24.2.2009 22:19

Þriðjudagur, 24. 02. 09.

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, sat fyrir svörum hjá Sigmari Guðmundssyni í Kastljósi í kvöld. Hafi þetta átt að vera einvígi, lá Sigmar í valnum. Bloggkenndar spurningar Sigmars ristu of grunnt.

Davíð greindi þó frá svo mörgu, sem snerti aðdraganda og afleiðingar bankahrunsins, að þyrfti marga þætti í sjónvarpi til að rekja þá þræði alla til enda. Davíð sagði einnig réttilega, að ekki væri unnt að fella dóma yfir sér, seðlabankanum né nokkrum öðrum, fyrr en niðurstöður rannsókna lægju fyrir.

Hann minntist þess, að á ríkisstjórnarfundi 30. september 2008 hefði hann látið þess getið, að frekar ætti að þrefalda starfsmannafjölda í efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra en fækka í henni.

Nokkrum dögum eftir bankahrunið lagði ég til, að stofnað yrði embætti sérstaks saksóknara til að rannsaka efnahagsbrot í tengslum við það. Ráðherrar Samfylkingarinnar töfðu framlagningu frumvarps míns um þetta embætti.

Aðför Samfylkingarinnar gegn Davíð Oddssyni er í anda kosningabaráttu flokksins fyrir kosningar 2003, þegar Samfylkingin átti samleið með Baugsveldinu eins og síðar sannaðist rækilega í fjömiðlamálinu vorið og sumarið 2004. Þá tóku Samfylking, vinstri-græn og Ólafur Ragnar Grímsson höndum saman til að verja fjölmiðlaveldi Baugs með aðför að þingræðinu. Hið sama gerðist með myndun minnihlutastjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. 

Minnihlutastjórnin hafði ekki fyrr verið mynduð til bráðabirgða en Jóhanna hótaði bankastjórum seðlabankans brottrekstri með góðu eða illu.