15.12.2007

Öryggisráðstafanir - rússneski flotinn.

Í vikunni átti ég þess kost að hitta starfshóp utanríkisráðherra um hættumat, sem starfar undir formennsku Vals Ingimundarsonar, sagnfræðiprófessors. Ég lagði á fundinum fram skýrslu um víðtækar öryggisráðstafanir á vegum stofnana, sem starfa á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Samhliða því, sem þessi starfshópur er að vinna að hættumatinu á vegum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, hefur ráðherrann unnið að því semja frumvarp til varnarmálalaga, eins og hún boðaði á fundi Samtaka um vestræna samvinnu á dögunum. Er mikils virði, að með skýrum og afdráttarlausum hætti sé fest í lög, hvernig gæslu varnarhagsmunanna er háttað um leið og tryggt er, að öll upplýsingaöflun í þágu þeirra nýtist borgaralegum öryggis- og eftirlitsstofnunum.

Í skýrslu minni til hættumatshópsins segir „Mikið áunnist á undanförnum árum við að samhæfa störf allra, sem að öryggismálum koma. Stílbrot á þeirri þróun að koma á fót nýrri stofnun í kringum ratsjárkerfið. Íhuga alla þætti vel, áður en það skref er stigið.“

Spunameistari á eyjan.is telur, að í þessum orðum felist ágreiningur minn við það, sem utanríkisráðherra er með á prjónunum. Ratsjárstofnun starfar á vegum utanríkisráðuneytisins og boðað hefur verið, að um hana þurfi að setja lög, eftir að íslensk stjórnvöld hafa tekið að sér rekstur hennar. Af minni hálfu er ekki ágreiningur um, að þessi stofnun starfi áfram og utanríkisráðuneytið haldi á málum hennar eftir því sem aðild Íslands að NATO og loftrýmisgæsla krefst. Stílbrotið fælist í því, ef upplýsingaöflun og boðmiðlun félli ekki inn í hina samhæfðu borgaralegu miðstöð, sem hefur verið að þróast.

Stofnun á vegum utanríkisráðuneytisins kemur ekki í veg fyrir, að um slíka samhæfingu verði að ræða – þannig er Vaktstöð siglinga til komin með samstarfi siglingastofnunar (á vegum samgönguráðuneytis) og landhelgisgæslu (á vegum dómsmálaráðuneytis). Ratsjárstofnun er þegar til og þess vegna ekki ný stofnun, það þarf að fella boð frá henni inn í hið samhæfða öryggiskerfi auk þess sem þau yrðu send til NATO. Ratsjárstofnun gegnir síðan hernaðarlegu varnarhlutverki, sem þarf eðlilega að skipa innan lagaramma til að skapa skil frá hinum borgaralegu stofnunum. Um þetta er samstaða milli mín og utanríkisráðherra og spunameisturum á eyjan.is tekst ekki, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, að breyta því.

Mér sýnist þessi sjónarmið Péturs Gunnarssonar á eyjan.is vera arfur, frá því að Valgerður Sverrisdóttir var utanríkisráðherra. Á þeim tíma og við brottför varnarliðsins mátti hún ekki heyra minnst á breytingar á hlutverki utanríkisráðuneytisins eða stofnana á þess vegum og virtist hún helst telja, að ekkert hefði í raun breyst hjá utanríkisráðuneytinu með brottför varnarliðsins. Vegna afstöðu Valgerðar var látið sitja við óbreytt ástand nema flutning löggæslu frá utanríkisráðuneytinu fram yfir kosningar í maí.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur tekið á þessum málum á annan veg en Valgerður og nú um áramótin flyst til dæmis yfirstjórn flugmála á Keflavíkurflugvelli, þar á meðal flugstöð Leifs Eiríkssonar til samgönguráðuneytis. Um síðustu áramót fluttist stjórn lögreglu- og tollamála til viðkomandi ráðuneyta, dómsmála og fjármála.

Á fundi Samtaka um vestræna samvinnu hinn 27. nóvember sl. sagði Ingibjörg Sólrún:

„Þegar ratsjárkerfinu var komið upp á níunda áratugnum var það eitt hið fullkomnasta í heiminum enda Ísland þá lykilsvæði í utanríkisstefnu Bandaríkjastjórnar. Mannvirki og búnaður stöðvanna er eign NATO og um það eignarhald gilda strangar reglur sem Ísland sem aðildarríki verður að virða. Þetta setur hagræðingu með samruna við borgaralegar stofnanir hér heima verulegar skorður. Þá er og mikilvægt að greina skýrlega í sundur hernaðarlega varnarstarfsemi og borgaralega starfsemi. Þessvegna er miðað að því að setja sérstök lög um nýja varnarmálastofnun sem annist allan rekstur mannvirkja NATO á Íslandi, sjái um varnaræfingar og samskipti sem byggjast á öryggistrúnaði innan bandalagsins eða eru liður í samhæfðum viðbrögðum NATO-ríkja.“ 

Hin nýja varnarmálastofnun, sem utanríkisráðherra boðar þarna, er alls ekki stílbrot að mínu mati, ef litið er á nýtingu ratsjárkerfisins í þágu hins samhæfða og víðtæka vakt- og boðkerfis, sem hér hefur verið mótað.

 Í Fréttablaðinu 15. desember segir í frétt:

Ekki tókst að koma frumvarpi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra [um varnarmál] á dagskrá Alþingis fyrir jólafrí þingsins, en reiknað er með að það verði lagt fram og rætt snemma á vorþinginu.

Í frumvarpinu verður meðal annars lagt til að sérstakri varnarmálastofnun verði komið á laggirnar. Málið er nú til umræðu í þingflokkum stjórnarliða.

Ingibjörg segir að upphaflega hafi staðið til að ræða málið á Alþingi fyrir jólafrí. Þegar ljóst hafi orðið að ekki næðist að klára málið fyrir þinghlé hafi verið ákveðið að bíða með málið þar til eftir áramót.“

Ég tel mikilvægt að ræða öryggismál og varnarmál fyrir opnum tjöldum eins og sjá má af því, sem ég hef sagt hér á síðunni og í ræðum og skýrslum. Stundum velti ég fyrir mér, hvort það sé þess virði að skýra frá öllum þáttum þessara mála á opinberum vettvangi, vegna þess hve einkennileg viðbrögðin verða. Dæmi um það er spuninn núna á eyjan.is – þar komast menn ekki lengra í hugsun sinni um þessi mál, en að ala á því, að um ágreining milli mín og utanríkisráðherra sé að ræða. Við ráðherrarnir nálgumst viðfangsefnið frá þeim verkefnum, sem við okkur blasa, en þar með er alls ekki sagt, að við séum ósammála.

Ekki tekur betra við, þegar litið er til þess, sem álitsgjafinn Egill Helgason hefur til málanna að leggja. Hann sagði einhvern tíma, að hann þyldi illa eða kannski alls ekki umræður um varnarmál. Hann veit að minnsta kosti ekki mikið um þau eins og sjá má af þessari færslu á vefsíðu hans 15. desember vegna skýrslunnar, sem ég birti:

„Að nafninu til er Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Hann er þó býsna langt úti á verksviði þess sem í mörgum öðrum löndum nefnist innanríkisráðherra. Nema hann ætli sér að verða varnarmálaráðherra? Mun Samfylkingin virkilega láta það yfir sig ganga?“

Hér á landi fer utanríkisráðherra með það hlutverk, sem varnarmálaráðherrar gera annars staðar, eins og frumvarpið um varnarmálastofnun, sem utanríkisráðherra hefur boðað, sýnir. Dómsmálaráðuneytið hér á landi sinnir verkefnum, sem falla undir innanríkisráðuneyti margra landa, eins og stjórn lögreglu og landamæravörslu. Landhelgisgæsla er víða á verksviði varnarmálaráðherra, þótt hún sé í eðli sínu löggæsla. Þetta hlutverk dómsmálaráðuneytisins hefur ekkert breyst með störfum mínum þar. Samfylkingin er ekki að láta neitt yfir sig ganga í því efni. Ég skora á Egil að kynna sér varnar- og öryggismál, áður en hann fer að segja álit sitt á þeim.

 Rússneski flotinn.

Hinn 18. október 2004 flutti ég ræðu á alþingi og sagði meðal annars:

Hinn 24. september síðastliðinn afhenti fulltrúi sendiráðs Rússlands íslenska utanríkisráðuneytinu orðsendingu þess efnis, að floti Rússlands áformaði að senda herskipasveit ásamt flugmóðurskipinu Admiral Kuznetsov til margvíslegra æfinga á norðurhluta Atlantshafs 25. september til 25. október, yrði meðal annars æft flug herflugvéla og þyrlna frá borði flugmóðurskipsins.

Á hefðbundnu gæsluflugi hinn 29. september varð landhelgisgæslan fyrst vör við fimm rússnesk herskip, beitiskip, tundurspilli, birgðaskip og tvö björgunarskip fyrir akkeri á Digranesgrunni út af Vopnafirði. Var að nýju flogið yfir fimm herskip þarna 2. október og síðar þann sama dag sást rússneska orrustubeitiskipið Pétur mikli (Pyotr Velikiy) á siglingu um 24 sjómílur aust-norðaustur af akkerisstað skipanna fimm.

Hinn 9. október voru sjö rússnesk herskip fyrir akkeri á Þistilfjarðargrunni – 8 til 15 sjómílur utan við 12 sjómílna mörkin, sömu sex skip og áður og flugmóðurskipið Admiral Kuznetsov og var það tengt með slöngu við birgðaskipið Segey Osipov og sást úr lofti olíubrák á sjónum út frá skipunum.

Við svo búið var varðskip sent á svæðið og var þar frá 10. til 13. október og tóku varðskipsmenn meðal annars sýni af olíubrákinni, sem sást. Hinn 11. október flaug P-3 Orion kafbátaleitavél frá norska hernum yfir svæðið og jafnframt Nimrod-eftirlitsþota frá breska flughernum.

Landhelgisgæslan flaug til eftirlits að morgni laugardags 16. október en þá voru skipin horfin af svæðinu.

Utanríkisráðuneytið óskaði hinn 11. og 14. október skýringa á ferðum herskipanna hjá rússneska sendiráðinu. Hinn 15. október ítrekaði íslenska sendiráðið í Moskvu beiðni um skýringar. Þann sama dag barst tilkynning frá rússneska utanríkisráðuneytinu um að æfingunni væri lokið og að skipin væru á förum af svæðinu út af Þistilfirði. Rússnesk stjórnvöld fullyrða, að æfingin hafi verið áfallalaus.

Rætt hefur verið um kjarnorkuhættu af skipunum. Flugmóðurskipið, hið eina í rússneska flotanum, er ekki kjarnorkuknúið. Á síðastliðnu sumri var það í viðgerð og kom úr henni í september. Orrustubeitiskipið Pétur mikli er kjarnorkuknúið og það var einnig í viðgerð á liðnu sumri fram undir lok ágúst.“

Ég rifja þetta upp hér og nú í tilefni af fréttum síðustu daga um, að flugmóðurskipið Admiral Kuznetsov væri enn á ný á ferð um N-Atlantshafið ásamt fylgdarskipum, að þessu sinni suður með strönd Noregs á leið til Miðjarðarhafs.

Á Norðursjó efndi rússneski flotinn til æfinga hinn 11. desember á þeim slóðum, þar sem Norðmenn eiga olíupalla. Urðu stjórnendur pallanna að stöðva þyrluflug til og frá þeim vegna flugs rússneskra orrustuvéla. Øyvind Nordsletten, sendiherra Noregs í Moskvu, gekk á fund rússneskra yfirvalda og fann að þessu framferði rússnesku þotanna.

Norsk stjórnvöld telja, að samkvæmt hafréttarreglum geti Rússar æft utan 12 mílna landhelgi annarra ríkja. Hins vegar telur norska utanríkisráðuneytið, að æfingarnar megi ekki leggja stein í götu reglubundinnar starfsemi norskra fyrirtækja á svæðinu. Þess vegna vænti Norðmenn þess, að Rússar stundi æfingar sínar svo langt frá norskum olíupöllum í Norðursjó, að þeir trufli ekki ferðir til og frá pöllunum.

Á tímum kalda stríðsins gerðist það aldrei, að Norðmenn yrðu fyrir áreitni af þessu tagi. Þá giltu samskiptareglur á N-Atlantshafi og annars staðar, sem aðilar virtu, og miðuðu að því, að ekki væri um ögrandi framgöngu að ræða.

Framganga Rússa er skýrð á þann veg, að hún sé til heimabrúks – til að sýna rússneskum almenningi, að stjórnvöldum hafi tekist að endurreisa hernaðarmáttinn og þau geti sýnt hann. Ástæðulaust er að gefa mikið fyrir þessa skýringu. Ef rússneskir valdsmenn telja sér það helst til framdráttar að sýna hroka og vald á alþjóðavettvangi, vekur það ekki mikla trú friðsamra manna á rússneskum stjórnarháttum.

Þegar litið er á hinar fjölmörgu ferðir rússneskra sprengiflugvéla suður eftir N-Atlantshafi síðan í ágúst og nú þessar flotaæfingar við Noreg, er auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu, að mikil breyting hafi orðið á rússneskum hernaðarumsvifum í nágrenni Íslands á skömmum tíma. Forvitnilegt verður að kynnast mati starfshóps utanríkisráðherra á þessum breytingum og áhrifum þeirra á öryggi Íslands.