „eftir hrunið.“

Hér er útlegging Bergsteins á þessu (leturbreyting mín):

Lesa meira

Fimmtudagur, 26. 02. 09. - 26.2.2009 11:28

Sigurjón M. Egilsson hefur verið óþreytandi í að afflytja störf mín sem dóms- og kirkjumálaráðherra og heldur því áfram, þótt ég sé farinn úr því embætti. Hann segir á vefsíðu sinni:

„Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, greip til þess ráðs eftir hrunið að veikja efnahagsbrotadeildina. Það er svo mikið í takt við allt hér. Efnahagsbrotadeildin er skorin niður, ráðandi sérstakur saksóknari sem enn hlustar á eigið bergmál í tómum kontórnum. Hugsanlegir afbrotamenn geta verið rólegir. Sýndarveruleikinn sem var settur upp nær ekki til þeirra, ekki að óbreyttu.“

Þessi fullyrðing verðlauna-blaðamannsins á ekki við nein rök að styðjast, hvorki fullyrðingin um, að ég hafi veikt efnahagsbrotadeild sl. haust, né, að sérstakur saksóknari sitji auðum höndum. Hinn 23. desember 2008 birti embætti ríkislögreglusjóra opinbera tilkynningu um góða málastöðu hjá efnahagsbrotadeild embættisins. Hinn sérstaki saksóknari hefur á þeim mánuði, sem liðinn er, frá því að embættinu var komið á laggirnar, ráðið til sín mjög hæft starfsfólk og búið í haginn fyrir störf sín.

Mig undrar, að fjármálaeftirlitið skuli ekki hafa beint málum til hins sérstaka saksóknara. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður en líklega helst sú, að rof varð í yfirstjórn eftirlitsins við brottrekstur og afsögn stjórnar þess sunnudaginn 25. janúar. Hins vegar kann fjármálaeftirlitið enn haldið þeirri leyndarhyggju, sem einkennt hefur starf þess, jafnvel um atvik, sem ekki hafa nein áhrif á viðskiptalíf líðandi stundar en nauðsynlegt er að upplýsa og leiða til lykta fyrir opnum tjöldum.

Rógur á borð við þann, sem Sigurjón M. Egilsson telur sér sæma að bera á borð í umræðum um hinn sérstaka saksóknara, er ekki annað en endurómur af málsvörn Baugsmanna í réttarhöldum yfir þeim hin síðari ár. Sigurjón er greinilega einn þeirra fjölmiðlamanna, sem enn telur sig hafa hag af því að ganga erinda þeirra manna, sem vilja gera sem minnst úr opinberum rannsóknaraðilum, hvort sem um er að ræða efnahagsbrotadeild, skattrannsóknastjóra eða nú sérstakan saksóknara.

Lesa meira

Miðvikudagur, 25. 02. 09. - 25.2.2009 21:43

Eins og lesendur síðu minnar sjá hefur útlit hennar breyst frá og með deginum í dag. Ég fór þess á leit við þá Hugsmiðjumenn, að þeir myndu hressa upp á síðuna í tilefni af 14 ára afmæli hennar, sem er um þessar mundir. Fyrstu skref þeirrar hönnunar eru kynnt í dag. Ég mun væntanlega læra næstu daga, hvað fleira en þetta nýja yfirbragð er í boði innan hins nýja ramma .

Í dag var skýrt frá eigendaskiptum á Árvakri hf., útgáfufélaginu, sem stendur að baki Morgunblaðinu. Þórsmörk, hópur fjárfesta undir forystu Óskars Magnússonar, hrl., hefur keypt félagið með samkomulagi við Íslandsbanka (áður Glitni). Á mbl.is má lesa:

„Auk Óskars eru Gísli Baldur Garðarsson, Guðbjörg Matthíasdóttir, Gunnar B. Dungal, Pétur H. Pálsson, Þorgeir Baldursson og Þorsteinn Már Baldvinsson aðilar að Þórsmörk. Til að dreifa eignaraðildinni enn frekar er ráðgert að fleiri hluthafar komi til liðs við félagið á síðari stigum.

Við kaupin færist hlutafé fyrri eigenda niður í núll. Áskilnaður er um að samningar takist við aðra lánardrottna Árvakurs en Íslandsbanka á næstu vikum. Gert er ráð fyrir að þegar niðurstaða fæst verði boðað til hluthafafundar.

Þrjú skuldbindandi tilboð bárust í Árvakur í síðustu viku og tók Íslandsbanki tvö þeirra til nánari skoðunar, tilboð ástralska fjárfestisins Steve Cossers og viðskiptafélaga hans, annars vegar, og tilboð frá Þórsmörk.“

Það er fagnaðarefni, að öflugir fjárfestar koma að Árvakri og tryggja framhald á útgáfu Morgunblaðsins.

Þriðjudagur, 24. 02. 09. - 24.2.2009 22:19

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, sat fyrir svörum hjá Sigmari Guðmundssyni í Kastljósi í kvöld. Hafi þetta átt að vera einvígi, lá Sigmar í valnum. Bloggkenndar spurningar Sigmars ristu of grunnt.

Davíð greindi þó frá svo mörgu, sem snerti aðdraganda og afleiðingar bankahrunsins, að þyrfti marga þætti í sjónvarpi til að rekja þá þræði alla til enda. Davíð sagði einnig réttilega, að ekki væri unnt að fella dóma yfir sér, seðlabankanum né nokkrum öðrum, fyrr en niðurstöður rannsókna lægju fyrir.

Hann minntist þess, að á ríkisstjórnarfundi 30. september 2008 hefði hann látið þess getið, að frekar ætti að þrefalda starfsmannafjölda í efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra en fækka í henni.

Nokkrum dögum eftir bankahrunið lagði ég til, að stofnað yrði embætti sérstaks saksóknara til að rannsaka efnahagsbrot í tengslum við það. Ráðherrar Samfylkingarinnar töfðu framlagningu frumvarps míns um þetta embætti.

Aðför Samfylkingarinnar gegn Davíð Oddssyni er í anda kosningabaráttu flokksins fyrir kosningar 2003, þegar Samfylkingin átti samleið með Baugsveldinu eins og síðar sannaðist rækilega í fjömiðlamálinu vorið og sumarið 2004. Þá tóku Samfylking, vinstri-græn og Ólafur Ragnar Grímsson höndum saman til að verja fjölmiðlaveldi Baugs með aðför að þingræðinu. Hið sama gerðist með myndun minnihlutastjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. 

Minnihlutastjórnin hafði ekki fyrr verið mynduð til bráðabirgða en Jóhanna hótaði bankastjórum seðlabankans brottrekstri með góðu eða illu.

 

 

Mánudagur, 23. 02. 09. - 23.2.2009 18:35

Ég fylgdist með þingstörfum úr fjarlægð í dag, enda varla ástæða til annars, þar sem ríkisstjórn valdi þann kost að fella niður fundi á þinginu vegna ágreinings milli stjórnarflokkanna og Framsóknarflokksins um afgreiðslu á seðlabankafrumvarpinu úr viðskiptanefnd alþingis.

Spennandi verður að vita, hvort þeir, sem vikum saman hafa fundið að því, að sjálfstæðismenn ræddu í 14 mínútur um kjör forseta alþingis á dögunum, hefji nú gagnrýni á ríkisstjórnina fyrir að fella niður fund á þingi í stað þess að ræða önnur mál en seðlabankann. Mér heyrðist Heiðar Örn Sigurfinnsson, þingfréttaritari hljóðvarps ríkisins, ekki vera á þeim buxunum í Speglinum núna rétt í þessu, þegar hann gaf til kynna, að sjálfstæðismenn hefðu ekki efni á því að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir athafnaleysi á þingi.

Þá gerðu fréttamenn RÚV því skóna, að afstaða Höskulds Þórhallssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, í viðskiptanefnd bæri þess merki, að hann væri að fara í prófkjör við Birki Jón Jónsson, hinn þingmann Framsóknarflokksins í viðskiptanefnd. Þeir töluðu eins og þetta gæti verið satt, þótt Heiðar Örn segði síðan, að svo gæti ekki verið!

Friðrik Þór Guðmundsson gegndi um nokkurt hlutverki rannsakanda fyrir Kastljós. Hann sagði á bloggi sínu í dag:

„Stórmerkilegt að Sjálfstæðisflokkurinn og Höskuldur Þórhallsson vilja ekki að Seðlabankafrumvarpið verði afgreitt úr viðskiptanefnd þingsins fyrr en tillögur nefndar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um regluverk á fjármálamörkuðum verða birtar.

Aðdáun þessara manna á Evrópusambandinu er viðbrugðið. Til fjandans með fullveldi Íslands - bíðum og sjáum hvað ESB gerir og vill! Skoðum "regluverkið".

Öðruvísi mér áður brá! Einu sinni vildu Sjallar og Frammarar ekki heyra minnst á "regluverk" ESB án þess að verða ýmist náfölir af ógeði eða rauðglóandi af bræði í framan...“

Friðrik Þór hefur sem betur fer látið af ráðgjafahlutverkinu á RÚV. Hann hefði ekki gert umræður þar um Höskuld málefnalegri. Er ekki mesta einstaka tjónið af bankahruninu hér, vegna þess að evrópska regluverkið var ekki nógu gott? Veit Friðrik Þór ekki, að við erum í evrópska efnahagssvæðinu, þar sem evrópska regluverkið gildir?

Sunnudagur, 22. 02. 09. - 22.2.2009 18:27

Morgunblaðið birtir í dag viðtal við Heimi Hannesson um hlut hans og vina hans innan ATA, Atlantic Treaty Association, að lausn landhelgisdeilnanna vegna 50 mílnanna og 200 mílnanna á áttunda áratugnum. Við Heimir sátum saman í stjórn Samtaka um vestræna samvinnu (SVS) á þessum árum en SVS á aðild að ATA. Ég man eftir frásögnum Heimis af þessum afskiptum hans. Á hinn bóginn dreg ég í efa, að þau hafi skipt sköpum um lausn deilnanna, þótt þau hafi vafalaust skipt einhverju máli um framvinduna.

Í fréttum hljóðvarps ríkisins var rætt um þá skoðun Eiríks Tómassonar, lagaprófessors, að hér væri óvenjulegt ráðherraræði og embættismenn óttuðust ráðherra fyrir utan veika stöðu alþingis. Þetta stafaði af því, að stjórnarskráin væri úrelt. Þá hefðu Danir breytt eigin stjónarskrá sem væri samstofna okkar.

Þetta er skrýtin rulla. Danir hafa ekki breytt stjórnarskrá sinni síðan 1953, ef ég veit rétt. Danska stjórnkerfið er að ýmsu leyti meira sniðið að einstökum ráðherrum og pólitískum duttlungum við stjórnarmyndun en stjórnarráð Íslands.

Ég skrifaði í dag pistil hér á síðuna um ferð mína út á hliðarlínu stjórnmálanna.

Laugardagur, 21. 02. 09. - 21.2.2009 21:24

Ég skil ekki, hvernig sérfræðingur Morgunblaðsins í annarri tónlist en klassískri gat tekið nærri sér og fengið reiðikast yfir því, að Þorgerður Ingólfsdóttir notaði orðið „síbylja“ í snjallri ræðu sinni við afhendingu tónlistarverðlaunanna á miðvikudagskvöld. Ég hafði ekki áttað mig á því, að slík ofurviðkvæmni (eða kannski minnimáttarkennd?)væri fyrir hendi meðal þeirra, sem hafa áhuga á eða helga sig tónlist.

Sama kvöld og tónlistarverðlaunin voru afhent setti Eiður Guðnason á vefsíðu sína: „Við afhendingu tónlistarverðlauna hrutu ýmsir  molar, ekki allir gullslegnir. Þar var til  dæmis  talað um  söluárangur! Þar bar ræða  Þorgerðar Ingólfsdóttur af sem  gull af eiri, er hún tók við verðskulduðum  heiðursverðlaunum föður síns.“

Dr. Gunni segir í Fréttablaðinu 21. febrúar:

„Þorgerður Ingólfsdóttir, dóttir heiðursverðlaunahafans Ingólfs Guðbrandssonar, talaði um síbylju og Arnar Eggert fékk hland fyrir hjartað í Mogganum í gær. Snerist poppinu til varnar. Samt held ég að Þorgerður hafi ekki verið að tala um hina gamaldags skiptingu á „æðri“ og „óæðri“ listum, heldur þá óæskilegu (að hennar mati) þróun að í nútímanum sé sífelldur hávaði. Hún lýsti fyrstu kynnum pabba síns af tónlist, eitthvað sem væri óhugsandi í dag, nema foreldrarnir flyttu í afdal og tækju engin viðtæki með.

Hinn fúli póstmódernismi segir að allt sé jafn rétthátt. Pú á það. Ef enn er til fólk sem telur sig þekkja muninn á æðri og óæðri tónlist á það ekki að vera feimið við að tjá sig. Ég myndi hlusta á vikulegan þátt þar sem „menntasnobbarar“ hraunuðu yfir „síbylju“ og „garg“ og dásömuðu alvöru list. Í alvöru. Karlarnir sem rispuðu yfir „óæskileg“ lög á vinýlplötum RÚV í gamla daga ættu aftur að komast á launaskrá ríkisins. Vera með innslög í Popplandi þar sem Óli Palli myndi reyna að bjarga óæskilegum lögum frá hnífum þeirra sem hafa alvöru smekk og vita betur. „Tónlistardómstóllinn“ gæti innslagið heitið. Erfitt er að rispa yfir lög á cd og því mætti bara ganga á fordæmda diska með dúkahníf eða logsuðutæki. Topp skemmtiefni. Mun skemmtilegra en hið meinta umburðarlyndi.“

 

Föstudagur, 20. 02. 09. - 20.2.2009 17:34

Önnur umræða um frumvarpið til breytinga á seðlabankalögunum var á þingi í dag, frumvarpið hefur batnað í meðförum þingnefndar, enda var annað óhjákvæmilegt á slíkri hrákasmíði. Við sjálfstæðismenn greiddum atkvæði með breytingartillögunum en viljum fá frumvarpið til umræðu í þingnefnd á milli umræðna í von um, að enn megi draga úr ágöllum á frumvarpinu. Þriðja umræða er boðuð næstkomandi mánudag.

Ragnheiður Ólafsdóttir situr á þingi þessa daga sem varamaður Guðjóns Arnars Kristjánssonar, fomanns Frjálslynda flokksins, sem ferðast um landið í von um að geta styrkt innviði flokks síns. Ragnheiður virðist líta á það sem sérstakt hlutverk sitt á þingi að siða okkur þingmenn og setja okkur lífs- og vinnureglur henni að skapi og segist hún tala fyrir munn „fólksins í landinu“ með umvöndunum sínum.

Svona syrpur eru teknar á þingi af og til, enda töluverð viðbrigði fyrir fólk að koma á þennan vinnustað eins og alla aðra í fyrsta sinn. Það átti sér hins vegar enga stoð hjá Ragnheiði í dag, þegar hún sakaði sjálfstæðismenn um að vera með málþóf vegna seðlabankafrumvarpsins. Þar skaut hún illilega yfir markið.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru 26, eftir að Jón Magnússon yfirgaf frjálslynda. Þótt þeir þingmenn, sem sitja í viðskiptanefnd auk fáeinna annarra, láti í ljós skoðun sína á jafnstóru máli og breytingu á lögum um seðlabanka og tali fæstir í þær 20 mínútur, sem þeir hafa til umráða, er ekki unnt að kenna það við málþóf.

Sjálfstæðismenn hafa að vísu meiri burði en aðrir til þess að beita málþófi á þingi til að stöðva óhæfuverk. Því kann vissulega að verða beitt fyrir lok þessa þings, ef nauðsyn krefst. Svo virðist sem ríkisstjórnin ætli að gera tilraun til að knýja fram stjórnlagabreytingar, án þess að stofna til þess samráðs allra flokka, sem hefðbundið er vegna slíkra mála.

Fimmtudagur, 19. 02. 09. - 19.2.2009 10:43

Fréttablaðið birtir í dag hluta af svari mínu vegna umræðu í utanríkismálanefnd alþingis um framgöngu Ólafs Ragnars Grímssonar. Hér birti ég svar mitt til blaðsins í heild, en ég sat ekki fund nefndarinnar:

„Þetta mál er einstaklega vandræðalegt fyrir Ólaf Ragnar Grímsson og hvorki embætti hans né orðspori Íslands til framdráttar. Ég tel, að það sé hlutverk utanríkisráðuneytisins að koma í veg fyrir atvik af þessu tagi með því að stjórna heimsóknum erlendra fjölmiðlamanna á Bessastaði og eiga fulltrúa á staðnum, þegar rætt er við forsetann. Það er mun virkari aðferð til að koma í veg fyrir slík atvik heldur en eltast við erfiðar afleiðingar þeirra með leiðréttingum eða ávirðingum í garð einstakra blaðamanna.

Ég sé í fréttum, að Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í utanríkismálanefnd, hefur mælst til þess, að forsetaskrifstofan geri nefndinni grein fyrir afstöðu sinni til frásagna af hádegisverðarfundi forseta Íslands með erlendum sendiherrum hér á landi. Eiður Guðnason, fyrrverandi sendiherra og ráðherra, hefur í nýlegri blaðagrein fullyrt, að Ólafur Ragnar Grímsson hafi sagt rangt frá þeim fundi. Mér finnst þessi beiðni Ragnheiðar Elínar eðlileg í ljósi þess, að Árni Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, beindi því til forsetaskrifstofunnar, að hún gæfi álit sitt á skýrslu utanríkisráðuneytisins um fjaðrafokið í Þýskalandi vegna þess, sem haft var eftir Ólafi Ragnari þar.“

Var síðdegis í Valhöll á fundi með stjórn hverfafélagsins hér í Hlíðunum og ræddum við Evrópumál. Þá gafst okkur tækifæri til að skrifa undir meðmæli með frambjóðendum í pófkjöri, en þeir þurfa að hafa 20 nöfn á framboðsblaðinu, svo að það sé gilt. Framboðum á að skila núa fyrir helgina og þess vegna voru frambjóðendur að ná í eyðublöð í flokksskrifstofuna og gripu okkur fundarmenn glóðvolga.

Fram kom, að á fjölmennum, opinberum kaffistað hefðu í dag orðið heitar umræður, þegar gagnrýnt var, að sett hefði verið 2,5 m. kr. þak á útgjöld frambjóðenda í prófkjörinu - fólki hefði þótt þetta of há tala, nær væri að miða við eina milljón. Af eigin reynslu veit ég, að kostnaðartölur hækka fljótt, þegar háð er hörð prófkjörsbarátta.

 

Miðvikudagur, 18. 02. 09. - 18.2.2009 21:33

Sat í morgun fund stjórnar Snorrastofu í Reykholti með byggðaráði Borgarbyggðar, þar sem rædd voru framtíðaráform. Á tíu árum hefur Reykholtsstaður tekið stakkaskiptum. Nýja kirkjan, endurgerð hinnar gömlu, fornleifarannsóknir, blómlegt starf Snorrastofu og gott hótel og aðstaða til rannsókna og fundarhalda hefur gjörbreytt staðnum og kallað þangað fleira fólk til starfa og búsetu.

Ingólfur Guðbrandsson, tengdafaðir minn, fékk í kvöld heiðursverðlaun íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir ómetanlegt framlag sitt til íslensks tónlistarlífs og þakkaði Þorgerður, mágkona mín, heiðurinn með snjallri ræðu.

Kvikmyndin Ford/Nixon ætti að höfða til allra, sem hafa áhuga á stjórnmálum eða svonefndum drottingarviðtölum í sjónvarpi. Hún er vel gerð í alla staði, enda hefur hún verið tilnefnd til fimm Óskarsverðlauna. Hún snýst meðal annars um efni, sem er ofarlega í huga margra hér á landi um þessar mundir, hvernig stjórnmálamenn horfast í augu við eigin gerðir og axla ábyrgð.

Meðal þeirra, sem aðstoðuðu David Frost við að búa sig undir viðtöl hans við Richard Nixon, var James Reston yngri, sonur James Restons, hins heimsfræga dálkahöfundar í The New York Times. Reston yngri var einlægur óvildarmaður Nixons, eins og lýst er í myndinni. Hann hefur ritað margar bækur og þar á meðal eina um Evrópu árið 1000, þar sem Leifur Eiríksson, Ísland og Íslendingar koma auðvitað við sögu.

Orðaskipti þeirra Frosts og Nixons um virðingu fyrir lögunum voru í svipuðum dúr og orðaskipti þeirra Helga Seljans og Jóhönnu Sigurðardóttur í Kastljósi á dögunum, þegar hún talaði eins og tilgangur sinn helgaði meðalið og engu skipti, þótt dómari teldi aðferð hennar lögbrot - hún hefði víst átt að gera þetta eins og hún gerði.

 

Þriðjudagur, 17. 02. 09. - 17.2.2009 21:37

Klukkan 17.00 efndu Samtök um vestræna samvinnu og Varðberg til málstofu um auðlindir og hagsmunagæslu á norðurslóðum að hótel Sögu. Ég ræddi þar um Stoltenberg-skýrsluna og stöðu Íslands, Árni Þór Sigurðsson, alþingismaður v/g og formaður utanríkismálanefndar, talaði um norræna samvinnu - nýtt upphaf, Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, talaði um hafís, umhverfisbreytingar og fjarkönnun á norðurslóðum og Kristján Geirsson, deildarstjóri á sviði umhverfisgæða hjá umhverfisstofnun, sagði frá vákorti á N-Atlantshafi - samhæfðum viðbrögðum við bráðamengun sjávar. Stefán Einar Stefánsson, formaður Varðbergs, stýrði fundinum.

Að loknum erindum sátum við fyrir svörum fundarmanna, Var meðal annars spurt um hættuna af kjarnorkukafbátum vegna frétta um árekstur fransks og bresks kjarnorkukafbáts 4. febrúar, sem sagt var frá nýlega í breska blaðinu The Sun. Ég sagði þennan árekstur mikið áfall fyrir Frakka og Breta og sagt hefði verið, að líkur á að slíkt gerðist væru 1 á móti milljón. Umræður um þetta mál og afleiðingar þess væru rétt að byrja.

Á ruv.is í kvöld mátti lesa:

„Sendifulltrúar Breta og Frakka voru í dag kallaðir í utanríkisráðuneytið og krafðir skýringa á því að kjarnorkukafbátar þeirra lentu í árekstri suður af landinu og hvers vegna ekki hefði verið greint frá málinu. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir alvarlegt að ekki hafi verið greint frá óhappinu fyrr.“

Ég feitletra orð í þessum texta, því að ég sá ekki betur en sjónvarpið teldi áreksturinn hafa orðið í Biskajaflóa, það er á milli Frakklands og Spánar.

Halla Gunnarsdóttir, fyrrverandi þingfréttaritari Morgunblaðsins, er orðin aðstoðarmaður Ögmundar Jónassonar. Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, sjónvarpsfréttari mbl.is, birti „frétt“ í dag um, að hart hefði verið sótt að stjórnarandstöðu á þingi. Fréttin var svo skringilega úr garði gerð, að tæplega var unnt að átta sig á því, að árás samfylkingarfólks á sjálfstæðismenn á þingi snerist um, að þeir vildu ekki ganga í Evrópusambandið þegar í stað. Fréttapunkturinn var hins vegar ekki árásin á sjálfstæðismenn heldur hitt, að hún skyldi gerð af Samfylkingunni, sem nýlega hefur gengið til samstarfs við ESB-andstæðinga í flokki vinstri/grænna. Hvernig er fréttamatið?

Mánudagur, 16. 02. 09. - 16.2.2009 21:35

Helgi Seljan ræddi við Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í Kastljósi  kvöldsins um dóminn, sem féll yfir henni hinn 11. desember 2008 vegna brots hennar á stjórnsýslulögum. Jóhanna sagðist una dóminum og ekki ætla að áfrýja honum. Af orðum hennar mátti þó ráða, að hún taldi, að frekar hefði átt að dæma þann, sem hún rak á ólögmætan hátt, en hana, enda væri hann framsóknarmaður og hún hefði ekki þurft að una því, að hann gerði kröfur á hendur henni, honum hefði verið nær að hætta þegjandi frekar en gæta réttar síns. Þá taldi Jóhanna sér það til málsbóta, að hún hefði tvisvar vakið máls á því í ríkisstjórn, að maðurinn ætti að verða við óskum hennar.

Ég velti fyrir mér, hvernig Jóhanna hefði brugðist við í þingsalnum í stjórnarandstöðu, ef einhver ráðherra hefði talað á þann veg, sem hún gerði um héraðsdóminn. Miðað við kröfur hennar um ráðherraábyrgð hefði hún krafist þess, að ráðherra með þá afstöðu, sem hún sýndi sjálf í samtalinu við Helga Seljan, yrði tafarlaust látinn víkja úr embætti.

Þótt samráðherrar Jóhönnu hefðu ekki gert athugasemdir við, að hún skipti um formenn í stefnumótandi nefndum, þegar hún varð ráðherra, er með öllu ósiðlegt af henni að láta að því liggja, að við hefðum þar með lýst blessun á lögbroti hennar.

Þetta mál var rætt í þingsalnum í dag, þegar Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Jóhönnu, hvernig hún ætlaði að bregðast við dóminum. Jóhanna svaraði þar einnig með skammarræðu um framsóknarmanninn, sem dirfðist að hlýða henni ekki.

Geir H. Haarde benti í þinginu á, að Jóhanna hefði ekki skýrt rétt frá samskiptum forsætisráðuneytisins við alþjóðagaldeyrissjóðinn vegna seðlabankafrumvarpsins - sjóðurinn hefði sagt það undir ráðuneytinu komið, hvort það birti athugasemdir hans við frumvarpið. Vitnaði Geir í bréf til sín frá sjóðnum um það efni. Jóhanna hélt nú ekki, að hún hefði sagt ósatt. Sjóðurinn hefði bannað sér að segja frá áliti hans, fyrr en það væri formlegt.

Á liðnum árum hefur enginn þingmaður tekið meira upp í sig en Jóhanna Sigurðardóttir um ábyrgð ráðherra á lögmæti gerða sinna eða skyldur þeirra til að segja þingi rétt frá stjórnarmálefnum. Á einum degi hefur hún sem forsætisráðherra snúið við blaðinu. Hún gefur ekkert fyrir héraðsdóm og sprengir reykbombur til að villa um vegna athugasemda alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Sunnudagur, 15. 02. 09. - 15.2.2009 18:53

Larry King ræddi við nokkra leikara, sem hafa verið útnefndir til Óskarsverðlauna, í þætti sínum, sem sýndur var í dag. Penelope Cruz var í þeim hópi en hún leikur í mynd undir leikstjórn Woodys Allens, sem gerist í Barcelona. Penelope er ákaflega hrifin af því að hafa kynnst Allen og taldi það til sérstakra kosta hans, að hann tæki aldrei til máls, án þess að hafa eitthvað að segja.

Einar Mar Þórðarson, stjórnmálafræðingur, hafði það að segja við ljósvakamiðlana í dag, að Jón Baldvin Hannibalsson ætti ekkert erindi í formennsku hjá Samfylkingunni, þjóðin þyrfti endurnýjun á stjórnmálavettvangi en ekki endurvinnslu gamalla stjórnmálamanna. Þá gaf hann Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur það ráð, að taka sem fyrst af skarið, hvort hún gæfi kost á sér til endurkjörs.

Í pistli hér á síðunni í dag rökstyð ég, að ekki sé við því að búast, að ferlið við formannsskipti í Samfylkingunni verði opið. Reynslan sýni, að Ingibjörg Sólrún leitist við að koma samstarfsfólki á óvart með því að láta það standa frammi fyrir orðnum hlut, einmitt þess vegna líti margir innan Samfylkingarinnar á framtak Jóns Baldvins sem frumhlaup.

Sé kvarði Penelope Cruz notaður á ræðu Jóns Baldvins um formannsmál í Samfylkingunni, má spyrja, hvort hann hafi kvatt sér hljóðs, án þess að hafa nokkuð að segja, af því að enginn taki mark á orðum hans.

Mbl.is birti endursögn af pistli mínum í dag og er fróðlegt að sjá, hvernig lesendur bregðast við því, sem þar segir. Kristín Björg Þorsteinsdóttir, fræðslufulltrúi hjá Umferðarstofu, segir til dæmis:

„Hvað er BíBí að vilja upp á dekk. Held að hann ætti bara að setjast og lesa moggann sinn og láta lítið fyrir sér fara. Dáldið viðkvæmt fyrir hann að vera að tala um formennsku í flokki - ekki tókst honum á sínum tíma að vera kosinn foringi stuttbuxnadeildar Sjálfstæðisflokksins....“

Lesendum til skýringa, er Kristín Björg líklega að vísa til þess, þegar við Friðrik Sophusson tókumst á um formennsku í SUS árið 1973. Það lifir lengi í gömlum glæðum.


 

Laugardagur, 14. 02. 09. - 14.2.2009 19:33

Jón Baldvin Hannibalsson krafðist þess í dag, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hætti sem formaður Samfylkingarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir yrði kjörin í hennar stað, ef Jóhanna vildi ekki taka áskoruninni, sagðist Jón Baldvin ætla að bjóða sig fram til formanns. Jóhanna taldi af og frá, að hún byði sig fram, Ingibjörg Sólrún sagðist ekki hafa tekið ákvörðun um að hætta, Jón Baldvin er þar með kominn í formannsslag í Samfylkingunni - flokknum, sem varð til, eftir að Jón Baldvin hætti beinum afskiptum af stjórnmálum 1998.

Fyrr í vikunni ritaði ég grein í Morgunblaðið og rifjaði upp, að formennska Jóns Baldvins í Alþýðuflokknum styrkti ekki flokkinn, hann mældist með 5% fylgi, þegar hann skreið í skjól Samfylkingarinnar í kosningabandalagi árið 1999.

Ingibjörg Sólrún sagði, að hún hefði axlað ábyrgð með því að rjúfa stjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn, Jón Baldvin ætti að líta í eigin barm, hann hefði komið þessu öllu af stað með því að mynda ríkisstjórn með Davíð Oddssyni 1991!

Þessi skýring Ingibjargar Sólrúnar á stjórnarslitunum er hin þriðja. 1) Sjálfstæðisflokkurinn verður að breyta um Evrópustefnu. 2) Geir verður að hætta sem forsætisráðherra „verkstjóri“. 3) Samfylkingin axlar ábyrgð.

Föstudagur, 13. 02. 09. - 13.2.2009 20:36

Enn sannast, að ekki er sama að vera Jón og séra Jón hjá fjölmiðlum. Í desember var dæmt í máli gegn Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi félagsmálaráðherra, vegna uppsagnar hennar í bága við stjórnsýslulög, 21. grein. Var ráðherrann talinn hafa brotið stjórnsýslulögin.

Hefði þetta verið einhver annar ráðherra en Jóhanna, er víst, að fjölmiðlar hefðu, kannski að undarlagi Jóhönnu, gert dóminn að stórmáli - og Jóhanna hefði á þingi krafist afsagnar viðkomandi ráðherra, auk þess að endurflytja enn og aftur frumvarp sitt til breytinga á ráðherralögum, fyrir utan öll hin frumvörpin um endurbætur á stjórnsýslunni.

Aðeins einn íslenskur fjölmiðlill www.amx.is vakti máls á dóminum gegn Jóhönnu og hefur síðan fylgt honum eftir af vaxandi þunga. Er í raun með ólíkindum, að aðrir fjölmiðlar hafi ekki tekið málið til meðferðar. Þar er sérstök ástæða til að nefna Helga Seljan í Kastljósi sjónvarps ríkisins Á sínum tíma fór hann hamförum gegn Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra, af því að talið var, að hún hefði eitthvað um það að segja, að allsherjarnefnd alþingis samþykkti ríkisborgararétt tengdadóttur hennar. Nú hefur héraðsdómari kveðið upp dóm yfir Jóhönnu og Helgi þegir þunnu hljóði.

Þetta er þó aðeins önnur hlið málsins. Hin er sú, að Jóhanna hefur um árabil talið, að ráðherrar hafi sloppið allt of auðveldlega  undan ábyrgð, hún vill, að ábyrgðin verði skilgreind á skarpari hátt en nú er, auk þess sem hún krefst þess, að ráðherrar víki strax í stað þess að sitja, eftir að þeir hafa sætt ámæli kærunefnda eða umboðsmanns. Hvað hefði hún sagt, ef dómur hefði fallið, eins og yfir henni sjálfri?

Ég hef lengi haldið því fram, að íslenskir fjölmiðlamenn séu ekki starfi sínu vaxnir og fært fyrir því rök hverju sinni. Nú sannast þessi kenning mín enn. Fjölmiðlamenn fara einfaldlega í manngreinarálit og nú þarf frjálsa vefsíðu www.amx.is til að skjóta þeim ref fyrir rass, þegar trúverðugleiki sjálfs forsætisráðherra er í húfi.

Es. athygli mín hefur verið vakin á því, að 11. desember hafi verið birt frétt um dóminn á mbl.is

Innlent | mbl | 11.12 | 17:34

Var vikið ólöglega úr stjórnarnefnd

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt fyrrum formanni stjórnarnefndar um málefni fatlaðra 500 þúsund krónur í bætur en talið var að honum hefði verið vikið úr nefndinni með ólögmætum hætti. Meira

 

Fimmtudagur, 12. 02. 09. - 12.2.2009 20:50

Þingvallanefnd kom saman til fundar í dag og var það væntanlega síðasti fundur hennar á þessu kjörtímabili, sem lýkur hinn 25. apríl næstkomandi, verði þingkosningar þá.

Silja Bára Ómarsdóttir, sem kennir alþjóðastjórnmál við Háskóla Íslands, hefur lokið ritgerð um öryggismál Íslands, sem hún byggir á umræðum um tvö lagafrumvörp, það er að varnarmálalögum og almannavarnalögum. Hún lýsir undrun yfir því, að ekki sé gert ráð fyrir, að forstöðumaður varnarmálastofnunar eigi sæti í almannavarna- og öryggismálaráði. Ég er undandi á því miðað við undrun hennar, að hún skuli ekki hafa leitað skýringa á þessu. Ég hefði getað sagt henni, að utanríkisráðuneytið strikaði út tillögu mína um, að forstöðumaðurinn ætti sæti í ráðinu.

Þá lætur Silja Bára eins og almannavarnalög eigi að ná til atburða eins og bankahrunsins og viðskiptaráðherra eigi þess vegna að eiga fast sæti í almannavarna- og öryggismálaráði. Þetta er skrýtileg kenning, þegar til þess er litið, að fyrir bankahrunið bárust oft fréttir um, að innan bankakerfisins og með þátttöku fjármálaeftirlits og seðlabanka hefðu verið gerðar æfingar um álagsþol íslenska fjármálakerfisins. Þessar fréttir benda til þess, að innan þessa kerfis hafi verið sérhannað öryggiskerfi. Að Silja Bára skuli ekki lýsa því er til marks um undarlega brotalöm í ritgerð hennar.

Framsóknarmaðurinn og væntanlegi frambjóðandinn Hallur Magnússon virðist hafa efasemdir um, að Framsóknarflokkurinn hafi átt að flýta sér jafnmikið og hann gerði að samþykkja að verja ríkisstjórnina vantrausti - hún sé líklega ekki þess virði.

Framsóknarmaðurinn og fyrrverandi borgarfulltrúinn Björn Ingi Hrafnsson telur, að Ólafur Ragnar Grímsson hafi verið í baktjaldamakki við myndun ríkisstjórnarinnar.

Tómahljóð er í siðavöndunum framsóknarþingmannsins Eyglóar Þóru Harðardóttur, þegar hún belgir sig á þingi um „innantómt karp.“ Ræða hennar frá því í dag er til marks um, hve henni fer illa að skamma aðra fyrir „karp“ á þingi.

Miðvikudagur, 11. 02. 09. - 11.2.2009 20:07

Utanríkismálanefnd kom saman klukkan 10.15 og var rætt um Stoltenberg-skýrsluna um samvinnu Norðurlanda í öryggismálum. Undir lok fundarins bað ég utanríkisráðuneytið um skýrslu um áhrif blaðaummæla vegna viðtals við Ólaf Ragnar Grímsson í þýskri útgáfu Financial Times og einnig vildi ég, að nefndin yrði upplýst um, hvað ráðuneytið hefði gert til að lægja öldur í Þýskalandi vegna gagnrýni á Ísland í tilefni af því, sem sagði í blaðinu og kennt var við Ólaf Ragnar.

Smugan.is spurði vegna dagbókarfærslu hér í gær um aðhald að forseta Íslands af hálfu forsætis- og/eða utanríkisráðherra vegna samskipta hans við erlenda fjölmiðla. Ég sagði:

„Ég tel að þeir eigi að birta yfirlýsingu um hlutverk forseta og kynna Þjóðverjum. Auk þess eigi upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins að stjórna aðgangi erlendra fjölmiðlamanna að forsetanum og sitja fundi forseta með slíkum mönnum.“

Í hádeginu flutti ég kynningarerindi um qi gong fyrir starfsmenn menntamálaráðuneytisins.

Eins og venjulega var Sigurður Líndal fús til að gefa tafarlausa yfirlýsingu um lögfræðilegt álitaefni og draga frekar taum Ólafs Ragnars Grímssonar.

Hinn 12. nóvember 2008 birti ég þennan texta hér í dagbókinni:

„Lagadeild Háskólans í Reykjavík efndi í dag til umræðna um lögfræðileg álitamál á umbrotatímum .....

Þórdís Ingadóttir dósent ræddi um gildi yfirlýsinga ráðamanna að þjóðarétti. Þegar efni er hennar er skoðað á vefsíðunni, sést, að ríki geta gengist undir þjóðréttarlegar skuldbindingar með einhliða yfirlýsingu. Vegna eðlis starfa þeirra eru eftirfarandi ráðamenn sjálfkrafa taldir hafa umboð til að skuldbinda ríki: þjóðhöfðingi, forsætisráðherra og utanríkisráðherra.

Þórdís fór síðan yfir álitamál um það, hvort um væri að ræða undantekningu frá þessari meginreglu eða hvort unnt væri fyrir þjóðir að skorast undan að vera bundnar af slíkum yfirlýsingum. Nefndi hún dæmi til að skýra málið. Þar kemur meðal annars fram, að Malí hafi haldið því fram, að yfirlýsing þjóðhöfðingja á blaðamannafundi hefði einungis verið „a witticism of the kind regularly uttered at press conferences“.“

Varla telur Sigurður Líndal að þetta eigi við um það, sem haft er eftir Ólafi Ragnari í þýskum fjölmiðlum? Líklega ekki heldur um það, sem segir í bandaríska tímaritinu fyrir glæsi- og gleðifólkið.

Þriðjudagur, 10. 02. 09. - 10.2.2009 21:22

Ritaði grein í Morgunblaðið í dag til að andmæla níðgreinum Jón Baldvins Hannibalssonar í blaðinu um Sjálfstæðisflokkinn.

Fréttirnar frá útlöndum um samtöl forsetahjónanna við erlenda blaðamenn vekja vaxandi undrun. Hið einkennilega er, að engu er líkara en blaðamennirnir telji forsetann hafa einhvern afskiptarétt af framkvæmd stjórnarstefnu. Þessar ranghugmyndir hljóta að stafa frá forsetaembættinu sjálfu, því að engum öðrum dettur í hug að halda slíku fram.

Óhjákvæmilegt er, að forsætisráðherra og/eða utanríkisráðherra birti opinbera yfirlýsingu til að árétta inn á við og út á við, að forseti Íslands beri enga ábyrgð á stjórnarathöfnum. Vandinn er sá, að forseti Íslands getur bundið þjóðina að þjóðarétti með yfirlýsingum sínu. Þeim mun brýnna er, að öllum sé sem best ljóst, hvert hlutverk forsetans er.

Mánudagur, 09. 02. 09. - 9.2.2009 22:20

Við lok umræðu um frumvarpið til breytinga á seðlabankalögunum sl. föstudag lagði Jóhanna Sigurðardóttir til, að málið gengi til efnahags- og skattanefndar þingsins, sem var á skjön við verkaskiptingu milli nefnda þingsins. Þá lagði Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, til að málið færi til viðskiptanefndar, sem fjallar um bankamál.

Í upphafi þingfundar í dag dró Jóhanna tillögu sína til baka, enda sá hún fram á, að ríkisstjórnin yrði undir í atkvæðagreiðslu á þinginu. Staða stjórnarflokkanna er veikari í viðskiptanefnd þingsins en efnahags- og skattanefnd.

Ég hef ekki orðið var við, að þessi viðurkenning á vanmætti stjórnarflokkanna á þingi hafi vakið athygli. Staðreynd er, að þeir ráða ekki endanlegri gerð laga um Seðlabanka Íslands, hljóti frumvarp Jóhönnu á annað borð afgreiðslu í viðskiptanefnd. Hún kannaðist ekki við, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði gert athugasemdir við hið illa samda frumvarp hennar.

Óskiljanlegt er, að Jóhanna segist hafa kallað til sérfræðinga til að semja nýja stjórnarskrá og breytingar á kosningalögum, án þess að hafa nokkurt samráð við stjórnarandstöðu. Með þessu brýtur hún allar hefðir um meðferð slíkra mála.

Það verður enn skýrara, eftir að vinstri stjórnin kom til sögunnar, að fjölmiðlaumfjöllun snýst aðeins um gárur á yfirborði í stað þess að kafað sé í mál og reynt að skýra þau til nokkurrar hlítar. Eltingaleikurinn við Davíð Oddsson er það, sem á hug fjölmiðlamanna núna, en Jóhanna blés nýju lífi í hann um tíma. Nú segist hún hins vegar ekki ætla að atast meira í Davíð heldur bíða afgreiðslu alþingis á hinu meingallaða frumvarpi sínu. Á þessari stundu veit enginn, hvernig það lítur út að lokum.

Sunnudagur, 08. 02. 09. - 8.2.2009 6:30

Klukkan 16.00 var ég á Kaffi Rót við Hafnarstræti en þar í kjallaranum efndi félagið Heimssýn til fundar um bók mína Hvað er Íslandi fyrir bestu? á meðan tangó var dansaður með stæl á gólfinu fyrir ofan.

Fyrir utan mig ræddu þeir Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, og Eiríkur Bergmann Einarsson, Evrópufræðingur frá Háskólanum á Bifröst, um bókina. Bjarni Harðarson, fyrrverandi þingmaður, stýrði fundi og tóku Ragnar Arnalds, Pétur H. Blöndal, Páll Vilhjálmsson og Rúnar Guðbjartsson til máls. Þótti mér ánægjulegt að fá þetta tækifæri til að ræða bókina.

Fundarmenn sýndu bókinni velvild og töldu nokkurn feng að henni. Eiríkur Bergmann vildi að vísu, að niðurstaða mín væri önnur, en hann vildi einn ræðumanna, að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu.

Í ræðu á alþingi 4. febrúar gagnrýndi ég þá aðferð, sem Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hafði við að hóta seðlabankastjórum uppsögn með lagasetningarvaldi, ef annað dygði ekki. Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar seðlabankans, sendi Jóhönnu svar í dag og lýsti vanþóknun á bréfi Jóhönnu og aðferðinni við að koma því til viðtakenda. Hann segir réttilega:

„Bréf af þessu tagi með lítt dulbúnum hótunum til embættismanna er einsdæmi, ekki eingöngu hér á landi, heldur einnig um allan hinn vestræna heim. Lög sem eiga að tryggja sjálfstæði seðlabanka og forða pólitískri aðför að seðlabankastjórninni hafa nú verið þverbrotin. Ábyrgð ráðherrans er því mikil.“

Davíð telur bréfið brjóta „allar venjur um embættisleg bréf af þessu tagi“ og það hljóti að hafa verið samið utan forsætisráðuneytisins. Hann telur, að við afsögn Björgvins G. Sigurðssonar hafi mönnum orðið „á stjórnsýsluleg afglöp, þegar brotthlaupinn ráðherra skildi Fjármálaeftirlitið eftir stjórnlaust.“

Þá segir Davíð, að Jóhanna hafi rangtúlkað afsagnarbréf Ingimundar Friðrikssonar, þegar hún hafi sagt hann leggja „framtaki“ hennar lið. Í bréfinu hafi Ingimundur „harmað ósanngjarnar og órökstuddar dylgjur“´í bréfi Jóhönnu og talið hana vega „ómaklega að starfsheiðri sínum og æru!“

Lesa meira

Laugardagur, 07. 02. 09. - 7.2.2009 9:43

Sturla Böðvarsson skýrði frá því í dag, að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér í komandi þingkosningum og sama er að segja um Herdísi Þórðardóttur en þau eru bæði þingmenn sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi. Þau bætast því í hóp okkar Geirs H. Haarde en hvorugur okkar ætlar oftar í framboð.

Sturla vék að stjórnarmynduninni og forsetakjöri á alþingi, þegar hann kynnti ákvörðun sína og er þannig sagt frá á mbl.is:

„Það var ekki fyrr en ég stóð frammi fyrir mótframboði um embætti forseta Alþingis sem ég beið lægri hlut í kosningum. Þar var kosningastjóri í raun og veru enginn annar en bóndinn á Bessastöðum,“ segir Sturla.

Hann sagði kosninguna hafa af hálfu sjálfstæðismanna verið mælingu á heilindum og drengskap framsóknarmanna og afstöðu þeirra sem höfðu mært hann og störf hans.

„Bessastaðabandalagið, eins og ég kalla stuðningsmenn minnihlutastjórnarinnar, stóðst ekki prófið.“ Sturla sakaði forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, um afskipti af stjórnarmynduninni og sagði þau dæmalaus.

„Forsetinn hikaði ekki við að hafna stjórn allra flokka, skáka Sjálfstæðisflokknum burt og setja til valda Vinstri græna sem höfðu bæði leynt og ljóst staðið fyrir grjótkastinu og innrásinni í Alþingishúsið og í raun staðið fyrir valdatöku þegar Samfylkingin missti kjarkinn eftir árásina á Alþingishúsið og aðförina að fundi Samfylkingarinnar í Leikhúskjallaranum,“ sagði Sturla og bætti því við að það mætti með sanni segja að minnihlutastjórn Jóhönnu hefði komist til valda í skjóli ofbeldis.

„Það var sláandi fyrir okkur sem vorum í þinghúsinu þegar sem mest gekk á að verða þess áskynja þegar ofbeldisfólkið sem réðst á Alþingishúsið fór eftir að Vinstri grænir fengu sitt fram og höfðu sest í ráðherrastóla.““

Þessi lýsing Sturlu kemur heim og saman við gagnrýni mína á þá ákvörðun Ólafs Ragnars að hafa þingræðisregluna að engu og veita strax umboð til að mynda minnihlutastjórn..

Samkvæmt visir.is gaf Geir H. Haarde til kynna á fundi sjálfstæðismanna í Reykjavík í morgun, að aðdragandi að myndun ríkisstjórnarinnar hefði verið lengri og annar en af hefur verið látið og hlutur Ólafs Ragnars væri ekki sem sýndist.

Lesa meira

Föstudagur, 06. 02. 09. - 6.2.2009 20:03

Ráðist var á Vöku í stúdentakosningum Háskóla Íslands eins og jafnan áður fyrir að vera of höll undir Sjálfstæðisflokkinn. Síðan láta álitsgjafar eins og Sjálfstæðisflokkurinn eigi litlu fylgi að fagna meðal ungs fólks. Úrslit í stúdentaráðskosningum voru birt í morgun. Hver urðu þau? Þau birtast hér:

Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, bar sigur úr býtum í kosningum til Stúdentaráðs og háskólaþings Háskóla Íslands. Vaka fékk 2.342 atkvæði, eða 52,25% atkvæða. Röskva, samtök félagshyggjufólks við HÍ, fékk 2.140 atkvæði, eða 47,75%. Auðir og ógildir seðlar voru 144.

Vaka fær því 5 fulltrúa af þeim 9 sem í kjöri voru, en Röskva 4. Þar með snýst valdahlutfallið í ráðinu við. Röskva hefur verið í meirihluta undanfarin tvö ár, segir í tilkynningu frá kjörstjórn.

Háskólaþing:
Vaka fékk 2298 atkvæði eða 51,26%
Röskva fékk 2185 atkvæði eða 48,74%

Umræður á alþingi snerust í dag um frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra um breytingar á yfirstjórn Seðlabanka Íslands. Frumvarpið er illa úr garði gert og ekki fékkst upplýst hver hefði samið það - þó kom fram hjá Jóhönnu, að frumvarpið byggði að grunni til á breytingartillögu, sem hún flutti við frv. um seðlabanka á þingi 2001 og skýrslu alþjóðagjaldeyrissjóðsins um stjórn seðlabanka frá 2005. Augljóst er, að þingefnd eða þingnefndir munu þurfa nokkurn tíma til að fara yfir þetta frumvarp. Ég kallaði það „hrákasmíð“ í umræðunum.

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, flutti jómfrúrræðu sína í umræðunum og var hún ein samfelld árás á Seðlabanka Íslands, en Gylfi sagði, að hann hefði aldrei sinnt verkefni sínu sem skyldi. Saga hans væri hrakfallasaga.

Að lokinni ræðu Gylfa minnti ég á, að Jónas Jónsson frá Hriflu hefði 1930 sem dómsmálaráðherra lagt til að leggja niður hæstarétt og stofna fimmtardóm. Mér hefði komið til hugar, hvort viðskiptaráðherra ætlaði að leggja fram frumvarp um að seðlabankinn yrði lagður niður. Ég teldi, að aldrei hefði nokkur viðskiptaráðherra ráðist á Seðlabanka Íslands á þennan hátt í sölum alþingis, það ætti betur við að gefa bankanum fingurinn á þennan hátt úti á Austurvelli.


 

Fimmtudagur, 05. 02. 09. - 5.2.2009 20:32

Ég mælti á alþingi í dag fyrir frumvarpi okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins um skuldaaðlögun. Ræðu mína set ég hér inn á síðuna, þegar hún hefur verið skráð af ræðuriturum þingsins. Ég hef einnig hug á því, að setja hér inn andsvör mín við ræðum annarra.

Fleiri mál en þetta frumvarp var undir í umræðunni, þar á meðal frumvarp dóms- og kirkjumálaráðherra um greiðsluaðlögun, sem er samhljóma frumvarpi okkar sjálfstæðismanna með tveimur undantekningum - þær komu til sögunnar eftir stjórnarmyndun til að Samfylkingin gæti réttlætt að hafa tafið afgreiðslu á frumvarpi mínu sem dóms- og kirkjumálaráðherra.

Í umræðunum í dag kom fram, að Samfylkingarmenn gátu ekki unnt mér þess að flytja þetta frumvarp, þótt þeir skömmuðu mig í hinu orðinu fyrir að hafa ekki flutt það miklu fyrr. Jóhanna Sigurðardóttir hefði flutt þingmannafrumvarp um málið og töldu þeir Mörður Árnason og Árni Páll Árnason mikið hneyksli, að ég hefði ekki séð um að koma því í lögtækan búning! Þetta eru sömu þingmennirnir, sem kvarta síðan í hinu orðinu um, að framkvæmdavaldið hafi alltof mikil áhrif á kostnað alþingis!

Þá var þarna einnig rætt um frumvarp um greiðsluaðlögun frá framsóknarmönnum en það er þannig úr garði gert, að því verður ýtt til hliðar í þingnefnd. Eygló Harðardóttir var talsmaður Framsóknarflokksins í þessu máli. Nýjum þingmönnum fer ekki vel að tileinka sér þá takta, sem hún hefur gert, það er einfaldlega ekki nein innistæða fyrir þeim.

Lítillega var sagt frá þessum umræðum í sjónvarpinu, án þess að frásögnin gæfi rétta mynd af því, sem fram kom í þeim. Morgunblaðið hefur sagt upp þingfréttaritara sínum en RÚV heldur úti tveimur fréttamönnum í þinghúsini og er þess vegna undarlegt, hve fréttir þaðan eru rýrar, þegar leitast er við að skýra fyrir hlustendum/áhorfendum umræður um flókin mál.

Miðvikudagur, 04. 02. 09. - 4.2.2009 22:36

Klukkan 19.50 hófst þingfundur, þar sem Jóhanna Sigurðardóttir flutti skýrslu um stefnu ríkisstjórnarinnar og var ég einn þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins í umræðunum og flutti þessa ræðu.

Í dag var sagt frá því, að Baugur hefði farið fram á greiðslustöðvun fyrir héraðsdómi Reykjavíkur en bankar vildu ekki fallast á hana heldur gjaldfella lán sín.

Jón Ásgeir Jóhannesson, starfandi stjórnarformaður Baugs, brást við á sama hátt og áður: Hann kenndi Davíð Oddssyni um ákvörðun skilanefndar Landsbanka Íslands að stöðva lánveitingar til Baugs. Lárus Finnbogason, formaður skilanefndarinnar, sagði þetta fráleita fullyrðingu og út í bláinn.

Það er samhljómur milli Jóns Ásgeirs og hinnar nýju ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur: Sé eitthvað að, er það Davíð Oddssyni að kenna.

Eftir að hafa fylgst með þingstörfum og ræðum þingmanna í dag, undrast ég mest framgöngu framsóknarmanna. Sé hún til marks um hugarfar hinnar nýju framsóknar, boðar það aðeins samstarf framsóknarmanna við rauðgrænu stjórnina, hvað sem hún segir þeim að gera. Við vissum fyrir, að allur kraftur væri úr þingflokki framsóknarmanna en nú hefur hann að auki lagst flatur að fótum nýrra stjórnarherra.

Þriðjudagur, 03. 02. 09. - 3.2.2009 10:55

Jóhanna Sigurðardóttir fer einkennilega af stað sem forsætisráðherra með digurbarkalegum en röngum yfirlýsingum á kostnað annarra eins og ég lýsi hér í pistli á www.amx.is

Það virtust ekki miklir sameiginlegir straumar koma frá þeim Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra á fyrsta blaðamannafundi þeirra í ráðherraembættum í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Þau töluðu út og suður um stórmál og hin minni á að „skoða“. svo að notað sé orðið, sem Jóhanna er sögð hafa brúkað 40 sinnum í Kastljósi í gærkvöldi.

Í sjónvarpinu var sýnt bréf Jóhönnu til Davíðs Oddssonar, þar sem hún býður honum að segja seðlabankastjórastarfinu lausu. Hún sagði einnig, að Davíð hefði hringt í sig frá útlöndum en samtalið væri einkamál þeirra - en bréfið? Er það í anda góðrar stjórnsýslu að birta bréf innan hennar opinberlega, áður en því hefur verið svarað? Ég minnist þess ekki, að þannig hafi verið staðið að samskiptum við embættismann. Gilda sérstakar stjórnsýslureglur, þegar Davíð Oddsson á í hlut?

Á þeim tíma, sem ég sat í ríkisstjórn með Samfylkingunni, man ég ekki eftir, að hún hafi lýst nokkrum efnislegum ágreiningi vegna ákvarðana bankastjórnar seðlabankans á fundum ríkisstjórnarinnar, nema þegar Össur Skarphéðinsson varð hræddur um stólinn sinn, af því að Davíð nefndi orðið þjóðstjórn en gat þess jafnframt, að hún væri ekki góður kostur, þar sem engin yrði stjórnarandstaðan.

Ríkisstjórnin með Jóhönnu Sigurðardóttur innan borðs hefur borið ábyrgð á peningamálastefnunni og öllum meginákvörðunum um peninga- og bankamál. Peningamálastefnan var mótuð af Seðlabanka Íslands á þeim tíma, þegar Már Guðmundsson var aðalhagfræðingur seðlabankans, en helst virðist nú litið til hans sem einvalds í seðlabankanum. Ætli hann hafi skipt um skoðun í peningamálum?

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra eru ekki á einu máli, þegar rætt er um framtíð íslensku krónunnar - mér heyrðist Jóhanna að vísu segja, að það yrði að taka upp evru til að styrkja krónuna! Vissulega nýstárleg leið en Steingrímur J. vill líta á norsku krónuna og ætlar að ræða það mál við flokkssystur sína, norska fjármálaráðherrann, um helgina. Hann hefur þó ekki umboð Jóhönnu til neins annars en að skoða málið. Hver skyldi annars vera skoðun framsóknarmannsins í yfirfrakka ríkisstjórnarinnar á gjaldmiðilsmálinu?

Lesa meira

Mánudagur, 02. 02. 09. - 2.2.2009 17:41

Ritaði Frelsisleiðarann fyrir Heimdellinga hér á vefsíðu þeirra um Sjálfstæðisflokkinn í stjórnarandstöðu.

Var í hádeginu í Rótarýklúbbi miðborgar og flutti ræðu um Evrópumál og svaraði spurningum.

Þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman klukkan 13.00. Á fundinn bárust fréttir um, að aðgerðin á Geir H. Haarde hefði gengið vel í Amsterdam. Að loknum fundinum sat ég blaðamannafund, þar sem við kynntum frumvarpið um skuldaaðlögun, sem ég lagði fram í ríkisstjórn, hún hafði samþykkt fyrir stjórnarslit og þingflokkur sjálfstæðismanna en ekki Samfylkingar. Jóhanna Sigurðardóttir hélt því ranglega fram, að ég hefði legið á þessu máli.

Þá fór ég til Ingva Hrafns Jónssonar á sjónvarpsstöðinni ÍNN og tókum við upp 40 mínútna samtal, sem sýnt verður á Hrafnaþingi í kvöld.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, var í Kastljósi í kvöld og viðurkenndi, að skuldaaðlögunarfrumvarpið lægi hjá Samfylkingunni, þvert á það, sem hún sagði á fyrsta blaðamannafundi í nýja hlutverkinu í gær. Hún reynir nú að klóra í bakkann og segja frumvarp um þetta efni hafa verið hjá viðskiptaráðherra í maí 2008 - hann dró það hins vegar til baka að fenginni umsögn réttarfarsnefndar, sem taldi frumvarpið illa ígrundað. Nú vill Jóhanna allt í einu ganga lengra en frumvarpið gengur, frumvarp, sem hún samþykkti sjálf í ríkisstjórn og ráðuneyti hennar í umsagnarferli innan stjórnarráðsins. Forsætisráðherra, sem hleypur úr einu vígi í annað, er ekki besti kostur við núverandi aðstæður. Þakka ber, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setur Jóhönnu skorður.

Skattmann er nú sestur að í fjármálaráðuneytinu. Hinn fyrsti í 18 ár og hann er þegar farinn að tala um nauðsyn þess að hækka skatta - Jóhanna Sigurðardóttir talar um þá, sem „geta borið byrðarnar“ og eigi að gera, án þess að vilja segja, hverjir eiga þar hlut að máli. Hún vill líka hækka skatta.

Sunnudagur, 01. 02. 09. - 1.2.2009 6:17

Í dag er stjórnarráð Íslands 105 ára. Nú var efnt til ríkisráðsfundar með þátttöku forseta Íslands, en hann ákvað að vera erlendis, þegar 100 ára afmælinu var fagnað 2004, eins og frægt var. Þessa dags verður bæði minnst vegna heimastjórnarinnar og að kona varð í fyrsta sinn forsætisráðherra.

Jóhanna Sigurðardóttir fór ekki vel af stað á blaðamannafundi um nýja verkáætlun stjórnar sinnar í dag, þegar hún sakaði mig um að vera svifaseinn sem ráðherra og vísaði þar til frumvarps um skuldaaðlögun. Þetta frumvarp liggur einfaldlega óafgreitt í þingflokki Samfylkingar við stjórnarskipti í þeim búningi, sem það var flutt af mér að fenginni tillögu réttarfarsnefndar, eftir afgreiðslu ríkisstjórnarinnar og þingflokks sjálfstæðismanna. Frumvarpið tafðist fyrir áramót vegna yfirferðar í ráðuneyti Jóhönnu, sem síðan sagðist vera sama sinnis og viðskiptaráðuneytið, en það fékk málið einnig til skoðunar. Líklega lítur Jóhanna nú á það sem tímasóun, að það skuli hafa verið leitað álits í ráðuneyti hennar. Margt er unnt að skamma mig fyrir sem ráðherra, en ég held, að fáir, sem þekkja mín vinnubrögð, taki undir þá skoðun Jóhönnu, að ég hafi verið svifaseinn.

Ég hlustaði á þessa röngu frásögn verðandi forsætisráðherra, þegar ég ók á minn síðasta ríkisráðsfund á Bessastöðum. Þótti mér lítið leggjast fyrir Jóhönnu með þessum orðum hennar og ekki gefa mér góða mynd af væntanlegum starfsháttum.

Ríkisráðsfundurinn átti að hefjast klukkan 17.00 en honum seinkaði, þar sem ráðherrar Samfylkingarinnar komu of seint. Fundurinn var hins vegar stuttur og bauð forseti okkur pönnukökur að honum loknum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hafði orð fyrir okkur ráðherrunum í fjarveru Geirs H. Haarde, en hann hélt í morgun til Hollands vegna veikinda sinna.

Sjálfstæðisráðherrarnir, sem þarna voru, kvöddu allir ríkisstjórn og einnig Björgvin G. Sigurðsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir úr Samfylkingu, en Björgvin sagði af sér sunnudaginn 25. janúar, en það vafðist fyrir einhverjum innan ríkisráðsins, hvernig ætti að taka á málinu, svo að Björgvin sat með okkur í starfsstjórninni, þótt hann hefði viljað fara fyrr. Þá tilkynnti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, að hún mundi ekki setjast í næstu ríkisstjórn heldur einbeita sér að ná heilsu.

Ég hélt frá Bessastöðum um 17. 45 en klukkan 19.00 var ég í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og afhenti Rögnu Árnadóttur skrifstjóra lykla ráðuneytisins sem nýskipuðum dóms- og kirkjumálaráðherra. Við Ragna höfum starfað saman í ráðuneytinu síðan ég kom þangað árið 2003 en á síðasta ári gegndi hún tímabundið embætti ráðuneytisstjóra í veikindaleyfi Þorsteins Geirssonar og fyrir skömmu var hún sett sem skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu. Ragna hefur víðtæka reynslu innan stjórnsýslunnar, sem vonandi mun nýtast allri ríkisstjórninni. Ég óska henni velfarnaðar í ráðherrastarfi.

Lesa meira