Dagbók: 2007

Mánudagur, 31. 12. 07. Gamlársdagur. - 31.12.2007 16:03

Það er vel til fundið og réttmætt hjá fréttastofu Stöðvar 2 að tilnefna fíkniefnalöggæsluna, fíkniefnalögreglu og tollgæslu, mann ársins 2007 fyrir framúrskarandi starf á árinu. Árangur þeirra, sem þessum störfum sinna, vakti þjóðarathygli. Af eigin raun veit ég, að þar er unnið af miklum metnaði. Ég óska fíkniefnalöggæslunni til hamingju með verðskuldaðan heiður. 

Ríkisráðsfundur var á Bessastöðum klukkan 10. 30.

Ég þakka lesendum síðu minnar samfylgdina á árinu.

Þeir hafa fylgst með því helsta, sem á daga mína hefur drifið. Þegar ég lít til baka, er mér efst í huga þakklæti til þeirra, sem læknuðu mig af lungnameini á fyrrihluta ársins. Án atbeina þeirra og hæfileika sæti ég ekki hér í dag.

Undarlegast hefur mér þótt að fylgjast með þeim, sem virðast ekki geta unnt mér neins og leggja á mig fæð opinberlega, án þess að ég hafi hið minnsta gert á þeirra hlut. Ef einhver ætti jafnöfluga lækningu við þeim leiða kvilla þessara manna og við lungnameini mínu, yrði það mér gleðiefni á nýju ári.

Sunnudagur, 30. 12. 07. - 30.12.2007 18:10

Á mbl.is sagði síðdegis í dag um aðgerðir vegna óveðursins:

„Yfir 320 björgunarsveitarmenn frá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar, auk slökkviliðs og lögreglu, hafa í dag sinnt yfir 220 útköllum um land allt. Ástandið hefur verið verst á höfuðborgarsvæðinu þar sem beiðnir um aðstoð hafa verið um 120 talsins.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu hefur einnig verið mikið annríki hjá björgunarsveitum á Blönduósi og Hvammstanga þar sem 25 verkefni voru leyst og á Suðurnesjum en þar voru björgunarsveitir kallaðar út 15 sinnum.“

Enn höfum við sem sagt verið minnt á mikilvægi björgunarsveitanna og hinna vösku félaga í þeim. Samhæfingarmiðstöðin við Skógarhlíð var virkjuð í gærkvöldi til að samhæfa aðgerðir vegna viðvarana veðurfræðinga. Miðað við þær kom á óvart, að björgunarmenn þurftu að fara inn á Langjökul til að hjálpa 11 manns, þar af þremur börnum, á 7 jeppum.  

Á ruv.is sagði í dag um klukkan 14.00:

„Fólkið sem hefur setið fast í bílum sínum við Langjökul frá því í gær er komið yfir í bíla björgunarsveitanna og leiðangurinn er nú á leið til byggða. Ferð sveitanna hefur tekið um 8 klukkustundir enda færðin afar slæm og veður afleitt.

Mælst hafa vindhviður sem eru yfir 70 m/sek á leiðinni. Auk sérútbúinna jeppabifreiða eru 3 snjóbílar notaðir í leiðangrinum.“


 

Laugardagur, 29. 12. 07. - 29.12.2007 15:06

Fundur lögreglumanna og yfirstjórnar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær hefur enn gefið fjölmiðlum tilefni til að huga að stöðu lögreglunnar og hve mikilvægt er að tryggja henni sem best starfsumhverfi. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu nýtur mikils trausts og virðingar hjá öllum almenningi, ef marka má kannanir.

Vel hefur tekist til við sameiningu löggæslu á höfuðborgarsvæðinu undir öruggri stjórn Stefán Eiríkssonar og hans manna. Fyrsta heila ár sameiningar er að baki og margt gott hefur áunnist. Enn má gera betur eins og fram kom á fundi lögreglumannanna. Á mínu borði er næsta stórverkefni að finna stað fyrir nýja lögreglustöð á höfuðborgarsvæðinu og vinna að því, að hafist verði handa við að reisa hana.

Á ruv.is í dag má lesa:

„Ráðherrar ríkisstjórnarinnar fengu vínkassa í jólagjöf frá Landsbankanum. Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra telur útilokað að ráðherrar láti slíkt hafa áhrif á ákvarðanatöku sína. Í einhverjum tilvikum séu jólagjafir fyrirtækja mögulega á gráu svæði. Ráðherra hefur ekki opnað gjöfina.

Ráðherrarnir fengu Rioja vín að gjöf frá bankanum, Muga árgang 2003, Seleccion Especial í trékassa. Samkvæmt víntímaritinu Wine Spectator, ber að drekka vínið fyrir 2012 sé það geymt við kjöraðstæður. Vínið fær 85 af 100 í einkunn hjá tímaritinu. Vínið er ekki selt hér á landi en í Bandaríkjunum kostar flaskan jafnvirði 2500 króna.“

Með orðinu „vínkassi“ er gefið til kynna, að um nokkrar flöskur í kassa geti verið að ræða. Rétt hefði verið að orða þetta á þennan veg: vínflösku í trékassa.

Vínið í kassanum verður fréttamanni tilefni rannsóknarblaðamennsku - slíkt frumkvæði mættu fréttamenn sýna oftar og jafnvel af meira tilefni. Með því að nefna ártalið 2012 er fréttamaðurinn líklega að vekja athygli ráðherra á því, að okkur sé óhætt að geyma vínið út kjörtímabilið, svo að við verðum ekki fyrir áhrifum af því í núverandi ríkisstjórn.

Landsbankinn fær óvænta auglýsingu vegna gjafmildi sinnar.

Hinn siðavandi Egill Helgason skilur frétt hljóðvarps ríkisins svo, að um kassa af víni hafi verið að ræða og fyllist vandlætingu, eins og sjá má af þessari færslu á vefsíðu hans:

„Ef ég væri í stjórn Landsbankans myndi ég fara að leita að sökudólgi.

Sá sem sendir ráðherrum í ríkisstjórn kassa af áfengi að gjöf hlýtur að vera algjörlega skyni skroppinn.

Og ráðherrarnir hljóta að senda vínið hið snarasta til baka.

Þeir mega undir engum kringumstæðum þiggja svona gjafir.“

Spyrja má: Hefði Egill orðið jafnreiður, ef hann hefði kynnt sér málið og komist að því, að um eina rauðvínsflösku er að ræða?

 

Föstudagur, 28. 12. 07. - 28.12.2007 21:43

Í dag var kynnt við hátíðlega athöfn að hótel Sögu, að Frjáls verslun hefði valið Andra Má Ingólfsson mann ársins í íslensku viðskiptalífi. Var þetta í 20. skipti, sem Frjáls verslun stendur að þessu vali. Andri Már er vel að heiðrinum komin, enda hefur vöxtur fyrirtækis hans, Heimsferða, verið ævinitýri líkastur undanfarin ár.

Margrét Lára Viðarsdóttir knattspyrnukona var valin íþróttamaður ársins og kynnt í beinni útsendingu í sjónvarpi. Var vel að dagskrárgerðinni staðið, „settið“ var þó eitthvað kauðskt, þar sem fulltrúar fréttamanna ræddu við Margréti Láru, eftir að hún hafði tekið við titlinum og hinum mikla „bikar“, sem honum fylgir. Margrét Lára er greinilega góð og mikil fyrirmynd auk þess að hafa náð frábærum árangri á vellinum.

Í fréttum sjónvarps ríkisins var í kvöld sagt frá því, að greiningardeildum bankanna hefði tekist illa upp í spám sínum um hlutabréfamarkaðinn og þróun hans á árinu. Markaðurinn hefði í raun þróast í þveröfuga átt við spásögnina.

Í jólahefti Vísbendingar er viðtal við Jónas Haralz og Jón Sigurðsson, sem báðir störfuðu við efnahagsráðgjöf fyrir ríkisstjórnina á sínum tíma og sakna Þjóðhagsstofnunar. Ekkert hafi komið í hennar stað til ráðgjafar um efnahagsmál. Um greiningardeildir bankanna segir Jónas Haralz:

„Ég er krítískur á starfsemi greiningardeilda bankanna. Ég sé ekki vel tilganginn með þeim. Það sem þær segja um almenna efnahagsþróun er lítils virði. Það eru ekki nema sjálfsagðir hlutir. Og greiningin hjá þeim er grunnfærin. Svo eru þeir allir með það sama, allir bankarnir á sama tíma. Okkur vantar óháða stofnun, Þjóðhagsstofnun var lögð niður og ég held það hafi verið mistök. Það var ýmislegt í hennar fari sem ekki var á réttri braut eins og komið var. Nú er ekkert nema tómarúm og ríkisstjórnina sjálfa vantar alla leiðbeiningu.“

Jón Sigurðsson tekur undir þess orð Jónasar og segir: „Uppistaðan í efnahagsfréttunum um þessar mundri - sem eru að sumra áliti of hátt hlutfall frétta á Íslandi yfirleitt - er efni frá greiningardeildum bankanna. Það er auðvelt að taka undir með Jónasi, að það væri æskilegt að „hlutlausari“ aðilar hefðu hér stærra rúm.“

Ég er ekki sammála Jónasi um að ríkisstjórnina vanti „alla leiðbeiningu“ í efnahagsmálum, þótt Þjóðhagsstofnun sé úr sögunni. Hitt er umhugsunarefni, ef íslenskir háskólar eða stofnanir á þeirra vegum hafa hvorki burði til að ávinna sér traust með málefnalegum ábendingum í efnahagsmálum né öryggis- og varnarmálum. Hvað veldur?

Fimmtudagur, 27. 12. 07. - 27.12.2007 21:47

Benazir Bhutto var myrt í Rawalpindi í Pakistan í dag, þegar hún var á leið af kosningafundi. Hún var skotinn í hálsinn af launmorðinga, sem síðan sprengdi sig í loft upp. Aðferðin þótti minna á al Kaida hryðjuverkasamtökin. Jón Ormur Halldórsson sagði hins vegar í fjölmiðlaviðtali frá Berlín, að hann teldi öryggislögreglu Pakistan-stjórnar eiga hlut að morðinu.

Benazir Bhutto var tvisvar forsætisráðherra Pakistans 1988 til 1990, og 1993 til 1996. en varð í bæði skiptin að láta af völdum vegna ásakana um spillingu. Hún var í útlegð í Dubai síðan 1999 með þremur börnum sínum en sneri til Pakistans í október sl. Herstjórn Pakistans veitti henni sakaruppgjöf. Maður hennar sat í fangelsi í átta ár fyrir að draga sér opinbert fé í stjórnartíð konu sinnar. Hann var látinn laus 2004. Faðir hennar, forsætisráðherra Pakistans, var hengdur og annar bróðir hennar var myrtur vegna stjórnmálastarfa hinn fannst látinn í íbúð sinni á frönsku Rivierunni.

Undir herstjórn er allt í báli og brandi í Pakistan. Hvort Bhutto hefði tekist að breyta stjórnarháttum til hins betra er með öllu óvist. Talið er, að hún hefði getað stuðlað að stöðugleika í landinu. Upplausn magnast við dauða hennar. Pakistan er helsta gróðrastía hryðjuverkasamtaka samtímans. Líklegt er að Osama bin Laden leynist þar einhvers staðar.

Þriðjudagur, 25. 12. 07. Jóladagur. - 25.12.2007 23:12

Bókin Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson lætur engan ósnortinn. Honum er einstaklega vel lagið að draga sterkar myndir og mannlýsingar í meitluðum, kjarnyrtum texta.

Í sömu andrá er forvitnilegt að líta á bakvið tjöld höfunda í bók Péturs Blöndals Sköpunarsögur. Hann bregður ekki aðeins ljósi á, hvernig höfundarnir 12, sem hann hittir að máli, skapa verk sín heldur dregur hann einnig fram skaphöfn hvers og heins, þannig að verk þeirra færast nær lesandanum.

Sjónvarpsmyndin eftir Valdimar Leifsson um Jónas Hallgrímsson, sem frumsýnd var í kvöld, brá upp góðri mynd af ævi listaskáldsins góða. Lífsstarf hans og áhrif á Íslandssöguna skipta meira máli en hvar bein hans liggja. Jónasi hefur bæði verið sýndur sá heiður sem skáldi að hvíla í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum og að fæðingardagur hans hefur verið helgaður íslenskri tungu. Í sjónvarpsmyndinni var athygli rækilega dregin að hlut hans sem náttúruvísindamanns.

Mánudagur, 24. 12. 07. Aðfangadagur. - 24.12.2007 2:09

Gleðileg jól!

Í Fréttablaðinu í dag birtist viðtal Klemensar Ólafs Þrastarsonar við herra Sigurbjörn Einarsson biskup. Þar er meðal annars vikið að stöðu þjóðkirkjunnar og sagt:

„Í gamla daga voru trúfélögin færri og undu sínum hag ágætlega, án þess að rekast hvert á annað.

„Það ríkti fullkominn friður milli Þjóðkirkjunnar og Fríkirknanna í Reykjavík og Hafnarfirði. Það er nýlunda að kirkjan þurfi að þola svæsnar árásir úr þeirri átt,“ segir Sigurbjörn, sem undrast mjög heift þeirra sem standa utan Þjóðkirkjunnar og gagnrýna hana.

„Fólkið kýs að vera ekki í Þjóðkirkjunni og beitir svo sinni meginorku í að rífa hana niður í ræðu og riti.“

Sigurbjörn hafnar því að Þjóðkirkjunni væri fyrir bestu að slíta á hin sérstöku tengsl við ríkisvaldið. Stjórnarskráin kveði ekki einungis á um tengsl ríkis við Þjóðkirkjuna. Ákvæðið um Þjóðkirkjuna hefði aldrei komist inn í stjórnarskrá ef ekki væri í húfi sjálf yfirlýsing ríkisins til kristindómsins.

„Og þetta er ekki ríkisrekið fyrirtæki, fjarri því. Ríkið hefur einfaldlega verið vörslumaður fjármuna kirkjunnar. Nú er þeirri vörslu lokið og ríkið afsalar sér ábyrgð á því með stuðningi sínum við Þjóðkirkjuna.“

Því hefði lítið upp á sig að slíta þessi tengsl fyrir friðarsakir: „Það verður aldrei friður fyrir ólátamönnum.“

Sigurbjörn bíður við stutta stund og horfir fram fyrir sig. Hann kveður Þjóðkirkjuna eiga svo mikinn stuðning meðal almennings, trausta vini og úrvalsstarfsfólk að hún þurfi ekki að óttast þetta óvildarfólk.

„Þjóðkirkjan þarf því ekki að einblína á fyrirbæri sem eru meira og minna óeðlileg,“ segir hann og vísar meðal annars til samtakanna Vantrúar.

„Ég vildi ekki meina neinum að hafa skoðanir en menn verða þó að virða þá lágmarkskröfu að koma fram við aðra af sæmilegri sanngirni og væna menn ekki um óheiðarlegar tilfinningar eða vanþroska eða skort á mannviti. Fólk á ekki að afflytja málstað náungans.““

Ég er sammála þessum orðum herra Sigurbjörns og tel þau falla vel að því, sem ég sagði í pistli mínum í gær.

Lesa meira

Sunnudagur, 23. 12. 07. - 23.12.2007 16:24

Fyrir hádegi var óvenjulega rólegt yfir öllu, þegar farið var um borgina. Þar sem ég leit inn í verslanir, var lítið um að vera, en í miðborginni bjuggu menn sig undir mikinn mannfjölda í kvöld eins og venjulega á Þorláksmessu. Veðrið er bjart og fallegt og þegar þetta er skrifað, ljómar tunglið fullt í himinfestingunni.

Ég hef stundum nefnt það hér á síðunni, að fréttamenn eigna gjarnan ráðherra lagafrumvörp, sem sæta gagnrýni - þegar þeir vilja leggja áherslu á, að eitthvað meira en lítið sé fundið að frumvarpinu er það síðan tengt nafni ráðherrans.

Á ruv.is má lesa:

„Árni Mathiesen fjármálaráðherra segir að hann muni skila ítarlegum rökstuðningi vegna umdeildrar skipunar sinnar á Þorsteini Davíðssyni, aðstoðarmanni dómsmálaráðherra og syni Davíðs Oddsonar, í embætti héraðsdómara, óski aðrir umsækjendur um stöðuna eftir því. “

Þorsteinn Davíðsson er í hópi lögfræðinga, sem fara með ákæruvald hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Hann sótti sem slíkur um embætti héraðsdómara, ekki vegna þess að hann sé aðstoðarmaður minn eða sonur Davíðs Oddssonar.  Með því að tengja nafn hans við mig eða föður hans er greinilega verið að lýsa tortryggni vegna ákvörðunar Árna Mathiesens. Spyrja má: Er þetta málefnalegt fréttamat?

Vegna færslu minnar hér á síðunni í gær um inntak starfa aðstoðarmanns ráðherra, kýs Egill Helgason að lýsa sérstakri vanþóknun sinni á þessu starfi og þeim, sem því gegna eða hafa gegnt. Egill hefur nú á skömmum tíma afskrifað þjóðkirkjuna, eflingu löggæslu (nema í nágrenni við sig í miðborginni) og aðstoðarmenn ráðherra.

Laugardagur, 22. 12. 07. - 22.12.2007 18:49

Klukkan var um 02.00, þegar ég kom heim í nótt úr ferðinni til Tallinn, til að fagna stækkun Schengensvæðisins. Skýringin á seinkun Icelandair-vélarinnar frá Kaupmannahöfn var, að tafir hefðu orðið á vélinni í fyrra flugi.

Á Kastrup-flugvelli mátti sjá fjömennan hóp Pólverja koma úr vélinni frá Íslandi og kallað var í hátalara, að þeir ættu að fara að þjónustuborði SAS - þeir hafa örugglega misst af flugvélinni til Varsjár eða Gdansk.

Frá því að ákvæði um aðstoðarmenn ráðherra voru sett hér í lög hefur fjöldi manna gegnt þeim störfum eins og sjá á skrá, sem birt er í Sögu stjórnarráðsins frá 2004. Árni M. Mathiesen, settur dómsmálaráðherra, telur, að ekki hafi verið tekið nægilegt tillit til starfa Þorsteins Davíðssonar sem aðstoðarmanns dómsmálaráðherra í mati nefndar á hæfi umsækjenda um dómarastörf. Vegna ráðherrastarfa sinna á Árni miklu auðveldara með það en umsagnarnefndin að gera sér grein fyrir inntaki starfs aðstoðarmanna - viðfangsefni þeirra ráðast að sjálfsögðu af verkefnum ráðherrans.

Föstudagur, 21. 12. 07. - 21.12.2007 8:27

Klukkan 12.30 verður siglt með stórri ferju frá Helsinki til Tallinn, en þar hefst athöfn klukkan 15.00 í höfninni til að fagna því, að persónueftirliti er lokið þar gagnvart íbúum annarra Schengenríkja, sem koma þar í land. Forsætisráðherrar Eista og Finna flytja ávörp, einnig Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og forsætisráðherra Potrúgal, en Porúgalir fara nú með forsæti innan ESB.

Portúgalir lögðu sig mjög fram um, að þessi stækkun Schengensvæðisins, úr 15 í 24 ríki, gæti orðið í forsætistíð þeirra í ESB. SIS eða Schengen Information System, gagnagrunnur landamæravarða og lögreglu, stækkar mjög við stækkunina og verður SISII, en uppfærsla og breyting á kerfinu hefur tekið lengri tíma en ætlað var og leit út fyrir, að stækkunin mundi tefjast vegna þess. Portúgalir fengu þá heimafyrirtæki til að hanna kerfi SISone4all og hefur það reynst svo vel, að unnt er að nýta það til bráðabirgða, þar til SISII kemur til sögunnar, og til að stækka Schengensvæðið.

Við lögðum af stað með ferju Tallinkline kl. 13.00 frá Helsinki og vorum komin klukkan 15.00 til Tallinn. Sendinefnd Evrópusambandsins undir forustu Barroso hafði tafist á ferð sinni milli landamærastöðva, svo að nokkuð dróst, að við gengum í land í Tallinn og skiptum við um ferju, á meðan við biðum, þar sem sú, sem flutti okkur, sneri strax aftur til Helsinki.

Þegar allir voru komnir á sinn stað gengum við í land og á móti okkur var tekið í landamæraefturliti ferjustöðvarinnar, finnski forsætisráðherrann flutti ræðu og síðan eistneski forsetinn, þá Barroso og loks forsætisráðherra Portúgals. Þjóðsöngur Evrópu - stef úr 9. sinfóníu Beethovens, Óðurinn til gleðinnar - var fluttur auk þess sem eistnesk popphljómsveit lék eitt lag. Síðan var myndataka, móttaka, blaðamannafundur og skoteldar flugu á loft yfir miðborg Tallinn.

Ég hélt af stað fljúgandi frá Tallinn til Kaupmannahafnar klukkan 18.10 og átti að taka flug heim 20.15 en nú stendur hér á skiltum Kastrrup-flugvallar, að brottfor verði ekki fyrr en 22.50.

Fjölmiðlamenn hafa sent mér boð í dag til að forvitnast um rökin fyrir vanhæfi mínu við skipan héraðsdómara á Norðurlandi. Þegar Þorsteinn Davíðsson hætti hjá mér sem aðstoðarmaður gaf ég honum meðmæli og tók þar með skýra afstöðu til hæfi hans og hæfni. Vegna þessa hefðu aðrir umsækjendur getað dregið óhlutdrægni mína í efa.

Fimmtudagur, 20. 12. 07. - 20.12.2007 20:34

Flaug utan kl. 07.45 til Stokkhólms og þaðan áfram til Helsinki en þar lenti ég klukkan 13.00 að íslenskum tíma, 15.00 að finnskum. Það var 5 stiga hiti og er þetta í annað sinn síðan mælingar hófust í Helsinki, að svo mikill hiti mælist hér á þessum árstíma.

Á morgun fagna ég því í Tallinn, höfuðborg Eistlands, að Schengensvæðið stækkar í reynd með því að persónueftirliti verður hætt í höfnum og á landamærum níu ríkja og þeirra 15 ríkja, sem fyrir eru í Schengen.

Miðvikudagur, 19. 12. 07. - 19.12.2007 10:04

Egill Helgason heldur enn í dag áfram að búa til óeirðalögreglu með hjálmum og óeirðabílum á vefsíðu sinni, líklega sér hann fyrir sér bíla, sem notaðir voru í Soweto í Suður-Afríku á sínum tíma. Menn þurfa að búa á eyjan.is til að lifa í þessum heimi.

Hvers vegna skyldi Agli vera svo í nöp við að styrkja löggæslu í landinu með heimild í lögum um, að unnt sé að kalla úr varalið við sérstakar aðstæður? Egill telur fréttir um að erfitt sé að manna hið almenna lögreglulið til marks um, að hugmyndir um varalið séu órar. Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, er á öndverðum meiði við Egil. Varalið er vel til þess fallið að styrkja umgjörð hins almenna lögregluliðs, segir hann í Fréttablaðínu í dag.

Löggæslu þarf einfaldlega að styrkja á öllum sviðum og búa þannig um hnúta, að til þess fáist nægilegt fjármagn. Agli finnst nóg um fjárveitingar til þessara mála. Var hann þó ekki að hrópa á meira lögreglulið á götur Reykjavíkur fyrir nokkrum mánuðum?

Þá fjargviðrast Egill yfir því, að notað sé orðið eftirgrennslan yfir rannsóknir á vegum lögreglu. Orðið er notað í nýrri skýrslu ríkisendurskoðunar um baráttuna gegn fíkniefnum. Þetta er síður en svo nýyrði. Á sínum tíma var til dæmis Agnar Kofoed Hansen, lögreglustjóri í Reykjavík, gerður út af örkinni til að kynna sér eftirgrennslan á vegum lögreglu í öðrum löndum. Af hverju er Egill á móti því, að þetta orð sé notað?

Það er sama, hvar borið er niður, alls staðar er Egill á móti aðgerðum til að efla löggæslu, nema í næsta nágrenni sínu, miðborginni. Hvernig verða menn svona sjálfhverfir? Er það ríkisvarða sjónvarpssettið?

Hans Haraldsson ræðir þessi skrig Egils Helgasonar á síðu sinni.

Klukkan 16.30 bauð Sturla Böðvarsson, forseti alþingis, til athafnar í efri deildar sal þingsins til að fagna útgáfu Handbókar um undirbúning og frágang lagafrumvarpa sem er gefin út af forsætisráðuneyti, dóms- og kirkjumálaráðuneyti og skrifstofu alþingis. Þetta er þörf handbók og ætti að stuðla að betra löggjafarstarfi.

 

Þriðjudagur, 18. 12. 07. - 18.12.2007 21:06

Fjölmiðlamenn höfðu í dag áhuga á að kynnast sjónarmiðum varðandi gæslu þeirra, sem dæmdir hefur verið í farbann, en upplýst er, að fimm í slíku banni af 28 á árinu hafi yfirgefið landið ólöglega. Lögregla telur, að sig skorti úrræði til að framfylgja farbanni.

Ég benti á, að hinn 2. júlí 1999 hefði fallið dómur í hæstarétti, þar sem segir, að ákværuvaldið hafi úrræði til að framfylgja farbanni, þyki farbannsþola úrræðið of þungbært, geti hann leitað álits dómara á því. Það er með öðrum orðum ákæruvalds eða lögreglustjóra að setja farbannsþola skilyrði, sem miða að því, að unnt sé að framfylgja farbanninu. Lögreglustjórar eru því ekki úrræðalausir, en úrræðin ráðast af mati þeirra hverju sinni og dómari á síðasta orðið, ef kært er undan ákvörðun lögreglustjórans.

Öflugasta ráðið til að halda manni í landi er að hafa hann í gæsluvarðhaldi, en dómstólar fallast ekki alltaf á kröfu ákæruvaldsins um það. Þá kemur farbann undir eftirliti lögreglustjóra til sögunnar.

Mánudagur, 17. 12. 07. - 17.12.2007 11:35

Þeir eru í skjallbandalagi á netinu Jónas Kristjánsson og Egill Helgason og nú hafa þeir sameinast um þá hugmynd Péturs Gunnarssonar, ritstjóra eyjan.is, að hér eigi að vera fjórir óeirðabílar á vegum óreiðalögreglu undir minni stjórn. Jónas lýsir þessari hugmynd þeirra félaga á þennan veg á vefsíðu sinni í dag:

„Björn Bjarnason dómsmálaráðherra vill koma upp vel vopnaðri óeirðalöggu að erlendri fyrirmynd. Hún á að njóta verndar fjögurra óeirðabíla, eins og við sjáum stundum í sjónvarpi frá útlöndum. Ráðherrann gerir ráð fyrir gjá milli stjórnvalda og borgara. Sem endi með, að stjórnvöld þurfi að verja sig gegn almenningi. Hann hefur fattað, að himinn og haf er milli hans og fólksins í landinu. Telur beztu viðbrögðin felast í að koma upp óeirðalöggu á óeirðabílum. Til að keyra um og sprauta vatni á fólk? Fjörugt verður í landinu, þegar rætast huldar hugsjónir herforingjans Björns Bjarnasonar.“

Ég verð að hryggja þessa áhugamenn um öryggismál með því, að ég hef ekki neina tillögu í þá veru, sem þeir lýsa. Þeir verða líklega að flytja á eyjan.is til að njóta hennar í framkvæmd.

Í nýjasta hefti Þjóðmála rita ég nokkurs konar annál átakanna um OR/REI/GGE undir fyrirsögninni: OR/REI-hneykslið. Þar segi ég, að sexmenningar í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins séu hinir einu innan borgarstjórnar, sem hafi ekki látið flækja sig í þetta brask með eignir og fjármuni borgarbúa.

Að líkja ákvörðun Landsvirkjunar um að stofna Landsvirkjun Power til að annast verkfræðileg verkefni heima og erlendis við OR/REI-hneykslið er ekki annað en tilraun til að fela hneykslið í orðagjálfri.

Ég skil ekki, að nokkrum detti í hug, að Landsvirkjun hafi verið að auðvelda þeim, sem stóðu að OR/REI að þvo af sér skömmina með því að stofna Landsvirkjun Power. Að halda að ágreiningur sé innan Sjálfstæðisflokksins vegna þess að einhverjir vilji verja OR/REI-hneykslið er fráleitt.


Sunnudagur, 16. 12. 07. - 16.12.2007 9:18

Kammersveit Reykjavíkur hélt jólatónleika sína fyrir fullu húsi í Áskirkju klukkan 16. 00 í dag. Elfa Rún Kristinsdóttir lék einleik á fiðlu í tveimur konsertum eftir Bach, sem ekki hafa áður heyrst hér í þessum búningi. Var henni og kammersveitinni mjög vel tekið.

Í gær vék ég að því í pistli mínum og dagbókinni, hve hvimleitt væri að ræða öryggis- og varnarmál á nótum fáfræði. Nefndi ég Egil Helgason meðal annars til sögunnar. Hann segir meðal annars á vefsíðu sinni í dag:

„Stundum tekst manni ekki alveg að koma því frá sér sem maður vill segja. Í Silfrinu áðan var ég bögglast við að segja að varnarmál væru leiðinleg, flókin, núanseruð. Eða hvað?

Það sem ég vildi í raun segja er að umræða um varnar- og öryggismál fer oft fram á tæknimáli milli fólks sem álitur sig svo sérfrótt um málin að enginn annar hafi í raun rétt til að tjá sig.

Þannig er reynt að sveipa þennan málaflokk dularhjúp torskiljanlegra fræða. Þegar sannleikurinn er sá að þeir sem um varnarmál fjalla eru oft og einatt að maka krókinn, gæta hagsmuna sem þeir hafa sjálfir af aukinni her-, lögreglu og öryggisvæðingu. Svo eru aðrir sem fá þessi mál svo gjörsamlega á peruna að þeim er fyrirmunað að greina aukatriði frá aðalatriðum, sjá skóginn fyrir trjánum.“

Ég horfi ekki á Silfur Egils og veit því ekki til hvers Egill er að vísa. Ef ofangreint er ástæða fáfræði hans um þessi mál eða starfssvið dómsmálaráðuneytisins í samanburði við innanríkisráðuneyti annarra ríkja, þakka ég skýringuna.

Orð Egils geta auðveldlega átt við um hvert annað málefni, sem til umræðu er. Telur hann til dæmis, að hagfræðingar ræði þannig um sitt sérsvið, að allir séu með á nótunum? Lögfræðingar um málefni á sínu sérsviði? Eða bókamenntamenn um áhugamál sín? Ekki er unnt að gera þá kröfu til allra umræðuefna, að þau falli innan ramma spjallþátta í sjónvarpi. Þótt svo sé ekki, er ástæðulaust að bannfæra málaflokkinn eða tala niður til þeirra, sem þekkja til hans.

Vegna orða minna hér í pistli mínum frá því í gær segir Pétur Gunnarsson, sem er ritstjóri á eyjan.is:

„Björn Bjarnason lætur ekkert tækifæri ónotað til þess að stimpla þetta vefrit, rægja og tengja við spuna - hann virðist í einhverri sérstakri pólitískri missjón sem hefur það að markmiði. Væntanlega vonast Björn til þess að með því að ljúga nógu oft festist eitthvað af drullunni við.“

Satt að segja átta ég mig ekki á þessum vanstilltu viðbrögðum. Pétur notaði orð mín til að spinna, líklega til að koma illu af stað milli mín og utanríkisráðherra. Fréttablaðið greip þráðinn og tengdi hann inn á forsíðu sína í dag. Ekki er ágreiningur milli mín og utanríkisráðherra, svo að spunaþráður Péturs slitnaði. Meistarinn situr eftir með sárt henni og kallar mig lygara! Lesa meira

Laugardagur, 15. 12. 07. - 15.12.2007 19:30

Innsetning herra Péturs Bürchers í embætti Reykjavíkurbiskups í Dómkirkju Krists konungs, Landakoti, í dag var hátíðleg. Í prédikun sinni sagði hinn nýi biskup:

„Ég hef yfirgefið biskupsdæmið Lausanne, Genf og Fríborg í Sviss án þess að gleyma því, því að allt frá árinu 1952, þegar fjölskylda mín fluttist frá Oberwallis til Nyon skammt frá Genf, hefur það verið biskupsdæmi mitt. Þegar sjö ára gamall tók ég mig upp og nú er ég kominn til Reykjavíkur á Íslandi, til þessa lands elds og ísa; ísa sem eru andstæður þeirrar hjartahlýju og þess frábæra viðmóts sem ég hef hvarvetna mætt hér. Í dag er hjarta mitt fullt af gleði og friði. Ég svara kalli Benedikts páfa XVI. Vinir mínir báðir, svissnesku varðliðarnir, eru dásamlegt tákn um bönd fjölskyldu og kirkju. Með réttu segjum við: Biskupar koma og fara, en kirkjan varir og starf hinna skírðu heldur áfram, í einingu með hirðunum sem Guð sendir þeim."

Í pistli mínum í dag fer ég inn á slóðir, sem eru mér gamalkunnar, það er að ræða um öryggismál og reyna að skýra þau fyrir álitsgjöfum, sem forðast að ræða efni málsins, en leitast við að ala á pólitískri tortryggni eða tala einfaldlega af hrópandi þekkingarleysi.

Í þessari skýrslu minni kemur ekkert fram, sem ekki hefur verið rætt opinberlega áður. Af viðbrögðum álitsgjafanna mætti halda, að þeir komi af fjöllum eins og alvöru jólasveinar á þessum tíma árs.

Föstudagur 14. 12. 07. - 14.12.2007 21:45

Í dag kynnti ég ríkisstjórn skýrslu um víðtækar öryggisráðstafanir á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytis og stofnana þess.

Alþingi lauk í dag störfum fyrir jólaleyfi. Á síðasta þingfundi samþykktum við ný þingskapalög. Sturla Böðvarsson, forseti alþingis, sannfærði þingheim fyrir utan vinstri/græna um að samþykkja þessi lög. Þau eru til mikilla bóta.

Ég sat ekki allan daginn í þinghúsinu. Þeir, sem fylgdust þar með umræðum, sögðu, að Steingrímur J., formaður vinstri grænna, hefði farið langt út fyrir eðlileg mörk í ræðu sinni gegn þingskapafrumvarpinu og forseta þingsins.

Hvers vegna vegnar vinstri/grænum, stærsta stjórnarandstöðuflokknum, svona illa í þinginu? Þeir láta mála sig út í horn. Steingrímur J. á ekki sökina. Sumir segja, að með 9 mönnum sé þingflokkurinn orðinn of stór. Eitt er víst, þetta gengur ekki upp hjá þeim.

Fyrir skömmu las ég í The Financial Times opið bréf eftir Karl Rove, hægri hönd Bush forseta í stjórnmálaátökum, til Babrak Obama, forsetaframbjóðanda meðal demókrata, um leiðina til að sigra frú Hillary Clinton. Meginráðið var: Taktu hana ekki silkihönskum. Hann hefur farið að ráðunum og á nú verulegar sigurlíkur í prófkjörum.

 

Lesa meira

Fimmtudagur 13. 12. 07. - 13.12.2007 21:48

Enn gekk óveður yfir suð-vesturland í nótt og enn reyndi á lögreglu og björgunarsveitir til aðstoðar við fólk og við björgun verðmæta. Samhæfingarstöðin við Skógarhlíð var virkjuð til að sem best sýn væri yfir það, sem gerðist. Þaðan er einnig unnt að ferilvakta menn og farartæki fyrir tilstuðlan tetra-fjarskiptakerfisins. Störf björgunarsveita verða aldrei fullþökkuð en á vefsíðu sinni minnir lögreglan á Akranesi enn á, að án björgunarsveitanna væri ekki unnt að bregðast við með þeim hætti, sem gert hefur verið í óveðrunum, svo að ekki sé minnst á önnur hættutilvik. 

Fjárlög ársins 2008 voru samþykkt í langri atkvæðagreiðslu á alþingi í dag. Er með ólíkindum, hvernig þingmenn vinstri/grænna endast til að kveðja sér hljóðs um stórt og smátt í atkvæðagreiðslum af þessu tagi. Nú hafa þeir einangrast á þingi í afstöðu sinni til frumvarps til breytinga á þingskapalögum, sem miðar að því að koma böndum á þingstörfin með strangari kröfum um tímamörk á ræðum. Allir, sem til þekkja, vita, að meiri vinna liggur að baki stuttum og hnitmiðuðum ræðum en löngum orðaflaumi um allt og ekkert, þar sem jafnan er erfitt að greina mun á auka- og aðalatriðum.

Klukkan 14.00 kom starfshópur utanríkisráðherra um hættumat undir formennsku Vals Ingimundarsonar, prófessors í sagnfræði, á fund í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, þar sem ég greindi frá hinum víðtæku öryggisráðstöfunum, sem gerðar hefðu verið á vegum ráðuneytisins og stofnana þess.

Mér gafst tími til að renna yfir grein í tímaritinu Mannlífi, sem kynnt var í gær með þeim hætti, að ég væri að hverfa frá ráðherrastörfum. Það er alrangt eins og svo margt annað í þessari grein Þórarins Þórarinssonar, ritstjóra Mannlífs. Tilgangur greinarinnar virðist vera að koma illu af stað innan Sjálfstæðisflokksins með vísan til orða fólks, sem hefur ekki kjark til að segja til nafns. Mér finnst með ólíkindum, að það kjósi nafnleyndina af ótta við einhvers konar hefnd frá forystu flokksins - í þessu tilviki byggist nafnleyndin á þeirri einföldu skýringu, að heimildarmennirnir eru ekki að segja satt og vita það sjálfir, ef þeir þekkja eitthvað til innan flokksins.

Tímaritið Þjóðmál - vetur 2007, kom út í dag. Þar þora menn að standa við skoðanir sínar og þurfa ekki að vitna til nafnleysingja til að skýra strauma og stefnur í stjórnmálum. Vísað er til umagnar minnar um bók Guðna Ágústssonar á forsíðu Þjóðmála með orðunum: Guðni á hvítum hesti. Í bókinni kemur fram, að Guðni vill hvítt hross sem flokksmerki framsóknarmanna.

Miðvikudagur, 12. 12. 07. - 12.12.2007 19:35

Þegar ég hlustaði á framsöguræðu Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins, í umræðum utan dagskrár á alþingi í dag um kristni, kirkju og skóla og þrá hans eftir að kynnast sjónarmiðum mínum, undraðist ég, að hann hefði ekki fyrr óskað eftir tíma í þingsalnum til að heyra skoðun mína.

Ég hef ekki talið neina þörf á því að blanda mér í umræður um frumvarp til grunnskólalaga og trúarbragðafræðslu í skólum, vegna þess að skoðanir mínar um mikilvægi þess, að kristin viðhorf njóti sín í skólastarfi liggja fyrir opinberlega. Hins vegar var mér ljúft að árétta skoðun mína í ræðu á þinginu í dag.

Í lok ræðu minnar gat ég þess, að vísbendingar væru um, að hlutur þjóðkirkjunnar minnkaði í samanburði trúfélaga. Síðan 1. desember 1980 fram til 1. desember 2007 hefði landsmönnum fjölgað um 37% en um 18% í þjóðkirkjunni. Þetta er óneitanlega sláandi munur.

Ég var ekki fyrr kominn heim af þingi en hringt var í mig frá sjónvarpi ríkisins og spurt, hvort rétt væri, að ég hefði sagt í viðtali við Mannlíf, að ég mundi hverfa af vettvangi stjórnmála snemma næsta árs. Ég sagðist ekki hafa talað um stjórnmál við neinn á Mannlífi og vissi ekki, hvað um væri að ræða - hitt væri einfaldlega rugl, að ég væri að hætta í stjórnmálum.

Spurningum annarra fjölmiðlamanna um málið svaraði ég á þann veg, að kannski væri þetta enn og aftur óskhyggja eigenda Mannlífs, um að ég hætti stjórnmálaafskiptum. Þetta rímar að minnsta kosti vel við áskorun Jóhannesar Jónssonar í Bónus daginn fyrir þingkosningarnar í vor.

Fyrir skömmu fékk ég tölvubréf frá Mannlífi með fyrirspurn um, hvort ég vildi skýra frá því í tímaritinu, hvað ég myndi gefa Jóhannesi í Bónus í jólagjöf. Ég hafnaði boðinu. Jólagjöf Mannlífs til mín er síðan uppspuni um framtíð mína í stjórnmálum.

Þriðjudagur 11. 12. 07. - 11.12.2007 23:02

Rut hélt útgáfuteiti í kvöld í tilefni af útgáfu hljómdisks hennar og Richards Simms með sónötum fyrir fiðlu og píanó eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Karl Ottó Runólfsson, Jón Nordal og Fjölni Stefánsson.

Ég sé, að Guðmundur Magnússon er hættur á dv.is, eftir að hafa hleypt vefsíðunni af stokkunum. Hann segir síðuna hafa náð miklum lestri á skömmum tíma. Mér finnst einhvern veginn, að það hafi vantað punktinn yfir i-ið á síðunni.

Stjórn þróunarfélagsins, sem annast hefur sölu eigna í Keflavíkurstöðinni, efndi til blaðamannafundar í gær til að svara ásökunum Atla Gíslasonar, þingmanns vinstri/grænna, og fleiri um, að hún hefði staðið illa eða óeðlilega að eignasölunni. Stefán Þórarinsson stjórnarmaður segir í DV í dag um þingmennina Atla Gíslason, Grétar Mar Jónsson, Frjálslynda flokknum, og Bjarna Harðarson Framsóknarflokknum:

„Þetta eru allt nýliðar á þingi, á sínum fyrsta vetri og í stjórnarandstöðu. Þeir hafa ekki verið með nein mál á dagskrá og sumir komið með beyglaða ímynd inn á þingið. Einn þeirra var til dæmis sakaður um að hafa brotið reglur í laxveiðiám og dróst þannig inn í fjölmiðlaumræðuna. Hann er að nýta tækifærið til að fá athygli fjölmiðlanna á annan hátt og það hefur tekist. En hann gerir það á kostnað mannorðs míns. Mér finnst sorglegt ef þingmenn hafa ekki meira fram að færa en þetta."

DV segir að með þessum orðum beini Stefán spjóti sínu sérstaklega að Atla Gíslasyni. Geir H. Haarde forsætisráðherra gerði það einnig, þegar hann svaraði dylgjum Atla í þingræðu með þeim orðum, að ekki væri „maðkur í mysunni", þegar litið væri til starfa þróunarfélagsins.

Mánudagur, 10. 12. 07. - 10.12.2007 19:16

Fór í hádegi í björgunarmiðstöðina við Skógarhlíð og kynnti mér framvindu almannavarnaæfingar vegna fuglaflensu.

Klukkan 13.30 komu aðstandendur 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi á minn fund í alþingsihúsinu og afhentu mér lista með nöfnum um 1700 manns, þar sem hvatt er til þess að gerð verði aðgerðaáætlun gegn mansali, en 16 daga átaki í þágu þess málstaðar lauk í dag. Ásamt listanum afhentu þær mér jólakerti og skreytingu til að fagna því, að við félagsmálaráðherra höfum samþykkt, að þessi aðgerðaáætlun verði samin.

Undanfarin misseri hafa mál vegna mansals verið á forræði dóms- og kirkjumálaráðuneytis og hef ég flutt frumvörp á alþingi til að treysta refsilagaheimildir gegn þessum vágesti auk þess sem unnið hefur verið að því að fella íslensk lög að Palermó-samningni SÞ og samningi Evrópuráðsins gegn mansali. Eftir að þessari lagavinnu er lokið flyst forræði mansalsmála innan stjórnarráðsins til félagsmálaráðuneytis, enda er hér ekki aðeins um refsimál að ræða heldur einnig mál, sem krefjast félagslegra úrræða. 

Sunnudagur, 09. 12. 07. - 9.12.2007 18:47

Skrifaði pistil á síðuna í dag um PISA-rannsóknina.

Tim Russert ræddi við Rudy Giuliani í Meet the Press á CNBC í dag og saumaði að honum á málefnalegan hátt og með skýrum tilvitnunum. Giuliani varðist fimlega og af öryggi.

Spurningarnar báru þess vitni, að hart er sótt að þessum frambjóðanda í prófkjöri repúblíkana fyrir forsetakosningarnar og ekki virðist Giuliani eiga neina von um að sigra í tveimur fyrstu prófkjörs-ríkjunum New Hampshire og Iowa uppúr áramótunum. Giuliani sagðist þó standa víða vel og nefndi oftast Flórída til sögunnar, þegar hann fagnaði góðum stuðningi við sig.

Tim Russert ber af þeim, sem stjórna umræðuþáttum af þessu tagi. Hinn yfirvegaða og rólega málafylgja er helsti kostur hans.

Laugardagur, 08. 12. 07. - 8.12.2007 21:48

Sjálfstæðiskvennafélagið Hvöt fagnaði 70 ára afmæli sínu í dag með hófi í Valhöll. Björg Einarsdóttir flutti hátíðarræðu, rifjaði upp þætti úr sögu félagsins og leit til framtíðar.

Hrafn Jökulsson tekur upp hanskann fyrir þá Sigmund Erni og Guðna Ágústsson í Morgunblaðinu í dag, þegar hann svarar ritdómi Jóns Þ. Þórs sagnfræðings í blaðinu 6. desember um bókina um Guðna. Dómur Jóns Þ. hafði farið fram hjá mér en grein Hrafns leiddi mig að honum.

Ég er þeirrar skoðunar, að Guðni hafi tekið boði um bókina á þessari stundu til að styrkja sig í formannssessi Framsóknarflokksins. Jón Þ. telur af og frá, að honum takist það með samstarfinu við Sigmund Erni. Ég veit ekki, hvar Jón Þ. stendur í pólitík en bregðist margir framsóknarmenn við bók Guðna eins og hann, tekst Guðna ekki að styrkja stöðu sína innan flokksins á þennan hátt.

Ég ætla ekki að segja meira um bók Guðna á þessari stundu en umsögn mín um hana birtist í næsta heftir af Þjóðmálum.

 

Föstudagur, 07. 12. 07. - 7.12.2007 21:36

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, heldur úti vefsíðu og segir þar frá miklum ferðalögum sínum og lýsir viðhorfi sínu til þess, sem hæst ber á þeim fundum, sem hann situr.

Hinn 5. desember segir hann í dagbókarfærslu undir fyrirsögninni: Nýtt öryggi:

„Sedan början av 1990-talet har det skett ett mjukt farväl till neutralitetspolitiken i vårt land. Men det har varit ett farväl som inte varit utan sina återfall och sina svårigheter.

Denna regering använder inte begreppet av den enkla anledningen att det saknar relevans. Genom medlemskapet i den Europeiska Unionen ingår vi i en politisk allians som innebär en helt annan verklighet.

Gårdagens betänkande från den parlamentariska försvarsberedningen sätter nu saken på papper på ett tydligt sätt:

Sverige kommer inte att förhålla sig passivt om en katastrof eller ett angrepp skulle drabba en annan EU-medlemsstat eller ett annat nordiskt land.Vi förväntar oss att dessa länder agerar på samma sätt om Sverige angrips.

Därmed skrivs neutralitet som option bort i varje rimligt fall. Vi har ju knappast som tradition att förklara neutralitet i konflikter i mer avlägsna delar av världen. Säkerhetspolitiken handlar om säkerheten i vår egen del av världen."

Hann vitnar sem sagt í nýtt álit sænska þingsins um varnarmál, þar sem segir, að Svíar muni ekki sitja hjá ef einhverjar hörmungar eða árás beinist gegn öðru ESB-ríki eða öðru norrænu ríki. Við væntum þess, að þessi ríki geri hið sama, verði ráðist á Svíþjóð. Bildt segir, að hlutleysi Svía sé hluti af sögunni en ekki samtímanum.

Það segir sína sögu um sjálfhverft viðhorf, að í norskum og íslenskum fjölmiðlum skuli þessi mikilvæga stefnubreyting vera túlkuð á þann veg, að Svíar muni grípa til varna, verði ráðist á Noreg eða Ísland!

Hér var í síðustu viku nefnd háttsettra manna úr sænska varnarmálaráðuneytinu til að kynnast viðhorfum okkar Íslendinga og ræddi ég meðal annars við þá um störf og skipulag lögreglu og landhelgisgæslu, auk þess sem þeir heimsóttu miðstöðina við Skógarhlíð. Sænska varnarmálaráðuneytið fer með stjórn borgaralegra viðbragða við almannavá og vill treysta samstarf við okkur á sviði almannavarna. Þá hefur landhelgisgæslan átt náið samstarf við sænska herinn við kaup á nýrri flugvél, sem er af sömu gerð og með samskonar búnað og vélar Svía til eftirlits á Eystrasalti.

 

Fimmtudagur, 06. 12. 07. - 6.12.2007 9:25

Það er til marks um miklar breytingar á skömmum tíma, að í dag skuli hafa farið fram umræða á alþingi, þar sem Geir H. Haarde forsætisráðherra þurfti að taka upp hanskann fyrir þá, sem að því hafa staðið að breyta mannvirkjum í Keflavíkurstöðinni í verðmæti.

Fyrir ári var rætt um þetta mál á allt öðrum grunni á alþingi. Þá var þingið að fjalla um frumvarp til laga um sérstakt þróunarfélag til að sinna verðmætum í Keflavíkurstöðinni, sem stóðu yfirgefin eftir brottför Bandaríkjahers, sum þeirra lágu raunar undir skemmdum, eftir að flæddi í fyrsta frosti vetrarins.

Í umsögn fjármálaráðuneytisins um áhrif frumvarpsins á ríkissjóð er aðeins rætt um útgjöld vegna þess og sagt, að í fjárlagafrumvarpi vegna ársins 2007 sé gert ráð fyrir 280 m. kr. framlagi til að standa straum af kostnaði við umsjón, rekstur, öryggisgæslu og viðhald varnarsvæðisins og mannvirkja íslenska ríkisins á svæðinu. Þá sagði: „Þar sem vinna við svæðið og umbreytingu þess er rétt að hefjast eru áætlanir háðar óvissu. Gert er ráð fyrir að fjárveitingar taki breytingum eftir því sem fasteignum á svæðinu verður komið í borgaraleg not.“

Á undraskömmum tíma hefur þróunarfélaginu tekist undir formennsku Magnúsar Gunnarssonar að skapa ríkissjóði 15 til 20 milljarða króna tekjur með sölu á þessum eignum.

Fyrir ári var kallað eftir aðild sveitarfélaga að öllum ráðstöfunum eignanna og sagt, að halda yrði verði þeirra í skefjum til að raska ekki fasteignamarkaði utan Keflavíkurstöðvarinnar. Nú hneykslast stjórnarandstaðan á því, að sveitarstjórnarmenn komi að störfum þróunarfélagsins og verð á seldum eignum hafi verið alltof lágt. Hver er skýringin? Jú, sjálfstæðismenn hafa verið að hygla hverjir öðrum. Í því tali er auðvitað skautað fram hjá því, að eigi forystumenn næstu sveitarfélaga að koma að málinu, eru þeir sjálfstæðismenn, vegna þess hve flokkurinn hefur þarna sterka stöðu með stuðningi kjósenda.

Hafi einhver tapað trúverðugleika í þessu máli, er það Atli Gíslason, þingmaður vinstri/grænna, sem reynir endalaust að fiska í því grugguga vatni, að hann skorti upplýsingar, fái ekki að sjá það, sem hann vill sjá, og ekki sé unnt að treysta ríkisendurskoðun til að leiða hið sanna fram.

Langt er síðan seilst hefur verið jafnlangt og Atli Gíslason gerir í þessu máli til að koma spillingarstimpli á pólitíska andstæðinga - hið undarlega er, að þetta gerir þingmaðurinn með þau orð á vörunum, að hann hafi ekki fengið nægilega mikil gögn um málið. Það gæti sem sagt verið satt að hans mati, á meðan hann hefur ekki kynnt sér málið til hlítar.

Spuni af þessu tagi er notaður, af því að menn vita, að hann á hljómgrunn meðal fjölmiðlamanna og unnt er að halda sér í sviðsljósinu í krafti hans.

Lesa meira

Miðvikudagur, 05. 12. 07. - 5.12.2007 21:32

Var með viðtöl fyrir hádegi eins og jafnan á miðvikudögum. Ég glími ekki við neinn biðlistavanda.

Í umræðum um fjárveitingar í stórþinginu sagði einn ræðumanna, að hroðlaegt væri fyrir Norðmenn að búa við biðlista á öllum sviðum, en við hverju öðru væri að búast, þegar sósíalistar, kommúnistar og stalínistar væru við völd - og enn fengist stjórnleysið staðfest með því að meira að segja Ísland ýtti Noregi úr efsta sæti á lífskjaralista SÞ!

Klukkan rúmlega 18.00 svaraði ég tveimur fyrirspurnum á alþingi, frá Álfheiði Ingadóttur og Árna Þór Sigurðssyni, þingmönnum vinstri/grænna.

Álfheiður gerði því skóna, að íslensk stjórnvöld væru að miðla upplýsingum um refsidóma yfir Íslendingum til bandarískra stjórvalda, en það leiddi til þess, að menn fengju ekki að koma inn í Bandaríkin. Í svari mínu sagði ég ekki neitt styðja þessa skoðun.

Mér skildist á Álfheiði, að hún teldi fráleitt, að mönnum væri vísað frá Bandaríkjunum, ef yfirvöld þar teldu sig hafa rök til þess samkvæmt lögum sínum og upplýsingum um viðkomandi.

Schengen-samstarf Evrópuríkja snýst meðal annars um rekstur öflugs gagnagrunns og tenginga í hann úr öllum ytri landamærastöðvum og frá öðrum miðlægum stöðum til unnt sé að kanna þá, sem koma inn á svæðið, meðal annars hvort þeim hafi verið brottvísað af því um lengri eða skemmri tíma vegna afbrota. Skráning í grunninn ræður, hvort viðkomandi er hleypt inn á svæðið eða ekki.

Í því felst nokkur hræsni að láta eins og Bandaríkjamenn séu eitthvað strangari að þessu leyti en Schengen- eða EES-ríkin. Í Leifsstöð eru til dæmis allir skoðaðir, sem koma með flugi frá Bandaríkjunum með vísan til EES-reglna. Mörgum Íslendingum kemur þetta spánskt fyrir sjónir en skoðun á þeim byggist á því, að ekki er sérgangur inn í landið fyrir þá, sem koma frá Bandaríkjunum.

Þriðjudagur, 04. 12. 07. - 4.12.2007 21:14

Fyrir hádegi hittumst við norrænir dómsmálaráðherrar og embættismenn í höfuðstöðvum KRIPOS, norsku rannsóknarlögreglunnar, og kynntumst aðferðum og aðgerðum lögreglunnar gegn barnaklámi á netinu.

Flaug síðdegis frá Ósló til Kaupmannahafnar og þaðan heim um kvöldið.

Mánudagur, 03. 12. 07. - 3.12.2007 16:15

Flaug klukkan 07.50 frá Keflavík til Óslóar.

Sat síðdegis kynningarfund í norska varnarmálamráðuneytinu á framtíðarstefnu Norðmanna í varnarmálum, eins og hún hefur verið boðuð af yfirmanni norska heraflans og þverpólitískri nefnd. Búist er við, að stórþingið ræði málið næsta vor og komist að niðurstöðu í júní 2009.

Ég ákvað að nýta mér þjónustu Fjölmiðlavaktarinnar og taka saman yfirlit yfir fréttir sjónvarps og hljóðvarps ríkisins um svonefnt fangaflug dagana 29. nóvember til 1. desember. Geri ég þetta til að unnt sé að kynna sér á einum stað, hvernig ríkisfjölmiðlarnir hafa flutt fréttir af því, sem ekkert var í upphafi, ekkert reynist vera og á nú að fara að ræða á stórpólitískum grundvelli, ef marka má álitsgjafa Fréttablaðsins.

Sunnudagur, 02. 12. 07. - 2.12.2007 20:50

Í dag komum við afkomendur Benedikts Sveinssonar saman og minntumst þess, að 130 ár eru liðin frá fæðingu hans.

Laugardagur, 01. 12. 07. - 1.12.2007 14:52

Ég sé að álitsgjafar eru að túlka orð mín í dagbókinni í gær um verkaskiptingu milli ráðuneyta vegna leitar í flugvélum á þann veg, að þau endurspegli einhvern pólitískan ágreining. Þetta sýnir mér aðeins enn og aftur, hve illa menn geta farið með staðreyndir í spuna sínum. Ég fjalla meðal annars um spuna og staðreyndir í öryggismálum í pistli mínum í dag.

Ég sagði þetta um verkaskiptinguna í gær, vegna þess að til 1. janúar 2007 fór utanríkisráðuneytið með lögreglu- og tollvald á Keflavíkurflugvelli. Með því að lögreglustjórinn á Suðurnesjum kom til sögunnar 1. janúar hvarf þetta vald úr höndum ráðuneytisins og er nú hjá dóms- og kirkjumálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti.

Séra Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur sendi mér eftirfarandi vísu í gærkvöldi eftir Heiðar Karlsson á Húsavík og leyfi ég mér að birta hana hér, þar sem hún snertir umræðuefni dagsins:

Einstaklingshyggja og ágreiningsþörf
oftast á spýtunni hanga.
Björn hann er aðeins við eftirlitsstörf,
Ingibjörg leitar fanga.

Föstudagur, 30. 11. 07. - 30.11.2007 17:34

Eftir ríkisstjórnarfund óskuðu fréttakonur útvarps og sjónvarps ríkisins eftir viðtali við mig vegna fréttar í sjónvarpinu kvöldið áður um svonefnda „fangaflugvél" frá Bandaríkjunum. Ég gat ekki veitt þeim aðrar upplýsingar en þær, að vélin hefði verið skoðuð á venjubundinn hátt í samræmi við reglur við komu flugvéla frá ekki-Schengen-ríki, en vélin kom frá Bretlandi. Tveir tollverðir og lögreglumaður fóru um borð í vélina. Mér kom á óvart, að svo virtist sem fréttakonurnar teldu hér eitthvað óvenjulegt á ferð. Ég gat að sjálfsögðu ekki samsinnt því og taldi ekki ástæðu til að taka þátt í neinum vangaveltum um málið. Ég skýrði einnig frá því, að vegna komu þessarar vélar hefði ekki verið neitt samráð milli utanríkisráðuneytis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis. Utanríkisráðuneytið á raunar ekki aðild að landamæravörslu heldur embættismenn á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis.

Í kvöldfréttum sjónvarpsins var látið í veðri vaka, að eitthvað grunsamlegt væri við, að fréttastofan teldi sig vita, að tveir menn hefðu verið um borð í vélinni en utanríkisráðherra segði þá hafa verið fimm. Fréttastofan fylgist ekki nægilega vel með, því að það var opinberlega staðfest í dag, að fimm menn hefðu verið um borð í vélinni og lögreglumaður skoðaði vegabréf þeirra allra. Hið skrýtna í málinu fer að verða, hvers vegna fréttastofa sjónvarpsins segir svona einkennilegar fréttir af því.

Klukkan 11.30 vorum við Knut Storberget, dómsmálaráðherra Noregs, í Þjóðmenningarhúsinu og rituðum undir samkomulag um samvinnu við kaup á björgunarþyrlum. Markar samningurinn tímamót í starfi Landhelgisgæslu Íslands og leggur grunn að endurnýjun þessa mikilvæga björgunarkosts hennar og auk þess nánu samstarfi við Norðmenn á sviði björgunarmála.

Fimmtudagur, 29. 11. 07. - 29.11.2007 0:27

Knut Storberget, dómsmálaráðherra Noregs, kom til landsins í dag og hittumst við í kvöld. Við munum á morgun skrifa undir samning um sameiginleg kaup á björgunarþyrlum.

Miðvikudagur, 28. 11. 07. - 28.11.2007 21:38

Við lentum á Keflavíkurflugvelli kl. 06.10 í morgun eftir rúmlega fjögurra tíma flug frá Boston, við vorum hins vegar tæpa sex tíma á leiðinni þangað. Háloftastraumar ráða miklu um hraða vélanna.

Síðdegis hitti ég sendinefnd frá Svíþjóð, sem kom hingað til að ræða varnar- og öryggismál og kynnti sér meðal annars starfsemi í björgunarmiðstöðinni við Skógarhlíð. Sænska varnarmálaráðuneytið fer með almannavarnir þar í landi og er gagnkvæmur áhugi að efla samstarf milli ríkjanna á þessu sviði.

Rúmlega 18.00 svaraði ég fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar á alþingi um aðgerðir til að efla öryggi í netheimum, ekki síst öryggi barna. Lýsti ég nýjum lögum um þetta efni og aðgerðum lögreglu í samstarfi við Barnaheill og netþjónustufyrirtæki.

Við heimkomuna heyrði ég um þá niðurstöðu í lífskjaramati Sameinuðu þjóðanna, þar sem litið er til 177 landa, að Ísland hefði nú náð efsta sæti. Þetta er glæsilegur árangur af 16 ára stjórnarforystu Sjálfstæðisflokksins. Lagt er mat á alla þætti, sem ráða lífskjörum manna.

Þriðjudagur, 27. 11. 07. - 27.11.2007 18:07

Fór fyrir hádegi í heimsókn í stöð bandarísku strandgæslunnar í Boston. Ég hitti Rear Admiral Sullivan, yfirmann stöðvarinnar, sigldi síðan um höfnina og fór í stjórnstöð stöðvarinnar. Þar var meðal annars kynnt, hvernig tekið er á móti gasflutningaskipum, LNG-skipum, í höfninni. Mikillar varúðar er gætt, enda sigla skipin með farm sinn inn í Boston-borg. Þau koma á fimm til sjö daga fresti með gas frá Trinidad/Tobago.

Hinn 20. október hófust slíkir gasflutningar frá gasstöð fyrir norðan Hammerfest í Noregi, frá eyju, sem breytt hefur verið í safn- og útflutningshöfn, safnað er neðansjávar gasi úr holum á hafsbotni. Þaðan er áætlað að flytja um 70 farma á ári til Spánar eða Bandaríkjanna. Farmur hvers skips nægir til að sjá 45.000 manna borg fyrir orku í eitt ár.

Ef einhver truflun verður á gasflutningum til Boston, leiðir það fljótt til orkuskorts á svæðinu og má því kalla gasskipin lífæð borgarinnar.

Ég hvatti til aukinnar samvinnu Landhelgisgæslu Íslands og bandarísku strandgæslunnar. Hér í Boston þekkja strandgæslumenn vel til þess, sem landhelgisgæslan gerir og landhelgisgæslumenn hafa verið hér á ferð til skrafs og ráðagerða.

Mánudagur, 26. 11. 07. - 26.11.2007 3:16

Það rigndi í Boston í dag. Fyrir hádegið lauk ég við að skrifa ritdóm fyrir Þjóðmál um bókina um Guðna Ágústsson. Ég hafði gaman af því að lesa hana og hefði getað skrifað miklu lengra mál um hana en ég gerði. Harkan í átökunum innan Framsóknarflokksins, þegar ýta átti Guðna til hliðar, var greinilega mun meiri, en áður hefur verið lýst opinberlega. Hið skrýtna er, að Guðni er með pálmann í höndunum, þótt ófarir flokks hans hafi verið miklar.

Upp úr hádegi fórum við á Harvard Square og þaðan í John F. Kennedy School of Government. Innan skólans er alþjóðafræðasetur, Belfer Center. og flutti ég erindi á þess vegum og svaraði síðan spurningum - var þetta málstofa um þróun mála á N-Atlantshafi og heimskautasvæðunum.

Erindið flutti ég í sama fyrirlestrasal og ég heimsótti fyrsta daginn minn á leiðtoganámskeiðinu, sem ég sótti í skólanum árið 2000.

Fyrir utan nemendur og kennara í skólanum voru þarna prófessorar úr öðrum háskólum á svæðinu, þeirra á meðal Michael Corgan frá Boston University, sem er mörgum Íslendingum að góðu kunnur, og Alan K. Henrikson frá Fltecher School. Hann þekkir marga Íslendinga bæði sem kennari og gestur á Íslandi.

Eftir tæplega tveggja tíma málstofu snæddum við kvöldverð í Harvard Faculty Club.

Sunnudagur, 25. 11. 07. - 25.11.2007 16:20

Enn er sólbjart en frekar kalt hér í Boston. Hvar sem komið er hljóma jólalög og jólaskreytingar serja svip á borgina. Eftir þakkargjörðardaginn, sem var á fimmudag, er jólatíðin hafin hér í Bandaríkjunum.

Starfsumhverfi okkar þingmanna er skrýtið og sannaðist mér enn í morgun, þegar ég skoðaði vefsíður fréttamiðla. Þar stóð á ruv.is:

Ráðuneyti gagnrýnir frumvarp Björns

Ég vissi, að nú hlyti eitthvað meira en lítið að vera á ferðinni, úr því að eitthvert frumvarp væri kennt við mig með nafni, ekki einu sinni embættisheiti. Það er ekki gert nema fréttamenn telja sig komast í feitt.

Þegar ég las áfram sá ég, að í raun var þetta engin frétt. Visað er í umsögn fjármálaráðuneytis með frumvarpi til laga um meðferð sakamála, þar sem bent er á, að í fjálörgum ársins 2008 sé ekki gert ráð fyrir útgjöldum vegna nýs embættis héraðssaksóknara.

Frumvarpið var ekki fullbúið fyrr en frestur ráðuneyta til að skila tillögum til útgjalda á fjarlögum var liðinn auk þess sem frumvarpið, sem er meira en 200 blaðsíður í þingskjali getur hæglega verið til meðferðar á fleiri þingum en því, sem nú situr. Þá er eins víst, að frumvarpið taki breytingum í meðförum alþingis, til dæmis á þann veg, að gefinn verði ákveðinn tími til að stofna hið nýja embætti eins og gert var, þegar embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kom til sögunnar.

Fréttin í þessu máli er ekki sú, að óvist sé um útgjöld á árinu 2008 vegna embættisins heldur hitt, að fjármálaráðuneytið hafi yfirleitt séð ástæðu til að árétta þessa algildu reglu í umsögn sinni um frumvarpið - það liggur í augum uppi, að engin útgjöld eru ákveðin á vegum ríkisins nema með fjárlögum.

Að ruv,is breyti umsögn fjármálaráðuneytis um almennar leikreglur í sérstaka  gagnrýni á frumvarp er í sjálfu sér nýmæli. Spunasíðan eyjan.is spinnur auðvitað þráðinn, eftir að ruv.is kom henni á bragðið.

Laugardagur, 24. 11. 07. - 24.11.2007 21:37

Það er kalt en bjart í Boston. Á götunum og í verslunum má sjá Íslendinga á ferð. Forsíðufrétt Boston Globe var um, að Evrópubúar streymdu til borgarinnar til að nýta sér lágt gengi dollarans og gera hagstæð kaup.

Í Morgunblaðinu birtist grein eftir mig, þar sem ég tek upp hanskann fyrir islenska vegabréfakerfið, sem é tel eitt hið besta í heimi, þrátt fyrir gagnrýni Ómars Valdimarssonar.

Mér finnst með ólikindum að lesa spunann um að ágreiningur sé innan Sjálfstæðislfokksins um málefni OR/REI og að Björn Ingi Hrafnsson skuli telja sig í stöðu til að ráðast á sjálfstæðismenn vegna þessa máls eftir allt, sem á undan er gengið. Þetta er í besta falli gert til að draga athygli frá því, að félagshyggjumenn í borgarstjórn geta ekki koið sér saman um neina stefnu, hvorki í málum OR/EI né borgarstjórnar almennt.

Enn sannast, hve auðvelt er að afvegaleiða umræður, þegar fjölmiðlamenn meta spuna til jafns við staðreyndir. Sjálfstæðismenn fara hvorki með meirihluta í stjórn OR né borgarstjórn um þessar mundir og þess vegna eru allar ákvarðanir, sem teknar eru á þeim vettvangi á ábyrgð annarra, þar á meðal Björns Inga og Samfylkingarinnar. Leiði þær til þess að milljarðir tapast, verða félagshyggjumenn að líta í eigin barm og vasa en ekki annarra.

Föstudagur, 23. 11. 07. - 23.11.2007 21:28

Flugum til Boston síðdegis. Áður en ég fór sendi Guðni Ágústsson mér bók Sigmundar Ernis um Guðna og hafði ég gaman af að lesa hana í flugferðinni. Ég ætla að ljúka við hana, áður en ég segi eitthvað um efni hennar.

Fimmtudagur, 22. 11. 07. - 22.11.2007 19:36

Samkvæmt niðurstöðum könnunar, sem birt var í dag, eru íbúar höfuðborgarsvæðisins ánægðir með störf lögreglunnar, en um 90% töldu lögregluna skila frekar góðu eða góðu starfi. Yfir 90% íbúa telja sig jafnframt almennt vera örugga eina á gangi í sínum eigin hverfum þegar myrkur er skollið á. Þrátt fyrir það sögðust um 55% íbúa á höfuðborgarsvæðinu sig vera mjög eða frekar óörugga eina á gangi í miðborg Reykjavíkur eftir myrkur.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu getur unað vel við þessa niðurstöðu enda sýnir hún, hve mikils trausts hún nýtur. Staða lögreglunnar er sterk, þrátt fyrir hinar neikvæðu umræður síðsumars um atbeina hennar gegn subbuskap og ómenningu í miðborg Reykjavíkur.

Í dag skipaði ég Valtý Sigurðsson. fangelsismálastjóra, í embætti ríkissaksóknara frá og með 1. janúar 2008. Var hann meðal sex umsækjenda um embættið.

Í sjónvarpsfréttum ríkisins var í kvöld sagt frá því, að með frumvarpinu um meðferð sakamála væri ég að mæla með því, að lögregla þyrfti úrskurð dómara til að lögregla gæti notað eftirfararbúnað - slíkan úrskurð þyrfti ekki nú.

Sérkennilegt er, að Atli Gíslason, þingmaður vinstri/grænna, telji, að með þessu sé ég að vega að mannréttindum. - Fjölmiðlamenn hafa talað á sama veg og Atli og talið þetta eitt fréttnæmasta ákvæði frumvarpsins þar sem í því fælist aðför að mannréttindum.  Er það virkilega aðför að mannréttindum að leggja til, að ákvæði um þessa rannsóknaraðferð lögreglu sé lögbundin og háð úrskurði dómara?

Atli Gíslason hefur einfaldlega hlaupið á sig í gagnrýni á frumvarpið um meðferð sakamála eins og hann hljóp á sig í gagnrýni á sölu eigna í Keflavíkurstöðinni - en alþingi samþykkti sérstök lög um, hvernig að sölunni skyldi staðið.

Miðvikudagur, 21. 11. 07. - 21.11.2007 12:03

Í gærkvöldi mælti ég fyrir fjórum lagafrumvörpum á alþingi, þar á meðal frumvarpi um meðferð sakamála og má skoða framsöguræðu mína hér.

Fjölmiðlafrásagnir af þessu mikla frumvarpi, en þingskjalið er rúmar 200 blaðsíður, koma mér á óvart, því að þar er staldrað við þann hluta af óhefðbundnum rannsóknaraðferðum lögreglu, sem byggjast á notun eftirfararbúnaðar og hlerunum. Er skrýtið, að þetta þyki sérstaklega fréttnæmt, þar sem í frumvarpinu er verið að lögfesta reglur, sem hafa verið við lýði án athugasemda dómara. Hið nýja í málinu er, að verið er að lögfesta reglurnar.

Í 24 stundum er rætt við Hörð Helgason héraðsdómslögmann, sem spyr af þessu tilefni, hversu langt stjórnvöld ætli að ganga í því að skerða frelsi hins almenna borgara. Sér hann þá leið helsta út úr vandanum að draga úr bönnum gegn fíkniefnum.

Í morgunfréttum hljóðvarps ríkisins var rætt við Atla Gíslason þingmann vinstri/grænna um sölu á eignum í Keflavíkurstöðinni, sem hann telur lögbrot og EES-brot - fréttastofan tók fram, að Atli væri hæstaréttarlögmaður, líklega til að gera orð hans merkilegri.

Í Kastljósi kvöldsins krafðist Atli gagna um sölu eigna í Keflavíkurstöðinni í krafti þess, að hann væri fulltrúi almennings og alþingismaður.

Atli Gíslason er vissulega alþingismaður, hæstaréttarlögmaður og fulltrúi almennings - en hann er einnig pólitískur málsvari stjórnmálaflokks, sem ætlar enn og aftur að þrífast á því að gera aðra tortryggilega og væna þá um að kunna ekki að gæta almannahagsmuna. Hvernig væri, að Atli kenndi Svandísi Svavarsdóttur, flokkssystur sinni, að gæta hagsmuna almennings við ráðstöfun á eignum Orkuveitu Reykjavíkur? Tvískinnungur vinstri/grænna gerir þá marklausa.

Markaðsfréttir eru ekki góðar en FL Group er að festa fé á yfirverði með OR í orkuveitu á Filippseyjum, sem hlýtur að sýna sterka stöðu FL - en hvert er hlutverk OR, sem þarna er undir nafninu REI?

Evran er algóð segja sumir en hvað segir þýska vikublaðið Der Spiegel:?

„The strong euro -- and weak dollar -- is making it increasingly difficult for European companies to do business overseas. SPIEGEL ONLINE spoke with German government economic advisor Peter Bofinger about the dangers of an unfettered euro and what the European Central Bank should do.“

Þetta bendir ekki til þess, að lausn alls vanda hafi fundist með evrunni - er það? Að sjálfsögðu ekki. Í Evrulandi kvarta menn ekki síður undan gengi og vöxtum en annars staðar.