21.11.2016 17:40

Mánudagur 21. 11. 16

Þegar Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hvarf miðvikudaginn 16. nóvember frá viðræðum við fulltrúa Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sagðist hann hafa „stöðvað“ viðræðurnar. Hann sagðist ekki hafa slitið þeim. Mikilvægt er að hafa þetta í huga þegar litið er til orða sem talsmenn Viðreisnar nota til að afsaka aðild flokksins að fimmflokka-flækjunni sem nú hefur myndast og snýst um að koma hér á meirihlutastjórn undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur.

Þegar Bjarni stöðvaði viðræðurnar sagði hann að fundir flokkanna að undanförnu hefðu leitt í ljós góðan samhljóm um ýmis mál, en áherslumun um útfærslu annarra, enda væri stefna flokkanna ólík á ýmsum sviðum og orðrétt:

„Ég tel að samtöl undanfarinna daga hafi leitt í ljós að það væri afar óvarlegt að leggja af stað með þann málefnagrunn sem um er rætt og nauman meirihluta inn í kjörtímabilið. Margt segir mér að aðstæður kalli á ríkisstjórn með breiðari skírskotun og sterkari meirihluta en þann sem þessir þrír flokkar geta boðið. Ég útiloka ekkert fyrirfram í þeim efnum.“

Þarna ræddu saman fulltrúar 3ja flokka með 32 menn á þingi. Nú ræða saman fulltrúar fimm flokka með 34 menn á þingi. Katrín stundar í raun glæfraspil sem ræðst af óvild í garð framsóknarmanna og sjálfstæðismanna og valdafíkn sem birtist til dæmis í fráhvarfi forystumanna pírata frá öllum meginsjónarmiðum sínum.

Öllum er ljóst að VG-forystan braut öll helstu kosningaloforð sín við aðild að  ríkisstjórn árið 2009. Hefur verið skrifuð heil bók um þessi svik. Nú stefnir í að píratar svíki öll meginloforð sín til dæmis um ekki-þingmenn í ríkisstjórn eða að kjörtímabilið verði aðeins 9 mánuðir og þeir verði notaðir til að setja nýja stjórnarskrá.

Í þessu ljósi er enn undarlegra en ella að eitt helsa límið á milli þátttakenda í fimmflokka-flækjunni er krafa um að Sjálfstæðisflokkurinn standi við það sem sumir í flækjunni telja loforð frá 2013 um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um dauða ESB-aðildarumsókn frá árinu 2009. Ekki er nóg með að þessi umsókn sé dauð heldur hefur hún næstum gengið að Samfylkingunni dauðri. Þrír þingmenn hennar eru þó á sjó dregnir til að tryggja flækjunni meirihluta á þingi.

Að nýkjörinn forseti Íslands horfi upp á að svona sé farið með umboð sem hann veitir sýnir ekki annað en að hann hlýtur að hafa ofurtrú á Katrínu Jakobsdóttur.