Dagbók: apríl 2001

Mánudagur 30.4.2001 - 30.4.2001 0:00

Í dag eru 10 ár liðin frá því að Davíð Oddsson varð forsætisráðherra. Í tilefni af því var síðdegismóttaka honum og Ástríði konu hans til heiðurs í Þjóðmenningarhúsinu með þeim, sem hafa starfað með honum sem ráðherrar á þessum tíma. Um kvöldið var síðan hátíðarkvöldverður með þingflokki og miðstjórn Sjálfstæðisflokksins í Valhöll.

Sunnudagur 29.4.2001 - 29.4.2001 0:00

Fór klukkan 20.00 í Kristskirkju og hlýddi á frumflutning á Requiem eftir Symon Kuran.

Laugardagur 28.4.2001 - 28.4.2001 0:00

Var klukkan 11.00 á Selfossi og tók fyrstu skóflustungu að viðbyggingu við hótelið á staðnum, en það verður framvegis einnig menningarhús, þegar salir þess hafa verið teknir í notkun.

Föstudagur 27.4.2001 - 27.4.2001 0:00

Fór síðdegis og tók þátt í því með forráðamönnum Goethe Zentrum að opna nýtt aðsetur hennar að Laugavegi 18.

Fimmtudagur 26.4.2001 - 26.4.2001 0:00

Sat kl. 11.00 blaðamannafund í Tæknigarði á vegum Rannsóknarráðs Íslands þar sem kynntar voru úthlutanir úr bygginga- og tækjakaupasjóði. Fór í hádeginu í Urð Verðandi Skuld og kynnti starfsmönnum tillögur um breytingar á rannsóknarráði og kynntist fyrirtæki þeirra.

Miðvikudagur 25.4.2001 - 25.4.2001 0:00

Svaraði þremur fyrirspurnum á alþingi um menntamál.

Þriðjudagur 24.4.2001 - 24.4.2001 0:00

Hádegisverðarfundur á vegum verkfræðinga og tæknifræðinga að Engjateigi 6, þar sem ég gerði grein fyrir tillögum um breytingar á Rannsóknarráð Íslands og tók þátt í gagnlegum umræðum. Um kvöldmatarleytið flutti ég framsögu fyrir sex frumvörpum á alþingi, sem öllum var vísað til meðferðar menntamálanefndar.

Mánudagur 23.4.2001 - 23.4.2001 0:00

Alþingi kom saman eftir páskaleyfi - svaraði óundirbúinni fyrirspurn um starfsnám.

Sunnudagur 22.4.2001 - 22.4.2001 0:00

Fór og sá kvikmyndina 13 dagar um Kúbudeiluna og þótti hún vel gerð, þrátt fyrir að ekki sé í einu og öllu farið rétt með einstök atriði.

Laugardagur 21.4.2001 - 21.4.2001 0:00

Klukkan 14.00 flutti ég ávarp við hátíðlega athöfn á vegum Háskóla Íslands og Árnastofnunar í tilefni af því, að 30 ár voru liðin frá heimkomu handritanna. Þá fékk ég einnig fyrsta eintak af glæsilegri bók, Konungsbók Eddukvæða. Klukkan 17.00 tók ég þátt í hátíðarfundi vegna 50 ára afmælis Sundsambands Íslands, sem efnt var til að Borgartúni 6.

Miðvikudagur 18.4.2001 - 18.4.2001 0:00

Klukkan 14.00 var ég meðal ræðumanna á málþingi bókasafns- og upplýsingafræðinga um þekkingarstjórnun, en það var haldið í Háskóla Íslands á vegum skorarinnar í þessum fræðum og var stofa 101 í Odda þéttsetin.

Þriðjudagur 17.4.2001 - 17.4.2001 0:00

Fyrir hádegi hitti ég nemendur í hagnýtri fjölmiðlun í Háskóla Íslands, sem komu í heimsókn í ráðuneytið. Klukkan 16.00 flutti ég ávarp í Þjóðarbókhlöðunni, þegar þar var opnuð sýning á þróun námsefnis á 20. öldinni. Klukkan 20.30 fórum við Rut í Þjóðmenningarhúsið og hlýddum á ljóðalestur á vegum Besta vinar ljóðsins í tilefni af því að ljóðahátíð í Viku bókarinnar var að hefjast. Var gamli lessalurinn þétt setinn.

Laugardagur 14.4.2001 - 14.4.2001 0:00

Klukkan 11.00 var efnt til ríkisráðsfundar að Bessastöðum, þar sem Ingibjörg Pálmadóttir hætti sem heilbrigðis- og tyggingamálaráðherra en Jón Kristjánsson alþingismaður tók við af henni.

Miðvikudagur 11.4.2001 - 11.4.2001 0:00

Var með almennan viðtalstíma fyrir og eftir hádegi þennan miðvikudag en venjulega hef ég slíkan tíma milli 10 og 12 á miðvikudagsmorgnum.

Þriðjudagur 10.4.2001 - 10.4.2001 0:00

Fór um níuleytið í viðtal við Lísu Pálsdóttur á Rás 2 vegna þáttar um Gunnar Eyjólfsson, sem var fluttur á páskadag. Síðdegis hitti ég ungar stúlkur í ráðuneytinu en þær höfðu komið með móður sinni, föður, afa eða ömmu, þar sem dagurinn var sérstakur hvatningardagur verkefnisins Auður í krafti kvenna.

Þriðjudagur 10.4.2001 - 10.4.2001 0:00

Fór um níuleytið í viðtal við Lísu Pálsdóttur á Rás 2 vegna þáttar um Gunnar Eyjólfsson, sem var fluttur á páskadag. Síðdegis hitti ég ungar stúlkur í ráðuneytinu en þær höfðu komið með móður sinni, föður, afa eða ömmu í vinnuna, þar sem dagurinn var sérstakur hvatningardagur verkefnisins Auður í krafti kvenna.

Mánudagur 9.4.2001 - 9.4.2001 0:00

Upp úr hádeginu flutti ég ræðu á ársfundi Rannsóknarráðs Íslands og sat fundinn allan daginn.

Sunnudagur 8.4.2001 - 8.4.2001 0:00

Auðveldasta leiðin til að komast aftur heim var að fara með kvöldflugi frá London en við lögðum snemma morguns af stað frá Portoroz og heimsóttum Svövu Bernharðsdóttur víóluleikara, eiginmann hennar Matej óbóleikara og dóttur þeirra Rannveigu Mörtu í Lublijana, nutum við mikillar gestrisni þeirra og góðrar leiðsagnar í skoðunarferð um þessa fallegu borg. Lentum í Keflavík rétt fyrir miðnætti.

Laugardagur 7.4.2001 - 7.4.2001 0:00

Ráðherrafundinum lauk um hádegisbilið en að honum loknum var okkur boðið að kynnast menningararfleifð þessa héraðs Slóveníu og sáum meðal annars saltvinnslusafn og miðaldakirkju, sem er heimsfræg fyrir fresku, sem sýnir dauðadansinn.

Föstudagur 6.4.2001 - 6.4.2001 0:00

Ráherrafundur á vegum Evrópuráðsins um menningararfleifðina stóð allan daginn.

Fimmtudagur 5.4.2001 - 5.4.2001 0:00

Við Rut flugum ásamt Sveini Einarssyni frá París til Lublijana, höfuðborgar Slóveníu. Þar beið okkur bíll á vegum menningarmálaráðuneytisins, sem ók okkur í rúman einn og hálfan tíma til bæjarins Portoroz við Adríahaf.

Miðvikudagur 4.4.2001 - 4.4.2001 0:00

Ráðherrafundi OECD lauk með hádegisverði. Klukkan 17.00 hitti ég Catherine Tasca, menningarmálaráðherra Frakka, í ráðuneyti hennar og ræddum við meðal annars fyrirhugaða íslenska menningardaga í París árið 2003.

Þriðjudagur 3.4.2001 - 3.4.2001 0:00

Fundur menntamálaráðherra OECD-ríkjanna stóð allan daginn en í ræðu minni á ársfundi Rannskóknarráðs Íslands 9. apríl lýsti ég ýmsu, sem fram kom á fundinum. Sídegis efndu íslensku sendiherrahjónin í París til móttöku fyrir sendiherra hjá UENSCO í því skyni að kynna Svein Einarsson, frambjóðanda Íslands, til framkvæmdastjórnar UNESCO.

Mánudagur 2.4.2001 - 2.4.2001 0:00

Klukkan 16.00 var efnt til ráðstefnu í höfuðstöðvum OECD um upplýsingatækni í skólastarfi. Þar flutti ég stutta lýsingu á því, sem er að gerast á þessu sviði hjá okkur og byggði hana á stefnu menntamálaráðuneytisins um dreifmenntun.

Sunnudagur 1.4.2001 - 1.4.2001 0:00

Sátum kvöldverð sendiherrahjónanna í París, Sigríðar Snævar og Kjartans Gunnarssonar, til heiðurs Régi Boyer, prófessor við Sorbonne-háskóla, sem er að láta af störfum vegna aldurs, en hann hefur kennt íslensku og þýtt mikið af íslenskum bókmenntum á frönsku.