Dagbók: nóvember 2016

Miðvikudagur 30. 11. 16 - 30.11.2016 15:00

Í dag ræddi ég við Sverri Jakobsson prófessor um bók hans Auðnaróðal sem snýst um valdabaráttu á Íslandi frá 1096 til 1281. Þessi tími er talinn einn mesti ófriðartími Íslandssögunnar og á bók Sverris fullt erindi til samtímans bæði til að auka áhuga og skilning á þessu merka tímabili í þjóðarsögunni og einnig til að spegla samtímann í því sem þá gerðist. Samtal okkar verður frumsýnt á ÍNN klukkan 20.00 í kvöld.

Við það er miðað að Íslendingar hafi gengið Noregskonungi á hönd 1262/64 með gamla sáttmála. Sverrir segir í raun erfitt að slá neinu ártali föstu í þessu sambandi. Eitt sé þó víst að Íslendingar tóku upp annars konar samband við Noregskonung en þeir væntu því að þeir vissu ekki við fyrstu tengslin að það mundi leiða til skattheimtu í nafni sameinaðs konungdæmis.

Þessi lýsing kemur vel heim og saman við ýmislegt sem sagt er varðandi hugsanlegan aðildarsamning Íslendinga við Evrópusambandið. Menn tala gjarnan um stöðuna innan sambandsins eins og var áður en Evrópusambandið tók við af Evrópubandalaginu með auknu miðstjórnarvaldi og skilyrðislausri kröfu um aðlögun að sáttmálum sambandsins.

Dæmi um úr sér genginn málflutning af þessu tagi mátti sjá í grein eftir Óla Anton Bieltvedt, alþjóðlegan kaupsýslumann og stjórnmálarýni, í Morgunblaðinu þriðjudaginn 29. nóvember. Þar segir meðal annars:

„Fullyrðingar hafa komið fram um það í fjölmiðlum hér, að skilmálar ESB séu óhagganlegir. Vitnað hefur verið í það, að sóknarprestur á Akureyri hafi skrifað ESB og spurst fyrir um málið. Hann á að hafa fengið þau svör, að ekki væri hægt að semja um aðildarskilmálana. Fyrir mér er þetta meira grín en alvara og alveg út í hött. Hverjum dettur eiginlega í hug að ESB upplýsi klerk á Akureyri, þó merkur kunni að vera, um möguleika og svigrúm í aðildarsamningum milli ríkisstjórna og forráðamanna ESB?“

Við mann sem skrifar svona þýðir ef til vill ekki að vekja máls á staðreyndum. Að sjálfsögðu var full alvara í svarinu til sóknarprestsins á Akureyri enda í samræmi við fastmótaða stefnu ESB. Þótt ESB-embættismenn séu oft sakaðir um hroka og fjarlægð frá almennum borgurum sæmir ekki að bera á þá lygar. Óli Anton lifir í þeirri trú að Íslendingar geti samið við ESB á sama grunni og Danir sömdu við EB fyrir rúmum 40 árum. Hann áttar sig ekki á pólitískri andstöðu við ESB-aðild Tyrkja.

Þriðjudagur 29. 11. 16 - 29.11.2016 10:15

Viðbrögð vinstrisinna og Kúbuvina við fráfalli einræðisherrans Fidels Castros eru mörg sérkennileg. Sumir hafa lent í vandræðum eins og James Trudeau, forsætisráðherra Kanada. Hann neyddist til að hætta við að fara til Kúbu og fylgja Fidel Castro til grafar vegna mikillar gagnrýni sem hann hlaut fyrir samúðarkveðju við fráfall einræðisherrans. Trudeau lýsti honum laugardaginn 26. nóvember sem „einstökum leiðtoga“ en sunnudaginn 27. nóvember viðurkenndi hann að Castro hefði verið einræðisherra og brást þannig við kröfu stjórnarandstæðinga um að hann yrði ekki við útförina. Síðar var tilkynnt að dagskrá hans rúmaði ekki för til Kúbu.

Guðmundur Andri Thorsson, dálkahöfundur Fréttablaðsins, skrifar af nokkrum söknuði um Castro í blaðið mánudaginn 28. nóvember. Raunar má skilja hann svo að það hafi ekki verið Castro sem brást heldur kommúnisminn. Guðmundur Andri segir:

„Kommúnisminn brást – en það gerir kapítalismann í sjálfu sér ekkert gáfulegri. Við þurfum alveg nýjar lausnir, nýjan þankagang, nýtt skipulag: annars ferst mannkynið og eftirlætur jörðina kakkalökkunum. [...]

Kapítalisminn er vissulega ómögulegur – en það gerir kommúnismann ekkert gáfulegri.“

Dálkahöfundurinn kallar þarna eftir einhverju nýju þjóðfélagskerfi, væntanlega til þess að menn á borð við Fidel Castro fái notið sín. Boðskapurinn mótast hins vegar af gamalkunnri samanburðarfræði: þótt kommúnisminn sé slæmur er kapítalisminn það líka. Í kalda stríðinu leiddu þessi fræði vinstrisinna gjarnan til þeirra niðurstöðu að Sovétríkin væru þó að lokum ívið betri en Bandaríkin.

Þessi afsökunaraðferð er greinilega ekki gengin sér til húðar hjá þeim á Vesturlöndum sem sætta sig ekki við eigið þjóðfélagskerfi og telja hlutverk sitt að boða einhverja aðra lausn á þjóðfélagsvandanum án þess þó að vita hver hún er.

Á Kúbu lögðu stjórnvöld fram bækur þar sem menn gátu skráð nöfn sín vegna dauða leiðtogans. Textinn til undirritunar hafði ekki að geyma samúðarkveðju heldur hátíðlega yfirlýsingu um hollustu við byltinguna og varðstöðu um hana. Almenningur var hvattur til taka undir „byltingarkenninguna“ sem Castro boðaði í ræðu árið 2000. „Við berjumst áfram fyrir þessum hugsjónum. Við sverjum þess heit!“ segir í textanum.

Fáir muna líklega hvaða kenningu Castro boðaði árið 2000. Í sjálfu sér skiptir það ekki máli fyrir þjóð í kerfi sem er komið í þrot.

 

 

Mánudagur 28. 11. 16 - 28.11.2016 18:15

Sálumessa um vin minn Gunnar Eyjólfsson var frá Kristskirkju í dag kl. 15.00 og rúmaði kirkjan ekki alla sem vildu kveðja hann. Prestur var sr. Hjalti Þorkelsson, oragnisti Steingrímur Þórhallsson, einsöngvarar voru Alina Bubik og Hallveig Rúnarsdóttir, einleik á fiðlu lék Zbignew Dubik, Kammerkór Neskirkju söng en Frímann og Hálfdán – Útfararþjónusta annaðist útförina. Ingvar E. Sigurðsson leikari las úr Pétri Gaut og Sveinn Einarsson flutti minningarorð.

Athöfnin fór vel og virðulega fram. Fallegur, einfaldur hátíðleiki hennar féll vel að minningu Gunnars. Andi hans sveif yfir öllu sem fram fór. Hann er jarðaður í Garðakirkjugarði að eigin ósk, þaðan sést bæði til Keflavíkur og Karmelklaustursins í Hafnarfirði.

Ég skrifaði minningargrein í Morgunblaðið og má lesa hana hér. Þar rifja ég upp brot af því marga og eftirminnilega sem við höfum gert saman undanfarna þrjá áratugi. Frá mörgu er sagt hér á þessum dagbókarsíðum. Þær frásagnir eru þó ekki nema reykurinn af réttunum.

Sunnudagur 27. 11. 16 - 27.11.2016 14:45

Stjórnarmyndunarviðræður halda áfram án þess að nokkur hafi umboð forseta til að mynda stjórn. Það breytir ekki skyldu stjórnmálamanna til að finna leið úr stjórnarkreppunni. Sumum finnst orðið „kreppa“ greinilega svo svakalegt að þeir telja ekki við hæfi að nota það um friðsamlega sambúð stjórnmálaforingja sem geta ekki komið sér saman um starfhæfan meirihluta á þingi að baki ríkisstjórn. Ef menn vilja ekki kalla þetta „kreppu“ verða þeir að finna annað orð.

Hér á sama við og um „starfsmannastjórann“ í Hvíta húsinu. Í Morgunblaðinu var orðið notað en sett í sviga á ensku chief of staff. Það er illa komið ef fjölmiðlamenn geta ekki komið sér saman um eitt gegnsætt orð um þennan háttsetta bandaríska embættismann. Til mín hefur verið send tillaga um að kalla hann einfaldlega „forsetaritara“ þótt í starfinu í Washington felist mun meira vald og mun meiri áhrif en hjá þeim sem gegnir þessu embætti í Reykjavík. Þá hef ég einnig séð tillögu um að kalla hann stallara.

Ég skila auðu í málinu.

Þessi orð eru skrifuð í háloftunum fyrir sunnan Ísland þegar flugstjóri Icelandair-vélarinnar Kötlu var að tilkynna okkur farþegum hans í flugini frá Brussel að tæpar 30 mínútur væru eftir til Keflavíkurflugvallar og við myndum lenda aðeins á undan áætlun.

Þannig lýkur þriggja nátta ánægjulegri ferð til Brussel. Í flugvélinni er nettenging og set ég þetta því inn á vefsíðuna um leið og vélin tekur að lækka sig.

ps eftir að ég komst í samband að nýju eftir heimkomu sendi orðhagur maður mér tillöguna „liðsstjóri“ um manninn við hliðina á Bandaríkjaforseta. Það er gegnsætt orð um hlutverk mannsins sem stjórnar liði forsetans. Það má reyna að innleiða það.

Rétt er að geta þess að við ferð um Brussel-flugvöll verður maður ekki var við annað en allt sé eðlilegt þrátt fyrir eyðilegginguna miklu í hryðjuverkinu í mars. Innkoma í flugstöðvarbygginguna er að vísu sérstök. Okkur var ekið að bílageymslu og farið er í gegnum hana áður en gengið er inn í sjálfa flugstöðvarbygginguna.

Þá má geta þess fyrir áhugamenn um skatta á ferðamenn að við brottför af hótelinu var innheimtur borgarskattur - city tax var sagt, 9,28 evrur á nóttu, 1,115 ísl. kr.

Sunnudagur 27. 11. 16 - 27.11.2016 14:45

Stjórnarmyndunarviðræður halda áfram án þess að nokkur hafi umboð forseta til að mynda stjórn. Það breytir ekki skyldu stjórnmálamanna til að finna leið úr stjórnarkreppunni. Sumum finnst orðið „kreppa“ greinilega svo svakalegt að þeir telja ekki við hæfi að nota það um friðsamlega sambúð stjórnmálaforingja sem geta ekki komið sér saman um starfhæfan meirihluta á þingi að baki ríkisstjórn. Ef menn vilja ekki kalla þetta „kreppu“ verða þeir að finna annað orð.

Hér á sama við og um „starfsmannastjórann“ í Hvíta húsinu. Í Morgunblaðinu var orðið notað en sett í sviga á ensku chief of staff. Það er illa komið ef fjölmiðlamenn geta ekki komið sér saman um eitt gegnsætt orð um þennan háttsetta bandaríska embættismann. Til mín hefur verið send tillaga um að kalla hann einfaldlega „forsetaritara“ þótt í starfinu í Washington felist mun meira vald og mun meiri áhrif en hjá þeim sem gegnir þessu embætti í Reykjavík. Þá hef ég einnig séð tillögu um að kalla hann stallara.

Ég skila auðu í málinu.

Þessi orð eru skrifuð í háloftunum fyrir sunnan Ísland þegar flugstjóri Icelandair-vélarinnar Kötlu var að tilkynna okkur farþegum hans í flugini frá Brussel að tæpar 30 mínútur væru eftir til Keflavíkurflugvallar og við myndum lenda aðeins á undan áætlun.

Þannig lýkur þriggja nátta ánægjulegri ferð til Brussel. Í flugvélinni er nettenging og set ég þetta því inn á vefsíðuna um leið og vélin tekur að lækka sig.

Laugardagur 26. 11. 16 - 26.11.2016 17:00

 

Mannfjöldinn á götum Brussel er mikill í dag. Jólamarkaðurinn var opnaður með pomp og prakt í gær. Uppljómaðir ísbirnir gengu fylktu liði frá kauphöllinni út á óperutorgið þar sem skautasvell kallar á gesti. Glögg er borið fram í kaffihúsum og á markaðnum.

Til hliðar og inni á meðal mannfjöldans ganga hermenn gráir fyrir járnum með hriðskotabyssur í fanginu. Viðbúnaðinn má rekja til hryðjuverkanna hér fyrr á árinu. Þau hræða þó grreinilega ekki fólk frá að koma saman.

Mikilli umferðaræð í hjarta borgarinnar hefur verið lokað fyrir bílaumferð. Það er ekki af varkárni vegna hættu á hryðjuverkum heldur vegna andúðar nýs borgarstjóra á einkabílnum sagði bílstjóri nokku og taldi þetta aðför að eðlilegu mannlífi í miðborginni.

Síðast þegar forseti Íslands lét hjá líða að veita nokkrum einum umboð til stjórnarmyndunar leiddi það til þess að Gunnar Thoroddsen klauf þinglokk Sjálfstæðismanna og myndaði veikburða stjórn með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi.

Spennandi verður að sjá hvað gerist núna. Ákvörðun forsetans er gagnrýniverð nema honum hafi að öðrum kosti þótt sér skylt að fela þríeyki Pírata umboðið eða tvíhöfðanum Benedikt og Óttari umboðið. Forseta er alls ekki skylt að setja slíka hringekju af stað. Hann hefði átt að fela Bjarna Benediktssyni umboðið að nýju.

Í Morgunblaðinu birtir Agnes Bragadóttir fréttaskýringu sem dregur aðra mynd af tilraun Katrínar Jakobsdóttur (VG) til að mynda stjórn en ummæli um farsæla forystu hennar gáfu til kynna áður en upp úr slitnaði.

Það hefur fallið á silfur Katrínar í þessum sviptingum. Hitt er þó enn undarlegra að Píratar skuli enn hafa Birgittu Jónsdóttur sem helsta talsmann sinn. Hafi kosningarnar nú orðið til að hafa varanleg áhrif á stjórnmálastarf í landinu snýr það að Pírötum. Þeir ná aldrei að hafa annað en yfirlýsingaáhrif á framvindu stjórnmála á meðan Birgitta er í forystu þeirra. Annaðhvort velta þeir henni úr sessi eða verða áfram í raun áhrifalausir nema í fréttatímum.

Sagt er frá því að útlendingayfirvöld séu tekin til við að beita reglunni um tveggja ára bann við endurkomu á Schengen-svæðið við afgreiðslu mála hælisleitenda frá Makedóníu og Albaníu. Það var tími til kominn og í fréttum ríkisútvarpsins var sagt að 40 hefðu dregið hælisumsókn sína til baka. 

Föstudagur 25. 11. 16 - 25.11.2016 14:15

Í dag rifjaðist upp fyrir mér þegar ég skrapp í heimsókn í höfuðstöðvar NATO í Brussel að um hálf öld er síðan ég kom þangað fyrst. NATO flutti þá frá París til Brussel í búðir belgíska flughersins enda bar þetta brátt að vegna ákvörðunar Charles de Gaulles Frakklandsforseta sem vildi árétta sjálfstæði Frakka á þennan hátt og setja skil á milli sín og Bandaríkjastjórnar á skýrari hátt en áður.

Bandalagið hefur starfað á þessum stað síðan í lágreistum byggingum. Aðildarríkjunum hefur fjölgað úr 12 í 28 (brátt 29) og húsnæðisvandinn hefur verið leystur með því að bæta við fleiri 3ja hæða einingum og lengja gangana. Anddyrið er enn sama og áður, öryggisgæsla við inngöngu í höfuðstöðvarnar hefur þó verið aukin til muna. Gestir mega til dæmis ekki taka með sér farsíma inn í bygginguna.

Handan við götuna sem áður var hraðbraut en er nú orðin að einskonar innan-borgargötu með sporvögnum er nú verið að leggja lokahönd á nýjar byggingar sem eiga að hýsa NATO. Þegar spurt er hvenær verði flutt vill enginn nefna ákveðna dagsetningu. Svo oft hafi dagsetningar ekki staðist en það verði væntanlega næsta sumar.

Í NATO eins og annars staðar ræða menn hvaða breytingar verða vegna sigurs Donalds Trumps. Enginn efast um að Bandaríkjamenn verði áfram þungamiðjuþjóð innan bandalagsins. Óvissuþættir tengjast þó fleiru: Brexit, þjóðaratkvæðagreiðslu á Ítalíu, forsetakosningum í Frakklandi, þingkosningum í Þýskalandi og síðast en ekki síst ástandinu í Tyrklandi.

Nú er samtal okkar dr. Vilborgar Auðar Ísleifsdóttur sagnfræðings komið á netið eins og sjá má hér.

Það var frumsýnt á ÍNN miðvikudaginn 23. nóvember og fjallar um bókina Land föður míns sem Vilborg þýddi og gefin er út af Uglu.

Fimmtudagur 24. 11. 16 - 24.11.2016 16:15

Flugum til Brussel í morgun með Icelandair. Allt var á áætlun, gott ferðaveður og einnig er veðrið í Brussel gott. Miðborgin var lokuð vegna mótmæla starfsmanna á sviði heislugæslu og menningarmála. Ekki var unnt að aka að hótelinu og fjöldi fólks í sérstökum klæðnaði mótmælenda setti svip á borgarlífið en kröfugöngum var lokið þegar við vorum á ferðinni um hádegisbilið.

Það er verið að setja upp risastóra jötu á Grand Place og þar er nú fagurlega skreytt jólatré. Þá má sjá á öllu umstaningu í kringum kauphöllina að árlegi jólamarkaðurinn þar verður opnaður um helgina.

Belgía er sérkennilegt ríki, skipt í fjóra hluta: Brussel, Vallóníu, Flæmingjaland og land þýskumælandi. Þing Vallóna komst í fréttir á dögunum þegar það andmælit fríverslunarsamningi ESB og Kanada. Fyrir þessu voru ekki síst ástæður sem rekja má til stjórnmálaástandsins í Belgíu en sósíalistar sem ráða miklu í Vallóníu eiga ekki menn í sambandsstjórninni. Þeim þótti því ekkert að því að skapa ríksstjórn eigin lands vandræði og þrýsting frá ráðamönnum innan ESB.

Belgar eiga heimsmet í lengd stjórnarkreppu, 541 dag, árið 2011. Það met jók ekki trú manna á stjórnarháttum í landinu.

Nú hefur stjórnarkreppa hjá okkur staðið síðan 30. október. Þegar svo er var skrýtið að heyra stjórnmálafræðing ríkisútvarpsins, Eirík Bergmann Einarsson,  segja í gær að nú færi að glitta í stjórnarkreppu. Hvaða ástand telur stjórnmálafræðingurinn að hafi ríkt í landstjórninni frá 30. október? 

Miðvikudagur 23. 11. 16 - 23.11.2016 11:00

Utanríkisráðherrar EFTA-landanna, Íslands, Liechtensteins, Noregs og Sviss hittust á fundi í Genf mánudaginn 21. nóvember. Eftir fundinn er ljóst að ríkisstjórnir Íslands og Sviss eru jákvæðari fyrir aðild Breta að EFTA eftir útgöngu þeirra úr ESB en Norðmenn. Johann Schneider-Amman, forseti Sviss, sagði að vildu Bretar nálgast EFTA með aðild í huga væru Svisslendingar tilbúnir að ræða málið.

Lilja D. Alfreðsdóttir utanríkisráðherra sagði að loknum fundinum mikilvægt að EFTA-ríkin yrðu samstíga og létu ekki ólíka hagsmuni eða samkeppni sín á milli hafa áhrif á samstarfið. Fyrir Ísland væru samskiptin og viðskiptin við Bretland eitt allra mikilvægasta utanríkismálið. Áður hefur Lilja lýst jákvæðu viðhorfi til aðildar Breta að EFTA og tekið annan pól í hæðina en norskir ráðherrar.

Tvíræðni Norðmanna birtist enn eftir fundinn í Genf og kann Lilja að vísa til hennar þegar hún áréttar nauðsyn þess að allir innan EFTA séu samstiga. Monica Mæland, viðskipta- og iðnaðarráðherra Noreg, sagði eftir Genfar-fundinn að Bretar væru mikilvægasta viðskiptaþjóð Norðmanna sem vildu viðhalda eins góðu sambandi við þá og unnt væri. Bretum yrði best borgið í eins nánum tengslum við innri markað ESB og verða mætti. Norðmönnum kæmi soft Brexit – mjúk útganga – best. Þeir hefðu ekki lýst neinum áhuga á EFTA-aðild. Sæktu þeir um hana yrði málið að sjálfsögðu rætt.

Aðild að EFTA er forsenda aðildar Breta að EES-samningnum. Sumir fréttaskýrendur gera því skóna að Norðmenn séu svona tregir í taumi þegar kemur að EFTA-aðild Breta vegna þess að þeir vilji ekki missa stöðuna sem stærsti og áhrifamesti aðilinn að EFTA-hlið EES-samningsins (Sviss er ekki í EES).

Hér skal ekki gert lítið úr slíkum þjóðarmetnaði. Hitt getur einnig verið skýring að meðal ráðamanna í Noregi og innan norska stjórnarráðsins gæti ríks vilja til náins sambands við ESB og norskir ESB-vinir vilji einfaldlega ekki segja eða gera neitt sem Brusselmenn telja að veiki stöðu sína gagnvart Bretum í komandi Brexit-viðræðum.

Breski blaðamaðurinn Christopher Booker ítrekaði í grein í The Sunday Telegraph 20. nóvember þá skoðun að eftir brottför úr ESB gætu Bretar aðeins staðið í viðskiptum „innan“ innri markaðarins á sama hátt og þeir gera nú með aðild að EES. Öryggisákvæði EES-samningsins veittu Bretum rétt til að hafa stjórn á fjölda innflytjenda. Booker er fróðastur breskra dálkahöfunda um tengsl Bretlands og ESB.

 

Þriðjudagur 22. 11. 16 - 22.11.2016 17:30

Anna Kinberg Batra, formaður Moderatarna, mið-hægriflokksins í Svíþjóð, segir í grein í Aftonbladet að ekki dugi að bæta aðferðir við að laga farand- og flóttafólk að sænsku þjóðlífi, það sé nauðsynlegt að herða eftirlit á landamærunum, takmarka dvalarheimildir og auka kröfur um að fólk sjái fyrir sér sjálft.

Batra var kjörin flokksformaður í janúar 2015 en flokkurinn fór illa út úr kosningunum árið 2014. Er það að hluta rakið til stefnu hans í útlendingamálum. Batra segir að stefnubreyting hennar sé ekki taktík til að ná í atkvæði frá Svíþjóðardemókrötunum heldur sé hún reist á þeirri sannfæringu hennar um nauðsyn strangari reglna vegna útlendinga.

Ríkisstjórn sænskra jafnaðarmanna viðurkenndi fyrir nokkru að ekki væri unnt að taka á móti öllum hælisleitendunum sem koma til Svíþjóðar og greip til gagnráðstafana.

Allt gerist þetta á sama tíma og engu er líkara en ekkert sé unnt að gera hér á landi til að stöðva streymi fólks til landsins sem kemur á ólögmætan hátt og krefst hælisvistar þegar á það er bent.

Að sjálfsögðu er unnt að grípa til hertra aðgerða hér á landi. Staðan er þannig núna að 957 einstaklingar hafa sótt um hæli á þessu ári. Af þeim eru um 62% frá Albaníu og Makedóníu. Það þýðir að ef 1200 milljónir kr. fara í þessa þjónustu á árinu, munu um 750 milljónir fara í að þjónusta fólk með tilhæfulausar umsóknir.

Hvatinn er fyrst og fremst: 1. Frítt húsnæði og uppihald 2. Svört atvinna 3. Heilbrigðisþjónusta. Það er með öðrum orðum talið fjárhagslega ábatasamt að koma hingað.

Athygli fjölmiðla beinist ekki að undirrót þessara skipulögðu ferða hingað heldur mætti helst ætla af fréttum að um eitthvert náttúrulögmál sé að ræða. Óskiljanlegt er hvers vegna ekki er gripið til jafnskipulagðra gagnaðgerða af hálfu stjórnvalda og þeir beita sem sjá um ferðir fólksins hingað. Þar má til dæmis nefna fjölgun lögreglumanna í flugstöð Leifs Eríkssonar og starfsstöð fyrir lögfræðinga Útlendingastofnunar þar til að strax séu teknar ákvarðanir í máli fólks sem hefur enga heimild til að fara inn í landið heldur vill nýta þá þrjá liði sem að ofan eru nefndir.

Vilji menn ekki sjá þessi mál fara enn meira úr böndunum hér þarf sameiginlegt átak stofnana innanlands og erlendis. Hvers vegna hleypa Danir eða aðrir þessu fólki inn á Schengen-svæðið? Hafa sendiráð Íslands leitað skýringa á því?

Þegar Svíar hertu reglur sínar vegna útlendinga áttu þeir samstarf við Dani. Hvers vegna hafa Íslendingar ekki stofnað til slíks samstarfs vegna flugferða til Íslands?

 

 

Mánudagur 21. 11. 16 - 21.11.2016 17:40

Þegar Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hvarf miðvikudaginn 16. nóvember frá viðræðum við fulltrúa Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sagðist hann hafa „stöðvað“ viðræðurnar. Hann sagðist ekki hafa slitið þeim. Mikilvægt er að hafa þetta í huga þegar litið er til orða sem talsmenn Viðreisnar nota til að afsaka aðild flokksins að fimmflokka-flækjunni sem nú hefur myndast og snýst um að koma hér á meirihlutastjórn undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur.

Þegar Bjarni stöðvaði viðræðurnar sagði hann að fundir flokkanna að undanförnu hefðu leitt í ljós góðan samhljóm um ýmis mál, en áherslumun um útfærslu annarra, enda væri stefna flokkanna ólík á ýmsum sviðum og orðrétt:

„Ég tel að samtöl undanfarinna daga hafi leitt í ljós að það væri afar óvarlegt að leggja af stað með þann málefnagrunn sem um er rætt og nauman meirihluta inn í kjörtímabilið. Margt segir mér að aðstæður kalli á ríkisstjórn með breiðari skírskotun og sterkari meirihluta en þann sem þessir þrír flokkar geta boðið. Ég útiloka ekkert fyrirfram í þeim efnum.“

Þarna ræddu saman fulltrúar 3ja flokka með 32 menn á þingi. Nú ræða saman fulltrúar fimm flokka með 34 menn á þingi. Katrín stundar í raun glæfraspil sem ræðst af óvild í garð framsóknarmanna og sjálfstæðismanna og valdafíkn sem birtist til dæmis í fráhvarfi forystumanna pírata frá öllum meginsjónarmiðum sínum.

Öllum er ljóst að VG-forystan braut öll helstu kosningaloforð sín við aðild að  ríkisstjórn árið 2009. Hefur verið skrifuð heil bók um þessi svik. Nú stefnir í að píratar svíki öll meginloforð sín til dæmis um ekki-þingmenn í ríkisstjórn eða að kjörtímabilið verði aðeins 9 mánuðir og þeir verði notaðir til að setja nýja stjórnarskrá.

Í þessu ljósi er enn undarlegra en ella að eitt helsa límið á milli þátttakenda í fimmflokka-flækjunni er krafa um að Sjálfstæðisflokkurinn standi við það sem sumir í flækjunni telja loforð frá 2013 um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um dauða ESB-aðildarumsókn frá árinu 2009. Ekki er nóg með að þessi umsókn sé dauð heldur hefur hún næstum gengið að Samfylkingunni dauðri. Þrír þingmenn hennar eru þó á sjó dregnir til að tryggja flækjunni meirihluta á þingi.

Að nýkjörinn forseti Íslands horfi upp á að svona sé farið með umboð sem hann veitir sýnir ekki annað en að hann hlýtur að hafa ofurtrú á Katrínu Jakobsdóttur.

 

Sunnudagur 20. 11. 16 - 20.11.2016 10:00

Laugardaginn 19. nóvember birtist úttekt á vefsíðu Viðskiptablaðsins, vb.is, á skuldastöðu verst settu sveitarfélaga landsins. Þar sagði meðal annars:

„Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er áhugaverð og þá sérstaklega í því ljósi að borgin rekur stórt orkufyrirtæki — Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Heildarskuldir og skuldbindingar borgarinnar námu 301,6 milljörðum króna 1. janúar síðastliðinn. Þetta jafngildir 3,1 milljón króna á hvern borgarbúa, sem náð hefur 16 ára aldri. Skuldir á hvern íbúa eru einungis hærri í tveimur sveitarfélögum, en það eru Reykjanesbær og Fljótsdalshérað.

Í reglugerð er ákvæði, sem heimilar að undanskilja veitu- og orkufyrirtæki við útreikninga á skuldaviðmiði, þess vegna er skuldaviðmið borgarinnar ekki hærra en raun ber vitni. Skuldahlutfallið, þá er staða OR meðal annars tekin með í reikninginn, er hins vegar 210% og er það einungis hærra í Reykjanesbæ og Fljótsdalshéraði. Skuldir borgarsjóðs (A-hluti) nema 80,7 milljörðum króna, sem jafngildir ríflega 800 þúsund krónum á hvern íbúa.“

Það er með nokkrum ólíkindum að ekki skuli kafað meira í fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar í fjölmiðlum í því skyni að upplýsa borgarbúa og alla landsmenn um hvernig í ósköpunum hefur tekist að koma höfuðborginni í þessa ömurlegu skuldastöðu. Reynslan sýnir að ekkert þýðir að ræða málið af alvöru við Dag B. Eggertsson borgarstjóra. Hann er í afneitun gagnvart vandanum og tekur aðeins til við að kvarta undan samskiptum við ríkisvaldið og skilningsleysi þess á þörf borgarinnar fyrir meiri tekjur.

Þegar rætt er við þá sem eiga í samskiptum við Reykjavíkurborg vegna skipulags- og byggingarmála tekur ekki langan tíma að skynja að á því sviði ríkir einhvers konar ógnar- eða frekjustjórn undir forystu Hjálmars Sveinssonar, formanns ráðs borgarstjórnar sem fer með þessi mál.  Arkitektar og verktakar verða að sitja og standa í samræmi við duttlunga Hjálmars. Viðbrögð hans við hvers konar gagnrýni stjórnast af geðþótta og þess vegna kjósa menn að „hafa hann góðan“ frekar en hreyfa andmælum eða stofna til opinberra umræðna um mál sem eiga að vera gegnsæ eðli málsins samkvæmt.

Dagur B. og Hjálmar áttu báðir bakland í Samfylkingunni sem orðin er að engu í borginni. Það má því segja að stuðningsmenn þeirra hafi kosið að greiða atkvæði með fótunum og ganga til liðs við aðra flokka frekar en sýna Samfylkingunni og trúnaðarmönnum hennar traust.

Undir forystu af þessu tagi skella skulda-boðaföllin á Reykjavíkurborg, að Degi B., Hjálmari og félögum takist að ráða við vandann er borin von. Ábyrgð þeirra er mikil sem ætla leiða sama mynstur í landstjórnina.

 

Laugardagur 19. 11. 16 - 19.11.2016 17:50

Viðtal mitt á ÍNN við Robert G. Loftis, prófessor við Boston University, um brottför varnarliðsins er nú komið á netið og má sjá það hér. Sömu sögu er að segja um þýðingu mína á viðtalinu og er hún hér. Viðtalið var tekið í annarri viku október svo að þess vegna spurði ég hann ekki um kosningasigur Donalds Trumps.

Í dag efndi Reykjavíkurakademían til málþings í Iðnó um fjölmiðlun í almannaþágu. Fjórir háskólakennarar frá útlöndum fluttu upplýsandi erindi um málið. Í lokin vorum við fjögur frá Íslandi sem tókum þátt í pallborðsumræðum. Sjónarhorn málþingsins var stærra en að ná aðeins til ríkisútvarpsins þótt að sjálfsögðu bæri stöðu þess á góma.

Ýmsir kraftar vinna að breytingum á þessu sviði miðlunar. Þeir sem fjalla um þetta mál mega hafa sig alla við til að halda í við tækni- og fjarskiptaþróunina. Fyrir nokkru ræddu menn á ensku um stöðu almannaútvarps, Public Service Broadcasting (PBS) nú heitir þetta Public Service Media (PSM), almannafjölmiðlun. Ný tækni veldur þarna byltingu eins og á öðrum sviðum.

Þegar ég hugaði að orðum mínum í pallborðinu. Kom tvennt í hugann: a) að óhjákvæmilegt væri að ríkið stæði að baki almannaþjónustu á þessu sviði eins og öðrum sem snerta innviði samfélagsins; b) að við ráðstöfun á almannafé til miðlunar hlytu menn að líta til máltækni og fella ætti í einn farveg stuðning við rafræna miðlun og efnisgerð.

Dr. Gauti Sigþórsson, fagstjóri í miðlun við háskólann í Greenwich í London, var meðal ræðumanna. Hann lýsti vel framvindunni, nýjum viðhorfum og tæknibreytingunum, í einu orði: byltingunni. Niðurstaða Gauta kom mér skemmtilega á óvart því að hann taldi að efnismiðlun og tækni félli saman og þess vegna yrði að líta til máltækni í þessu samhengi ekki síst fyrir snjalltæki í höndum ungs fólks, nýrrar kynslóðar.

Dr. Henrik Söndergaard, dósent við Kaupmannahafnarháskóla, lýsti niðurstöðum í skýrslu sem hann tók þátt í að semja um framtíð almannaþjónustu í fjölmiðlum í Danmörku. Danir eru að feta sig inn á nýjar brautir með því að efla sjóð til efnisgerðar til að auðvelda einkaaðilum. Einnig er líklegt að þrengt verði að danska ríkisútvarpinu, DR, við efnisval þess til að skapa einkaaðilum meira svigrúm en þeir hafa nú.

Stundum er augljóst að eitthvað gerist óhjákvæmlega. Verði þetta upphaf að breiðri umræðu um fjölmiðlun í almannaþágu er grunnurinn góður.

 

Föstudagur 18. 11. 16 - 18.11.2016 17:30

Sumar fréttir af stjórnarmyndunarviðræðum benda til þess að þátttakendur í þeim líti á þær sem samkvæmisleik, tækifæri til að láta ljós sitt skína og hreyfa athugasemdum um aðra án þess að segja neitt hvað fyrir þeim sjálfum vakir. Þetta stafar ef til vill af æfingarleysi þeirra sem hlut eiga að máli og átta sig ekki á ábyrgðinni sem á þeim hvílir, að leggja grunn að starfhæfri stjórn sem geti viðhaldið festunni og stöðugleikanum sem fráfarandi stjórn hefur tekist að skapa.

Furðulegasta fyrirbæri í samkvæmisleiknum er spurningaþátturinn um ESB. Deilt er um hvaða spurningar eigi að leggja fyrir þjóðina til að þóknast þeim sem vilja aðild en þora ekki að lýsa áhuga sínum á henni opinberlega. Að vangaveltur um þetta mál setji jafnmikinn svip á viðræðurnar og af er látið - ESB-málið, er oft nefnt sem þriðja helsta ágreiningsmálið - hlýtur að veikja tiltrú annarra þjóða manna á veruleikamati þeirra sem hlut eiga að máli.

Innan ESB keppast ráðamenn við að lýsa skoðunum sínum í þá veru að tilvistarkreppa ESB sé meiri en nokkru sinni fyrr. Komi ekki frumkvæði frá stjórnendum Þýskalands og Frakklands til bjargar ESB kunni það einfaldlega að liðast í sundur. Frakkar búa sig undir forsetakosningar næsta vor og Þjóðverjar þingkosningar næsta haust. Í forsetakosningunum óttast ríkjandi ráðamenn Frakklands að Marine Le Pen kunni að sigra með óvild í garð ESB að vopni. Síðan boði hún þjóðaratkvæðagreiðslu um úrsögn Frakka.

Brusselmenn vita ekkert hvernig þeir eiga að taka á úrsagnarákvörðun Breta. Í upphafi höfðu þeir í hótunum um mikla hörku, síðan drógu þeir í land í opinberum yfirlýsingum en hótanirnar eru fyrir hendi. Nýtur Brusselvaldið stuðnings allra ríkisstjórna ESB-landanna í mámálatilbúnaðilartilbúnaði sínum gagnvart Bretum? Það veit enginn.

Allir sem líta alvöruaugum til ESB vita að stækkunarviðræður við Íslendingar er svo neðarlega á dagskrá hjá þeim sem yrðu að koma að viðræðum við Íslendinga að þær komast alls ekki á blað, enginn leiðir hugann að þeim nema þeir sem líta á stjórnarmyndun á Íslandi sem samkvæmisleik. Það eitt veikir stöðu viðkomandi stjórnmálaflokka út á við og þar með traust til þjóðarinnar. Þessum leik verður að ljúka. Forystumenn flokkanna verða hafa þrek til að horfast í augu við staðreyndir og ræða mál á þeim grunni.

Fimmtudagur 17. 11. 16 - 17.11.2016 11:00

Það er einkennilegt að íslenskir fjölmiðlamenn hafi ekki sameinast um eitt viðunandi starfsheiti á æðsta starfsmanni Hvíta hússins, chief of staff, við hlið forsetans. Á norsku tala menn um stabssjef, á dönsku og þýsku stabschef en á frönsku kalla þeir hann secrétaire general.

Norðmenn, Danir og Þjóðverjar nota orð sem tengist hermennsku og allir skilja sem þekkja til hennar og orðnotkunar þar, herráðsforingi. Frakkarnir nota orð íslenskuð eru með orðunum framkvæmdastjóri (NATO) eða aðalritari (SÞ). Orðin starfsmannastjóri eða skrifstofustjóri sem gjarnan eru notuð hér í fréttum gera minna úr áhrifavaldi þessa embættismanns en réttmætt er. Þá hefur fréttastofa ríkisútvarpsins kallað hann „yfirmann forsetaembættisins“ sem gengur ekki.

Eiður Svannberg Guðnason heldur úti bloggi þar sem hann ræðir málfar í fjölmiðlum. Þar segir í gær, miðvikudaginn 16. nóvember:

„Molavin skrifaði (14.11.2016) um meinloku, sem aftur og aftur kemur upp í fréttum, og oftar en einu sinni hefur verið fjallað um í Molum. Molavin segir: ,, Enn vefst það fyrir fréttastofu Bylgjunnar (í hádegisfréttum 14.11.) hvert sé hlutverk æðsta embættismanns bandaríska forsætisembættisins, Chief of Staff. Bylgjan kallar hann starfsmannastjóra og segir hann annast ráðningar starfsfólks embættisins. Það sem nú er í tízku að kalla mannauðsstjóra. Þegar CNN birti þessa frétt fyrst í gærkvöld var vel útskýrt að þetta jafngildi einna helzt forsætisráðherraembætti. Heitið er komið úr hernum, yfirmaður herráðs, og Chief of Staff er milliliður forsetans við alla ráðherra, velur jafnvel í ráðherraembætti í samráði við forsetann og er hans hægri hönd. Við forsetaembættið starfar svo sérstök deild starfsmannamála og þar er yfirmaður sem mætti kalla starfsmannastjóra.“ Áður hefur verið vikið að þessu í Molum, sem fyrr segir, en skrifari [Eiður] þakkar Molavin þessar ágætu útskýringar.- Í seinni fréttum Ríkissjónvarps þennan sama dag var enn og aftur talað um starfsmannastjóra Hvíta hússins. Út í hött. Þetta er ekki flókið mál. Chief of staff í Hvíta húsinu er ekki starfsmannastjóri.“

Hvað á að kalla þennan embættismann á íslensku? Við höfum ekki skilning á inntaki tignarheita í hernum. Þá er að velja borgaralegu lausnina eins og Frakkar gera. Hvort er skynsamlegra að tala um framkvæmdastjóra, aðalritara eða forstöðumann forsetaembættisins og þar með Hvíta hússins?

Þá verður að gera mun á þessum embættismanni og því starfi sem Stephen Bannon á að gegna hjá Trump og Frakkar lýsa sem conseiller stratégique eða strategískum ráðgjafa. Karl Rove gegndi þessu starfi hjá George W. Bush á sínum tíma.

 

 

Miðvikudagur 16. 11. 16 - 16.11.2016 11:45

Verði Katrín Jakobsdóttir með umboð forseta Íslands til að mynda ríkisstjórn eftir fund sinn með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, í dag er það, ef rétt er athugað, í fjórða sinn sem flokksformanni svo utarlega á vinstri væng stjórnmálanna er veitt slíkt umboð.

Kristján Eldjárn braut ísinn sumarið 1978 þegar hann veitti Lúðvíki Jósepssyni, formanni Alþýðubandalagsins, umboðið við gagnrýni ýmissa, þar á meðal leiðarahöfundar Morgunblaðsins. Tók Kristján gagnrýninni illa. Morgunblaðið varði afstöðu sína enn í leiðara 13. júní árið 2004 þegar Guðni Th. Jóhannesson vék að blaðinu og afstöðu þess á fundi sagnfræðinga og sagði að Kristján Eldjárn hefði staðið rétt að málum.  Í leiðaranum í júní 2004 sagði meðal annars:

„Það getur verið erfitt fyrir unga sagnfræðinga nútímans að setja sig inn í andrúm kalda stríðsins. Það verða þeir þó að gera til þess að geta lagt hlutlægt mat á mál eins og þetta. Lúðvík Jósepsson, sem var að mörgu leyti vel metinn stjórnmálamaður, ekki sízt meðal fólks í atvinnulífinu, hefði aldrei getað myndað ríkisstjórn á Íslandi á þessum tíma - hvað þá komið fram sem slíkur í samskiptum við Atlantshafsbandalagið og Bandaríkin!“

Nú situr ungi sagnfræðingurinn sem forseti á Bessastöðum og glímir eins og Kristján við að tryggja ríkinu starfhæfa ríkisstjórn. Kristján leit á hlutverk sitt sem formlegt en velti fyrir sér eftir á hvort hann hefði átt að hafa meiri efnisleg afskipti af framvindu mála.   

Um þetta segir Guðni Th. Jóhannesson meðal annars hér:

„Stundum var Kristján full umburðarlyndur í garð þeirra stjórnmálamanna sem höfðu umboð til stjórnarmyndunar. Sömuleiðis hefði hann mátt kveða fastar að orði um þá kosti sem honum sýndist vænlegastir. [...] Eftir stóð sú lofsverða afstaða Kristjáns Eldjárns að reyna ekki að ráða því sjálfur hverjir settust í stjórn og hverjir ekki. Að því leyti var hann svo sannarlega ópólitískur forseti.“

Guðni Th. vill vera ópólitískur forseti en af ofangreindum orðum má þó ráða að hann telji það í verkahring forseta að benda á „vænlegustu“ kosti að eigin mati. Hvað skyldi hann segja um þá við Katrínu?

Eftir að Lúðvík Jósepsson reyndi árangurslaust að mynda stjórn árið 1978 fékk Svavar Gestsson, þáv. formaður Alþýðubandalagsins, umboðið tvisvar sinnum, frá Kristjáni snemma árs 1980 og Vigdísi Finnbogadóttur í maí 1983.

Þriðjudagur 15. 11. 16 - 15.11.2016 15:30

Uppnámið sem sigur Donalds Trumps í bandarísku forsetakosningunum veldur tekur á sig ýmsar myndir. Þar á meðal má nefna að kennara við framhaldsskóla í San Fransisco var vísað tímabundið frá störfum vegna þess að hann bar saman stefnu Adolfs Hitlers og Donald Trumps. Báðir hefðu lofað að reka útlendinga á brott og að tryggja að lönd þeirra yrðu „mikil að nýju“. 

Foreldri kvartaði undan að þessari aðferð væri beitt við kennslu. Kennarinn, sem hefur kennt við skólann í 40 ár og er sérfræðingur í gyðingaofsóknum Hitlers, var leystur frá störfum 10. nóvember en sneri aftur í skólann 15. nóvember eftir að 35.000 manns höfðu skrifað undir mótmæli við skólastjórnina og lýst aðferð hennar bæði sem „hættulegri og skammarlegri“.

Fyrir nokkrum mánuðum var mér bent á vefsíðuna breitbart.com. Þangað skyldi ég leita upplýsinga um Donald Trump og baráttu hans frekar en á síður vinstrisinnaðra bandarískra fjölmiðla. Síðar varð Steve Bannon, aðalmaðurinn á Breitbart, kosningastjóri Trumps og nú hefur verið tilkynnt að hann verði einskonar hugmyndafræðingur Hvíta hússins eftir að Trump verður húsbóndi þar.

Ákvörðunin um að ráða Bannon til starfa á vegum Trumps í Hvíta húsinu hefur vakið reiði og hneykslun og er hann borinn mörgum sökum. Gamalgrónu áhrifaöflin líta á hann sem outsider sem lýtur ekki lögmálum pólitíska rétttrúnaðarins. 

Bannon hefur marga hildi háð og sýnt framsýni og áræði á mörgum sviðum. Eitt helsta árásarefnið á Bannon og Breitbart News er að þar sé haldið á loft þjóðernisstefnu hvíta mannsins og ýtt undir gyðingahatur.

Málsvarar Bannons og vefsíðunnar segja þetta alrangt. Reiðina í garð Bannons megi rekja til þess hve mikils virði hann var fyrir Trump og þar með kosningasigur hans.

Heitu tilfinningarnar sem ráðning Bannons vekur sýna enn hve margir eiga erfitt með að sætta sig við sigur Trumps. Varðstaða innan Hvíta hússins um hugmyndafræði og kosningasigur sem er ekki síst reistur á loforði um að „hreinsa mýrina“ í Washington mælist að sjálfsögðu illa fyrir hjá þeim sem óttast að verða fórnarlömb „hreinsananna“.

 

Mánudagur 14. 11. 16 - 14.11.2016 15:15

Margir velta fyrir sér úrslitum kosninganna hér á landi. Þar sem Samfylkingin fékk aðeins 0,7% umfram það að falla af þingi (5,7% atkvæða, þrjá þingmenn, enga úr Reykjavík eða suðvesturkjördæmi). Formaður flokksins sagði af sér og framkvæmdastjóri. Flokkurinn er lamaður og hefur ekki einu sinni neina burði til að efna til naflaskoðunar.

Löngum hefur verið litið þannig á að ýmsir af helstu álitsgjöfum ríkisútvarpsins séu hallir undir Samfylkinguna. Þeir hafa nú fengið vettvang til uppgjörs við kosningabaráttuna á hádegisfundi sem Félag stjórnmálafræðinga stendur fyrir, í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands. Í kynningu á fundinum segir:

„Með innlegg í panel verða þau Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði, Þórunn Elísabet Bogadóttir aðstoðarritstjóri Kjarnans, Andrés Jónsson almannatengill og framkvæmdastjóri Góðra samskipta og Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði.  Þau munu fara yfir spurningar á borð við hvað, ef eitthvað, var óvanalegt við þessa kosningabaráttu, hefur fjöldi flokka í framboði áhrif á hvort að vísir að blokkamyndun flokka myndist og hverjum gagnast neikvæð kosningabarátta.“

Skyldi Sjálfstæðisflokkurinn fá sanngjarna umsögn á þessum fundi? Gunnar Helgi kallaði okkur nokkra skrímsladeild flokksins á sínum tíma. Fyrir þessar kosningar hafði Svanur Kristjánsson, prófessor emeritus úr stjórnmáladeildinni í HÍ, fundið aðra skrímsladeild á vegum flokksins eða innan hans. Sé fræðiðkunin að baki þessu uppgjöri í þessum dúr skilar það ekki miklu heldur verður vatn á myllu þeirra sem þola ekki framgang Sjálfstæðisflokksins.

Hótanir og hræðsla eru ekki heppilegir förunautar í stjórnmálum. Nú er Óttari Proppé, formanni Bjartrar framtíðar, bæði hótað og mögnuð upp hræðsla vegna ákvarðana hans um að láta reyna á hvort samningar takist um stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn.

Undir lok júní 2015 lagði Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, til á alþingi að þingfundir hefðust á hópsöng þingmanna. Þá myndu þingmenn íhuga í fimm mínútur í þögn. Skilja verður orð Páls Vals „íhuga“ á þann veg að hann mæli með hugleiðslu í fimm múnútur.

Þessum vinsamlega boðskap hefur Páll Valur gleymt núna. Hann náði að vísu ekki endurkjöri og reiðist vafalaust vegna þess. Þegar viðræður um stjórnarmyndun ber á góma hefur Páll Valur allt á hornum sér gagnvart Sjálfstæðisflokknum. „Það var kosið út af Panamaskjölunum og þar var Bjarni,“ segir Páll Valur. Var það vegna Panamaskjalanna sem Bjarni jók fylgi sitt en Páll Valur datt út af þingi?

Sunnudagur 13. 11. 14 - 13.11.2016 13:50

Fréttir herma að fulltrúar flokkanna þriggja sem nú vinna að myndun meirihlutastjórnar ætli að funda í allan dag. Það lofar ekki endilega góðu ef hópar manna sitja lengi yfir að semja langan stjórnarsáttmála. Mestu skiptir að forystumenn viðkomandi flokka nái saman. Án samstöðu þeirra er vegferðin vonlaus.

Í þessu sambandi er til dæmis rifjað upp núna í Bandaríkjunum að George W. Bush hét því fyrir kosningarnar 2000 að hann mundi helga sig innanríkismálum næði hann kjöri sem forseti. Hann sigraði og tók við í janúar 2001 en í 11. september það ár var árásin gerð á New York og Washington. Öryggis- og utanríkismálin urðu eftir það mál málanna í stjórnartíð Bush. Stjórnmálamenn verða að bregðast við aðstæðum.

Fyrir kosningar ræddi ég við frambjóðendur Sjálfstæðismanna úr norðvestur, norðaustur, suður- og suðvesturkjördæmum í þætti mínum á ÍNN. Í öllum þessum kjördæmum unnu Sjálfstæðismenn góða sigra. Allir frambjóðendurnir voru sammála um að kjósendur þeirra vildu að áhersla yrði lögð á innviði í víðum skilningi. Þar er bæði um fjárfestingu í mannvirkjum og aukna þjónustu að ræða.

Hvað sem líður ofurháu vaxtastigi Seðlabanka Íslands er ljóst að um heim allan eru vextir lægri nú en nokkru sinni. Að taka lán til arðbærra framkvæmda í innviðum er því hagstæðara nú en jafnan áður. Donald Trump vann sigur sinn í Bandaríkjunum með loforðum um að ráðast í stórtækar innviðaframkvæmdir. Slíkar framkvæmdir eru nauðsynlegar hér og margar þeirra eru mjög arðbærar sé litið til fjölgunar ferðamanna.

Ný ríkisstjórn á Íslandi ætti að líta fram á veginn í þessum efnum án þess að ríkið sjálft sé í ábyrgð eins og á Keflavíkurflugvelli þar sem talað er um 100 milljarða fjárfestingar.  Nú er mjög hagkvæmt að fjárfesta í nýbyggingum við Landspítalann – að slá þeim framkvæmdum á frest væri óðs manns æði.

Ríkið á að losa sig undan ábyrgð á fjárfestingum og rekstri sem er betur kominn í höndum einkaaðila. Leita verður aðstoðar erlendra sérfræðinga við slíka losun því að hvað eftir annað koma hér upp mál vegna sölu eigna ríkisins þar sem grunsemdir vakna um að ekki sé rétt að málum staðið. Móta á nýja meginstefnu í þessum málum við stjórnarmyndun en ekki sitja yfir smíði óskalista eða áformum um að raska því sem vel gengur.

Laugardagur 12. 11. 16 - 12.11.2016 16:15

Sigur Trumps í bandarísku forsetakosningunum hefur víða áhrif. Hann leiddi meðal annars til þess í gær að okkur áskrifendum The New York Times barst bréf undirritað af Arthur O. Sulzberger Jr. útgefanda og Dean Baquet aðalritstjóra blaðsins.

Erindi þeirra við mig og aðra áskrifendur er að fullvissa okkur um að blaðið og starfsmenn þessi muni eftir allt sem birt var fyrir kosningarnar og úrslit þeirra rededicate ourselves to the fundamental mission of Times journalism. That is to report America and the world honestly, without fear or favor, striving always to understand and reflect all political perspectives and life experiences in the stories that we bring to you.

Þeir gefa sem sagt loforð um bót og betrun í anda grundvallarhlutverks blaðsins, að segja fréttir frá Bandaríkjunum og heiminum öllum án ótta eða greiðasemi í viðleitni sinni til að skilja og skýra frá öllum stjórnmálaviðhorfum og lífsreynslu í fréttum og frásögnum sem blaðið flytur.

Eftir sigur Trumps risu margir upp og andmæltu fréttaflutningi NYT. Hann hefði verið hlutdrægur gegn Trump og einhliða. Undir lok bréfsins leggja þeir áherslu á gildi þess að njóta hollustu og trausts áskrifenda sinna og þakka þeim loks fyrir að halda tryggð við blaðið.

Bréfið er ekki ritað að ástæðulausu. Áskrifendur mótmæltu með uppsögnum og reiðilegum bréfum á samfélagsmiðlum.

Í fréttum um þetta bréf kemur fram að Dean Baquet gaf ritstjórn og blaðamönnum NYT skotleyfi á Trump. Innan blaðsins ríkti sá andi að hann væri óhæfur til að verða forseti Bandaríkjanna og þeirri skoðun var leynt og ljóst haldið að lesendum, þó undir yfirbragði þess að gætt væri hlutlægni og óhlutdrægni.

Við sjáum af viðbrögðum ráðamanna á fjölmiðlum hér á landi og hve illa þeir almennt bregðast við gagnrýni um hlutrdrægni hve stórt skref það var fyrir útgefanda og ritstjóra NYT að skrifa þetta bréf.

Nú er í tísku að segja þennan eða hinn hópinn og helst stjórnmálamenn lifa „í blöðru“. Þetta á ekki síður við um fjölmiðlamenn en aðra og í Bandaríkjunum snerust blöð sem hafa verið höll undir repúblíkana eins lengi og elstu menn muna nú gegn Trump.

Fyrstu yfirlýsingar Trumps nú um helgina benda til að hann mildi mjög afstöðu sína til manna og málefna miðað við orð sem féllu í kosningabaráttunni. Pólitíska fjörið er kannski rétt að byrja og enn mun reyna mjög á fjölmiðlamenn. 

Föstudagur 11. 11. 16 - 11.11.2016 18:45

 

Í dag sendi forsetaskrifstofan frá sér eftirfarandi tilkynningu:

„Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson átti í dag, föstudaginn 11. nóvember 2016, fund með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, um gang viðræðna hans við forystumenn annarra stjórnmálaflokka. Formaður Sjálfstæðisflokksins tjáði forseta að ákveðið hefði verið að hefja formlegar viðræður fulltrúa Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar um myndun ríkisstjórnar sem nyti stuðnings meirihluta á Alþingi.“

Þarna er lýst þáttaskilum í viðræðum um nýja stjórn rétt tæpum tveimur dögum eftir kosningarnar. Leiði þessar viðræður til myndunar ríkisstjórnar kemur til sögunnar stjórn sem yrði sannkölluð mið-hægristjórn.

Augljóst er að þetta skref hefði ekki verið stigið án þess að í ljós hafi komið í viðræðum forystumanna flokkanna undanfarna daga að ekki yrði strax siglt upp á sker. Flokksformennirnir hafa reifað samningsmarkmið sín og nú er að sjá hvort þeim tekst að stilla saman strengi.

Í fréttum ríkisútvarpsins var haft eftir Bjarna Benediktssyni að ESB-mál hefðu skapað vanda undanfarna sólarhringa. Það er með nokkrum ólíkindum hafi því verið haldið fram af formönnum Bjartrar framtíðar og Viðreisnar að nú strax eða á næstu árum sé nauðsynlegt að taka ákvarðanir í ESB-málum.

Í stjórnarmyndunarviðræðum eiga menn ekki að takast á við einhverja drauga úr fortíðinni. Þar á að ræða mál líðandi stundar og framtíðar, meta stöðu þjóðarinnar frjálsir af fánýtum fortíðardeilum. Alþingi hafnaði þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-umsókn árið 2009, aðildarviðræður sigldu í strand 2011, þeim var hætt í janúar 2013. ESB-flokkar urðu undir í kosningum 2013, ESB-viðræðum var slitið á síðasta kjörtímabili, ESB-flokkurinn þurrkaðist að mestu út 2016. ESB-málið var ekki kosningamál 2016, enginn prédikaði aðild. Að ESB-aðildarmál valdi vandræðum við stjórnarmyndun í nóvember 2016 er með ólíkindum.

Bretar, helsta viðskiptaþjóð okkar, er á leið úr ESB. Á þessari stundu veit enginn hvernig Bretum tekst að semja við ESB um úrsögn sína. Brýnasta verkefni íslenskra stjórnvalda nú gagnvart samstarfi við ESB-ríki er að tryggja farsælan samning við Breta samhliða EES-samningnum eða stuðla að aðild Breta að EES-samstarfinu. Þegar vitað verður um niðurstöðu ESB og Breta er tímabært fyrir okkur að huga enn á ný að samskiptunum við ESB.

Fimmtudagur 10. 11. 16 - 10.11.2016 17:15

Samtal mitt á ÍNN við Ásdísi Höllu Bragadóttur í gær er komið á netið eins og sjá má hér.

Ásdís Halla hefur skrifað bókina Tvísögu sem hefur vakið mikla athygli. Þetta saga móður hennar sem Ásdís Halla skráði við leitina að föður sínum. Ég spurði hvers vegna hún hefði ákveðið að gefa út svo nærgöngula persónu- og fjölskyldusögu. Svarið heyrum við í þættinum. 

Við ræðum einnig úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum.

Æðsti stjórnsýsludómstóll Frakklands, Conseil d'Etat, úrskurðaði miðvikudaginn 9. nóvember að það færi ekki í bága við lög frá 1905 um skil milli ríkis og kirkju að setja upp jötur með Maríu, Jósep, barninu Jesú og vitringunum þremur auk búsmala, hirðingja og Betlehem-stjörnunnar í opinberum byggingum eins og ráðhúsum í Frakklandi.

Jöturnar sem skreytt hafa ráðhús og torg um jól og áramót hafa farið fyrir brjóstið á frönskum samtökum sem líkjast Siðmennt eða Vantrú hér á landi. Þessi samtök skutu ákvörðunum bæjarstjórna tveggja bæja um að hafa jötur í ráðhúsum sínum til stjórnsýsludómara. Þau sögðu að ráðhús væru ekki venjulegir staðir fyrir jötur sem sýndu fæðingu Jesús.

Nú hefur æðsti stjórnsýsludómstóll Frakka loks bundið enda á þessar deilur sem magnast hafa ár frá ári. Hann segir að leyfa megi jöturnar í opinberum byggingum enda séu þær þar tímabundið, ekki sé neitt trúboð haft í frammi og umbúnaðurinn sé menningarlegur, listrænn og hátíðlegur. Þá er einnig heimilað að hafa jötur til sýnis utan dyra á götum og torgum.

Mikilvægt er fyrir Frakka að fá úr þessu skorið nú í þann mund sem unnið er að uppsetningu jólamarkaða sem verða sífellt vinsælli í Frakklandi eins og annars staðar í Evrópu. Setja þeir mikinn svip á borgir og bæi. Í könnun sem franska blaðið Le Parisien gerði á árinu 2014 kom í ljós að 86% af 12.000 svarendum kusu að jötur yrðu settar upp til hátíðarbrigða um jólin.

Afhelgun eða laïcité eins og sagt er á frönsku er talin meðal hornsteina franska lýðveldisins og fransks stjórnarfars. Hún veldur oft deilum meðal Frakka ekki síst þegar rætt er um menntamál og skólastarf. Þá hafa stjórnmáladeilur um inntak aðskilnaðarins magnast vegna fjölgunar múslima í Frakklandi og ágreinings um það meðal annars hvort slæður múslimakvenna séu trúartákn eða ekki.


Miðvikudagur 09. 11. 16 - 9.11.2016 16:30

 

Í dag ræddi ég við Ásdísi Höllu Bragadóttur í þætti mín á ÍNN í tilefni útkomu bókar hennar Tvísögu sem hefur vakið verulega athygli og selst vel. Áður en ég sneri mér að bókinni ræddi ég kosningaúrslitin í Bandaríkin og kom ekki að tómum kofanum. Viðtalið verður frumsýnt klukkan 20.00 í kvöld.

Mikil tíðindi urðu í Bandaríkjunum í gær þegar Donald Trump var kjörinn 45. forseti þjóðarinnar. Hann kom enn einu sinni á óvart. Enginn trúði því að hann mundi sigra í forkosningu repúblíkana, auðmaður frá Manhattan, sem aldrei hafði gegnt opinberu embætti. Hann sigraði engu að síður og var síðan tilnefndur á flokksþingi sem þótti frekar illa heppnað.

Talið var að rauði dregillinn hefði verið lagður fyrir Hillary Clinton í Hvíta húsið. Demókratar mundu mala repúblíkana sem yrðu langan tíma að sleikja sárin og raða saman flokksbrotunum. Nú eiga repúblíkanar forsetann, 32 ríkisstjóra af 50, meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings og ráða hverjir taka sæti í hæstarétti.

Allt gerðist þetta þrátt fyrir að fjölmiðlamenn og skoðanakannanir segðu að Hillary mundu sigra. Á kjördag sagði The New York Times að 85% líkur væru á sigri Hillary og 55% líkur á að demókratar fengju meirihluta í öldungadeild Bandaríkjaþings. Allt fór á annan veg. Demókrataflokkurinn er í molum. Barack Obama sem ætlaði að sigla sem sigurvegari úr Hvíta húsinu fer þaðan undir ásökunum um að störf hans og stefna hafi lagt grunn að tapi Hillary.

Clinton-fjölskyldan hefur sett ráðandi svip sinn á bandarísk stjórnmál í tæp 30 ár. Hún hverfur nú af sviðinu. Bush-fjölskyldan hefur verið ráðandi afl í Washington og víðar í Bandaríkjunum lengur en Clinton-fjölskyldan. Trump sigraði Jeb Bush í forskosningunni og talaði niður til hans. Bush-ættfaðarinn sagðist ekki ætla að kjósa forsetaframbjóðanda repúblíkana að þessu sinni. Í báðum flokkum hafa þessar kosningar ýtt gamalgrónum valdakjörnum, Clinton-fjölskyldunni og Bush-fjölskyldunni til hliðar.

Donald Trump höfðaði til andúðar á valdakerfinu í Washington. Hann gat í raun ekki valið sér betri andstæðing til að sanna kenningu sína um dauðahald í völd en Hillary Clinton. Trump fann tón sem hafði hljómgrunn hjá kjósendum.  

Of snemmt er að segja hver verða áhrifin af Trump-byltingunni. Til hennar verður litið þegar rætt verður um pólitíska stórviðburði eins og hrun Sovétríkjanna og Berlínarmúrsins eða ákvörðun Breta um að segja sig úr ESB.

 

Þriðjudagur 08. 11. 16 - 8.11.2016 11:00

Í dag ganga Bandaríkjamenn að kjörborðinu og velja sér forseta, þingmenn og fleiri embættismenn. Sérkennilegt er að víða hefur kosningalögum verið breytt á þann veg að fólk getur kosið fyrir kjördag og er talið að 43 milljónir manna af tæplega 130 milljónum sem líklegt er að kjósi hafi þegar greitt atkvæði. Þetta er umdeilt nýmæli. The New York Times telur 85% líkur á að Hillary Clinton sigri Donald Trump. Vonandi verða úrslitin á þann veg. Þá telur blaðið 55% líkur á að demókratar fái meirihluta í öldungadeild Bandaríkjaþings en það má ekki síst rekja til vandræða repúblíkana vegna framgöngu Trumps.

Orðbragð Trumps og persónulegar svívirðingar hans í garð andstæðinga sinna innan eigin flokks og utan munu ef til vill færa ræður og skrif um stjórnmál á lægra stig en ella víðar en í Bandaríkjunum.

Hér hafa svívirðingar í garð pólitískra andstæðinga lengi tíðkast. Eitt er orðbragðið annað tilraunir til að klína á menn eða flokka einhverju sem þeir eiga ekki skilið.

Í Fréttablaðið í dag skrifar Jón Sigurður Eyjólfsson, fastur bakþankahöfundur blaðsins, enn eina ófræingargreinina um frjálshyggjuna og Hannes Hólmstein Gissurarson. Skrif af þessu tagi eru orðin svo þreytt og slitin að einkennilegt er að þau skuli enn stunduð árið 2016. Jón Sigurður segir:

„Mér er minnisstæð grein Hannesar Hólmsteins frá liðnu sumri þar sem hann sagði eitthvað á þá leið að þeim sem gekk vel keyptu kvóta af hinum sem gekk ekki jafn vel.

En það er ekki þannig að jafnt sé gefið í upphafi og síðan vinni þeir duglegu og hæfileikaríku. Skattaskjólin, eignarhaldsfélögin, stjórnmálin, einkavinavæðingin, opinberar einkaframkvæmdir og innmúraður valdapíramíti snúast á sveif með einum meðan andstreymi óréttlætisins ríður húsum annarra í Efra Breiðholti og víðar. Þetta vita allir… sem vilja.

Samt sem áður eiga flokkar sem flytja fagnaðarerindi frjálshyggjunnar alltaf sitt fasta fylgi. Skiptir þá engu hversu mikinn auð og andlegt þrek frjálshyggjubröltið hefur kostað almenning. Það sér ekki á óbilandi trú þessa fólks á úrsérgenginni lyginni.“

Þetta eru kveinstafir vegna kosningaúrslitanna hér 29. október. Þarna er hugtakið frjálshyggja greinilega notað til að lýsa öllu neikvæðu sem höfundurinn sér í stjórnmálum. Einkennilegt er að hann kjósi aðeins að horfa til hægri. Hann forðast að líta til vinstri og greina til dæmis ástandið í Venezúela. Þar er stjórnað í anda þessara skrifa hans. 

Mánudagur 07. 11. 16 - 7.11.2016 15:15

Rauði krossins sendi á dögunum frá sér skýrslu sem ber heitið Fólkið í skugganum.Þar er sagt að ákveðnir hópar standi höllum fæti í Reykjavík, stærsti einstaki vandinn snúi að húsnæðismálum. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir húsnæðismál sín hjartans mál. Hann sagði í hádegisfréttum ríkisútvarpsins sunnudaginn 6. nóvember forgangsverkefni að fjölga húsnæðiskostum og að fjölgun félagslegra leiguíbúða yrði hraðari en áður.

Í tilefni af þessum orðum rifjaði Halldór Halldórsson, borgarstjórnaroddviti sjálfstæðismanna, upp stöðnun hefði verið varðandi félagslegar íbúðir í borginni síðan 2010, þann tíma sem Dagur B. Eggertsson hefur verið í meirihluta. Fyrst með Besta flokknum og svo frá 2014 með Pírötum, Bjartri framtíð og Vinstri grænum.

Davíð B. sagði Halldór „bulla. Halldór birti þá eftirfarandi á Facebook mánudaginn 7. nóvember:

„Árið 2010 voru 1.844 félagslegar leiguíbúðir.

Árið 2014 voru 1.817 félagslegar leiguíbúðir – fækkun um 27 íbúðir.

Árið 2015 voru 1.901 félagslegar leiguíbúðir – fjölgun um 84 íbúðir

Árið 2016 voru 1.916 félagslegar leiguíbúðir þann 3. nóvember skv. svari í borgarráði eða fjölgun um 15 íbúðir.

Þetta þýðir að frá 2010 hefur aðeins fjölgað um 72 félagslegar leiguíbúðir eða um 10 á ári á síðustu 7 árum. Stefnan var að fjölga um 100 á ári. Hefði það verið gert væru 2.544 félagslegar leiguíbúðir núna en ekki 1.916.

Á milli áranna 2015 og 2016 hefur þeim fjölgað um 15% sem eru á biðlista eftir félagslegri leiguíbúð. Í dag eru 844 einstaklingar á þeim lista. Það er væntanlega ekki erfitt að standa við þau orð sem borgarstjóri lét falla í viðtalinu að fjölgun félagslegra leiguíbúða verði hraðari en áður. En frá 2010 hefur ekki verið staðið við neitt í þessum málum.

Svo segir borgarstjóri mig bulla. Bullið er alfarið í boði borgarstjóra í þessum húsnæðismálum.“

Af þessu er augljóst að Dagur B. reyndi að slá sig til riddara á kostnað Halldórs Halldórssonar. Í lýsingu borgarstjóra á eigin ágæti og meirihlutans að baki honum er holur hljómur. Lýsingin einkennist af yfirlæti Samfylkingarinnar, yfirlætinu sem var hafnað í þingkosningunum.

Sunnudagur 06. 11. 16 - 6.11.2016 13:30

 

Áskriftartilboðin sem manni berast frá erlendum blöðum í netheimum taka á sig nýjar myndir. Nú fara æ fleiri blöð þá leið að bjóða svonefnda premium áskrift. Nýti maður sér hana má komast lengra inn á vefsíðu viðkomandi miðils. Þá er nú í boði hjá bresku síðunni telegraph.co.uk fyrir premium-áskrifendur að fá ársáskrift að The Washington Post í kaupbæti.

Á tíma mikilla tíðinda eins og forsetakosninga í Bandaríkjunum verða oft breytingar á miðlun frétta. Eigendur fjölmiðla leitast við að nýta sér fréttnæma viðburðinn til að ná til nýrra viðskiptavina. Þetta gerist núna. Hefðbundin dagblöð verða að fjölga miðlunarleiðum sínum til að ná til fleiri lesenda og þar með treysta stöðu sína á auglýsingamarkaði.

Frásagnir í netheimum eru oft langar og ítarlegar með miklu af myndum og innskotum lifandi mynda úr öðrum miðlum eða bútum sem teknir eru af Twitter eða öðrum samfélagsmiðlum. Þá er einnig algengt að fylgst sé stöðugt með viðburði og fréttum af honum miðlað stig af stigi eftir því sem sem framvindan er.

Við höfum áhyggjur af framtíð íslenskunnar í rafrænu umhverfi. Brýnt er að fylgja skipulega fram tillögum um tungutækni til að halda í við þróunina á því sviði. Þá er ekki síður ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu íslenskra fjölmiðla á þessu mikla breytingaskeiði. Til þessa hefur þeim tekist að halda í við tækniframfarir en eftir því sem þær verða örari er brýnna en ella að hafa burði til að laga fjölmiðlunina að tæknilega umhverfinu. Fjárhagslegir burðir allra íslkenskra fjölmiðla eru litlir.

Ég hef ekki orðið var við að hér sé boðin þjónusta við áskrifendur á netinu á borð við það sem fellur undir premium hjá erlendum miðlum. Áherslan á betra efni í netheimum endurspeglar breytingar á ritstjórnum viðkomandi miðla. Þær geta oft verið sársáukaflullar, einkum þar sem smákóngaveldi hefur festst í sessi.

Wagner-félagið á Íslandi hélt árshátíð sína í gærkvöldi. Þar flutti ég stutta frásögn af ferð til að sjá sýningu á Lohengrin í Dresden 29. maí 2016. Frásögnina má lesa hér.

Laugardagur 05. 11. 16 - 5.11.2016 16:15

Bretar búa ekki við neina stjórnarskrá. Beri að fordæmalaus mál vita stjórnvöld ekki hvernig taka ber á þeim með vísan til stjórnarskrár. Hún hefur aldrei verið sett í Bretlandi. Þar eru hins vegar venjur og hefðir hafðar í heiðri. Þær duga þó skammt nú þegar tekist er á við úrsögn Breta úr ESB eftir að hún var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu 23. júní 2016. Um slíkt er engin fordæmi að finna.

ESB er reist á skráðum reglum og sáttmálum sem ber að virða til að halda fjölþjóðlegu samstarfi innan sambandsins innan ákveðinna marka. Fastheldni við þessar reglur og andstaða við frávik eða undanþágur frá þeim hefur aukist eftir því sem ESB-ríkjunum hefur fjölgað. Aðlögun að reglunum á umsóknarferli ríkja er fastmótað skilyrði þótt umsóknarsinnar hér á landi hafi neitað að horfast í augu við þá staðreynd eins og svo margt annað komi stefna þeirra til umræðu.

ESB vísar til 50. gr. í sáttmála sínum varðandi úrsögn Breta. Þeir verði að fara tveimur árum eftir að þeir tilkynna úrsögn sína formlega. Theresa May forsætisráðherra hefur sagst ætla að tilkynna þetta í mars 2017. Hún hélt því fram að ríkisstjórnin gæti tekið ákvörðun um að virkja 50. gr. ESB-sáttmálans án þess að bera ákvörðunina undir breska þingið.

Dómstóll, High Court, skipaður þremur dómurum, hafnaði skoðun forsætisráðherrans nú í vikunni. Það ber að leggja ákvörðun um að virkja 50. gr. fram á þingi til afgreiðslu. Ríkisstjórnin hefur áfrýjað málinu til hæstaréttar.

Í raun er umhugsunarvert að ríkisstjórnin skyldi taka þann pól í hæðina að ekki þyrfti formlegt samþykki þingsins. Þá er ekki síður merkilegt að sjá hve hart margir stjórnmálamenn sækja að dómurunum fyrir að hafa komist að þessari niðurstöðu, svo hart að breska dómarafélagið krafðist þess að dómsmálaráðherrann tæki upp hanskann fyrir dómara, þeir ættu ekki að standa á berangri og óvarðir þegar vegið væri að þeim á þennan hátt. Hvatti dómsmálaráherrann til að menn virtu sjálfstæði dómara.

Ein skýring á því hvers vegna May vill ekki leggja úrsögnina fyrir þingið er sú að hún vilji ekki sýna samningsmarkmið sín. Sumir segja að hún hafi einfaldlega ekki mótað nein slík markmið. Þetta minnir á stöðu ESB-umsóknarinnar hér á sínum tíma. Þá höfðu ESB-aðildarsinnar mörg ár til að kynna þjóðinni samningsmarkmið sín. Þeir gerðu það þó aldrei sem stuðlaði ásamt öðru að íslenska ESB-klúðrinu.

 

Föstudagur 04. 11. 16 - 4.11.2016 16:00

Samtal mitt við Hannes Hólmstein Gissurarson á ÍNN er komið á netið og má sjá hér.

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er flennifrétt þess efnis að Benedikt Jóhannesson, formaður sjö-manna þingflokksins Viðreisnar, verði forsætisráðherra. Benedikt sagði við Vísi (hluta af 365 eins og Fréttablaðið) eftir að forsíðufréttin birtist og vakti furðu og umtal margra að hann kannaðist ekkert við að hann yrði forsætisráðherra í fjögurra flokka ríkisstjórn Viðreisnar, Bjartrar framtíðar (BF), vinstri grænna (VG) og Sjálfstæðisflokksins.

Síðar sagði í frétt á Vísi:

„Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna segir að það sé ekkert launungarmál að Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar vilji leiða stjórnarmyndunarviðræður. Það þurfi þó ekki endilega að fara saman við það að verða forsætisráðherra. [...]

„Það er ekkert launungarmál að Benedikt hefur lýst því yfir opinberlega að hann vilji leiða þessar viðræður,“ segir Katrín [...]

Aðspurð hvort að þessi hugmynd hafi verið rædd á fundinum, að Benedikt myndi leiða ríkisstjórn, segist Katrín ekki vilja fara út í það hvað rætt var á fundinum þar sem hann hafi verið óformlegur.“

Hér fer ekkert á milli mála. Þeir sem ræða við Benedikt Jóhannesson formlega eða óformlega átta sig á að hann brennur í skinninu eftir að verða forsætisráðherra. Hann hefur greinilega samið við Óttarr Proppé, formann BF, að nefna sitt nafn jafnan þegar spurningin um næsta forsætisráðherra vaknar og fer Óttarr sem einskonar töskuberi Benedikts á fundi vegna stjórnarmyndunarinnar til að halda fram hans hlut.

Að það verði forsíðufrétt í Fréttablaðinu að Benedikt sé til umræðu sem forsætisráðherra stafar ekki af skáldlegum tilþrifum á ritstjórn blaðsins undir forystu Kristínar Þorsteinsdóttur eða Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Að baki fréttinni hljóta að búa heimildarmenn sem blaðið treystir og telur að fari ekki með pólitískt fleipur.

Að fréttin birtist einmitt núna er til þess fallið að grafa undan tilraunum Bjarna Benediktssonar í umboði forseta Íslands. Fréttin sýnir ekkert annað en framhald af þrýstingi Benedikts og hans manna á að hann fái umboðið frá forseta Íslands. Hvort forseti stenst þrýstinginn kemur í ljós.

Þegar menn horfðust í augu við það eftir valdabrölt Birgittu Jónsdóttur og Pírata að hugsanlega yrði til ríkisstjórn með aðild eða undir forystu Pírata tók fylgið að hrynja af þeim. Þótt Viðreisn sé á allt öðrum báti en Píratar er líklegt að misráðið tal um forsætisráherraembættið í höndum Benedikts Jóhannessonar verði ekki til að styrkja stöðu Viðreisnar. 

Fimmtudagur 03. 11. 16 - 3.11.2016 17:00

Stjórnmálamenn sem vita ekki alveg hvernig þeir eiga skýra mál sitt á opinberum vettvangi grípa gjarnan til einhvers sem er óljóst eða í raun óskýrlanlegt.

Forystumenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar (BF) hafa ákveðið að vera samstiga í stjórnarmyndunarviðræðunum og Óttarr Proppé, formaður BF, segir þá sameinast um „ frjálslyndar miðjuáherslur“. Veit einhver hvað það er? Fyrir nokkrum áratugum boðuðu vinstrisinnar eða mið-vinstrisinnar það sem þeir kölluðu „félagshyggju“ án þess að nokkur vissi hvað þar væri á ferð.

Á Eyjunni er sagt frá því að Pawel Bartozek, þingmaður Viðreisnar, hafi verið í útvarpsþættinum Harmageddon á útvarpsstöðinni X-inu fimmtudaginn 3. nóvember og sagt:

„Það hefur líklegast aldrei verið jafn sterkur og fjölmennur hópur á Alþingi Íslendinga af frjálslyndum miðjumönnum. Það er ákveðið tækifæri og okkar ábyrgð að reyna að nýta það. ... Bæði Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og VG eru ekki flokkar sem setja kerfisbreytingar í sjávarútvegi og landbúnaði á oddinn, eða Evrópumálum eða myntmálum. ... Ef við [Viðreisn og BF] værum að semja um ríkisstjórn þá væri hún komin. ... Ég er bundinn trúnaði um ýmislegt, ég veit ýmislegt sem er í gangi.“

Það verður ekki sagt að Pawel auðveldi neinum með þessum orðum að átta sig á hvað vakir fyrir „frjálslyndum miðjumönnum“. Það mundi auðvelda skilning á fyrirbærinu ef þessir ágætu menn skilgreindu sig í samanburði við erlenda flokka. Eru þeir til dæmis að velta fyrir sér að taka þátt í alþjóðasamtökum þar sem Framsóknarmenn hafa skipað sér, það er meðal liberala í Evrópu sem ekki eru eins vinstrisinnaðir og liberalar í Bandaríkjunum.

Hér tala frjálslyndir miðjumenn fyrir að þráðurinn í ESB-viðræðunum verði tekinn upp þar sem Össur skildi við hann í janúar 2013. Hvernig sem á málið er litið er það vitlausta hugmyndin í ESB-málinu um þessar mundir. Pólitísk örlög Össurar ættu að verða mönnum víti til varnaðar í því efni, raunar örlög sjálfrar Samfylkingarinnar sem lifði og dó fyrir ESB-málstaðinn. Ætla frjálslyndir miðjumenn virkilega að taka upp fallna ESB-merkið og láta eins og ekkert hafi í skorist þótt þjóðin hafi hafnað merkisberanum í tvennum kosningum?

Miðvikudagur 02. 11. 16 - 2.11.2016 15:30

Í dag ræddi ég við dr. Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor í þætti mínum á ÍNNum kosningaúrslitin laugardaginn 29. október, stöðuna í stjórnmálunum hér og í Bandaríkjunum þar sem kosið verður þriðjudaginn 8. nóvember.

Að forseti Íslands skuli hafa veitt Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, umboð til stjórnarmyndunar í dag er eðlilegt í ljósi kosningaúrslitanna. Allir sem standi í brú þjóðarskútunnar verða að taka mið af þeim. Sjálfstæðismenn fara með forystu í öllum kjördæmum landsins og vilji menn tryggja öryggi og stöðugleika er óhjákvæmilegt að stærsti stjórnmálaflokkurinn eigi aðild að landstjórninni.

Hér skal engu spáð um niðurstöður viðræðna Bjarna við forystumenn annarra flokka. Þeir eiga eftir að árétta sjónarmið sín og skilyrði til að fá sem mest út úr hugsanlegu stjórnarsamstarfi. Markmið Bjarna er að mynda meirihlutastjórn. Hún krefst samstarfs þriggja flokka sem er kallar á flóknara ferli en ef tveir flokkar gætu myndað meirihluta.

Þriggja flokka stjórn var mynstur níunda áratugarins, verðbólguáratugarins mikla. Gunnar Thoroddsen sat með nokkrum Sjálfstæðismönnum í stjórn með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi 08.02.80 til 26.05.83; Þorsteinn Pálsson, Sjálfstfl., stýrði stjórn með Framsóknarfl. og Alþýðuflokki 08.07.87 til 28.09.88. Stjórnin sprakk í beinni sjónvarpsútsendingu. Steingrímur Hermannsson, Framsóknarfl., stýrði stjórn með Alþýðufl. og Alþýðubandalagi 28.09.88 til 10.09.89. Steingr. Herm. stýrði fjögurra flokka stjórn Framsóknar, Alþýðubl., Alþýðufl. og Borgaraflokksins 10.09.89 til 30.04.91.

Í rúman aldarfjórðung hefur sem sagt verið tveggja flokka ríkisstjórn í landinu. Þá er þarna fyrir ofan eina dæmið um þriggja flokka stjórn með aðild Sjálfstæðisflokksins fyrir utan tvær þriggja flokka stjórnir með aðild hans á fimmta áratugnum: Nýsköpunarstjórnina undir forsæti Ólafs Thors með þátttöku Alþýðuflokksins og Sósíalistaflokksins 21.10.44 til 04.02.47 og Stefaníu undir forsæti Stefáns Jóhanns Stefánssonar Alþýðuflokki með Sjálfstfl. og Framsóknarfl. 04.02.47 til 09.12.49.

Séu dagsetningar og ártöl við þessar margflokka-stjórnir skoðuð sést að engin þeirra hefur setið heilt kjörtímabil. Allt segir þetta sína sögu en er ekki einhlítt. Skoða verður hvert tilvik fyrir sig til að greina hvað olli stjórnarslitum en miðað við að reglan er að tveggja flokka stjórnir sitji allt kjörtímabilið er augljóst að ákveðið los í stjórnmálum fylgir stjórnum þar sem fleiri flokkar en tveir sitja. 

Þriðjudagur 01. 11. 16 - 1.11.2016 13:30

Það var einkennilegur misskilningur sem hófst eftir að Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra sagði á kosninganóttina að hann mundi daginn eftir fara á Bessastaði og afhenda forseta Íslands „umboðið“. Sigurður Ingi hafði ekkert umboð heldur hafði hann skipun í embætti forsætisráðherra og erindi hans til Bessastaða var að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt.

Þegar Sigurður Ingi tók við embætti forsætisráðherra í byrjun apríl 2016 hafði hann ekki fengið neitt umboð frá forseta Íslands til þess heldur var um sameiginlega ákvörðun þingflokka Framsóknarmanna og Sjálfstæðismanna að ræða. Framsóknarþingmenn höfðu hafnað Sigmundi Davíð og ákveðið var að Sigurður Ingi tæki við af honum. Þetta þótti Guðna Th. Jóhannessyni, þáv. fréttaskýranda ríkisútvarpsins, ólíklegt að mundi gerast, sjálfstæðismenn myndu ekki sætta sig við slíka breytingu. Hún varð, reyndist farsæl þótt hún dygði framsóknarmönnum ekki til að afla nægilegs fylgis í kosningabaráttunni til að stjórnin sæti áfram.

Spurning er hvort nauðsynlegt var fyrir Sigurð Inga að biðjast lausnar strax daginn eftir kosningar. Hann hefði getað setið áfram á meðan kannað væri hvort þriðji flokkurinn vildi slást í för með Framsóknarmönnum og Sjálfstæðismönnum. Lausnarbeiðnin liggur fyrir og klukkunni verður ekki snúið til baka.

Forseti Íslands hefur ekki komist að niðurstöðu um ráðstöfun á „umboðinu“ þegar þetta er skrifað. Því má velta fyrir sér hvers vegna hann ákvað ekki strax á sunnudaginn að fela einhverjum flokksformanni að leita fyrir sér um stjórnarmyndun og gefa sér skýrslu um gang málsins fyrir einhvern ákveðinn dag. Það hefði einfaldað ferlið. Í stað þess ákvað forseti að efna til funda með fulltrúum flokkanna sjö, taka sér umhugsunarfrest og kalla þá síðan fyrir sig að nýju séu fréttir réttar.

Þessi aðferð forsetans kitlar ef til vill hégómagirnd einhverra stjórnmálamanna en ýtir frekar undir sundrungu meðal þeirra en sameinar þá. Þeir eru knúnir til að gefa yfirlýsingar á leið sinni frá Bessastöðum, sumir nota tækifærið til að árétta eigið ágæti en aðrir til að viðra hugmyndir eins og um fimm flokka stjórn eða minnihlutastjórn á ábyrgð Pírata. Vafasamt er að nokkur sjónvarpsáhorfandi trúi að mönnum sé alvara með slíkum yfirlýsingum þótt þær séu gefnar á Bessastöðum.

Þótt ekki séu brýn pólitísk úrlausnarefni sem bíða nýrrar ríkisstjórnar ber að ganga skipulega til stjórnarmyndunar á sem skemmstum tíma.